Gálgafrestur - Að selja Íslendinga í ánauð

Ég geng ekki að þessu.

Ríkisstjórnin hefur ekki mitt umboð til að skuldbinda íslensku þjóðina um aldur og ævi vegna kaupæðis sem rann á nokkra fjárglæframenn sem í einhvers konar útúrvitfirrtri einkavæðingu blésu pappírum til og frá og bjuggu til sýndarpeninga sem aldrei voru til.

Það er ENGINN kostur að velta undan sér vandamálinu. Það er ENGIN kjör að fá allra náðarsamlegast að borga óútfylltan víxil eftir sjö ár.  Ég er ekki í ábyrgð fyrir einhvern netbanka í Bretlandi, sama þótt Scotland Yard hafi geymt alla peningana sína þar, sama þótt hinn ástkæri forsætisráðherra þarlendra Gordon Brown hafi tekist að beina kasti kastljósi breskra fjölmiðla frá eigin vanhæfi um tíma með því að höggva til Íslands og kúga vanhæf íslensk stjórnvöld. Gordon Brown var vanhæfur sjálfur og er bullandi vanhæfur að stýra eigin landi og ekki líklegt að valdatími hans verði langur úr þessu.

Það er þvílík móðgun við Íslendinga þessi fréttaflutningur sem er af Icesave málinu. Hvað halda stjórnvöld að við séum? Halda þau að við höfum ekkert kynnt okkur hvað er að gerast í fjármálum í heiminum?  Við viljum stjórnvöld sem standa með fólkinu í landinu en ekki stjórnvöld sem selja okkur í ánauð.

"Heildarskuldbindingar Íslands vegna Icesave verða upp á 650 milljarða króna samkvæmt samkomulaginu og vextirnir 5,5 prósent á ári, samkvæmt heimildum mbl.is. Leggjast þeir við höfuðstólinn þessi sjö ár en verða ekki greiddir strax.Á þessum sjö árum mun verða reynt að selja eignir Landsbankans upp í skuldina. Einnig munu heilbrigð útlánasöfn Landsbankans safna tekjum á þeim tíma, líkt og greint var frá í Morgunblaðinu síðastliðinn sunnudag. Að þeim loknum mun síðan koma í ljós hversu stór hluti af höfuðstólnum muni lenda á íslenskum skattgreiðendum


mbl.is Engin Icesave-greiðsla í 7 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blóðbaðið á Torgi hins himneska friðar 4. júní 1989

torg-hins-himneska-fridar-tibet-talknafjordur.jpg Í dag eru 20 ár liðin frá voðaverkunum á Torgi hins himneska friðar, hér er wikipedia grein um atburðina Tiananmen Square Protests of 1989 Þetta torg er Austurvöllur þeirra í Kína en í því ríki býr meira en milljarður og þau þurfa náttúrulega meira svigrúm enda er Torg hins himneska friðar stærsta borgartorg í heimi, það er yfir 40 hektarar og það er nálægt miðbæ Peking í Kína

Skömm Kína er mikil út af þessum voðaverkum.

Hér er grein úr Morgunblaðinu frá júní 1989:

 FJÖLDAMORÐIN Í PEKING: Torg hins himneska friðar blóði drifinn vígvöllur

Það er ekki gott um vik fyrir fólk í Kína að minnast þessara atburða. Það er lífshættulegt fyrir það. Stjórnvöld þar láta eins og voðaverkin  hafi aldrei gerst og vilja endurskrifa söguna og raunar banna allan fréttaflutning. Svo langt hafa stjórnvöld gengið að þau hafa núna út af því að 20 ár eru liðin og þau búast við mótmælum klippt á margar upplýsingaleiðslur frá Kína til umheimsins. Kína er lögregluríki og stjórnarhættir þar eru ekki í lagi og tjáningarfrelsi og upplýsingafrelsi borgara þar er ekki virt.

Við sem erum ekki ennþá í lögsögu slíkra ríkja ættum að leggja saman krafta okkar og styðja mannréttindabaráttu í Kína, ekki tipla á tánum í kringum ríki sem er að verða eitt voldugasta ríki í heimi, ríki sem er að vígvæðast og mun í fyllingu tímans sýna vígtennurnar. Viðskiptahagsmunir skipta vissulega máli en mannréttindabarátta er ennþá mikilvægari hvort sem það er á torgum í Kína, í fjalllendum Tíbets eða í sjávarplássum  á Íslandi.

hér fyrir neðan  lími ég inn Morgunblaðsgreinina frá 1989, gleymum ekki voðaverkum stjórnvalda og berjumst saman fyrir mannréttindum og lýðræði!

FJÖLDAMORÐIN Í PEKING: Torg hins himneska friðar blóði drifinn vígvöllur Óstaðfestar fréttir herma að allt að 7.000 manns hafi verið myrtir Peking. The Daily Telegraph, Reuter.

SKRIÐDREKAR óku um götur í miðborg Peking snemma í gærdag að kínverskum tíma. Skothvellir kváðu við og eldar loguðu í strætisvögnum og farartálmum sem námsmenn og stuðningsmenn þeirra höfðu reist til að hindra árás hermanna sem talin var yfirvofandi. Slagorð höfðu verið máluð á strætisvagnanna áður en eldur var lagður að þeim og á einum þeirra sagði "Hefnum blóðbaðsins 4. júní". Tæpum sólarhring áður höfðu kínverskir hermenn gráir fyrir járnum og studdirskriðdrekum látið til skarar skríða gegn umbótasinnum, sem haldið hafa til á Torgi hins himneska friðar í miðborg Peking undanfarnar vikur og krafist lýðræðis og upprætingu spillingar í landinu. Án sýnilegstilefnis hófu hermenn vopnaðir hríðskotabyssum skothríð á fólkið á torginu.

Blóðbaðið var óskaplegt en fréttir herma að 3.000 til 7.000 manns hafi verið á torginu er fjöldamorðin voru framin. Stjórnvöld hafa enn ekki skýrt frá því hversu margir féllu, en erlendir sendimenn telja að a.m.k. eitt þúsund manns hafi verið myrtir á Torgi hins himneska friðar og í nærliggjandi götum. Aðrar heimildir herma að talan sé mun hærri. Fréttaritari Reuters-fréttastofunnar í Peking kvaðst í gær hafa heyrt óstaðfestar fregnir þess efnis að 7.000 manns hefðu verið myrtir á laugardag. Dagblað hersins í Kína lýsti árásinni sem miklum sigri yfir "gagn byltingarmönnum".

Fjöldamorðin voru framin á aðfaranótt sunnudags að kínverskum tíma en fyrstu fréttir af atburðum þessum bárust til Vesturlanda um klukkan 16 að íslenskum tíma á laugardag. Að sögn sjónarvotta hófst árás hersins klukkan 4 á aðfaranótt sunnudags að kínverskum tíma.

Skyndilega varð miðborg Peking ljóslaus. Námsmennirnir á torginu ákváðu að fara hvergi og hófu að syngja "Internationalinn", baráttusöng kommúnismans. Skömmu síðar þustu hermenn vopnaðir hríðskotabyssum út úr Alþýðuhöllinni miklu við Torg hins himneska friðar. Umleið birtust brynvarðir liðsflutninga bílar á torginu. Segja sjónarvottar að fjöldi manns hafi látist og særst er vagnarnir óku yfir tjöld námsmanna sem þeir höfðu komið þar upp.

Í fréttaskeytum Reuters-frétta stofunnar segir að talið sé að 6.000 til 7.000 manns hafi verið á torginu er herliðið hóf skothríð. Sjónarvottar segja að hermennirnir hafi skotið á fólkið, sem var óvopnað, og lítt hirtum hvar byssukúlurnar lentu. Fólkið lagði á flótta í átt að götum í nágrenninu. Hermennirnir tóku einnig á rás og hleyptu af vopnum sínum á hlaupunum. Fólkið hrópaði: "glæpa menn, glæpamenn". Skipulögð fjöldamorð hafa ekki verið framin í Peking með þessum hætti í þau 40 ár sem kommúnistar hafa ráðið ríkjum í Kína.

Fótum fjör að launa

Um klukkan 5.30 að kínverskum tíma birtust sex skriðdrekar og óku þeir yfir farartálmana í átt að torginu. Að sögn Grahams Hutchings, fréttaritara breska dagblaðsins The Daily Telegraph í Peking, lögðu þúsundir manna á flótta er bryndrekarn ir birtust. Sjálfur átti hann fótum fjör að launa. Fólkið hljóp inn í hliðargötur en skriðdrekarnir fylgdu á eftir. Ærandi vélbyssuskothríð kvað við og eldglæringarnar úr byssuhlaupunum sáust greinilega í myrkrinu.

Skriðdrekarnir óku í röð að torginu og komu inn á það úr austri en áður höfðu hermenn haldið inn á torgið úr norðri og vestri. Fréttaritari The Daily Telegraph telur að þá hafi um 3.000 umbótasinnar verið á torginu. Bryndrekarnir óku yfir allt það sem fyrir þeim varð og herma sjónarvottar að fjöldi manns hafi orðið undir þeim er þeir óku niður Changanbreiðgötuna framhjá Peking-hóteli og inn á torgið. Um 15 brynvarðir liðsflutningavagnar fylgdu skriðdrekunum. Einn skriðdrekinn ók á fullri ferð að eftirlíkingu að bandarísku Frelsisstyttunni, sem námsmenn höfðu komið upp á torginu. Styttan, sem gerð var af listnemum í Peking-háskóla og kölluð "Lýðræðisstyttan" féll til jarðar og tættist í sundur undir járn beltum skriðdrekans.

Hollir forsetanum

Talið er að herliðið sem framdi fjöldamorðin heyri undir 27. herinn en hann er að jafnaði staðsettur í Hubei-héraði í miðhluta landsins. Herinn er sagður vel þjálfaður og agaður en hann er talinn hollur Yang Shangkun, forseta Kína. Vitað er að Yang sem er 82 ára að aldri hvatti til þess að mótmæli námsmanna yrðu barin niður af fullri hörku og virðist svo sem hann hafi nú náð að treysta stöðu sína innan valdakerfisins. Hugsanlegt er talið að hann komi til með að berjast um völdin við Deng Xiaoping, hinn eiginlega leiðtoga kínverska kommúnistaflokksins.

Reuter


mbl.is Clinton gagnrýnir Kínverja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver þarf talandi skóg sem getur látið gamla ljósastaura syngja?

Skógræktin býður gemsanotendum að hringja í skóginn, að hringja í símanúmer og fá þá að vita eitthvað um sögu skógarins. Á ferðalögum mínum fyrir langalöngu, fyrir tíma gemsanna, ferðalögum um verndarsvæði indjána í  USA þá rakst ég  sums staðar á stöðvar  þar sem maður gat ýtt á takka og þá fékk maður úr hátalara hljóðupptöku af sögu staðarins, sögu sem er þögguð niður og heyrist ekki í háværri síbylju fjölmiðlanna sem  magna upp raddir þeirra sem hafa völd og þeirra sem unnu stríðið.

Sögur sem ég heyrði sagðar á sögustaðnum sjálfum voru áhrifameiri, oft voru þetta sögur um hvernig fólk var tekið og haldið föngnu og allt tekið af því, líka börnin, þau voru tekin af foreldrum og sett í heimavistarskóla.  Svo man ég líka eftir að á einu verndarsvæðinu þá var sögð saga af   hvernig svæðinu var í stríðinu  breytt í  óopinbera fanganýlendu. Þangað voru fluttar japanskar fjölskyldur en þær voru handteknar fyrir að vera japanskar sem var eitt og sér talið glæpsamlegt eftir árásina á Pearl Harbour. Svo voru indjánarnir líka fangar því svæðið var einangrað í heild.  Þannig voru tveir undirokaðir hópar með mjög ólíka menningu lokaðir inni á sama svæði. Það var áhrifaríkt að heyra sögu úr hversdagslífi þessara tveggja hópa sem reyndu að þrauka af við erfiðar aðstæður.

En sem sagt, sagan virkar betur ef hún er sögð á staðnum. Líka ef það tekst að skapa  stemmingu, ef sá sem hlýðir á söguna nær að lifa sig inn í hana, finna til með söguhetjunum og skynja hættur og bogna við áföll og rísa við sigra.

 Það er líka sparnaður að geta látið fólk hlusta á upptökur á mismunandi tungumálum en þurfa ekki að hafa starfsfólk til að sinna þessu. Svona símaleiðsögn er ef til vill dæmi um leiðsögumenn framtíðarinnar eða öllu heldur leiðsögusjálfvirkni framtíðarinnar, kannski líður ekki á löngu þangað til við höfum síma sem nemur GPS staðsetningu og tengir okkur sjálfkrafa við gagnagrunna þannig að við getum flett upp ýmsu um umhverfið sem við erum í og hlustað á leiðsögn í hljóðum, vídeó eða myndum eða kortum. Reyndar eru margir farnir að keyra eftir svona kortum sem nema GPS punktana þegar fólk er á ferð um Evrópu. 

En það er þó kannski bara fyrsti áfanginn í tækninni að við séum óvirkir hlustendur og neytendur, að við séum bara viðtakendur að upplýsingum. Málið er að tæknin stefnir öll í þá átt að við getum verið virkir notendur, við getum sent frá okkur boð og unnið úr margvíslegum boðum þannig að við endurblöndum þau í eigin vafninga. 

Eitt af þeim verkfærum sem sýnir okkur fram á við er Twitter örbloggið. Ekkert merkilegt sem fólk gerir með twitter, bara eins konar sms þar sem fólk getur skrifað inn 140 stafi og sent á netsvæði, búið til tvít.  En með því að vera svona alltaf í kallfæri þá geta notendur skráð ýmislegt í umhverfinu, þeir geta tilkynnt um eitthvað sem þarfnast athugunar í umhverfinu en þeir gætu líka sent athugunarniðurstöður sjálfvirkt beint frá vettvangi. Eftir jarðskjálfta þá gætu leitarmenn skoðað eitthvað landsvæði og sent beint inn twitter upplýs. um hvernig staðan er á ákveðnu leitarsvæði t.d. að búið sé að leita og taka stöðuna í  þessu húsi og þessu húsi. Þannig er twitter tæki sem virkar vel ef eitthvað er  viðfangsefni þar sem boð þurfa að berast frá mörgum sem eru staddir á mismunandi stöðum og í rauntíma eða sem næst því.

Ég hugsa að twitter sé hentugt tæki björgunarfólks í náttúruvá sem og sem verkfæri í  byltingum og aktívisma. En twitter getur líka verið verkfæri fyrir fólk sem skráir hjá sér hvað er að í umhverfi þess og borgaryfirvöld í San Francisco hafa tekið upp twitter, þar geta borgarar skráð það sem er að t.d. ef þeir sjá yfirgefnar bifreiðar eða veggjakrot. Nú eða ljósastaur sem logar ekki lengur á. 

Þannig geta borgarar með símatengd tól þ.e. með gemsa og aðgang að Netinu (þ.e. twitter) tilkynnt til borgaryfirvalda SAn Francisco um bilun og orðið til að borgarstarfsmenn skipti um perur. Svo getur mann dreymt um að tæknin verði þannig að gemsinn virki bara eins og fjarstýring á umhverfið og við getum sjálf skipt um perur eða ljósgjafa í ljósastaurum. Ennþá fjarlægara er náttúrulega að gæði ljósastaura lífi og breyta þeim í skógarlundi. Satt að segja þá sér maður ekki alveg fyrir sér að þeir fari að því að grænka aftur á þessum síðustu og verstu tímum þegar allir ljósastaurar eru úr áli. 

En þó það sé gaman að talandi skógi og ljósastaurarnir okkar hér í Reykjavík verði seint grænir aftur þá getum við glaðst núna á vordögum þegar fjólublá ský svífa yfir Esjunni yfir ljóðinu Reykjavíkurskáldsins Tómasar Guðmundssonar sem orti svo fallega um Austurstræti:

Nú verður aftur hlýtt og bjart um bæinn.
Af bernskuglöðum hlátri strætið ómar,
því vorið kemur sunnan yfir sæinn.
Sjá, sólskinið á gangstéttunum ljómar.

Og daprar sálir söngvar vorsins yngja.
Og svo er mikill ljóssins undrakraftur,
jafnvel gamlir símastaurar syngja
í sólskininu og verða grænir aftur.

Og þúsund hjörtu grípur gömul kæti.
Og gömul hjörtu þrá á ný og sakna.
Ó, bernsku vorrar athvarf, Austurstræti,
hve endurminningarnar hjá þér vakna.

 Það er nú reyndar þannig að ég finn mig núna í sumar hvorki í þeim skógi sem Skógrækt ríkisins umvefur og glæðir töfrum tækninnnar né í minningaskógi  skáldsins Tómasar þar sem ljósastaurarnir verða grænir aftur. Ég er frekar stödd í hryllingsmynd þar staurarnir og trén eru eins og Óslójólatréð eða  Staurinn L'estaca sem     Lluís Llach  orti um árið 1968 ljóðið  Látum hann falla, falla

 


mbl.is Hringt í skóginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dalai Lama og Tíbet 2009, Falun gong 2002

Dalai Lama andlegur leiðtogi Tíbetbúa kom til Íslands og hélt hér samkomur. Þetta var ekki opinber heimsókn þjóðhöfðingja en þetta var heimsókn þekks friðarsinna og leiðtoga stórs hóps búddatrúarfólks og það var sjálfsagt hjá stjórnvöldum að sýna heimsókn hans áhuga og virðingu. Það hefði auðvitað verið viðeigandi að hann hefði hitt forseta Íslands. Satt að segja hefur forsetinn tekið á móti mörgum minni spámönnum en Dalai Lama.

Ég fór nú ekki á samkomurnar en ég hef áhuga á því sem Dalai Lama segir og búddismi er heillandi trúarbrögð. Það er stór hópur Íslendinga sem er búddatrúar, bæði fólk sem er fætt erlendis og alið upp í búddatrú en svo hafa líka margir heillast af lífsýn og kenningum búddismans.  

Þessi heimsókn Dalai Lama til Íslands rifjar upp fyrir mér aðra heimsókn fyrir sjö árum. Þá heiðruðu kínversk stjórnvöld okkur þannig að varaforseti þeirra kom í opinbera heimsókn til Íslands.  Þá ætluðu Falun Gong liðar að nota tækifærið að vekja athygli á málstað sínum og broti á mannréttindum í Kína og gera það á friðsaman hátt með einhvers konar leikfimi.  Þá brá svo við að fólk sem aðhylltist þessa trú var handsamað við komuna til landsins og var haft í haldi í Njarðvíkurskóla. 

Aldrei hef ég verið minna stolt af aðgerðum íslenskra stjórnvalda  en þá. Ég fór að  Njarðvíkurskóla með hópi Íslendinga sem krafðist þess að fólkið væri látið laust og tók myndir, hér eru myndirnar frá þessum tíma:

Falun Gong í Njarðvíkurskóla 11. júní 2002

Það er sjálfsagt að hafa í huga að viðskiptahagsmunir Íslendinga eru að móðga ekki og styggja ekki kínversk stjórnvöld. Það er sjálfsagt að sýna þeim fullan sóma og virðingu og reyna að skilja sjónarmið þeirra. Við eigum friðsamleg og góð samskipti við Kína og vonandi munu þau samskipti vaxa og dafna. En mannréttindi eru mannréttindi og þau eru ofar viðskiptahagsmunum.  Það er óþolandi að íslensk stjórnvöld  gangi á svig við almenn mannréttindi og tjáningarfrelsi til að þóknast valdhöfum erlends ríkis. 

Fólkið sem var í haldi í Njarðvíkurskóla var látið laust en í kjölfarið urðu mikil mótmæli. Ég var þá stödd á Vestfjörðum, inn í Syðridal hjá systur minni.  Það var gott veður fólkið fór í fjallgöngu á milli Bolungarvíkur og Súgandafjarðar. Á meðan þá var ég út í garðinum í Syðridal og bjó til mótmælaskilti með ýmis konar brýningarorðum um mannréttindi. Svo fór ég með systur minni til móts við fjallgöngufólkið í Súgandafirði og þar hófust mótmæli mín. Ég hélt þar skiltum á lofti og svo mótmælti ég líka inn í göngunum  og á Flateyri og í Bolungarvík.  Mér fannst þetta flott, það er alveg hægt að mótmæla mannréttindabrotum þó maður sé inn í miðju fjalli og upp á fjalli og út við sjó og þó að enginn annar sjái mótmælaspjöldin.  Einhvers staðar á ég nú myndir af þessum gjörningi mínu en finn þær ekki núna. Ég man samt að á einu spjaldinu stóð "Frá Tíbet til Tálknafjarðar - Mannréttindi alls staðar!".

 

 


mbl.is Óljósar fregnir af sendiherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveir skjálftar og þrjú flugvélahröp á Fagradalsfjalli

mbl7mai43-mynd-af-flugvelaflaki.jpgFagradalsfjall er mikill orkubolti. Þar skelfur jörð og flugvélar dragast að þessu fjalli eins og það sé segull.  Í fyrradag þann 30.5. kl. 17:05 varð jarðskjálfti að stærð 3,9 með upptök í Fagradalsfjalli og  kl. 13:35 sama dag varð annar jarðskjálfti að stærð 4,3 sem líka hafði  upptök í Fagradalsfjalli.

Það hafa þrjár flugvélar farist á þessu fjalli og að mér virðist þannig að þær hafi  rekist á fjallið. Það fórst B-24 sprengjuflugvél 4 maí 1943 og svo Sunderland flugbátur 24. apríl 1941 og annar flugbátur 2. nóvember 1941.

Hér eru upplýsingar um þessi flugvélahröp

Ferlir - Flugvélaflök við Fagradalsfjall

Ferlir - Flugvélaflök á Reykjaneskaganum

Myndir frá Fagradalsfjalli 21. október 2007

Fagradalsfjall 21. október. Fundum tvö flugvélaflök af þremur

 Sögulegar byggingar á vallarsvæðinu.

Fagradalsfjall 3. maí 1943

Hér er mynd úr myndasafni Grétars Williams af Fagradalsfjalli sem sýnir hvernig álið úr flugvélunum hefur bráðnað saman við steinana á fjallinu og neðri myndin er brak úr Sunderland flugbátinum.

1734334448_a3c545fd0e

1733470325_d2a9269dc2

Flugslysið 4. maí 1943 er stærsta flugslys á Íslandi. Þar létust 15 manns en 1 komst lífs af. Meðal farþega í B-24 sprengiflugvélinni var hershöfðinginn  Frank Maxwell Andrews   og biskupinn Adna Wright Leonard  en þeir létust báðir. George Eisel skutmaður komst einn lífs af en var fastur í flakinu í marga klukkutíma. Það kviknaði í flugvélinni við hrapið en það vildi honum til lífs að þá gerði úrhellisrigningu og eldurinn slökknaði. 

 

Ég fletti upp frásögn í Morgunblaðinu frá þessum tíma þ.e. frá 7 maí um flugslysið. Þetta var náttúrulega á stríðstímum og mikil leynd yfir svona málum.

mbl5mai43-frett-af-flugslysi.jpg

 mbl7mai43-frett-af-flugslysi-framhald.gif


mbl.is Skjálftahrinan að fjara út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fagradalsfjall 3. maí 1943

fagradalsfjall_855584.jpgNúna ganga kröftugar bylgjur um íslensku flekamótin. Ég sá á ruv.is að upptök skjálftanna eru teiknuð á Fagradalsfjalli.

Það  varð til að ég fletti því upp nafni fjallsins og þá fann ég út að í maí 1943 fórst þar á fjallinu flugvél. Í flugvélinni var Frank Maxwell Andrews og 13 aðrir létust en einn komst lífs af. Frank Maxwell var afar háttsettur í bandarískra hernum og heimildir segja að hann hafi átt að stýra innrásinni í Normandi Evrópu. Eftirmaður hans var Eisenhower sem síðar varð forseti Bandaríkjanna. Flugvélin mun hafa ætlað að lenda á flugvellinum í Kaldaðarnesi.

Myndir frá Fagradalsfjalli

Frank Maxwell var ötull talsmaður þess að Bandaríkjamenn kæmu sér upp góðum flugher og um hans daga voru Bandaríkjamenn  gráir fyrir járnum og sterkt herveldi. 

 


mbl.is Enn skelfur jörðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðbúnaður á meðgöngu

Máltækið segir "Lengi býr að fyrstu gerð" og við vitum að aðbúnaður barna fyrstu æviárin skiptir miklu máli um hverni þeim reiðir af seinna í lífinu. Það er aðalsmerki hvers samfélags að geta tryggt gott atlæti barna og fjölskyldna þeirra.  Það á líka við um aðbúnað barna í móðurkviði.  Það hefur miklar og alvarlegar afleiðingar ef mæður eru í neyslu á meðan á meðgöngu stendur. 

Neysla á fyrstu stigum meðgöngu þegar taugakerfi fósturs er að þroskast er afar hættuleg.  Það getur valdið sérstöku heilkenni Fetal alcohol syndrome

Það sem fáir virðast gera sér grein fyrir er að þetta heilkenni FAS er ein af aðalorsökum greindarskerðingar á Vesturlöndum. Talið er að  tilvik séu  0.2 til  2.0  á hverjar 1,000 lifandi fæðingar og það þýðir að verið getur að hér á landi fæðist á hverju ári nokkur börn með greindarskerðingu og önnur vandamál tengd áfengisneyslu móður á meðgöngu.

Sjá hér grein um rétt fósturs vegna reykinga móður

Vísindavefurinn: Hver er eiginlega lagalegur réttur fósturs ...

 Meira um Fetal alcohol syndrome

 Fetal alcohol syndrome: The invisible disorder

 Fetal Alcohol Spectrum Disorders  hér er lýsing á útlitseinkennum sem fylgja FAS heilkenni. 

Born on the bottle - Drunk for life


mbl.is Þunguð kona ofurölvi í miðbænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskur hryllingstúrismi - 3400 kr kostar í sund

Það kostar 3400 krónur að fara einu sinni í sund í Bláa lóninu, sjá verðskrána hérna. Fyrir fjölskyldu með tvö börn kostar sundferðin um 10 þúsund krónur. Það er svo sem ekkert við því að segja, þetta var eyðihraun áður en orkuverið við Svartsengi hóf starfsemi þarna og lónið er tilbúið vatn, affall frá orkuveri. Það er hið besta mál að menn geti nýtt iðjuver á þennan hátt. En er þetta módelið sem við viljum sjá víðar á Íslandi?

Viljum við sjá fallegar náttúruperlur eins og Kerið í Grímsnesi innikróaðar í einkaeigu eigenda sem geta takmarkað aðgang að þeim og gera það til að geta selt aðgang. Eða að ríkið eða sveitarfélög afhendi nytjarétt yfir slíkum stöðum til einkaaðila? Kerið í Grímsnesi mun vera í einkaeign. Það er sumt æði undarlegt varðandi ferðamennsku á Íslandi og hvernig meira segja fé almennings er notað til að borga endurbætur og samgöngukerfi svo eigendur geti nytjað náttúruperlur og takmarkað aðgang, sjá hérna  Ríkisstyrkt Ker í einkaeigu

Það er óréttlát kosningalöggjöf á Íslandi þar sem  vægi fólks á þéttbýlissvæðum kringum höfuðborgina er miklu minna en í fámennum dreifbýlisbyggðum, sérstaklega er vægi fólks í suðvesturkjördæmi lítið. En það er fleira sem er óréttlátt misskipt en vægi atkvæði  því  nokkrir fámennir dreifbýlishreppar ráða yfir bróðurpartinum af íslenska hálendinu. Vægi almennings á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að því að hafa vald yfir Íslandi, yfir hálendi Íslands, yfir óbyggðum Íslands og yfir náttúruperlum Íslands er sárgrætilega lítið. Við þetta verður ekki unað. Það er ekki hægt að tala um réttlátt samfélag þar sem langstærsti hluti fólksins er króaður inn á litlu svæði landsins og hefur ekkert að segja um það sem þó er stærsta eign Íslendinga þ.e. landið og miðin. 

 

800px-laugarvatn1.jpg

Ég er núna stödd á Laugavatni. Ég horfi út á vatnið og beint fyrir framan mig er rústasvæði. Ég er vön rústasvæðum í Reykjavík. Ég er líka vön laugasvæðum, eiginlega hef ég búið allt mitt líf á laugasvæðum.

gomlu-laugarnar.jpgÉg er alin upp í Laugarnesinu, minningar frá sumrum bernsku minnar eru minningar af gömlu laugunum og hvernig við vorum í fyrstu oft gerðar afturreka af starfsfólk laugarinnar því við vorum svo litlar að okkur  var ekki hleypt einum ofan í laugina. Í þá daga fóru mömmur okkar fóru aldrei  með okkur börnunum í  laugar þá þó þær uppgötvuðu heilsumátt sundlauganna mörgum áratugum seinna þegar þær voru orðnar rosknar og voru þá á hverjum degi í sundleikfimi með eldri borgurum. Ég brosi að minningu frá gömlu laugunum, það var nefnilega þannig að Ágeir forseti Íslands var mikill sundmaður og fór í gömlu laugarnar á hverjum degi, alltaf á sama tíma minnir mig. Við litlu stelpurnar tókum eftir því að ef við pössuðum að vera rétt á undan fosetanum í röðinni þá var okkur hleypt athugasemdalaust í laugar, starfsfólkið var miklu liprara í þjónustu þegar forsetinn var á vettvangi.  

Ég bý núna í Sigtúni í Reyjavík á stað þar sem heita vatnið í Reykjavík var einu sinni nytjað til að rækja jurtir í gróðurhúsum sem stóðu hinu megin við götuna. Gróðurhúsin voru seinast notuð sem söluskemma til að selja allt dótið sem ameríski herinn skildi eftir þegar hann fór. Svo voru þau rifin og síðan hefur útsýnið út um stofugluggann minn verið afgirt rústasvæði í eigu Eyktar, rústasvæði þar sem einu sinni átti að byggja ennþá eitt stórhýsið í því sem þá var eins konar fjármálahverfi Reykjavíkur.

Ég horfi núna út um gluggann hér á Laugavatni, horfi á nýslegna grasflötina, horfi á gárurnar í vatninu og gufuna sem stígur upp við vatnið, alveg eins og eitthvað sé að brenna. Grasið var slegið hér í fyrradag, svo kom fólk og bankaði upp hjá mér og bað um vatn til að slökkva eldinn. Ég leit út um gluggann og sá þá að sláttutraktorinn stóð í ljósum logum.  Þau stökktu mörgum fötum af vatni á traktorinn og það gaus upp reykjarmökkur, þykkur og svartur af olíu, ekki svona  hvítur og þokukenndur eins og gufan sem kemur upp af laugum.  En laugagufan er samt merki um eld og orku, eld sem er falinn einhvers staðar langt inn í iðrum jarðar.

Þarna sem gufan stígur upp við vatnið var einu sinni gamla gufubaðið á Laugarvatni. Það var nú bara hverasvæði þar sem hús hafði verið reist yfir. En það var rifið. 

 

Þegar ég fletti á Netinu þá virðist mér að það séu einhver áform sem þó hafa sem betur fer ekki hafist um að Bláa lónið reisi hér gufubað og heilsulind. Mér virðist að menntamálaráðherra hafi framselt svæði við vatnið til 30 ára til einhverra samtaka sem ég átta mig ekki á hver á hvað í. 

800px-blue_lagoon-3-.jpg

Það er vissulega sorglegt að gamla gufubaðið hafi verið rifið hér á Laugarvatni og ekkert hafi komið í staðinn. Það er vissulega fengur í að hafa slíkt náttúrulegt gufubað hérna. En mesta hryllingsmynd sem ég get þó samt séð fyrir mér varðandi ferðamennsku á stöðum eins og Laugarvatni og Mývatni væri sams konar ferðamennska eins og í Bláa lóninu. Þar er einhvers konar heilsulind sem ég hugsa að sé ágæt. En það kostar 3400 krónur núna að fara í sund í Bláa lóninu. Það er því ekki fyrir Íslendinga og ekki fyrir auralitla náttúrutúrista að fara í sund í Bláa lóninu.  

Er það svona ferðamennska sem við viljum á Íslandi? Viljum við að Ísland verði eingöngu fyrir sterkefnað fólk og þannig aðgangstakmarkanir settar að Íslendingar séu útilokaðir frá því að njóta landsins. Viljum við að hér sé stílað inn á elítutúrisma ríks fólks? Viljum við að sífellt meira af landinu sé lokað  almenningi og aðgangur seldur í gegnum einhvers konar lúxusfyrirtæki?

Það er kannski ágætt að hugmyndir um gufubað og heilsulind hér á Laugarvatni hafi ekki gengið eftir ef það var meiningin að búa til svona Bláa lóns lúxus hérna sem er neitt að þjóna Íslendingum. Hvers vegna í ósköpunum ætti að gefa afnot af landi á fallegum stöðum til lúxuseinkafyrirtækja. Það verður í svoleiðis tilvikum að reikna fórnarkostnað, reyndar fórnarkostnað sem ekki verður metinn í peningum  heldur fórn sem felst í því að landi og náttúruaðgangi er spillt með því að girða það af fyrir einhvers konar lúxustúrisma þannig að almenningur á Íslandi hefur ekki lengur aðgang að því (m.a. vegna verðlags). 

En það er áhugavert að spá í hvað er að gerast hér á Laugarvatni. Hvaða félag er þessi Gufa ehf og hvers vegna er slíkum samtökum afhent svæði við vatn, svæði sem er í eigu ríkisins að ég best veit? Það stendur "Hollvinasamtök Smíðahúss og Gufubaðs á Laugarvatni höfðu forgöngu um að stofna Gufu ehf., en félagið kemur til með að reisa og eiga ný mannvirki sem byggð verða við gufubaðið á bökkum Laugarvatns."

 Vísir - Bláa lónið: Gufubað og heilsulind á Laugarvatni byggt á ...

Tólf hundruð fermetra heilsulind rís við Laugarvatn - mbl.is

 Bláa Lónið hf. og Gufa ehf. - samstarf um uppbyggingu Gufubaðsins við Laugarvatn

Bláa Lónið hf. og Gufa ehf. hafa gert með sér samstarfssamning sem lýtur að markvissri uppbyggingu og eflingu heilsulindar- og gufubaðsstarfsemi við Laugarvatn. Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins og Kristján Einarsson, stjórnarformaður Gufu undirrituðu samninginn í Bláa Lóninu fyrr í þessum mánuði.

Hollvinasamtök Smíðahúss og Gufubaðs á Laugarvatni höfðu forgöngu um að stofna Gufu ehf., en félagið kemur til með að reisa og eiga ný mannvirki sem byggð verða við gufubaðið á bökkum Laugarvatns.

Bláa Lónið hf. mun sjá um rekstur aðstöðunnar og verður félagið jafnframt faglegur ráðgjafi við uppbygginguna að Laugarvatni en Bláa Lónið gegnir forystuhlutverki í heilsutengdri ferðarþjónustu á Íslandi.

Gufubaðið á Laugarvatni er náttúrulegt þar sem það er byggt yfir hver með hreinni vatnsgufu. Að auki býður staðsetning gufubaðsins alveg á vatnsbakkanum upp á möguleika til að skapa fjölbreytta og sérstaka aðstöðu fyrir gesti.

Meginmarkmið Gufu og Bláa Lónsins með uppbyggingunni er að hafa í heiðri og efla þá baðhefð sem gufubaðið við Laugarvatn hefur skapað og gera þar einstakan baðstað fyrir íslenska og erlenda gesti. Starfsemin mun skapa ný störf í Bláskógabyggð.

Að mati samstarfsaðilanna mun uppbyggingin styrkja heilsuímynd Laugarvatns og nágrennis og efla ennfremur ímynd Íslands sem heilsulands.

Áætlað er að nýja Gufubaðið við Laugarvatn hefji starfsemi á vordögum 2008.

 


Boxhanski ríkisstjórnarinnar

boxhanski_854590.jpgÞað er svindlkerfi í gangi á Íslandi í dag. Það er svindlkerfi sem safnar saman högginu af fjármálahruni Íslands í boxhanska  sem ríkisstjórnin setur upp og notar til að berja linnulaust á sama fólkinu, á atvinnulausu fólki og á fólki sem skuldar. Ríkisstjórnin gengur erinda fjármagnseigenda, eggjuð áfram af AGS og "erlendum kröfuhöfum" og erlendum ríkisstjórnum sem trampa á íslenskri þjóð og setja okkur undir hryðjuverkalög.

 

konguloarvefur.jpgHvers vegna hefur íslensk ríkisstjórn meiri áhuga á því að gæta hagsmuna erlendra fjármagnseigenda, fjármagnseigenda sem lánuðu hér áhættufjármagn í óhemjuvitleysu til fjárglæframanna og dældu hingað fjármagni í einhverju "carry trade" hringekju fáránleikans heldur en að gæta hagsmuna íslensks almennings, hagsmuna sem ekki eru fólgnir í að  festa fólk á Íslandi í kóngulóarvef ævarandi skuldafjötra, kóngulóarvef sem kallaður eru "skjaldborg utan um heimilin".

Það varð kerfishrun á Íslandi en það varð líka kerfishrun í heiminum og það gengur samdráttarbylgja yfir heiminn og ríkisstjórnin bregst við þessum aðstæðum með því  að látast ekki taka eftir þeim og í fyrsta lagi að viðurkenna ekki að kerfið sem hrundi virkar ekki og það er engin ástæða til að láta eins og það virki og það sé "business as usual", það er ekki hægt að sópa kerfishruni undir teppið og láta eins og ekkert sé, það kallar bara á ennþá stærra og alvarlegra samfélagshrun - og í öðru lagi með því að  virka ekki eins og höggdeyfir fyrir almenning með því að  deyfa og jafna út höggin heldur að breyta sér í magnara sem magnar upp höggið þannig að það safnist saman og skelli bara á skuldurum, bara á atvinnulausum, bara á ungu fólki, bara á þeim sem unnu hjá eða ráku einkafyrirtæki sem nú eru komin í þrot.

Það er skynsamlegast og affarasælast við þær aðstæður sem eru núna að jafna aðstæður sem mest, ekki búa til kerfi handahófskenndra tilfærslna á fjármunum og atvinnutækjum með brunaútsölum og hrossakaupum bak við luktar dyr. Það að jafna kjör og deila byrðum er líka að deila skuldum og áhættu.

Það er ævarandi skammarblettur á íslenskum stjórnvöldum ef það er látið viðgangast að í Hruninu á Íslandi fái eigendur fés sem var í   peningasjóðum eins og Glitnissjóðnum nánast allt sitt til baka, úr sjóði sem fólk átti að vita að var áhættusjóður sem fylgdi einhverri fjárfestingarstefnu og að margir háttsettir bankamann m.a. eiginmenn ráðherra  þurfti ekki að borga skuldir sem þeir höfðu stofnað til vegna gífurlega áhættusamra hlutafjárkaupa - að fjármagnseigendur og glæframenn í fjármálum séu vafðir inn í bómull á meðan þeir sem tóku venjuleg lán til að kaupa sér húsnæði eða í tengslum við atvinnulíf þurfi að bera gríðarlegar byrðar vegna þess að lánakjör voru miðuð við aðstæður sem alls ekkert gerðu ráð fyrir þessu kerfishruni. 

Það er líka liður í að jafna byrðarnar að deila niður vinnunni í samfélaginu, við búum í samfélagi þar sem samfélagsstaða er skilgreind í gegnum vinnu og samfélagsgerð okkar er þannig að ýmis konar aðstaða og fríðindi koma gegnum launavinnu. Það er ömurlegt samfélag sem hefur þá skipan að sumir vinni mikið en aðrir séu vinnulausir og á bótakerfi ríkisstjórnarinnar. 

Það er ennþá ömurlegra að helsta ráðið virðist núna að setja fleiri í nám sem þeir geta tekið námslán fyrir. Svoleiðis nám er oft ekki annað en dulbúið atvinnuleysi, fólk hefur enga úrkosti aðra en fara í nám eða halda áfram í námi og taka verðtryggð námslán til framfærslu sinnar. Ennþá nöturlegra er svo ef það eru helst ríkisstyrktir einkaskólar sem bjóða slíkt nám og fólk neyðist til að taka líka styrki til greiðslu skólagjalda.

Það er mjög gott í atvinnuleysi að bjóða fólki upp á nám. Það er skynsamlegt að takast á við vandann með því að auka menntunarstig þjóðarinnar á markvissan hátt. En það er ömurlegt ef það er eini valkosturinn, þá er það ekki valkostur, það er dulbúið atvinnuleysi þar sem sá atvinnulausi þarf að borga fyrir að vera atvinnulaus með að taka lán til framfærslu sinnar.

Það örlar ekki mikið á aðgerðum gegn atvinnuleysi, helstu aðgerðirnar virðast vera að byggja glanshús við hafnarbakkann í Reykjavík, tónlistar- og ráðstefnuhús sem er glanshús sem ekkert virðist vera miðað við íslenskar aðstæður, þetta er hús sem hugsað fyrir einhvers konar  elítutúrisma sem fólk sá í hillingum og bygging þessa húss skapaði ekkert mikla vinnu fyrir Íslendinga því  lenskan í dag eru starfsmannaleigur sem margar hverjar virðast bjóða erlendu farandverkafólki afarkjör og það er ekkert sem skilið er eftir í samfélaginu ef öll vinna er unnin af fólki sem bara kemur og fer. Það byggist ekki einu sinni upp verkþekking. 

Eftir Hrunið breyttist tónlistarhúsið í táknmynd kreppunnar, eins konar líkhús þeirrar hugmyndafræði sem hrundi yfir okkur. Það er því nöturlegt að einmitt áframhaldandi bygging þessa húss virðist vera stærsta "atvinnusköpunarverkefni" í Reykjavík núna. Það er líka nöturlegt að að byggingarsaga þessa líkhúss kreppunnar heldur áfram að sýna brestina í íslensku samfélagi, brestina þegar byrjað  er að Svindla á svindlkerfinu. Það er því miður þannig að kerfið mun bresta nema við höfum traust á því og það traust fáum við ekki nema við höldum að unnið sé fyrir heildina og byrðunum sé deilt jafnt og af réttsýni og skynsemi.

Það þarf að deila vinnunni og það þarf að deila skuldunum sem komu til út af Hruninu. Það þarf að deila vinnunni milli þeirra sem nú hafa vinnu og þeirra sem nú eru án vinnu og það þarf að deila skuldunum, það þarf að jafna högginu á skuldara og lánadrottna. Það er óþolandi að ríkisstjórnin gangi núna bara erinda  lánardrottna og tali eins og fulltrúi þeirra og það er líka óþolandi að ríkisstjórnin tali núna eins og hún sé bara að gæta hagsmuna og kjara þeirra sem nú hafa vinnu. 

Ég get ekki sagt að ég sé aðdáandi tónlistarhússins, ég hef skrifað nokkur blogg um þetta nýja  tákn Reykjavíkur , tákn sem er bæði tákn um kerfi sem hrundi og tákn um hvernig stjórnvöld bregðast við kerfishruninu, þau láta eins og það hafi aldrei gerst og það eigi að halda áfram að byggja elítuhús. Bara kalla þau "fjölnota menningarhús" og finna einhver fín orð, já svona svipað eins og kóngulóarvefurinn sem almenningur í Íslandi er núna veiddur í er kallaður "skjaldborg utan um heimilin"

En hér eru nokkur af mínum fyrri skrifum um stásshús bæjarins:

Betri stofur með útsýni út á Esjuna

yfir 13 milljarðar í glanshús

 Klakahöllin

Hallir nútímans eru óperuhús

 Háskólastúdentar réttlausir í kreppunni

 


mbl.is Tillaga um niðurfellingu lögð fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóri kampalampi og síðasti þorskurinn

Gaman að heyra að því að íslenskir vísindamenn skrifi greinar í Science. Ég mátti til að herma eftir þessum vísindaskrifum á minn hátt, ekki með skrifum í vísindatímarit heldur með því að skrifa grein um stóra kamplampa í uppsláttarrit alþýðunnar, íslensku wikipedia.  Svo sá ég mér til furðu að það vantaði líka grein um rækjur almennt svo ég byrjaði á grein um rækjur.

Haeckel_AsterideaÉg dunda við það svona þegar ég get að bæta greinum um lífríki sjávar inn á íslensku wikipedíu, það er langtímaverkefni hjá mér, ég ætla að nota þetta seinna til að búa til wikibók sem tengir í wikipedia greinarnar, það er hins vegar ekki hægt að gera það ef það eru engar greinar til að tengja í. Ég hef alltaf haft sérstakan áhuga á lífríki sjávar, ég gerði lokaverkefni í meistaranámi mínu í Bandaríkjunum sem var kennsluforrit um lífríki sjávar, það hét "Life in the Open Ocean" ef ég man rétt. Ég ætlaði fyrst að skrifa bara um íslenska nytjastofna og veiðar en ég varð svo heilluð af veröld hafsins, af því hvernig hafið blómstrar á hverju ári (vorblómi plöntusvifsins) og hvernig þessar lífrænu hreyfingar í hafinu og straumamótin þegar kaldir og heitir straumar mætast eru undirstaða þessara fengsælu fiskimiða við Ísland.  Þannig að kennsluforritið mitt byrjaði með lexíu um plöntusvifið. Svo hafði ég sérstakan kafla um hafdjúpin dimmu þar sem fiskarnir eru rauðir af myrkri.


Það eru ekki miklir skógar á Íslandi, hér eru ekki frumskógar, ekki fílahjarðir, ekki gíraffar, ekki ljón og hlébarðar. En hér við landið er undraveröld, veröld sem ennþá hefur ekki verið könnuð að fullu og þessi veröld spannar mörg svæði, grunnsævið, botninn á landgrunninu og líka úthafssvæðin og svo hafdjúpin köldu og dimmu. Það getur líka leynst líf á hafsbotni sem ekki er eins og annað líf, ekki líf sem sækir orku sína til sólar heldur orku úr iðrum jarðar. 

En það er kannski ástæða til að gleðjast yfir lífinu í hafinu og huga að því að ef ekkert verður aðgert þá gæti farið svo að dætur mínar lifðu það   þegar síðasti fiskurinn dæi út í sjónum. Það gerist eftir fimmtíu ár ef ekki verður breytt fiskveiðistefnu heimsins. Sjá þessa grein á BBC. 

Nokkrar greinar sem ég hef skrifað um sjávarlíffræði á wikipedia (sjá nánar)


mbl.is Íslendingur meðhöfundur að grein í Science
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband