Hver þarf talandi skóg sem getur látið gamla ljósastaura syngja?

Skógræktin býður gemsanotendum að hringja í skóginn, að hringja í símanúmer og fá þá að vita eitthvað um sögu skógarins. Á ferðalögum mínum fyrir langalöngu, fyrir tíma gemsanna, ferðalögum um verndarsvæði indjána í  USA þá rakst ég  sums staðar á stöðvar  þar sem maður gat ýtt á takka og þá fékk maður úr hátalara hljóðupptöku af sögu staðarins, sögu sem er þögguð niður og heyrist ekki í háværri síbylju fjölmiðlanna sem  magna upp raddir þeirra sem hafa völd og þeirra sem unnu stríðið.

Sögur sem ég heyrði sagðar á sögustaðnum sjálfum voru áhrifameiri, oft voru þetta sögur um hvernig fólk var tekið og haldið föngnu og allt tekið af því, líka börnin, þau voru tekin af foreldrum og sett í heimavistarskóla.  Svo man ég líka eftir að á einu verndarsvæðinu þá var sögð saga af   hvernig svæðinu var í stríðinu  breytt í  óopinbera fanganýlendu. Þangað voru fluttar japanskar fjölskyldur en þær voru handteknar fyrir að vera japanskar sem var eitt og sér talið glæpsamlegt eftir árásina á Pearl Harbour. Svo voru indjánarnir líka fangar því svæðið var einangrað í heild.  Þannig voru tveir undirokaðir hópar með mjög ólíka menningu lokaðir inni á sama svæði. Það var áhrifaríkt að heyra sögu úr hversdagslífi þessara tveggja hópa sem reyndu að þrauka af við erfiðar aðstæður.

En sem sagt, sagan virkar betur ef hún er sögð á staðnum. Líka ef það tekst að skapa  stemmingu, ef sá sem hlýðir á söguna nær að lifa sig inn í hana, finna til með söguhetjunum og skynja hættur og bogna við áföll og rísa við sigra.

 Það er líka sparnaður að geta látið fólk hlusta á upptökur á mismunandi tungumálum en þurfa ekki að hafa starfsfólk til að sinna þessu. Svona símaleiðsögn er ef til vill dæmi um leiðsögumenn framtíðarinnar eða öllu heldur leiðsögusjálfvirkni framtíðarinnar, kannski líður ekki á löngu þangað til við höfum síma sem nemur GPS staðsetningu og tengir okkur sjálfkrafa við gagnagrunna þannig að við getum flett upp ýmsu um umhverfið sem við erum í og hlustað á leiðsögn í hljóðum, vídeó eða myndum eða kortum. Reyndar eru margir farnir að keyra eftir svona kortum sem nema GPS punktana þegar fólk er á ferð um Evrópu. 

En það er þó kannski bara fyrsti áfanginn í tækninni að við séum óvirkir hlustendur og neytendur, að við séum bara viðtakendur að upplýsingum. Málið er að tæknin stefnir öll í þá átt að við getum verið virkir notendur, við getum sent frá okkur boð og unnið úr margvíslegum boðum þannig að við endurblöndum þau í eigin vafninga. 

Eitt af þeim verkfærum sem sýnir okkur fram á við er Twitter örbloggið. Ekkert merkilegt sem fólk gerir með twitter, bara eins konar sms þar sem fólk getur skrifað inn 140 stafi og sent á netsvæði, búið til tvít.  En með því að vera svona alltaf í kallfæri þá geta notendur skráð ýmislegt í umhverfinu, þeir geta tilkynnt um eitthvað sem þarfnast athugunar í umhverfinu en þeir gætu líka sent athugunarniðurstöður sjálfvirkt beint frá vettvangi. Eftir jarðskjálfta þá gætu leitarmenn skoðað eitthvað landsvæði og sent beint inn twitter upplýs. um hvernig staðan er á ákveðnu leitarsvæði t.d. að búið sé að leita og taka stöðuna í  þessu húsi og þessu húsi. Þannig er twitter tæki sem virkar vel ef eitthvað er  viðfangsefni þar sem boð þurfa að berast frá mörgum sem eru staddir á mismunandi stöðum og í rauntíma eða sem næst því.

Ég hugsa að twitter sé hentugt tæki björgunarfólks í náttúruvá sem og sem verkfæri í  byltingum og aktívisma. En twitter getur líka verið verkfæri fyrir fólk sem skráir hjá sér hvað er að í umhverfi þess og borgaryfirvöld í San Francisco hafa tekið upp twitter, þar geta borgarar skráð það sem er að t.d. ef þeir sjá yfirgefnar bifreiðar eða veggjakrot. Nú eða ljósastaur sem logar ekki lengur á. 

Þannig geta borgarar með símatengd tól þ.e. með gemsa og aðgang að Netinu (þ.e. twitter) tilkynnt til borgaryfirvalda SAn Francisco um bilun og orðið til að borgarstarfsmenn skipti um perur. Svo getur mann dreymt um að tæknin verði þannig að gemsinn virki bara eins og fjarstýring á umhverfið og við getum sjálf skipt um perur eða ljósgjafa í ljósastaurum. Ennþá fjarlægara er náttúrulega að gæði ljósastaura lífi og breyta þeim í skógarlundi. Satt að segja þá sér maður ekki alveg fyrir sér að þeir fari að því að grænka aftur á þessum síðustu og verstu tímum þegar allir ljósastaurar eru úr áli. 

En þó það sé gaman að talandi skógi og ljósastaurarnir okkar hér í Reykjavík verði seint grænir aftur þá getum við glaðst núna á vordögum þegar fjólublá ský svífa yfir Esjunni yfir ljóðinu Reykjavíkurskáldsins Tómasar Guðmundssonar sem orti svo fallega um Austurstræti:

Nú verður aftur hlýtt og bjart um bæinn.
Af bernskuglöðum hlátri strætið ómar,
því vorið kemur sunnan yfir sæinn.
Sjá, sólskinið á gangstéttunum ljómar.

Og daprar sálir söngvar vorsins yngja.
Og svo er mikill ljóssins undrakraftur,
jafnvel gamlir símastaurar syngja
í sólskininu og verða grænir aftur.

Og þúsund hjörtu grípur gömul kæti.
Og gömul hjörtu þrá á ný og sakna.
Ó, bernsku vorrar athvarf, Austurstræti,
hve endurminningarnar hjá þér vakna.

 Það er nú reyndar þannig að ég finn mig núna í sumar hvorki í þeim skógi sem Skógrækt ríkisins umvefur og glæðir töfrum tækninnnar né í minningaskógi  skáldsins Tómasar þar sem ljósastaurarnir verða grænir aftur. Ég er frekar stödd í hryllingsmynd þar staurarnir og trén eru eins og Óslójólatréð eða  Staurinn L'estaca sem     Lluís Llach  orti um árið 1968 ljóðið  Látum hann falla, falla

 


mbl.is Hringt í skóginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þeir sem ólust upp í sveit eins og ég, þar sem símalínurnar lágu þvert í gegnum túnin og nálægt bæjunum muna vel þegar símalínurnar sungu og þá helst þegar veðrið var sem best. Í minningunni er þetta afar skemmtilegt, en í rauninni var þetta stundum pirrandi.

Jóhanna Guðm. (IP-tala skráð) 4.6.2009 kl. 08:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband