Færsluflokkur: Bloggar

Ellý á toppnum

Ofurbloggarar fylgjast undrandi með æsireið  Ellýar Ármannsdóttur á moggablogginu en mektardagar bloggara og vigt er ekki mælt í kílóum eða valdasprotum heldur hversu hratt teljarinn snýst. Ellý trjónir á toppnum með 74561 heimsóknir þessa viku og næsti maður að vinsældum hann Sigmar er bara með 32699 heimsóknir. það er von að  bloggarar sem vilja ná upp teljaranum sínum velti fyrir sér leyndardómnum að velgengni Ellýar. Það gerir Tómas í blogginu Ellý upp úr þakinu og svo reyndi Björn Ingi af veikum mætti að herma eftir Ellý í gær með nokkrum tvíræðum bröndurum í blogginu  Fótboltinn og samskipti kynjanna en  stílbrögðin hjá Birni Ingi voru ekkert að slá í gegn og fékk hann samstundis þessa ádrepu á Trúnó blogginu:  ,Léttur húmor" í boði Björns Inga

Þá varð málið femíniskt og Ómar bloggar um Húmorslausa femínista sármóðgaður yfir að ekki þyki öllum brandarar Björns Inga fyndnir og spyr: " Af hverju þarf líf últra-femínista að vera svona gerilsneytt af húmor?"

Ég ætla nú ekki að svara Ómari og segi ekki annað en það að mikið er ég fegin að Árni Mathiesen fjármálaráðherra er ekki moggabloggari. Það er viðbúið að hann væri núna að þræða sömu braut og Björn Ingi og prófa hvort hann gæti ekki náð upp teljaranum og þeyst um bloggheima eins og Ellý með tvíræðnum og klámfengnum bröndurum. Ég er nokkuð viss um að ég mun ekki hlæja að bröndurum sem  Árni Mathiesen segir og mér er slétt sama þó einhver segi mig gerilsneydda af húmor fyrir vikið. Fólk getur kynnt sér brandarasmekk Árna fjármálaráðherra hérna.

En af hverju er blogg Ellýar Ármannsdóttur svona vinsælt? 

 

Ég held að það sé sambland af innihaldinu og hver skrifar. Ég held að til langframa sé ekki hægt að halda neinum dampi með ekkert innihald. Þessar litlu sögur eða atvikslýsingar á blogginu hennar eru ansi vel skrifaðar, ég renndi yfir nokkrar alveg harðákveðin í að hneykslast á meintu klámi þarna en ég fann ekkert. Bara skoplegar aðstæður og samskipti kynja.  En ég held ekki að þessar sögur myndu vekja svona mikla eftirtekt ef einhver annar skrifaði þær t.d. ef karlmaður sem hyggði á frama í stjórmálum  myndi  skrifa svona sögur þá værir hann samstundis dæmdur klúr. Björn Ingi prófaði sig aðeins með frekar hallærislega en voða meinlausa fótboltabrandara og uppskar ádrepu og hneykslan.

Ég hugsa að ef Gunnar í Krossinum myndi blogga svona eins og Ellý þá myndi teljarinn hjá honum líka hafa rokið upp. Það hefði sýnt eitthvað svo skrýtna og öðru vísi mynd af honum og sýnt að hann er margbrotinn persónuleiki ekki strengjabrúða og bókstafstrúarmaður. Það er eitthvað  súrrelistískt við  að kona sem brosir eins og prúðbúin og dúkka við okkur á sjónvarpsskjánum og er komin á steypirinn skrifi svona glettnar og listrænar sögur.

Ég enda svo þetta teljarablogg með lista yfir topp 50 bloggara dagsins í dag. Það er bara að muna að það nægir alveg að hafa sínar fimmtán mínútur af frægð, það koma aðrir á toppinn á öðrum vikum og það er allt í lagi og bara mannbætandi að vera ekki að eltast við að fá sem flesta til að lesa bloggið sitt. Mikilvægasti lesandi allra blogga er sá sem skrifar bloggið, blogg er samræða einstaklingsins við sitt eigið sjálf, ígrundun um lífið og skráning á lífshlaupinu.

 

SætiHöfundurSlóðHeimsóknir

Vídeóblogg 17, 18 og 19 apríl

Ég er að gera tilraun með vídeódagbók úr lífi mínu, ég er með litla vefmyndavél og reyni að taka upp á hverjum degi eina til tvær mínútur. Ég er að prófa ýmis kerfi og það er sniðugt að núna getur maður tekið beint in á vefinn m.a. í photobucket og youtube. Ég prófaði að setja vídeódagbókina mína frá 17 til 19 apríl inn á photobucket og setja þetta saman í eina myndasýningu með umgjörð sem ég valdi. En það er ekki hægt að líma þetta hérna inn í moggabloggið, hérna er tengingin.

 

 

Vídeóblogg frá sextánda apríl - Netveröld og hópleikir á Netiu

Í vídeóblogginu segi ég frá námskeiði sem ég er í Virtual Worlds and Serious games, ég segi líka frá Tvitter og tvittervision.com og hvernig ég gerðist íbúi í Second Life í dag. Já og frá voðaverkunum í Virginíu háskólanum.

Gleðilega páska!

PáskaeggjamótÉg er komin til landsins og hef verið að dunda við að snúa sólarhringnum aftur til baka, það tekur nokkra daga að jafna sig á því að koma úr tímabelti sem er nokkrum klukkutímum á eftir okkur. Mér finnst nú ansi napurt á Íslandi en ég sé ýmis konar merki um vorið. Úti í garði er grasið farið að grænka og blöðin á páskaliljunum komin upp og svo flaggar öll Reykjavík eins og vanalega að vorlagi með plastdræsum við alla vegi, dræsum sem festast í limi trjána svo þau virka eins og í blóma - eins og blómstrandi plastblómum. 

Páskarnir eru vorhátíð, hátíð þar sem fagnað er því þegar jörðin vaknar af vetrardvala. Tákn páskanna í  bandarískum verslunum eru egg, ungar og kanínur. Allt er þetta frjósemistákn, merki um líf sem vex upp, merki um að bráðum kemur betri tíð með blóm í haga. Hér á Íslandi er eggjasiðurinn tengdur súkkulaðieggjum. Ég gerði   páskavef fyrir næstum áratug  þar sem ég fjallaði m.a. um páskaeggjaframleiðslu bæði í heimahúsi og verksmiðju, páskaföndur og fleira. Á hverju ári fæ ég fyrirspurnir um hvar sé hægt að kaupa svona páskaeggjamót. Ég hugsa að margir hafi áhuga á að gera sín páskaegg sjálfir. Þessi plastmót keypti mágkona mín fyrir áratug í einhverri föndurbúð og á hennar heimili hafa verið steypt mörg páskaegg á hverju ári og krakkarnir hafa sjálfir ákveðið fyllinguna. Þetta hefur verið miklu  ódýrara en tilbúnu páskaeggin en það hefur líka verið gaman og einfalt að búa til páskaeggin sjálfur.

Af fjölskyldunni er það að frétta að dætur mínar fóru vestur um páskana á skíði og  Aldrei fór ég suður hátíðina á Ísafirði og gistu í Heydölum, á Flateyri og heimsóttu systur mína á Hanhóli í Bolungarvík.  Þær komu í suður í dag. Sú yngri er komin með nýjan kærasta. Eldri bróðir minn hringdi áðan, hann er staddur í Ríó og er byrjaður að blogga á moggablogginu. Hann segist þó ekki vera bloggari og kallar bloggskrif sín "að setja inn greinar" en það er víst eitthvað virðulegra en við hin gerumWink Systir mín brá sér á ráðstefnu á Spáni fyrir viku síðan en mun væntanlega halda kyrru fyrir næstu vikurnar því hún á von á barni um miðjan maí.


Blogggrín

Enn eitt blogg um blogg Grin.  Til  er sérstakur brandaravefur blaugh.com  sem inniheldur skrípó sem öll ganga út að gera grín að bloggurum. Auðvelt er að líma bloggskrípóin inn í blogg.
If a Blog Falls

Hér er listi yfir gömlu bloggskrípóin.


Myspace fjölmiðlamanna

Það er oftast svo vont netsamband hjá kaninkubloggurum að ég les þau blogg ekki nema endrum og eins. Það má segja að sá menningarkimi þess útskers sé álíka mikið í alfaraleið  og upplýsingahraðbrautin mikla liggur um Ísland og álíka algengt að þangað sé allt sambandslaust.

Það sem einkennir þau blogg er að þau eru held ég öll vinstri græn og í öðrum skrýtnum hreyfingum og svo er kaninkubloggurum uppsigað við moggabloggið og hafa um það háðuleg orð. 

Rakst á þessa miklu speki hjá Birki: 

Mér sýnist sem Mogga-bloggið sé að verða að MySpace fjölmiðlamanna. Þar blogga fjölmiðlamenn öllum stundum, helst hver um annan, og helst ekki án þess að vitna í bloggfærslu hjá hinum. Svo eiga allir “blogg-vini” sem þeir setja myndir af í hliðarstiku og skiptast svo á kveðjum við og kommenta svo hjá hinum og þessum til að láta vita að þeir séu nú líka með í umræðunni. Þetta virkar semsagt nákvæmlega eins og MySpace. Ég bíð spenntur eftir því hver verður fyrstur til að þakka Birni Bjarna fyrir “addið”.

Moggabloggið er sniðugt bloggkerfi og bloggsamfélag, bæði af því það er einfalt og hraðvirkt og áreiðanlegt bloggkerfi og þar skrifa margir samfélagsrýnar sem hafa eitthvað að segja. Það er auðvelt að mynda samfélög þar og tengja bloggskrif við fréttir og fylgjast með bloggum hjá öðrum. Það er vissulegt líkt Myspace en reyndar líka fjölmörgum vinsælum netsamfélögum öðrum. 

Ég gerði vefsíðu um myspace, sjá hérna.  

Sennilega er sú þróun sem við erum að sjá núna hjá Morgunblaðinu á vefnum undanfari af þróun sem mun halda áfram og breytast í kerfi eins og digg.com og newsvine.com þar sem fréttirnar eru skrifaðar af lesendum og það er í sífellu greidd atkvæði um fréttir og vinsælustu fréttirnar poppa upp á forsíðunni.

Ég fylgist öðru hvoru með vinsælustu tæknifréttunum á digg og þar eru athugasemdirnar líka metnar og þær eru oft mikilvægari og meiri fengur en fréttin sjálf. Fréttirnar á digg.com eru nefnilega oft líka eins og fréttir í hefðbundnum fjölmiðlum, þær eru dulbúnar auglýsingar sem er plantað inn af þeim sam hafa hagsmuna að gæta og eru að selja einhverja vöru eða þjónustu. Þannig verða örugglega sum blogg líka. Þannig er Myspace. Þar er fullt af gervifólki sem er ekki til í raunveruleikanum, það eru prófælar sem eru búnir til gagngert til að vingast við unglingana og reyna svo að pranga inn á þau einhverjum vörum. Það er líka hægt að kaupa sér vini á Myspace, það skiptir máli fyrir upprennandi tónlistarmenn að láta líta út fyrir að þeir eigi marga aðdáendur  strax þegar þeir koma sér upp Myspace síðu. Þess vegna er hægt (á svörtum, ekki opinberlega) að kaupa sér vini þar í þúsundatali.


mbl.is Viðgerð á Cantat 3 mun trufla netsamband hjá Rannsókna- og háskólaneti Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vetrarsólhvörf og Afturelding

Ég fagnaði vetrarsólhvörfum í dag, ég er veik heima og má ekki sitja við tölvu. Sé reyndar heldur ekki mikið á tölvuskjáinn svo það er ekki erfitt að óhlýðnast því.  Ef til vill get ég lesið eitthvað. Það er samt ólíklegt, ég sé allt í móðu. Heimurinn sem ég lifi í er heimur sjónrænnar skynjunar og bók sem þó er upprunalega saga úr hljóðum endurrituð með táknum krefst þess að sjónin sé sé góð.  En ef ég gæti lesið, hvað ætti ég að lesa?  Ég fór að hugsa um bókina "Hvað er bak við myrkur lokaðra augna? sjálfsævisögu Yogaranda. Það væri viðeigandi lestur á svona degi. Nema bara það gengur ekki vegna þess að ég á ekki þessa bók og svo get ég sennilega ekki lesið.

Ég ætti kannski að ráðast á pakkann af sakamálasögunum sem ég keypti í Mál og menningu fyrir mörgum mánuðum á einhverju tveir fyrir einn tilboði. Þær eru ennþá í plastinu. Ég keypti bókina Paradís eftir Lisu Marklund og ég keypti bókina Afturelding eftir Viktor Arnar Ingólfsson sem reit Flateygjargátuna. Aftureldingu keypti ég  bara út af nafninu og höfundinum, mér finnst ekkert spennandi gæsaveiðimenn og raðmorðingi. 

Afturelding minnir mig út af nafninu á Aftureldingu Halldórs Laxness og Eldingu Torfhildar Hólms en ég skrifaði  um það í bloggfærslunni Albúm, Elding og Merkilegir draumar árið 2002.

Ég skrifaði bloggið Vetrarsólhvörf - stefnuljós - slepptu mér aldrei á vetrarsólhvörfum í fyrra. Það er sniðugt regla að skrifa svona íhugunarblogg á sama tíma á hverju ári. Annálar fyrri tíma voru oft veðurlýsingar og ég ætla líka að skrá hvernig veðrið er núna. Það er eilífur stormbeljandi, snjór og rok og flóð í ám og hamfaraveður sums staðar um landið. Í nótt feyktist upp glugginn hjá mér í einni stormhvinunni og í gærkvöldi, eða var það í nótt... ég veit varla skil dags og nætur núna í svartasta skammdeginu... þá skall ofsalegt haglél  hérna á stofugluggann hjá mér snögglega eins og árás þar sem skotfærin eru frosið vatn.  

Ef ég ætti bókina You are the Weather eftir Roni Horn þá myndi ég blaða í henni núna. En ég reyndi við Aftureldingu.

Sjálfsævisaga
Yogananda

Drottningarviðtal við sjálfa mig sem mann ársins

bloggrjupanMér er mikill heiður að taka við þessari viðurkenningu sem maður ársins frá tímaritinu Times: "Til hamingju. Þú hefur verið valin(n) „maður ársins“ af tímaritinu Time. Það eru reyndar allir „borgarar hins stafræna lýðveldis“, sem orðið hafa fyrir valinu að þessu sinni, það er að segja, allir sem nota Veraldarvefinn eða búa til efni á hann. ".

Þetta kemur mjög á óvart. En ég er samt tilbúin með mynd af mér sem ég tók á heimili mínu í Sigtúni af mér sjálfri með útsaumaðan púða sem ég bróderaði sjálf og með rjúpur eftir Guðmund frá Miðdal. Það er náttúrulega ekki nógu heimsborgaralegt að sitja í Sigtúni en ekki út í hinum víða heimi í einhverri erlendri höfuðborg.

En hérna í Sigtúni  við borðstofuborði  á  ég  löngum mitt sæti þegar ég blogga og  úti við kvikar borgin sem einu sinni var sjávarpláss með gný sinn og læti. Og hálfvegis vakandi og hálfvegis sofandi eins og í draumi  hér við fartölvuna þá heyri ég þytinn í aldanna sígandi straumi því um gluggann sé ég amerísku öldina í íslensku þjóðlífi líða hjá og alþjóðavæðinguna byrgja útsýni til himinhvolfanna. 

Ég sé Blómaval þar sem einu sinni var gróðurhús og verslun en þar sem  núna er brunaútsala á dótinu sem ameriski herinn skildi eftir þegar hann fór og ég sé tvíburaturnana nýju í Reykjavík teygja sig til himins í hótelbyggingunni við Grand hótel.

 p.s. þetta með rjúpurnar og púðann er vísun í viðtal við Dorrit í Nýju lífi, þar er allt í útsaumi og hún faðmar leirrjúpur sem sagðar eru eftir Guðmund frá Miðdal og mér sýnist þær bara svipaðar og rjúpnastyttan sem ég keypti um árið af Marsibil á Skólavörðustígnum og sem ég hef alltaf haldið að séu frá Funa. Á mínum rjúpum stendur GE 1948 ISLAND.   Það er líka farið með ljóð eftir Jón Helgason í þessu bloggi, stemminguna frá því hann var í Kaupmannahöfn að skoða handritin í bókasafninu þar.


mbl.is Tímaritið Time velur „borgara stafræna lýðveldisins“ mann ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tóm steypa hjá Orðinu á götunni

Bloggið Orðið á götunni er orðið þreytt á amstrinu sem fylgir því að vera að skúbba og skúra á hvurjum degi alla ranghalana í íslensku þjóðlífi. Sennilega bara komið í jólastuð og ætlar að fara að föndra og baka með börnunum eins og allir hinir. 

Það er hins vegar tóm steypa sem stendur á útgöngublogginu hjá þeim:

" Ólíkt því sem var þegar Orðinu á götunni var hleypt af stokkunum í byrjun júní síðastliðnum er nú hægt að velja milli fjölmargra góðra bloggsíðna þar sem fjallað er óstaðfestar fréttir, orðróm og lesið á milli línanna í fréttum hefðbundinna fjölmiðla. Það er mjög góð þróun og stuðlar að öflugri þjóðfélagsumræðu.
Mikið af því sem áður var aðeins rætt á göngum og í hinum frægu reykfylltu bakherbergjum er nú um leið komið út á netið og því er orðið erfiðara en áður fyrir menn að reyna að stýra umræðunni í þann farveg sem þeir kjósa. Hún öðlast þvert á móti sjálfstætt líf. Stjórnmálamenn og forystumenn í viðskiptalífi hafa ekki lengur efni á tjá sig ekki um erfið mál og hið sígilda áhyggjuefni um að hægt sé að misnota völd yfir fjölmiðlum er ekki jafn aðkallandi."

Í fyrsta lagi þá hefur árum saman verið nóg af slúðri og óstaðfestum fréttum og orðróm á Netinu. Það hefur jafnt verið á bloggi sem og á spjallvefjum s.s. malefnin.com.

Í öðru lagi þá er ekkert erfiðara nú en áður "að stýra umræðunni í þann farveg sem þeir kjósa". Það er blekking að bloggheimur bjóði upp á einhvers konar óhefta tjáningu það sem einhverjir óskilgreindir þeir geta ekki stýrt umræðunni.  Sá sem ræður leikreglunum og á eða hefur einhver áhrif á virkni miðsins getur alveg stýrt umræðunni.  Einmitt þessi fjörugi samfélagsvettvangur sem nú er að myndast hérna á moggablogginu er alveg undir hælnum á Morgunblaðsveldinu og það er hægur leikur að stýra umræðunni þar og beina kastljósi að ákveðnum bloggurum eða passa að ekkert kastljós beinist að öðrum. Það hefur farið fram fjörug umræða á femistapóstlistanum einmitt um moggabloggið og hvernig það beinir kastljósinu að ákveðnum aðilum sem flestir hafa það sér til ágætis að vera karlkyns. 

Í þriðja lagi þá er Bloggið á götunni bara hvítvoðungur í bloggheimum og það er bara krúttlega barnalegt hjá því að segja allt hafi breyst frá því að þeir byrjuðu að blogga núna í sumar. Það hefur ekki mikið breyst síðan þá og ef þeir skynja það ekki þá hafa þeir bara einfaldlega ekki fylgst vel með nógu lengi. Og það er alveg eins hægt að misnota vald yfir fjölmiðlum, ný miðlunarform eins og blogg raska vissulega valdahlutföllum með tíð og tíma en það er engin trygging fyrir því að völd yfir fjölmiðlum verði ekki misnotuð. Þvert á móti er þróunin sú alls staðar í heiminum að það er tilhneiging til að vefþjónustur og netsamfélög þjappist í stórveldi með alls konar fjölmiðlum, dæmi um það er Google  og Yahoo sem núna kaupa upp hverja vefþjónustuna á fætur annarri og fjölmiðlaveldi Murdochs sem keypti Myspace og íslenska útgáfan af netsamfélagi/fjölmiðlaveldi þar sem moggablogg er einn þáttur.

En ég ráðlegg öllum sem hafa áhuga á því að hinir nýju miðlar endurspegli þann margbreytileika sem er í samfélaginu og þar hljómi líka rödd þeirra sem sæta kúgun og þöggun og hafa litla möguleika til að tjá sig í þjóðmálum í dag að fylgjast vel með alþýðlegri fréttamennsku og þá sérstaklega að fylgjast með Dan Gillmor sem er gúrúinn á þessu sviði. Ég sótti eins dags óráðstefnu (unconference er tískan í þessum geira) sem hann stýrði í Boston í ágúst síðastliðnum. Hér er smávídeóklipp sem ég tók þar:



Annars var þessi bloggpistill tilraun hjá mér til að blogga eins inntakslaust og ég gæti svona blogg um frétt um að blogg væri hætt að blogga. Ég leit yfir fréttir á moggabloggi og valdi mér frétt til að blogga um og valið stóð á milli þess að blogga um fréttina að bloggið Orðið á götunni væri hætt að blogga eða fréttina að það væri bara ein lyfta um helgina opin í Bláfjöllum. Mér fannst sú frétt afar áhugaverð en hætti mér ekki út í mjög langt blogg um það vegna þess að ég veit ekkert um skíðaíþróttir og einhver myndi kannski fatta það. Það hefði nú kannski verið sniðugt að blogga um það.
mbl.is Bloggsíðan Orðið á götunni í tímabundið frí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggtoppur árið 2007

Framtíðarrýnar spá því  bloggtískan nái hámarki á næsta ári, sjá  grein "Blogging set to peak next year" á BBC. Eftir það mun bloggurum fækka vegna þess að þá hafa allir sem á annað borð gætu hugsað sér að blogga þegar byrjað á því og sumir hætt eins og við vitum þá er þetta ritunarform ekki fyrir alla. Margir hafa ekkert að segja og dettur ekkert í hug til að skrifa um.

Blogg er ennþá í örum vexti, vefþjónustan Technorati sem vaktar blogg í heiminum  upplýsir að í síðasta mánuði voru 100,000  ný blogg búin til á hverjum degi og  1.3 million bloggpistlar skrifaðir. Technorati fylgist með  57 milljón bloggum og gerir ráð fyrir að um  55% þeirra séu ennþá notuð eða uppfærð að minnsta kosti á þriggja mánaða fresti.

Ég skrifaði mitt fyrsta blogg á blogger.com í desember 2000 og hóf svo reglulegt blogg í apríl 2001. Ég kallaði það blogg Meinhorn því ég hafði þá hugsað mér að rífast og nöldra út í eitt um það sem pirraði mig í sjónvarpi, útvarpi og dagblöðum. Ásamt því að prófa miðilinn á sjálfri mér og skrifa hjá mér sitthvað um blogg og upplýsingatækni.  Ég byrjaði að nöldra um fréttir en þegar frá leið þá þá nennti ég því ekki lengur og fór að tjá mig um annars konar efni. Svo var bloggið á tímabili mikið aktívistablogg og einn liður í að mála bæinn bleikan. 

Ég færði mig yfir  Moggann og byrjaði þetta moggablogg af krafti fyrir mánuði síðan þegar ég fattaði að þetta er nú eiginlega eitt besta bloggkerfið sem Íslendingum býðst og hefur líka ýmsa fídusa sem minna mig á netsamfélög eins og Myspace.

Ég ætlaði mér aldrei að nota þetta blogg til annars er fjalla um tölvur og tækni, helst í samhengi sem passaði fyrir börn og unglinga og fólk sem vildi vita meira um ýmis netverkfæri sem hentug væri í námi og kennslu.

Svo datt ég alveg niður í nýjasta tómstundagaman mitt og það er að blogga um fréttir og nú reyni ég að velja mér á hverjum degi einhverja frétt á Mbl til að blogga um. Því miður er ekkert spennandi í fréttum þessa daganna á Íslandi, það er takmörk fyrir því hvað ég nenni að tjá mig mikið um símahleranamálið. Svo ég þurfti að leita út fyrir landsteinana til að blogga um einhverjar fréttir og BBC varð fyrir valinu og þetta er sem sagt dæmigert blogg um blogg.

Núna stendur yfir fréttabloggstímabilið í bloggferli mínum. Ég hef stundum breytt bakgrunninum og uppsetningu á bloggi  eftir því hvernig stemmingin er hjá mér, stundum haft  það í mildum jarðlitum og stundum femínistableikt eftir því hve mikið stríðstól blogginu er ætlað að vera. Sem minnir mig á að það er kominn tími til að breyta borðanum á þessu bloggi, það er ennþá páskaborði frá því í fyrra með ungum og eggjum og það eru að koma jól...

 

Meira um blogg 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband