Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2006

Jólamoggablogg og jólaglæpurinn

jólabófi Gaman að sjá hvað Mogginn er orðinn tæknivæddur, bara kominn með fréttaskot á myndböndum. Afar inntaksríkar og æsispennandi  fréttir eins og þessi um  að jólafréttablað Moggans komi út á morgun. Það er víst stærra en nokkru sinni áður og svo stútfullt af mataruppskriftum að maður verður bara mettur  af því að horfa á myndbandið. 

 Svo eru þar  nýjungar sem tilheyra nútíma jólahaldi. Hér á ég náttúrulega við jólaglæpasögu. Svona er tíðarandinn. Mamma beið alltaf um jólaleytið eftir einhverri  myndasögugetraun í Mogganum í den og þegar gestir komu þá var spjallað út í það óendanlega um lausn myndagátunnar. Ég hef ekki komist upp á lag með þessar myndagátur. Né heldur krossgátur. En nú er komin betri tíð með blóm í haga..... ég meina  blóð í haga. Núna bíð ég spennt eftir jólaglæpasögunni og nú verður það hluti af jólastemmingunni að ráða í hver framdi jólaglæpinn.

Sniðugt líka að bjóða moggabloggurum upp á að blogga þessar fréttir og taka þátt í að auglýsa upp jólablað Moggans og allan þann varning sem þar verður auglýstur. Sniðugt líka að taka fréttaskotin þannig að það þurfi ekkert að fara út úr Moggahúsinu og fréttirnar séu bara um sjálfan fjölmiðilinn. Þetta er íslensk fjölmiðlun eins og hún gerist best, þetta er svo heimilislegt og þjóðlegt. Fjölmiðlar að tala um fjölmiðla og helst um sjálfan sig. Sparar líka hellingspening að vera ekki að elta fréttir út um víðan völl.

Annars teiknaði ég þessa mynd af jólabófanum og blóði drifinni slóð hans í Inkscape. Inkscape er vektorteikniforrit sem hver sem er getur hlaðið niður ókeypis af vefnum, hér eru leiðbeiningasíða sem ég tók saman um það forrit.


mbl.is Tuttugasta Jólablað Morgunblaðsins kemur út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fugl dagsins er margæs

MargæsMargæsir eru fargestir á Íslandi, fljúga hérna yfir á leið sinni til varpstöðvanna á heimskautasvæðum Kanada. Þær safna forða hérna áður en þær leggja upp í flugið yfir Grænlandsjökul. Ég skrifaði grein um margæs inn á íslensku Wikipedia í gær því þá fór ég í heimsókn í Sjálandsskóla í Garðabæ. Skólinn er staðsettur við sjóinn og einmitt þarna yfir Álftanesið og strandlengjuna við Faxaflóa fljúga margæsirnar yfir á leið sinni til og frá varpstöðvunum. Nemendur í skólanum  fylgjast með margæsunum, þeir skoða líka lífríkið í sjónum og fjörunni og í skólanum er stórt fiskabúr þar sem við blasa fiskar og krabbar. 

11648868012023Krístín sagði okkur frá því hvernig hún notar ferðir margæsanna sem kveikju í upplýsingatækni. Það hafa verið settir sendar á nokkrar margæsir og það er hægt að fylgjast með ferðum þeirra á korti á Netinu. Krakkarnir í Sjálandsskóla geta því fylgst með hvenær margæsirnar fljúga yfir vor og haust

Ég ætla að reyna að hafa það sem venju   þegar ég heimsæki skóla  að skrifa grein á Wikipedia um eitthvað efni sem tengist skólanum og námsumhverfi þar.


Dagsbrún var einu sinni verkalýðsfélag...

.... en núna er Dagsbrún ekkert tengd íslenskri verkalýðsbaráttu nema kannski til að sækja einhverja ímynd í nafnið meðal íslenskt almennings. Það er eilífur skopparaleikur með nöfn á þessum félögum sem eru að sameinast og sundrast örar en ég get fylgst með. Stundum held ég að þessi nafnaleikur sé einhver hluti af plottinu svona til að rugla okkur litlu hluthafana. Þetta segi ég nú bara út af beiskju vegna þess að ég strengdi þess heit á sínum tíma þegar útgerðarmönnum var fenginn í hendur kvótinn á íslenskum fiskimiðum að ég skyldi reyna að eiga minn skerf í miðunum og aflaheimildunum og einsetti mér að kaupa parta í íslenskum hlutafélögum sem ættu aflaheimildir þangað til ég væri komin upp í einn þrjúhundruðþúsundasta hluta af aflaheimildum landsins. Ég keypti hlutabréf í Eimskip sem þá hafði lengi, lengi keypt upp fiskveiðifyrirtæki og mér virtist það vera góð leið til að eiga minn part í fiskistofnum á miðunum, já þessum sömu og stendur í lögum að eigi að vera sameign íslensku þjóðarinnar.  Mér fannst líka svo flott að treysta Eimskip, var það kannski ekki óskabarn þjóðarinnar og sjálfstæðistákn. Svo gufaði Eimskip einhvern veginn upp og splundraðist í önnur félög  og málað var yfir merki félagsins í fyrrum húsi þess í miðbænum.  Nú er eitthvað annað félag  með útlensku nafni Avion Group sem er að taka yfir nafnið Eimskip og ég held að það sé eins skylt Eimskipafélaginu gamla og hin nýja Dagsbrún er skyld verkalýðshreyfingunni.

En ég verð bara pirruð þegar ég les viðskiptafréttir eins og þessar frá Dagsbrún: "Gjaldfært virðisrýrnunartap vegna viðskiptavildar, kostnaður vegna endurskipulagningar félagsins og gjaldfærður stofnkostnaður vegna 365 Media vegur þyngst á uppgjörstímabilinu (fyrstu níu mánuði ársins) eða um 3.691 milljónum króna."

Ég verð pirruð vegna þess að mér finnst þessi frétt sem núna er á mbl.is ekki vera á mannamáli. Ég geri ráð fyrir að þetta sé beint úr fréttatilkynningu félagsins en er virkilega hægt að ætlast til að almenningur skilji svona orðalag?  Eða er það einmitt tilgangurinn með þessum viðskiptafréttum að gera þær svo flóknar og fagmálslegar að engir skilji og botni í hringiðu viðskiptalífsins og þess ferlis sem núna stjórnar öllu flæði peninga og gæða um Ísland?


mbl.is Afkoma Dagsbrúnar versnar um 5.232 milljónir milli ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hannibal hleraður

stjupaÞað er minna en tveir áratugir síðan síðustu sveitasímarnir voru lagðir niður í sumum sveitum á Íslandi. Það vissu allir að öll sveitin lá á línunni ef hringt var í einhvern þó enginn viðurkenndi að hlusta. Fólkið sem bjó í sveitinni vildi ekki að ættingjarnir á mölinni ræddu um viðkvæm persónuleg mál í símann. Þessi sveitahlerun hafði nú vissan sjarma, kona sem ég þekki sagði mér frá því að hún hefði verið að ræða í síma við tengdamóður sína sem bjó í sveitinni, þær voru báðar ákafir garðyrkjumenn og  hún hafði ætlað að útvega tengdamóður sinni fræ af sumarblómum en ekki tekist það og gamla konan var leið yfir að geta ekki byrjað að sá fræum og  fagna sumrinu og gróandanum. Svo lauk símtalinu og stuttu seinna kom kona í sveitinni til tengdamóðurinnar og gaf henni sumarblómafræ.

Það er hins vegar dáldið mikill munur á þeirri fréttamiðlun sem sveitasímarnir voru og þeim símhlerunum sem stjórnvöld virðast hafa stundað á dögum Kalda stríðsins. Í fyrsta lagi þá voru það bara stjórnvöld sem gátu stundað þessar hleranir og þannig fylgst með þegnunum. Í öðru lagi þá vissu þegnarnir ekki að fylgst væri með þeim. Í þriðja lagi þá var annarlegur tilgangur með þessum hlerunum. Í orði kveðnu var tilgangurinn að gæta öryggis ríkisins og hugsanlega hafa þáverandi stjórnvöld trúað því sjálf,  fólk hefur ótrúlega mikið og frjótt ímyndunarafl þegar kemur að því að spinna upp sögur og  búa til veruleika sem réttlætir gjörðir þess. En þegar sviðið er skoðað mörgum áratugum seinna þá sést að tilgangur hlerana er sá sami og er megintilgangur allra stjórnhafa fyrr og síðar í sögunni og það er að halda völdunum og bæla sem mest niður allt sem getur orðið til þess að völd þeirra minnki. 

Það að síminn hjá  Hannibal Valdimarssyni forseta Alþýðusambands Íslands hafi verið hleraður sýnir hvernig staðan var á tímum Kalda stríðsins. Ég vona að það verði sem mest umræða um þessi hlerunarmál, ekki af því það breyti einhverju um fortíðina heldur fyrst og fremst vegna þess að við erum í nútíma þar sem hleranir eru miklu, miklu auðveldari og stjórnvöld sem vakta þegna sína til að safna upplýsingum með leynd eru miklu skæðari ógn en var í Kalda stríðinu. Það er ekkert hættulegra en stjórnvöld sem fara að líta á þegnana í eigin ríki sem helstu óvini sína.

Halldór Baldursson gerir bráðskemmtilega mynd af ástandinu.

Kaldastríðsnostalgía (Halldór Baldursson)


mbl.is Heimild veitt til að hlera síma Hannibals Valdimarssonar árið 1961
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarastyrjöld í Írak og ábyrgð hinna viljugu þjóða

Í mars á næsta ári eru fjögur ár liðin frá því að Bandaríkjamenn réðust inn í Írak. Það er ágætt að rifja núna upp söguna, framvindu stríðsins og aðkomu Íslendinga að þessu stríði. Það er eins og vanalega einna best að leita í  ensku Wikipedíu, hér er yfirlitsgrein um stríðið í Írak

Ég finn því miður enga svona hlutlausa frásögn eða yfirlitsgrein yfir hvernig Íslendingar komu að þessu stríði og hvernig  stjórnmálahreyfingar   og þjóðmálaumræðan var á Íslandi. Ég vildi óska þess að einhver tæki sig til og skrifaði yfirlitsgrein um það.  Það er líka ágætis tími núna eftir tæp fjögur ár að taka stöðuna og velta fyrir sér hvort vel hafi verið staðið að málum og hvort rétt hafi verið að styðja Bandaríkjamenn og hvort allar forsendur hafi verið réttar. Það hefur Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins gert  sb. þessa frétt:

"...Í ræðu sinni á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í gær fjallaði Jón um stuðning íslenskra stjórnvalda við innrás bandaríkjamanna í Írak. Jón sagði að ákvarðanirnar hafi byggst á röngum upplýsingum. Forsendur hafi verið rangar og ákvörðunarferlinu ábótavant. Ákvarðanirnar voru því rangar eða mistök, sagði Jón. Hann bætti við að listi um staðfastar þjóðir hafi verið einhliða framsetning Bandaríkjastjórnar. Loks sagði Jón að ákvarðanir um öryggismál og alþjóðaverkefni beri ævinlega að taka eftir vandaðasta undirbúning og eftir trúnaðarsamráð við lögmætar stofnanir eins og utanríkismálanefnd alþingis." (úr frétt Rúv 26. nóv) 

Það er hverjum manni ljóst að þetta stríð hefur breyst í skálmöld og martröð  og sumt af því sem upp á yfirborðið hefur komið er hneisa fyrir allar siðaðar lýðræðisþjóðir að bendla sig við. Þar má nefna fangaflutningana og fangabúðir eins og  Abu Graigh.  

Annars fann ég tvær greinar til umhugsunar, annars vegar umfjöllun um "Ekki í okkar nafni" auglýsinguna og hins vegar blogg hjá Binna um  ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins 2003 um Írakstríðið. Þessar greinar vöktu mig til umhugsunar um hver hefur umboð til að binda Íslendinga í stríð eða auglýsa skoðanir Íslendinga og hvort Sjálfstæðisflokkurinn ætli ekki líka að taka núna aftur púlsinn á stöðunni og meta málið upp á nýtt. Varðandi það fyrra þá er það alveg glerljóst í mínum huga að löglega kjörin íslensk stjórnvöld hafa umboð til að gera eitthvað sem er í nafni íslensku þjóðarinnar en það hefur þjóðarhreyfingin ekki.  Það er hins vegar eðli góðra stjórnvalda að ana ekki í blindni út í eitthvað forað og átta sig fljótt á merkjum um að tekin hafi verið röng ákvörðun á einhverjum tíma og það væri vel ef stjórnvöld bara viðurkenndu það.


mbl.is Kofi Annan segir Írak ramba á barmi borgarastyrjaldar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölskyldumyndir

kristín 17 ára - vinkonur

Það eru margar aðferðir til að setja fjölskyldumyndir á vefinn. Ég geymi myndirnar í flickr.com og borga fyrir það. Það er vegna þess að flickr virkar með mörgum kerfum og notendur þar byggja upp netsamfélag. Flickr er oft tekið sem eitt besta dæmið um "social software" eða "folksonomies" þegar fólk merkir sjálft gögnin sín.

Það er alveg óþarfi að nota flókin myndvinnslukerfi eins og photoshop. Það er núna komið fullt af myndvinnslukerfum sem eru vefþjónustur þar sem maður getur klippt til myndir og breytt þeim á ýmsa lund. Dæmi um slíkt er http://www34.lunapic.com og http://www.imagecrop.com

Hér eru myndir sem ég hlóð beint úr stafrænu myndavélinni minn inn á flickr og klippti svo til  og breytti í vefþjónustum eins og lunapic.   

Afmæli Gísli Garðar 2. áraAfmæli Gísli Garðar 2.ára

Lára 10 ára afmæli

 

 


Virkjanir kosta meira en peninga og heiðalönd

Ég ætlaði áðan að velja mér frétt á mbl.is til að blogga um, mér finnst það svo sniðugur fídus að blogga um fréttir og það er náttúrulega sennilega einn aðaltilgangur þessa fína bloggkerfis blog.is að tengja samfélagsumræðuna við Morgunblaðsmiðlunina.  En gallinn var bara sá að ég fann enga skemmtilega frétt sem ég vildi blogga um.

Það voru krassandi fyrirsagnir eins og "Gekk berserksgang á hóteli", "Vingsaði hnífi og ógnaði fólki", "Hópslagsmál í Kópavogi" en það var bara ein sorgleg frétt sem snart mig. Það var fréttin  um slysin við Kárahnjúkavirkjun en þar hafa fjögur banaslys orðið frá því framkvæmdir hófust. En ég veit bara ekki hvað ég á að segja um þá frétt. Hún snertir mig meira en  fréttir af því að  varplönd heiðargæsa tapist. Það hafa líka orðið alvarleg slys við Hellisheiðarvirkjun


mbl.is Rann fjörutíu til fimmtíu metra niður stífluvegginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð dagsins eru hacktivism og slacktivism

Hactivism er  fyrir  hakkara sem íslenskir fjölmiðlar þýða með orðinu tölvuþrjótur sem náttúrulega segir meira um íslenska fjölmiðla en hakkara . Slacktivism er að slæpast bara á Netinu þegar hinir mála bæinn bleikan og kaupa ekkert í dag. Í tíð föður míns var talað um sófakomma og það var hið mesta skammaryrði. Nú eru kommarnir gufaðir upp en við commonistarnir komnir fram á völlinn og bíðum færis. 


Kaupum ekkert dagurinn á 66 norður

Kauptu ekkert dagurinnÉg held upp á kauptu ekkert daginn í dag eins og ég hef gert undanfarin ár. Kaupi ekkert og  hugleiði stöðu mála í okkar heimshluta hérna á Norðurslóðum nálægt Íshafinu þar sem jöklarnir eru að bráðna og aðrar siglingarleiðir  í sjónmáli. Hér ríkir sú trú ríkir að gangvirki mannlegra samfélaga  sé  skiptimiðakerfi  fjármagns  og peninga og að  óhindrað  flæði peninga um heiminn  muni eins og  ósýnileg  hönd verða til þess að lífskjör jafnist og allir græði. 

Ég er á því að sem mest  frelsi upplýstra einstaklinga til athafna og orða sé sennilega  affarasælast fyrir flesta, einstaklingar sem hafa aðgang að  sem mestum upplýsingum og hafa úr sem flestum valkostum að velja eru sennilega færari en miðstýrt fjarlægt vald til að taka skynsamlegar ákvarðanir um framtíð sína og þess nærsamfélags sem þeir lifa í. Allra skynsamlegast virðist mér að haga samfélagsgerð þannig að einstaklingar kunni að vinna saman og búa til samfélag þar sem samlegðaráhrifin eru ekki bara fólginn í fjöldanum heldur líka fjölbreytninni og því að margir ólíkir einstaklingar með mismunandi hugmyndir og orku geta lagt í púkk og myndað kerfi þar sem allir græða og það þarf ekki endilega að vera kerfi sem byggir á borgun eða peningum.  Til þess að ólíkir einstaklingar vinni saman þá þarf að vera umburðarlyndi fyrir þeim sem eru öðruvísi og það þarf líka að vera einhvers konar samkennd eða samhygð þannig að einstaklingar taki ekki ákvarðanir eingöngu út frá eigin hagsmunum.

Það frelsi sem ríkir í okkar heimshluta gengur  mjög á misvíxl. Á sama tíma og það er  mikið  frelsi í hvernig peningar mega flæða um heiminn þá er frelsi fólks til að flytja sig um set lítið.  Það er núna að ég held afar erfitt fyrir fólk frá Asíulöndum að setjast að á Íslandi en það er hins vegar alveg í fínu lagi að  flytja þaðan vörur og staðsetja verksmiðjur  þar.

Ég er með Fréttablaðið í dag fyrir framan mig á opnuviðtali við Sigurjón Sighvatsson sem núna hefur keypt 66 norður. Einu sinni var 66 norður sjóklæðagerð en núna framleiðir fyrirtækið útivistarvörur. Í opnuviðtalinu er oft rætt um ímynd Íslands og það tengt við vörur frá 66 norður  og það er talað um hönnunina, hönnuðir fyrirtækisins hafi svo góða tilfinningu fyrir hvað 66 norður stendur fyrir. 

En hvað stendur 66 norður fyrir?
Hvað standa önnur íslensk fyrirtæki í útrás fyrir?
Það er langt síðan öll fataframleiðsla 66 Norður á Íslandi var lögð niður. Núna er þessi fatnaður saumaður í Austur-Evrópu og efnin sennilega koma ennþá austar að. 


Menning heimsins er rituð í leir

Ég held að maður læri mest með að vinna að einhverju verkefni, að búa til eitthvað, að skapa eitthvað. Það skiptir ekki öllu máli hvað kemur út, það er ferlið sem skiptir mestu máli, að nota ferlið til að mennta sig  á sem víðustu sviði og opna hugsun sína. Það skiptir líka máli að vera í samræðu við sjálfan sig og skrásetja ferlið á einhvern hátt - í minnisbækur, í rissbækur, í nótissubækur eða í blogg. 

Í síbreytilegu samfélagi  skiptir líka máli að vera alltaf að læra eitthvað nýtt, eitthvað sem lætur hugsunina tengjast á annan hátt og eitthvað sem er "out of your comfort zone". Ég er núna á leirmótunarnámskeiði og ég nota sjálfa mig til að praktísera það sem ég prédika þ.e. að nota blogg sem leiðarbók við hugmyndavinnu og  persónulega þroskasögu tengt viðfangsefninu, ég reyni að skrá í blogg allt sem viðvíkur námskeiðinu og þær hugmyndir sem ég fæ.

Slóðin á bloggið er http://leirmotun.blogspot.com

Mér finnst gaman að nota þennan tíma sem ég er á námskeiðinu til að spá í sögu leirlistar sem hluta af tæknisögu heimsins og hvernig leir samtvinnast ritmáli og táknrófi en elstu menjar ritmáls eru  fleygrúnir Súmera.

Hér er mynd af mununum okkar, þetta eru einir fyrstu leirmunirnir sem við brenndum. Þeir eru unnir úr steinleir sem er hábrenndur og við notum glerunga sem Ásrún hefur búið til. Ég á vasann og blómapottinn til hægri.

Glerjaðir leirmunir

Ég vann þessa muni með plötuaðferð og svo þrykkti ég mynstrið með leirstimplum. Svo voru munirnir brenndir í lágbrennslu og þá voru þeir tilbúnir fyrir glerjun. Ég glerjaði að utan með svampi og reyndi að láta glerunginn fara ofan í mynstrið og svo hjálpaði Ásrún mér að glerja að innan með að hella glerung í mótið. Ég hef prófað bæði steinleir og rauðleir (terra cotta) og ýmsar aðferðir eins og að rista mynstur í leðurharðan leir.

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband