Færsluflokkur: Bækur

Börnin áður

Öldruð frænka mín sagði mér frá hvað allir voru hissa þegar drengirnir birtust, enginn hafði vitað af tilveru þeirra. Nágrannakona leyfði drengjunum að vera þegar maðurinn stjúpfaðir þeirra var heima. Hann koma alltaf heim í hádeginu og hann þoldi ekki drengina, þeir máttu ekki vera á heimilinu þegar hann var heima.  Fengu þeir að koma inn til að sofa? Ég gleymdi að spyrja frænku mína að því. Alla vega voru þeir þarna á heimilinu þangað til móðirin kom þeim aftur í fóstur. Móðir drengjanna er löngu dáin og þeir eru líka dánir,  hún  fæddist fyrir meira en einni öld og ólst upp að ég held einhvers staðar á Austurlandi. Hún fór til Reykjavíkur og giftist þar. Einn daginn birtust drengirnir, sá yngri 8 ára held ég. Þeir voru sendir til konunnar frá æskuslóðum hennar, ég held þegar foreldrar hennar dóu og enginn var til að hugsa um þá lengur þar. Hún hafði ekki sagt manninum sem hún giftist  frá drengjunum. Hún skildi og giftist seinna ekkjumanni og tók að sér að búa hans börnum heimili.

Ein af þeim jólabókum sem mig langar til að lesa er bók Péturs Gunnarssonar  ÞÞ í fátækralandinu.Ég las ritdóm Þórdísar Það er líka hægt að búa sig til“ og umfjöllun Guðmundar Þórbergsbók: Á mærum skáldskapar og fræða og  dóm Sigurðar Þórs  Ævisaga Þórbergs: Sigurður Þór ósáttur

Rithöfundar skilja eftir sig mikið efni sem er saga um samtíma þeirra og viðhorf þeirra og lífstíl. Sumir rithöfundar eins  og Þórbergur  skrifa mikið um sjálfa sig og hann notar stundum fólk úr fjölskyldu sinni og umhverfi sem viðföng í list sinni. Ég skrifaði fyrir nokkrum árum (14.1.03) blogg um rit hans Sálmurinn um blómið, ég lími það inn hérna:

Sálmurinn um blómið

Þórbergur Þórðarsson skrifaði bókina Sálminn um blómið um litla stelpu. Eða kannski var hann bara að skrifa bók um sjálfan sig og barnið var þar sögupersóna til að uppgötvar veröldina í gegn um gamlan mann (Þórberg). Svo var bókin líka eins konar ritdeila á keppinautinn Halldór Laxness og skáldsöguformið. Þórbergur var mest fyrir sannar sögur. Þórbergur kallar stelpuna í sögunni alltaf litlu manneskjuna. Þessi stelpa var til í alvöru og heitir Helga Jóna Ásbjarnardóttir. Ég man eftir viðtali við hana fyrir mörgum árum í Morgunblaðinu. Það var víst ekkert skemmtilegt fyrir hana að vera þessi litla manneskja eftir að bókin kom út.

Ég veit ekki hvort hún hafi verið spurð hvort hún vildi vera þessi litla manneskja í þessari bók sem var um barn en var kannski mest fyrir fullorðna. Kannski er þetta það sama og raunveruleikasjónvarpið núna hálfri öld seinna. Í myndinni Hlemmur er brugðið upp svipmyndum af fastagestum á þessum áfangastað og fylgst með lífshlaupi þeirra um stund og reyndar líka dauða. Fyrir skömmu birtist í DV bréf frá móður og öðrum aðstandendum eins af Hlemmbúum í myndinni , titillinn var Niðurlæging út fyrir gröf og dauða og var þar deilt á upptökur og viðtöl við veikan mann.

Ég fór í fyrra á ljósmyndasýningu Mary Ellen Mark á Kjarvalsstöðum. Ég held að bók Þórbergs, kvikmyndin Hlemmur og ljósmyndir Mary Ellen eigi það sameiginlegt að vera ekki skrifaðar af og fyrir þann hóp sem er viðfang í þessum bókum, þetta eru verk sem eru skrifuð fyrir þá sem standa fyrir utan heim barnsins, flækingsins og fíkniefnaneytandans. Er þessi verk raunveruleiki eða einhvers konar sannleikur? Ég held að sá sannleikur sem felst í þessum verkum er kannski fyrst og fremst sannleikurinn um hvernig þeir sem skrifa söguna eða búa til myndverkin líta á þessa heima.

Annars er gaman að spá í hvernig fólk sér mismunandi hluti út úr skáldverkum, Birgir segir að Þögnin eftir Vigdísi Grímsdóttur sé Sálmurinn um blómið á hvolfi og segir: "Amma Lindu kallar hana í sífellu litlu manneskjuna en það er sem kunnugt er alþekkt hugtak úr bók Þórbergs Sálminum um blómið. „Litla manneskjan“ gengur eins og eins konar leiðarstef gegnum bókina.." Svo segir Birgir að með þessu birtist rýni sögu­höfundar á kynbundnum muni bókmenntanna, að karlar séu í eðli sínu sögumenn en konur upplifi án þess að miðla. Sobbeggi segir frá sálmi og blómi, Linda upplifir „sálma“ og blóm gegnum ömmu sína og þögn hennar. Ég hlustaði einu sinni á Dagnýju Kristjánsdóttur segja frá Þögninni og þar túlkaði hún þetta sögu sem fjallar um illsku, valdbeitingu og geðklofa.

Held ég sé ekki er sammála Birgi um þessa túlkun á kynbundnum mun á bókmenntum, held hann sé eins og margir aðrir að leita að staðfestingu á sínum eigin viðhorfum í sögnum. Hér dettur mér í hug að ein umtalaðasta bókin í ár heitir RÖDDIN og er sakamálasaga eftir karlmann. Sakamálasögur eru eins konar óður til valdsins og kerfisins og viðhalds einhvers konar stjórnsýsluvaldakerfis, kannski er svoleiðis saga andstæða við bók eins og ÞÖGNIN sem er það innhverfasta af öllu innhverfu, píslarganga kraminnar sálar

 Ég tek núna eftir að einmitt í ár eru þessir fjórir listamenn sem ég fjalla um í þessu gamla bloggi í sviðsljósinu, Þórbergur sem sögupersóna í bók Péturs, Mary Ellen með ljósmyndabók um fötluð börn á Íslandi og Arnaldur með bókina Harðskafl og Vigdís með bókina Bíbi. Ég ætti kannski að tengja þau aftur saman og spá í mynstrinu í þessum bókum.

En það sem ég hef mestan áhuga á að lesa um í fátækralandinu er hvaða áhrif fjölskylda Þórbergs, sérstaklega kona hans  þroskar hann eða hamlar vexti hans sem listamanns og hvernig hann reyndist fjölskyldu sinni.  Ég hef áhuga á því að vita hversu vel hann reyndist dóttur sinni og stjúpbörnum sínum.


Vetrarsólhvörf og Afturelding

Ég fagnaði vetrarsólhvörfum í dag, ég er veik heima og má ekki sitja við tölvu. Sé reyndar heldur ekki mikið á tölvuskjáinn svo það er ekki erfitt að óhlýðnast því.  Ef til vill get ég lesið eitthvað. Það er samt ólíklegt, ég sé allt í móðu. Heimurinn sem ég lifi í er heimur sjónrænnar skynjunar og bók sem þó er upprunalega saga úr hljóðum endurrituð með táknum krefst þess að sjónin sé sé góð.  En ef ég gæti lesið, hvað ætti ég að lesa?  Ég fór að hugsa um bókina "Hvað er bak við myrkur lokaðra augna? sjálfsævisögu Yogaranda. Það væri viðeigandi lestur á svona degi. Nema bara það gengur ekki vegna þess að ég á ekki þessa bók og svo get ég sennilega ekki lesið.

Ég ætti kannski að ráðast á pakkann af sakamálasögunum sem ég keypti í Mál og menningu fyrir mörgum mánuðum á einhverju tveir fyrir einn tilboði. Þær eru ennþá í plastinu. Ég keypti bókina Paradís eftir Lisu Marklund og ég keypti bókina Afturelding eftir Viktor Arnar Ingólfsson sem reit Flateygjargátuna. Aftureldingu keypti ég  bara út af nafninu og höfundinum, mér finnst ekkert spennandi gæsaveiðimenn og raðmorðingi. 

Afturelding minnir mig út af nafninu á Aftureldingu Halldórs Laxness og Eldingu Torfhildar Hólms en ég skrifaði  um það í bloggfærslunni Albúm, Elding og Merkilegir draumar árið 2002.

Ég skrifaði bloggið Vetrarsólhvörf - stefnuljós - slepptu mér aldrei á vetrarsólhvörfum í fyrra. Það er sniðugt regla að skrifa svona íhugunarblogg á sama tíma á hverju ári. Annálar fyrri tíma voru oft veðurlýsingar og ég ætla líka að skrá hvernig veðrið er núna. Það er eilífur stormbeljandi, snjór og rok og flóð í ám og hamfaraveður sums staðar um landið. Í nótt feyktist upp glugginn hjá mér í einni stormhvinunni og í gærkvöldi, eða var það í nótt... ég veit varla skil dags og nætur núna í svartasta skammdeginu... þá skall ofsalegt haglél  hérna á stofugluggann hjá mér snögglega eins og árás þar sem skotfærin eru frosið vatn.  

Ef ég ætti bókina You are the Weather eftir Roni Horn þá myndi ég blaða í henni núna. En ég reyndi við Aftureldingu.

Sjálfsævisaga
Yogananda

Grafarþögn er góð

Gaman að heyra að Economist hælir Grafarþögn eftir Arnald. Það er góð bók eins og raunar allar bækur Arnalds en Grafarþögn og Röddin heilla mig samt mest.  Mér finnst alltaf Arnaldur vera meira að skrifa um einhverja veru sem er stærri en einstaklingarnir, mér finnst hann vera að skrifa um borgina sem einhvers konar lífveru. Hann er að teikna upp landslag af borginni með því að láta vettvang bóka sinna gerast í hinum ýmsu borgarhverfum. Ég spái í hvers vegna kaflaheitin í bókinni Sendiherrann eftir Braga Ólafsson heita líka götunöfnum.  Mér fannst það vera líka einhvers konar landslag. Hugsanlega er svona uppteiknun einn liður í því að losna undan hinu línulega, tölusetta formi prentaðrar skáldsögu.

Ólafur Jóhann velur ekki frumleg nöfn fyrir stigskiptingar  milli kafla og myndlíkingar í sínum sögum. Nöfn eins og Níu lyklar og svo mánaðarheiti í nýju bókinni sína það. Ef til vill er ást hans á tölusetningum tengt bakgrunni hans í eðlisfræði. En það hefði kannski verið frumlegra að nota efnafræðiformúlur sem kaflaskiptingar.  Hringrás kolefnis er kannski alveg eins góð kaflafyrirsögn eins og hver önnur.


mbl.is Economist hælir Grafarþögn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aumastir allra - Ólafía og vændiskonurnar

Ég hlakka til að lesa bók Sigríðar Dúnu um Ólafíu Jóhannsdóttur. Ólafía er ein af kvenhetjum okkar og hún barðist fyrir þá smáðu og hráðu í samfélaginu.  Stundum finnst mér heimurinn ekkert hafa breyst frá dögum Ólafíu. Alla vega eru þeir sömu aumastir allra og það eru vændiskonur og fíklar og ennþá eru þeir valdalausustu konur og ennþá fæðast og alast mörg börn upp á heimilum þar sem foreldrarnir eru fíklar og alkar. Hin hroðalegu morð  á vændiskonum í Ipswich eru í fréttum sögð eins og spennandi sakamálasaga og hryllingssaga þar sem framvindan er rakin í fréttum af morðum en jafnvel þó að fótum troðið fólk og verksumerki eftir ofbeldi sem það sætir út af því í hvaða stöðu það er í lífinu séu flennifyrirsagnir í dagblöðum þá  snýst kastljósið ekki að neyð fíkla og þeirra sem selja aðgang að líkama sínum heldur að því hversu kænn ofbeldismaðurinn er og hversu vel  og hversu lengi hann kann að dyljast og hversu snörp lögreglan er í að elta hann uppi.

Það er líka gengið út frá því að morðinginn sé einn maður en þannig þarf það ekki að vera þó að ofbeldið sé framið á líkan hátt í öllum morðunum. Það ofbeldi sem vændiskonurnar sem voru myrtar sættu í lífi sínu var ekki ofbeldi frá einum manni heldur frá fjölmörgum mönnum yfir langan tíma í samfélagi sem snýr blindu auga að neyðarvændi sem er ein  hryllilegasta birtingarmynd kynbundins ofbeldis.  

Ég skrifaði á blogg fyrir tveimur árum þennan pistil um Ólafíu: 

Aumastir allra
er nafnið á einu riti Ólafíu Jóhannsdóttur sem í öðru riti lýsti upp leiðina frá myrkri til ljóss. Hvað hefði Ólafía gert í Reykjavík nútímans, hún sem fyrir meira en öld stóð á peysufötunum fyrir utan rónastaðinn Svínastíuna og talaði um fyrir rónunum. Hún sem bjó meðal vændiskvenna og djúpt sokkinna fíkla í Kristjaníu og er núna kölluð Ólafía - Nordens Mor Theresa "den ulykkeliges ven".
Væri Ólafía ekki á fullu núna að trampa á viðskiptahugmyndum Geira í Maxims og hefði hún ekki norpað fyrir utan Kjallara Keisarans og Skipper á sínum tíma og væri núna að reyna snúa honum Bjössa og kúnnunum hans í Kaffi Austurstræti til betri vegar? Væri hún væri ekki að fylgjast með dílerunum á Netinu og vísitera e-pilluhallirnar í úthverfunum?

Mér finnst mikið til Ólafíu koma. Ekki bara af því að hún líknaði bágstöddum. Frekar út af því að hún gerði eitthvað til að breyta ástandinu.


mbl.is Ein vændiskvennanna sem myrt var í Ipswich var barnshafandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð dagsins er seiðmagnað

Til bókmenntaverðlauna eru tilnefndar bækur eftir  fágæta höfunda sem skapa seiðmagnað andrúmsloft og seiðmagnaðar bækur þar sem meginstefin eru sterkustu öflin í mannlegri tilveru.  Þetta er nú bara orðalag sem útgefandi hinna seiðmögnuðu sendir frá sér til að lýsa vörunni.  Ég vona alla vega að bækur Braga og Ólafs séu ekki eins bragðdaufar og  þessar seiðmögnuðu lýsingar. 

 En ég spái í hvort söguhetjurnar  Sturla Jón og Gísella Dal hafi einhvern sameiginlegan þráð, eitthvað sem bendir á tíðarandann og núið og núningsfletina á Íslandi.

 Þessa fann ég um Sendiherrann eftir Braga Ólafsson,
"Sagan af íslenska ljóðskáldinu Sturlu Jóni Jónssyni lýsir glímu hans við hinn miður ljóðræna raunveruleika, en einnig baráttu hans við glæpamanninn sem býr í okkur öllum. Hinn menningarlegi sendiherra lands síns þarf að bregðast við óvæntum áföllum á erlendri grund, en einnig gleðilegum eins og kynnunum af skáldkonunni Liliyu Boguinskaia, og hann þarf að kljást við þá ógn sem hans eigin sköpun hefur í för með sér - þau þungu sannindi að til að vera við sjálf þurfum við að stela frá öðrum. "

Þetta fann ég um Tryggðarpant Auðar Jónsdóttur
"Gísella Dal lifir fullkomnu lífi. Hún býr í stórri íbúð, er fastagestur á fínustu snyrtistofum, drekkur eðalvín og borðar exótískan mat, á milli þess sem hún skrifar stöku grein í tímarit, meira til gamans. En dag einn fær Gísella þær fréttir að ríkulegur arfur ömmu hennar sé uppurinn og að hugsanlega þurfi hún að fórna öllum sínum lífsstíl og fara að vinna fyrir sér. Þar til henni hugkvæmist að fá sér leigjendur ..."

Ég las líka ritdóminn sem Soffía Auður Birgisdóttir skrifaði um Tryggðapant í dag.

Alla vega er það sameiginlegt að bæði Sturla og Gísella eru ekki bændur eða vinna í fiski  ala Bjartur og Salka Valka  og virðist vera einhvers konar afætur og   sögur af þeim fjalla um Ísland og alþjóðavæðinguna. Sögusviðið er ekki sjávarþorpið eða bóndabærinn, núningurinn er ekki milli borgar og sveitar heldur milli Íslands og útlanda. 

Guðlausir menn er sennilega aðeins nýrri tónn í bókmenntum. Um þá ljóðabók segir: "Ljóðmælandi svo persónulegur að oft er eins og verið sé að lesa upp úr bloggsíðu, þar sem bloggað er í skjóli nafnleysis og persónuleg vandamál og holskeflur þær sem steypast yfir fólk eru gerðar opinberar. ". 

Blogg eru ekki endilega persónuleg en blogg eru saga sögð frá sjónarhóli og vitund þess sem skrifar. Það er fróðlegt að sjá hvernig bloggskrifmenning heldur innreið sína í bókmenntir. Sennilegt er að þeir rithöfundar sem munu vaxa upp á næsta áratug fái sína fyrstu skrifreynslu á bloggi. Bloggskrifmenning seitlar hægt og síast inn í bókmenntir, Hallgrímur Helgason gerði tilraun í fyrra með bloggandi sögupersónu.


mbl.is Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna kynntar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðrún Halldórs opnar dyr

Guðrún Halldórs áritar bókÉg fór á laugardaginn í Vinabæ en þar var fagnað útkomu á bók um ævi Guðrúnar Halldórsdóttur sem var lengi skólastjóri Námsflokka Reykjavíkur. Guðrúnu hef ég þekkt frá því ég byrjaði að kenna, hún kom oft í heimsókn í Ármúlaskóla því hún var vinkona margra  kennara þar, þau höfðu unnið  saman í Lindagötuskólanum.  Svo kynntist ég Guðrúnu betur í Kvennalistanum. Ég fór með Guðrúnu í vinnustaðaheimsókn í þvottahús ríkisspítalanna fyrir einar kosningar. Allir þekktu Guðrúnu og tóku henni eins og vini og velgjörðarmanni og glöddust yfir komu okkar og sýndu okkur vinnuferlið. Guðrún flutti  stutta  tölu í matsalnum, ég man að hún talaði um ólæsi, hún talaði um námsörðugleika og hún sagði frá fólki sem alltaf hefði týnt gleraugunum sínum þegar til stæði að lesa eitthvað.

Guðrún var alla sína tíð með púlsinn á því hvar þörfin var mest og hverjir þyrftu mest á menntun að halda. Einu sinni voru það konur í láglaunastörfum og atvinnulausar konur en seinustu árin hafa það verið útlendingar sem koma til landsins til að vinna láglaunastörf og störf þar sem ekki þarf að tala málið. Guðrún er ein af mestu kvenskörungum á Íslandi. 

Myndin er af Guðrúnu þegar hún áritaði bók sína og Myako Þórðarson  sem er prestur heyrnalausra. Myako er ættuð frá  Japan.


Æskulínan,Tröð , Alexander mikli, bílar og fílar

Ég skrapp áðan niður í bæ með dóttur minni. Nánar tiltekið í KB banka þar sem dóttirin tók út alla sína peninga af æskulínureikningnum. Hún hyggur á bílakaup og hefur stefnt að því frá því hún var níu ára. Þetta er allt búið að vera planað, fyrir mörgum árum kom hún með samning með sér úr skólanum sem við skrifuðum undir að við myndum borga fyrir hana bílpróf og ökutíma með því skilyrði að hún byrjaði ekki að reykja. Jafnframt hefur hún í mörg ár reynt að komast að samkomulagi um að við tækjum frekari þátt í kostnaði við bílaeignina svo sem bensíni og tryggingum. Samningatækni hennar er mikil og höfum við ekki roð við henni.

Í KB banka gæddi ég mér á kaffi og piparkökum, smart hjá þeim að bjóða upp á piparkökur með þrykktu merki bankans. Þetta merki myndi nú koma vel út í leir.

Við kíktum líka aðeins inn í Eymundsson, mig langaði til að sjá nýja bókakaffihúsið þar. Það er dáldil nostalgía í sambandi við það því að þegar ég var á sama aldri og dóttirin núna þá var á annarri hæðinni rekið kaffihúsið Tröð sem mig minnir nú að hafi verið ásamt Hressó og Mokka einu kaffihúsin sem ungmenni hengu á. Eða voru það kannski bara einu kaffihúsin í Reykjavík á þeim tíma. Tröð var langvinsælast meðal Kvennaskólastúlkna og síðar MR-inga og þar átti maður athvarf ef maður skrópað í tíma. Ég  sagði nú ekkert um skrópið við dótturina enda reyni ég í lengstu lög að halda í þá ímynd að ég hafa verið sílærandi á unglingsárunum og ekkert farið nema á bókasafnið. 

Ég fell alltaf fyrir tilboðum og þess vegna keypti ég bókina  Alexander mikla, sonur guðanna. Bók var líka ansi billeg, kostaði ekki nema 398 krónur í fjölþjóðlegu samprenti með fullt af litmyndum og kortum.  Ég benti dótturinni á að þetta væri eiguleg bók ef hún væri að leita að jólagjöfum fyrir vini sína. Hún taldi svo ekki vera.  Þannig er lífið bara, æskulýður þessa lands hefur meiri áhuga á bílum og spilastokkum en sögnum af Alexander og fílum hans. En ég fíla Alexander vegna þess að hann var lærdómsmaður og landkönnuður jafnframt því að vera kænn hermaður og stjórnmálamaður og konungur.


Ævisaga Hannesar

Fréttablaðið 21. nóv - Ævisaga HannesarÍ Fréttablaðinu í dag  (bls. 46) þá er umfjöllun um ævisögu Hannesar fyrsta bindi og er fátítt að bækur óþekkra ævisagnaritara eins og þetta ritverk Óttar Martins Norðfjörð fái svo mikla umfjöllun. Virðist umfjöllunin álíka mikil að vöxtum og stærð og bókin sjálf.  Þetta er náttúrulega líka meira í anda þeirra tískustrauma sem hafa verið í ævisagnaritun undanfarin ár, það eru miklu fleiri sem lesa og grufla í alls konar heimildarvinnu varðandi verkin og spá í hver sagði hvað og hver mátti afla upplýsinga um hvað og hver mátti vitna í hvað hver sagði við hvern og hvernig má hafa eftir orð annarra og hver ætti bara að halda kjafti.

Verk Óttars er sennilega listrænn gjörningur hans og óska ég honum alls hins besta á skáldbrautinni, hann hefur samið einnar blaðsíðu sögu og mun eflaust sækja um skáldalaun í opinbera sjóði til frekarri afreka á næstu árum.

En ég  vona að þessi umfjöllun í Fréttablaðinu sé ekki einhvers konar liður í því að klekkja frekar á Hannesi, mér sýnist það vera nóg komið og æði ójafn leikur. Auðmenn á Íslandi hafa möguleika á að tryggja að umfjöllun um sig og fjölskyldu sína sé þeim þóknanleg og það hefur meira segja komið fram í fjölmiðlum að þeir  hafa reynt að kaupa upp dagblöð beinlínis til að leggja þau niður vegna þess að þeir firrtust vegna umfjöllunar um fjölskyldusögu.

Eins hafa fjölskyldur þjóðþekktra rithöfunda sem stóran hluta af sínum starfsferli voru styrktir til skrifa sinna af almennafé gefið þjóðinni skjalasöfn þeirra við hátíðlega athöfn en svo hefur komið á daginn að þessi þjóð  var bara þeir sem fjölskyldan hafði velþóknun á og þetta var bara gjöf til fárra útvalinna.

Það hefur reyndar engin bók undanfarin ár fengið jafnmikla umfjöllun og fyrsta bindið af ævisögunni sem Hannes skrifaði um Halldór Laxness. Eftir einhverja áratugi verður þessi umræða eflaust notuð sem dæmi um tíðarandann á Íslandi rétt eftir árþúsundamótin.  

Myndin hér til hliðar er skjámynd af frétt Fréttablaðsins bls. 46 í dag 21. nóvember 2006. Um rétt minn (eða réttleysi) til að birta þessa mynd og vitna í þessa umræðu Fréttablaðsins þá má benda fólki á að lesa um höfundarétt á Internetinu

 


Stafrófskverið - flott framtak hjá bókasöfnunum

Það er frábært framtak hjá bókasöfnunum að gefa börnum í Reykjavík, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ stafrófskver. Vonandi er þetta byrjun á einhverju meiru í þessa veru.  Það eru ekki nema rúm fjögur þúsund börn í hverjum árangri á Íslandi og vonandi er öllum ljóst hverju miklu máli skiptir fyrir framtíðarsamfélag á Íslandi að börn fái gott veganesti út í lífið hvað menntun varðar. 

Umferðarskólinn hefur verið til fyrirmyndar undanfarin ár, sent ungum börnum bæklinga og kassettur. Ég man þegar dóttir mín sem núna er sautján ára og einmitt nýbúin að taka bílpróf og orðinn fullgildur ökumaður á Íslandi fékk kasettur og bæklinga frá Umferðarfræðslunni þegar hún var að mig minnir fjögurra ára þá var hún mjög spennt og ánægð og geymdi þetta eins og mikil djásn og var alltaf að hlusta á kassetturnar og maður þurfti endalaust að lesa upphátt fyrir hana  einhverjar sögur um Ella andarunga eða aðra sem voru að fara yfir götu og þurftu að læra umferðarreglurnar. Ég man hvað ég óskaði mér oft að menntakerfið á Íslandi væri eins vel skipulagt og umferðarskólinn og teldi það sitt hlutverk að senda börnum öðru hvoru einhvern glaðning og fræðsluefni.

Talandi um svona gjafir til barna og barnafjölskyldna þá bíð ég spennt eftir að íslenska ríkið  taki upp sama sið og Finnar og fagni hverjum nýjum Íslendingi með að senda þeim veglega sængurgjöf. Þetta hafa Finnar gert í mörg ár og það kemur stóreflis pakki með mörgu sem ungbörn þurfa fyrstu mánuði í lífi sínu og meðal foreldra ríkir spenningur yfir hvernig hönnunin verði í ár en mér skilst að það sé á hverju ári hannaður nýr sængurgjafapakki þ.e. mismunandi útlit á göllum og öðru. 

Ég átti yngri dóttur mína á háskólasjúkrahúsi í Ameríku og í því ríki markaðshyggjunnar þá fór ég klyfjuð út af spítalanum af alls konar vörum, stóru fyrirtækin sem selja ungbarnavörur gáfu gjafir eða sýnishorn af vörum sínum og spítalinn gaf sjálfur  ýmsar gjafir svo sem  sett með ýmsum nauðsynjahlutum og ýmis konar fræðsluefni fyrir nýbakaða foreldra.  Það var líka grannt fylgst með því að foreldrar hefðu komið sér upp ýmsum hlutum fyrir barnið svo sem barnabílstól og ég held að spítalinn hafi útvegað slíkt ef ég hefði ekki átt það fyrir.  

Í því ríki ofgnóttar sem við búum við núna þá finnst mörgum það eflaust óþarfi að fylgjast með nýjum foreldrum og gefa nýburum gjafir. En það er táknrænt að taka á móti nýjum þegnum með gjöf og það að allir fái sama pakkann (ný hönnun reyndar á hverju ári) er líka táknrænt - það segir meira en mörg orð um hvernig þetta samfélag ætlar að reynast þegnum sínum  og að sá andi svífi yfir vötnum að það eigi það sama yfir alla að ganga. 


mbl.is Börn á fjórða ári fá stafrófskver að gjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konungsbók og eineygður köttur

Á mánudaginn fór ég í bæjarferð, ég fór í heimsókn í gamla vinnustaðinn minn á Hverfisgötu 6. Ég held það séu margir mánuðir síðan ég kom í miðbæ Reykjavíkur. Ég var alveg búin að gleyma hvað það er vont veður alltaf þarna við Arnarhól, ískaldur vindstrengur næðir um allt. Það er annað veðurbelti þarna en hérna í Sigtúni það sem er skjöl úr öllum áttum og ylur að neðan úr iðrum jarðar. Eða það er bara svo kalt núna um allt Ísland að hvergi er skjól. Síðustu daga hef ég velt fyrir mér af hverju maður er eiginlega að búa hérna á þessi rokskeri í  Atlantshafinu, það hljóta að vera vera aðrir betri kostir til að verja þessari takmörkuðu jarðvist á. Ég held nú reyndar að Ísland gerist ekki napurra en núna, ískuldi og stormur og svo hellist skammdegið yfir  þyngra og drungalegra með hverjum degi.

Það er einmitt á þessum árstíma sem þörfin fyrir drauma og sögur er mest. Núna eru líka jólabækurnar að koma út. Á mánudaginn eftir heimsóknina í stjórnarráðið þá fór ég á Súfistann og sat þar góða stund (lesist  margar klukkustundir) og drakk kaffi og las konungsbók eftir Arnald og eineygða köttinn eftir Hugleik Dagsson. Ég valdi þessar bækur vegna þess að núna hafa bæst á listannn yfir framtíðarplön mín að skrifa sakamálasögu og gerast skrípamyndahöfundur og ég er að stúdera "tricks of the trade" hjá meisturum.  Konungsbók byrjaði vel, gaman að lesa svona kunnugleg íslensk minni í bland við hefðbundnar hryllingssagnasenur, rigningu og nótt og grafarrask. Söguhetjurnar tvær eru líka skemmtilegir karakterar, sérstaklega sögumaðurinn sem kann manna best að ráða í letur og lesa merkingu úr gömlum skræðum. Ég var spennt þegar minnst var á Jón Sigurðsson (sómi Íslands, sverð og skjöldur) og vonandi að hann yrði einhver sögupersóna en það þannig var það nú ekki. Ég hafði nefnilega hugsað mér að hann yrði ein af sögupersónum í minni sögu, hinn ungi og iðni og alvörugefni og nákvæmni Jón Sigurðsson sem fær vinnu í Kaupmannahöfn hjá Finni Magnússyni leyndarskjalaverði við að búa til prentunar hið mikla ritverk Finns um rúnirnar.  Mín saga myndi heldur ekki fjalla um Konungsbók heldur um rúnabókina hans Finns.  Ég fékk margar góðar hugmyndir úr Konungsbók en ég missti þráðinn í bókinni eftir fyrstu kaflanna þegar þetta fór að verða eltingaleikur út um allar trissur svona í anda Da Vinci lykilsins. En svo endaði ég með að glugga í eineygða köttinn eftir Hugleik og ákvað strax á fyrstu blaðsíðunum að kaupa hana til að gefa í jólagjöf.  Sekúndu seinna snerist mér hugur og ég hætti við að gefa hana í jólagjöf, ég tími því alls ekki. Þetta er bók sem ég verð að eiga sjálf. Það þótt að ég sé löngu hætt að safna teiknimyndasögum. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband