Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Akkurat núna

Akkúrat núna hef ég enga orku til að æsa mig vegna Icesave. Ég horfi út um stofugluggann hjá mér, ég horfi á lögreglubíl hér beint fyrir utan húsið og rústasvæðið frá gömlu gróðurhúsunum í Sigtúni og hóteltvíburaturninn í baksýn.  Rétt áðan voru líka tvo lögreglumótorhjól hérna í innkeyrslunni og liðsafnaður í garðinum.  Það er mikill æsingur og það eru hér margir lögreglumenn og margir sem ég þekki ekki og búa ekki hérna. Mér finnst eins og hérna í götunni hafi verið gerð skyndiárás, árás í því stríði sem núna geisar á Vesturlöndum, í stríði  þar sem barist er með fjármálasjónhverfingum og hinir sigruðu eru fjötraðir niður með skuldum, í stríði þar sem fótum er kippt undan fjölskyldum  í einu vettfangi og lífsafkoma fólks og framtíðarvonir leystar upp. Í þessu stríði hafa margir flosnað upp úr heimkynnum sínum og ekki náð að festa rætur á nýjum stað. Örvænting, vonleysi og rótleysi í íslensku samfélagi eru ekki mælanleg stærð, ekki tala sem hægt er að birta með tveimur aukastöfum í hverri viku eins og tölur um atvinnuleysisprósentur. En sá sem horfir út um gluggann heima hjá sér og horfir á umheiminn líða framhjá og horfist í augu við ástandið skynjar hversu heldjúpar sprungur eru núna í íslensku samfélagi.

Núna finnst mér mínar áhyggjur  lítilfjörlegar. Ég ætlaði að skrifa blogg um áhyggjur mínar af ferðalögum dætra minna á hálendi Íslands og fyrirhuguðu ferðalagi sambýlismannsins á hásléttur Afganistan.

Akkúrat núna eru dætur mínar á gangi á hálendinu, þær hafa verið á göngu í nokkra daga milli Landmannalauga og Þórsmerkur, ef til vill eru þær núna að vaða Þröngá, ána sem er einn helsti farartálminn á Laugarveginum. Hún er straumhörð og mórauð jökulsá þar sem ekki sést til botns. Þær eru á eigin vegum þrjár saman, dætur mínar og dóttir systur minnar. Þær eiga að koma niður í Þórsmörk í dag en ég fæ væntanlega ekki fréttir af ferðalagi þeirra fyrr en þær koma til byggða. Ég nestaði þær með GPS tæki með Íslandskorti svona til að koma í veg fyrir að þær villtust í þoku upp á hálendinu. En núna sé ég að ég hefði átt að gera betur, ég hefði líka átt að láta þær fá kaðal, svona líflínu fyrir fólk sem veður jökulfljót. Vonandi hafa þær beðið eftir öðrum hópum þegar þær komu að Þröngá áður en þær fóru yfir. Ég held nú reyndar að áin sé ekkert hyldjúp, bara upp í mið læri en hún er straumhörð og mórauð. 

Um það leyti sem dæturnar koma af fjöllum er áformað að  Magnús fari til Kandahar í Afganistan. Hann fer þangað í sex mánuði sem starfsmaður Rauða krossins en hann er búinn að vera um tíma á  veraldarvakt íslenska Rauða krossins, það er viðbragðslisti þeirra sem fara með litlum fyrirvara á átakasvæði í heiminum. 


mbl.is Icesave-ábyrgð úr ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steypueiningar, húsbrot og bankarán og átakið "reclaim the land" hefst

gulapressan1998-logo.jpgFyrir rúmum áratug eða   1. febrúar 1998 eða sama dag og Morgunblaðið opnaði sinn fréttavef mbl.is þá gaf ég út mitt fyrsta veftímarit. Útgáfan var svolítið endaslepp enda var þetta grín og paródía á moggavefmiðilinn og hét minn miðill Gula Pressan - Skammtímarit og má ennþá finna það eintak á vefnum.

gulapressan1998.jpgNúna  er ástandið þannig á Íslandi að fólk stelur undirstöðum undan húsum hvert hjá öðru og allt er í eigu einhverra þrotabúa og örvinglað fólk brýtur sundur húsin sín og grefur bílana sína svo engum nýtist það sem hirt er af þeim upp í kröfur. Það er engum hlátur í hug á Íslandi í dag, við höfum öll á tilfinningunni að við höfum verið rænd.  Vanalega væri fyndið að fólk steli kjöllurum í heilu lagi, jarði bíla og mölvi hús. En til að létta lundina þá lími í hérna inn eina grínfréttina í vefmiðlinum mínum árið 1998, það er frétt um bankann sem var stolið í heilu lagi. Þetta er sönn saga, það var á þeim tíma núbúið að setja upp hraðbanka fyrir framan skrifstofuna mína og svo einn daginn þá var hann horfinn. Þjófarnir höfðu komið á sendiferðabíl og stálu bankanum. Í heilu lagi. Hann fannst svo seinna og ég man ekki einu sinni hvort peningarnir hafi glatast Ein einmitt þetta gerðist fyrir framan augun á okkur. Bönkunum var stolið, fjármálakerfi heillar þjóðar var stolið, ekki í vopnuðu ráni heldur með því að rífa upp bankann og aftengja hann og fara með bankakerfið á þeytingsreið út í hinn stóraheim alþjóðlegra fjárglæfra og þar var bönkunum breytt í peningafroðumargföldunaspeglasali sem virkuðu meðal einhverjir trúðu á það sem þeir sáu í speglunum. 

Núna síðustu daga hef ég verið að safna andlegum þrótti og hvíla mig á þessum hroðalegu aðstæðum í samfélaginu, ég hef plantað og ég hef sáð og umpottað og unnið í garðinum.  Núna eru svalirnar hjá mér undirlagðar í alls konar sáningum. Hér er mynd af hluta svalanna. Þarna má sjá rauðar lúpínur sem munu blómstra næsta sumar, kál og baselikum og svo mjög bústnar og bragglegar jurtir sem komu upp af fræi sem ég tíndi á götum  Kaupmannahafnar í fyrra. Ég hef eitthvað klikkað á merkingum, ég hefði bara merkt þetta "dönsk fræ" en ég h eld helst að þetta séu Stokkrósir, fræ af jurtum sem uxu nánast upp úr götunni.  En það verður spennandi að fylgjast með hvort ég hef á réttu að standa. Ef þetta eru stokkrósir þá eiga þær að blómstra næsta sumar.

 

svalir-kroni-og-krona.jpgSvo er ég komin út í alls konar skreytilist í þessari garðrækt minni, ég er í óða önn að koma mér upp búálfum og ýmsu glingri til að punta garðinn. Því meiri litadýrð, því meiri sundurgerð, því betra. Ég er nú ekki komin lengra en að fá mér sparibaukana frá Sparisjóðnum, sparibaukana Króna og Króni. Þetta verða svona kreppubúálfar, krónuálfar en þá keypti ég í Góða hirðinum fyrir 150 kall stykkið.

Það er skemmtilegt að sá fræum og rækta eitthvað þegar kreppan veður yfir og allt er að hrynja og deyja. Ég er líka komin í hljóðlátan umhverfisaktívisma og mér segir svo hugur um að ég muni halda áfram á þeirri braut en kannski ekkert   Ég er að æfa mig í svona "reclaim the land" hérna í Reykjavík og byrja á malbikinu hinu megin við götuna hjá mér. Þar er ég búin að planta blómrunna beint ofan á malbikið og gróðursetja fleiri jurtir. Hér er útsýnið frá svölunum hjá mér, það sést í borgareyðimörk og rústasvæði hinum megin við götuna og mér sýnist að núna sé verið að taka það undir einhvers konar athafnasvæði fyrir bíla og geymslusvæði fyrir rusl. Þarna má sjá geymda ferjubifreiðar túrista, þarna bíla núna raðir leigubifreiða og þarna eru geymdar stórar kerrrur og vörubílar og steypumót.  Ég setti appelsínugulan hring á myndina sem sýnir hvar ég gróðursetti runnann.

svalir-reclaim-the-land.jpg

En ég horfi á svæðið hinum megin við götuna sem tæplega verður byggt á í bráð, svæðið þar sem gróðurhúsin stóðu áður, gróðurhúsin sem seldu draslið frá Kananum á Vellinum og voru svo mölvuð og hugsa um hvað gráupplagt er að nota svona svæði til að gera Reykjavík að fallegri og manneskjulegri stað, ég hugsa um hvað fólk er á rangri leið sem heldur að Hiltonhótela-grandhótela túrismi sé ferðamennska framtíðarinnar, svona túrismi sem ferjar hópa milli bláa lónsins og kreppumusterisins sem kallast líka "tónlistar- og ráðstefnuhús"

Ég held ekki að lóðarhafar rústasvæðanna skili lóðunum með góðu og ég held að við borgarar í Reykjavík verðum að sýna fulla hörku núna ef við ætlum ekki að láta borgina grotna niður í eitt stórt gettó. Það er full ástæða til að nota óhefðbundnar aðferðir til að ná borginni aftur úr klóm malbiks og fjárglæfra.

Hér eru tenglar um sveit í borg

City Farmer News

Reclaiming Vacant Land


mbl.is Misskilningur í Úlfarsárdal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona getur farið fyrir Kárahnjúkavirkjun

Það er átakanlegt að lesa um húsið sem fyrrum eigandi reif á Álftanesi.  Það er ekki séríslenskt vandamál að fólk sé að missa húsin sín en það er hins vegar  sú blekking við lýði á Íslandi að hér sé velferðarkerfi þar sem hlúð er að öllum þjóðfélagsþegnum í neyð og hér séu slegnar skjaldborgir utan um heimilin.....sem er svolítið skrýtið því á hverjum degi heyri ég af fjölskyldum sem eru að flosna upp, eru ekki lengur sjálfs sín og flytja heim til ættingja til að spara eða reyna að flytja þröngt saman og leigja sínar íbúðir því fólk hefur ekki ráð á að búa lengur í þeim. En af því að allir gera það sama og margir flytja líka úr landi þá hrynur leigumarkaður og fólkið sem flutti úr íbúðum sínum til að eiga fyrir afborgunum verður að sætta sig við að borga á milli. Dáldið klemmd staða fólk verður skuldaþrælar, fjölskyldur á húsgangi og samt að borga með húsnæði sem reynt er að leigja út, mér sýnist þetta vera það sem stjórnvöld kalla skjaldborg um heimili. Ég er ennþá að átta mig á því í hverju þessi skjöldur er fólginn.

En í USA þá er enginn blekkingarleikur um norrænt velferðarkerfi og skjaldborgir í gangi, eina leiðin sem stjórnvöld þar í landi hafa er að fara í stríð til að dreifa athyglinni frá innanlandsvandamálum eins og uppflosnun og atvinnuleysi og örvæntingu. 

Í USA vita þær fjölskyldur sem ekki geta staðið í skilum og ekki geta fengið lán hjá ættingjum og vinum að það er bara ein leið og hún er sú að senda bankanum sem lánaði lyklana í pósti og fara. Þetta er kallað JINGLE MAIL  eða hringlandi lyklar og er mjög algengt.  En það er líka mjög algengt að þeir sem þurfa að yfirgefa hús sín eyðileggi sem mest, stífli leiðslur og niðurföll og skilji allt eftir í drasli.  Bankarnir gera ráð fyrir þessu og raunar hafa sumir þann hátt að þeir borga fyrrum eigendum ákveðna upphæð ef húsið er ekki skemmt og leiðslur í lagi. 

Hér er vídeó sem lýsir ástandinu og aðkomunni í mörgum gjaldþrota heimilum í Suður Californiu sem fólk hefur yfirgefið. Þeir sem þurfa að tæma húsin eru í sömu aðstæðum og svo fá einhverjir vinnu við að mála grasið grænt með sérstökum úðurum því yfirgefið hús þýðir yfirgefinn garður og sölnað gras. 

Sjá einnig þessa grein um húsnæðisástandið í Suður- Calíforníu og gjaldþrotin þar.

Ástandið í USA er sérstaklega slæmt í Californíu, fólk hrekst á vergang úr húsum sínum og bankarnir eiga heilu borgarhverfin og geta engum selt mannlausu húsin með lituðu grænu grasi.  En ofan á þetta bætist að fylkið Kalífornía er að verða gjaldþrota en þar er fylkisstjórinn Arnold Schwarzenegger sem gerði garðinn frægan sem Tortímandinn."

 Húsið sem var rifið á Álftanesi ætti að vekja okkur til vitundar um hve tortímandi aðstæður geta skapast þegar  þjóðir eða landssvæði eða fylki geta ekki staðið við fjárhagslegar skuldbindingar. Ríki geta ekki flutt heim til pabba og mömmu eða annarra ættingja, ríki hafa engan bakstuðning, ríki eru sjálf stoðin fyrir samfélagið. En þegar ríkið leysist í sundur vegna þess að það getur ekki staðið við skuldbindingar sínar og þegar lánadrottnar reyna að ganga að eignum ríkisins þá getur það sama gerst og með húsið á Álftanesi. Það getur verið að þegnar sem áður voru löghlýðnir og töldu að samfélagsleg verðmæti væru í allra þágu fyllist örvæntingu þess sem er eins og hermaður á undanhaldi, sá sem hefur engu að tapa, sá sem vill ekki að nein verðmæti fari í hendur þeirra sem koma með innrásarher og brenna frekar uppskeruna á ökrunum en hún fari í óvinahendur.

Það er mjög mikilvægt að fólk átti sig strax á hve brothætt ástandið er í heiminum, átti sig á að niðurfelling skulda og uppstokkun fjárhagslegra verðmæta á einstaklinga, fjölskyldur og þjóðir er nauðsynleg í kerfi þar sem kerfishrun hefur orðið, nauðsynleg til að forða því að allt annað og alvarlegra hrun verði, hrun sem er ekki fjárhagslegs eðlis heldur hrun samfélags þar sem ekkert heldur því lengur saman og ekkert heldur því lengur uppi.


mbl.is Bankinn fékk ekki lyklana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðbæjarkonungsdæmin

 sirkus-kongar-midbaejarins.jpg

Í frétt á   Visir.is eru  nafngreindir þeir  sem hafa verið settir í gæsluvarðhald .  Það er innflutningur á fíkniefnum og peningaþvætti sem þeim er gefið að sök. 

Ég sá á bloggi að einn sem ber sama nafn og sá sem nú hefur verið handtekinn  hafi á sínum tíma verið í vinnu hjá hinum athafnasömum miðbæjarkóngum að sannfæra fólk um að selja sér hús á Hverfisgötunni og við Laugarveg. Það getur nú ekki verið sami maðurinn, aldurinn passar ekki en þetta vakti áhuga minn á því að pæla sérstaklega í húsauppkaupunum í miðbænum.

Hér er mynd úr Sirkus um uppkaup eigna.

Björgólfsfeðgar reyndu í gegnum ýmis fyrirtæki að kaupa upp húseignir í miðbæ Reykjavíkur. Ég er ekki viss um að tilgangur þess sé ennþá alveg kominn upp á yfirborðið, það virðast hafa verið búið til ýmis fyrirtæki til að kaupa upp húseignir sem þeir voru ekki beint skrifaðir fyrir en keyptu svo t.d. voru  félögin Rauðsvík ehf og Vatn og land ehf keypt af  Björgólfsfeðgum árið 2007 og voru þau félög áður skráð á Þorstein Steingrímsson fasteignasala en hann er (eða var) m.a. skráður fyrir Heilsuverndarstöðinni í Reykjavík og keypti mikið upp af fasteignum í miðbænum. (Sjá Björgólfsfeðgar leggja undir sig miðbæinn). Þannig virðist hafa verið planað í langan tíma að safna eignum á ákveðnum svæðum. Það getur vel verið að Björgólfsfeðgar hafi safnað þessum eignum í tilgangi sem er ekki ljós ennþá og þeir séu að vinna fyrir einhverja aðra á sama hátt og aðrir hafa verið að vinna í þeirra þágu í aðskildum félögum við að kaupa upp eignir og sannfæra fólk um að selja.

Ég veit ekki hvernig fólk var sannfært um að það ætti að selja Björgólfum sitt húsnæði, sennilega og vonandi í gegnum hátt verð en   húsið á Vatnsstíg sem hústökufólkið tók yfir var einu sinni í eigu fyrirtækis þeirra Vatns og lands ehf  en mun núna vera í eigu ÁF hús ehf sem er eignarhaldsfélag í eigu Ágústs Friðgeirssonar sem mun vera bróðir Ásgeirs Friðgeirssonar sem var talsmaður og upplýsingafulltrúa Björgólfsfeðga. (Sjá hér  Réttur hvers?)

Hugsanlega eiga Björgólfsfeðgar eða fyrirtæki í fyrirtækjaflækjum þeirra eða einstaklingar sem sérstaklega hefur verið falið að vera skráðir fyrir eignum ennþá  hluta af þeim húsum sem þeir keyptu upp. Björgólfsfeðgar áttu  Samson properties ehf, Crosshill BV, Rauðsvík ehf, Samson Partners-Properties 1 ehf, Sherman Properties Finance SA, Vatn og land ehf, Ópera fjárfestingar ehf og ótal mörg önnur fyrirtæki.

Hér er mynd úr DV af eignum sem Engilbert tengist:

daudahusin-engilbert5jan06.jpg Annars átta ég mig ekkert á því  hver á eða átti hvaða hús í bænum, það eru fyrirtæki eins og Land og vatn sem virðast hafa átt eða eiga sum sömu hús við Laugaveg og Hverfisgötu og fyrirtæki tengd Engilbert  Runólfssyni eins og Stafna á milli, Frakkastígur, Eignasmári, Hverfisgata 59 sjá bls. 10 5. jan 2006 í þessu DV blaði.

Ég veit ekki til þess að það séu tengsl milli Engilberts Runólfssonar og Björgólfsfeðga nema þeir eru báðir nefndir sem eins konar miðbæjarkóngar sem kaupi upp hús í miðbænum.

Það gerðist margt hræðilegt í hinum niðurníddu húsum við Hverfisgötu þegar dópistar dvöldu þar. Það var framið morð á Hverfisgötu 58.

Það er því miður þannig ástand núna að mörg hús eru ekki í notkun og standa auð. Stundum hafa eigendur gefið einhverjum húsin bara til að losna við þau


Hér eru nokkrar greinar um miðbæjarkonungsdæmin:

KÓNGAR MIÐBÆJARINS

Engilbert Runólfsson Miðbæjarkóngur með dóma fyrir dóp, fjársvik ...

Fjöldi ungs fólks svipti sig lífi fyrir jól, segir lögregla

Silfur Egils » Skuggaprýði


mbl.is Í gæsluvarðhald vegna fíkniefnamáls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver á fiskinn í sjónum, Ólafur ÓIafsson eða íslenska þjóðin?

Ólafur á Ker, Ker á Eglu, Egla á Kjalar (eða var það öfugt? eða var það bæði?), Kjalar á HbGranda og HbGrandi er að stofninum til gamla bæjarútgerð okkar Reykvíkinga og stærsta sjávarútvegsfyrirtæki á landinu og á gríðarlegar aflaheimildir. Stærsta eign Eglu er krafa á Kjalar.

 

Það hefði verið alveg ágætt fyrir Reykvíkinga að eiga bæjarútgerð núna, ágætt að eiga kvóta fyrir byggðalagið hérna og ágætt að geta stýrt því þannig að fiskur væri seldur eða nánast gefinn til efnalítilla fjölskyldna á Íslandi. Þannig var farið að í öðrum kreppum og því stýrði Jónas frá Hriflu ef ég man rétt.

 Núna sýnist mér að búið sé að samþykkja nauðasamninga upp á 15% af kröfum í Eglu einmitt af því að eignir í Kjalari (þ.e. stærsti hluthafi í HBgranda) muni þá glatast. Ég fæ ekki betur séð en einhver sé með þessu að fá yfirráðarétt yfir stórum hluta fiskveiðikvóta Íslendinga fyrir slikk. Er það Ólafur Ólafsson? Eru það ríkisbankarnir?

Ég er alveg sátt við að ríkisbankarnir eigi hlutann í Kjalari en ég er mjög ósátt við ef eitthvað möndl og baktjaldamakk er með þessi gríðarlegu verðmæti, verðmæti sem eru verðmæti okkar Reykvíkinga, þetta er kvóti sem er tilkominn vegna veiða fyrirtækis sem er að stofni til gamla bæjarútgerðin okkar, fyrirtæki sem var selt vegna þessarar einkavæðingartísku.

Er til of mikils mælst að þeir sem standa að þessum nauðasamningum og það hljóta að vera íslensku bankarnir upplýsi almenning í Reykjavík um hver muni eftir þessa nauðasamninga ráða yfir hlutnum í HBGranda?

Er til of mikils mælst að almenningur á Íslandi fái upplýsingar um hvað felst í gjaldeyrissamningi Kjalars við gamla Kaupþing?

Á meðan HbGrandi var á hlutabréfamarkaði þá keypti ég bréf í því fyrirtæki, ég vildi á þann hátt eiga skerf í sjávarauðlindum Íslands og reyna að hafa mín áhrif á hvernig máum væri stjórnað þar. Ég bauð mig fram í stjórn HBGranda í hitteðfyrra en hafði enga möguleika, litlir hluthafar hafa enga möguleika vegna þess að félög eins og Kjalar eiga meirihlutann. Það að HBGrandi hafi verið almenningshlutafélag var bara skrípaleikur. Það eru menn eins og Ólafur Ólafsson sem hafa átt bak við tjöldin í einhverri fyrirtækjaspagettikássu allan kvóta sjávarútvegsfyrirtækja eins og HbGranda. Það er ekkert í regluverki sem hindrar að þessar fyrirtækjaspagettikássur geti verið í eigu einhverra sem eiga sín skjól á Tortúlaeyjum og svipuðum stöðum. Ekkert nema vökult auga okkar almennings sem fylgjumst með fjármálaumhverfinu og heimtum að almenningur á Íslandi ráði fyrirtækjum eins og HBgranda.

Hér segir: Skuldir Eglu eru rúmir 8,3 milljarðar króna, á meðan áætlað verðmæti eigna félagsins nemur um 1,2 milljörðum króna, eða ca. 15% af skuldum.

Það sem ég er mest hrædd um er að í þessum nauðasamningum felist að Ólafur Ólafsson haldi áfram hlutnum í HBgranda. Það sem ég er líka hrædd um er að lánadrottnar Eglu séu erlendir aðilar sem Ólafur hefur fengið lán hjá til að kaupa hlutinn í HbGranda. 

Ég er að reyna átta mig á hlut Ólafs Ólafssonar í íslensku viðskiptalífi, Ólafur hefur alltaf verið talinn tengjast Framsóknarflokknum og mér finnst nauðsynlegt að það sá upp á borðum hvernig sú tenging hafi verið. Í öllum flokkum þarf að eiga sér stað opinská umræða og hreingerning. Ég hef heyrt þessa sögu með brotakenndum hætti og sumt af því ber ekki viðskiptaháttum ólafs vel söguna. Þannig virðist hann oftar er einu sinni hafa þóst vera eitthvað erlent fyrirtæki en það verið bara leppur.  Þannig mun hann hafa gengið undir nafninu  Hauck und Aufhäuser á sinni tíð og þóst vera virtur erlendur banki. Það var á þeim árum sem erlend fyrirtæki þóttu voða fín (áður en við uppgötvuðum að þau eru mestmegnis pósthólf á tortúlaeyjum) og það átti að einkavæða íslenska banka með því að því að erlendir aðilar væru með og legðu inn sína reynslu og sérfræðikunnáttu. 

Það eru þrír athafnamenn sem hafa verið bendlaðir við Framsóknarflokkinn. Þeir eru Ólafur Ólafsson, Sigurður Einarsson og Finnur Ingólfsson. Ólafur Ólafsson er sonur stjórnarformanns Sambandsins og Sigurður Einarsson er sonur  ráðherra Framsóknarsflokksins. Finnur Ingólfsson var ráðherra Framsóknarflokksins. Það er nokkuð ljóst að allir þessir menn fengu upphaflegan meðvind í athafnalífi vegna tengsla sinna við Framsóknarflokkinn og Sambandið. 

 

Ég safna hérna fyrir saman ýmsu sem ég finn á Netinu um viðskiptanet Ólafs Ólafssonar til að reyna að glöggva mig á því hver á hvað. það er nú ekki auðvelt.

Ólafur Ólafsson, einkavæðing bankanna og pólitísk spilling

Slóð Ólafs Ólafssonar um íslenskt athafnalíf er ekki beinlínis saga þar sem öll eignatengsl eru gagnsæ og upp á borðinu.  Hann er einn af þeim sem spiluðu með fjöregg Íslendinga og hann gerði það án þess að almenningur á Íslandi vissi hvað væri að gerast. Ég er reið öllum þeim sem hafa atvinnu af eða voru kosnir fulltrúar fólksins sem hefðu átt að fylgjast með fólki eins og honum en gerðu það ekki og vöruðu ekki við. 

 

(2006) Kjalar á meirihluta í Ker, Ker á Olíufélagið, Olíufélagið á stóran hluta í KEr

(2006) Kjalar á meirihluta 87 % í Ker. Helstu eignir Kers hf. eru Olíufélagið ehf. og stórir hlutir í Samskipum hf., SÍF hf. og Iceland Seafood International ehf. Þá á Ker 68% hlut í Eglu hf. sem er eignarhaldsfélag um 10,88% hlut í Kaupþing banka hf. Kjalar ehf., félag Ólafs Ólafssonar, á nærri 28% hlut í Eglu.
Jafnframt á Ker um 56% hlut í fasteignafélaginu Festingu ehf. sem varð til árið 2003, við skiptingu Kers, þegar fasteignir Olíufélagsins voru færðar yfir til Festingar og síðar sömuleiðis fasteignir Samskipa og eignir frá Sundi. Festing hefur nú keypt alla hluti Sunds ehf. og J&K eignarhaldsfélags ehf. í Festinu

 Kjalar á 90% í Samskipum og 33% í HB Granda. Þá átti hollenskt félag í eigu Eglu 40% hlut í Alfesca. Ólafur var (er kannski ennþá?) stjórnarformaður Samskipa og SÍF. Hann átti líka félagið Serafin shipping og mun það félag hafa orðið sjötti stærsti eigandi í Icelandic Group (átti Sjóvík sem sameinaðist Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna) og átti 6 %. Þessum eignarhlut var skipt niður á tvö félög Fordace Limited og Deeks Associates Ltd. væntanlega til að komast hjá tilkynningaskyldu í Kauphöll.

Eigendur Eglu eru Ker, sem er að hluta til í eigu Ólafs Ólafssonar og Kjalar, með 68 prósenta hlut, Kjalar með 28 prósenta hlut, sem einnig er í eigu Ólafs Ólafssonar og Grettir, með fjögur prósent. Stofnendur Eglu voru Ker, Vátryggingafélag Íslands og Hauck & Aufhaeuser

Ólafur Ólafsson átti Serafin Shipping

Ólafur Ólafsson reynir að verja vígin amx

Kjalar vill knýja fram skuldajöfnun
Kjalar krefst uppgjörs á gjaldeyris­samningi við Kaupþing


 

 


mbl.is Egla á 15% upp í skuldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Twitter var bannað í Kína og núna heimta Kínverjar njósnaforrit í allar tölvur

Erlendar fréttir á mbl.is eru þýddar að mestu leyti beint af BBC. Þannig er um þessa frétt um sprungnu twitter bóluna, hún er bein endursögn og stytting úr BBC grein. Það er út af fyrir sig ekkert slæmt, gott að fólk á Íslandi sem er ekki sleipt í ensku skuli hafa aðgang að hraðsoðnum þýddum fréttum á einföldu máli.

Það sem er verra er að val frétta á mbl.is  er ekki að velja það sem skiptir máli og fjalla um það sem skiptir máli upp á framtíð okkar á Íslandi og í heiminum  og vekja athygli á hættum og mannréttindabrotum heldur að styggja ekki umheiminn, sérstaklega hvað varðar  íslenska viðskiptahagsmuni og að flytja fréttir sem segja þá sögu sem viðtakandinn þ.e. lesandinn vill heyra.

Í fréttinni  um sprungnu twitterbóluna  er inntakið að fáir skrifi inn á twitter en margir séu notendur.  Allir sem lifa og hrærast í netheimum vita að það er mikil blekking í gangi um fjölda notenda á öllum félagsnetum. það eru miklu færri virkir en tölurnar yfir þá sem einhvern tíma hafa skráð sig. Það er mikill munur á fjölda virkra notenda og á þeim sem skrá sig á einhverja netþjónustu.  En það er vaxandi fjöldi sem notar twitter og notkunarmöguleikar svona örbloggs eru að sýna sig á fleiri og fleiri sviðum, ekki síst með öflugum leitarvélum sem leita í twitterstraumum.  Einnig að með verkfærum eins og twitter má tengjast ýmsum öðrum netverkfærum og senda boð milli kerfa og twitter er verkfæri sem hentar fyrir Internet þeirra sem eru nota símann fyrir sínar uppfærslur.

Það er hins vegar ekkert skrýtið að það séu aðeins örfáir sem setja inn efni. Þannig er það um flesta fréttamiðlun, það eru tiltölulega fáir sem setja inn fréttir á mbl.is en það eru margir lesendur. Hlutfallið þar er ábyggilega frekar mælt í 1/1000 heldur en 1/10.

Reyndar er mesta hættan sem vofir yfir Twitter ekki sú að nokkrir notendur setji inn mest af efninu og hafi flestu uppfærslurnar heldur það að "hype"-ið í kringum Twitter hefur orðið til að margir sem eru að selja vöru og þjónustu ánetjast þessu verkfæri og reyna að þrengja sér inn í félagsnet sem þar eru. Þannig getur twitter auðveldlega orðið eins og mörg önnur verkfæri sem maður hefur gefist upp á vegna þess að þau eru orðin mestanpartinn einhverjar dulbúnar auglýsingar og þeir sem skrá inn í félagsnetin eru ekki fólk heldur róbotar sem pósta undir mörgum nöfnum til að vekja athygli á einhverri vöru og þjónustu. Það þarf samt ekkert að kvíða því, ef twitter klikkar þá er bara að fara yfir í eitthvað annað örbloggskerfi sem auglýsendur hafa ekki ennþá tekið yfir og skafið innan úr.

Svo ég lýsi eigin reynslu af twitter þá er hún tvenns konar. Annars vegar sem notandi, þetta er ágæt leið til að bæði skrá minnispunkta fyrir sjálfan sig og til að koma míkrófréttum á framfæri, vekja athygli á slóð eða vídeó og það er einfalt að tengja facebook og twitter saman.

En þessi not mín af twitter til að pósta sjálf þar inn eru miklu veigaminni en þau not sem ég hef af twitter sem leitarvél. Þannig er að google er ekki nógu góð leitarvél fyrir það sem er að gerast hér og nú en http://search.twitter.com er mjög fín vél fyrir það. Hópar sem vilja koma einhverju áleiðis eru líka farnir að nota svona "hash tags" eins og að merkja twitter með #icesave ef maður væri að fjalla um icesave samning.  Svoleiðis notkun færist í vöxt og það var svoleiðis notkun sem kínversk stjórnvöld voru að reyna að koma í veg fyrir með því að banna twitter og fleiri tól.

En aftur að því sem átti að vera efni þessa bloggs. Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum að innantómri aulafrétt  á mbl.is um að 10 % notenda á twitter séu með mest af efninu í vefmiðli þar sem ábyggilega minna en eitt prómill notenda hraðsýður fréttirnar sem þýddar eru frá bbc heldur að vekja athygli á frétt sem ekki er á mbl.is og það er ný  frétt um njósnaforrit sem kínversk stjórnvöld heimta nú að sé sett í allar nýjar pc tölvur. Þetta njósnaforrit á að nafninu til að vera til að koma í veg fyrir klám en í rauninni er forritið til þess eins að láta stjórnvöld í Kína geta stanslaust dælt inn í allar tölvur í landinu nýjasta listanum um hvaða vefsíður eru bannaðar. Þetta er hryllilegt, hvað heldur fólk að svona aðstaða stjórnvalda geti þýtt fyrir mannréttindi í landinu?

hér er grein um þetta

 China Requires Censorship Software on New PCs

Í greininni stendur:

BEIJING — China has issued a sweeping directive requiring all personal computers sold in the country to include sophisticated software that can filter out pornography and other “unhealthy information” from the Internet.

The software, which manufacturers must install on all new PCs starting July 1, would allow the government to regularly update computers with an ever-changing list of banned Web sites.

The rules, issued last month, ratchet up Internet restrictions that are already among the most stringent in the world. China regularly blocks Web sites that discuss the Dalai Lama, the 1989 crackdown on Tiananmen Square protesters, and the Falun Gong, the banned spiritual movement.

But free-speech advocates say they fear the new software could make it even more difficult for China’s 300 million Internet users to obtain uncensored news and information.

“This is a very bad thing,” said Charles Mok, chairman of the Hong Kong chapter of the Internet Society, an international advisory group on Internet standards. “It’s like downloading spyware onto your computer, but the government is the spy.”

Called Green Dam — a reference to slogans that describe a smut-free Internet as “green” — the software is designed to filter out sexually explicit images and words, according to the company that designed it. Computer experts, however, warn that once installed, the software could be directed to block all manner of content or allow the government to monitor Internet use and collect personal information.

Details of the new regulations, which were posted Monday on a government Web site, were first reported by The Wall Street Journal.

 Það  voru seldar 40 milljónir pc tölva í Kína í fyrra og búist er við að ennþá fleiri seljist í ár.

 


mbl.is Er Twitter-bólan sprungin?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Húsið er okkar" - ungdómshúsið á Fríkirkjuvegi 11

Hér er  vídeó sem ég tók af hústökunni á Fríkirkjuvegi 11 í Reykjavík núna í kvöld. Vídeóið er um 10 mínútur og sýnir stemminguna, þetta var nú engin ofbeldisaðgerð, fremur svona táknræn gjörningur.

 Þegar ég var unglingur þá var Fríkirkjuvegur 11 miðstöð fyrir unglinga, mig minnir að þetta hafi verið undanfari Tónabæjar sem svo opnaði.  Ég fór nú aldrei í þessa tómstundamiðstöð en ég þekkti krakka sem voru þar flest kvöld. Núna í kvöld var húsið heimtað aftur úr helju og hópur fólks streymdi í húsið og hrópaði "húsið er okkar" og átti þar við að núna ætti almenningur á Íslandi þetta hús, það væri ekki hluti af ránsfeng útrásarvíkinga og fjárglæframanna.

 

 


mbl.is Ruddust inn í Fríkirkjuveg 11
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórn sem skilur ekki grundvallaratriði efnahagsmála

Ég var á Austurvelli í dag og reyndi eins og  aðrir á velllinum að koma þeim skilaboðum til þingheims að ég vil ekki þessa nauðungarsamninga og skuldaánauð um aldur og ævi. Núna hlusta ég á Kastljósið, Sigmundur Davíð og Steingrímur fjármálaráðherra eru viðmælendur. Reyndar var ég ein af þeim sem borgurum sem talað var við á Austurvelli þannig að mér brá fyrir í byrjun þáttarins.

Núna er á Íslandi ríkisstjórn sem virðist ekkert átta sig á hvað er að gerast í heiminum og ekki hafa neitt innsæi á hvað muni gerast á næstu árum og núna er fjármálaráðherrann Steingrímur  er  kjaftaskur sem virðist ekkert átta sig á fjármálakerfi heimsins eða afleiðingum þeirra gerða sem hann er að stefna Íslandi í. Steigrímur er ekki vondur eða óheiðarlegur maður en eftir þeim upplýsingum sem koma fram í brotakenndum fréttum sem við almenningur fáum af íslenskum fjármálum þá var fyrirrennari hans öllu verri og það er kominn tími til að virkja landsdóm og láta hann fjalla um embættisafglöp ráðherra. 

Það er ömurlegt að svona ríkisstjórn sé draga hengingaról utan um háls okkar allra Íslendinga og selja okkur í ánauð og reyni að selja okkur þessa niðurstöðu eins og þetta sé einhver díll.


mbl.is Blekkingar, heimska og hótanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frá Baldri Guðlaugssyni til Svavars Gests, frá innherjasvikum til lýðskrums og blekkinga

Það er gott að finna að ég er ekki sú eina sem blöskrar framganga ríkisstjórnarinnar í Icesave, blöskrar að í skjóli næturs og pukurs eigi að hengja á íslensku þjóðina drápsklyfjar og þetta sé kynnt fyrir okkur af ráðherrum og fjölmiðlum eins og einhver rosalegur díll, það hafi tekist að þoka vöxtunum niður um einhver prómill og svo sé þetta mjög sniðugt lán af því það þurfi ekkert að borga af því næstu sjö árin. Núna eru komin 13.689 í facebook mótmælendahópinn Við neitum að borga skuldir sem við berum ekki ábyrgð á.

Ég vona að einhverjir þeirra mæti á Austurvöll kl. 14:50 í dag, alla vega ætla ég að mæta.

Heilsíða í Morgunblaðinu í dag er tekin undir rugl úr Svavari Gestssyni sem stýrði Icesave samninganefndinni, viðtalið  sýnir svo enn og aftur að hann hefur ekki hundsvit á því sem hann var settur til að semja um, enda var það ekki sérfræði hans né skilningur á innviðum fjármálaheimsins eða ástandinu í heimsmálum sem réði því að hann var fenginn til verksins. Hann er ekkert annað en gamall lýðskrumari úr Alþýðubandalaginu, maðurinn sem var ritstjóri Þjóðviljans þegar það málgagn lofaði í hástert sæluríki kommúnismans, lofsöng innanrotið kúgunarkerfi sem féll saman með bauki og bramli og féll ofan á almenning í gömlu Ráðstjórnarríkjunum. Þessi maður  kann ekki annað en lýðskrum, blekkingar og kjaftagleði, kann ekki annað en fela lygina inn í skrúðorðum og selja almenningi eymd eins og það séu sérstök kostakjör.

Það var erfitt að lesa heilsíðuna í Morgunblaðinu í dag, erfitt að sitja undir því að svona einhliða áróður og blekking sé borin á borð fyrir íslenskan almenning, erfitt að horfast í augu við skrímslin í íslenskum veruleika, erfitt að horfast í augu við að ekkert hefur breyst með þessum kosningum, áfram er reynt að blekkja almenning, áfram er reynt að láta eins og ekkert hafi gerst þó að kerfi heillar þjóðar hafi hrunið og heimurinn hangi á sömu heljarþröm, áfram er látið eins og hinar kasínókapítalísku reglur eigi að gilda, þetta sé bara spurning um að leyna vandanum, fresta honum,  sópa honum undir teppin, telja fólki trú um að lán sem ekki er á gjalddaga í dag sé lán sem næstum því er ekki til og ábyrgð sem er fyrst ábyrgð einhverra annarra en síðan að lokum ríkisábyrð sé næstum engin ríkisábyrgð. Halda þeir sem skrifa þessar fréttir að við séum fávitar sem skiljum ekki hvað felst í fjárhagsábyrgð og ríkisábyrgð?

Ekkert hefur breyst með stjórnarskiptunum nema að fyrri samninganefnd í Icesave var leidd af manni sem var algjörlega vanhæfur vegna gruns um athæfi sem í öllum siðuðum löndum er talið saknæmt, gruns um að hann notaði innherjaaðstöðu sína til að skara eld að eigin köku, fyrri Icesave samninganefnd var leidd af  Baldri Guðlaugsson  og voru vinnubrögð hans slík að það var með öllu óskiljanlegt að fyrri forsætisráðherra eða fjármálaráðherra skyldu ekki löngu vera búnir að setja hann í langt frí. 

Vissulega er Svavar Gestsson ekki eins slæmur og Baldur Guðlaugsson en það er samt tákn um hvernig hlutirnir hafa breyst að núna sé reynt að selja íslensku þjóðina í ánauð ekki af fólki sem er undir grun um glæpsamlegt eiginhagsmunapot heldur af fólki sem hefur áratugareynslu í lýðskrumi og fagurgala,  fólki sem ætlað er að láta fjötrana líta út eins og sæluríki. 

Það er móðgun við íslenskan almenning að hegða sér eins og ríkisstjórnin gerir núna.

Þá og nú  (grein um viðsnúning Steingríms Sigurðssonar)


mbl.is Margir skrá sig gegn Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landráðamenn

Það er gott að halda til haga hverjir eru það voru  sem seldu íslenska þjóð í ánauð. Það var Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna sem í skjóli nætur undirritaði samninga um Icesave en hann gerði það í umboði íslensku ríkisstjórnarinnar sem beitir núna ennþá verri vinnubrögðum en sú óhæfa sem hraktist frá völdum.  Sitjandi ríkisstjórn er óhæf í öðru veldi. 

Hér eru myndir af fólkinu:

 

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherraJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherraSteingrímur J. SigfússonSteingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra
Össur SkarphéðinssonÖssur Skarphéðinsson,

utanríkisráðherra

Ögmundur JónassonÖgmundur Jónasson,

heilbrigðisráðherra

Kristján L. Möller

Kristján L. Möller,
samgönguráðherra

 


Katrín Jakobsdóttir

Katrín Jakobsdóttir,
menntamálaráðherra

Ragna Árnadóttir

Ragna Árnadóttir,
dóms- og kirkjumálaráðherra

Gylfi Magnússon

Gylfi Magnússon,
viðskiptaráðherra

Katrín Júlíusdóttir

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra

 

Jón Bjarnason

Jón Bjarnason,
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Árni Páll Árnason

Árni Páll Árnason,
félags- og tryggingamálaráðherra

Svandís SvavarsdóttirSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra

 


mbl.is Icesave-samningur gerður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband