Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012
10.1.2012 | 19:31
Heilbrigðisþjónusta, brjóstapúðar og lífsstíll
Íslendingar og Evrópubúar sem hér hafa verið búsettir í ákveðið marga mánuði eru sjúkratryggðir. Þeir njóta aðhlynningar hjá læknum og sjúkrahúsum ef metið er af heilbrigðistarfólki að þess þurfi. Fólk sem hefur verið á vinnumarkaði og hlotið slys eða örkuml vegna mengunar eða slæmra aðstæðna á vinnustöðum nýtur sjúkratrygginga og fólk sem veiklast af eigin völdum t.d með reykingum og drykkjuskap fær líka þjónustu hjá sjúkrastofnunum.
Það er þörf fólks fyrir heilbrigðisþjónustu og mat á því hvaða árangri hún skilar og möguleikar á að veita þjónustu sem ræður því hverjir fá hvaða þjónustu. Það er mér vitanlega ekki rök í íslenskri heilbrigðisþjónustu að veikum manni sé vísað frá vegna þess að hann hafi sjálfur með breytni sinni stuðlað að veikindum sínum eða með því að vera í þannig vinnu að hann var útsettur fyrir einhvers konar geislun eða eitrun. Fólk sem er limlest í ryskingum á veitingastöðum og fólk sem er nauðgað á klósettum á veitingahúsum fær aðstoð í heilbrigðiskerfi, því er ekki sagt að það verði bara að snúa sér til veitingasalans, hann hafi verið að selja því þjónustu og beri ábyrgð á því sem fer fram á sínum stað. Ef fjöldi fólks yrði fyrir matareitrun af því það hefði keypt mat einhvers staðar þá ætti það fólk líka rétt á heilbrigðisþjónustu og bráðaþjónustu ef ástand væri talið hættulegt heilsu þess.
Sjúkratryggingar hafa hins vegar ekki greitt ónauðsynlegar fegrunaraðgerðir. Núna nýlega kom upp að stór hópur kvenna hefur fengið ígrædda brjóstapúða og kom í ljós að framleiðandi silikonfyllinga hafði notað í þær annað efni en var gæðavottað og þessar fyllingar bæði falsaðar og gallaðar. Hvað sem okkur kann að finnast um þann lífsstíl og tísku að bæta silikoni í brjóst þá er ljóst að hópur kvenna er hugsanlega í bráðri hættu á að bíða heilsutjón vegna gallaðra fyllinga.
Stjórnvöld hafa brugðist við og bjóða þessum hópi skimun og ef útkoma úr þeirri skimun sýnir lekar fyllingar þá verði þær fjarlægðar á kostnað íslenska ríkisins. Það er ekkert óeðlilegt við það, ekki nema að ekki sé gengið lengra, það væri öryggisatriði að bjóða öllum þeim konum sem hér eru sjúkratryggðar upp á að þessi hugsanlega gölluðu aðskotaefni í líkama þeirra verði fjarlægð - alveg án tillits til hvort skimun sýnir leka eða ekki.
En það sorglegt að lesa núna t.d. hjá bloggurum rætna, niðurlægjandi og hálfklæmna umræðu um bráðan heilsuvanda þessa hóps og er ekki að sjá annað en sumir sem tjá sig telji að þær konur sem létu setja í sig brjóstapúða hafi með því sjálfkrafa gengið í björg og út úr íslensku velferðarkerfi og eigi engan rétt á að fá aðhlynningu í kerfinu.
Bloggpistlar Jóns Magnússonar og Lýðs Árnasonar stuða mjög mikið. Báðir eru þeir ákafamenn um íslensk stjórnmál og ýmis samfélagsmál og þungaviktarmenn í opinberri umræðu. Þess vegna skil ég ekki orðræðu þeirra, af hverju kallar læknirinn Lýður hóp kvenna sem hugsanlega býr við heilsuvanda "túttustelpur" og brjóst þeirra "túttur"? Lýður segist vona að heilbrigðisráðherra forði ríkiskassanum frá þeirri vitleysu að borga í þessum aðgerðum. Af hverju segir Lýður þetta? Hvað er að því að ríkissjóður borgi læknisaðgerð sem felur í sér að fjarlægja hættulega mengandi aðskotahluti úr líkama fólks?
Og hvers vegna sér Jón Magnússon aðkallandi heilsuvandamál sem enginn veit hversu stór er sem pjattskap og segir: "Hvað svo með þær sem hafa flata eða feita rassinn, kartöflunefið, appelsínuhúð og litlu brjóstin. Fyrst velferðarráðherra telur eðlilegt að borga kostnað vegna gallaðra lýta- og fegrunaraðgerða eiga þá þær sem ákveða að þola útlit sitt ekkert að fá? ... og telur Jón fráleitt að bæta konunum neitt sem þær eiga ekki rétt á samkvæmt lögum frá seljendum vegna gallaðrar vöru eða þjónustu. Jón telur að hér sé sjúkratryggingakerfið að borga fyrir mistök markaðarins á gallaðri söluvöru.
Ég spyr þá Lýð og Jón hvort þeir noti sama kvarða á þetta bráða eitrunarmál stórs hóps fólks eins og á önnur eitrunarmál eða heilsumál sem koma út af lífsstíl. Á að taka súrefniskúta frá lungnasjúklingum og neita þeim um krabbameinsmeðferð af því þeir ullu veikindum sínum með sínum lífsstíl og segja þeim bara að láta reykingafyrirtækið borga? Af hverju er rætt um eina gerð heilsufarsvanda á þennan hátt, er það vegna þess að þetta er vandi kvenna sem voru með breytni sinni að þóknast tísku í samfélagi þar sem karlar ráða og þar sem konur eru til sýnis, kvengerðar sem undirgefin valdatákn og eins konar styttur, svo miklar styttur að í líkama þeirra er sprautað aðskotaefni sem þenur út ákveðna táknræna staði sem merkja hvað er kona og hvað er karl.
Hér eru bloggpistar þeirra Lýðs og Jóns:
http://www.dv.is/blogg/lydur-arnason/2012/1/10/tuttur/
Lýður Árnason 10. janúar 2011:
TÚTTUR.Fegrunaraðgerðir eru mjög í tízku og fátt sem ekki má bæta. Stórar túttur virðast eftirsóttari en smærri og varir sumra ungmeyja líkjast orðið sogskálum eða drullusokkum. Læknar svara þessari eftirspurn og haldi fólk að einhver láti sér segjast er það sjaldnast svo: Flestir vilja sitt og neiti einn er farið annað. Útlits- og æzkudýrkun samfélagsins er gegndarlaus og ræður gildismati allt of margra. Bezta ráðið er að sætta sig við Skaparann og fara reglulega í bað, það tryggir nógsamlega vellíðan. Útlit er nefnilega líkt gölluðu kvoðupokunum, endist stutt og leiðir til málaferla við guð. Vona auðvitað að allar túttustelpurnar fái bót sinna brjóstverkja og hafi vit á að hafna annarri áfyllingu. Sömuleiðis vona ég að heilbrigðisráðherra forði ríkiskassanum frá þessari vitleysu því borgi hann brúsann má búast við holskeflu lítilla typpa.
http://jonmagnusson.blog.is/blog/jonmagnusson/entry/1215933/
Jón Magnússon 8. jan. 2012:
Gutti borgar biluð brjóstGutti velferðarráðherra lofar að borga konum sem hafa leka bjóstastækkunarpúða kostnað við lagfæringar á þeim.Yfirlýsingin um greiðslur vegna gallaðra fegrunar- og lýtaaðgerða vekur upp ýmsar spurningar.Hvað með mistök vegna rass- og magalagfæringar eða tatóveringa.Hvað svo með þær sem hafa flata eða feita rassinn, kartöflunefið, appelsínuhúð og litlu brjóstin. Fyrst velferðarráðherra telur eðlilegt að borga kostnað vegna gallaðra lýta- og fegrunaraðgerða eiga þá þær sem ákveða að þola útlit sitt ekkert að fá?Er ekki rétt að Ríkið taki þá ábyrgð á öllum mistökum á markaðnum og bæti neytendum allar gallaðar vörur hverju nafni sem nefnast.Hvar er þá ábyrgð neytandans við val á vöru og þjónustu? Hver er þá ábyrgð seljenda?Með greiðslum eins og þeim sem velferðarráðherra lofar, þá er hann ekki að bæta konunum neitt sem þær eiga ekki rétt á samkvæmt lögum frá seljendum vegna gallaðrar vöru eða þjónustu. Velferðarráðherra ætlar í raun að borga fyrir mistök markaðarins á gallaðri söluvöru.Þá verður líka allt í lagi að fá sér ódýrustu þjónustuna því Ríkið borgar ef eitthvað verður að.Þegar ríkissjóður tekur 20 krónur af hverjum hundrað sem það eyðir að láni frá framtíðinni er þá ekkir rétt að skoða hvar setja á mörkin á greiðsluþáttöku ríkisins. Eiga brjóstastækkanir að vera þar í forgangsröð?
Aðrir skrifa af miklu meira innsæi og visku um þetta mál og vil ég þar sérstaklega nefna pistil læknisins Vilhjálms Ara Arasonar
http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2012/01/09/oasaettanleg-ahaetta-fyrir-flestar-konur/
Óásættanleg áhætta fyrir flestar konur
9. janúar 2011
og pistil Álfheiðar Ingadóttur
http://blogg.smugan.is/alfheidur/2012/01/10/pip-hneysklid-a-islandi/
PIP-hneysklið á Íslandi
Ég hef ekki skoðun á hvort einhver yfirlæknir á að víkja, ég þekki það mál ekki nógu vel en það sem ég hef lesið og heyrt um þessar leku fyllingar bendir til þess að það sé eina skynsamlega að bjóða öllum sem fengu þessa gölluðu púða í líkama sinn upp á að þeir séu fjarlægðir, ekki miða eingöngu við þar sem sést að þeir leka.
Þóra Kristín skrifar ágæta grein á Smuguna, PIP-hneysklið á Íslandi http://blogg.smugan.is/alfheidur/2012/01/10/pip-hneysklid-a-islandi/
Eftirfarandi finnst mér hins vegar afar einkennilegt hjá Þóru Kristínu:
"Umræðan snýst á öðrum þræði um hvort ríkið eigi ekki að bjóða konum uppá að láta fjarlægja slíka púða sér að kostnaðarlausu. Samt er aðgerðin ákveðin og framkvæmd af lækni á einkastofu og í flestum tilfellum greitt fyrir hana alfarið án aðkomu ríkisins."
Ég get ekki lesið þessi orð öðruvísi en Þóra Kristín telji það rök eða álitamál fyrir að þessi hópur kvenna fái EKKI lögbundna sjúkraþjónustu á Íslandi að þær hafi greitt sjálfar fyrir gallaða vöru sem olli þeim heilsutjóni. Það felst í þessum orðum sú sýn að það skipti máli hvernig heilsuvanda þessa hóps bar að og hver borgaði fyrir að hann yrði hvernig þjónustu þessi hópur eigi að fá hjá íslenska velferðarkerfinu.
440 konur með PIP-sílikonpúða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)