Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
5.3.2024 | 17:31
Facebook og Instagram liggja niðri
Kl. 15:27 fæ ég tölvupóst frá facebook í kjölfar þess að ég hafði skyndilega verið útskráð og komst ekki inn á lykilorði mínu. Sennilega hefur Facobook dottið niður kl. 15:25 GMT
Ég bað þrisvar sinnum um að endurstilla lykilorðið, þetta var mjög skrýtið og fékk alltaf einhverja villu (óvænt villa kom upp) og seinast að ég væri lokuð úti. Þá var sjálfhætt.
Ég sá á mbl.is að facebook liggur niðri og fór svo á twitter og þar kom í ljós að facebook og instagram liggja niðri. Það er sennilega ekki tilviljun að þetta gerist á super tuesday þegar mikilvægar forkosningar eru í bandarískum stjórnmálum. Það má vera þetta sé tæknitruflun eða einhvers konar fyrirbyggjandi vegna netárasa eða kosningaspamms en kannski er þetta netárás.
CISA sem er bandarísk stofnun um netöryggi og innviði hélt fjölmiðlafund í morgun út af forkosningunum og talsmaður þar segir: "We are aware of the incident and at this time we are not aware of any specific election nexus or any specific malicious cyber activity nexus to the outage. But we are aware of the incident and the global scope of it,"
Þetta er sem sagt að í biðstöðu og engar upplýsingar ennþá nema að Meta segir að verkfræðingar þar séu að vinna í málinu. Nú er klukkan 17:30
Prófaði aftur núna kl. 17:51 og kemst núna inn á Facebook
Facebook, Instagram and Threads were all down in massive Meta outage on Super Tuesday Techcrunch
Ahead of Super Tuesday, US elections face existential and homegrown threats The Register
Facebook, Instagram and Threads kicking users off with password reset The Register
facebook-instagram-outages-disruption-meta-google Guardian
Metas Instagram, Facebook hit by widespread outages Aljazeera
What is Super Tuesday and why is it important? All you need to know Aljazeera
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.12.2020 | 14:51
Rauðagull Íslands
Forsíða Sveriges Natur 25. nóv. 2020
Ísland er land sem á mikið undir góðri ímynd. Ímynd sem hefur tekið mörg ár, marga áratugi að byggja upp. Það er skondið núna að reynt er að lokka dugandi fólk til landsins og lofa þeim skattfríðindum. Þetta er bara eins og þegar forfeður okkar og formæður fyrir meira en þúsund árum flykktust hingað líka út af skattfríðindum - til að koma sér hjá því að greiða skatta til Harald hárfagra Noregskonungs. En það klikkaði víst þá markaðsetning á landinu sem samastað með því að tengja nafn landsins við ís. Það virkaði ekki vel fyrir þúsund árum en kannski er ís og snjór og bráðnandi jöklar bara eftirsótt í dag, það er að verða svo sjaldgæft.
En ímynd Íslands er líka einhvers konar frelsi, víðerni, hreint loft, hálendi og óbyggðir og búskapur í sátt við náttúruna, lífríki í hafi og lífríki í lofti, fuglabjörg og haf. Líka sveitir og bæir þar sem er unnið í sátt við náttúruna og farið vel með menn og dýr og orka beisluð á vistvænan hátt. Og sum af dýrum Íslands hafa orðið táknmyndir fyrir landið og náttúru þess og má þar sérstaklega nefna fálka fyrr á öldum og núna í dag lunda og hjá sumum æðarfugl og svo íslenskt hestakyn og íslenskt sauðfé og íslenskar geitur.
Góð ímynd Íslands fær fleiri til að fýsa að koma hingað og setjast hérna að, alla vega um stundarsakir og góð ímynd Íslands fær líka fólk til að vilja kaupa íslenskar vörur og góð ímynd Íslands verður líka til að fólki langar til að koma hingað sem ferðamenn.
Ísland er í augum margra hin ósnortna og óspjallaða land, náttúruparadís, land sem er griðastaður frá hinum ofurþéttbýlu svæðum þar sem mengunarský stíga upp yfir borgum og ekkert gæti verið fjarri ímynd Íslands heldur en þrautpíning og þauleldi í fæðuframleiðslu heimsins. En er víst að svo verði um alla tíð?
Við horfum á grannríki okkar og fyrrum nýlenduherradæmi Danmörk sem fyrir örfáum mánuðum hafði orð á sér fyrir að vera mikið fyrirmyndarríki, þar væri velferð mikið og allt hannað með náttúru og vistvænt hugsun í huga.
Minkauppvakningar í Danmörku
En núna er ímynd Danmerkur uppvakningar zombieminkar , einhvers konar hryllingsatriði í Hamlet uppfærslu nútímans, hvítir minkar sem hafa tútnað út og risið upp úr gröfum sínum eins og til að minna okkur á fjöldaaftökur danskra minka og lífið á dönskum minkabúum, eins og til að minna okkur á hin vistvæna Danmörk sem við héldum svo er líka stærsti útflytjandi minka í heiminum og það stóð til að drepa 50 milljónir minka þar. Burtséð hvað okkur finnst um loðfeldarækt þá er þauleldi eins og stundað var á dönskum minkabúum ávísun á plágur sem berast í fólk og milli minka. Og það gerðust hræðilegir hlutir sem hræddu vísindamenn og stjórnmálamenn. Það kom fram sérstakt afbrigði af Cóvid á dönskum minkabúum, afbrigði sem barst í menn en aðeins 12 manns smituðust af þessu en ef þetta afbrigði hefði dreifst út og yfir heiminn þá hefði næsti faraldur af Covid kannski verið kallaður Danska minkaveikin og við hefðum þurft að bíða aftur árum saman eftir bóluefni við því. En það er talið að þúsundir minka hafi sloppið út í náttúruna úr dönsku minkabúunum og það eru núna áhyggjur að smitaðir minkar muni smita dýr í náttúru Danmerkur.
Blóðeldi á Íslandi
En alveg eins og ímynd Danmerkur er núna minkauppvakningur og fjöldaslátrun á minkum þá gæti farið svo að einhvern tíma í framtíðinni verði erlendis talið eins hrollvekjandi hvernig farið er með dýr á Íslandi sem einn lítinn lið í þauleldi nútímans. Hvernig ekki er lengur hugsað um að nota líkama dýra til átu, eða nota afl dýrs til flutninga eða plæginga heldur hugsað um að tengja sig beint við æðakerfi dýrsins og sjúga blóð þess og lífsþrótt.
Og hvaða íslenska dýr er það sem gæti í ímynd heimsins verið eins óhugnanlega og dönsku minkauppvakningarnir? Það er það dýr sem við hefðum síst haldið, það er íslensk hryssa, fylfull hryssa, hryssa sem gengur með folald og vegna þess að líkamai hryssu framleiðir sérstök efni á meðan hún gengur með folaldið þá hefur myndast iðnaður sem gengur út á að sjúga blóð úr sumum hryssum, fimm lítra vikulega í nokkrar vikur til að afla efnis í hormón sem virkar þannig að hann gagnast sérstaklega til að láta gyltur í þauleldi eignast fleiri grísi með skemmra millibili en náttúruleg ferli er.
Svona sem forsmekk um hvernig ímynd Íslands gæti orðið sem landsins þar sem fylfullar eða nýbornar hryssur eru keflaðar í sérstökum blóðbásum, nál stungið í háls þeirra og blóð þeirra látið fossa í ílát til að vinna í afurð sem nota á í þauleldi svína þá er þessi nýja sænska grein dýraverndunarsamtaka þar í landi. Hér er tengill í greinina um rauðagull Íslands:
Mikið tækifæri fyrir landið allt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2020 | 08:35
Útgöngubann - Sóttvarnarlög á Íslandi og hryðjuverkalög í Bretlandi
Það mun nú hafa verið dreift lagafrumvarpi á Alþingi sem felur m.a. í sér að útgöngubann verði eitt að því sem yfirvöld hérna geta gripið til sem sóttvarnarráðstöfun. Það er eiginlega ómögulegt að sjá fyrir sér aðstæður á Íslandi þar sem útgöngubann skiptir máli. Hér er ekki mikið þéttbýli og veðuraðstæður gera það að verkum að fáir eru á ferli á almannafæri stærstan hluta ársins.
Yfirvöld hérna hafa gripið til ýmissa ráða, m.a. að fyrirskipa lokuð ýmissa stofnana og takmarkað ferðir fólks t.d. til að koma í veg fyrir að smit dreifðist.
En útgöngubann er gríðarlega mikil frelsisskerðing og af allt öðrum toga en tálmanir á því hvert þú mátt fara og hvaða þjónustu þú mátt kaupa. Það er engin ástæða til að setja hér útgöngubann og það verður ekki litið á það öðruvísi en sem þróun í átt að lögregluríki þar sem einhverjir geta vaktað allar ferðir þínar ef svo stendur á.
Einhverjir munu halda því fram að það sé svona í nágrannalöndum í Evrópu og það sé ekki meiningin að beita þessum lögum nema "brýna nauðsyn beri til" og það sé sótthætta. Þessum rökum vil ég svara þannig að það er ekki sjálfkrafa gott og rétt ef það er gert í löndum umhverfis eða það sé alsiða einhvers staðar annars staðar. Það gerði ekki hræðilegan kasínókapítalisma fjárglæframanna og aflandseyjaliðs hér á árunum fyrir Hrun neitt betri að segja að þetta sé alsiða í viðskiptalífi hins vestræna heims. Það er heldur ekki röksemd fyrir að hafa vopnaðan her hér á landi að það sé her í nágrannalöndunum.
Hin röksemdin að útgöngubann verði aðeins beitt í sóttvarnartilgangi er jafn bernsk og fólk í Bretlandi hefði haldið fram að þegar þingið þar setti lög gegn hryðjuverkamönnum, lög sem áttu að sporna gegn því að hryðjuverkamenn gætu fjármagnað iðju sína þá yrði þeim lögum aðeins beint gegn hryðjuverkamönnum og hryðjuverkasamtökum.
Bresk yfirvöld beittu þessum hryðjuverkalögum sínum gegn Íslendingum árið 2008, gegn friðsamri smáþjóð og vinaþjóð.
Það ættu allir að muna að bresk stjórnvöld gripu til laga sem ætluð voru til að sporna við hryðjuverkjum þegar þau frystu eigur íslenskra banka í Bretlandi og það fór á stað þar í landi stjórnmálalegur spuni sem olli ýmis konar ofsóknum á Íslendinga sem og að lama algjörlega smáþjóð með ofvaxið fjármálakerfi sem hafði hrunið. Í mínum huga er þessi gjörð breskra stjórnvalda það hræðilegasta sem gerist á tímum Hrunsins og þessi gjörð breytti afstöðu minni til laga og stjórnmála um aldur og ævi. Líka afstöðu minni til stórveldis og nýlenduveldis í fjörbrotum, eina landinu sem hefur nokkurn tíma farið með ófrið á hendur Íslendingum, sendi fyrst hingað sápukaupmann í mislukkaða innrás, réðst svo inn í landið á stríðárunum og var svo með margra ára ófrið til að tryggja fiskiskipum sínum áframhaldandi rányrkju við Íslandsstrendur og svo þessi hryðjuverkaaðgerð árið 2008 til að reyna að hilma yfir að þeirra fjármálakerfi var að falla og frjálshyggjumöndrur Thatcherismans virkuðu ekki og blekktu ekki lengur.
Rúv rifjaði 9.10.2013 að þá voru liðin fimm ár frá beitingu Hryðjuverkalaganna:
Brown sagði í viðtali við Sky News að lagabeitingin væri réttmæt. Gæta yrði hagsmuna innstæðueigenda í Bretlandi þegar fé væri að hverfa úr íslensku bönkunum. Ég tel þeim bera skylda til að standa við skuldbindingar gagnvart breskum þegnum sem hafa fjárfest í íslenskum bönkum, sagði Brown.
Breski hagfræðingurinn Eamon Butler er framkvæmdastjóri Adam Smith hugveitunnar. Hann segir að Bretar hefðu átt að hjálpa vinaþjóð en ekki ráðast á hana. Ríkisstjórn Browns horfði á banka hrynja allt umhverfis og stjórn hans þurfti að koma bönkum og öðrum fyrirtækjum til bjargar. Þeir höfðu ekki hugmynd um til hvaða ráðas skyldi gripið. Svo viðbrögðin urðu svona. Þeir voru sem smádýr fangað í ljósum hraðskreiðrar bifreiðar, segir Butler.
Butler átti sjálfur fé á Icesave reikningi. Ég þurfti að standa skil á sköttum eftir hálft ár svo ég skoðaði innlánsvexti og Icesave bauð betur. Ég hugsaði sem svo að þetta væri lyginni líkast og hringdi í íslenskan vin minn og spurði hvort þessi banki væri í lagi. Hann sagði svo vera; að frændi hans stjórnaði honum en ég taldi ólíklegt að hann færi á hausinn á næstu sex mánuðum svo ég lagði féð mitt inn og veðjaði þar með á hann.
FImm og hálfum mánuði síðar fór bankinn á hausinn og Butler taldi féð glatað. En Alistair Darling fjármálaráðherra skrifaði ávísun fyrir allri upphæðinni auk fullrar ávöxtunar sem ég hefði fengið hefði bankinn ekki farið á hausinn. Og það eru breskir skattgreiðendur sem borga. Af hverju skyldi byggingaverkamaður í Bradford borga hærri skatta til að bjarga náunga eins og mér sem meðvitað veðjaði á að þessi banki starfaði áfram?
Kveðið á um útgöngubann í nýju frumvarpi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2020 | 12:23
Hver borðar minka og hesta?
Sjö ár eru langur tími í síhvikulum heimi, heimi sem nú umhverfis kringum eina örsmáa veiru sem fyrir ári síðan stakk sér upp á matarmarkaði í Kína og dreifðist þaðan um heiminn. En fyrir sjö árum horfðu nokkrir íslenskir þingmenn bjartsýnir inn í framtíðina. Í þeirri framtíðarsýn birtist þeim heimur fullur af kjöti og heimur fullur af fólki sem vildi éta kjöt.
Í þessum þingmannahópi sem þá gekk samstíga í einum stjórnmálaflokki voru tveir núverandi formenn íslenskra stjórnmálaflokka og tveir núverandi ráðherrar í ríkisstjórn Íslands. Þeir báru framtíðarsýnina um kjötið á borð fyrir Alþingi í þingsályktunartillögu um aukna matvælaframleiðslu á Íslandi (lagt fram árið 2013) og hvarvetna blasti við þeim sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað og endar sá listi með þessum bjartsýnisorðum:
"Áhugi á ýmsum öðrum kjötafurðum hefur vaxið erlendis og þar má nefna aukinn útflutning á hrossakjöti og mögulegan áhuga Kínverja á því að kaupa íslenskt minkakjöt til manneldis."
Nú sjö árum seinna velti ég fyrir mér hvernig gengur að flytja út hrossakjöt og hvert umfang þess sé og hverjir kaupendur eru. Og hvort minkakjöt sé selt til Kína til manneldis.
Ég velti fyrir mér hvað verður um líkama hesta og minka þegar dýrin eru deydd. Hvað verður um þá reiðhesta sem fólk á þegar þeir eru hættir að þjóna þeim tilgangi? Eru þeir sendir í sláturhús eða eru þeir settir í stóð?
Hvað verður um líkama minka sem er slátrað?
Myndin frá Otwarte Klatki er með CC-By leyfi úr norsku minkabúi 2013
19.11.2020 | 08:21
Blóðmerahald á Íslandi - frásögn sjónarvotts
Á Íslandi voru árið 2019 yfir 5000 blóðmerar á vegum liðlega 100 aðila. Undanfarin ár hefur blóðmerahaldi verið hampað sem líftækni og nýsköpun og nýjum og vaxandi sprota í íslenskum landbúnaði og ungum bændum verið sérstaklega bent á þessa ábatasömu iðju. Svo viðurkennt er blóðmerahald á Íslandi að einn stjórnmálaflokkur á Íslandi hefur það meira segja sem sérstaka landbúnaðarstefnu að auka blóðmerahald.
En hvað er blóðmeri og hvað er blóðmerahald? Blóðmeri er hryssa sem gengur með folald og á meðan á meðgöngutíma folaldsins stendur þá er vikulega sogið úr henni blóð, allt að fimm lítrar í hvert skipti. Það er gert í nokkrar vikur (5-7 vikur að ég held). Þetta blóð er notað til að búa til hormón og það hormón er aðallega notað í þauleldi svína til að hægt sé að fara fram hjá náttúrulegu ferli, því er sprautað í gyltur til að þær hafi egglos aftur fyrr svo þær geti eignast fljótar aftur grísi og verið síóléttar.
Eftir því sem ég best veit fer engin framleiðsla á þessu hormóni fram í Evrópu nema á Íslandi og er öll iðja þessu tengd illa þokkuð bæði út af því að fólki blöskrar að það sé sogið blóð úr þunguðu kvendýri af einni tegund og gengið þannig á þann forða sem náttúran ætlar móður og ungviði hennar í móðurkviði og hins vegar að þessi blóðtaka sé gerð til þess eins og viðhalda þauleldi með aðra dýrategund sem eru eingöngu ræktuð til kjötframleiðslu.
En þessi blóðbúskapariðja er einnig illræmd vegna fregna af því hvernig staðið er að þessari framleiðslu í Suður-Ameríku en þar er gengið afar, afar nærri hryssunum og þær nánast blóðtæmdar, teknir tíu lítrar í hvert skipti og hryssum og folöldum svo hent út í þurra skóga. Á Íslandi er blóðmerahald í mun betra horfi og það er dýralæknir á vegum aðilans sem kaupir blóðið og vinnur það sem tekur blóð úr fylfullu hryssunum. En það virðist lítið eftirlit vera með þessum blóðbúskap og lítlar heimildir um hvernig staðið er að þessu.
Ég fann reyndar eina afar ítarlega frásögn manns sem hafði verið á íslenskum sveitabæ með hrossabúskap sem ólaunaður sjálfboðaliði, sem matvinningur og ég leyfi mér að setja hér inn lítið brot af langri frásögn hans um hvernig þessi búskapur kom honum fyrir sjónir
Greinin sem ég gríp niður í heitir Horse Blood, Fertility Drugs, and Me (Part 2) og er undirfyrirsögnin "A First-Hand Account of Violence in Iceland" og höfundur Ali Shearman. Greinin virðist lýsa atburðum frá 2017 eða 2018. Frásögnin er þrjár langar greinar og þetta brot lýsir því þegar sjálfboðaliðarnir/ matvinnungarnir eru búnir að vera að vinna við að reka hryssur inn til blóðtöku allan daginn og blóðbóndinn (kona sem kölluð er Agatha í frásögninni, ekki rétt nafn) segir að nú sé dýralæknirinn kominn. Þetta brot úr greininni endar með því að fjórar fylfullar hryssur sem streittust á móti þegar átti að taka þeim blóð eru settar á bíl til að fara með þær í sláturhúsið:
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.8.2020 | 13:21
Ammoníum-nítrat í Áburðarverksmiðjunni og vöruhúsi Eimskips
Það var árið 2015 og mikið um að vera eins og vanalega í kínversku hafnarborginni Tianjin. Höfnin þar er ein umsvifamesta í Kína. En skyndilega urðu gríðarleg sprengingar þegar miklar birgðir af ammoníum-nítrati sprungu í loft upp. Fjölmargir létust, flestir voru það slökkviliðsmenn og björgunarfólk. En hvernig gerðist það? Ammoníum-nítrat á ekki að springa svona út ef engu. Við rannsókn kom í ljós að sprengingin varð þegar efnið nitroselluósi sem er uppistaðan í naglalakki þornaði of mikið upp of ofhitnaði og í því kviknaði og sá eldur olli sprengingu í nærliggjandi geymum sem innihéldu sprengiefni, sprengiefnið ammoníum-nítrat sem einmitt núna olli gríðarlegri eyðileggingu í Beirút í Líbanon. Það kom í ljós að miklu meira af hættulegum efnum en leyfilegt var geymt á hafnarsvæðinu og sprengiefni var geymt 600 m frá íbúðarsvæði sem var brot á kínverskum reglugerðum, það er bannað að geyma slíkt í minna en 1000 m fjarlægð frá íbúðabyggð.
Sennilega hefur sprengingin í Tianjin orðið til þess að margir hrukku við og fóru að athuga sinn gang varðandi hvernig eldfim efni og sprengiefni eru geymd. Ef til vill hefur það orðið til þess að skrifuð var skýrsla í Líbanon þar sem vakin var athygli á að á hafnarsvæðinu þar væru miklar ammoníum-nítrat birgðir og stórhætta stafaði af því. Ég veit ekki hvað varð til að skýrslan var skrifuð en það hefur komið í ljós núna í fréttum að henni var stungið undir stól af stjórnvöldum í Líbanon.
Það er mjög líklegt að það komi í ljós að eitthvað svipað hafi gerst núna í Líbanon, að geymslan á þessu mikla magni af Ammoníum nítrati hafi misfarist. Ég hef séð yfirlýsingar um að það sé engin hætta á Íslandi, engar svona birgðir séu neins staðar.
En ég fann á vefnum auglýsingu frá íslensku fyrirtæki frá 2010 það sem boðnir eru eins tonna sekkir af ammoníumnítrati á spottprís og ef fólk vill kaupa mikið magn (mörg tonn væntanlega) þá sé það afgreitt frá vöruhúsi Eimskips.
Hér er auglýsingin:
Og hvað með Áburðarverksmiðjuna í Gufunesi, er alveg öruggt að þar séu engir geymar af ammoníum-nítrati geymdir einhvers staðar niðurgrafnir á svæðinu? Ég er ekki alveg viss um að nákvæmar upplýsingar séu aðgengilegar um framleiðslu eða fyrirætlanir varandi þá verksmiðju. Sem var byggð með Marshall-aðstoðinni og að því er rógtungur sögðu á sinni tíð að væri sem dulbúin sprengiefnaverksmiðja/sprengiefnageymsla. Áburðarverksmiðjan var örugglega hið mesta þjóðþrifafyrirtæki og hafði ekkert með hernað að gera þó hún hafi verið styrkt af Marshall fé, ekki frekar en Glergerðin sem líka var byggð fyrir Marshallfé.
En það fundust um árið margar tunnur fullar af arseniki, svo miklu að það nægði til að drepa alla Íslendinga nokkrum milljón sinnum og þær tunnur voru sannarlega geymdar um langt skeið undir glerfjalli á athafnasvæði Glergerðarinnar - undin glerbrotafjalli úr öllu ónýta glerinu sem varð til þegar Íslendingar voru að reyna að ná tökum á að gera almennilegt rúðugler og tókst það víst aldrei svo glerverksmiðjan hætti og áburðarverksmiðjan lifði víst heldur ekki lengi.
Hér er skýrsla um sprenginguna sem varð í Áburðarverksmiðjunni árið 2001
Tenglar
Sprengingin í Beirút banvæn í allt að 2,5 kílómetra radíus
What is ammonium nitrate, the chemical that exploded in Beirut?
Tianjin chemical blast: China jails 49 for disaster (frétt frá 2016)
Hér er fréttin sem var á Rúv um Beirút sprenginguna:
Ammoníum-nítrat, efnið sem olli spengingunni í Beirút í gær, hefur ekki verið framleitt hér á landi síðan framleiðslu í Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi var hætt rétt eftir aldamót. Þetta segir Guðmundur Mar Magnússon, sérfræðingur á öryggis- og tæknisviði Vinnueftirlitsins, í samtali við fréttastofu.
Síðan Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi var lokað hefur áburður verið fluttur inn hingað til lands á hverju vori. Guðmundur segir að þótt innflutti áburðurinn innihaldi ammóníum-nítrat sé hann blandaður með öðrum efnum sem gera hann stöðugan, og að sprengjuhættan af honum sé því mjög lítil. Hann sé notaður um leið og hann er fluttur inn og því ekki geymdur í neinu magni.
Efnið notað í sprengjuvinnu
Guðmundur segir að hreint ammoníum-nítrat sé þó notað í einhverjum mæli í sprengjuvinnu hérlendis. Sérstök réttindi þurfi til að kaupa hreina efnið og það sé hvergi geymt í miklu magni. Það má enginn kaupa það sem ekki hefur tilskilin réttindi. Og þá þarf fólk að sitja námskeið um meðferð sprengjuefna og taka próf og hafa gild réttindi. Og það er ekki geymt í neitt miklu magni. Hann segir það aðeins geta sprungið við sérstakar aðstæður og ekki vera gert sprengjuhæft fyrr en á sprengjusvæðinu.
Sigurður Ásgrímsson, yfirmaður sprengjusveitar Landhelgisgæslunnar, telur einnig víst að hvergi á Íslandi sé ammoníum-nítrat geymt í neinu magni. Eins og Guðmundur segir hann að áburður sem notaður er hér á landi sé blandaður með öðrum efnum sem gera hann stöðugan og að sprenging gæti ekki orðið nema með samverkandi áhrifum ótal þátta.
Myndir eru frá commons.wikimedia.org
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
9.7.2020 | 13:41
"Stóru fangelsin fyrir sunnan"
Dómsmálaráðherra hefur tilkynnt að loka eigi fangelsi á Akureyri, Sjá þessa frétt Lokun á Akureyri skapar svigrúm fyrir 30 fangelsisrými. Dómsmálaráðherra er úr Garðabænum, hún er handvalin til ráðherradóms af öðrum Garðbæingi, formanni Sjálfsstæðisflokksins Bjarna Benediktssyni. Ég hugsa að ef hún væri Akureyringur og þingmaður fyrir það kjördæmi þá myndi hún ekki hafa sama áhuga á að leggja niður stofnanir á Akureyri. Vissulega hafa Akureyringar ráðherra í þessari ríkisstjórn, en það er ólíklegt að hann sporni hér við fæti, hans stjórnmálasaga hefur einkum falist í að búa í haginn fyrir nokkra norðlenska útgerðarmenn.
Það er alveg stórundarlegt það sem haft er eftir dómsmálaráðherra:
"Bæði erum við að sjá undir 80% nýtingu á fanglesisrýmum, við sjáum ekki aukið fjármagn í fangelsismál á næstunni og hægt að nýta þrjátíu pláss í stóru fangelsunum fyrir sama fjármagn og við nýtum tíu fyrir norðan," segir Áslaug.
Fyrir það fyrsta þá er nokkuð undarlegt að leggja niður fangelsi á Akureyri, ekki síst núna þegar lögreglunám hefur verið nýlega flutt til Akureyrar, ég hefði haldið að það væri styrkur að fangelsi væri í sveitarfélagi þar sem líklegt er að byggist upp þekking á löggæslu ýmis konar. Einnig er Akureyri eini staður á Íslandi fyrir utan höfuðborgarsvæðið þar sem nóg aðgengi er að ýmis konar sérfræðingum sem þarf við slíkar stofnanir.
Einnig er skrýtin þessi áhersla á stóru fangelsin (ég geri ráð fyrir að átt sé við Hólmsheiði og Litla-Hraun) og stórundarlegt að það sé þrisvar sinnum ódýrara að hafa fanga í fangelsi þar en í fangelsi á Akureyri. Það væri áhugavert að fá sundurliðaðar upplýsingar um þá útreikninga. Það er hægt að nýta tækni í margt varðandi eftirlit í fangelsum og vandséð hvers vegna einhver stærðarhagkvæmni er þar, en það er varla hægt að spara í því sem lýtur að því að fangelsisvistin verði betrunarvist. Það er mikið í húfi að fangelsi verði ekki útungunarstöðvar fyrir afbrotamenn.
Það getur ekki verið affarasælt að skoða hagkvæmni fangelsa eins og verið sé að reka stór svínabú eða kjúklingabú. Hvers vegna er gott að fangelsi séu stór? Mér sýnist reynslan erlendis (og reyndar líka hérna) vera frekar að stór fangelsi verði einhvers konar uppeldisstöðvar þeirra sem halda sig röngu megin við lögin og mynda hópa og tengsl sín á milli. Hvað með fangelsi eins og Kvíabryggju og Sogn? Það eru lítil fangelsi, á að leggja þau niður líka bara af því þau eru lítil?
Hér er lýsing á vef fangelsismálastofnunar á fangelsinu á Akureyri:
Aðstaða er fyrir 10 afplánunarfanga og einn gæsluvarðhaldsfanga og er aðstaðan mjög góð. Í fangelsinu er rúmgóð setustofa sem nýtt er sem matstofa og sjónvarpsherbergi. Fangar sjá um matseld. Um 100 m2 lokaður garður er við fangelsið þar sem aðstaða er til boltaleikja og útiveru. Góð aðstaða er til vinnu, náms og líkamsræktar.
Fangar í fangelsinu þurfa að vera tilbúnir til að takast á við vímuefnavanda sinn og taka þátt í endurhæfingaráætlun og stunda vinnu eða nám.
Í fangelsinu starfa samtals 4 fangaverðir á sólarhringsvöktum og varðstjóri og aðstoðarvarðstjóri sem eingöngu ganga dagvaktir. Vaktirnar eru 12 klukkustundir, dagvaktir frá kl. 06:00-18:00 og næturvaktir frá kl. 18:00-06:00.
Ekkert í þessari lýsingu bendir til að fangelsið á Akureyri sé óhentugt. Það er líka siðlaust að tengja saman þörf lögreglunnar á Akureyri fyrir aukið húsnæði við að það sé nauðsynlegt að leggja niður lítið fangelsi á Akureyri eins og gert er í orðræðu dómsmálaráðherra. Vissulega þarf að leysa húsnæðismál stofnana og það hefur sennilega aldrei verið auðveldara en núna þegar yfirfljótandi magn er af skrifstofuhúsnæði. Það er oft þörf á að leggja niður fangelsi vegna þess að þau standast ekki kröfur tímans og oftast þá vegna þess að þau eru engum mönnum bjóðandi. Í þessari lýsingu á fangelsinu á Akureyri sé ég engin merki þess að það sé eitthvað að aðbúnaði þarna og dómsmálaráðherra kastar bara út í loftið einhverjum órökstuddum fullyrðingum um sparnað.
Ég hefði haldið að staðsetning og gerð fangelsa væri mikilvægari ákvörðun en svo að það réðist eingöngu af því að pakka sem flestum föngum saman í sem fjölmennust fangelsi með sem minnstum tilkostnaði. Það er mikilvægt að fangelsi séu bæði stofnun til að taka út refsingu og uppbyggjandi og betrunarhús. Í því er mikilvægt að aðstandendur fanga hafi möguleika til að heimsækja fanga. Það er réttlætismál að sem flestir fangar hafi möguleika á að afplána á stöðum sem ekki eru víðs fjarri heimili þeirra.
Ég skil ekki þessa áherslu á "stóru fangelsin". Hver er tilgangurinn? Er hann sá að líta á alla fanga sem einhvers konar kjúklinga á stóru kjúklingabúi þar sem aðalmarkmiðið er að hafa kostnað sem minnstan og hafa geymsluskála sem stærsta?
Eða er sýnin sú að líta á alla fanga sem stórhættulega menn sem þurfi að vera í rammgerðu öryggisfangelsi og vöktun?
Eða er tilgangurinn kannski að búa í haginn fyrir einkavæðingu fangelsa að bandarískri fyrirmynd? Í Bandaríkjunum eru á hverjum tíma nokkrar milljónir manns innilokaðir í fangelsum, fangar vinna þar fyrir smánarkaup sem er allt niður í 60 sent á tímann í einhvers konar stórum þrælabúðum sem kallast fangelsi.
Tengill
myndin er af áströlsku fangelsi sem náði yfir sex hektara.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.7.2020 | 14:20
Borgaralaun, Bandaríkjaþing og Kórónukreppan
(lausleg þýðing)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2020 | 17:23
Gunna var í sinni sveit - rasismi og kvenfyrirlitning
Lagið um sveitastúlkuna Gunnu sem kemur til borgarinnar með mjólkurbílnum og leigir sér kvistherbergi upp við Óðinstorg og býður engum heim til sín og bragðar ekki vín endar alls ekki þannig. Þetta er ekkert skátalag til að raula við varðelda og kyrja í rútubílum. Nema fjögur fyrstu erindin.
Í upprunalega textanum sem sunginn var inn íslensku þjóðina í revíunni Halló! Ameríka sem var á fjölunum í Iðnó árið 1942 var líkami Gunnu landslag, saga og stríðsvettvangur og í þessu eina lagi sem varð svo makalaust vinsælt þá er troðið saman kvenfyrirlitningu og rasisma. Hugmyndin að laginu og sama lag er sungið í kvíkmyndinni Spring Parade frá 1940 og sú mynd byrjar reyndar líka á sveitastúlku sem kemur niður úr fjöllunum með geit, sjá skjámynd hér til hliðar og tengingu í bíómyndina á Youtube hér að neðan.
Ef öll erindin eru sungin í söngnum um Gunnu þá flytur hún úr sveitinni á mölina og gefur sig fyrst að breskum hermanni og þiggur af honum fé og situr við drykkju niðri á Borg og síðan þegar breska hernámsliðið fer þá kynnist hún þeldökkum bandarískum hermanni sem lokar á samband við hana þegar hún verður ófrísk og svo eignast hún tvo þeldökka drengi sem hún "gefur bænum" sem sennilega er eitthvað rósamál um að bærinn hafi kostað framfærslu þeirra.
Í byrjun bragsins er Gunna sögð helst til feit og hún fer úr sveitinni í borgina og sollinn og tútnar út og bætir við sig pundum en skreppur svo saman og verður flott og fín þangað til það fer að sjást á henni barnsþykkt en bandaríski hermaðurinn vill hana ekki nema hún sé mjó, sem er sennilega rósamál um að hann yfirgefi hana þegar hún verður ófrísk. Líkami Gunnu er þannig vígvöllur hernámsliðs bæði breska og bandaríska hersins. Tungumálið íslenskan tapast líka þegar líður á lagið og Gunna sem aldrei hafði rödd er núna komin með "voice" og gefur bænum börn en kyni þeirra og litarafti er lýst á ensku. Ég veit ekki hvað orðalagið "til koys" merkir þegar Gunna leggst á sæng, veit ekki hvort það er enskt eða danskt slangur "gå til køjs" sem merkir að fara í bælið. Ef þetta er þannig dönskusletta þá gæti merkingin verið tengja örlög stúlkunnar við þær tvær herraþjóðir sem gunnur þessa lands hafa þjónað.
En hér er textinn Gunna var í sinni sveit. Ég setti erindin sem ekki eru venjulega sungin í rautt letur og skrifaði þau upp eftir söngkonunni Rúnu sem syngur allt kvæðið inn á Youtube myndband og miðað það sem ég las í 14. kafla í nýlegri bók "Gullöld Revýunnar".
Gunna var í sinni sveit
Gunna var í sinni sveit
saklaus prúð og undirleit,
hláturmild, en helst til feit,
en hvað er að fást um það.
Svo eitt haust kom mærin með
mjólkurbíl um leið og féð,
henni var það hálft um geð,
en hvað er að fást um það.
Svo leigði hún sér kvistherbergi
upp við Óðinstorg
og úti fyrir blasti við
hin syndumspillta borg.
Engum bauð hún upp til sín
og aldrei hafði hún bragðað vín,
horfði bara á heimsins grín,
en hvað er að fást um það.
Svo varð hún lokst á vegi manns
verndara þessa kalda lands
oft er dyggðin beggja blands
en hvað er að fást um það.
Austantjalds gekk allt svo trekkt
og aldrei hafði hún fyrir þekkt
hve gljálífið er girnilegt
en hvað er að fást um það.
Og eftir þetta skyldi hún ekki
neitt í sjálfri sér
hve sein hún hafi verið
til að kynnast þessum her.
Sem að engum gefur grið,
í glímunni um kvenfólkið
hún elskaði svona úrvalslið
en hvað er að fást um það.
Eftir þennan fyrsta fund
fór hún til hans hverja stund
og eignaðist svona pund og pund
en hvað er að fást um það.
Seinna varð hún flott og fín
fór á Borg og drakk þar vín
Hernámið var hennar grín
en hvað er að fást um það.
Nú var eftirleikur
og hún lifði í einum rús
við milljónera og lávarða
var hún orðin dús
en alltaf vildi hún vera fitt
og sagði við þá þetta er mitt
Mér er svo sem sama um hitt
en hvað er að fást um það.
Þegar Bretinn burtu fór
brá hún á leik með Grand Mayor
sem hafði dáldið dökkan bjór
en hvað er að fást um það.
En karlinn sá hvar klukkan sló
og hvaðst nú þurfa næði og ró
hún gæti aftur orðið mjó
en hvað er að fást um það.
Á Landspítalann Gunna fór
og lagði sig þar inn
og lengi stóð ekki á
að kæmi rétti dagurinn
Þá gekk hún hýr og glöð til kojs
gaf bænum tvo litla nigger boys
og sagði með sinni sætu voice
já, hvað er að fást um það.
Hér syngur Rúna braginn í heild, öll erindin.
Hér eru tenglar um Ástandið
Love in the time of War Valur Gunnarsson
Mynd af hermannaballi sarpur
Hér fyrir neðan er kvikmyndin Spring Parade frá 1940 sem byrjar eins og bragurinn um Gunnu, byrjar á sakleysislegri sveitastelpu sem kemur til borgarinnar, ekki í mjólkurbíl heldur gangandi niður úr fjallinu með geitina sína. Textinn er fyrir neðan og hann er töluvert sakleysislegri en íslenski bragurinn.
Hér er söngurinn sem sveitastúlkan syngur í kvikmyndinni frá 1940
Fyrir neðan er textinn. Hann er ólíkt sakleysislegri en íslenski textinn.
It´s Foolish but it´s Fun
Though apples green are bad for me
And I'll be sick as I can be
It's foolish but it's fun
And get all wrinkled in the face
From loafing in some shady place
It's foolish but it's fun
That I inherit wealth
I'll eat and drink and drink and eat
Until I wreck my health
And chase the busy bumble bee
Though the bee may light on me
It's foolish but it's fun
And no one dares to venture out
That's when I love to slosh about
It's foolish but it's fun
With pollywogs and mangle worms
And all the very deadly germs
It's foolish but it's fun
And wait for fish to bite
And though they never do
It's nice to think perhaps they might
Beneath the tree I love to lie
And watch the snails go whizzing by
It's foolish but it's fun
My heart is doing somersaults
I love this world with all its faults
It's foolish but it's fun
Especially a wall that's tall
And if I fall, I fall that's all
It's foolish but it's fun
And I want to ring a bell
So I can tell the people
That I like them all so well
The cows go moo, the cuckoos coo
I want to be a cuckoo too
It's cuckoo but it's fun
Höfundar að íslenska laginu (amk 4 fyrstu erindum) eru að ég best veit Bjarni Guðmundsson / Haraldur Á Sigurðsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.4.2020 | 12:44
Blómastúlka frá Möðruvöllum
Ég rakst á þessa sumarlegu mynd af stúlku í blómakjól þegar ég var að glugga í ævisögu afa míns og fylgja honum eftir þegar hann þá fimmtán ára gamall kom til Akureyrar árið 1913 ásamt þremur öðrum piltum úr dalnum. Þeir komu til að fara í skóla og fyrsta árið bjuggu þeir allir saman hjá Marselíu í Gilinu á Akureyri.
Afi segir þetta um vistina hjá Marselíu:
Fyrsta veturinn, sem ég var á Akureyri, bjó ég hjá ekkju, sem hét Marselía og átti heima í Gilinu. Hún hafði sjö námsmenn í húsvist, okkur Svínvetningana fjóra og þrjá Skagfirðinga. Við bæði bjuggum í húsi hennar og höfðum þar fæði. Marsílía átti uppkomna dóttur og áttu þær mæðgur húsið og einnig Möðruvelli í Eyjafirði, svo að þær voru sæmilega efnum búnar. Þó vistin væri góð hjá Marselíu, bjuggum við ekki þarna nema einn vetur, því að samkomulagið hjá okkur sveitungunum var ekki eins og best verður á kosið.
Mér datt í hug að leita á timarit.is og leita á netinu að upplýsingum um konuna með þetta framandlega og sérkennilega nafn Marselía, hver var ævi hennar og hvers vegna var hún með svona marga skólapilta í húsvist.
Ég finn fyrst texta um Kvennasögugöngu Minjasafnsins á Akureyri og Jafnréttisstofu þennan texta um Önnu dóttur Marsilíu:
Lækjargata 3 (Lilliendahlsbærinn).
Hér bjó Anna Margrét Magnúsdóttir f. 1873, d. 1959. Hún gekk í Laugalandsskóla og lærði einnig í Kaupmannahöfn. Anna Margrét var ljósmyndari og setti hún upp verslun í húsinu árið 1902 en þar seldi hún hannyrðavörur og hatta. Anna hafði lært hattagerð í Kaupmannahöfn 1901. Árið 1910 tók Anna við lager af höttum af Önnu Houland sem rak verslun hér í 2 ár og þá opnaði Anna nýja verslun sem hún nefndi Baldursbrá og flutti hana í Brekkugötu og rak hana til 1927. Í Baldursbrá fengust m.a. nýmóðins skreyttir hattar, frönsk og ensk tískublöð, ýmislegt til útsaums og fleira. Anna rak verslun í 25 ár samfellt. Hún var ein af stofnendum Kvenfélagsins Hlífar árið 1907 og gegndi formennsku í því í 15 ár. Hún rak handavinnuskóla á Akureyri í 22 ár, kom á fót sumardvalaheimili fyrir fátæk börn og var ein af frumkvöðlum að byggingu Kristneshælis. Móðir Önnu Margrétar var Marselía Kristjánsdóttir, gestrisin rausnarkona. Hún lagði mikið á sig á efri árum til að mennta dóttur sína og fósturdóttur Jóhönnu Jóhannsdóttur Johnsen söngkonu, f. 1908, d. 1996
Ég fann minningargrein um Marselíu í Mbl. 6. febrúar 1940, hún hét fullu nafni Marselía Kristjánsdóttir og hún fæddist árið 1850 á Sigríðarstöðum í Ljósavatnsskarði og dó árið 1940. Hún giftist tvítug að aldri Magnúsi Ólafssyni á Möðruvöllum, flytur þangað og á þrjú börn, verður ekkja og giftist aftur Sigfúsi Jónssyni kaupmanni á Akureyri og í mörg ár eftir að hann lést býr hún ásamt Önnu dóttur sinni á Akureyri. Þær mæðgur fluttu svo út til Kaupmannahafnar með fósturdóttur sinni og frænku Jóhönnu Jóhannsdóttur sem þar stundaði söngnám. Þær búa í Kaupmannahöfn í nokkur ár en flytja svo til Reykjavíkur með Jóhönnu árið 1932.
Á búskaparárum Marselíu á Möðruvöllum var stofnaður þar skóli. Möðruvallaskóli var stofnaður árið 1880. Skólahúsið brann árið 1902 og þá var skólinn fluttur til Akureyrar og hét fyrst Gagnfræðaskólinn á Akureyri en síðar Menntaskólinn á Akureyri. Ef til vill hefur Marselía hafi verið með skólapilta í Möðruvallaskóla sem kostgangara og haldið því áfram þegar hún flutti til Akureyrar.
Hér er frásögn af bruna Möðruvallaskóla Möðruvallaskóli brunninn 1 Möðruvallaskóli brunninn 2
Myndin af stúlkunni í blómakjólnum hér fyrir ofan ef af fósturdóttur Marselíu, Jóhönnu Jóhannsdóttur Johnsen söngkonu f. 1908 d. 1996.
Ég fann líka á vef Héraðsskjalasafn Skagfirðinga þessa fallegu mynd af mæðgunum Marselíu og Önnu og litlu fósturdóttur þeirra. Jóhanna litla virðist ekki nema svona fimm ára á þessari mynd og þá getur verið að myndin sé tekin í kringum 1913-1914 þegar afi var fimmtán ára kostgangari á heimili þeirra.
Ég fann líka á vefnum glatkistan.com grein um Jóhönnu Jóhannsdóttur. Greinin byrjar svona:
Jóhanna Jóhannsdóttir (síðar Johnsen) var með efnilegustu söngkonum landsins þegar hún hvarf af sjónarsviðinu til að gerast læknisfrú úti á landi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)