6.7.2020 | 14:20
Borgaralaun, Bandaríkjaþing og Kórónukreppan
Borgaralaun (UBI) og svipaðar aðgerðir heyrast æ oftar nefndar sem lausn á þeirri hyldjúpu efnahagskreppu sem heimsbyggðin hrapar nú niður í. Það er öllum ljóst, meira segja hörðustu andstæðingum ríkisvalds að það er útilokað annað en grípa til einhvers konar ríkishagstjórnar á svona óvissutímum, tímum þar sem hagkerfi er skellt í lás vegna farsóttar sem lamar mikið af atvinnulífi og veldur því að mörg störf hverfa. Og kreppan er ekkert að hverfa, það eru falsvonir að það verði einhvers konar "Opnun" á næstunni og að það verði endurhvarf til "business as usual". Það ganga yfir heiminn miklar sviptingar, ekki bara í lífi okkar og samfélagsskipan heldur líka í hagkerfinu og það er líklegt að umtalsverður hluti þeirra starfa sem hurfu með lokunum í Kórónaverufaraldrinum muni ekki koma aftur.
Svona umhleypingar í atvinnulífi þar sem störf hverfa er eitthvað sem við höfum séð fyrir í mörg ár og það án þess að nein kórónaveira yfirtæki líkama manna og gerði menn hrædda hvor við annan. Það standa yfir tæknibreytingar sem eru mun stórtækari en fyrri iðnbyltingar og alvarlegri fyrir stóran hluta vinnandi fólks þó margir kjósi að snúa blindu augu að því og sefja sjálfan sig með því að það hafi alltaf gerst í sögunni að störf hafi horfið en þá hafi bara fullt af störfum komið í staðinn og það muni líka gerast núna, gott ef ekki með tilstyrk þessarar ósýnilegu handar sem Adam Smith og postula kapítalísks markaðskerfis prédika að stýri öllu í réttan og hagkvæman farveg. En það mun ekki gerast, það samfélagskerfi sem við búum við núna er öldungis ófært um að virka farsællega í slíku umróti og uppstokkun. Það mun heldur ekki virka eftir að umrótið er gengið yfir. Kórónukreppan skellur svo á okkur eins stórhríð á hús sem þegar var tekið að liðast í sundur og molna niður. Störf hurfu eins og hendi væri veifað og allir voru reknir heim til sín. Vissulega mun mörg störf koma til baka en mörg munu breytast og sum munu ekki koma aftur og umrótið mun líklega senda marga á vonarvöl.
Stjórnvöld í kapítalískum vesturlöndum leggja áherslu á að fara sem fyrst í sams konar aðstæður og fyrir kreppu og halda að þau geti gert það með að hlú að fyrirtækjum, þá muni á einhvers undursamlegan og töfrandi hátt allt verða gott aftur. En margir benda á að það sé betra að snúa hjálpinni að fólkinu og koma fé í þeirra hendur sem ekkert eða lítið hafa, ef þeir geti keypt vörur og þjónustu , þá muni einhverjir líka geta skapað sér störf við að selja þeim vörur og þjónustu. Það er í svona aðstæðum þar sem við virkilega verður að skoða hugmyndir um borgaralaun eða grunnframfærslu eða UBI.
Einn ötulasti bandaríski talsmaður borgaralauna er Andrew Yang. Hann skrifaði nýlega pistil sem er brýning til Bandaríkjamanna, pistillinn fer hér í lauslegri þýðingu minni:
Hvað getur Bandaríkjaþing gert til að afstýra nýrri kreppu
Andrew Yang: What congress can do to avoid a new Great Depression (CNN, 2. júlí 2020)
(lausleg þýðing)
(lausleg þýðing)
Við erum á bjargbrún annarrar heimskeppu í Bandaríkjunum. En þingið hefur vald til að afstýra því - ef það bregst fljótt við.
Farsóttin Covid-19
Nú þegar hafa 125 þúsund manns dáið af völdum Covid-19 farsóttarinnar í USA og yfir 2.6 milljón hafa smitast og smit heldur áfram að breiðast út í 36 ríkjum, yfir 40 milljón Bandaríkjamanna hafa sótt um atvinnuleysisbætur og hagfræðingar gerar ráð fyrir að um 42% af þeim störfum sem hafa horfið komið ekki aftur.
Milljónir manna eru fullir örvæntingar. Það mun ekki virka að opna aftur hagkerfið því milljónir Bandaríkjamanna átta sig á því að farsóttin mun halda áfram að æða yfir og það er engin leið að fara aftur í sama far og fyrir þessa kreppu. Í Texas var til að mynda öllum börum lokað eftir að reynt var að opna allt of fljótt og í Flórída eru sumar baðstrandir lokaðar á 4. júlí frídeginum. Við verðum að horfast í augu við og viðurkenna að við erum mun nær byrjun þessarar kreppu heldur en endi hennar og bæði atvinnulíf og efnahagslíf verður í lægð um ófyrirsjáanlega framtíð.
Til að bregðast við þessum efnahagshamförum þá hefur ríkisstjórn Bandaríkjanna samþykkt röð af efnahagsaðgerðum og þar sérstaklega CARES Act. Í þessum aðgerðum eru yfir $2 trilljón dollarar settir í auknar atvinnuleysisbætur, beinar greiðslur, lán til smærri fyrirtækja og fjárframlög til heilbrigðisþjónustu og rannsókna.
Þetta er stærsti hjálparpakki sem nokkurn tíma hefur verið samþykktur en er þó hvergi nærri stór til að bjarga við hagkerfi sem hefur verið lamað í marga mánuði. Fólkið eyddi beinum greiðslum fyrir nokkrum vikum og bráðum munu auknar atvinnuleysisgreiðslur líka vera uppurnar. CARES Act hjálparpakkinn hélt milljónum manna á floti en nú er tíminn að renna út.
Þingir er núna að rökræða um hvernig næsti hjálparpakki eigi að vera og það lítur út fyrir að vera núna í blindgötu. Þingið samþykkti $3 trilljón HEROES Act í maí með fjármagni frá ríki og staðbundnum yfirvöldum þar sem allt að $6,000 voru sett í beinar greiðslur til allra heimila og áhættuálag til þeirra sem sinna nauðsynlegri vinnu. Repúblikanar í báðum deildum þingsins vilja greiða út bónusa til þeirra sem snúa aftur til starfa í stað þess að aukið fjármagn sé sett í atvinnuleysisbætur. Enginn virðist vita hvenær næsti hjálparpakki fer í gegnum þingið.
Þetta er hræðilegt ástand. Nálgun þingsins þegar hagkerfi okkar stendur í ljósum logum er að skvetta á það svolitlu af vatni og ganga svo í burtu á meðan allt fuðrar upp. Það eru aðeins nokkrar vikur þangað til fjöldi fólks missir húsnæði sitt og verður á götunni og meiri örvænting hefur ekki verið síðan í Heimskreppunni. Fólk er þegar í margra mílna biðröðum eftir matargjöfum og ástandið hríðversnar í þúsundum sveitarfélaga.
Hver er svo lausnin? Það er frumvarp í þinginu núna með 40 samflutningsmönnum. Það er frumvarpið the Emergency Money for the People Act - sem gengur út á að hver fullorðinn sem hefur minna en $130.000 á ári fái $ 2000 á mánuði í allt að 12 mánuði og hjón með minna en $260,000 á ári fái að minnsta konsti $ 4,000 á mánuði og að uppfylltum skilyrðum fái fjölskyldur með börn allt að $500 á mánuði með hverju barni (upp að þremur börnum)
Þetta myndi setja peningar beint í umferð, beint í hendur fólks. Það myndi hjálpa tugum milljóna Bandaríkjamanna að komast í gegnum kreppuna og styðja við milljónir starfa því fleiri gætu pantað mat og látið gera við bíla sína og verslað í matinn hjá litlum fyrirtækjum sem vinna hörðum höndum. Í staðinn fyrir að veita fé stjónvalda til fyrirtækja og vona það besta ættum við að veita fé í beinan stuðning við fjölskyldur. Það myndi gefa Bandaríkjamönnum örygga leið fram á við og gefa okkur raunverulega möguleika til að sigrast á þessari farsótt. Það er heilbrigð skynsemi, þa' er áhrifaríkt, þa' er vinsælt. Það mun virka.
Við stöndum andspænist almennri heilbrigðisvá sem leiðir til nýrrar heimskreppu. Tugir milljóna Bandaríkjamanna eru fullir örvæntingar og vonleysis. Þetta þarf ekki að gerast. Þingið verður að hlusta á bandarískan almenning, fólkið sem það hefur svarið eið að því að þjóna, og gera það sem gera þarf. Ef þingið bregst í þessu þá munum við sjá lífshætti okkar molna niður og bæði Demókratar og Repúplikanar verða að útskýra fyrir fyrri kjósendum sínum hvers vegna þeir brugðust þeim í augljósri sögulegri kreppu. Þessi kreppa hefur þegar kostað okkur líf 120 þúsund Bandaríkjamanna og 40 milljón starfa. Það er tími til framkvæmda - áður en kreppan verður svartari fyrir milljónir.
Mynd með CC leyfi er frá Baile Air Force Base.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.