Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Pappírsblaðaútgáfa á fallanda fæti - Rannsóknarblaðamennska undanfarinna ára

Sennilega verður það einn angi af heimskreppunni sem núna geisar að það dregur mjög úr útgáfu dagblaða og tímarita. Þessi útgáfumáti er á fallandi fæti eins og íslenska krónan. Það eru auglýsendur og hagsmunaaðilar sem halda uppi fjölmiðlum og auglýsa vörur sínar þar. Ef eftirspurn eftir nánast öllum vörum og sérstaklega lúxus vörum og merkjavörum dregst saman eins og hún gerir óhjákvæmilega í kreppu þá brestur grundvöllur undan útgáfunni.

Þar að auki munu lesendur spara við sig og þeir eru líka smán saman að venjast öðru umhverfi, það eru að vaxa upp kynslóðir sem vilja fá fréttir, umræðu og umfjöllun á netmiðlum og pappírsútgáfan getur ekki margt sem netútgáfan getur. Satt að segja er erfitt að sjá hvað pappírsútgáfan hefur fram yfir nema að það er auðveldara að halda á blaði  en á móti kemur að í netvæddum heimi þar sem maður getur verið víðast hvar í sambandi og með litlum ódýrum fartölvum þá er þetta ekki mikið atriði.

Það er hins vegar mikið áhyggjuefni mitt hverjir ráða orðræðunni í íslensku samfélagi, hverjir ráða yfir hinum nýju netsamfélögum  fréttatens efnis og hverjir ráða yfir útvarps- og sjónvarpsfréttamiðlum.

það er ekki ennþá búið að selja burt og eyðileggja allar auðlindir Íslands og þar er fyrirsjáanlegt að það eru margir sem vilja komast þar að borði. Það hefur verið hverjum manni sjáanlegt að það hefur verið einkennilega staðið að fjölmiðlun á Íslandi á undanförnum árum m.a. hafa þeir sem núna er talið að steypt hafi þjóðinni í glötun með viðskiptabrölti sínu í útlöndum og hér innanlands haft og hafa ennþá tangarhald á fjölmiðlum. Þannig hafa þeir tryggt sér hliðholla umfjöllun og þá ekki síður að þagað væri yfir því sem hefði átt að vekja áhuga og eftirtekt rannsóknarblaðamanna.

Sömu lögmál gilda um netmiðla og netsamfélög og hefðbundna fjölmiðla. Sá sem ræður yfir þeim getur ráðið umræðunni og þaggað og magnað upp raddir sem þjóna hagsmunum eigenda/stjórnendum slíkra samfélaga. 

það er ekkert gagn að rannsóknarblaðamanni sem er á mála hjá þeim sem þarf mest að rannsaka. 


mbl.is Árvakur fækkar störfum um 19 og lækkar laun stjórnenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð veð og Rússalán

Það eru myrkir tímar í fjármálum íslensku þjóðarinnar.  Það er ekki langt síðan seðlabankastjóri lýsti fyri í sjónvarpi að einn banki þ.e. Kaupþing hefði fengið lán frá bankanum í nokkra daga gegn mjög góðum veðum. Nú hefur komið í ljós að þau veð eru ekki mikils virði og Seðlabankinn mun væntanlega tapa miklu. Einnig batt seðlabankastjóri þá vonir við Rússalán og viðræður höfðu farið fram um það. Nú hafa skipast veður í lofti. Rússar eru í afar slæmri stöðu sjálfir vegna heimskreppunnar og vegna þess að mjög mikil lækkun hefur verið a olíuverði þannig að fremur ólíklegt verður að teljast að Rússar geti eða vilji lána núna.

Það má líka minna á að fleiri en einn af útrásarvíkingum og þeim sem stýrðu bönkum fyrir hrunið hafa álasað seðlabankanum fyrir að hafa ekki lánað þeim þrátt fyrir öruggar tryggingar. Þessar tryggingar kallaði Davíð seðlabankastjóri  eins og öruggar  og ástarbréf í frægu Kastljóssviðtali. En tryggingar sem hann og aðrir í Seðlabankanum mátu gulltryggar reyndust ekki vera það og lánamöguleikar hjá Rússum eru sennilega ekki fyrir hendi.

Nú ætlast ég ekki til að neinn bankamaður, athafnamaður eða stjórnmálamaður hafi séð fyrir það gjörningaveður sem geysað hefur í fjármálaheiminum en ég held að það sem er að gerast fyrir framan augun á okkur sýni að fjármálastofnanir eru allt of máttlitlar og óburðugar stofnanir og það gengur ekki í nútíma þjóðfélagi alheimsvæðingar að hafa  einhvern svona lítill gjaldmiðil sem getur blásið út aukabólur.  Hagstjórn undanfarinna vikna á Íslandi hefur verið í meira lagi undarleg. það er reyndar þröng staða sem hér er vegna verðtryggingar lána, það er búið að byggja inn í kerfið að hver einasti Íslendingur sem eitthvað skuldar og aflar hér tekja fær stórkostlegan skell. Sumir missa vinnuna en á sama tíma þá hafa eignir allra verið niðurskrifaðar um tugi prósenta og skuldir hækka eftir gengi eða verðbólgu. Kaup þeirra sem þó halda vinnunni hefur lækkað um tugi prósenta gagnvart kaupi erlendis vegna gengisskráningar.

Kerfið hérna er skrýtið og öðruvísi og eins og alltaf þá hefur hagsveifla heimsins magnast upp á Íslandi. En núna  komið að þolmörkum.


mbl.is Seðlabankinn í mínus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrur og norskar krónur

Það er álíka trúverðug fréttin um að Björgófsfeðgar ætli að borga skuld Eimskips (sem þeir gerðu ekki) og að Evrópusambandið ætli að veita Íslendingum einhverja flýtimeðferð og hraðafgreiðslu varðandi upptöku Evru.  Myntsamkomulag við Noreg er miklu raunhæfari kostur til skamms tíma litið.

Þó margt bendi til að hagsmunum Íslendinga sé best borgið til langs tíma litið í Evrópubandalaginu þá er það   alveg ga-ga fréttaflutningur hjá RÚV sem ábyrgs fjölmiðils að vitna í mann út í bæ sem segist hafa heyrt að segist hafa heyrt að Íslendingar bjóðist einhver flýtimeðferð í myntbandalagið. Eiga Íslendingar sem sagt að flýta sér að sækja um EBE án þess að nokkur vitræn umræða hafi farið fram og svo efna í ofboði til þjóðaratkvæðagreiðslu í paníkástandi í íslensku samfélagi

Eiríkur Bergmann Einarsson er háskólakennari á Bifröst og sem slíkur þá passar hann sig örugglega á því að lofa engu fyrir hönd EBE enda er hann að ég best veit enginn milligöngumaður eða trúnaðarmaður Evrópusambandsins.

þetta virðist vera einhver leikur þeirra sem vilja draga athyglina frá því hvað þeir voru að gera síðustu ár og hvers vegna þeir stóðu sig ekki á vaktinni að fara í þennan Evruhasar. Það er langt ferli að taka upp evru og það eru engir sjáanlegir hagsmunir EBE að veita Íslendingum nein skilyrði sem aðrar þjóðir fá ekki. Það eru hins vegar mjög augljósir hagsmunir hjá Norðmönnum að veita Íslendingum liðsinni í myntmálum.


mbl.is Vill endurskoða ESB og Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinar ósýnilegu og valdalausu

Það er flott hjá Jóhönnu félagsmálaráðherra að senda brýningu til ríkisbankanna um að gæta að kynjahlutfalli. En það er ekki nóg. Til þess að fyrirtækjum og stofnunum á Íslandi sé skynsamlega stjórnað þá þurfa valdamestu stofnanir að endurspegla þjóðina sem býr í þessu landi, ekki vera matadorpeningar fyrir feðgapör landsins.

Konur hafa verið nánast ósýnilegar í stjórn á auðlindum íslands og hvernig farið hefur verið með íslenskt fé. Gamla orðatiltækið "Kerlingin eyddi og karlinn að dró" á svo sannarlega ekki við íslenskt þjóðfélag síðustu ára og þær skuldir sem nú sliga þjóðarbúið. Það er grátbroslegt að hugleiða núna rök þeirra sem hafa talað á móti því að bundið væri í lög hvernig kynjahlutfallið væri í stjórnum almenningsfélaga. Rökin hafa verið eitthvað um að þá yrðu fyrirtækjunum svo illa stjórnað. Þegar litið er yfir sviðna jörð  íslensku útrásarmannanna þá spyr maður "Getur stjórnun fyrirtækja verið verri, óskipulegri, spilltari og fáránlegri og siðspilltari en sú stjórnun á bönkum og fyrirtækjauppkaupum sem stóð yfir síðustu ár? "

Það er ekkert vafamál að staða Íslands væri miklu betri núna hefðu karlar og konur komið til jafns á við að stýra auðlindum og atvinnulífi Íslendinga.  

Hér er vídeóbrot sem ég tók  árið 2003 á ársfundi félags útgerðarmanna. Ég læddist inn á fundinn og tók upp. Það voru mörg hundruð manns á fundinum en að ég held engin kona. Svo einkennilega vill til að í þessu vídeóbroti þá heyrist mér sami maður vera að tala og var formaður bankastjórnar Glitnis þegar sá banki féll, það hefur sennilega verið búið að breyta silfri hafsins og kvótanum í bankaspilapeninga. Í myndbrotinu segir maðurinn "Ef við lítum í kringum okkur...". En hann sá ekki sama og ég sá. Það eru fimm ár síðan staða auðlinda Íslendinga og hverjir ráðskast með þær opinberaðist fyrir mér.

Hér er texti á ensku sem ég skrifaði um þennan fund:

Video from the annuary meeting of The Federation of Icelandic Fishing Vessel Owners in 2003(http://www.liu.is) This federation represents all Icelandic fishing vessel owners in order to safeguard their interests. The wealth of Iceland is in Icelandic resources and used to be mainly in the very fertile fishing grounds around Iceland. Icelandic law says that the fishing ground is owned by the whole nation of Iceland.
But reality in different. There is a fishing quota system and the permission to fish was given to the owners of the fishing vessels... not to the fishermen and not to the Icelanders in the small willages. The fishing quotas are becoming the most valuable assets in the fishing industry. These videoclips are of the persons who represent those who own fishing quotas. If we look around we can see who is present... if we look around we can see who is absent. Try to count the number of women in this meeting, that gives you estimate of the power of Icelandic women.. that tells you who run Iceland and that tells you who don´t.


mbl.is Fjármálastofnanir virði jafnréttislög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reikult er rótlaust þangið

Hér er myndband sem sýnir þangframleiðslu í Indónesíu og hvaða vandamál steðja að henni og tengjast alþjóðavæðingunni. Myndbandið  er af þangframleiðslu á eyjum í Indonesíu og hvernig verð á þangi hækkaði skyndilega í ágúst síðastliðinn og féll svo skyndilega. Enginn veit skýringarnar, var það spákaupmennska, hvað gerðist?

Er það í svona ástandi sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kemur til hjálpar? Hverjum er hann að hjálpa? Hvaða kerfi er hann að vernda og viðhalda?

Við ættum að skoða þá aðstöðu sem Ísland er í núna til að átta okkur á hve lík örlög hafa mætt mörgu fátæku fólki og nú mæta Íslendingum og hvernig IMF hefur gripið inn í en hjálpandi hönd alþjóðasamfélagsins er stundum lamandi aðferð til að halda föngnu fólki föngnu áfram í gildrum nútímakapítalisma.

Hér er grein sem Jón Danielsson skrifar á BBC þar sem hann segir að hækkun vaxta á Íslandi muni ekki virka. Nú hafa vextir verið hækkaðir á Íslandi, alveg andstætt við það sem er gert allt í kringum okkur, það voru alls staðar lækkaðir vextir

Hvers konar efnahagshjálp er þetta sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veitir Íslandi? Hverju er verið að hjálpa? Ekki íslenskum atvinnuvegum sem eru að framleiða einhverja vöru eða búa til einhvern virðisauka heldur virðist aðalefnahagstækið núna snúast um að ná einhverri stjórn á þeim hluta af peningamatator heimsins sem teygir anga sína til Íslands. Gengisskráning og vextir á Íslandi ráðast ekki af atvinnuástandi og atvinnuvegum á Íslandi heldur af því  hvort gengið sé passlega hátt eða lágt til að gjaldeyrir sogist ekki frá landinu.

Snýst allt um þessa pappírssvikamyllu heimsins sem nútíma peningakerfi virðist vera? Pappírssvikamyllu sem er spil þar sem er vitlaust gefið, spil þar sem þeir sem eru í aðstöðu hafa falið alla Ásana í sínum fórum og reyndar fjölfaldað nokkra ekstra Ása til að bæta inn í spilið svo lítið beri á. Svona er fátækum haldið fátækum og ríkidæmi flutt til ríkra. Svona er líka hægt að hneppa íbúa fátækra landa í þrældóm sem getur staðið yfir í margar kynslóðir.

Við ættum að spila nóló.


mbl.is Ekki benda á mig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinaþjóðin Færeyingar og óvinirnir sem koma innan frá og utan

Ég er nú hrærð yfir stuðningnum sem við fáum frá okkar nágrönnum, þjóð sem veit alveg hvernig það er að verða leiksoppur í bankakreppu.  Það væri gaman að fá söguna rifjaða upp um bankakreppuna í Færeyjum, hvernig kom hún til? Var hún venjulegum íbúum í Færeyjum að kenna?

Var hún þeim að kenna á sama hátt og ég vaknaði upp einn daginn og var sagt að nú skuldaði ég stórfé, svo háar fjárhæðir að ég skynja varla stærð þeirra og svo háar að ég gæti aldrei borgað þær til baka, dætur mínar yrðu að hneppast í skuldaþrældóm og kannski myndi taka margar kynslóðir að borga þetta til baka. Hugsanlega væri eina leið okkar að flytjast frá eyjunni þar sem við höfum búið allt okkar líf. 

Ég vaknaði líka upp einn daginn við að ýmsir halda því fram að ég hafi verið að eyða og spenna og lifa um efni fram, meira segja mennirnir sem gengu berserksgang í útlöndum við að kaupa einhverjar alþjóðlegar verslunarkeðjur, þeir koma í sjónvarpið og nota orðið "Við" um það. Átti ég eitthvað í þessum verslunarkeðjum? Vissi ég af þessum Icesave reikningum, vissi ég að íslenska ríkið væri á einhvern hátt ábyrgt fyrir bankainnistæðum Breta í einhverjum netbönkum? Hvernig getur það verið að ég sem hef engin lán tekið síðan í kringum 1988 og hef í marga áratugi verið að borga upp skuldir mínar skuli núna vera orðin stórskuldug og ekki geta sofið á næturna vegna áhyggna á hvernig takist að semja um skuldir mínar í einhverjum Icesave reikningum?

Voru það svona tilfinningar sem bærust með venjulegum íbúum Færeyinga þegar bankakreppa þeirra skall á?  Hvers vegna eigum við íbúar heimsins að sætta okkur við að vera leiksoppar í hráskinnaleik einhverja auðjöfra sem halda að hamingja okkar, lífsöryggi, lífsviðurværi og heimkynni sé eitthvað sem hægt er að setja verðmiða á og þessir verðmiðar geti svona runnið hömlulaust um heiminn og kippt í einu vettvangi undir okkur fótunum?

Við Íslendingar eigum núna að vera orðin stórskuldug. Brást aflinn? Er fólk hætt að kaupa fisk? Erum við í stríði og allir vopnfærir menn að berjast með ærnum tilkostnaði einhvers staðar?  Nei. Við erum þvert á móti á stað í heiminum þar sem allt bendir til að auðlindir verði miklu verðmætari á næstu áratugum. 

Hvað gerðist? Var það ef til vill svo alvarlegt, svo meðvitað að það var ekki annað en landráð?

Ég held að þó að Færeyingar hafi  þolað ömurlega bankakreppu þá hafi ekki skollið yfir þá á sama tíma sú hvassa milliríkjadeila sem Ísland sogaðist í og það var enginn sem beitti hryðjuverkalögum á Færeyinga.  Ég held ég jafni mig aldrei á því þegar ég sá Gordon Brown í sjónvarpinu, mér leið eins og almenningi í Írak hefur liðið þegar Bush réttlætti að hernaðarinnrás í Írak til að leita að kjarnorkusprengjum. Ég hugsaði að þessi maður með sína spinndoktora honum yrði ekki skotaskuld úr að búa til þjófa úr Íslendingum og réttlæta innrás inn í Ísland af því "við skulduðum þeim svo mikið". 

Ég skil ekki hvernig ég er í ábyrgð fyrir einhverjum bankareikningum í Bretlandi og ég tel að ýmsir aðilar á Íslandi hafi brugðist mér og öðrum Íslendingum heiftarlega. En kaldar kveðjur Gordon Brown til Íslendinga skildu eftir sig djúpt sár á sál minni, að vera ógnað á þessum tíma af þjóðhöfðingja vinsamlegs grannríkis á stund neyðarinnar.  Einmitt á sama tíma þá bárust hlý orð frá yfirvöldum í Færeyingum.

Íslenska þjóðin sér í þrengingum sínum hverjir eru vinir í raun.  En pössum okkur á því að búa ekki til björgunarhetjur úr brennuvörgunum sem í mörg ár komu sér fyrir í íslensku þjóðfélagi, sköpuðu sér völd og aðstöðu til að ráðskast með og höndla með  fjöregg Íslendinga og búa til kerfi þar sem því var breytt í pappíra og verðmiða sem þeir og þeirra líka gátu togað á milli sín og sogað til sín í misstórum ræmum .

Og fyrir alla muni látum ekki sömu mistökin henda aftur og aftur.  Við sem höfðum stjórn sem gaf  fiskimiðin til hinna ríku, við sem höfðum stjórn sem gaf bankanna og peningagerðarvaldið til hinna voldugu, verum á verði fyrir stjórn sem nú vill gefa auðlindirnar frá þjóðinni. Látum ekki blekkjast af fagurgalanum, þeim sem tala um "sjóð handa komandi kynslóðum" eða að þetta sé bara spurning um að leigja virkjanir, eftir sem áður muni þjóðin eiga þær. Já. einmitt. Það stendur í lögum að fiskimiðin séu sameign Íslendinga. Já einmitt. Þau lög eru bara grátbrosleg í dag, hvar eru þeir og hverjir eru þeir sem hafa núna leyfi til að veiða fisk við Ísland?

Lögin sem yfir sextíu Íslendingar taka þátt í að semja og samþykkja eru líka fagurgali, lagasamkundan Alþingi er stofnun sem ver mestum tíma sínum í að stimpla lög sem koma tilbúin frá Brussel og svo einhverjum hluta í að blekkja  okkur og fela lög sem eru smán saman að taka af okkur allt sem við eigum og selja það í hendur einhverjum einkaaðilum sem geta svo selt þetta aftur til baka til einhverja olígarka í Rússlandi eða auðfursta í Austurlöndum eða útrásarvíkinga sem hafa núna flutt bækistöðvar sínar til Tortila eyja.

Þessi kreppa ætti að kenna okkur að þekkja hverjir eru vinir í raun en líka hverjir eru hvæsandi óvinir utan að eins og Gordon Brown en vonandi kennir hún okkur líka að þekkja þræði þeirra óvina sem éta upp íslenska þjóð innan frá.

Færeyingar eru vinir okkar.
Grein mánaðarins á færeysku wikipedia er núna greinin um Ísland.


mbl.is Mikill drengskapur Færeyinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fínn fundur í Iðnó - hefðu bara getað sleppt að kalla alþingismenn á svið

Fundurinn í Iðnó var fínn, miklu betri en þessi mótmæli sem ég var í við Ráðherrabústaðinn á laugardaginn. Þau voru satt að segja dáldið eins og skrílslæti á köflum. Það er stundum örþunn lína á milli málefnalegrar umræðu og heiftúðugra skrílsláta þar sem lýðurinn hrópar á að einhver sé hengdur í gálga. Frummælendur á Iðnófundinum voru líka allir mjög góðir og það var líka þess vegna sem ég fór á fundinn. Svo voru fyrirspurnir og ég reyndi oft á fundinum að ná athygli svo ég gæti komið að fyrirspurn en mér tókst það því miður ekki.

Það voru margir sem tjáðu sig, flest karlar og margir að vekja athygli á eigin aðstæðum og sumir fóru að segja sögu af sjálfum sér og sínum aðstæðum og sínum lausnum á vanda þjóðarinnar. Sævar Síselski  sögupersóna í Geirfinnsmáli og Breiðuvíkurdrengur tróð upp með hugmynd sína að leigja Rússum Langanes fyrir sín umsvif, ekki þó hernað og svo væri allra meina bót ethanól framleiðsla sem mér skildist að ætti líka að vera á Langanesi. Ekki veit  náði ég alveg hvort Sævar hefur smitast af Al Gore, Ólafu Ragnari forseta og Össuri af þessari græn-orku bylgju og vilji búa til bíódýsil til að knýja bifreiðar eða hvort hann vildi bara koma sér upp drykkjarveigum. Nema hvort tveggja sé.

Ég var hins vegar ekki ánægð með hve mikið vægi þeir alþingismenn sem voru staddir á fundinum fengu. Ég er þreytt að heyra það fólk sem átti að gæta gæta hagsmuna okkar en gerði það ekki sverja af sér misgerðir sínar. Sérstaklega  á ég erfitt með að hlusta á menn eins og Illuga Gunnarsson, Sigurð Kára og Pétur Blöndal en þeir voru allir á fundinum og töluðu. Illugi hefur markvisst undanfarið ár reynt að stela orkulindum Íslendinga frá okkur á sama hátt og með sömu rökum og réttur til fiskveiða var færður útgerðarmönnum og bankarnir og peningargerðarbóluvél þeirra var færður vel völdum og velþóknanlegum aðilum sem komu okkur svo í þær aðstæður sem við erum í núna. Mér varð nú næstum óglatt þegar Illugi reyndi að afsaka hvernig fór með bankana, hvernig einkavæðingin hefði mislukkast vegna þess að það hefðu verið svo fáir eigendur. Man hann kannski ekki jafnvel og ég að þetta var matreitt fyrir okkur sem almenningshlutafélag þar sem allir Íslendingar fengu einmitt rétt til að eiga part í. En sumir fengu bara að eiga meiri part en aðrir og litlu hluthafarnir fengu ekki að ráða neinum.

Sigurður Kári hefur að ég best veit ekkert gert á þingi nema stundað hagsmunagæslu fyrir fjármagnseigendur og söluaðila áfengis, hans ákafasta áhugamál er að maður geti keypt áfengi hvar og hvenær sem er. Það var átakanlegt að á meðal Ísland brann í vítislogum þá flutti Sigurður Kári ennþá einu sinni einhverja af þessum áfengistillögum sínum. Frelsi Sigurðar Kára er frelsið Íslendinga til að drekka sig fulla á auðveldan hátt og viðskiptafrelsi vínkaupmanna. Var annars ekki Sigurður Kári ekki um daginn að berjast fyrir því að fá að flytja bíla úr landi og fá ríkisstyrki til þess?  Um Pétur Blöndal er best að hafa sem fæst orð. Það er maður sem hefur engar hugsjónir nema auðsöfnun og  lítur á það sem sína mestu hugljómum í lífinu að hirða upp "eigendalaust fjármagn". 

Sumir af þeim þingmönnum sem þarna voru eru þó saklausir af því að hafa verið hlaupatíkur fjármagnseigenda. Aldrei getur neinn sagt annað um Ögmund Jónasson en að hann hafi veitt þeim hvassa gagnrýni undanfarin ár og fyrir það á hann miklar þakkir skilið og aldrei hefur Mörður Árnason verið með fjármagnseigendum í liði. Bjarni Harðarsson okkar framsóknarmanna er líka óspjallaður af þeim sökum, ekki vegna Framsóknarflokksins heldur vegna þess að Bjarni er nýkominn á þing og ber ekki ábyrgð á sok þeirra sem stýrðu  bankamálum og einkavæðingu fyrir hans daga.   

Ég bind vonir við þessa borgarafundi og vil þakka þeim sem skipulögðu hann. Það var frábært að heyra erindi frummælenda, þau voru Einar Már Guðmundsson rithöfundur, Björg Eva Erlendsdóttir blaðamaður, Lilja Mósesdóttir hagfræðingur og Vilhjálmur Bjarnason viðskiptafræðingur.

Það er samt íhugunarefni hverjir tala og hverjir eru sýnilegr á svona borgarafundum og mótmælaaðgerðum. Það var mjög áberandi í mótmælunum síðasta laugardag, þar klofnaði mótmælin í tvær fylkingar, út af hverju veit ég ekki. Það er líka íhugunarefni hvernig ný samskiptatækni getur gert okkur annað hvort kleift að búa til nýtt félagsnet sem er lýðræðislegra og leyfir fleirum að tjá sig eða getur orðið til að styrkja valdastöður þannig að hinir voldugu verði ennþá voldugri. Ég hugsa að blogg sé afar mikilvægt lýðræðistæki og stór partur af þjóðfélagsumræðu núna fer fram í bloggheimum, sérstaklega hér á moggablogginu.


mbl.is Húsfyllir í Iðnó - hiti í fundargestum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blóðbað í Asíu - Að búa til peninga með því að skuldsetja

 Blóðbað í Asíu

Filipseyjar og fleiri Asíuþjóðir fara sennilega í sömu gjörgæslu hjá Alþjóðagaldeyrissjóðnum og Íslendingar. Gengið hjá þeim hefur fallið um 12 % í morgun. Þetta verður ekki góður dagur á verðbréfamörkuðum heimsins. Allt hrapar í verði. Líka það sem hefði átt að hækka eins og olía og gas og gull. Næst botninn fyrst þegar allt verður verðlaust? Hvernig getur þetta gerst?

Svarið er ekki einfalt og svona alvarlegir atburðir hafa ekki gerst síðan í heimskreppunni 1930. Þetta er langt frá því að vera íslenkt vandamál, þetta er grafalvarlegt mál alls heimsins.

Ástæðan fyrir að þetta gerist er að það er kerfi át sjálfan sig upp, kerfi sem byggðist á  margs konar hringrásum í peningakerfum, hringrásum sem gátu  búið til peninga sem aldrei voru til. Það hefur m.a. gerst með "carry trade" milli gjaldmiðla. En það hefur líka gerst með útlánum bankanna.  Bankakerfi heimsins var fyrir löngu orðið spinnegal og bara  þurfti að snúast í kringum sjálft sig á sífellt meiri hraða í hringrás sem virkaði bara þegar hún hélt endalaust áfram. Svo þegar þurfti að borga og þeir sem áttu kröfur kölluðu á fé í stað þess að endurnýja þá varð útlitið svart hjá þessum sem héldu áfram að endurfjármagna sig trekk í trekk. Vitum við venjulegir borgarar eitthvað um jöklapréf og krónubréf?

Sennilega ekki en við ættum að kynna okkur hvernig peningar vinna í nútíma vestrænu hagkerfi. Í þannig kerfi býr bankinn til peninga með því að lána.  Ég hvet alla til að horfa á þessa mynd (47 mín) um peningamaskínu bankanna.

 

 

Gullgerðarmenn miðalda voru alveg á villigötum. Þeir voru að reyna að búa til gull og verða ríkir. Listamaðurinn PAul Grignon setur fram sýn sína á peninga sem skuld. Hann segir: "Nútíminn hefur alveg glænýja aðferð til að búa til peninga. Það er að búa til skuldir. Það eru tveir aðilar í nútímaþjóðfélagi sem geta búið til peninga. Ríkisstjórnir geta prentað peninga en bankar geta búið til peninga með skuldum. Þetta útskýrir hvers vegna svona mikil áhersla er lögð á að lána, jafnvel lána til fólks sem alls enga möguleika hefur á að borga aftur.

Bankarnir geta búið til eins mikla peninga og við getum fengið að láni. Aðeins 5 % af peningum eru frá ríkisstjórnum, 95% af peningum eru búin til af bönkum sem búa til peninga með því að lána.

Vídeómyndin útskýrir hvað peningar eru í nútímasamfélagi og skoðar peninga sem skuld. Þetta vídeó útskýrir líka hvernig kerfið virkar aðeins ef það vex og vex.


mbl.is Hlutabréf falla áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvær leiðir færar

Þegar bankarnir féllu orðuðu gárungarnir það svo að nú væru tvær leiðir færar.

Icelandair og Icelandexpress.

Til langs tíma litið eru ef til vill  aðeins tvær leiðir færar. 

Þær eru að verða Íslendingur í Noregi eða verða Norðmaður á Íslandi.

 


mbl.is Ráðherrar funda um Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að þekkja sinn vitjunartíma

Það eru skiptari skoðanir innan Framsóknarflokksins en innan margra annarra flokka um aðild að Evrópusambandinu.  

Ég hef reyndar verið þeirrrar skoðunar að það væri tímaspursmál hvenær rétt væri fyrir Ísland að sækja um inngöngu. Það væri spurningin að þekkja sinn vitjunartíma. Sá tími væri þegar  Evrópusambandið hefði breytt sjávarútvegsstefnu sinni  og/eða þegar sjávarútvegshagsmunir Íslendinga væru orðnir það litlir að það stæði ekki í vegi fyrir inngöngu. Það taldi ég að gæti gerst t.d. ef fiskveiðikvóti Íslendinga væri allur kominn úr eigu fólks búsetts á Íslandi  t.d. í gegnum fyrirtæki sem ætti fyrirtæki sem ætti fyrirtæki ... o.s.frv. sem væri skráð  Tortola eyju eða í eigu rússneskra auðjöfra eða annarra.

Ég sá ekki fyrir mér þetta ástand sem nú er. Ef til vill er kvóti Íslendinga núna falinn í fyrirtækjum sem óbeint er stýrt frá hinum nýju ríkisbönkum. Ef til vill er mikill hluti af kvóta Íslendinga í einhverjum eignarhaldsfélögum sem í gegnum þéttriðið og kræklótt og ógreinanlegt net eignarhaldsfélaga er í eigu einhverra annarra en aðila sem gera út frá Íslandi. 

Það væri mjög áhugavert núna að fá úttekt á því hver á fiskveiðikvóta Íslendinga. Ennþá áhugaverðara er að komast að því hverjir girnast orkulindir Íslendinga og hvað þeir hafa gert og ætla að reyna að gera til að komast yfir þær. Varðandi fiskveiðikvótann þá fylgist ég sæmilega vel með gömlu bæjarútgerð okkar Reykvíkinga sem núna heitir HB Grandi en  það félag er að stórum hluta í eigu annarra félaga. Svoleiðis er með flest hlutafélög á Íslandi, það er ótrúlega margslungin félög sem fléttast hvert inn í annað. Það nægir líka að eiga ráðandi hlut í félagi til að geta spilað með það eins og sína einkaeign. Einstaka sinnum hefur maður á tilfinningunni að það sé beinlínis verið að búa til félög sem eiga félög sem eiga félög til að villa um fyrir almenningi og breyta þekkingarsamfélaginu í blekkingarsamfélag. 

En alla vega þá hafa málin þróast undanfarið Íslandi mjög í óhag. Bankarnir hafa fallið og Ísland er rúið trausti og ríkissjóður verður að taka á sig miklar skuldir. Það er sennilegt að það hefði hjálpað mikið að hafa evru hérna þegar fárviðrið byrjaði. En svo var ekki og íslenski gjaldmiðillinn er núna rjúkandi rúst.  Hins vegar er mikilvægt að fólk átti sig á því að það er alls ekki svo að lönd innan Evrópusambandsins standi traustum fótum og fjármagn getur alveg sogast á milli staða viðspyrnulaust. Þannig er búist við að fjármagn sogist frá Austurríki. Það er ekki víst að EBE veiti ríkjum sínum neitt skjól í þeim hörmungum sem núna soga fé fram og til baka.  Það munu hugsanlega mörg lönd þurfa að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sérstaklega eru í hættu lönd sem voru hluti Sovétríkjanna. Til þeirra streymdu lán í gegnum "carry trade" frá Japan en núna eru köll á fjármagn þangað. Einnig er ástandið slæmt í Argentínu og Brasilíu.

Svo er Rússland núna á mikilli rússibanareið, eiginlega er staða þeirra verri en staða Íslendinga var sb. grein í Telegraph en þar stendur "The cost of insuring Russian sovereign debt through credit default swaps (CDS) surged to 1,200 basis points last week, higher than Iceland’s debt before Götterdammerung struck Reykjavik."

Það kann að vera að krónan veiti okkur skjól í augnablikinu ef hagstjórn er rétt framkvæmd núna. En það er um að gera að ræða um EBE og aðild þar. Sérstaklega ef það augljóslega hjálpar ríkjum innan EBE núna að vera þar og í því myntbandalagi. Það er prófsteinn á hvernig EBE stendur hvað gerist í þeim fjármálahremmingum sem nú standa yfir. Ef til vill munu þjóðir eins og Danir og Bretar breyta afstöðu sinni til myntbandalagsins ef þær lenda í meiri erfiðleikum af því að standa utan myntbandalagsins.

Svo var það ágæt hugmynd að leita samkomulags við Norðmenn um að taka upp norsku krónuna. Mér virðist það vera aðgerð sem er miklu fljótlegra að framkvæma en EBE. Það má svo segja að þegar og ef Noregur gengur í EBE þá er örugglega og reyndar óhjákvæmilega komið að því að Íslendingar fari þar inn.

Eftir því sem ég sé þá er ekki hægt að hoppa inn í EBE rétt si svona. Það þarf mikla umræða og þjóðaratkvæðagreiðslu og þá þurfa allir kostir og gallar að koma fram. Höfum við ef til vill meiri samingamöguleika utan sambandsins t.d. við Kína eða Rússland? 

Eitt er þó víst. Það er best að það sé alveg öruggt á hvern veg þjóðaratkvæðagreiðsla fer til að það sé lagt út í það að splundra þjóðareiningu eins og ég held að slík þjóðaratkvæðagreiðsla geri. 

Ég held nú reyndar að það sé óvinnandi vegur að vera með krónuna á floti í ástandi eins og er í heiminum í dag.  


mbl.is Vilja ESB-viðræður strax ásamt upptöku evru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband