Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009
30.4.2009 | 11:11
Atvinnutækifæri fyrir lögfræðinga og aðra háskólamenntaða á næstu árum
Allt stefnir í að íslenska ríkið verði að vasast í dómsmálum vegna Hrunsins næstu áratugina. Það verður stemming eins og í í Njálu, endalaus málarekstur um alls konar lagaákvæði í samfélagi sem einkennist af glundroða, stjórnleysi og upplausn.
Það eru margir nemendur í lögfræðinámi í þessu örsmáa samfélagi hérna. Það þarf alla vega ekki svo marga þurfi til að reka mál fyrir dómstólum og lögfræðinemar eins og aðrir hljóta að vera uggandi um atvinnuhorfur sínar á næstu árum. Mér sýnist hins vegar allt stefna í eilífan málarekstur, skiptingar þrotabúa, innheimtur á kröfum og að halda við kröfum á skuldara. Það verður sennilega nóg að gera fyrir hundruðir lögfræðinga næsta áratug við að vinna við afleiðingar Hrunsins. Það stefnir allt í endalaus málaferli gegn ríkinu og gegn hinum og þessum. Ríkið þarf líka að ráða hóp lögfræðinga til að verja það sem það hefur gert og ætlar að gera.
Það eru lögfræðideildir við nokkra háskóla á Íslandi. Það er nú reyndar ekki furða að háskólar setji upp lögfræðideildir, lögfræðinám er eins og viðskiptanám er afar ódýrt frá sjónarhóli þess sem býður fram námið, það er ekki mikið af aðföngum og búnaði sem svoleiðis nám þarnast miðað við t.d. tannlækningar og lyfjafræði. Reyndar er lögfræðinám og sú innsýn sem þannig nám veitir inn í leikreglur samfélagsins ágætis grunnur fyrir fólk á ýmsum sviðum, ekki síst fólk sem ætlar að starfa við opinberar stofnanir. Það er nú reyndar von mín að innan lögfræði í mörgum löndum muni verða einhver vakning, þar muni fara fram umræða og rannsóknir á þeirri umgjör sem lög og réttur setja og hvernig þær leikreglur sem við búum við núna m.a. hvernig við skilgreinum eignarrétt og hvernig við skilgreinum sameiginleg gæði og hvernig við höfum byggt upp kerfi sem að sumu leyti hamlar nýsköpun.
Viðskiptanám er eins og lögfræðinám ódýrt í uppsetningu fyrir háskóla og byggir mestan partinn á innlendum aðföngum, það þarf ekki rándýrar rannsóknarstofur. Það hefur verið sprenging í viðskiptanámi á undanförnum árum í mörgum háskólum. Ég held að stór hluti ef ekki stærsti hluti nemenda við Háskóla Reykjavíkur séu í einhvers konar viðskiptanámi
Það er áhugavert að sjá hvernig ásókn nemenda í viðskiptanám og lögfræðinám hefur breyst undanfarin ár og mun breytast næstu misseri. Hvað rekur nemendur í slíkt nám, hvaða væntingar hafa nemendur og hvaða vinnu fá nemendur að námi loknu?
Það er áhugavert að eftir að netbólan sprakk í kringum 2000 þá fækkaði nemendum hlutfallslega í ýmis konar tölvutengdu námi, ég hef ekki á reiðum höndum tölur um hvernig ástandið er núna. Á sama hátt getum við búist við að mjög fækki þeim sem núna hyggja á viðskiptanám, nemendur sjá einfaldlega ekki fyrir sér atvinnutækifæri að námi loknu.
Nám er skynsamur kostur til að sitja af sér kreppuna. Það er alveg öruggt að það mun rofa til í heiminum og mjög sennilega verður staða Íslands góð svo fremi það náist að semja um viðunandi niðurfellingu á skuldum þjóðarbússins. Það eru raunar bara tveir möguleikar í stöðunni, annað hvort að semja um niðurfellingu á stórum hluta skulda í sátt við erlenda kröfuhafa eða fara hörðu leiðina, neita að greiða skuldir sem af einhverjum undarlegum orsökum hrundu yfir venjulega Íslendinga þegar kerfi heimsins hrundi.
En það skiptir máli í hvers konar námi fólk situr af sér kreppuna. Viðskiptanám verður sennilega vanmetið á næstu misserum, fólk mun forðast slíkt nám. Hugsanlega verður nám eins og lögfræði ofmetið, vissulega þarf lögfræðimenntað fólk en það er ekki mikil verðmætasköpun ef menntakerfið menntar bara fólk sem er sérfræðingar í einhvers konar samfélagsreglum, það þarf líka fólk sem skapar og umbreytir og dreifir verðmætum og býr til umhverfi, ekki bara umhverfi laga og reglna, heldur líka raunverulegt umhverfi s.s. matinn sem við borðum, fötin sem við klæðumst, farbrautirnar og farartækin sem við notum til að ferðast um, hýbýli okkar og vinnuumhverfi og þau áhöld og verkfæri og búnað sem við þurfum í lífi okkar.
Á fjórða hundrað vilja stefna bönkunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.4.2009 | 21:57
Svínaflensuleikur og svínaflensutíska
Neyðarástand í Californíu og Texas. Viðbúnaðarstig 5. Það er runnið svínaflensuæði á heiminn. Hér er svínaflensuleikurinn swinefighter.com
Ný andlitsgrímutíska sprettur upp í Mexíkó.
Japanir hafa langa hefð í svona andlitsgrímum:
Meira um tískuna á götum Mexíkóborgar. og svo um hátískuna í svínaflensuklæðnaði.
Annars er undarlegt að landlaeknir.is skuli ekki uppfæra strax vefinn þegar breytt er viðbúnaðarstigi í heiminum. Ekki heldur á vefnum almannavarnir.is.
Á vef landlæknis stendur þetta núna efst:
"Aðgerðir hér á landi vegna svínainflúensu og staðfest tilfelli
Fréttatilkynning frá sóttvarnalækni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Staðan í dag 29.4. 2009
Í gær hækkaði WHO viðbúnaðarstig sitt yfir á stig 4 og hér á landi var í kjölfarið viðbúnaðarstigið fært af óvissustigi og yfir á hættustig."
Það eru núna margar klukkustundir síðan viðbúnaðarstig í heiminum var hækkað upp í 5. Hvers lags almannavarnakerfi og upplýsingakerfi til almennings er á þessu landi?
Á ég að vera róleg og trúa því að allt sé undir styrkri stjórn á Íslandi, við almenningur þurfum ekkert að hafa áhyggjur. Tja... ég hef frekar slæma reynslu af því að treysta íslenskum stjórnvöldum og fjölmiðlum.
Viðbúnaðarstig 5 vegna flensu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2009 | 19:40
H5N1 eða H1N1 Viðbúnaðarstig 5
Vonandi eigum við ekki eftir að sjá H5N1 faraldur, þessi H1N1 faraldur er nógu slæmur.
Bendi á svínaflensugreinina á ensku wikipedia, það er ein besta upplýsingaveitan í svona málum. Áhugavert að fylgjast með hvernig greinin er skrifuð, hún er að verða mjög góð þó hún sé glæný og margir að skrifa hana saman, ég tók agnarlítinn þátt í því, ég bætti við tengingu í íslensku greinina sem ég er rétt byrjuð á. Vonandi hjálpa einhverjir til við að skrifa þá grein. Nú er til svínaflensugrein á 51 tungumáli á wikipedia og þær tengjast hver í aðra.
Twitter örbloggið er alveg að tjúllast, núna á nokkrum sekúndum þá eru komin 1500 fleiri blogg sem fjalla um svínaflensu, engin getur fylgst með þessu en það er gaman að prófa þessa leit
Þetta er samt ágæt leið fyrir fjölmiðlafólk að finna það nýjasta sem er að gerast.Nú er bara tímaspursmál hvenær Who auglýsir viðbúnaðarstig númer 5. Reyndar fullyrða margir á twitter núna að þegar sé komið viðbúnaðarstig 5 en ég sé það ekki á BBC.
Schwarzenegger bloggar um flensuna í Californiu, hvenær fer Jóhanna að nota Twitter fyrir skilaboð frá ríkisstjórninni? Hvaða gælunafn fær nýja stjórnin?
Nokkrar hugmyndir:
* Svínka
* Svínaflensustjórnin
* H1N1
* Flensustjórnin
* Grisjan (þ.e. ef við byrjum öll að ganga með grisjur áður en stjórnin verður mynduð)
* Vírussjórnin
* Veiran
Ekkert að því að hafa flensunafn á þessari stjórn,hún verður ekki verri fyrir það. Síðasta stjórn var kennd við Þingvelli en það hjálpaði ekkert, í hugum almennings heitir hún alltaf bara "vanhæf ríkisstjórn" og fólk heyrir kliðinn af búsáhaldataktinum.Það mætti kannski líka kalla stjórnina Mótlæti eða Mótefni eftir því hvernig hún tekur á málum.
Það er líka áhugavert að lesa hve mikið er núna lagt upp úr að nefna þetta nýja fyrirbæri sem núna gengur undir nafninu svínaflensufaraldur.
Blogg um fuglaflensu og svínaflensu
Flensan heitir nú 2009 H1N1 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.4.2009 | 16:25
Barn lést úr svínaflensu í USA, 91 tilfelli
Þetta er sorglegt, lítið barn lést í Texas og er það fyrsta andlátið í USA af völdum svínaflensunnar, sjá hérna: US reports first swine flu death og hérna First swine flu death in U.S. reported
Ég byrjaði á greininni svínaflensa á íslensku wikipedia í gær. Svo byrjaði ég líka á grein um H1N1 afbrigðið af inflúensu A. Mér skilst að við getum þakkað fyrir að faraldurinn núna er bara H1N1 en ekki H5N1, þá myndu miklu fleiri deyja. En af hverju er Mexíkóafbrigðið svona miklu alvarlegra heldur en sýkingar sem upp koma annars staðar?
Í greininni um svínaflensufaraldurinn á ensku wikipedia er yfirlit sem er um hversu margir eru sýktir skv. staðfestum opinberum tölum.Það er líka komin sérstök grein um tímalínu faraldursins og líka sérstök grein sem sýnir útbreiðsluna eftir löndum.
Barn sem lést í Texas var frá Mexíkó | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.4.2009 | 10:41
Útlendingslegir ræningjar og innlend barnabörn
Tvö afbrot hafa verið í umræðu síðustu daga. Annars vegar er það menn sem lögreglan hefur lýst eftir og birt myndir af, það virðast vera einkar ólagnir og klaufalegir þjófar og munu þeir hafa reynt að brjótast víða inn en ekki haft neitt upp úr krafsinu þrátt fyrir að því virðist einbeittan brotavilja. Þeir virðast miklir viðvaningar á sviði svona brota og væri fróðlegt þá og ef þeir finnast að einhverjir rannsóknarblaðamenn segðu okkur frá því hvað rak þá út í þessi brot. En það vekur athygli að lögreglan hefur lýst eftir þeim með því að birta myndir af þeim og lýsa þeim sem "útlendingslegum".
Þetta er undarlegt bæði að því leyti að lögreglan virðist þarna lýsa yfir að einhver sé sekur án þess að réttarhöld hafi farið fram og svo út af þessari fordómafullu orðanotkun, hvað er að vera útlendingslegur?
Í hinu dæminu sem er miklu, miklu alvarlegra þá virðist mér að ógæfufólk í óreglu hafi beinlínis verið stefnt á heimili aldraðra hjóna til að ógna þeim og ræna. Þarna var um tilraun til voðaverks að ræða, ofbeldisverks gagnvart öldruðu fólki. það er miklu, miklu alvarlegra en viðvaningslegar þjófnaðartilraunir af handahófi af ráðvilltum mönnum sem greinilega þekkja ekkert til slíkrar iðju.
Það sverfur núna að í íslensku samfélagi og sá hópur sem sverfur hvað mest að er fólk af erlendu bergi brotið, ekki síst fólk sem ekki hefur verið hér nema stuttan tíma og hugsanlega á hér ekki bótarétt. Það getur verið að það sé ekki kostur í stöðunni að snúa aftur til heimkynna sinna, ástandið er því miður þannig t.d. sums staðar í Austur-Evrópu að það er miklu, miklu verra en hérna og hefur versnað gríðarlega á einu ári. Það má vel vera að við munum sjá fleiri tilraunir til auðgunarbrota meðal fólks sem ekki hefur vinnu og fellur milli stafs og bryggju í velferðarsamfélagi okkar svo sem fólks sem á hér engan rétt. En það verður að gera þá kröfu til lögreglu að hún ali ekki ennþá frekar á útlendingahatri með auglýsingum.
Gerðu tilraun til að koma þýfinu í verð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.4.2009 | 19:25
Reykjavík kreppunnar
Ég hef engan áhuga á þeim útstrikunum sem voru í Reykjavík norður í kosningunum. Ég veit að hvort sem er skipta þær ekki máli. Það er meingallað kosningakerfi sem við búum við og við almenningur höfum svo að segja engin áhrif í gegnum hvernig við greiðum atkvæði.
Tækifæri okkar til að hafa áhrif er gegnum tjáningu og að hafa hátt og að taka þátt í starfi stjórnmálahreyfinga. Við erum að spila í spili þar sem er vitlaust gefið, við fáum bara að vera áhorfendur að fáránlegu matadorspili sem varðar hvernig umhverfi okkar lítur út, hvaða atvinnu við getum stundað og það er jafnvel þannig að mörg okkar neyðast til að yfirgefa heimili okkar og leita að lífsafkomu annars staðar ef íslenskts samfélag getur ekki breyst nógu hratt til móts við þá stöðu sem núna er komin upp.
Ég fer núna um Reykjavík kreppunnar og ég er full vonleysis. Það eru fáránlegar leikreglur í þeim fjármálapóker sem núna er spilaður og ég lifi í samfélagi þar sem einkaeignaréttur er helgasta véð. Samt getur ríkisstjórnin sett lög og tekið yfir banka og búið til einhvers konar skömmtunarkerfi um hvernig reiturnar úr bankakerfinu skuli skiptast.
Á meðan ég horfi á umhverfið í kringum mig breytast í slömm og plastdræsur fjúka hér um allan bæ þá er sagt að sautján þúsund manns séu á atvinnuleysisskrá. Er ekki skynsamlegt að einhver af þessu fólki sé ráðið í vinnu við að halda borginni hreinni? Stærsta atvinnubótavinnan í borginni virðist mér hingað til vera að fyrirhugað er að klára tónlistarhúsið. Mér skilst að langstærstur hluti þeirra sem þar vinna séu erlendir farandverkamenn. Mér skilst líka að þetta hús og sú starfsemi sem í því á að fara fram sé ekki miðuð við Íslendinga, þetta er allt og stórt í sniðum fyrir íslenskt samfélag, þetta sé einhvers konar túristagildra fyrir ráðstefnutúrista og svoleiðis fólk.
Í Sigtúni þar sem ég bý þá breytist staðurinn þar sem áður var gróðurhús og síðar verslunin Blómaval í slömm þar sem í gegnum girðingu má glytta í drasl og niðurníddar bifreiðar
Þessar myndir eru frá mínu nærumhverfi. Það er fáránlegt að ætla að það verði eitthvað byggt á þessum reit á næstu árum og það væri glapræði að lána fé til einhverra þannig framkvæmda. Það myndi bara gera eitt, lækka verð allra annarra fasteigna í Reykjavík. Eina vitið væri að taka lóðir sem þessar í einhvers konar samfélagslega eigu um tíma t.d. gera þar torg eða garða, eitthvað sem styður við umhverfið en eykur ekki við kreppuna sem mun læsa sig dýpra og dýpra um Reykjavík. Það eru nokkur svona rústasvæði um Reykjavík, t.d. upp af Hlemmi þar sem gamla hampiðjuhúsið var, vestur á Mýrargötu, við Höfðatorg og svo í Sigtúni. Allir þessir staðir væru miklu, miklu betur komnir sem græn svæði, ekki óræktartún heldur sem svæði sem skipulögð væri með það í huga að styðja borgarlífið og menningu þar. Öll þessi svæði eru miðsvæðis á byggingarlóðum sem voru dýrar fyrir nokkrum mánuðum en eru nú einhver verðmæti sem ekki eru föst í hendi. Það er tilræði við okkur Reykvíkinga að nota þessar lóðir ekki í þágu samfélagsins.
Það sem ég er hræddust um að gerist er að pressað verði á að byggja á þessum lóðum til að skapa verkefni fyrir byggingariðnað og reynt að fá fé í þetta á þeim forsendum að þarna séu lóðir þar sem líklegt er að fólk vilji búa eða reka rekstur, þetta sé svo miðlægt. Svoleiðis hugsunarháttur kemur til með að magna kreppuna, verðfella annað húsnæði og notað ekki þetta einstæða tækifæri sem aðstæður núna skapa, tækifæri til að búa til torg og garða í Reykjavík, tækifæri til að breyta Reykjavík þannig að hér sé þorpsstemming og sveitaandi. Kannski ættu þessi auðu byggingarsvæði að verða búgarðar, með hestum og kindum og geitum og tilheyrandi?
það væri skemmtileg hugmynd.
Reyndar minnir mig að það hafi átt að vera torg við Höfðatorg
Engar breytingar í RN | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2009 | 08:53
Farsótt
Eitt að skrýtnum áhugamálum mínum eru farsóttir og sjúkdómar. Ég hef skrifað nokkrar greinar á íslensku wikipedia um sjúkdóma t.d. greinar um Spænsku veikina, holdsveiki og fuglaflensu. Líka um minna þekkta sjúkdóma eins og Akureyrarveikina. Kannski ekki svo skrýtið því að ef maður les vel heimssöguna þá hafa svona sóttir haft gríðarleg áhrif á veraldarsöguna og breytt landslagi í þjóðfélagsmálum. Ég hugsa að fjölskyldusaga allra á Íslandi sé samofin svona sóttum.
Amma mín og alnafna Salvör Gissurardóttir dó 32 ára úr berklum. Þá voru börnin hennar Lilja og Gissur aðeins fjögurra og fimm ára gömul. Afi minn sendi börnin frá sér, þau fóru í fóstur til foreldra Salvarar þeirra Gissurar og Jórunnar á Hvoli í Ölfusi og ólust þar upp þangað til þau þurftu að fara í skóla, að mig minnir um 10 ára aldur.
En það rifjast núna upp fyrir mér að föðursystir mín Lilja sagði að þau systkinin hefðu verið með móður sinni á Farsótt þ.e. gamla spítalanum í einangrun töluvert áður en hún fór á Vífilstaði, mig minnir að það hafi verið þegar faðir minn var ekki nema eins árs. Mig minnir að Lilja hefði sagt að þau hafi verið á Farsótt í marga mánuði, var það út af hræðslu um að þau hefðu smitast af berklum eða var það út af einhverri annarri pest?
Ég þarf að spyrja föðursystir mína nánar út í það.
Hér er byrjun á grein um svínaflensufaraldurinn 2009. Best að bæta við þá grein og skrifa fleiri greinar um svínaflensu. Þannig virkar wikipedia, það eru mest uppfærðar greinar um það sem skiptir máli hverju sinni, fólk kemur til með að vilja lesa sér til um svínaflensku á næstunni.
Of seint að hindra útbreiðslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.4.2009 | 09:00
Alvarleg vá, flensan í Mexíkó drepur fleiri en spænska veikin
Svínaflensan er núna komin til Danmerkur og bara tímaspursmál hvenær fyrsta tilfellið kemur upp hérna á Íslandi. Það er mismunandi sjónarhorn á flensufréttum eftir miðli, litaðar upplýsingar sem berast af svínaflensunni og það virðist vera markmið frétta að passa að almenningur verði ekki hræddur og hafi trú á að þetta sé heilbrigðisvandi sem alþjóða heilbrigðisstofnanir og heilbrigðisyfirvöld þjóða ráða vel við.
En þetta er alvarlegt, það dylst ekki. Annað hvort eru miklu, miklu fleiri sýktir en yfirvöld í Mexíkóborg töldu eða þetta er mjög mannskæð og hættuleg flenska og dauðatölur hærri en í spænsku veikinni. Það hafa mjög margir dáið hlutfallslega miðað við þau tilvik sem hafa verið greind sem svínaflensa. Það er raunar líklegt að margir hafi sýkst en séu einkennalausir og það getur líka verið að um samhliða sýkingar sé að ræða í Mexíkóborg því þau tilfelli sem upp hafa komið annars staðar hafa ekki valdið eins mörgum dauðsföllum. Flestir sem dáið hafa í Mexíkó er ungt fólk. Það er í augnablikinu ekki til bóluefni gegn hinu nýja afbrigði flensunnar
Þegar svona fréttir berast um heiminn, fréttir þar sem yfirvöld hafa hagsmuni af því að róa fólk og reynt er að haga fréttaflutningi þannig að ekkert panikástand myndist þá er ekki gott að treysta á fréttaflutning frá t.d. bbc. Það er betra að skoða fréttir hjá einhverjum óháðum aðila t.d. wikinews.
Núna eru á forsíðunni á Wikinews fréttir frá kosningunum á Íslandi og fréttir um svínaflensuna
At least 71 deaths in Mexico 'likely linked' to swine flu outbreak
Icelandic centre-left coalition secures majority in parliamentary elections
Það er svo áhugavert að þriðja fréttin á forsíðu wikinews er um twitter, er um starfsmann í dómssal sem notaði twitter örblogg til að blogga um mál sem voru tekin fyrir, hann varð að segja starfi sínu lausu en hann mun hafa tvítað (skrifað twitter örblogg) í því augnamiði að gera dómskerfið opnara og gagnsærra fyrir almenning.
Twitter er eins og að uppfæra statuslínuna í facebook, svona blogg sem er eins og stutt sms skilaboð. Margir senda þetta einmitt beint á Netið úr símum sínum.
Ég rakst á að einmitt núna er umræða um hvernig twitter fréttir berast með leifturhraða um heiminn og þetta sé leið sem kviksögur og orðrómur fer um núna en ekki endilega ábyggilegar fréttir.
Hér er greinin
Swine flu: Twitter's power to misinform
Sumir hafa líkt því hvernig meme eða hugmynd ferðast um Netið eins og einhvers konar smit. Það er nú reyndar líka talað um "viral" þetta og hitt á Netinu, ýmis samskiptaboð þar breiðast út eins og vírusar. Það ásamt því hversu auðvelt er orðið að leita að ákveðnum atriðum t.d. hvernig eru að tvíta um svínaflensuna með því að leita á twitter eftir leitarorðinu swineflu
Talandi annars um meme og hugmyndir þá er hér plögg um hugmyndaráðuneytið.
Á annað þúsund manns smitaðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.4.2009 | 23:08
Tapaboca
Nú er ég búin að læra nýtt orð "tapabocas" en það er á spænsku andlitsgríma. Það er vanalegt klæðisplagg almennings núna í Mexíkóborg.
Kemur ef til vill sá tími á Íslandi að við þurfum að bera slíkar grisjur á almannafæri til að reyna að koma í veg fyrir öndunarfærasmit?
Hér er mynd af hermannaflutningabíl í Mexíkóborg í gær, allir hermennirnir með grisjur fyrir vitum.
Nýjasta tíska á götum Mexíkóborgar, hermaður útdeilir grímum, meira segja litlu börnin með grímur.
Annars munu svona andlitsgrímur vera venjulegar í hinu fjölbýja landi Japan og þar þróast götulist eða klæðistíska sem tengist þeim.
Myndir tengdar svínaflensu á flickr.com
Grunur um svínaflensu á Spáni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.4.2009 | 20:52
Verður stöðugleiki, verður Framsókn með?
Þessar kosningar fóru nokkurn veginn eins og á spáð að öðru leyti en því að Framsókn fékk meira fylgi en Vinstri Grænir minni fylgi og Sjálfstæðismenn skruppu meira saman en búist hafði við. Það er samt af og frá að þetta hafi verið einhver sigur Samfylkingar, það sem þessar kosningar römmuðu inn var gríðarlegt tap Sjálfstæðisflokksins og útrýming á Frjálslynda flokknum.
Framsóknarflokkurinn vann hins vegar mikinn kosningasigur á höfuðborgarsvæðinu, á svæðinu þar sem afleiðingar hrunsins hafa komið fyrst fram. Hluti af fylgi okkar Framsóknarmanna er örugglega óánægðir Sjálfstæðismenn en stór hluti hefur líka lagt okkur lið vegna trúar á að við séum stjórnmálaafl sem hefur þegar gengð í gegnum endurnýjun eftir hrunið og breytt um stefnu, horfið frá þjónkun við gróðahyggju og einkavæðingu. Sennilega hafa margir hafi lagt Framsókn lið vegna skynsamlegra efnahagstillagna sem ganga út á að hluti skulda sé afskrifaður, ekki bara í bókhaldi bankanna eins og þegar hefur verið gert, heldur líka hjá einstökum skuldurum.
Það kemur reyndar á óvart hversu lítið ný öfl hafa vaxið upp, það getur ekki talist mikið eftir mestu kollsteypu sem nokkuð vestrænt ríki hefur farið á síðustu árum að það komi upp ný hreyfing sem er með 4 þingmenn af 61 og 7.3 % fylgi eins og Borgarahreyfingin hefur nú. Það virðist raunar vera einhvers konar töfratala fyrir nýhreyfingafylgi, sama prósenta og Þjóðvaki fékk á sínum tíma, sama prósenta og Frjálslyndir fengu á sínum tíma. Báðar þessar hreyfingar þurrkuðust út. Gaman verður að fylgjast með Borgarahreyfingunni, mun hún fara sömu leið eða mun hún vaxa og dafna?
Í heildina má segja að Íslendingar hafi tekið hruninu af nokkru æðruleysi og kollsteypan endurspeglist ekki í þingsölum nema nú eru þar fleiri konur og vinstri flokkar eru stærstir. En sami flokkurinn og var við völd þegar Hrunið varð mun væntanlega leiða næstu ríkisstjórn, það er ekkert sem bendir til annars.
Nú er að spá í hvernig stjórn verður mynduð.
Stjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna hefur góðan meirihluta og þarf ekki á öðrum að halda. Þannig var líka með fráfarandi ríkisstjórn, þessa vanhæfu, þar var góður meirihluti Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Það gagnaðist þeirri ríkisstjórn þó ekkert, hún hrökklaðist frá þegar uppþot og götuóeirðir brutust út á Íslandi í janúar.
Ég held að það sé vonlaust að mynda hér stjórn án Samfylkingar og án Vinstri Grænna. Það þarf að fara í aðildarviðræður við Evrópubandalagið eða bindast einhverjum öðrum þjóðum í einhvers konar efnahagsbandalagi. Eða halda áfram í því einangraða og lamaða haftahagkerfi sem við erum í þessa stundina. Það þarf líka liðstyrk Vinstri grænna - aðallega vegna þess að það er eina sem getur komið í veg fyrir að hér brjótist aftur út götuóreirðir og uppþot. Það væri líka gott að Borgarahreyfingin kæmi að stjórn landsins einmitt af sömu ástæðu.
Og það þarf Framsóknarflokkinn til að taka á þessum gríðarlega efnahagasvanda sem íslenska þjóðin er í núna, það þarf rödd skynsemi og það þarf róttækar efnahagstillögur eins og niðurfellingu á hluta skulda.
Raunar eru aðstæður ennþá þannig að langaffarasælast er núna að reyna aftur þjóðstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn er reyndar svo laskaður að það er erfitt að sjá hvernig hann gæti eitthvað lagt til í þjóðmálum. En það má ekki gleymast að 23,7 % kusu Sjálfstæðisflokkinn
Það er raunar undarlegt að það sé ekki unnið út frá þeirri reglu að framkvæmdavaldið þ.e. skipting ráðherraembætta skiptist milli flokka eftir þingstyrk, hugsunin við stjórnarmyndun ætti að vera fyrst hvernig hægt væri að hafa sem flesta flokka við stjórn á sama tíma til að tryggja að fulltrúar sem flestra Íslendinga hefðu aðkomu að stjórnmálum.
Hins vegar hef ég séð í umræðuþætti eftir umræðuþátt að stjórnmálafræðingar og stjórnmálaskýrendur hjakka í hinu farinu, tönglast á því að "nú sé hægt að mynda tveggja flokka stjórn". Af hverju ætti það að vera markmið að mynda tveggja flokka stjórn? Það eru einmitt þannig tímar á Íslandi að það væri fýsilegast og affarasælast að mynda stjórn með sem flestum flokkum og að sem mest sátt verði um þær aðgerðir ráðast verður í á næstunni.
Það er talað um að Samfylkingin (29,8) og Vinstri Grænir (21,7) hafa samanlagt rúmlega 51 % atkvæða. Það er mikið. En það er má líka segja að 49 % kjósenda kusu EKKi þessa flokka. Eiga fulltrúar okkar sem ekki kusum rauðgrænt engan rétt til að taka þátt í framkvæmd í stjórnsýslu á Íslandi? Eiga þeir að sitja aðgerðalausir og vanmáttugir hjá á Alþingi eins og við sáum þingmenn gera eftir fyrra hrunið?
Þingað um nýja stjórn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)