Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007
28.6.2007 | 18:41
Fyrsta útsendingin á Operator11
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.6.2007 | 09:22
Vodkasala Íslands
Er viðeigandi að forseti Íslands auglýsi vodka? Ég er döpur yfir því að engum virðist finnast athugavert að framlag til ferðamála og landkynningar á Íslandi fari í að auglýsa vodka og opinberir aðilar á sviði ferðamála skuli leggja blessun sína yfir og styðja að erlend fyrirtæki í vafasamri framleiðslu setji hér upp átöppunarverksmiðju til að geta notað Ísland í markaðssetningu sinni. Vodka er eimað áfengi og frekar einsleit vara og er skólabókardæmi um hvernig hægt er búa til einhverja ímynd utan um ekki neitt. þetta vodka sem er tappað hér á íslandi er markaðsett sem séríslensk afurð sem hafi í sér eitthvað af hreinleika og ósnortinni náttúru Íslands, það er notað orðalag eins og "filtered through lava rock collected from local volcano fields in Iceland".
Vodka er líka hættulegt eiturlyf sem er ásamt öðrum brenndum drykkjum stór áhrifavaldur í mannlegri eymd víða um lönd. Það má sjá dæmi um hvernig þetta vodka er markaðsett með aðstoð Íslands í þessari Glærusýningu sem er frá ráðstefnu sem Ímark hélt á markaðsdeginum 2007
Ég benti í síðasta bloggi á hvernig markaðsátakið Iceland Naturally virðist vera á glapstigum með því að spyrða markaðssetningu á íslenskum vörum og Íslandi við áfengi og ákveðna vodkategund. Reyndar virðist mér núna vefsvæði þessa markaðsátaks vera undirlagt af vodkaauglýsingum og kynningum á áfengi. Sem dæmi má nefna að núna er á forsíðunni kynnt eitthvað martini samkvæmi eins og það sé það helsta sem er á döfinni varðandi Ísland: "From Iceland with Love Cocktail Party - featuring Icelandic vodka, fish, cheese, skyr and products. The Martini Society July 7".
Finnst ferðamálayfirvöldum á Íslandi og ferðamannaiðnaðinum á Íslandi þetta virkilega vera góð markaðssetning á Íslandi? Er svona markaðsetning með velþóknun opinberra aðila?
Eina sem ég fann á Netinu um Iceland Naturally átakið frá opinberum aðilum m.a. Sturlu Böðvarssyni fyrrum samgönguráðherra og frá Birni Inga Hrafnssyni fyrrum aðstoðarmanni forsætisráðherra og utanríkisráðherra um Iceland Naturally var afar jákvætt. Björn Ingi skrifar 2005 sjá hér hérna afar lofsamlegt blogg um Iceland Naturally. Hann segir þar:
"Á fimmtudag skildi ég við föruneyti forsætisráðherra og hélt á stjórnarfund í Iceland Naturally, landkynningarverkefni okkar Íslendinga í Norður Ameríku. ... Iceland Naturally er að mínu mati einstaklega gott dæmi um vel heppnað verkefni, þar sem tiltölulega takmarkaðir fjármunir nýtast til hins ítrasta. Lykilorðið hefur verið að nýta auglýsingafé vel, en huga ennfremur að kynningu og umfjöllun með þeim árangri að ótölulegur fjöldi greina um Ísland og íslenskar vörur hefur birst í stærstu fjölmiðlum Bandaríkjanna á undanförnum árum."
Ég veit að forseti Íslands kynnir oft íslenskar vörur og greiðir götu íslenskra fyrirtækja í heimsóknum sínum erlendis. Munum við sjá forsetann í framtíðinni auglýsa vodka sem tappað er á flöskur á Íslandi þrátt fyrir að það sé skaðlegt eiturlyf og bannað að auglýsa samkvæmt íslenskri áfengislöggjöf? Ég er nokkuð viss um að Ólafur Ragnar Grímsson lætur ekki bendla sig við áfengisauglýsingar eða óhollan lífsstíl, hann hefur verið talsmaður virðingar fyrir náttúru og hófsemi í lífsháttum. Ég vona líka að Björn Ingi Hrafnsson oddviti okkar framsóknarmanna í borgarstjórn Reykjavíkur hafi ekki verið að hrósa vodka og martini auglýsingum hjá Iceland Naturally í bloggfærslunni sem ég vitna í.
Allir sem auglýsa vörur bera ábyrgð. Í þessu tilviki er verið að nota ímynd Íslands sem hreina og ómengaða og villta náttúru til að auglýsa upp hættulegt og mengandi eiturlyf. Til langs tíma þá eyðileggur þetta ímynd Íslands. Það er einnig verið að auglýsa vöru sem er ekki íslensk og sennilega er framleiðslan á Íslandi ef hún er einhver eingöngu gerviframleiðsla - einhvers konar umskipun og átöppun og vatnsblöndun - eingöngu tilkomin til að geta selt vöruna sem íslenska vöru. það munu í framtíðinni koma mörg svona tilvik, ekki síst með auknum siglingum framhjá Íslandi. Er ekki ástæða til að spá í hvað er íslensk vara?
Af hverju er 66 gráður norður íslensk vara? Mér vitanlega fer öll framleiðslan fram núna erlendis í einhverju asíulandi þar sem fólk fær lægri laun en hérna. Er það út af því að hönnunin er ennþá íslensk? Er eitthvað annað í 66 gráðu norður fatnaðinum íslenskt?
Er þetta vodka íslenskt af því að hér var sett upp átöppun til að gera vöruna íslenska?
(skjámynd af forseta Íslands er frá forsíðu imark.is og af vodkaauglýsingu frá glærum á markaðsdegi imark.is)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.6.2007 | 17:18
Ferðamálayfirvöld á glapstigum
Það er reginhneyksli að peningar íslenskra skattborgara sé notaðir til að auglýsa upp vodka frá fyrirtækinu William Grant & Sons International og að íslensk ferðamálayfirvöld skuli taka þátt í að auglýsa áfengi og ennþá verra að þær auglýsingar beinast sérstaklega að ungmennum. Það er líka reginhneyksli að íslensk ferðamálayfirvöld hafi velþóknun á og ýti undir að ímynd Íslands sé tengd við vodkaframleiðslu og hvatt sé til neyslu sterkra drykkja með því að draga ímynd Íslands niður í drykkjufen. Það er eitthvað verulega mikið að dómgreind allra þeirra sem koma að þessum málum og sem ekki sjá hversu viðurstyggileg þessi samsetning er.
Ég trúði ekki mínum eigin augum þegar ég kynnti mér hvernig markaðsetning á Reyka vodka er styrkt af íslenskum ferðamálayfirvöldum og íslenskum flugfélögum, ég skoðaði greinar og vefi sem Jón Axel benti á í blogginu Athyglisverð markaðssetning
Það virðist vera að enginn sem starfar að markaðsetningu Íslands sem ferðamálalands sjái neitt athugavert við að alþjóðlegt fyrirtæki sem selur sterka áfenga drykki sem bannað er með lögum að auglýsa hér á landi setji upp átöppun hérlendis og fái þannig aðgang að því að auglýsa sínar vörur í gegnum ýmsa ferðamálavefi sem styrktir eru með opinberu fé.
Það er veruleg þörf á því að það sé farið ofan í hvernig opinberu framlagi Íslands til ferðamála er varið og hvers konar viðmið eiga að gilda fyrir þær vörur og þjónustu sem ferðamálayfirvöld hampa og reyna að beina neyslu að.
Hvernig styrkir það ímynd Íslands að landið sé notað til að auglýsa upp vodka og hvatt sé til neyslu hættulegra eiturefna? Munum við á næstunni eiga von á því að íslensk ferðamálayfirvöld auglýsi upp fylgdarþjónustu og kjöltudans og munum við á næstu árum eiga von á því að sett verði upp veðmálahverfi upp í miðbænum í Reykjavík og reykvísk spilavíti verði auglýst upp með tilstuðlan ferðamálayfirvalda?
Hver er alþjóðleg ábyrgð ferðamálayfirvalda? Er allt í lagi að stuðla að ungmennadrykkju og vímuefnaneyslu erlendis ef það er getur selt einhverjar vörur sem eru í þykjustunni framleiddar hérlendis - þar sem Ísland er annað hvort átöppunarverksmiðja eða umskipunarhöfn.
Ég bendi sérstaklaga á að átakið Iceland Naturally er algjörlega á villigötum, mér virðist það átak vera afar nátengt þessum vodkasala. Ég fæ ekki betur séð en að þetta átak sé styrkt af opinberu fé frá Íslandi, fé sem ætlað er að auka hróður Íslands erlendis. Hvernig í ósköpunum er hægt að auka hróður Íslands erlendis með lágkúrulegum auglýsingum um vörur sem eru svo hættuleg eiturefni og mikill partur af eymd fjölskyldna og einstaklinga að það er bannað að auglýsa þær á Íslandi?
Í fréttatilkynningu segir að Iceland Naturally (IN) vinni að framgangi Íslands, íslenskra fyrirtækja og vörumerkja í N-Ameríku og stefnan að byggja upp jákvæða ímynd Íslands. Nánari upplýsingar fást hjá Einari Gústavssyni, framkvæmdastj. Ferðamálaráðs Íslands í N-Ameríku (iceinar@goiceland.org) eða Hlyni Guðjónssyni, viðskiptafulltrúa Íslands í N-Ameríku (hlynur@mfa.is). Mbl. Mánudaginn 5. febrúar, 2007
Fimmtudaginn 1. mars, 2007 var grein í mbl um þessa vodkaframleiðslu. Þar segir að vodkað og Ísland verði ekki aðskilið í markaðssetningu því markaðsstarfið byggi á ímynd Íslands erlendis. Þar er líka eftirfarandi haft eftir fulltrúa vodkasölufyrirtækisins:
Bandaríkjamarkaður er stór og þeir velja sína staði vandlega og til að byrja með þá staði sem Icelandair flýgur til, enda auðveldara að vinna kynningarstarfið þar sem góð tenging við landið er fyrir hendi. Það starf hefur nú staðið yfir í tvö ár og árangurinn verið góður. Reyka er orðið hluti af Iceland Naturally og nú stendur fyrir dyrum auglýsingaherferð í Bandaríkjunum í sjónvarpi og á Netinu. Þar verður Hafdís Huld í aðalhlutverki og Ísland auðvitað. Þar koma einnig við sögu lundinn, fyrsti íslenski kvenforsetinn, hugsanlegur bandarískur kvenforseti, útkjálkabar og ísjakar, svo fátt eitt spennandi sé nefnt í þessari sérstöku blöndu af Reyka-vodka."
Skjámyndirnar tók ég frá íslenskum ferðamálavefjum. Ég skora á ferðamálayfirvöld, ferðamálastofu og samgönguráðherra og ferðamálaráð að íhuga hvort þessi tegund af markaðssetningu á Íslandi sem ferðamálalandi og þessi samanspyrðing á Íslandi við hættuleg eiturlyf (vodka) er í samræmi við það sem við Íslendingar viljum tengja við ímynd landsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.6.2007 | 15:13
Skírn á Jónsmessu
Litla frænka mín var skírð heima hjá sér á Hanhóli í Syðridal í Bolungarvík á Jónsmessu 2007. Hún heitir hér eftir ekki litla frænka heldur Salvör Sól. Ég var skírnarvottur og Magnea Gná systir hennar hélt henni undir skírn. Séra Agnes prestur Bolvíkinga skírði og Ásta Björg spilaði á píanó. Þetta var hátíðleg stund og það þarf náttúrulega ekki að taka fram að ég er ákaflega ánægð með nafnið. Hún er núna fimm vikna gömul og fimm kíló.
Hér er mynd af henni með elstu systur sinni Ástu Björgu
Hér eru líka nokkrar myndir af henni mánudaginn eftir skírnina.
Fleiri nýjar myndir af Salvöru Sól má sjá í myndasyrpu frá skírnardeginum og deginum eftir.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
22.6.2007 | 17:03
BlogTV
Fyrir tæpum áratug þá var aðalfélagsnet ungmenna á Interneti irkið. Síðan komu kerfi eins og msn og myspace og irkið fjaraði út. það var líka bara hægt að vera með texta þar. Ég var að prófa áðan blogtv.com og skráði mig sem notanda þar
Þetta er sniðugt kerfi og hægt að vera með beinar sjónvarpsútsendingar eða útvarpsútsendingar á Netinu og geta þeir sem fylgjast með útsendingunum tjáð sig á meðan á eins konar irki. Ég ætla að prófa einhverjar útsendingar á þessu kerfi, það virkar sniðugt. Núna er mikil gróska í svona beinum útsútsendingum á Netinu og mörg kerfi hafa komið fram sem gera þetta kleift. Techcrunch birti í dag greinina Who will be the Youtube of live video?
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 17:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.6.2007 | 04:21
Sumarsólstöður á Vestfjörðum
Ég lenti á Ísafirði rétt eftir klukkan sex á sumarsólstöðum 21. júní og núna er ég á Hanhóli í Syðridal við Bolungarvík en þar býr systir mín og mágur. Nú er klukkan fjögur um nótt en ég er ennþá vakandi og horfði á umhverfið baðað morgunsól. Allt í kring eru snarbrött há fjöll, flöt að ofan en með snjókórónu og úr eldhúsglugganum horfi ég út á Syðridalsvatn.
Myndavélin nemur ekki töfra sumarnætur á sólstöðum nálægt heimskautsbaug, litirnir verða allt öðruvísi en ég sé þá út um gluggann.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.6.2007 | 15:32
Myndbandasafnari Salvarar
Ég er alveg dottin í að prófa ýmsar netgræjur. Áðan var ég að prófa netgræjuna Vodpod .com en það er svona safnari sem safnar saman vídeóum. Ég setti upp þennan safnara http://salvorice.vodpod.com Ég hugsa að þetta verði verulega gagnlegt þegar allir verða komnir með eitthvað video ipod kerfi. En það er hægt að birta þau vídeó sem maður hefur safnað saman á einum stað á bloggi. Ég set hérna inn spilara fyrir safnið mitt. Það seinasta sem ég mæli með er heimildarmynd í þremur hlutum "Hitler search fo the Holy Grail".
Þetta er sniðugt kerfi vegna þess að það leitar á mörgum vídeókerfum t.d. youtube, googlevideos og fleira og það er hægt að ráða útlitinu og setja sínar eigin merkingar. Ég held þetta geti verið gagnlegt fyrir kennara sem vill benda nemendum sínum á ákveðin myndbönd.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2007 | 18:32
Krukkspá fyrir Internetið
Ég fann þetta skemmtilega myndband á Youtube sem lýsir framtíðinni í netheimum til ársins 2051
Man is God. He is everywhere, he is anybody, he knows everything. This is the Prometeus new world. All started with the Media Revolution, with Internet, at the end of the last century. Everything related to the old media vanished: Gutenberg, the copyright, the radio, the television, the publicity. The old world reacts: more restrictions for the copyright, new laws against non authorized copies...... Virtual life is the biggest market on the planet. Prometeus finances all the space missions to find new worlds for its customers: the terrestrial avatar. Experience is the new reality.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.6.2007 | 14:50
Karaoki
Núna er ég að prófa http://bix.yahoo.com en það er ennþá eitt félagsnetið þar sem inntakið kemur frá notendur. Þetta kerfi gengur út á samkeppnir, sérstaklega samkeppnir um karaoki og lip-sync. Það er nú reyndar skemmtilegt og einfalt að taka þátt í karaoki keppni þarna, maður velur sér bara lag og getur hlustað á það fyrst og svo tekið sjálfan sig upp að syngja undir og sent upptökuna í keppnina. Þetta er nú eitt einfaldasta karaoki kerfið á netinu.
Það er hægt að búa til alls konar samkeppnir í bix. Það er hægt að hlaða inn eigin vídeóum, taka beint upp af vefmyndavél og setja inn vídeo sem þegar eru á youtube eða photobucket. Keppnin er nú ekki aðalatriðið heldur umræðan og samfélagið. Mér sýnist að margir tónlistarmenn séu á myspace til að koma sér á framfæri, ég held að svona kerfi eins og Bix séu ennþá betur sniðið að þörfum listamanna.
Það er gaman að skoða hversu mikill leikmannabragur er á mörgu því efni sem er á Bix, upptakan er léleg og ódýrasta gerð af hljóðnema og vefmyndavél og svo er upptökustúdíóið oftast stofan eða eitthvað rými á heimili og oft má sjá heimilislífið í bakgrunni eins og á þessu vídeó þar sem heimavinnandi húsmóðir er að taka sjálfa sig upp og börnin hlaupa um í bakgrunni myndarinnar.
Þó að þessar upptökur séu viðvaningslegar og það líti út fyrir að það sé lítil sköpun þarna eigi sér stað þegar fólk velur bara lag annarra flytjenda og hermir eftir þá held ég að það samfélag sem er á bix vísi einmitt í þá átt sem listir eða stafrænt föndur stefnir í - að notendur skapi eitthvað sjálfir og leggi sín verk í dóm og umsögn annarra og að notendur geti notað við sína listsköpun einhverjar einingar (t.d. textann og lagið) frá öðrum. Ég hugsa að fólk muni innan skamms fara að gera meira við svona félagsnet eins og Bix t.d. að syngja aðra texta og mixa saman mismunandi tónlist.
Þetta er ein tegund af alþýðulist hins stafræna almúga árið 2007.
Hver sem er getur búið til sína samkeppni. Ég prófaði að búa til mína eigin samkeppni um vídeó frá sumri á Íslandi.
Vefurinn | Breytt 27.10.2007 kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2007 | 07:56
Reisupassi handa S. H. Guðmunsen
Jón Sigurðsson, Jónas Hallgrímsson og herra S.H. Guðmundsen voru uppi á sama tíma á Íslandi og unnu að ýmsum þjóðþrifamálum. S.H. Guðmundsen ferðaðist um landið á vegabréfi sem lýsir hinum ýmsu mannkostum hans. Sölvi var jafnhógvær maður og frelsishetjan Jón og þjóðskáldið Jónas. Gallinn er bara sá að vegabréfið var falsað og Sölvi skrifaði það sjálfur og falsaði undirskrift sýslumanns. En það gerir það nú bara skemmtilegra, svona er reisupassinn:
Sýslumaðurinn yfir Norðurmúlasýslu gjörir vitanlegt: að herra silfur- og gullsmíður, málari og hárskerarari m.m. Sölvi Helgason Guðmundsen, óskar í dag af mér reisupassa frá Norðurmúlasýslu yfir austur- og suður- og norðurfjórðunga Íslands, til ýmislegra þarflegra erinda. Meðfram öðrum hans erindum, ætlar hann að setja sig niður í einhverri sýslu á þessari ferð sem annar handverksmaður, hver að er þó flestum handverksmönnum meiri, og betur að sér til sálar og líkama: og er hann fyrir laungu búinn að gjöra að sig nafnfrægan í norður- og austurfjórðungum landsins með sínum framúrskarandi gáfum á flestum smíðum, og á alla málma, klæði og tré; líka fyrir uppáfinningar og ýmsar frólegar og hugvitsfullar kúnstir, en þó mest fyrir iðni, kapp, minni, ástundan, sálarflug, skapandi ímyndunarafl og kraft, bæði smekk, tilfinning og fegurð í öllum bókmenntum og vísindagreinum, líka svo fyrir karlmennsku, krapta og glímur, fjör og fimleika, gang og hörku, sund og bandahlaup. Með sundinu hefur hann bjargað, að öllu samanlögðu, 18 manns, er fallið hafa í ár, vötn (ströng og lygn) og sjó. Á handahlaupum hefir hann verið reyndur við færustu hesta, bæði nyrðra og eystra, og hefir hann (að frásögn annarra en hans sjálfs) borið lángt af.
Margar eru hans íþróttir, fleiri og meiri, þó ekki sé hér upptaldar, og mætti þó tilnefna nokkrar, sem hann skarar fram úr öðrum í, sem eru: allar listir hér að ofan töldu, einnig frábær ráðvendni og stilling, góðmennska og lítillæti, hógvörð og hreinskilni, greiði og gjafmildi og fl. Fyrir þessar dygðir og listir, sem hann er útbúinn með, og sem hann sýnir jafnt öllum, af öllum stéttum, þá er hann elskaður af hverjum manni, í hverri röð sem er, sem verðugt er.
Þessi passi gildir frá 1. ágústmánaðar 1843 til þess 30. júníusmánaðar 1844, handa herra gullsmið, málara og hárskerara S. H. Guðmundsen, sem reisupassi, en að öllu sem fullkominn sýslupassi, ef hann setur sig niður í einhverri sýslu, eins og hér er getið um að framan.
Þessi passi gildir fyrir herra Guðmundsen héðan frá Norðurmúlasýslu yfir allan þann part landsins, sem hér er að framan skrifaðaur (þótt enginn embættismaður teikni á hann) heim til Norðurmúlasýslu aptur, ef hann setur sig ekki niður í einhverri sýslu á ferðinni, eins og hans áform er, sem fyr er sagt hér að framan.
Þessi passi gjörist gildandi fyrir herra silfur- og gullsmið, málara og hárskerara Sölva Helgason Guðmundsen, til að fara svo hart og hægt um landið, sem honum þóknast, á þessu tímabili, sem hér er fyr frásagt í passanum, því hann er í þeim erindum, er hann verður að hafa hæga ferð, en það er við náttúrufræði, að skoða grös og steina, málma og svo frv. En að vetrinum ætlar hann að skoða, hvernig veður haga sér til í hverju héraði á þeim parti landsins, sem hann fer um (eða reisir um), og þarf hann að halda miklar skriptir á öllum þessum tíma, bæði dagbækur, veðrabækur og lýsingabælur af ýmsum pörtum landsins, líka teikningar af ýmsum hlutum, s.s. fossum, hverum, fjöllum, jöklum, elfum, ám, brunahraunum, gjám, stöðum, fjörðum, eyjum, draungum, standbjörgum, eyðisöndum, öræfum, skógum, dölum, giljum, grafningum, byggðum, bæjum, fiskiverum, höndlunarstöðum, byggðalögum, búnaðarháttum og svo mörgu og mörgu fleira, sem ekki verður hér upptalið, sem hann ætlar að skoða og sjá og um að skrifa og sumt upp að teikna, allt á sinn kostnað m.fl.
Það er mín ósk og þénustusamleg tilmæli til allra, sem margnefndan herra gullsmið m.m. S. H. Guðmundssen fyrir hitta, að þér látið hann passéra frítt, og liðsinnið, hjálip og lánið honum það sem hann meðþurfa kann til ferðarinnar, því það er óhann fyrir hvern mann, að hjálpa honum og lána, ef hann þess með þurfa kann, þótt hann fjarlægist þann, er kynni lána honum peninga og annað sem hann kynni meðþurfa, sjá hans vitnisburðu hér að framan.
Passinn þessi gildir, þó ekki sé um það getið hér að framan í passanum, yfir allan Vestfirðingafjórðung, ef herra Guðmundsen á þangað erilndi, eða vill þar eitthvað skoða, viðkomandi náttúrufræðinni, eða ef hann vill þar setja sig niður sem handverksmaður í einhverri sýslu þar.Samt gildir ekki þessi passi, hvorki þar né í hinum fjórðungum landsins um lengra tímabil, en ´her er getið um að framan, nefnilega frá 1. ágústusmánaðar 1843 til þess 30. júníusmánaðar 1844 sem reisupassi, en að öllu sem sýslupassi, hvar sem hann setur sig niður í hverjum fjórðungi landsins, og þarf hann ekki sýslupassa héðan frá Norðurmúlasýslu, annan en þenna.
Norðurmúlasýslu skrifstofu 1sta águstusm. 1843.
F.Ch. Valsnöe
(l.s)(Heimild Ný félagsrit 1849 bls. 153)