Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Femínistastripp

Geiri í Goldfinger er mikið í fjölmiðlum þessa daganna eftir greinina í Ísafold. Sú starfssemi sem hann rekur í Kópavogi er ömurleg svívirða og vona ég svo sannarlega að bæjaryfirvöld þar taki ekki þátt í að greiða götu svona reksturs. Ég rakst á skemmtilega og einfalda netþjónustu  comeeko þar sem hægt er að búa til "comic strip" og hér er femínistastripp sem ég bjó til um Geira í Goldfinger. Ég notaði skjámyndir af fréttum og kastljósi rúv í gærkvöldi.

a comic strip!

Við femínistar vorum fyrir nokkrum árum með aðgerðir fyrir utan Goldfinger í Kópavogi. 

Reyndar er hægt að nota comeeko fyrir fleira en femínistastripp. Það er skemmtilegt að búa til sín eigin comic strip t.d. af litlum börnum og skrýtnum svipbrigðum þeirra. Hér er eitt skemmtilegt: a comic strip!

Ég hvet alla sem hafa gaman af stafrænu föndri með myndir og teikningar til að prófa, það verður samt að athuga að ef textinn á að vera á íslensku þá má ekki nota sumar leturgerðir t.d. ekki leturgerðina comics. 

Hér er eitt dæmi sem ég gerði um möguleikana sem eru í þessu skemmtilega verkfæri. Þetta er mjög einfalt og á allra færi að gera svona comic strip.

a comic strip!

Sjálfsbókmenntir og einsaga Sigurðar Gylfa

Það er áhugavert fyrir bloggara að fylgjast með ritdeilum  Sigurðar Gylfa Magnússonar. Núna hefur Sigurður Gylfi birt á Kistunni dómnefndarálit yfir sjálfum sér en hann lagði fram ritsmíðar til doktorsprófs við HÍ, sjá hérna Dómur yfir hverjum?

Áhugi minn á verkum og hugmyndum Sigurðar Gylfa er af sama meiði og áhugi minn á tjáningu og miðlun í bloggheimum. Blogg er oft einsaga og sjálfævisaga, sagan sögð út frá sjónarhóli einstaklingsins en verk Sigurðar Gylfa liggja einmitt á því sviði, hann hefur t.d. rannsakað dagbækur.  Það er  verst að Sigurður Gylfi hefur ekki sýnt blogginu neinn áhuga að því ég best veit. Ef til vill er það eðli sagnfræðinga að rótast eingöngu í því liðna og velta við hverjum steini ef fjallar er um Jónas Hallgrímsson eða eitthvað sem gerðist fyrir hundruðum ára en láta samtímann þjóta framhjá sér án þess að taka eftir hvað er að breytast þar. Nema náttúrulega taka eftir sinni eigin stöðu og staðsetja sjálfan sig, Sigurður Gylfi er þar svona eins og riddarinn hugumprúði í sínu sögustríði sem háð hefur verið undanfarið í lesbók Morgunblaðsins.

Mér finnst þetta dómnefndarálit og það að Sigurður Gylfi kjósi að birta það vera áhugavert - áhugavert að fylgjast með hve opinber viðkvæm gögn eins og umsagnir um skrif fræðimanna/nemenda eru og líka áhugavert út frá höfundarréttarsjónarmiðum/persónuvernd.

Má gera opinber svona dómnefndarálit/umsagnir um verk sem eru lögð fram til mats við háskóla? Hver er réttur þeirra sem eru umsagnaraðilar?  Hver er réttur þeirra sem eru til umsagnar? 

Svo er þetta ekki síður áhugavert til að opna umræðuna um hvernig fræðaframlag fólks er metið, sérstaklega fólks eins og Sigurðar Gylfa sem hefur tvímælalaust hrært upp í sagnfræðisamfélaginu og veitt inn nýjum straumum. Ég  hef öðru hverju farið á hádegiserindi og sagnfræðifyrirlestra á vegum Sagnfræðingafélagsins ef mér hefur fundist efnið áhugavert. Sem leikmaður sé ég ekki betur en Sigurður Gylfi hafi verið einn aðaldrifkrafturinn í samfélagi sagnfræðinga á Íslandi undanfarin ár og verið bæði afar duglegur og notað áhugaverðar aðferðir og nálgun.   

Reyndar get ég ekki séð betur en Sigurður Gylfi sé þegar með doktorspróf, það er spurningin hvers vegna hann telur sig þurfa fleiri doktorsgráður. Hugsanlega er þetta einhver liður í að fá umræðu og mat á verkum sínum og/eða liður í einhvers konar starfendarannsókn (action research) á starfsháttum íslenska fræðasamfélagsins. 

Fólk notar ýmsar frumlegar leiðir til að koma ritverkum sínum á framfæri. Ungir vinir mínir gáfu út tímarit fyrir mörgum áratugum og þeir höfðu þá aðferð við sölu á tímaritinu að þeir settu upp söluborð með tímaritinu og einum skó og sátu þar nokkrir saman. Svo falbuðu þeir tímaritið og ef fólk vildi ekki kaupa þá köstuðu þeir í það skó. Þetta var kannski ekki svo sniðugt, fólk tók því illa að fá skó í sig.

Sigurður Gylfi notar þær leiðir sem honum  finnst sniðugast til að vekja umræðu um verk sín. Hann leggur þau fram til doktorsmats og hann segir: 

Ástæðan fyrir því að ég fór af stað með þá hugmynd að leggja nýju bækurnar tvær í mat hugvísindadeildar Háskóla Íslands var sú að ég sá ekki aðra leið færa til að koma þeim á dagskrá háskólasamfélagsins; afgerandi vettvang fyrir slíka umræðu skorti nær algerlega.

 


Sniglapirringur

Mér finnst mjög mikilvægt að fólk viti sem mest um snigla. Þess vegna ákvað ég að útbreiða fagnaðarerindið um flokkun snigla sem ég fann á Vísindavefnum. Ég treysti fullkomlega Vísindavefnum, það er heimild sem er góð og gild til að byggja Wikipedia greinar á. Ég fann þar greinina Hvað getið þið sagt mér um snigla? og í þeirri grein sem er frá árinu 2003 þá eru sniglar blákalt flokkaðir í þrjá flokka sem sagt fortálkna, bertálkna og lungnasnigla. Ég skrifaði áðan greinastubb á íslensku wikipedia um litla kuðunginn gljásilfra af því mér fannst svo sniðugt að tildrur velta við steinum til að finna þennan kuðung og ákvað í framhaldinu að helga sniglum og kuðungum daginn enda eru þetta mjög merkilegar skepnur og fjölskrúðugar, það eru til 65 þúsund tegundir af sniglum.

Svo ég dældi inn greinum á íslensku Wikipedíu um bæði fortálkna og bertálkna og á eftir að setja inn grein um lungnasnigla. En nú er ég búin að fatta að greinin á Vísindavefnum sem ég byggði á sem heimild er með úreldri flokkun.  Samkvæmt greinunum um þessar tegundir á ensku wikipedia er nefnilega úrelt að flokka snigla á þennan hátt. Hmmmm....

Mér finnst frekar pirrandi þegar ég kemst að því að ég hef verið á villigötum. Jafnframt er þetta gott dæmi um hve sú lýsing sem við höfum á heiminum sem við köllum vísindalega flokkun er skeikul og óstabíl. Mér skilst að nútíma mælingar og rannsóknir m.a. DNA rannsóknir hafi sýnt að þær tegundir sem hingað til hafa verið  taldar til  bertálkna hafi fleiri en einn uppruna ef ég er að skilja orðið Cladistics.

Ég skrifa margar greinar um lífverur og efni á wikipedia og þar verður að halda sig við stranga og mjög nákvæma flokkun, flokkun sem er svo samofin lífi okkar að við tökum hana sem sannleika t.d. flokkun eins og lotukerfið og hina vísindalegu flokkun. Mér finnst gaman að því að því nákvæmari og djúpt sokknari í þessa flokkun sem ég er og því meira sem ég sekk mér ofan í svona flokkunarkerfi heimsins - þetta kerfi sem við notum til að teikna upp heimsmynd nútímans - þeim mun minni trú hef ég á þessu kerfi. Það er ekki að það sé alslæmt, þetta er það skásta sem við getum ráðið við núna en þetta er ekki að birta okkur nema örlítið brot af heiminum og það brot er gegnum ýmsar síur. Jú, ég skrifaði á sínum tíma wikipedia grein um frummyndakenningu Platós.


Fuglaskoðun í Viðey

Ég fór í fuglaskoðun í Viðey í gærkvöldi.  Þetta var skemmtileg gönguferð um eyna undir leiðsögn fuglafræðings, ævintýralega fallegt útsýni og fuglakvak alls staðar. En þó ég mætti brynjuð kíki og myndavél þá fannst mér ég vera bæði blind og heyrnarlaus því fuglafræðingurinn benti á nokkra örlitla depla langt í burtu á tjörn eða út í sjó eða klettum  eða á lofti og sagði að þetta væru tildrur eða blesgæsir eða óðinshanar eða jaðrakan eða sandlóur. Svo hlustaði hann og heyrði í þessari eða hinni fuglategundinni. Fyrir mér rann þetta allt saman.  Ég þekkti nú samt nokkra fugla t.d. æðarfugl, kríu, sílamáf og hrossagauk. Það tekur sennilega langan tíma að verða fær í að þekkja fugla og ég þarf mun betri kíki. En ég lærði slatta um fugla t.d. að sílamáfar (kallaðir vorboðinn hrjúfi) eru um þúsundum saman á öskuhaugunum og þeir og krían eru í vandræðum út af því að það eru ekki nóg sandsíli. 

Ég skrifaði svo áðan grein á íslensku wikipedia um tvo fugla, annars vegar um tildru og hins vegar kjóa. Svo setti ég mynd sem ég tók af Viðeyjarkirkju og Viðeyjarstofu inn á Commons og setti hana í public domain þannig að hver sem er getur notað hana til hvers sem honum þóknast. Svo byrjaði ég á wikibók um fargesti á Íslandi, mér finnst mjög spennandi svona fuglar eins og margæsir og tildrur sem koma hér við  vor og haust  í óralangri ferð sinni milli varpsvæða í norðri og vetrarstöðva í suðri. Ég er eiginlega alveg heilluð af svona bíomassahreyfingum jarðarinnar og ég tek eftir að margar af þeim greinum sem ég skrifa um náttúrufræði á wikipedia eru um dýr sem ferðast svona eins og loðna og áll. Reyndar er ég líka heilluð af dýrum sem taka miklum myndbreytingum á æviskeiðinu og eru jarðföst og rótföst  hluta ævinnar en reka með straumum hluta ævinnar.

 

 

 


Gulag og Stasi staðsett í vestrinu

 Ég vona að stjórnarfar í Bandaríkjunum sé ekki eins slæmt og orðsporið sem nú fer af stjórn Bush. Ég sé ekki betur en Gulagið og Stasi sé núna að staðsetja sig þar vestra  þó það sé undir öðrum nöfnum. Fangabúðir og fangaflutningar Bandaríkjamanna í Guantanamo og víðar hafa ekki aukið hróður þeirra og dómsmálaráðherrann Alberto Gonzales er miklu, miklu verri en Björn Bjarnason okkar Íslendinga.

Hér er myndband þar sem þingmaður spyr  Gonzales  út í  hvernig fangabúðir þar sem fólki er haldið í fangelsi án dóms og laga geti samræmst stjórnarskrá Bandaríkjanna, þetta fjallar um Habeas corpus

Eiginlega er Gonzales afar fráhrindandi svo ekki sé meira sagt.  Hann rak slatta af ríkissaksóknurum að eigin sögn vegna þess að þeir voru ekki nógu duglegir en að sögn annarra þá voru sérstaklega reknir þeir saksóknarar sem voru að rannsaka mál sem tengdust repúblikönum eða sem voru ekki nógu duglegir við að ofsækja Demókrata sb.: "But critics say last year's dismissals were meant to halt investigations into Republican officials or punish the attorneys for failing to prosecute Democrats."

 Mér virðist Gonzales ekki bara tengjast þessu skrýtna saksóknaramáli heldur virðist honum hafa verið mjög umhugað um að koma lögum um eftirlit með þegnunum í gegn og svífst einskis við það  sb. þessa grein.

In February 2006, the Senate Judiciary Committee was inquiring into the warrantless wiretapping program whose existence had been revealed just two months before. Sketchy details had also begun to emerge of the March 2004 hospital room ambush, in which Mr. Gonzales, then the White House counsel, and then-White House chief of staff Andrew H. Card Jr. tried to browbeat the gravely ill Attorney General John D. Ashcroft, who had temporarily yielded his office to his deputy, into approving the warrantless surveillance program.

Það molnar ansi hratt undan trausti heimsins á stjórnsýsluna í Bandaríkjunum. Ef stjórnsýslan þar vestra stefnir áfram í þessa átt  þá getur þetta ekki farið á nema einn veg. Það er ekki falleg framtíðarsýn.

Það þarf náttúrulega ekki að taka fram að Gonsales er ákaflega fylgjandi afar ströngum höfundarréttarlögum  og að hægt verði að gera tölvubúnað upptækan og njósna um tölvuhegðan almennings.  Hann vill líka skilgreina nýja tegund af tölvuglæpum þar sem liggur lífstíðarfangelsi við að nota ólöglegan hugbúnað.

Sjá hér:

Create a new crime of life imprisonment for using pirated software. Anyone using counterfeit products who "recklessly causes or attempts to cause death" can be imprisoned for life. During a conference call, Justice Department officials gave the example of a hospital using pirated software instead of paying for it.

Greinin úr heild:
Gonzales proposes new crime: "Attempted" copyright infringement

Og svo meira um hvers vegna mér finnst Gonsales ekkert spes..:

Terrorism used as new excuse for ISP snooping proposal

Vonandi kemur ekki sá tími á Íslandi að ég þurfi að lesa mér betur til um Habeas corpus

 


mbl.is Repúblikanar koma í veg fyrir að lýst verði vantrausti á Gonzales
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað hefði Jónas verið að bauka í dag?

Núna um helgina er hyllingarhátíð Jónasanna, háskólarnir hylla þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson með vandaðri dagskrá á Jónasarstefnu, ég var að skrá mig í Þingvallaferðina á morgun. Það er fínt að fara einu sinni á ári á Þingvöll og strengja sín heit og gaman að gera það undir góðri leiðsögn. 

Fyrsta erindið á Jónasarhátíðinni í dag er erindið "Var Jónas vinstri-grænn?"  Ég brosti við þegar ég sá þennan titil, hann endurspeglar þrá mannanna til að heimfæra allt upp á sinn samtíma. En ég fór að hugsa... hvað hefði lærdómsmaður eins og Jónas haft áhuga á í dag, hann sem var boðberi nýrra tíma og nýrrar hugsunar á svo mörgum sviðum, hann var ekki  eingöngu skáld heldur var hann náttúruvísindamaður og leitandi sál.  Mörg af verkum Jónasar eru byggð á hugmyndum annarra skálda og fræðimanna, sérstaklega danskra og þýskra.

Ég ætla að nota helgina til að lesa aftur ævisögu Jónasar eftir Pál Valsson og lesa vefinn um Jónas og ef ég hef tíma þá ætla ég að bæta í wikipediagreinina um Jónas eða jafnvel skrifa sérstaka wikibók um Jónas. Ég hugsa að Jónas hefði verið hrifinn af wikimedia verkefnum. Hann hefði örugglega gert það sama og ég reyni að gera, hann hefði sett inn greinar á íslensku sem lýsa íslenskri náttúru. Ég hef t.d. sett inn greinar á íslensku wikipedia  um gabbró og surtarbrand og  ofauðgun og eiturþörunga og fiska eins og ála og loðnu og lúðu.

Jónas hefði ekkert verið að setja það fyrir sig að framlag mitt og annarra er skoplítið þegar horft er til þess hve mikið verk er óunnið, hversu mörgum náttúrufyrirbærum og verum þarf að lýsa og tengja hvert við annað.  Var það ekki hann sem kvað:

Bera bý
bagga skoplítinn
hvert að húsi heim.

Ég held að Jónas hefði alveg haft smekk fyrir verkfæri eins og wikipedia til Íslandslýsingar, svona höfundarlausum samvinnuskrifum en hann hefði kannski ekki verið neitt sérstaklega þekktur í dag og ekki verið hampað og  upphafinn af samfélagi nútímans - samfélagi  höfundanna og höfundarétthafanna. En andi Jónasar og þeirra sem höfðu áhrif á hann lýsir ennþá upp sál okkar. Mér finnst skemmtilegra að lesa ljóðið hans um alheimsvíðáttuna heldur en reikna út hvort ég hafi kolefnisjafnað nógu miklu í dag.  

Alheimsvíðáttan

(Hugmyndin er eftir Schiller)

Eg er sá geisli,
er guðs hönd skapanda
fyrr úr ginnunga
gapi stökkti;
flýg eg á vinda
vængjum yfir
háar leiðir
himinljósa.

Flýta vil eg ferðum,
fara vil eg þangað,
öldur sem alheims
á eiði brotna,
akkeri varpa
fyrir auðri strönd
að hinum mikla
merkisteini
skapaðra hluta
við skaut alhimins.

Sá eg í ungum
æskublóma
stjörnur úr himin-
straumum rísa,
þúsund alda
að þreyta skeið
heiðfagran gegnum
himinbláma.

Sá eg þær blika
á baki mér,
er eg til heima
hafnar þreytti;
ókyrrt auga
sást allt um kring;
stóð eg þá í geimi
stjörnulausum.

Flýta vil eg ferðum,
fara vil eg þangað,
Ekkert sem ríkir
og Óskapnaður;
leið vil eg þreyta
ljóss vængjum á,
hraustum huga
til hafnar stýra.

Gránar í geimi,
geysa ég um himin
þokuþungaðan
þjótandi fram;
dunar mér á baki
dökknaðra sóla
flugniður allra,
sem fossa deyjandi.

Kemur þá óðfluga
um auðan veg
mér í móti
mynd farandi:
"bíddu flugmóður
ferðamaður!
heyrðu! hermdu mér,
hvurt á að leita?"

""Vegur minn liggur
til veralda þinna;
flug vil eg þreyta
á fjarlæga strönd,
að hinum mikla
merkisteini
skapaðra hluta
við skaut alhimins.""

"Hættu, Hættu!
um himingeima
ónýtisferð
þú áfram heldur;
vittu að fyrir
framan þig er
Ómælisundur
og endaleysa."

""Hættu, Hættu!
þú sem hér kemur,
ónýtisferð
þú áfram heldur;
belja mér á baki
bláir straumar,
eilífðar ógrynni
og endaleysa.""

Arnfleygur hugur!
hættu nú sveimi;
sárþreytta vængi
síga láttu niður;
skáldhraður skipstjóri,
sköpunarmagn!
fleini farmóður
flýttu hér úr stafni.

 


Femínistafélagið - fjórði aðalfundurinn

Hér eru 54 myndir frá aðalfundi Femínistafélags Íslands 2007  sem haldinn var í gærkvöldi á Hallveigarstöðum. Hér er sjálfkeyrandi myndasýning


Nýja Ísland í Debrecen í Ungverjalandi

Það er íslensk nýlenda í borginnin Drebrecen í Ungverjalandi, þar eru nú sextíu íslenskir nemar að læra læknisfræði og þeim fer fjölgandi. Þar er gott að vera. Ég hitti tvo þeirra í rútunni á flugvellinum í Búdapest, þau voru að koma heim til sumardvalar. Hér er grein í læknablaðinu um íslensku nýlenduna í Debrecen.

Sjómannadagurinn í Búdapest - hetjugarðar,hryllingshús, minningarreitir, kastalar og lesbíur

Það er  öðruvísi að halda upp á sjómannadaginn hérna í Búdapest heldur en í Grindavík eða við Reykjavíkurhöfn. Hér er ekki menning hafsins og hér eru engar strandir sem mæta úfnum  úthöfum. Í  miðri Evrópu fjarri öllum ströndum er grejsa hirðingjaþjóðinnar  Ungverja og í gegnum landið flæðir fljótið Dóná.

hryllingshúsið í Búdapest

Hér er ég fyrir utan Hryllingshúsið í Búdapest á sjómannadaginn 2007 ásamt stúlku frá Istanbúl sem er í doktorsnámi í Utrecht.

En hérna var sjómannadagurinn hjá mér  eins og áður dagur minninga og dagur þar sem vatnið speglar  ímynd mína. Það voru þó ekki mínar eigin minningar heldur minningar ungversku þjóðarinnar og endurskrifun á sögunni með augum valdhafanna sem flæddu um hug minn og vatnið sem speglaði minningar og ímynd var ekki Atlandshafið heldur elvan Dóná.

Á sjómannadaginn fórum við  í kynnisferð um borgina undir leiðsögn Adreu Peto.

Hetjutorgið í BúdapestVið skoðuðum hetjutorgið og horfðum upp á erkiengilinn Gabríel sem gnæfir yfir ættbálkahöfðingjunum sjö og sumar sögðu  að þar yrði fínt að skipta honum út fyrir gyðjuna þegar sá tími kæmi.  Það er alltaf verið að skipta út styttum og brjóta niður minnismerki og búa til nýjar sköpunarsögur um mannkynið og þjóðirnar. Þetta torg er Arnarhóll þeirra Ungverja og við hann er tengd upprunasaga þjóðarinnar, það var á svipuðum tíma og Ingólfur fann sínar öndvegissúlur sem fyrsti ungverski  höfðinginn kom á bakka Donár og leit yfir fagurt land og gott til búsetu og ákvað að setjast þar að.

 

Leið okkar lá svo í Andrássy strætið  nr. 60 en þar er  Terror Háza minningasafn eða hryllingssafn um ógnarstjórnir annars vegar nasista og hins vegar kommúnista. Þar er dregin upp mynd af sögunni frá síðari heimsstyrjöldinni eins og Ungverjar nútímans vilja heyra hana. Það var einkennilegt að ganga þar um að heyra söguna sagða út frá þessu sjónarhorni, sjá hvernig sagan var teygð og toguð og bjöguð í máli og myndum til að passa inn í minningar nútímans. Sagan var líka teygð í orðsins fyllstu merkingu, ljósmyndir af Stalín og Lenín eru teygðar á þverveginn  þegar gengið er inn um hliðið í sýninguna um kommúnistastjórnina. Þó að sagan sé bjöguð og endursögð frá einu sjónarhorni þá er hún að hluta til sannleikur. Húsið  var á sínum tíma miðstöð leynilögreglu Nazista og síðar Stasi og í kjallaranum eru raunverulegar fangageymslur og pyndingarklefar.

 Við skoðuðum kastalann á hæðinni í Buda og  málverkasafnið þar með dýrgripum ungversku þjóðarinnar. Elstu myndirnar voru flestar af bardögum og sókn og sigrum Ungverja yfir  Mongólum og Tyrkjum. Á einni myndinni sem lýsti fornri orustu benti Andrea okkur á að sigurvegararnir veifuðu ungverska fánanum jafnvel þótt orustan hafi átt sér stað mörg hundruð árum áður en þessi þríliti fáni varð til.  Fyrir framan kastalann er dýrlegt útsýni yfir Dóná og þinghúsið á hinum bakkanum.

Styttugarðurinn í BudapestVið fórum í styttugarðinn sem er minningareitur fyrir styttur og minnismerki frá kommúnistatímanum, svona grafreitur fyrir styttur sem sýna hugmyndir og persónugervinga hugmynda sem ekki eru tignaðar lengur í vestrænu og markaðsþenkjandi Ungverjalandi.

Ferðin um Búdapest endaði við basiliku heilags Stefáns en þar er helgidómurinn allur á einni hendi, heilagri hendi St. Stefáns sem þar er varðveitt og er þessi líkamspartur borinn um kirkjuna á háheilögum dögum.

Ég fór svo út að borða á veitingastað í miðbænum í Búdapest með fjórum konum úr Athena netinu. Þær stunda allar kynjarannsóknir, tvær þeirra vinna við upplýsingaveitur um kvennasögur og tvær þeirra prófessorar í kynjafræði. Við borðuðum á veitingastað sem helgaður var goðsögninni um Kentárus sem var hálfur maður og hálfur hestur. Við ræddum um kynjamisrétti og kynjamismunum og samkynhneigð en báðir prófessorarnir eru lesbíur og aktívistar. Önnur þeirra gegnir reyndar líka prófessorstöðu í samkynhneigð við háskólann í Amsterdam en það mun vera eina staðan í heiminum á því fræðasviði. Hún hefur rannsakað sögu kvenna í Indónesíu og Afríku.

Sjómannadagurinn í ár var heimsókn á minningarreiti ungversku þjóðarinnar og ég hugleiddi hvernig minningar þjóðar verða til og hvernig minningaþræðir einstaklinga tvinnast um minningar þjóða. Hugurinn hvarflaði á slóð minna eigin minninga við Íslands strendur og ég hugleiddi að hvernig minningarreitir og tilbúnir atburðir og sýningar  búa til sannleika og sögu sem er mismunandi eftir því hvaða sjónarhorn fær að segja söguna og lýsa raunveruleikanum.

 


Budapest er falleg borg

Eg er nuna i Budapest i Ungverjalandi á fundi. Vid vorum med fyrirlestra i morgun um ymis konar upplysingataekniverkfaeri, eg fjalladi um wiki. I gaer voru fyrirlestrar i midbaenum og tha sa eg svolitid af midbaenum thvi seinni part dagsins gengum vid eftir bokkum Donár og forum yfir a Margretarbrunni en thar er litil eyja i midri ánni og thar er almenningsgardur. Allt ber vott um mikla velmegun og uppgang i midborginni. Flest gomlu husin eru uppgerd eda verid ad vinna vid thau. Uthverfid sem eg for i gegnum a leidinni fra flugvellinum var tho ekki allt reisulegt, serstaklega sa eg margar verksmidjur sem virtust vera nidurniddar og yfirgefnar. En tho husin i uthverfinu tharfnist vidhalds tho finnst mer borgin mjog falleg og graen, allls stadar eru tre og her eru ekki morg hahysi.

Nokkrar slodir um Budapest

Wikitravel article about Budapest
Wikipedia article (in English) about Budapest
Pictures fro Budapest (Wikipedia Commons)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband