Sjálfsbókmenntir og einsaga Sigurðar Gylfa

Það er áhugavert fyrir bloggara að fylgjast með ritdeilum  Sigurðar Gylfa Magnússonar. Núna hefur Sigurður Gylfi birt á Kistunni dómnefndarálit yfir sjálfum sér en hann lagði fram ritsmíðar til doktorsprófs við HÍ, sjá hérna Dómur yfir hverjum?

Áhugi minn á verkum og hugmyndum Sigurðar Gylfa er af sama meiði og áhugi minn á tjáningu og miðlun í bloggheimum. Blogg er oft einsaga og sjálfævisaga, sagan sögð út frá sjónarhóli einstaklingsins en verk Sigurðar Gylfa liggja einmitt á því sviði, hann hefur t.d. rannsakað dagbækur.  Það er  verst að Sigurður Gylfi hefur ekki sýnt blogginu neinn áhuga að því ég best veit. Ef til vill er það eðli sagnfræðinga að rótast eingöngu í því liðna og velta við hverjum steini ef fjallar er um Jónas Hallgrímsson eða eitthvað sem gerðist fyrir hundruðum ára en láta samtímann þjóta framhjá sér án þess að taka eftir hvað er að breytast þar. Nema náttúrulega taka eftir sinni eigin stöðu og staðsetja sjálfan sig, Sigurður Gylfi er þar svona eins og riddarinn hugumprúði í sínu sögustríði sem háð hefur verið undanfarið í lesbók Morgunblaðsins.

Mér finnst þetta dómnefndarálit og það að Sigurður Gylfi kjósi að birta það vera áhugavert - áhugavert að fylgjast með hve opinber viðkvæm gögn eins og umsagnir um skrif fræðimanna/nemenda eru og líka áhugavert út frá höfundarréttarsjónarmiðum/persónuvernd.

Má gera opinber svona dómnefndarálit/umsagnir um verk sem eru lögð fram til mats við háskóla? Hver er réttur þeirra sem eru umsagnaraðilar?  Hver er réttur þeirra sem eru til umsagnar? 

Svo er þetta ekki síður áhugavert til að opna umræðuna um hvernig fræðaframlag fólks er metið, sérstaklega fólks eins og Sigurðar Gylfa sem hefur tvímælalaust hrært upp í sagnfræðisamfélaginu og veitt inn nýjum straumum. Ég  hef öðru hverju farið á hádegiserindi og sagnfræðifyrirlestra á vegum Sagnfræðingafélagsins ef mér hefur fundist efnið áhugavert. Sem leikmaður sé ég ekki betur en Sigurður Gylfi hafi verið einn aðaldrifkrafturinn í samfélagi sagnfræðinga á Íslandi undanfarin ár og verið bæði afar duglegur og notað áhugaverðar aðferðir og nálgun.   

Reyndar get ég ekki séð betur en Sigurður Gylfi sé þegar með doktorspróf, það er spurningin hvers vegna hann telur sig þurfa fleiri doktorsgráður. Hugsanlega er þetta einhver liður í að fá umræðu og mat á verkum sínum og/eða liður í einhvers konar starfendarannsókn (action research) á starfsháttum íslenska fræðasamfélagsins. 

Fólk notar ýmsar frumlegar leiðir til að koma ritverkum sínum á framfæri. Ungir vinir mínir gáfu út tímarit fyrir mörgum áratugum og þeir höfðu þá aðferð við sölu á tímaritinu að þeir settu upp söluborð með tímaritinu og einum skó og sátu þar nokkrir saman. Svo falbuðu þeir tímaritið og ef fólk vildi ekki kaupa þá köstuðu þeir í það skó. Þetta var kannski ekki svo sniðugt, fólk tók því illa að fá skó í sig.

Sigurður Gylfi notar þær leiðir sem honum  finnst sniðugast til að vekja umræðu um verk sín. Hann leggur þau fram til doktorsmats og hann segir: 

Ástæðan fyrir því að ég fór af stað með þá hugmynd að leggja nýju bækurnar tvær í mat hugvísindadeildar Háskóla Íslands var sú að ég sá ekki aðra leið færa til að koma þeim á dagskrá háskólasamfélagsins; afgerandi vettvang fyrir slíka umræðu skorti nær algerlega.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er ekki augljós þversögn í því fólgin að SGM leggi fram bækur sínar til doktorsvarnar í því skyni að vekja umræður um þær - en kvartar svo yfir brot á trúnaði þegar gagnrýnin á verkin er gerð opinber?

Átti umræðan að fara fram í kyrrþey?

Stefán (IP-tala skráð) 15.6.2007 kl. 14:48

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

nei. ekki þversögn þegar maður pælir í hvers vegna Sigurður Gylfi er að kvarta. Hann er bara að reyna að plögga sínar bækur.  Því fleiri tilefni sem hann fær til að kvarta þeim mun betra. Meira plögg

Annars get ég ekki séð neitt að því að dómnefndarálit hafi farið til umsagnar hjá sem flestum innan háskólans áður en það var birt Sigurði Gylfa. Ég geri væntanlega ráð fyrir að þeir sem fengu það til umsagnar átti sig á því að í því felst ekki leyfi til að dreifa því áfram og/eða ræða efni þess nema við þá sem sendu þeim skjölin. mér finnst allt í lagi til að nota þetta mál til að fara yfir réttindi og skyldur og meðferð gagna - hvað er góð stjórnsýsla. Ég er ekki viss um að allir háskólamenn séu meðvitaðir um það. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 15.6.2007 kl. 15:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband