Fuglaskoðun í Viðey

Ég fór í fuglaskoðun í Viðey í gærkvöldi.  Þetta var skemmtileg gönguferð um eyna undir leiðsögn fuglafræðings, ævintýralega fallegt útsýni og fuglakvak alls staðar. En þó ég mætti brynjuð kíki og myndavél þá fannst mér ég vera bæði blind og heyrnarlaus því fuglafræðingurinn benti á nokkra örlitla depla langt í burtu á tjörn eða út í sjó eða klettum  eða á lofti og sagði að þetta væru tildrur eða blesgæsir eða óðinshanar eða jaðrakan eða sandlóur. Svo hlustaði hann og heyrði í þessari eða hinni fuglategundinni. Fyrir mér rann þetta allt saman.  Ég þekkti nú samt nokkra fugla t.d. æðarfugl, kríu, sílamáf og hrossagauk. Það tekur sennilega langan tíma að verða fær í að þekkja fugla og ég þarf mun betri kíki. En ég lærði slatta um fugla t.d. að sílamáfar (kallaðir vorboðinn hrjúfi) eru um þúsundum saman á öskuhaugunum og þeir og krían eru í vandræðum út af því að það eru ekki nóg sandsíli. 

Ég skrifaði svo áðan grein á íslensku wikipedia um tvo fugla, annars vegar um tildru og hins vegar kjóa. Svo setti ég mynd sem ég tók af Viðeyjarkirkju og Viðeyjarstofu inn á Commons og setti hana í public domain þannig að hver sem er getur notað hana til hvers sem honum þóknast. Svo byrjaði ég á wikibók um fargesti á Íslandi, mér finnst mjög spennandi svona fuglar eins og margæsir og tildrur sem koma hér við  vor og haust  í óralangri ferð sinni milli varpsvæða í norðri og vetrarstöðva í suðri. Ég er eiginlega alveg heilluð af svona bíomassahreyfingum jarðarinnar og ég tek eftir að margar af þeim greinum sem ég skrifa um náttúrufræði á wikipedia eru um dýr sem ferðast svona eins og loðna og áll. Reyndar er ég líka heilluð af dýrum sem taka miklum myndbreytingum á æviskeiðinu og eru jarðföst og rótföst  hluta ævinnar en reka með straumum hluta ævinnar.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband