Færsluflokkur: Dægurmál

Hausahettur, nýjasta götutískan

headhoodsSmart þessar hettupeysur frá headhoods.com.

Mörg dýr eru í  einhvers konar dulbúning annað hvort til að felast eða til hræða eða villa fyrir andstæðingum sínum. Fiðrildi hafa stundum bletti á vængjunum sem líta út eins og augu og þá skýringu heyrði ég að það væri til að hræða önnur dýr sem héldu þá að þarna væri miklu stærra dýr á ferð.

Ég las einhvers staðar að indjánar teiknuðu stundum andlit aftan á föt og það virkar þrælvel, ég var einu sinni á ferð bíl í rökkri í eyðimerkum Nýju Mexíkó þar sem við allt í einu sáum tvær geimverur koma á móti okkur þarna í auðninni, þær voru eins og ég hef nú alltaf ímyndað mér að geimverur líta út, svona risastórt höfuð og litlir fætur. Ég stalst til að líta á bakhliðina á geimverunum þegar við brunuðum framhjá þeim og sá þá að þetta voru tveir indjánakrakkar, bakhliðin á úlpunum þeirra voru með stór teiknuð andlit.

Það er nú einn angi af nútímanum að taka upp mismunandi gervi og hanna sjálfan sig. Það getur maður auðvitað gert einna best með fötum og hvað er að því að fá sér nýjan haus sem horfir í aðra átt en maður sjálfur? 


Guð launar þeim sem barnsins gætir

Foreldrar í sumarfríi á sólarströnd í Portúgal fara út á tapasveitingastað nokkur hundruð metrum frá hótelíbúð sinni. Það er ekki í frásögur færandi nema vegna þess að þau skilja börnin sín eftir sofandi í íbúðinni, þriggja ára telpu og tveggja ára tvíbura.  Þau skiptast á að fara að líta eftir börnunum, seinast sá faðirinn stelpuna kl. níu en þegar móðirin kemur kl. tíu þá er stelpan horfin. Það kemur fram í frétt á BBC að portúgalska lögreglan hefur ákveðinn aðila grunaðan um hvarf stelpunnar  og  telur hana vera á lífi og  í nágrenninu. 

Það sem manni finnst einkennilegast í þessu máli er hvernig í ósköpunum foreldrunum datt í hug að fara frá börnunum. Það var ekki eins og þau hefðu enga valkosti, það er boðið upp á barnagæslu á vegum fyrirtækisins sem rekur íbúðirnar og þau hefðu getað farið með börnin þangað. Þau eru einnig tvö og hefðu getað skipst á að vera hjá börnunum. Það er heldur ekki þannig að foreldranir séu fákunnandi og bláfátækir fíklar eða óreglufólk. Þau eru bæði læknar og sérfræðingar og þetta er þess óskiljanlegra þar sem þau hljóta að hafa fengið sérstaka þjálfun í að annast ósjálfbjarga fólk sem þarf stöðugt eftirlit.

Það er því miður svo að fólk skilur oft börn eftir við aðstæður sem geta verið hættulegar.  Fólk fer frá sofandi börnum sem eru allt of ung til að passa sig sjálf og fólk skilur börn eftir í umsjá eldri systkina sem eru allt of ung til að bera ábyrgð á yngri systkinum.  Í mörgum tilvikum kemur ekkert fyrir, það er ekki erfitt að passa sofandi barn en það getur verið að barnið vakni og taki upp á einhverju skrýtnu, það vita allir foreldrar sem hafa vaknað seinna en ung börn um helgar að það virðast lítil takmörk fyrir því hvað börnin geta tekið upp á ef þau eru ein að morgni dags t.d. eldhúsinu.

 

 


mbl.is Talið að breskri stúlku hafi verið rænt í Portúgal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fermingarbæklingur Smáralindar og Bókamarkaðurinn

Guðbjörg Hildur Kolbeins skrifar myndræna lýsingu á forsíðu fermingarbæklingsins frá Smáralind. Ég þarf að sjá þessa forsíðu til að mynda mér skoðun.

Það er áhugavert að spá í hvaða fegurðarímynd er haldið að ungum stúlkum á þessum tímamótum í lífinu sem fermingin er. Ferming er manndómsvígsla á milli barnæsku og fullorðinsára. Það er líka áhugavert að spá í hvaða gjafir krakkar fá við þessi tímamót og hve kynlegar myndir þar eru á ferð. Fá krakkarnir fararskjóta sem eykur frelsi þeirra - í tíð mömmu minnar var það hestur eða reiðtygi eða hnakkur í tíð nútímabarna er það fararskjóti út í sýndarveröld tölvuleikja og út í hið viðfeðma Internet. Mig minnir að þegar ég fermdist hafi fermingarbörn fengið úr og skatthol og græjur. Hvers vegna úr? Hvers vegna er það veganesti við þessi tímamót að geta mælt tímann?

Nú kosta tímamælingar svo lítið að enginn gefur úr lengur. Eða tíminn er ekkert dýrmætur lengur.

En varðandi fegurðarímynd þá keypti ég á  Bókamarkaðnum um helgina  bókina Brosað gegnum tárin eftir Sæunni ólafsdóttur. Bókin fjallar um fegurðarsamkeppnir á Íslandi. Ég hlakka til að lesa hana, mér finnst fegurðarsamkeppnir últra flott fyrirbæri, það toppar þær ekkert nema þá helst mótmæli gegn fegurðarsamkeppnum.  Hér er listi yfir bækurnar sem ég keypti á bókamarkaðnum. Ég get ekki lesið neitt mynstur út úr þeim nema bara að ég held ennþá áfram að kaupa bækur þó að allir bókaskápar séu yfirfullir og ég hafi mjög lítinn tíma til að lesa.

  • Brosað gegnum tárin
  • Annað Ísland - Gullöld Vestur-Íslendinga í máli og myndum
  • Heimspeki á tuttugustu öld
  • Rómanska-Ameríka
  • Arfur og umbylting
  • Hlálegar ástir
  • List skáldsögunnar
  • Furðulegt háttalag hunds um hánótt

Samt reykir fólk

ekki-reykjaFólk á meira á hættu að fá krabbamein vegna erfða en það eru líka fjölmargir umhverfisþættir sem valda því að við erum líklegri til að fá krabbamein.  Í mlb.is var sagt frá málaferlum í Bretlandi þar sem kona vann mál en hún taldi sig hafa orðið fyrir asbestmengun í tengslum við vinnu föður síns.

Það má í þessu tilviki benda á að talið er að 79. þúsund manns deyi í Evrópu á hverju ári af völdum óbeinna reykinga.  Þá er ekki verið að tala um alla þá sem deyja vegna eigin reykinga. Samband reykinga og krabbameina hefur verið lengi þekkt. Það er auglýst stórum stöfum á öllum reykingapökkum. Það er bannað að auglýsa sígaréttur. Samt reykir fólk. Samt reykja mjög mörg ungmenni. 

Sígarettur eru sterkt og hættulegt eiturefni.  Reykingar eru fíkn sem fólk ræður illa við að hemja og fólk virðist eiga erfitt með að hætta sjálft. Ég tala af eigin reynslu, ég var einu sinni stórreykingamaður. 

Ég held að ein árangursríkasta leiðin til að gera reykingar útlægar sé að skapa umhverfi þar sem er alfarið bannað að reykja og þar sem það er gert eins erfitt og hægt er að vera reykingamaður.  Ég hlakka til þegar bannað verður að reykja á veitingastöðum.


mbl.is Veiktist af krabbameini eftir að hafa faðmað föður sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rannsóknarmoggabloggmennskan

Allt kviktFyrst skoppuðu kartöflur eftir gólfinu en svo hafa þær tekið á sig gervi hinna ýmsu kvikinda. Ég sá þetta út úr myndbrotinu... ég er líka með frekar frjótt ímyndunarafl og sé meira en séstGrin

Margir hafa bætt í söguna og reiknað og pælt, velt fyrir sér veltuhraða kartaflna, félagsmynstri músa og fjarlægðar- og tímamælt atburðarásina í bakgrunni. Rannsóknarbloggmennskan í algleymingi. Eða ekkert að gerast eftir að klámþingsumræðan dó.

Enginn bloggar um matarkörfuna og matarverðið.  

 

 

 


mbl.is Kartöflumús í Bónus?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annáll 2006

Hér skrifa ég annál ársins 2006 og hef hann með einnar mínútu vídeóklippi sem ég tók við Hallgrímskirkju þegar klukkurnar hringdu inn nýja árið. Það heyrist ekkert í klukkunum því að leikvangurinn á Skólavörðuholtinu er þannig á Gamlárskvöld að það er eins og maður sé staddur í sprengiárás. Ég skrifaði áramótahugleiðinguna Skotárás á turninn  fyrir fjórum árum einmitt um Hallgrímskirkjuturn. 

Hvað einkennir árið 2006? Þegar ég renni yfir bloggið mitt árið 2006 þá finnst mér sá atburður sem mest áhrif hafði á mig í heimsumræðunni  hljóti að hafa verið skrípamyndirnar af Múhameð. Ég virðist hafa verið með það á heilanum um tíma og bloggaði endalaust um málið. Ég fékk líka köllun til að verða sjálf skopmyndateiknari. Það verður eitt af áramótaheitum mínum fyrir 2007 að láta það rætast. Ég held að skrípómálið hafi heillað mig af því hve myndrænt það var og hve það virtist sakleysislegt á yfirborðinu en hve þungir undirstraumar og iðuköst fylgdu málinu - menningarheimum laust saman, mismunandi trúarheimar glímdu, tekist var á um tjáningarfrelsi og hatur sem fann sér útrás í einföldum auðskildum táknmyndum.  

Hér eru nokkrar af bloggfærslum mínum um skrípamyndirnar 

Teiknimyndir af Múhameð spámanni 

Konan á krossinum wikipedia

Skrípóstríðið heldur áfram

Meira skrípó og guðlast

Í stuði með Guði - Jesúdúkkulísur

Um júðana og lygar þeirra

Stungið niður stílvopni

Látið Ali Mohaqiq Nasab lausan!

Villandi og rangar fréttir á Íslandi og bóksalinn í Kabúl

Við erum öll Danir núna... nú eða breskir námsmenn í ögrandi fötum

Vi danskere og vores national identitet

Danskurinn og fjanskurinn sitt hvorum megin við Djúpavog

Háfrónskan og skopmyndaskáldin

Svo sýnist mér þegar ég lít yfir það sem ég hef skrifað á blogg  á árinu að ég tjái mig  alltaf meira og meira um mannréttindamál og miðlun þekkingar. Ég bloggaði töluvert um femínisk málefni eins og undanfarin ár en ég blogga alltaf meira og meira um mannréttindamál og tjáningarfrelsi og frjálst flæði þekkingar og reyni að vara við þeim manngerðu fangelsum sem reist eru í netheimum og hvernig lög og reglur samfélagsins eru ekki miðuð við þennan nýja tíma og þá sem ferðast í netheimum heldur fyrst og fremst til að gæta hagsmuna höfundarréttahafa og  eignafólks.

Ég held að skopmyndamálið hafi verið ein leið til að sprengja gjá milli þeirra frjálslyndu og umburðarlyndu sem verja tjáningarfrelsið og þeirra sem böðlast áfram í trúarofstæki og blindri bókstafstrú. Eða kannski þetta sýndi hvað er mikil hyldýpisgjá milli öfgatrúarhópa í Austurlöndum og Evrópubúa. En alla vega mun ég verja rétt fólks til að guðlasta og hafa illa ígrundaðar og hallærislegar skoðanir og ég er full tortryggni gagnvart öllum þeim sem vilja hefta slíka tjáningu. Tjáningarfrelsi er líka fyrir ruddalegt fólk sem fylgir ekki því sem okkur finnst vera rétta skoðunin og rétta framsetningin.

 Ég held að þetta ár hafi breytt landakortinu af Íslandi. Við höllum okkur nær Evrópu og fjær Bandaríkjunum og skilin milli Evrópu og Austurlanda nær urðu skarpari á árinu.  Herinn fór og Hálslón varð til.  Eftir árið erum við Evrópuþjóð þar sem margir vilja taka upp Evru og sennilega myndum við þjóta inn í Evrópusambandið á methraða ef það væri ekki út af sjávarútvegsstefnu bandalagsins. Markalínur menningarheima snúast núna um trú og markalínur stjórnmála á Íslandi um hálendið og náttúru Íslands.  Ég tek eftir að ég hef ekki haft neinn sérstakan áhuga á trúmálum eða náttúruverndarmálum undanfarin ár, ég alla vega blogga ekkert mikið um þau mál.  Ef til vill ætti ég breyta því á árinu 2007, ég hef reyndar meiri áhuga á dýravernd bæði gæludýra og alidýra en náttúruvernd, aðallega af því mér finnst  meiri þörf fyrir baráttu og upplýsingar þar, það eru færri sem berjast fyrir svín og kjúklinga en fyrir lónum á hálendinu. 

Nokkrir punktar úr lífi mínu og fjölskyldu minnar

Ég fór tvisvar erlendis á árinu, ég fór til Boston á Wikimania í ágúst og ég fór til Póllands í lok ágúst. Innanlands fór ég nokkrum sinnum í Borgarfjörð og eina ferð út í Flatey og eina til Vestfjarða til systur minnar. Hún var þá að flytja aftur til mannsins síns en þau skildu í lok síðasta árs.  Ég fór ekkert til Skagafjarðar á þessu ári og geri ekki ráð fyrir að fara mikið þangað framar nema til að koma við á Víðivöllum og Víðinesi. Það er mjög sorglegt mál og ekkert bendir til annars en nú verði höfðað dómsmál. Ég skrifaði um það í þremur bloggum Kýrhaus, Málaferli um Vagla og Lögfræði. 
Ég hef forðast að skrifa meira um þetta mál vegna þess að ég get engan veginn verið hlutlaus og á meðan ég vonaði að einhver lausn væri í sjónmáli þá gætu óvarleg orð spillt fyrir. Ég finn til með móður Magnúsar og vona að fólkið sem hún er hjá reynist henni vel.  Það  getur nú samt ekki annað en hryggt hana að hafa misst allt samband við flest sín börn og barnabörn.  Ég held að  margt roskin fólk sé einangrað og í einhvers konar gíslingu  út af því að einhverjir hafa hagsmuni af því  að ráðskast með  og komast yfir eigur þeirra. Það er mjög lítil umræða á Íslandi um Elder Abuse og enginn innan félagslega kerfisins virðist taka á þessu. Í Bandaríkjunum eru nýgengin í gildi lög þar sem fjármálastofnanir hafa tilkynningaskyldu ef grunur vaknar um að reynt sé að féfletta eldra fólk og þar er fólk á varðbergi fyrir ýmis konar misneytingu sem snýr  hópum eins og öldruðum og sjúkum. 

Bróðir minn stóð í ströngu í ár sem undanfarin ár en hann hefur þó alla vega unnið sínar síðustu baráttulotur. Vonandi slotar bráðum þeim stórhríðum sem á hann hafa skollið. Eitt ljós í öllu því myrkri sem umlukið hefur fjölskyldu mína undanfarin ár er að ég hef endurheimt unglinginn. Hún umhverfist og týndist mér algjörlega í marga mánuði, sást ekki nema endrum og eins og lagði sig í glíma með því að stunda lífsstíl sem ég  var andsnúin og get ég varla sagt að við töluðum saman í marga mánuði. Frá því í sumar er hún hins vegar hið mesta ljós og virðist hafa tekið út einhvern þroska. Nú eða bara ég hef látið undan öllu hennar sjálfstæðisbrölti og hún er bara ánægð núna þegar hún getur farið sínu fram. Frænka hennar Ó. er hins vegar ekki í nógu góðum málum og hef ég núna í lok árs samvisku yfir að hafa ekki gert neitt í hennar málum. Mér finnst kerfið hafa svikið hana. Hún á rétt á menntun  og umhyggju eða einhvers konar greiningu og úrlausn sem verður henni veganesti í lífinu. Ég reyndi nú það sem ég gat, hafði samband við bæði Fjölsmiðjuna og Barnaverndarnefnd út af árásinni sem hún varð fyrir en bæði mamma hennar og hún telja að hún sé best komin án afskipta Barnaverndarnefndar.  

Í mínu lífi er þetta ár  fremur helgað líkama en sál og það snerist um heilsu. Ég  var  í veikindaleyfi hluta ársins og ég held að heilsa mín sé töluvert betri núna en fyrir ári síðan. Húsbyggingin gekk vel á árinu, ég held að það hafi eitthvað með það að gera að auðveldara varð að fá iðnaðarmenn eftir 1. maí en þá opnaðist íslenskur vinnumarkaður  fyrir Pólverja.  Ég er samt orðin leið á að vera alltaf mörg hundruð þúsund í yfirdrætti í hverjum mánuði og þurfa ekki einu sinni að velta fyrir sér hverri krónu. Það er nefnilega mjög lítið hægt að velta krónum sem allar eru bundnar í grjóti og sementi.


Á síðustu stundu - Ár Ómars

sidasta-stundÉg var að koma frá Kaffi Viktor þar sem ég var í viðtali í þættinum "Á síðustu stundu" ásamt tveimur öðrum bloggurum. Ég kom tímanlega og náði að fylgjast með Andra Snæ og Magneu sem voru á undan okkur og hlusta á hljómsveitina spila.  Þegar ég fór var Ómar Ragnarsson að koma inn og núna var ég að hlusta á í útvarpinu að hann hefði verið kosinn maður ársins á Rás 2.  Óska Ómari innilega til hamingju með titilinn, þetta er sannarlega árið þar sem málflutningur hans náði til fólks.  

Tengi í þáttinn hérna 

Hér er líka flippað vídeóklipp, ég var að æfa mig í að nota Jumpcut, maður setur vídeóin beint inn á vefinn og klippir til þar.


mbl.is Ómar Ragnarsson valinn maður ársins af hlustendum Rásar 2
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykskynjarar, kerti og jólaskreytingar

Þetta var gleðileg frétt um fjölskylduna sem komst út úr húsinu vegna þess að reykskynjari fór í gang og aðvaraði þau.  Þarna voru þrjú ung börn. Því miður eru ekki allar fréttir af eldsvoðum um þetta leyti árs svona gleðilegar. Fólk uggir ekki að sér, sérstaklega varðandi kertaljós og hvað lítil börn sækja í að leika með eld og kveikja á kertum. Ég þekki marga sem hafa misst allt sitt út af eldsvoða. Einu sinni vann ég með konu sem sagði iðulega við mig "dóttir mín væri á þínum aldri ef hún hefði lifað", hún hafði misst börnin sín í eldsvoða á svipuðum aldri og börnin sem björguðust á Hvolsvelli í nótt. Maðurinn hennar var einn af börnunum sem voru á jólatrésskemmtuninni í Keflavík þegar kviknaði í jólatrénu og mörg börn dóu. Vinkona móður minnar missti allt sitt innbú í eldsvoða sem kviknaði út af litlu kertaljósi sem gleymdist. Vinur minn flutti inn í íbúð og á daginn sem þau fluttu og voru að fara að sofa þá vildi það þeim til happs að þau litu út um gluggann og sáu þá eldtungur tengja sig niður húsið. Íbúðin á hæðinni fyrir ofan skíðlogaði og maðurinn sem bjó þar dó. Talið var að það hafi kviknað þar í út frá eldavél sem gleymst hafi að slökkva á. Vinkona mín vaknaði við það  einn morgun að íbúðin sem hún bjó í skíðlogaði, það var risíbúð á fjörðu hæð og lengi vel vissi hún ekki betur en barnið hennar fimm ára væri inn í brennandi íbúðinni. Reykkafarar fundu ekki barnið en svo kom í ljós að hann fannst í hverfinu og hefur sennilega verið að leika sér með eldspýtur og hlaupið út.

Það er alla vega góð regla að hafa hvergi eldfæri eða kerti þar sem óvitar komast að, þau munu alltaf vilja gera tilraunir til að kveikja á kertum. En stundum er fullorðna fólkið líka óvitar og ég hef oft séð jólaskreytingar með logandi kertum sem eru líklegar til að fuðra upp hvenær sem er.  Ég geri alltaf athugasemd við það en fæ gjarnan það svar að fólk fylgist með því. En hvað ef sá timi kemur að maður fylgist ekki með? Hvað ef maður sofnar út frá kerti? 

Það er skynsamlegt að hafa kerti alltaf þannig að það muni ekkert gerast þó þau gleymist, þau brenni bara upp. Og hafa reykskynjara í svefnherbergjum. 

 


mbl.is Enginn vafi á að reykskynjarinn bjargaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Netið er dýrið

Í viðtali í DV í dag finnur Guðmundur í Byrginu óvininn. Hann er sjálft Internetið. Haft er eftir Guðmundi í viðtalinu: "Netið er það sem Guð kallar Dýrið í  Biblíunni. Með því er hægt að vekja upp svo mikla sundrungu eins og nú er verið að gera við fjölskyldu mína og Byrgið." 

Bubbi sem syngur á morgun og vonandi hlífir fjölskyldu minni þá við háðsglósum og dylgjum lýsir líka frati á netheiminn fussar og sveiar líka út af hinu slæma Interneti þar sem upp veður illa skrifandi og sjálfumglatt hyski. 

Tilvitkun í orri.org 22.des.: 

"Las Moggann áðan og sá þar stutt viðtal við minn gamla félaga, Bubba Morthens. Hann var spurður um bloggheiminn og hvort hann læsi þar eitthvað. Svarið var afskaplega dannað eins og við mátti búast:

Ég bara læt það algerlega fara framhjá mér. Mér leiðist bloggið. Þetta er yfirleitt illa skrifandi, sjálfumglatt hyski sem er að skrifa."

  


Byrgið, Konukot, Vogur, brauðfætur og kvalalosti

Félagar mínir í Femínistafélaginu stóðu á sínum tíma mörg að söfnun vegna Konukots sem er afdrep fyrir heimilislausar konur sem nánast alltaf eru líka í bullandi óreglu eða alvarlega veikar á geði. Þegar undirbúningur að því afdrepi stóð yfir þá spurði ég "Hvers vegna í ósköpunum þarf sérstakan samastað fyrir konur, er ekki sams konar ógæfa að vera maður og kona við þannig aðstæður?"  Þau sögðu mér þá að þannig væri það ekki, konur í óreglu væru útsettar fyrir alls konar kynbundið ofbeldi á stöðum fyrir heimilislausa af karlmönnum sem þá staði sækja sem annað hvort nýttu sér ástand og úrræðaleysi kvenna til að svala kynfýsnum sínum eða sem hefðu hagmuni af því að konan héldist  áfram á götunni í neyðarvændi sem framfleytti þeim. 

í gærkvöldi var sýndur í sjónvarpi þáttur um stjórnanda trúfélags sem rekur meðferðarheimili fyrir mjög langt leidda fíkla og þar var eftir því sem ég best veit (ég hef ekki séð þáttinn, eingöngu umfjöllun í fréttum og á bloggi) haldið fram að viðkomandi hefði verið í kynferðissambandi við nokkrar konur sem á þeim tíma hefðu verið í meðferð á þessum stað. Þetta var tengt við umræðu um kvalalosta.

Ég veit lítið um þetta einstaka mál nema það sem ég sé á skrifum annarra og vona að fólk dæmi ekki aðra nema fyrir liggi sekt þeirra af þeim aðilum sem eiga að segja til um sekt eða sýknu. Það að vera ásakaður í fjölmiðli um eitthvað er ekki sama og að vera fundinn sekur fyrir dómstólum. 

En það getur verið að það séu engin lagaákvæði og engar vinnureglur meðferðarstofnana sem taka á  eða leggja bann við því að meðferðaraðili  sem ekki tilheyrir þeim starfstéttum sem hafa siðareglur sé í kynferðissambandi við þann sem er í meðferð. Það eru siðareglur meðal lækna og sálfræðinga og fleiri fagstétta sem taka á svona málum og ég hef fylgst með að einn liður  í menntun umönnunarstétta er að kenna þeim að vera vakandi fyrir ýmis konar mögulegri misneytingu þeirra sem njóta umönnunar og vita hvað á að gera ef grunur vaknar um slíkt.  Það ætti að vera skilyrði til að fá fé frá opinberum aðilum að þar sé eftirlit og völd fengin fagfólki sem fylgir siðareglum og sem hefur sérstaka skólun í að taka á málum sem þessum  og reyna að fyrirbyggja mögulega misnotkun starfsmanna á skjólstæðingum.

Það er hins vegar þannig að þeir sem sjálfir hafa verið djúpt sokknir og hafa frelsast á einhvern hátt ná stundum betur til þeirra sem eru á kafi í   óreglu, skilja betur aðstæður fíkla því þeir hafa verið þar sjálfir og trúarsannfæring getur oft smitað út frá sér og kærleiksríkt  trúfélagið veitt skjól þeim sem hefur verið útskúfað af öllum. Það skjól og það samfélag er ekki síður mikilvægt eftir að meðferð lýkur og ég reyndar held að það sé ein ástæðan fyrir því að slík meðferð er oft árangurríkari en að fara bara inn á Vog og eiga svo að standa á eigin fótum eftir að út er komið. Þeir eigin fætur eru því miður oftast brauðfætur.

Kona sem ég þekki sagði mér frá föður sínum sem var gífurlegur alkóhólisti og allir hans bræður að hún hefði einu sinni keyrt föður sinn á Vog í einni af ótal ferðum hans þangað og þau fóru yfir Hellisheiðina og henni tókst ekki að halda honum þurrum á leiðinni, hann sagðist ekki geta farið inn á Vog nema drekka í sig kjark og hún hafði ekkert val, hún varð að horfa upp á hann þamba bjór í bílnum á leiðinni yfir heiðina eða hann hefði hlaupið út í óbyggðirnar. Hún keyrði hann beint á Vog og við tók  nokkurra vikna meðferð á Vogi þar sem allt gekk vel og vonir kviknuðu eins og þær gera alltaf hjá aðstandendum og honum sjálfum um að nú myndi hann hafa það. Þegar meðferðinni var lokið þá hringdi hann til dóttur sinnar og ætlaði að koma beint til hennar. Hann féll á leiðinni. Einhverra hluta vegna gat hún ekki náð í hann og  og hann fékk ekki annað far svo hann tók leigubíl. Hún er sannfærð um að hann ætlaði að standa sig og þegar hann hringdi í hana og þegar hann lagði af stað út frá Vogi en eitthvað gerðist, bíltúrinn sem átti bara að vera beint frá Vogi og nokkkurra mínútu leið heim til hennar í leigubíl varð ennþá ein hrösunin. Hann lét leigubílinn koma við í Ríkinu og hann sást ekki í einhverja sólarhringa. 

Það hafa margir sem allir hafa afskrifað náð að fóta sig aftur í lífinu með aðstoð af samblandi af trú og meðferð og það þarf að skoða líka hvað er gott gert og virkar í meðferðinni hjá Byrginu sem og öðrum trúfélögum sem taka við þeim fíklum sem verst eru settir.  

En það er þörf þjóðfélagsumræða að beina kastljósinu að því hve útbreitt og algengt kynbundið ofbeldi er - líka á stöðum þar sem megintilgangurinn er að veita einhvers konar skjól og umönnun og betrunarvist.  Það er svo sannarlega gróft kynbundið ofbeldi ef stjórnandi meðferðarstofnunar stundar kynlíf sem einkennist af kvalalosta með konum sem eru í meðferð á stofnun sem viðkomandi stýrir. Ég hef fylgst með bloggumræðunni um þetta mál og bloggpistill Ómars Valdimarssonar vakti mig til umhugsunar um hvernig sama orðræða er notuð til að réttlæta vændi og réttlæta kynbundið ofbeldi eins og hugsanlegt er að átt hafi sér stað. Ómar segir m.a.:

"Engum kemur við, hvað  X gerir í svefnherberginu sínu, svo framarlega sem hann gerir það með lögráða einstaklingum, sem eru fúsir til verka."

Það kemur okkur bara víst við hvernig framkoma er í meðferðarúrræðum við fótum troðið fólk og langt leidda fíkla og það er óhugnanlegt og hryllilegt ef fólk í slíkri aðstöðu er notað sem kynlífsleikföng. Ennþá hryllilegri mynd er ef kynbundið ofbeldi inn á slíkum stofnunum einkennist af sams konar kvalalosta og samband viðskiptavinar og vændiskonu í neyðarvændi.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband