Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011
28.2.2011 | 13:46
Byggð á sprungusvæðum og kviksandi
Það hafa orðið stórir jarðskjálftar á höfuðborgarsvæðinu, það hafa orðið þar náttúruhamfarir og það munu verða þar jarðskjálftar og aðrar náttúruhamfarir. Það er raunar afar líklegt að eldgos verði einhvers staðar nálægt Reykjavík og hraun streymi yfir hraun. Það hefur gerst og það mun gerast. Við höfum reist byggð okkar á svæði sem er virkt eldgosasvæði, eyjan Ísland er raunar til orðin vegna möttulstróksins undir Íslandi.
Dýr og fólk geta lagað sig að taktföstum breytingum á umhverfi, að árstíðabreytingum sem koma á fyrirsjáanlegum tíma og á fyrirsjáanlegan hátt. Þannig eru náttúruhamfarir ekki. Það eru samt ýmis konar merki sem við getum notað til að greina að þær séu í nánd og við getum lært af reynslu annarra um hvað gerist og hvað er hættulegast og hvernig á að bregðast við.
Við höfum lært af reynslu hvernig á að styrkja hús þannig að þau þoli jarðskjálfta af ákveðinni stærð og hérlendar byggingarreglur taka mið af því. En því miður þá hefur ásókn í byggingarland verið svo mikið á síðustu áratugum á höfuðborgarsvæðinu að varfærnisraddir um að varasamt sé að byggja á landfyllingum og á sprungusvæðum hafa ekki heyrst. Í jarðskjálfum í Kaliforníu hefur komið í ljós að þeir staðir sem urðu verst úti voru staðir sem byggðir voru út í sjó á uppfyllingum. Það hafa komið fram hugmyndir hjá stjórnmálamönnum um stór byggingarsvæði við ströndina, sjávarsýn er vinsæl og eftirsóknarverð á íbúasvæðum og sum sveitarfélög hafa viljað reisa hafnarsvæði á uppfyllingum (stórskipahöfn á Kársnesi o.fl.) og í Reykjavík voru miklar hugmyndir um lúxusíbúðabyggð á uppfyllingu á Eiðsgranda út frá Ánanaustum.
Hér er blaðagrein úr DV 2000
Fyrirtækið Þyrping lét skipuleggja íbúðabyggð út í sjó, skipulagið minnir dálítið á eyjurnar í Dubai. En svona átti umhverfið að líta út, mökkur af lúxusíbúðum byggðum út í sjó á uppfyllingum þarna í samfloti við alla olíugeymana (hafnarblaðið apríl 2007). Hrunið kom í veg fyrir allar þessar fyrirætlanir.
Það eru samt töluvert miklar byggingar m.a. fjölbýlishús sem reist hafa verið á uppfyllingum við strandlengjuna frá Hafnarfirði til Reykjavíkur. Á jarðskjálftasvæðum erlendis eru slík uppfyllingasvæði eins og kviksandur í jarðskjálftum, eru einhverjar öðruvísi aðstæður hérna?
Það er líka skrýtið að á sínum tíma mátti ekki byggja við Rauðavatn á svæðinu í kringum Morgunblaðshöllina í Hádegismóum út af misgengi í jarðlögum, þetta væri sprungusvæði. Svo virðist af einhverjum ástæðum sem ég skil ekki sprungurnar hafa horfið úr umræðunni og svæðið skipulagt án nokkurrar umræðu um það. Þegar byggja átti Árbæjarlaugina kom í ljós 1 metra breið sprunga í klöppinni sem mun liggja í gegnum alla Reykjavík og var laugin færð til.Er einhvers staðar til kort af hvar þessi sprunga og aðrar sprungur sem vitað er um liggja?
Árið 1982 þegar Davíð Oddsson braust til valda í Reykjavík og sigraði þáverandi meirihluta var aðalkosningamál hans nýtt hverfi við Grafarvog í staðinn fyrir fyrirhugaða byggð á hinu hættulega sprungusvæði við Rauðavatn. Í blaðagrein 30. apríl 1981 segir Davíð það óðs manns æði að byggja á sprungusvæði. Það er því kaldhæðni örlaganna að núna vaki sami Davíð yfir Reykjavík í fjölmiðlamusteri sem byggt er á þessu sama sprungusvæði og í kring búa þúsundir manna í fjölbýlishúsum.
Það er líklegt að einhverjar byggingar í Reykjavík séu byggðar beint yfir sprungur og einhverjar byggingar eru byggðar á uppfyllingum sem munu fara á ferð ef mjög stór skjálfti verður. Það er hægt að koma í veg fyrir að fólk slasist og deyi í náttúruhamförum ef nógu vandaður undirbúningur er og upplýsingum er miðlað til fólks.
Jarðskjálfti í Reykjavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.2.2011 | 12:58
Konur, kvóti og kæfð umræða
Í dag er haldin ráðstefna á vegum Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og Hafrannsóknarstofnunar, ráðstefna um lifandi auðlindir hafsins og langtíma stefnumótun og aflareglur. Það eru fjórtán fyrirlesarar á ráðstefnunni, allt eflaust valinkunnir sérfræðingar. En það er undarlegt í meira lagi að allir fjórtán fyrirlesararnir eru karlkyns. Eiginlega sérstaklega undarlegt vegna þess að núna er Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu stýrt af stjórnmálaflokk Vinstri-Grænna sem hefur í stefnuskrá sinni að vera femínískur flokkur. Rödd Steingríms J. Sigfússonar formanns VG hljómaði kraftmikil til mín af sjónvarpsskjá í gærkvöldi, hann var einmitt þá að lýsa því yfir hve femíniskur flokkur hans væri. Það er skrýtin útfærsla á femínisma, að ráðstefna sem hefur framtíðarsýn á annarri af stærstu auðlind þjóðarinnar sem þema í næstum öllum erindum skuli vera þannig skipuð að rödd helmings þjóðarinnar heyrist hvergi, sé þaggaður niður.
Á næstu misserum og árum verður vonandi hörð umræða og aðgerðir - vonandi aðgerðir stjórnvalda en ef stjórnvöld bregðast þá aðgerðir almennings - um hvernig ráðskast er með, hverjir ráðskast með og hvernig er dreift afrakstri af auðlindum í umhverfi okkar, auðlindum sjávar og auðlindum orku. Til langs tíma litið og miðað við nýtingu sem er í sátt við umhverfi og framtíðarhagsmuni íslensks samfélags sem og allra jarðarbúa er líklegt að samfélagseign og samfélagsyfirráð á auðlindum sé besta og sanngjarnasta leiðin. Samfélag er samsett af mörgum og mismunandi aðilum, konum og körlum á ýmsum aldri, börnum, fólki af mismunandi uppruna, með mismunandi menntun og reynslu og með mismunandi lífsýn. Það er styrkur í fjölbreytni, það er bæði réttlátara og skynsamara að ákvarðanir samfélags séu teknar í sameiningu af sem flestum vegna þess að því fleiri sem leggja í púkk með mismunandi framtíðarsýn og reynslu og sérþekkingu, þeim mun fylltri mynd næst af því sem hugsanlega mun gerast.
Það er þannig í samfélögum að rödd þeirra sterkari og valdameiri drynur hærra en hinna sem haldið er valdalausum meðal annars með að tryggja að þau þegi og geti ekki kynnt sér málefni né tjáð sig um þau eða eigi seturétt við samningaborð. Það er oft tilhneiging til þess að reyna að ná í kyrrþey samhljómi milli voldugra aðila um fyrirkomulag sem tryggir þeim sem eru valdamiklir í dag áfram sömu valdastöðu. Það er auðvelt að halda fólki utangarðs með því að veita því ekki aðgang að upplýsingum eða setja upplýsingar fram á svo flókinn hátt í þannig samhengi eða með aðferðum þar sem aðeins innvígðir geta skilið eða notfært sér gögn og aðeins rödd ákveðinna aðila fær rými.
Það skiptir ekki máli þá að umræðan og málþing séu kölluð áferðarfallegum tískuorðum og sögð vera til að upplýsa og virkja almenning ef engin innistæða er fyrir þeim orðum. Þannig er um marga viðburði sem haldnir hafa verið eftir Hrun, meðal annars á vegum stjórnvalda að þeir eru sagðir vera "með þjóðfundarsniði" og framkvæmdin líkist helst leikþátt sem var ágætlega fyrirfram æfður. "Spurningarnar" og "umræðan" fyrirfam æfð, fyrst voru opinberir aðilar að segja eitthvað svo komu fyrirfram undirbúnar spurningar frá þessum og hinum og svo var því svarað á fyrirframákveðinn hátt. Þannig eru atkvæðagreiðslur á Alþingi Íslendinga því miður oft, þær eru leikþáttur sem stjórnvöld spinna fyrir fólk, svona lýðræðissýning en stjórnvöld keyra mál í gegn og dettur ekki í hug að hafa atkvæðagreiðslu nema tryggt sé hvernig hún muni fara. Alþingi er einhvers konar stimplunarstofnun, mest fyrir lög sem hingað koma frá Evrópusambandinu en einstaka sinnum fyrir annað eins og Icesave. En þaðan á niðurstaðan líka að koma tilbúin frá Evrópusambandinu. Því er haldið fram að niðurstaða í Icesave sem þóknanleg sé EBE sé aðgöngumiði þangað inn. Alla vega er það augljóst að það er ekki þóknanlegt EBE að það sé gert opinbert í málaferlum að ríkisstuðningur við fjármálakerfi Evrópu sé á brauðfótum.
Ef stjórnvöldum á Íslandi er alvara með því að hér eigi almenningur að hafa einhver völd þá gerist það ekki nema með vökulu auga á því hvað raunverulega horfir til meira lýðræðis og með því að beita aðferðum til þess að virkja almenning til að taka þátt og tjá sig og koma að ákvörðunum um samfélagið. Það gerist ekki með því að kæfa allar gagnrýnisraddir, leyfa engar breytingar á hvernig ákvarðanir eru teknar og með því að vettvangar sem varða okkur öll eins og framtíðarsýn varðandi fiskveiðar séu skipaðir á einsleitan hátt og þar séu áfram þaggaðar raddir ákveðinna hópa.
Jóhanna forsætisráðherra notar oft orðatiltækið "skelfilegar afleiðingar". Núna þegar seinni þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave stendur fyrir dyrum þá notar hún það um hina miklu hættu á því að almenningur á Íslandi taki þátt í að vega og meta hvernig eða hvort hrun fjármálakerfis eigi að lenda á almenningi bara af því að breskir og hollenskar ríkisstjórnir í paníkástandi ákváðu að bjarga sínu bankakerfi- og að meiri hluti almennings á Íslandi komist að niðurstöðu sem Jóhönnu finnst óskynsamleg í ljósi upplýsinga sem hún hefur og almenningur hefur ekki. Við skulum ekki gleyma að Jóhanna sem vill ekki þjóðaratkvæðagreiðslu var sjálf þátttakandi í þeirri ákvörðun íslenskrar ríkisstjórnar að binda bankainnistæðugreiðslur við kennitölur (þ.e. Íslendinga) og þeirri ákvörðun að styðja við bankakerfið þannig að innistæðueigendur (ekki bara einstaklingar) héldu öllu sínu, meira segja þeir sem höfðu fé í áhættusjóðum (Sjóður 9) fengu mestanpartinn til baka. Jóhanna var þátttakandi í ríkisstjórn/um fyrir og eftir hrun sem hygluðu fjármagnseigendum og vernduðu hagsmuni þeirra en kipptu fótunum undan skuldurum, kipptu svo rækilega fótum undan heilli kynslóð af ungu fólki á Íslandi að núna eru margar barnafjölskyldur á vonarvöl, eiga ekkert nema skuldirnar og lifa á bónbjörgum frá opinberum aðilum og hafa ekki einu sinni tök á að búa í eigin húsnæði þó þær eigi þær að nafninu til. Það kann vel að vera að seinna verði í dómsmálum sem höfðuð verða af kennitöluleysingjum muni þessar stjórnvaldsákvarðanir verða dæmdar brot á stjórnarskrá og alþjóðlegum samningum. Ég tek þetta sem dæmi til að sýna hve valt er að treysta því að stjórnvöld taki réttar ákvarðanir, allra síst stjórnvöld sem reyndu hvað þau gátu að leyna ástandinu fyrir eigin þegnum og umheiminum, alveg fram á seinasta dag þegar ekki varð hjá því komið að grípa í skyndingu til neyðarráðstafana.
Það hefur ekki skelfilegar afleiðingar að hugsandi fólk taki þátt í ákvörðun sem varðar framtíð íslensks samfélags, taki þátt í því með ríkisstjórn og þingmönnum sem því miður hafa ekki verið þess megnugir að taka skynsamlegar ákvarðanir - fyrir hrun vegna þess að stjórnvöld voru klapplið og dráttardýr fyrir ófyrirleitna fjármálamenn sem óðu um lönd með gripdeildum - og eftir hrun vegna þess að stjórnvöld eru máttvana þrælar fjármálakerfis voldugra grannþjóða og voldugra fjölþjóðlegra viðskiptablokka - og meta en eins og fyrir Hrun - afrakstur vinnu sinnar í hvernig "credit rating" íslenska ríkið hefur og hversu vel gengur að laða hingað fé fjárfesta í gróðahug.
Þessi kóun íslenskra stjórnvalda eftir hrun með kerfi sem löngu er úrsérgengið hefur haft skelfilegar afleiðingar, það hefur skelfilegar afleiðingar að stjórnvöld stilli sér uppi með þeim sem eiga fjármagn á móti þeim fátæku, á móti þeim sem skulda og eru reyrðir í skuldafjötra. Það hefur hefur líka skelfilegar afleiðingar að einhverjir geti í krafti einhvers valds sem þeir taka sér með slægð og svikum slegið eign sinni á auðlindir samfélags og gert það með því að ferðast um myrkviði reglna og manngerðra völundarhúsa sem þeir hafa látið búa til fyrir sig þannig að þeir einir geti ratað um og komist þar áfram. Fjármálakerfi og lagalegt umhverfi, ekki síst hvað varðar eignarrétt og leyndarhyggju virka oft eins og stoðir undir gripdeildir og rán þar sem bjargráðum samfélags er stolið og völdin eru soguð burtu frá nærsamfélaginu.
Það hefur skelfilegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag ef ekki verður horfið af þeirri braut sem stjórnvöld hafa fylgt undanfarna áratugi, þeirri braut að hlusta aðeins á örfáa einstaklinga í samfélaginu og telja sig vera í vinnu hjá þeim við að greiða götu þeirra. Á sínum tíma voru þessir örfáu nokkur ættarveldi sem sendu fulltrúa sína á þing og/eða veittu fé til þeirra og til fjölmiðla til að tryggja að rödd þeirra heyrðist og hagsmunir þeirra væru varðir. Þetta var vont og óréttlátt í einangruðu eyríki en þetta var beinlínis feigðarflan í alþjóðlegu fjármálaumhverfi þar sem þessir örfáu döguðu uppi eins og þursaflokkur sem var bæði leiksoppar og leppar fyrir erlenda aðila sér margfalt voldugri og framsýnni.
17.2.2011 | 06:52
"Við á brún hengiflugsins"
Í gær var dómsdagur. Það var dæmt í máli níumenninganna sem ásökuð voru um að ráðast á Alþingi og innan Alþingis voru greidd atkvæði um síðustu útgáfu af Icesave "samningi". Atkvæðagreiðslan var viðhafnarsýning, útvarpað og sjónvarpað frá Alþingi og fjölmiðlar á vakt. Þetta var svona skrautathöfn þessi atkvæðagreiðsla, svona eins og til að sýna að hér væri gott stjórnarfar, hér væri hlustað á alla og lýðræðisleg umræða og þingmenn, fulltrúar almennings tækju ábyrgar og yfirvegaðar ákvarðanir. En umræðan skipti engu máli, það var löngu búin að ákveða hvernig þessi atkvæðagreiðsla átti að fara. Svona svipað og með allar eða flestallar atkvæðagreiðslur á Alþingi. Þær eru svona rútína, mestanpartinn stimplun á stöffi sem kemur frá Evrópusambandinu og svo restin það sem ríkisstjórnarmeirihluti hvers tíma keyrir í gegn, annað hvort með afli meirihluta sem kúgar minnihluta eða með hrossakaupum og möndli að tjaldabaki.
Atkvæðin fóru eftir flokkslínum. Sjálfstæðismenn, Vinstri grænir og Samfylking með, Framsóknarmenn og Hreyfingin á móti. Sumir gerðu grein fyrir atkvæði sínu. Einn Sjálfstæðisþingmaður að norðan, fyrrum aðstoðarmaður Geirs Haarde og sjálfur gerandi í bankakerfinu eins og margir aðrir Sjálfstæðismenn sagði að þetta væri samningur milli fullvalda þjóða. Svo voru nokkrir sem spáðu fyrir um hvernig dómsmál myndi fara og hættu á að tapa því. Forsætisráðherra talaði um "skelfilegar afleiðingar", sama orðalag og hún hafði notað um aðra Icesave samninga og Sjálfstæðisþingmaður úr Vestmannaeyjum taldi sig geta spáð fyrir um niðurstöðu dómsmáls, hún yrði ekki Íslendingum í hag . "Auðvitað mun Evrópubandalagið ekki leyfa það" sagði hann. Framsóknarþingmaður sagðist sitja hjá því hann mæti að ólíklegt væri að dómsmál myndi vinnast vegna þess að "allt fjármálakerfi í Evrópu sé undir". Einn Sjálfstæðisþingmaður notaði samlíkingu um að þó hann mæti áhættuna litla á að allt færi á versta veg þá væri þetta eins og að ganga með barnabarnið sitt á gljúfurbarmi, hann gæti ekki tekið þá áhættu.
Þessi myndræna málnotkun "Við á brún hengiflugsins" er liður af kreppumálfari valdhafa. En ég held að það hengiflug sé ekki til nema í huga þeirra sem hafa einhverju að tapa á því að núverandi valdakerfi leggist af. Með valdakerfi á ég ekki eingöngu við lögformlegt vald eins og stjórnvöld og dómstóla heldur kannski frekar reglur um hvernig verðmæti eigi að dreifast um samfélög og hvernig þær reglur og verkfæri til að framfylgja þeim eru farnar að lifa sjálfstæðu lífi, slitnar úr tengslum við raunveruleika. Þessar reglur og verkfæri sem oftast nær eru einhvers konar forskriftir um hvernig verðmæti mæld í peningum eigi að dreifast voru kannski skynsamlegar og hagnýtar á einum tíma en passa illa við þá heimsmynd og það framleiðslu- og athafnalíf sem við stefnum inn í. Sumar af þessum reglum eru helg vé, reglur um eignarrétt, heilög lögmál um framboð og eftirspurn og lífsgæði sem felast í neyslu, dýrkun á excelskjalahagvexti og reglur um punkta og umbunarkerfi í peningum sem þegnar þjóðfélagsins og framlag þeirra er metið eftir. Það er ef til vill skynsamlegt að horfast í augu við að þetta kerfi er komið að hruni og þar þjónar ekki hagsmunum neinna til langs tíma að endurbæta það.
Það er nú þannig í heiminum í dag að almenningur sem binst samtökum og tekur til sinna ráða og tekur yfir stjórn á sjálfum sér og sínu umhverfi er ekki á brún hengiflugsins. Öðru máli gegnir um stjórnvöld sem skynja ekki sína samtíð.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.2.2011 | 21:41
Sólskífa og safngler í Egyptalandi
Í 18 daga höfum við fylgst með upprisu alþýðu í Egyptalandi gegn stjórnvöldum og í dag berast fréttir af því að loksins hafi einræðisherrann Mubarak hrökklast frá völdum. Ég fylgist með fréttum á Egyptalandi, núna er Democracynow.org og margir aðrir fjölmiðlar með beina útsendingu. Þúsundir twitterskeyta þjóta um Internetið, í hvert skipti sem ég smelli á refresh þá eru tugir þúsunda nýrra skeyta. Allt hverfist um Tahrirtorgið, þar er táknræn miðja atburðanna í Egyptalandi. Ég held að það hafi alltaf verið ljóst að hverju stefndi en það er því miður frekar óljóst hvað nú tekur við. Margar kollsteypur stjórnvalda skilja eftir sig tómarúm þar sem stríðandi fylkingar sem voru bandamenn í að steypa stjórn berjast hver við aðra um völd. Svo hafa vandamál Egyptalands ekki horfið með Mubarak, það verður ekki til atvinna fyrir alla atvinnulausa á morgun og matur og lífsnauðsynjar lækka ekki í verði. En vonandi verður búið til umhverfi þar sem fólk getur sjálft unnið að því að byggja upp sína framtíð. En það gerist ekki þar sem er stríðsástand og því miður getur verið að ný veikburða stjórn standi ekki undir þeim háu væntingum sem Egyptar hafa núna til betri tíma.
Í dag 11. febrúar eru þáttaskil í sögu Egyptalands og sennilega markar dagurinn líka þáttaskil fyrir Austurlönd nær og allan hinn samtengda heim þar sem geislar frá Egyptalandi berast á örskotsstund á milli heimsálfa og ljósgeislar brotna inn á Internetið, baráttan var ekki háð eingöngu á torgum og með götuvirkjum heldur var líka í vefrýmum og liði var safnað og fylkingum stefnt saman með félagsnetum eins og Facebook og Twitter. Þetta var líka fyrsta baráttan þar sem stjórnvöld lokuðu Internetinu fyrir tugmilljónum og skipuðu samskiptafyrirtækjum að senda út boð og breyta þjónustu sinni. Það er áhugavert að bera saman egypsku byltinguna og frönsku byltinguna. Í báðum tilvikum var byltingin uppgjör við fortíð og liður í umbreytingu nýrra tíma þar sem völdin eru öðruvísi og á annarra herðum og framleiðsluhættir og dreifing verðmæta líka umbylt.
Í dag er hátíðadagur í Egyptalandi, landi sem byggir á fornri menningu og rekur sögu sína meira en 5000 ár aftur í tímann. Frá fornri tíð eru þar mikil mannvirki, pýramídarnir Það er hægt að skoða pýramídana og forna egypska menningu á ýmsan hátt en einn slíkur sjónarhóll er þeirra sem blanda saman dulhyggju og útreikningum, sjónarhóll pýramídafræðinga en ritverk þeirra sýna að ef maður vill komast að einhverri niðurstöðu þá er bara að leita nógu lengi, það er alltaf hægt að finna einhverja útreikninga og tákn og gögn í heiminum sem benda í þá átt sem maður vill og styðja mál manns.
Stærstu og þekktustu minnismerki fornar menningar í Egyptalandi eru pýramídarnir en þar eru líka minni mannvirki eins obeliskur sem voru súlur sem oft voru staðsettar við inngang mustera í Egyptalandi, kannski voru þær sólúr sem bæði sýndu eyktamörk dagsins og árstíðina. Kannski voru pýramídarnir líka risastórar sólskífur auk þess að vera grafhýsi faraóa.
Einn af pýramídafræðingunum sem blandaði saman spádómum og orðum úr biblíunni við útreikninga sína var Adam Rutherford. Hann hafði dálæti á Íslandi og tengdi það þessu grúski. Það er vel við hæfi að rifja upp kenningar hans í dag 11. febrúar, kenningar um sólskífur og geisla sem ná alla leið til Íslands frá Egyptalandi. Adam Ruthenford (1894 - 1974) var höfundur bókar sem kom úr árið 1937 og ber titilinn "Hin mikla arfleifð Íslands" en heitir á frummálinu Iceland's Great Inheritance)
Adam Rutherford kom til Íslands árið 1939 og með honum kom Willian P. Fraser sem mun hafa haft umsjón með bréfaskriftum hans varðandi Ísland. Rutherford mun hafa flutt tvö erindi hérna eitti í Iðnaðarmannahúsinu 25. maí og hitt í Fríkirkjunni á annan í hvítasunnu. Hann flutti Íslendingum líka boðskap sinn í útvarpi 2. júní 1939. Adam var pýramídafræðingur og hann hélt því fram að Íslendingar sem og Norðmenn væru komnir af Dakíum og þeir aftur komnir af Benjamínítum og Gotum sem bjuggu við Dóná en færðu sig norður á bóginn. Rutherford kallar íslenska ríkið frá 1918 Benjamín-Ísland og taldi að Ísland væri ætlað hlutverk sem ljósberi friðarríkis.
Rutherford reyndi að sannfæra samtímamenn sína með vísindarökum, með útreikningum og hann sagði:
"Vér lifum á vísindaöld, sem viðurkennir það eitt satt að vera, er staðist getur gagnrýni vísindanna...að oss skyldi veitast vísindaleg opinberun, þar á meðal vísindaleg birting á sannindum biblíunnar"
Þessa opinberun taldi Rutherford varðveitta í pýramídanum mikla í Egyptalandi. Hann taldi pýramídann ekki grafhýsi og taldi myndletur og inngang og handritið Akbar-Esseman skýra það. Pýramídinn hafi verið hirsla fyrir speki og kunnáttu í ýmsum listum og vísindum og sjálf byggingin spádómur og forspá sem sýni hvað muni gerast. Þannig telur Rutherford að pýramídinn hafi sýnt ýmis atriði í ævi Jesú og sé sá merkissteinn í Egyptalandi sem Biblían (Jesaja 19:19-20) fjallar um.
Rutherford taldi að pýramídinn mikli spái fyrir um marga óorðna hluti og táknmyndir þar sýni ævi Krists á jörðu. Þetta styður hann með það alls konar hornafræðiútreikningum m.a. um Messíasarhorn. Árið 1925 fannst vegvísir í pýramídanum og var Rutherford einn þeirra sem grófu hann upp. Rutherford túlkar hann þannig að ef línur vegvísisins eru framlengdar á yfirborði jarðars sem stefnulínur þá færast þær smán saman í sundur þangað til komið er í rúmlega 4827 km fjarlægð frá pýramídanum en þá hefur bilið milli þeirra náð hámarki sínu og úr því fer að draga saman með þeim þangað til þær að lokum mætast aftur á norðurskautinu.
Staðurinn þar sem bilið er breiðast, er samkvæmt kenningunni brennidepillinn sem vegvísinum er beint að. Með útreikningum má sjá hvernig línur þessar liggja og ef ferill þeirra er markaður á gott landabréf, liggur eyjan Ísland nákvæmlega í þessum brennidepli.
"Vegvísinum er því, líkt og í stóru landmælingaljósi, beint á Ísland" segir Rutherford og kallar vísirinn Íslandsvísirinn en ræmuna sem lendir á milli kallar hann Íslandsrákina. Hún liggur um Ísland um Langanes í austri og Reykjavík í vestri.
Lesa má um kenningar Rutherfords í þessari grein Benjamín í Norðurhöfum (Morgunblaðið 31. maí 1984 123. tölublað bls. 48). Sigrún Gunnarsdóttir reikimeistari birtir (að ég held) þýðingu á riti Rutherford frá 1939 á bloggi sínu, sjá hérna Hin mikla arfleifð Íslands og þar kemur fram kenning um að pýramídinn hafi verið eins konar ljósskífur sem sýndu árstíðirnar og bara tvisvar á ári, í dag 11. febrúar og svo 1. nóvember hafi sólargeislar lent þannig að frá inngangi pýramídans hafi þetta litið út sem stór skínandi vegvísir, hér er textinn:
"Með því að pýramídinn var upphaflega þakinn utan með sléttu og fægðu steinlagi, verkaði yfirborðið á hinum þríhyrndu hliðum pýramídans, öllum fjórum, hvert fyrir sig sem stór endurspeglari sólargeislanna, sannarlega gífurlegar skuggsjár, því að yfirborð þeirra hvers um sig var að flatarmáli hér um bil 22253 m2. Hreyfingar þessara stórkostlegu endurgeislana voru algerlega reglubundnar og gerðu því pýramídann að skínandi sólskífu, er sýndi árstíðirnar. Af þessu var pýramídinn kallaður á fornegypzku Khuti, sem þýðir Ljósin.20) Einn dag að vorinu (11. febrúar) ár hvert og einn dag að haustinu (1. nóvember) lenti endurkast hádegissólargeislanna frá austur- og vesturhliðum pýramídans alveg lóðrétt á norðurbrúnir þeirra, og frá inngangi pýramídans leit þetta út sem stór, skínandi vegvísari. Furðefnið er það, að einungis þá tvo daga ársins, er hádegisendugeislanirnar sýndu þetta vegvísarafyrirbrigði, lá lóðrétta Ijósrákin, er myndaðist út frá endurgeislunum á vesturhliðinni, nákvmlega langs eftir ferli Reykjavíkurgeislans, eins og hann er ákveðinn með landmælingum. Þannig urðu uptökin á ferli Reykjavíkurgeislans uppljómuð og sáust um mikinn hluta Norður-(Neðra-) Egyptalands."
Hér er meira um Rutherford:
Boðskapur Pýramídans mikla . Eftir Adam Rutherford
Rutherford hefði notið sér vel á þeim nýaldartímum sem við lifum á núna og það er gaman að velta fyrir sér hvort hann hefði sett pýramídageislann upp í googlemaps. En það voru margir af samtíðarmönnum hans sem hrifust af hinum dularfullu pýramídum og töldu þá hafa merkingu. Meðal þeirra voru Vottar Jehóva en pýramídafræðin var um tíma hluti af boðskap æðstupresta þar.
Steinarnir í pýramídunum eru núna máðir og hrjúfir og endurkasta engu ljósi í dag sem ljóstra upp um geislarákir sem beint er í eina átt. En ljósið sem berst frá Egyptalandi í dag getur samt orðið safngler sem nær að kveikja bál annars staðar í heiminum.
Milljón Egypta mótmælir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.2.2011 | 12:03
Bókasafnið í Alexandríu
Bókasafnið í Alexandríu var stærsta og mikilvægasta bókasafn fornaldar. Það var miðstöð mennta frá 3. öld fyrir Krist þangað til Rómverjar sigruðu Egypta árið 48 fyrir Krist. Eftir að það var eyðilagt notuðu fræðimenn í borginni bókasafn í musteri guðsins Serapis og var það kallað Serapeum.
Bókasafnið í Alexandríu var stofnað og opnað eitthvað 300 fyrir krist. Plútarkos skrifar að Júlíus Sesar hafi í ógáti brennt bókasafnið. Biskupinn af Alexandríu mun svo hafa fyrirskipað að Serapeum væri eyðilagt árið 391 fyrir Krist. Árið 2002 var vígt nýtt bókasafn nálægt staðnum þar sem hið forna konunglega bókasafn stóð.
Bókasafnið var upphaflega skipulagt af Demtrius af Phaleron en hann var lærisveinn Aristotelesar. Bókasafnið var í hverfi konungsins, þar var Peripatos samfélag, garðar, borðstofur, lesstofur, fyrirlestrasalir og fundarherbergi en ekki er vitað með vissu hvernig skipulagið var.
Bækur í safninu voru upprúllaðir papýrusstrangar. Það var sagt að í bókasafninu í Alexandríu væri öll heimsins þekking samankomin. Keyptar voru til safnsins bækur á bókamessum í Ródos og Aþenu og þekking var dregin af öllum skipum sem sigldu í höfnina, þaðan voru allar bækur teknar og afritaðar og bókasafnið hélt orgínölunum en sendi afrit aftur til eigendanna. Alexandría var staðsett sem hafnarborg milli austurs og vesturs, alþjóðleg viðskiptaborg, stærsti framleiðandi Papýrus og seinna bóka. Þarna voru afritaðar bækur fyrir önnur bókasöfn.
Margir fræðimenn fornaldar komu til Alexandríu. Það er engin leið að vita hvað margar bækur voru í bókasafninu en það er sagt að Ptolomedus 2 hafi stefnt að því að þar væru 500 þúsund papýrusrúllur.
Ekki er vitað með vissu hvað mikið af bókum safnsins brann árið 48 fyrir Krist en eftir þann tíma voru önnur söfn í borginni mikilvægari, bókasöfnin í musterunum í Mouseion og Serapeum. Það var vernd á sínum tíma að vera í tengslum við musteri en þegar Theodosius 1. keisari Rómarveldis bannaði önnur trúarbrögð en kristna trú árið 391 þá var musterunum í Alexandríu lokað.
Myndböndin á þessari síðu eru viðtal við Brewster Kahle í íslenska sjónvarpinu og fyrirlestur hans á Ted. Brewster Kahle kom til Íslands nýlega en hugsjón hans er að þekking heimsins verði sem flestum aðgengileg, hugsjón um að byggja upp bókasafnið í Alexandríu í tæknimiðla samfélagi nútímans. Ég hrifst af hugsjón hans en ég er ekki viss um að Alexandríubókasafn nútímans sé eingöngu safn af skönnuðum bókum sem settar hafa verið á stafrænt form. Ég held að þekkingu þurfi að brjóta meira upp, ég held að þekking sé í þekkingarsköpuninni sjálfri, í ferlinu, í tengingum, ekki eingöngu í afrakstrinum, afrakstri sem er oft eins og skyndimynd eða frosið augnablik af einhverju sem á sér stað í tíma og rúmi. Það er þess vegna sem ég hrífst af Wikipedia og Wikipedía samfélagi (Wikipedians), þar er þekking eins og lífrænn massi í litlum síkvikum einingum sem hægt er að tengja saman á óteljandi vegu með margs konar verkfærum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)