"Stóru fangelsin fyrir sunnan"

Freo_prison_WMAU_gnangarra-131

Dómsmálaráðherra hefur tilkynnt að loka eigi fangelsi á Akureyri, Sjá þessa frétt Lokun á Akureyri skapar svigrúm fyrir 30 fangelsisrými. Dómsmálaráðherra er úr Garðabænum, hún er handvalin til ráðherradóms af öðrum Garðbæingi, formanni Sjálfsstæðisflokksins Bjarna Benediktssyni. Ég hugsa að ef hún væri Akureyringur og þingmaður fyrir það kjördæmi þá myndi hún ekki hafa sama áhuga á að leggja niður stofnanir á Akureyri. Vissulega hafa Akureyringar ráðherra í þessari ríkisstjórn, en það er ólíklegt að hann sporni hér við fæti, hans stjórnmálasaga hefur einkum falist í að búa í haginn fyrir nokkra norðlenska útgerðarmenn.

Það er alveg stórundarlegt það sem haft er eftir dómsmálaráðherra:

"Bæði erum við að sjá undir 80% nýtingu á fanglesisrýmum, við sjáum ekki aukið fjármagn í fangelsismál á næstunni og hægt að nýta þrjátíu pláss í stóru fangelsunum fyrir sama fjármagn og við nýtum tíu fyrir norðan," segir Áslaug.

Fyrir það fyrsta þá er nokkuð undarlegt að leggja niður fangelsi á Akureyri, ekki síst núna þegar lögreglunám hefur verið nýlega flutt til Akureyrar, ég hefði haldið að það væri styrkur að fangelsi væri í sveitarfélagi þar sem líklegt er að byggist upp þekking á löggæslu ýmis konar. Einnig er Akureyri eini staður á Íslandi fyrir utan höfuðborgarsvæðið þar sem nóg aðgengi er að ýmis konar sérfræðingum sem þarf við slíkar stofnanir.

Einnig er skrýtin þessi áhersla á stóru fangelsin (ég geri ráð fyrir að átt sé við Hólmsheiði og Litla-Hraun) og stórundarlegt að það sé þrisvar sinnum ódýrara að hafa fanga í fangelsi þar en í fangelsi á Akureyri. Það væri áhugavert að fá sundurliðaðar upplýsingar um þá útreikninga. Það er hægt að nýta tækni í margt varðandi eftirlit í fangelsum og vandséð hvers vegna einhver stærðarhagkvæmni er þar, en það er varla hægt að spara í því sem lýtur að því að fangelsisvistin verði betrunarvist. Það er mikið í húfi að fangelsi verði ekki útungunarstöðvar fyrir afbrotamenn. 

Það getur ekki verið affarasælt að skoða hagkvæmni fangelsa eins og verið sé að reka stór svínabú eða kjúklingabú. Hvers vegna er gott að fangelsi séu stór? Mér sýnist reynslan erlendis (og reyndar líka hérna) vera frekar að stór fangelsi verði einhvers konar uppeldisstöðvar þeirra sem halda sig röngu megin við lögin og mynda hópa og tengsl sín á milli. Hvað með fangelsi eins og Kvíabryggju og Sogn? Það eru lítil fangelsi, á að leggja þau niður líka bara af því þau eru lítil? 

Hér er lýsing á vef fangelsismálastofnunar á fangelsinu á Akureyri:

Aðstaða er fyrir 10 afplánunarfanga og einn gæsluvarðhaldsfanga og er aðstaðan mjög góð. Í fangelsinu er rúmgóð setustofa sem nýtt er sem matstofa og sjónvarpsherbergi. Fangar sjá um matseld. Um 100 m2 lokaður garður er við fangelsið þar sem aðstaða er til boltaleikja og útiveru. Góð aðstaða er til vinnu, náms og líkamsræktar. 

Fangar í fangelsinu þurfa að vera tilbúnir til að takast á við vímuefnavanda sinn og taka þátt í endurhæfingaráætlun og stunda vinnu eða nám.

Í fangelsinu starfa samtals 4 fangaverðir á sólarhringsvöktum og varðstjóri og aðstoðarvarðstjóri sem eingöngu ganga dagvaktir. Vaktirnar eru 12 klukkustundir, dagvaktir frá kl. 06:00-18:00 og næturvaktir frá kl. 18:00-06:00.

Ekkert í þessari lýsingu bendir til að fangelsið á Akureyri sé óhentugt. Það er líka siðlaust að tengja saman þörf lögreglunnar á Akureyri fyrir aukið húsnæði við að það sé nauðsynlegt að leggja niður lítið fangelsi á Akureyri eins og gert er í orðræðu dómsmálaráðherra. Vissulega þarf að leysa húsnæðismál stofnana og það hefur sennilega aldrei verið auðveldara en núna þegar yfirfljótandi magn er af skrifstofuhúsnæði. Það er oft þörf á að leggja niður fangelsi vegna þess að þau standast ekki kröfur tímans og oftast þá vegna þess að þau eru engum mönnum bjóðandi. Í þessari lýsingu á fangelsinu á Akureyri sé ég engin merki þess að það sé eitthvað að aðbúnaði þarna og dómsmálaráðherra kastar bara út í loftið einhverjum órökstuddum fullyrðingum um sparnað.

Ég hefði haldið að staðsetning og gerð fangelsa væri mikilvægari ákvörðun en svo að það réðist eingöngu af því að pakka sem flestum föngum saman í sem fjölmennust fangelsi með sem minnstum tilkostnaði. Það er mikilvægt að fangelsi séu bæði stofnun til  að taka út refsingu  og uppbyggjandi og betrunarhús. Í því er mikilvægt að aðstandendur fanga hafi möguleika til að heimsækja fanga. Það er réttlætismál að sem flestir fangar hafi möguleika á að afplána á stöðum sem ekki eru víðs fjarri heimili þeirra.

Ég skil ekki þessa áherslu á "stóru fangelsin". Hver er tilgangurinn? Er hann sá að líta á alla fanga sem einhvers konar kjúklinga á stóru kjúklingabúi þar sem aðalmarkmiðið er að hafa kostnað sem minnstan og hafa geymsluskála sem stærsta? 

Eða er sýnin sú að líta á alla fanga sem stórhættulega menn sem þurfi að vera í rammgerðu öryggisfangelsi og vöktun?  

 Eða er tilgangurinn kannski  að búa í haginn fyrir einkavæðingu fangelsa að bandarískri fyrirmynd? Í Bandaríkjunum eru á hverjum tíma  nokkrar milljónir manns innilokaðir í fangelsum, fangar  vinna þar fyrir smánarkaup sem er allt niður í 60 sent á tímann í einhvers konar stórum þrælabúðum sem kallast fangelsi.

 

Tengill

Fangelsin á Íslandi

myndin er af áströlsku fangelsi  sem náði yfir  sex hektara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég held að fyrir þessu sé ástæða, Salvör, sem enginn hefur hátt um, en liggur í augum uppi þegar nánar er að gáð. Á Akureyri er það nefnilega svo, að þar eru það utanbæjarmenn sem brjótast inn og stela, lemja heimamenn og fara upp á konur þeirra í óleyfi. Ákvörðun ráðherrans er því tekin af hreinni manngæsku. Utanbæjarmönnunum, sem raunar eru yfirleitt "að sunnan", er nefnilega vorkunn að þurfa að hírast í kulda og trekki á Akureyri í dýflissunni þar, við fyrirlitningu og kynþáttafordóma hins hreina norðlenska kynstofns. Svona geta nú Garðbæingar verið skilningsríkir.

Þorsteinn Siglaugsson, 10.7.2020 kl. 23:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband