Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2020
23.4.2020 | 12:44
Blómastúlka frá Möðruvöllum
Ég rakst á þessa sumarlegu mynd af stúlku í blómakjól þegar ég var að glugga í ævisögu afa míns og fylgja honum eftir þegar hann þá fimmtán ára gamall kom til Akureyrar árið 1913 ásamt þremur öðrum piltum úr dalnum. Þeir komu til að fara í skóla og fyrsta árið bjuggu þeir allir saman hjá Marselíu í Gilinu á Akureyri.
Afi segir þetta um vistina hjá Marselíu:
Fyrsta veturinn, sem ég var á Akureyri, bjó ég hjá ekkju, sem hét Marselía og átti heima í Gilinu. Hún hafði sjö námsmenn í húsvist, okkur Svínvetningana fjóra og þrjá Skagfirðinga. Við bæði bjuggum í húsi hennar og höfðum þar fæði. Marsílía átti uppkomna dóttur og áttu þær mæðgur húsið og einnig Möðruvelli í Eyjafirði, svo að þær voru sæmilega efnum búnar. Þó vistin væri góð hjá Marselíu, bjuggum við ekki þarna nema einn vetur, því að samkomulagið hjá okkur sveitungunum var ekki eins og best verður á kosið.
Mér datt í hug að leita á timarit.is og leita á netinu að upplýsingum um konuna með þetta framandlega og sérkennilega nafn Marselía, hver var ævi hennar og hvers vegna var hún með svona marga skólapilta í húsvist.
Ég finn fyrst texta um Kvennasögugöngu Minjasafnsins á Akureyri og Jafnréttisstofu þennan texta um Önnu dóttur Marsilíu:
Lækjargata 3 (Lilliendahlsbærinn).
Hér bjó Anna Margrét Magnúsdóttir f. 1873, d. 1959. Hún gekk í Laugalandsskóla og lærði einnig í Kaupmannahöfn. Anna Margrét var ljósmyndari og setti hún upp verslun í húsinu árið 1902 en þar seldi hún hannyrðavörur og hatta. Anna hafði lært hattagerð í Kaupmannahöfn 1901. Árið 1910 tók Anna við lager af höttum af Önnu Houland sem rak verslun hér í 2 ár og þá opnaði Anna nýja verslun sem hún nefndi Baldursbrá og flutti hana í Brekkugötu og rak hana til 1927. Í Baldursbrá fengust m.a. nýmóðins skreyttir hattar, frönsk og ensk tískublöð, ýmislegt til útsaums og fleira. Anna rak verslun í 25 ár samfellt. Hún var ein af stofnendum Kvenfélagsins Hlífar árið 1907 og gegndi formennsku í því í 15 ár. Hún rak handavinnuskóla á Akureyri í 22 ár, kom á fót sumardvalaheimili fyrir fátæk börn og var ein af frumkvöðlum að byggingu Kristneshælis. Móðir Önnu Margrétar var Marselía Kristjánsdóttir, gestrisin rausnarkona. Hún lagði mikið á sig á efri árum til að mennta dóttur sína og fósturdóttur Jóhönnu Jóhannsdóttur Johnsen söngkonu, f. 1908, d. 1996
Ég fann minningargrein um Marselíu í Mbl. 6. febrúar 1940, hún hét fullu nafni Marselía Kristjánsdóttir og hún fæddist árið 1850 á Sigríðarstöðum í Ljósavatnsskarði og dó árið 1940. Hún giftist tvítug að aldri Magnúsi Ólafssyni á Möðruvöllum, flytur þangað og á þrjú börn, verður ekkja og giftist aftur Sigfúsi Jónssyni kaupmanni á Akureyri og í mörg ár eftir að hann lést býr hún ásamt Önnu dóttur sinni á Akureyri. Þær mæðgur fluttu svo út til Kaupmannahafnar með fósturdóttur sinni og frænku Jóhönnu Jóhannsdóttur sem þar stundaði söngnám. Þær búa í Kaupmannahöfn í nokkur ár en flytja svo til Reykjavíkur með Jóhönnu árið 1932.
Á búskaparárum Marselíu á Möðruvöllum var stofnaður þar skóli. Möðruvallaskóli var stofnaður árið 1880. Skólahúsið brann árið 1902 og þá var skólinn fluttur til Akureyrar og hét fyrst Gagnfræðaskólinn á Akureyri en síðar Menntaskólinn á Akureyri. Ef til vill hefur Marselía hafi verið með skólapilta í Möðruvallaskóla sem kostgangara og haldið því áfram þegar hún flutti til Akureyrar.
Hér er frásögn af bruna Möðruvallaskóla Möðruvallaskóli brunninn 1 Möðruvallaskóli brunninn 2
Myndin af stúlkunni í blómakjólnum hér fyrir ofan ef af fósturdóttur Marselíu, Jóhönnu Jóhannsdóttur Johnsen söngkonu f. 1908 d. 1996.
Ég fann líka á vef Héraðsskjalasafn Skagfirðinga þessa fallegu mynd af mæðgunum Marselíu og Önnu og litlu fósturdóttur þeirra. Jóhanna litla virðist ekki nema svona fimm ára á þessari mynd og þá getur verið að myndin sé tekin í kringum 1913-1914 þegar afi var fimmtán ára kostgangari á heimili þeirra.
Ég fann líka á vefnum glatkistan.com grein um Jóhönnu Jóhannsdóttur. Greinin byrjar svona:
Jóhanna Jóhannsdóttir (síðar Johnsen) var með efnilegustu söngkonum landsins þegar hún hvarf af sjónarsviðinu til að gerast læknisfrú úti á landi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.4.2020 | 07:55
Veikir leiðtogar
Boris forsætisráðherra Bretland veiktist af kórónuveikinni fyrir mörgum dögum og en hann er ennþá veikur og dvelur nú á gjörgæsludeild eftir að hafa elnað sóttin.
Trump forseti Bandaríkjanna er á yfirsnúningi og virðist þurfa á hvíld að halda. Hann fullyrðir hitt og þetta en virðist hafa tapað tengslum við raunveruleikann og virðist telja að hann viti betur en læknar hvaða lyf og læknisaðgerðir gagnast og virðist ennþá telja að gögn um faraldurinn í USA séu pólítískt plott andstæðinga hans í stjórnmálum.
Það er átakanlegt að hlusta á orðræðu hans þegar hann talar við fjölmiðla. Hann blaðrar einhverja vitleysu, ræðst á fréttamenn og ræðst á þá sem hafa safnað gögnum um ástandið á spítölum í USA.
Sjá hérna:
Trump angrily lashes out when confronted with critiques of coronavirus response
5.4.2020 | 09:39
Guðinn í geðillskukastinu...
Núna síðustu vikurnar þegar ég veit hvernig litlu simmunum líður í Sim City tölvuleiknum þegar þeir eru búnir að troðfylla borgir og allar götur iða af lífi og svo hellist yfir þá á ofan hver plágan á fætur annarri og alls konar náttúruhamfarir dynja yfir og það myndast "fordæmalaus staða".
Ég rifja upp ljóðlínur sem ég orti sem barn
Guðinn í geðillskukastinu
slökkti á perunni
í tilverunni.
Mér datt þetta ljóð í hug þegar ég las viðtalið við Andra Snæ Magnason á RÚV en hann lýsir ástandinu einmitt eins og það hafi verið slökkt:
Mér fannst óhugsandi að ég myndi lifa það að það yrði slökkt á heiminum. Maður hefði ekki trúað því að þetta gæti gerst," segir Andri Snær. Og þó að allir finni fyrir þessum ótrúlegu breytingum eigi margir enn erfitt með að átta sig á því almennilega hvað sé að gerast. Ég held við séum ekki farin að skilja hve mikil félagsleg og pólitísk áhrif verða af þessu. Maður er varla að geta greint þetta sjálfur.
En það má líta á björtu hliðarnar samkvæmt höfundinum og nýta tímann til að betra sig og styrkja samband við sjálfan sig og sína nánustu. Nú er tími þar sem allir horfa inn á við. Kannski verður þetta hollt fyrir okkur á einhvern hátt. Maður verður að reyna að sjá það jákvæðasta úr þessu að þessi hugsanlega tveggja mánaða sumarbústaðaferð, sem allir eru dæmdir í, skili einhverri dýpt inn í okkar fjölskyldur.
Sjá viðtalið hérna:
https://www.ruv.is/frett/fannst-ohugsandi-ad-lifa-ad-slokkt-yrdi-a-heiminum
SimCity tenglar
* Taking a page from SimCity, UrbanFootprint pitches new tools for urban development
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2020 | 15:46
Mezzogiorno
Söngurinn hefur þagnað í Ítalíu og uppþotin hafist. Ítalía suður og austur af Napólí og eyjarnar Sardinía og Sikiley er kölluð Mezzogiorno sem þýðir hádegi. Ítalía hefur verið mjög illa leikin af kórónuveikinni en hingað til hafa flestir veikst í hinum ríku norðurhéruðum Ítalíu. En atvinnulíf hefur lamast á allri Ítalíu og ég held að boð og bönn gildi líka um hinn hlutann, líka um Mezzogiorno.
Þar býr fátækara fólk og þar búa líka hlutfallslega fleiri sem eru í störfum sem hvergi eru skráð, í hinu stóra og mikla neðanjarðarhagkerfi sem er í öllum löndum. Núna hefur vinnan horfið hjá fólki í hinu óformlega harkhagkerfi og íhlaupavinnu og það eru engar atvinnuleysisbætur fyrir þá sem voru ekki skráðir í vinnu.
Núna er farið að ráðast á matvöruverslanir.
Sumir segja að það séu glæpasamtök sem standa fyrir uppþotum núna í Suður-Ítalíu.
"But the southern regions are struggling, too. The so-called "mezzogiorno" is where organized crime syndicate hubs are based and where unemployment hovers around 20% for adults and up to 50% for those under 24 during the best of times, according to figures from the Italian National Institute of Statistics (ISTAT)."
En ég man vel að það var viðkvæðin hérna á Íslandi þegar bankarnir féllu og fólk fór að safnast saman á Austurvelli, í fyrstu var látið eins og það væri óþjóðalýður sem bara vildi efna til uppþota. Ég man að einmitt þá byrjaði ég að taka myndir af fólkinu á Austurvelli til að sýna að það væri venjulegt fólk sem vildi breytingar.
Sjá einnig
Singing stops in Italy as fear and social unrest mount (Guardian 1. apríl 20202)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Langmest af 37 milljarða evra fyrsta hjálparpakka EU vegna kórónaveirunnar fer til Mið- og Austur-Evrópu. Þetta er fé sem á sérstaklega að hjálpa ríkjum til að takast á við efnahagslegar afleiðingar og krísuástand vegna veikinnar. Ungverjaland fær langssamlega mest af þessu fé per íbúa eða fimmtán sinnum hærra en t.d. Ítalía.
Pútin af Rússlandi og Orban einræðisherra Ungverjalands í handabandi.
Eitt af þvi sem hefur gerst nú þegar er að ríki hafa hraðara en hönd á festir tekið mannréttindi af þegnum sínum og eftirlitsæði stjórnvalda vex með hraðari veldisvexti en veirusmitið. Ríkið Ungverjaland hefur breyst í einræðisríki, valdhafi þar Orbán hefur búið svo um að núna getur hann sett ný lög eftir sínum hentugleikum, það þarf ekkert það fara með það í gegnum þingið.
Það er svo sárgrætilegt hvernig EU umbunar þessum einræðisherra og eys til hans úr sjóðum sínum.
Það er dáldið nöturlegt fyrir Ítali og Spánverja sem hingað til hafa farið hvað verst út úr faraldrinum að rýna í hvernig þessum risastóra hjálparpakka verður skipt á aðildarríki EU.
Svona skiptist upphæðin í hjálparpakkanum milli EU ríkja á hvern íbúa reiknað í dönskum krónum:
Sjá nánar í þessari dönsku grein
Ungarn nyder godt af ny EU-hjælpepakke, mens Italien og Spanien får væsentligt mindre
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2020 | 16:08
Grímulaus sannleikur
Núna lætur stóra öfluga skrýtilega stýrða grannríki okkar í vestri þau boð ganga út um heimabyggðir sínar að allir eigi að hylja andlit sitt með heimatilbúnum slæðum og bleðlum. Það hefur líka brotist út grímustríð.
Það breytist svo margt svo fljótt í samfélögum núna, ekki hefði maður séð það fyrir að nokkrum misserum eftir að allt ætlaði að tjúllast yfir að konur í vissum trúarfélögum vildu bera blæjur og höfuðklúta þá verði dagsskipunin sú að fara fram á að allir beri slík klæðisplögg.
Það er reyndar líklegt að kvenfatnaður sem hylur andlit henti afar vel í brennandi sól og sandi og þar sem er mikið af sandflugum og bitmý og allt eins líklegt að slíkur fatnaður hafi þróast vegna aðstæðna en svo fengið seinna upprunasögu sem sótt var í trú.
Núna er mælt með að fólk í New York hylji sig með sjölum og slæðum.
Það hefur í gegnum árin myndast ýmis konar tíska meðal kvenna varðandi slæður og höfuðbúnað og það verður gaman að sjá hvernig götutískan breytist núna og við öll förum að ganga með blæjur. Eiginlega verða Frakkar og kannski fleiri lönd að breyta sínum lögum, mér skilst að það sé bannað að vera með blæju á almannafæri þar.
Mér sýnist þessi búnaður hijab vera ansi hentugur fyrir þá sem vilja svara kalli bandarískra stjórnvalda. Í okkar læknastýrða Íslandi þá fáum við þau boð að andlitsgrímur hafi lítið sem ekkert að segja nema við séum smituð og viljum vernda þá sem eru í kringum okkur og ef svo er þá eigum við ekki að vera í kringum neinn.
Hér er myndband um hvernig gera má nettar grímur
Hér eru svo snið fyrir heimagerðar grímur.
Já og hér fyrir heimagerðar skurðstofugrímur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.4.2020 | 07:29
Eftirmæli Vöku
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2020 | 19:57
Alþjóðlegi barnabókadagurinn
Það er vanalega haldið upp á alþjóðlegan barnabókadag í dag 2. apríl en það er afmælisdagur H.C. Andersens. Núna sýnist mér ekki vera miklar hátíðir og samt hefur börnum sennilega sjaldan áður gefist eins mikill tími til að lesa og eins margbreytileg form til að lesa sögur á og haft eins mikil þörf fyrir afþreyingu.
Hingað til lands hefur undanfarin misseri streymt að fólk erlendis frá, langflestir frá Póllandi og mjög margir sem fæddir eru og uppaldir erlendis hafa sest hérna að og börnin þeirra eru í íslenskum skólum.
Það er mikilvægt jafnréttismál að börn hafi aðgang að miklum fjölda af ókeypis lesefni og menningarefni á íslensku. Núna eru bókasöfnin lokuð og það er sárgrætilega lítið efni sem börn á íslensku geta lesið og notað. Nánast ekkert efni er með opnum höfundarleyfum.
Það vigtar ekkert að ein og ein bók á stangli sé í opnum aðgangi einhvern smátíma.
Í ár er ein smásaga gefin til íslenskra barna í tilefni dagsins. Það er þessi smásaga Haugurinn sem lesin er upp á Rúv og hérna eru Verkefni með bókinni Haugurinn
Það stendur:
"Tilgangurinn er að fagna degi barnabókarinnar með notalegri sögustund og vekja um leið athygli á sameiningarmætti skáldskaparins. Með því að flytja söguna fyrir mörg þúsund lesendur í einu er mögulegt að skapa bókmenntaumræðu sem nær til samfélagsins alls."
Ég held ekki að þessi smásaga megni að skapa bókmenntaumræðu sem nær til samfélagsins alls. Ég held að það sé álíka mikil bjartsýni eins og að gefa einn strætómiða eða 5000 kall og halda að það verði til að fólk ferðist um Ísland. Þetta er bara upp í nös á ketti.
Þörf á ókeypis lesefni
á íslensku í opnum aðgangi
Íslensk börn þurfa miklu, miklu meira aðgengi að ókeypis vönduðum bókum um menningu sína og fræðslu á móðurmáli sínu um heiminn sem þau búa í ef íslenskan á ekki að deyja út og verða einhvers konar sparimál sem bara örfáir kunna og nota á tyllidögum.
Það er svo sorglegt að það er til heilmikið af bókum á íslensku en það er ekki eins og þær séu mikið að seljast nokkrum árum eftir að þær komu út. Það er hins vegar í gildi þannig kerfi að bækur eru frystar í ósýnilegum glerhjúpi höfundarréttar og hins kapítalíska kerfis sem við búum við og þar híma þær í frostinu til eilífðarlóns í sumum ríkjum en í sumum ríkjum eins og Íslandi þangað til öruggt er að allir sem einhvern höfundarrétt áttu að bók hafi legið kaldir í gröfum sínum í sjötíu ár.
Núna þegar bókasöfn eru lokuð og verða lokuð væntanlega þangað til samkomubanni lýkur þá er átakanlega lítið aðgengi barna og alls almennings að ókeypis menningarefni á textaformi.
Það er að ég held ekkert netbókasafn hérna sem bíður ókeypis útlán.
Jú,annars ég fór á vefsíðuna https://borgarbokasafn.is/ og þar sá ég að talað er um rafbókasafn á slóðinni https://rafbokasafnid.overdrive.com/ ég ætlaði að prófa hvernig það virkar og er núna búin að vera rúman klukkutíma að ströggla við að komast þar inn en ekkert gengur nema ég er orðin 2500 kr fátækari. Fyrst sá ég að ég þurfti að hafa gilt bókasafnsskírteini á Borgarbókasafninu og mér tókst nokkuð vel að borga það með að gefa upp símanúmerið mitt á vottuðum síma og borga með vísakortinu mínu. Ég fékk líka staðfestingu í tölvupósti um að ég væri búin að borga árgjald að bókasafnsskírteini. En þá vandaðist málið. Ég verð að skrá mig inn í þetta rafbókasafn með einhverju GE númeri sem ég á víst að sjá á útprentuðu bókasafnsskírteini sem ég á að geta sótt í bókasöfnin en get augljóslega ekki sótt því þau eru lokuð. Ég prófaði að setja sama bókasafnsnúmer og ég fékk uppgefið í tölvupósti og ég prófaði líka að setja kennitölu og pin númer en ekkert gekk.
Svona aðgengistakmarkanir eru mjög fráfælandi, það var óvinnandi vegur fyrir mig að afgreiða mig sjálf í rafbókasafnið, ég hugsa að það sé líka erfitt fyrir fólk sem talar litla íslensku, fólk með lestrarörðugleika og aðra sem allra mikilvægast er að hafa sem minnstar girðingar að efni. Ég veit satt að segja ekki hvenær ég reyni aftur við þetta rafbókasafn og veit ekki hvert ég á að snúa mér núna þegar allt er lokað.
Ég vil benda á að það er þörf á efni sem er algjörlega opin og öllum er frjálst að nýta og engar girðingar eru til að hlaða niður. Eins og er þá er ekkert af slíku efni á íslensku sem boðið er fram af ríkistengdum aðilum nema núna vegna kórónuveirufaraldurs þá er námsefni fyrir íslenska skóla öllum aðgengilegt til að lesa og hlaða niður á vef Menntamálastofnunar.
Það er samt þannig að flest grundvallarrit eru styrkt að mestu leyti af opinberum aðilum og margir rithöfundar eru á listamannalaunum til að skapa bókmenntir fyrir elítuna. Það er enginn að hagnast á þessu ástandi, það eru allir að tapa, bækur rithöfunda ná ekki til lesendahópa, bækur seljast lítið sem ekkert eftir fyrstu 1 til 2 árin frá útgáfu og með því að setja þær í frysti höfundarréttar og alls konar laga þá gerist ekkert nema stór hluti fólks sem er í samfélaginu sem styrkti þessa bókaútgáfu hefur lítil tök á að nálgast efnið
Jafnvel þó bækur séu ódýrar eins og núna er þá eru aðgangstakmarkanir í formi gjalda bara til að hindra marga í að nota efnið sb söguna hér fyrir ofan um bókasafnsskírteinið sem ég borgaði fyrir en gat svo ekki notað.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2020 | 13:41
Netbókasafn heimsins
Núna þegar bókasöfn heimsins eru flest lokuð, alla vega bókasöfn á Vesturlöndum og skólar eru lokaðir í mörgum löndum þá er gott að nýta sér að margir bókaútgefendur og námsefnisútgefendur hafa opnað netgáttir fyrir foreldrum, fullorðnum og börnum.
Eitt slíkt er hið gríðarstóra bókasafn archive.org það hefur opnað neyðarbókasafn þar sem núna alveg til 30. júní eru aðgengileg 1.4 milljónir rita. Það er hægt að skrá sig sem notanda á archive.org, það kostar ekki neitt og taka út bækurnar til láns (borrow) og hægt er að hafa þær til láns í 14 daga og mest má taka út 10 bækur í einu. Mér sýnist ekki takmarkanir á að þetta sé bara opið fyrir USA, ég skráði mig á gmail og prófaði að taka út bækur.
Slóðin á neyðarnetbókasafnið er http://archive.org/nel
Það er hægt að leita að bókum t.d. slá inn leitarorð eins og tintin ef maður er að leita sérstaklega að Tinnabókum.
Hér er skjákynning sem sýnir hvernig notandi getur lesið bækur sem hann er með í láni
Slóð á skjákynningu:
https://notendur.hi.is/~salvor/video/netbokasafn1.mp4/
Einnig hægt að setja þetta myndband á staðÞ
Tenglar
Internet Archive responds: Why we released the National Emergency Library
Alþjóðlegi barnabókadagurinn 2. apríl 2020
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.4.2020 | 12:59
Hrafnar og veður
Eftir að ég flutti hingað í Grafarvog í hús við sjóinn þá fór ég að fylgjast betur með fuglum og veðrabrigðum og sjávarföllum. Ég sé á sjónum hér út um gluggann öldurnar hamast á ströndinni og allur sjórinn hreyfist í bylgjum eftir því hvort það flæðir að eða fellur frá. Núna eru ekki margir fuglar, ég heyri í lóum á kvöldin og stundum í góðu veðri eru gæsahópar á golfvellinum.
En í stormi eins og nú er þá eiga hrafnarnir loftið. Ég hef oft tekið eftir að rétt fyrir mikið óveður þegar byrjað er að hvessa verulega þá fljúga hrafnahópar hér með ströndinni, fljúga upp í vindinn margir saman eins og þeir séu að mæla veðurofsann eða eins og þeir séu að leika sér í einhvers konar vindleikfimi. Stundum fljúga þeir framhjá stofuglugganum í stórum hópum eins og núna fyrr í dag, ég reyni stundum að mynda þá en þá er hópurinn floginn eitthvað burt eins og núna áðan, ég náði bara tveimur hröfnum á myndina.
Ég held að hrafnar séu ágætir veðurboðar hér er pistill um hrafna í smáritinu Blikur á lofti Gamlir veðurboðar og veðurorð sem Sigríður Sigurðardóttir tók saman:
"Í þjóðsögum er talað um hrafn sem spáfugl, hræfugl og jafnvel illan fyrirboða. Hrafnar Óðins skildu mál manna og guða og fluttu honum tíðindi. Hrafnar voru taldir sendiboðar heiðinna guða. Goðsagnakennd frásögn er í Landnámu þar sem segir frá hröfnunum þremur sem Hrafna-Flóki blótaði til heilla áður en hann lagði upp í leit að nýju landi og hvernig þeir fundu Ísland. Flóki tók sér bólfestu í Flókadal í Skagafirði en ekkert er sagt um hvort hrafnar hans réðu því. Hrafnar náðu fljótt það stórum sessi í kristnu trúarumhverfi að fólk tók þá í sátt og sagt er frá fólki sem skildi hrafnamál.
Sá rammgöldrótti séra Hálfdán Narfason (d. 1568) í Felli í Sléttuhlíð var sagður hafa skilið hrafnamál og tók mark á hegðun þeirra. Og það voru fleiri en hann sem hlustuðu eftir krunki hrafnanna. Fólk réði hvað yrði út frá því hvernig hrafnarnir höguðu sér á flugi, úr hvaða átt þeir komu, hvort þeir sneru að manni nefi eða stéli og hvernig þeir höguðu sér í nánd við mannabústaði og búpeningshús.
Ef hrafn lét ófriðlega, gargaði og reifst, var talin von á ókyrru veðri. Flygi hann hátt og léti sig svífa var von á góðu. Ef hrafn settist á bak hrossa eða sauðfjár máttu menn búa sig undir vandræði, mikla kulda, jafnvel hafís og náttúruhamfarir. Ýmsar sögur greina frá gæsku hrafna sem launa þeim vel sem eru þeim góðir. Orðtakið guð launar fyrir hrafninn bendir til að menn hafi talið það góðverk að gera vel við hann. Níu nóttum fyrir sumar verpir hrafninn, þá kemur hrafnahretið öðru hvoru, þá étur hrafninn eggin þegar hæst er annars verður hrafnamergðin of mikil. Náttúran sér fyrir öllu ótrufluð, sagði Hróbjartur Jónasson.
Á sauðburðartíma höfðu bændur varann á sér gagnvart hrafninum því hann sótti í hráa og nýborin lömb. Jón Hallsson sagði Árna Bjarnasyni á Uppsölum að hann hefði tekið mark á flugi hrafna þegar hann fór í eftirleitir á Silfrastaðaafrétt á haustin. Ef þeir flugu á undan smalamönnum inn t.d. Krókárdal, þá voru miklar líkur á að kindur væru þar."
Hér er önnur frásögn um Hrafna
Eftirfarandi frásögn birtist í grein eftir Ísólf Pálsson, Lyndiseinkunn fuglanna í
Eitt sinn fór ég um morgunn upp að Brattholtsvatni um hau st til að skjóta álftir. Hafði ég ágætan riffil, hlaðinn 6 skotum, sá lengi vel enga álft, en heyrði til þeirra vestur á Kopphólsvatni í Keldnakotsengjum. Kom ég því suðaustan að ninu. Þurrt var um, lágt í vatninu og það mjög bakkahátt. Var þvi auðvelt að komast að vatnsbakkanum og skjóta á einar tvær álftir með því verkfæri, sem ég hafði.
En þegar nær dró bakkanum, kom hrafn gargandi mjög og fylgdi mér þúfu af þúfu. Þóttist ég vita, að hann væri að benda álftunum á aðsteðjandi hættu, enda vissu þær brátt, að eitthvað var á seyði og forðu sér undan, áður en ég komst í skotfæri. Var það eingöngu krumma að kenna, að ég missti af veiðinni, en einnig honum að þakka, að álftirnar héldu lífi.
Hrafn bjargar litlum kópi
Það var um hábjartan sumardag, að ég kom utan af sjó bliðu veðri og lenti vestan á Baugstaðarifi. Stórstreymt var og fjara og lítið um afla þann morguninn. Gekk ég þá inn á rifið framundan Markakletti". Sá ég þá, að dálítill kópi lá upp á naddi einum austur í lóninu, sem liggur innan við rifið - Það var nær 200 faðma færi til hans, og vissi hann ekkert af mér, því stórgrýtisurð bar lika á milli. Ég fór mér hægt, og taldi mér kópann vísan með rifflinum mínum. En þegar ég er nær því kominn á þann stað, er ég áleit vel hentan að skjóta þá kemur allt í einu hrafn, flýgur yfir kópa og hamast svo með gargi og lappafálmi yfir honum, að kópinn varð hræddur og hrökk út í sjó.
Síðan fló krummi burtu aftur. Eflaust hefur hann vitað, að þar var hætta á ferð, sem ég var, og varaði við henni. í þetta sinn tók krummi upp háttu veiðibjöllunnar, en hún var okkar mesti meinvættur með þvi að fæla seli ofan af skerjum og söndum, er þeir voru í hættu staddir. Gerðu þær oft versta óleik með þessu. Að þessu sinni boðaði hrafn hættu, en ég veit einnig dæmi þess, að hrafnar boði sorg.
Hrafn boðar sorg
Það var veturinn 1883, á vertíð, að hrafn sat mjög leng1 dags austur á túngarði, mjög lúpulegur og lét annan vænginn lafa niður með garðinum, líkt eins og vængurinn væri brotinn. Gott veður var og sólskin. Fá orð hafði móðir min um þetta, ef ég man rétt, en oft leit hún austur á garð til krumma, og það einnig svo seint, að hún sá hann sitja kyrran fram í myrkur. Ég sá henni nokkuð brugðið, en spurði einskis enda ungur og ekki með alvarlegar hugsanir. En svo mikið var víst, að veðurblíðan fór af, og ofsaveður skall á. Í því veðri urðu úti tvær konur okkur nákomnar og einnig Ólafur frá Dísarstöðum með skipshöfn allri, þá frá Þorlákshöfn (22. marz 1883).
Ekki fannst mér móður minni koma á óvart hið hörmulega slys, er konurnar urðu úti, en fátt mun hún hafa tekið sér svo nærri sem það. Svo var það veturinn 1887 skömmu fyrir slysið 24. febrúar þann vetur, er faðir minn og bróðir fórust í lendingu í Þorlákshöfn, að tveir hrafnar sátu á líkum stað á sama garði hengdu niður annan vænginn og görguðu stundum saman mjög einkennilega og dapurlega og höguðu sér allólíkt því, sem hrafnar eru vanir að gera. Víst var, að þeir sátu fram l myrkur og görguðu öðru hvoru á hinn sama einkennilega hátt.
Ég man, að þetta hafði undarlega leiðinleg áhrif á mig, og móðir mín tók ekki síður eftir háttum þessara fugkiYfirleitt var það algengt, að menn tækju allmikið mark á háttum hrafna og þótti af því, hvernig þeir höguðu sér, mega ýmislegt ráða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)