Alþjóðlegi barnabókadagurinn

Emperor_Clothes_01

Það er vanalega haldið upp á alþjóðlegan barnabókadag í dag 2. apríl en það er afmælisdagur H.C. Andersens. Núna sýnist mér ekki vera miklar hátíðir og samt hefur börnum sennilega sjaldan áður gefist eins mikill tími til að lesa og eins margbreytileg form til að lesa sögur á og haft eins mikil þörf fyrir afþreyingu.

Hingað til lands hefur undanfarin misseri streymt að fólk erlendis frá, langflestir frá Póllandi og mjög margir sem fæddir eru og uppaldir erlendis hafa sest hérna að og börnin þeirra eru í íslenskum skólum. 

Það er mikilvægt jafnréttismál að börn hafi aðgang að miklum fjölda af ókeypis lesefni og menningarefni á íslensku. Núna eru bókasöfnin lokuð og það er sárgrætilega lítið efni sem börn á íslensku geta lesið og notað. Nánast ekkert efni er með opnum höfundarleyfum.

Það vigtar ekkert að ein og ein bók á stangli sé í opnum aðgangi einhvern smátíma.

Í ár er ein smásaga gefin til íslenskra barna í tilefni dagsins. Það er þessi smásaga Haugurinn sem lesin er upp á Rúv og hérna eru  Verkefni með bókinni Haugurinn

Það stendur:

"Tilgangurinn er að fagna degi barnabókarinnar með notalegri sögustund og vekja um leið athygli á sameiningarmætti skáldskaparins. Með því að flytja söguna fyrir mörg þúsund lesendur í einu er mögulegt að skapa bókmenntaumræðu sem nær til samfélagsins alls."

Ég held ekki að þessi smásaga megni að skapa bókmenntaumræðu sem nær til samfélagsins alls. Ég held að það sé álíka mikil bjartsýni eins og að gefa einn strætómiða eða 5000 kall og halda að það verði til að fólk ferðist um Ísland. Þetta er bara upp í nös á ketti.

Þörf á ókeypis lesefni
á íslensku í opnum aðgangi

Íslensk börn þurfa miklu, miklu meira aðgengi að ókeypis vönduðum bókum um menningu sína og fræðslu á móðurmáli sínu um heiminn sem þau búa í  ef íslenskan á ekki að deyja út og verða einhvers konar sparimál sem bara örfáir kunna og nota á tyllidögum.

Það er svo sorglegt að það er til heilmikið af bókum á íslensku en það er ekki eins og þær séu mikið að seljast nokkrum árum eftir að þær komu út. Það er hins vegar í gildi þannig kerfi að bækur eru frystar í ósýnilegum glerhjúpi höfundarréttar og hins kapítalíska kerfis sem við búum við og þar híma þær í frostinu til eilífðarlóns í sumum ríkjum en í sumum ríkjum eins og Íslandi þangað til öruggt er að allir sem einhvern höfundarrétt áttu að bók hafi legið kaldir í gröfum sínum í sjötíu ár. 

Núna þegar bókasöfn eru lokuð og verða lokuð væntanlega þangað til samkomubanni lýkur þá er átakanlega lítið aðgengi barna og alls almennings að ókeypis menningarefni á textaformi. 

Það er að ég held ekkert netbókasafn hérna sem bíður ókeypis útlán.

Jú,annars ég fór á vefsíðuna https://borgarbokasafn.is/ og þar sá ég að talað er um rafbókasafn á slóðinni https://rafbokasafnid.overdrive.com/  ég ætlaði að prófa hvernig það virkar og er núna búin að vera rúman klukkutíma að ströggla við að komast þar inn en ekkert gengur nema ég er orðin 2500 kr fátækari.  Fyrst sá ég að ég þurfti að hafa gilt bókasafnsskírteini á Borgarbókasafninu og mér tókst nokkuð vel að borga það með að gefa upp símanúmerið mitt á vottuðum síma og borga með vísakortinu mínu. Ég fékk líka staðfestingu í tölvupósti um að ég væri búin að borga árgjald að bókasafnsskírteini. En þá vandaðist málið. Ég verð að skrá mig inn í þetta rafbókasafn með einhverju GE númeri sem ég á víst að sjá á útprentuðu bókasafnsskírteini sem ég á að geta sótt í bókasöfnin en get augljóslega ekki sótt því þau eru lokuð. Ég prófaði að setja sama bókasafnsnúmer og ég fékk uppgefið í tölvupósti og ég prófaði líka að setja kennitölu og pin númer en ekkert gekk.  

Svona aðgengistakmarkanir eru mjög fráfælandi, það var óvinnandi vegur fyrir mig að afgreiða mig sjálf í rafbókasafnið, ég hugsa að það sé líka erfitt fyrir fólk sem talar litla íslensku, fólk með lestrarörðugleika og aðra sem allra mikilvægast er að hafa sem minnstar girðingar að efni. Ég veit satt að segja ekki hvenær ég reyni aftur við þetta rafbókasafn og veit ekki hvert ég á að snúa mér núna þegar allt er lokað.

Ég vil benda á að það er þörf á efni sem er algjörlega opin og öllum er frjálst að nýta og engar girðingar eru til að hlaða niður. Eins og er þá er ekkert af slíku efni á íslensku sem boðið er fram af ríkistengdum aðilum nema núna vegna kórónuveirufaraldurs þá er námsefni fyrir íslenska skóla öllum aðgengilegt til að lesa og hlaða niður á vef Menntamálastofnunar.

Það er samt þannig að flest grundvallarrit eru styrkt að mestu leyti af opinberum aðilum og margir rithöfundar eru á listamannalaunum til að skapa bókmenntir fyrir elítuna. Það er enginn að hagnast á þessu ástandi, það eru allir að tapa, bækur rithöfunda ná ekki til lesendahópa, bækur seljast lítið sem ekkert eftir fyrstu 1 til 2 árin frá útgáfu og með því að setja þær í frysti höfundarréttar og alls konar laga þá gerist ekkert nema stór hluti fólks sem er í samfélaginu sem styrkti þessa bókaútgáfu hefur lítil tök á að nálgast efnið

Jafnvel þó bækur séu ódýrar eins og núna er þá eru aðgangstakmarkanir í formi gjalda bara til að hindra marga í að nota efnið sb söguna hér fyrir ofan um bókasafnsskírteinið sem ég borgaði fyrir en gat svo ekki notað. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband