Færsluflokkur: Nám

Skólarnir byrjaðir... tími fyrir krossapróf

Núna þegar skólarnir eru að byrja þá býð ég upp á örlítið krossapróf til að sýna hvernig við getum á auðveldan hátt búið til próf. Allir geta búið til svona krossapróf og límt kóða á vefsíðu eða blogg. Kerfið sem ég nota heitir http://www.proprofs.com/quiz-school  það þarf að skrá sig sem notanda og þá er auðvelt að búa til próf. Ég gerði þetta lauflétta próf með fjórum spurningum, endilega prófaðu að taka það. Því miður þá leyfir moggabloggið ekki að maður lími inn iframe kóða, slóðin á krossaprófið er hérna Vestmannaeyjar og fastalandið.

En þetta hefði átt að birtast á moggablogginu eins og á blogspot, sjá hérna : Próf á vefnum

Það eru alls konar öryggislokanir í svona bloggkerfum og því miður eru þær oft mjög hamlandi fyrir notendur, sérstaklega notendur sem nota efni og einingar víðs vegar frá. 

 


Ein tölva á barn - kaupa tvær

Loksins gleðileg frétt. Ég hef fylgst lengi með þróun á OLPC, (One Laptop Per Child) og held að það sé eitt það mest spennandi sem nú er að gerast í þróunarsamvinnu.  Ég held hins vegar að það sé of mikið  látið með tölvuna sjálfa, það sem kemur til með að stranda á  varðandi notkun er  ekki bara vélbúnaður heldur að það vantar kennara sem  kunna að  skipuleggja nám þar sem allir nemendur hafa  slíka fartölvu og það vantar  námsefni  fyrir þessar tölvur.

 Sniðugt að styrkja barn í þróunarlandi með því að kaupa tvær svona.  Eitt af nýársheitunum hjá mér er líka að vinna að  efni fyrir ung börn sem gæti verið hluti af námspakka fyrir svona tölvur þ.e. að vinna efni sem er með CC leyfi þannig að hver sem er geti notað það áfram og breytt því.  


mbl.is Barnafartölva seld almenningi í góðgerðaskyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myspace fjölmiðlamanna

Það er oftast svo vont netsamband hjá kaninkubloggurum að ég les þau blogg ekki nema endrum og eins. Það má segja að sá menningarkimi þess útskers sé álíka mikið í alfaraleið  og upplýsingahraðbrautin mikla liggur um Ísland og álíka algengt að þangað sé allt sambandslaust.

Það sem einkennir þau blogg er að þau eru held ég öll vinstri græn og í öðrum skrýtnum hreyfingum og svo er kaninkubloggurum uppsigað við moggabloggið og hafa um það háðuleg orð. 

Rakst á þessa miklu speki hjá Birki: 

Mér sýnist sem Mogga-bloggið sé að verða að MySpace fjölmiðlamanna. Þar blogga fjölmiðlamenn öllum stundum, helst hver um annan, og helst ekki án þess að vitna í bloggfærslu hjá hinum. Svo eiga allir “blogg-vini” sem þeir setja myndir af í hliðarstiku og skiptast svo á kveðjum við og kommenta svo hjá hinum og þessum til að láta vita að þeir séu nú líka með í umræðunni. Þetta virkar semsagt nákvæmlega eins og MySpace. Ég bíð spenntur eftir því hver verður fyrstur til að þakka Birni Bjarna fyrir “addið”.

Moggabloggið er sniðugt bloggkerfi og bloggsamfélag, bæði af því það er einfalt og hraðvirkt og áreiðanlegt bloggkerfi og þar skrifa margir samfélagsrýnar sem hafa eitthvað að segja. Það er auðvelt að mynda samfélög þar og tengja bloggskrif við fréttir og fylgjast með bloggum hjá öðrum. Það er vissulegt líkt Myspace en reyndar líka fjölmörgum vinsælum netsamfélögum öðrum. 

Ég gerði vefsíðu um myspace, sjá hérna.  

Sennilega er sú þróun sem við erum að sjá núna hjá Morgunblaðinu á vefnum undanfari af þróun sem mun halda áfram og breytast í kerfi eins og digg.com og newsvine.com þar sem fréttirnar eru skrifaðar af lesendum og það er í sífellu greidd atkvæði um fréttir og vinsælustu fréttirnar poppa upp á forsíðunni.

Ég fylgist öðru hvoru með vinsælustu tæknifréttunum á digg og þar eru athugasemdirnar líka metnar og þær eru oft mikilvægari og meiri fengur en fréttin sjálf. Fréttirnar á digg.com eru nefnilega oft líka eins og fréttir í hefðbundnum fjölmiðlum, þær eru dulbúnar auglýsingar sem er plantað inn af þeim sam hafa hagsmuna að gæta og eru að selja einhverja vöru eða þjónustu. Þannig verða örugglega sum blogg líka. Þannig er Myspace. Þar er fullt af gervifólki sem er ekki til í raunveruleikanum, það eru prófælar sem eru búnir til gagngert til að vingast við unglingana og reyna svo að pranga inn á þau einhverjum vörum. Það er líka hægt að kaupa sér vini á Myspace, það skiptir máli fyrir upprennandi tónlistarmenn að láta líta út fyrir að þeir eigi marga aðdáendur  strax þegar þeir koma sér upp Myspace síðu. Þess vegna er hægt (á svörtum, ekki opinberlega) að kaupa sér vini þar í þúsundatali.


mbl.is Viðgerð á Cantat 3 mun trufla netsamband hjá Rannsókna- og háskólaneti Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Wikispaces

Wikispaces er fínt wikikerfi sem er núna ókeypis og án auglýsinga fyrir kennara. Það þarf bara að haka við að maður hyggist nota þetta í fræðslutilgangi þegar maður skráir sitt wiki.  Það þarf bara að smella á myndina hér fyrir neðan, skrá sig og haka við "I certify this space will be used for K-12 education." og þá getur maður byrjað að skrá á sitt eigið wiki. Auðvelt er að spila vídeó frá youtube og líma inn kóða á wikisíður. Sniðugt er að láta marga  vinna saman að einhverju verkefni með svona wiki.

 

Leiðbeiningar með wikispaces

Salvör Gissurardóttir tók saman
Hvað er wiki?
Wiki er tölvubúnaður sem gerir okkur kleift að búa til og breyta vefsíðum. Wiki er þannig að allir notendur geta breytt og skrifað ofan í það sem hinir gera. Þannig er Wiki verkfæri sem býður upp á nýja möguleika við samvinnu á vefnum.

Tökum sem dæmi smíði á alfræðiorðabók - Þær alfræðiorðabækur sem við þekkjum eru smíðaðar þannig að hópur sérfræðinga undir ákveðinni ritstjórn skrifar bókina saman. En í wiki þá getum við skrifað öðruvísi alfræðiorðabók. Við getum haft það þannig að hver sem er geti skrifað og breytt hverju sem er. Og þetta er einmitt eitt dæmi um hvernig wiki er notað á vefnum. Það er í smíðum núna alfræðiorðabók WIKIPEDIA. Markmiðið er að til sé Wikipedia alfræðirit á öllum tungumálum. Það eru þegar komnar yfir milljón greinar í ensku útgáfu af Wikipedia en rúmlega 12 þúsund greinar eru í íslensku Wikipedia.

Wikipedia notar wikikerfi sem kallast Mediawiki. Það er algengt  wikikerfi og ókeypis og  opinn hugbúnaður og það sem hefur verið íslenskað. Hver sem er getur hlaðið því niður og sett upp á eigin vefþjón. Það hentar samt ekki öllum að setja sjálfir upp sín eigin wikikerfi og það krefst þess af einstaklingum að þeir hafi tæknilega þekkingu og aðgang að vefþjóni til uppsetninga. Miklu einfaldara er að þurfa sjálfur ekki að spá í uppsetningu og hýsingu og nota kerfi eins og wikispaces.

Wikispaces er ein önnur tegund af wiki og einmitt núna þá geta kennarar fengið ókeypis svæði þar. Wikikerfi eru flest mjög lík. Þú smellir bara á "Edit this Page" og bætir við því sem þú vilt bæta við og smellir svo á Save. Alltaf er hægt að fara í "history" og rekja breytingar.
Hér eru leiðbeiningar (skjákennsla í Camtasia) sem ég tók saman um Wikispaces:
Wikispaces leiðbeiningar 1. kafli 3. mín.
Wikispaces leiðbeiningar 2. kafli 4. mín.
Wikispaces leiðbeiningar 3. kafli 3. mín.
Wikispaces leiðbeiningar 4. kafli 4. mín.

 


Wiki er málið - Ekki blogg

Það er mikið umræða um blogg og á bloggi þessa dagana á Íslandi. Ég skráði á blogg Ekkiblogg sögu Íslands og helstu ekki-bloggarar blogga oft um blogg ( Vofa Víkverja gengur ljósum logum og Ekki blogg – gleðilegt ár)

 og ekki-blogg sögu, sagnfræðingar  blogga um að þetta sé allt að breytast í Eitt allsherjarblogg? og  bókmenntaliðið  reyna að skilja á milli gæðablogga og ofurblogga og amablogga og deiglupennar reyna að blása lífi í deyjandi vefrit með bloggpistlum um blogg og ekki blogg og bloggblaðmennsku.

En síðastu  ár hef ég haft miklu meiri áhuga á wiki og samfélögum í kringum wiki kerfi en því miður þá virðast ennþá vera afar fáir á Íslandi sem átta sig á og hafa áhuga á svoleiðis kerfum.  Það er helst að fólk kveiki þegar rætt er um Wikipedia, flestir hafa kynnst því alfræðiriti, alla vega ensku útgáfunni af því því það poppar upp í leit í Google.  Margir virðast ekki vita af því að það er unnið að því að skrifa íslenska útgáfu af Wikipedia í sjálfboðaliðsvinnu og þar er allt of lítill hópur sem starfar að því. Það er það nýársheit frá seinasta ári sem ég er hvað ánægðust með að ég stefndi að því að skrifa að minnsta kosti 52 pistla inn á is.wikipedia.org á árinu 2006 og ég held að ég hafi skrifað miklu fleiri.

Hér er vefur með yfirliti yfir hin ýmsu wikikerfi: http://www.wikimatrix.org/

Sniðugasta wikikerfið fyrir kennara er wikispaces, það er ókeypis og er núna án auglýsinga fyrir alla kennara. Það er flott tilboð, ástæðan er sennilega sú að þeir sem standa að þessu vilja ná sem flestum notendum og reyna svo að selja kerfið svona eins og google keypti upp jot.

Það er fínt að læra á wiki með eigin wikispaces.com


Moral Combat


Hér er trailerinn fyrir nýja  heimildarmynd  Moral Kombat (Moral  Kombat trailer á Google Videos) eftir Spencer Halpin en hún fjallar um ofbeldi í vídeóleikjum og áhrif þess á börn og unglinga. Vonandi er þetta vísbending um að vakning sé núna um hve gegnsósa samfélag okkar er af ofbeldi og ofbeldisdýrkun. Í menningarheimi okkar er gróft ofbeldi dýrkað í máli og myndum í margs konar miðlum s.s. sjónvarpi, netmiðlum og tölvuleikjum. 

Ég tek það sem persónulega árás ef Netinu er kennt  um allt sem aflaga fer í í íslensku samfélagi. Þess vegna varð ég grautfúl í morgun þegar við mér blasti á sjálfri forsíðu blaðs allra landsmanna stór fyrirsögn "Netið ýtir undir hömluleysi og gróft ofbeldi". Í greininni stendur:

„Ofbeldisvæðingin sem kemur í gegnum Netið er orðin augljós og á sér svipaðar rætur og klámvæðingin. Það má t.d. benda á að það er ekki í sjónvarpi sem aftaka Saddams Husseins er sýnd heldur á Netinu. Alls staðar á Netinu er vísað á myndskeið með mjög grófu ofbeldi og ég held að þetta ýti undir ákveðið hömluleysi," segir hann.

Skýringar á ofbeldishegðun af þeim toga sem átti sér stað í Garðastræti helgast af ólíkum þáttum að mati sérfræðinga og er um að ræða samspil firringar, fíkniefnaneyslu og þess sem nefnt er ofbeldisfíkn.

Ég vil benda á að það er afar mikil alhæfing að gera Netið að blóraböggli, það er eins og að segja að Borgarbókasafnið ýti undir ofbeldi og morð af því að þar geta vaxið upp glæponar framtíðarinnar sem  lesa sakamálasögur eins og uppskriftir á hvernig þeir geta sjálfir framið morð.

Það er eitthvað að samfélagi okkar, þessi skefjalausa ofbeldisdýrkun sem birtist í ýmsum myndum svo sem sakamálasögum, fréttum, vídeóleikjum, netleikjum og netefni.  Ég hef oft bent á það hve algengt er að umfjöllunarefnið sé ofbeldi á konum.  Núna í nótt tók ég eftir að á báðum þeim sjónvarpsrásum sem ég horfði á (rúv og að mig minnir sircus) var gróft ofbeldisefni og keflaðar konur  miðjan í frásögninni, annars vegar var það sænsk mynd, konan var með sprengju bundna um hálsinn og hins vegar var það japönsk mynd (house of horror) þar sem konur voru seldar kaupum og sölum og unnu í vændi og ein var afskræmd  og önnur pyntuð í myndinni og pyndingarsenurnar voru myndaðar eins og ástarsenur og sýnt nákvæmlega hvernig það var verið að pynda vændiskonuna ef eigenda sínum þannig að ekkert sæist á henni, hún þurfti jú að halda áfram blíðusölunni. Það voru sýndar nærmyndir af  pyndingum  þar sem hún var brennd með logandi teinum og það voru sýndar pyndingar þar sem nálum var stungið í fingur hennar og alltaf reglulega sýndar andlitsmyndir af kvöl þeirrar sem var pynduð og sælu þess sem pyndaði hana.  Ég veit ekki af hverju ég er að lýsa þessu hérna, það virðist enginn taka eftir því að stór hluti af okkar afþreygingarefni eru svona formúlubókmenntir í pyndingum.


mbl.is „Netið ýtir undir hömluleysi og gróft ofbeldi"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband