Ekkibloggsaga Íslands

Þegar árið kvaddi og kryddsíldin súrnaði og skaupið helltist yfir okkur eins og skrípóbjórauglýsing á Sirkus þá lýstu margir  af Íslands bestu sonum frati á Netið og púuðu á  bloggskrílinn. Guðmundur trúarleiðtogi í Byrginu sagði að Netið sé Dýrið og Bubbi  6.6.6. sem er  ekki eins læs á teiknstafi sagði af sinni alkunnu hógværð og kurteisi  að bloggarar væru mestmegnis illa skrifandi, sjálfumglatt hyski. 

Það var nú ekki eins og mælirinn væri fullur heldur bættist nú í hópinn Egill sem stráð hefur silfri yfir landsmenn árum saman og útnefndi sjálfa sig hróðugur ekki bloggara og setti fram  söguskýringu  sem er  hetjusaga af því hvernig hann fattaði þetta með Internetið fyrstur manna löngu áður en bloggið var fundið upp og hvað hann sé sammála öðrum gáfumönnum íslenskum um að  blogg sé hljóm eitt og þar sé lítið af semningi slegið. 

Ekki-bloggarinn Egill bloggar þessi frómu orð:

"Sögu mína á internetinu má rekja til 1. febrúar árið 2000, sem er sirka fimm árum áður en bloggið var fundið upp. Þar af leiðandi get ég ekki verið bloggari. Ég hef skrifað á netið í næstum sjö ár. Ég er líka að sumu leyti sammála Jónasi Kristjánssyni um að að bloggið sé ekki sérlega merkilegt - alvöru dagblöð eru miklu merkilegri."

Svona ósvífni olli náttúrlega tryllingi í bloggheimum og stungu bloggarar niður beittum stílvopnum í mörgum bloggum og ætla menn ekki að leyfa Agli að breyta bloggsögunni baráttulaust. Ég er með þessu bloggi að bæta í skotin á Egil, það veitir ekki af  að skjóta á hann úr öllum áttum.

Nokkur skot á Egil og moggablogg: 

Forsögulegur bloggari 

Leiðin að falli moggabloggsins

Egill og bloggið

Sannleikurinn er nefnilega sá að það var blómlegt bloggsamfélag á Íslandi strax árið 2000 og margir notuðu þá þegar bloggkerfið blogger.com. Það voru kannski ekki svo margir bloggarar, sennilega einn eða tveir tugir og það varð svo  til samfélag Nagportal þar sem bloggarar fylgdust með skrifum hver hjá öðrum.  Síðar tók rss molar og fleiri kerfi við.

Fyrsti íslenski bloggarinn (þ.e. miðað við þá skilgreiningu að nota sérstakt bloggkerfi Blogger ) er sennilega Björgvin Ingi. Hann segir svo frá (athugasemdir hjá Stefáni): "Ég byrjaði á þessu í jólaprófunum 1999 (http://www.blogtree.com/blogtree.php?blogid=5238) og notaði þá notepad og vistaði þetta á háskólasíðunni minni. Skömmu síðar byrjaði ég að nota blogger.com sem byrjaði þá um haustið. Af miklum hégóma spurði ég Evan hjá Pyra, stofnanda Blogger, meira að segja út í það hvort ég væri ekki örugglega sá fyrsti á Íslandi sem byrjaði að nota kerfið. Hann játti því og mér leið rosa vel að vera frumnörd."

Hugsanlega er Björn Bjarnason fyrsti íslenski bloggarinn ef við miðum við þá skilgreiningu að blogg sé regluleg opin dagbókarskrif á Netinu. Ég man reyndar eftir að fyrir mörgum árum var ég ásamt Stefáni í Kastljósi í fyrstu umfjöllun íslensks sjónvarps um blogg og þá hélt ég því fram að Björn teldist bloggari. Það þótti nú reyndar ennþá óvirðulegra þá en nú að vera bloggari.

Ég skrifaði fyrsta bloggið á blogger 8. desember árið 2000. Ég hafði þá tekið eftir að nokkrir verkfræðinemar notuðu sniðugt kerfi blogger til að uppfæra heimasíðurnar sínar og ég skráði mig sem notanda þar og prófaði. Svona er fyrsta bloggið mitt:
"Nu hefst jólaannáll 2000. Hérna nota ég kerfi sem heitir blogger.com til að setja inn svona slitrur úr því sem helst er að gerast og varðar íslenskt jólahald og þennan jólavef. 8. des. breytt
skrifar Salvor Gissurardottir 12/8/2000 07:01:58 AM "

Ég ætlaði fyrst að nota bloggið fyrir ákveðið efni þ.e. jólavef en svo sá ég að það virkaði betur fyrir tjáningu sem snerist um einstaklinga og samræðu við sjálfið - að hugsa meðan maður talar við sjálfan sig. Ég stofnaði svo nýtt blogg og byrjaði svo regluleg bloggskrif 1. apríl 2001 og kallaði bloggið fyrst Meinhorn því ég ætlaði bara að þusa og skammast út í allt og alla en uppgötvaði að það var ekkert gefandi og svo endurskírði ég bloggið og kallaði  Metamorphoses eftir 11. september 2001. 

Reyndar komu Íslendingar dáldið inn í bloggsögu heimsins að mig minnir árið 2002 eða 2003 en þá var íslenska að mig minnir tíunda algengasta málið á blogger en eins og allir ekki bloggarar vita þá er Íslenska ekki í hópi tíu algengustu tungumála í heiminum. Þetta vakti furðu á mörgum erlendum vefjum sem sérstaklega fylgdust með framþróun upplýsingasamfélagsins. Þar sem ég er alveg jafn hógvær og ekki bloggarinn þá vil ég eigna mér skerf af því. Ég hafði trú á bloggi sem námstæki og lét nemendur mína prófa að stofna blogg á blogger. Einu sinni í janúar  áður en kastljós netheimsins beindist að blogger þá tók ég eftir að bara nemendur mínir höfðu stofnað 10% af öllum blogspot bloggum sem voru stofnuð   þann mánuð. Ég held að það hafi átt sinn þátt í hversu sýnilegt Ísland var í bloggheimum. 

Ég finn nú ekki mikið um þetta í gúgli núna, Netið er hverfult en þessi statistic var á vegum Jupiter Research og ég fann í Google þennan kafla í fræðiskýrslu frá University of California  How Much Information? 2003: "

"C. Who is blogging?

According to Jupiter Research, about 2 percent of Internet users have created a blog. The majority of bloggers use dial-up access to get online, and more than half have a household income below $60,000 per year. Jupiter also found that blogging is split evenly between the genders and that 70 percent of the bloggers have used the Internet for more than 5 years. (Source: Blogging by the Numbers)

More than 50 percent (350,000) of the 655,000 web logs crawled in National Institute for Technology and Liberal Education (NTILE) web log census are written in English. The rest of the top 10 languages for blogs are (in order): Portuguese, Polish, Farsi, French, Spanish, German, Italian, Dutch and Icelandic. "

Það er náttúrulega gaman að bera þessa skýrslu frá University of California  saman við tímatal Egils, íslenskan virðist eftir þessu hafa verið eitt af algengustu bloggtungumálum heimsins tveim árum áður en Egill segir að bloggið hafi verið fundið upp Grin

Mogginn þar sem nú hafa hreiðrað um sig  helstu samfélagsbloggarar Íslands (vandlega orðað svona til að hella olíu á eld kaninkuklansins) tók eftir bloggurum  og birti heila opnu með viðtölum við nokkra bloggara  22. júní 2001  sem er fjórum árum áður en Egill segir að bloggið hafi verið fundið upp. Ég var náttúrulega og er einn af eðalbloggurum þessa lands og þess vegna útvalin í  í viðtalið : Þarf að vaða blint í sjóinn.

Það þarf náttúrulega ekki að taka fram að ég valdi ekki titilinn enda eru öll mín blogg útpældur fróðleikur en ekki neinn buslugangur og froðusnakk. W00t


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: www.zordis.com

Góð ertu, blogg er fyrst og fremst tökuorð fyrir opinbera dagbók.  Fólk er knúið af ýmsum ástæðum til að halda opinbera dagbók.  Athygls sýki, upplýsingaþörf fyrir fjölskyldu og vini eða einfaldlega tjáning af eigin persónulegum forsendum.  Er ekki bloggið dásamlegt fyrir það sem það er hverjum og einum!

www.zordis.com, 4.1.2007 kl. 23:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband