Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Tvær konur af tuttugu

Það er ennþá einn vitnisburðurinn um hvernig auð og völd dreifast á Íslandi og til hverra hvernig kynjahlutfallið er meðal hæstu gjaldenda opinberra gjalda í Reykjavík.  Þar eru tvær konur í tuttugu manna hópi.  


mbl.is Hreiðar Már Sigurðsson gjaldahæstur í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Salvör Sól í baði

Eftirlætismyndefni mitt núna er litla frænka. Hún á marga aðdáendur hérna á Hanhóli. Hér er stutt videó sem ég tók áðan það sem hún er í hópi aðdáenda í baði.


Ég nota líka tímann á að læra um fjöllin sem blasa hérna við af bænum á Hanhóli. Hér er mjög víðsýnt, það sést út á Syðradalsvatn og þaðan út á sjó og Snæfjallaströndina langt í burtu. Vinstra megin er fjallið Ernir og hægra megin blasir Óshyrnan við. Síðan kemur Hádegisfjall sem heitir svo vegna þess að um hádegi er sólin þar þegar maður horfir á fjallið og er staddur niðri í Bolungarvík. Svo kemur næst Marðarhorn. Gilin á milli fjallanna eru kallaðar hvilftir (hvað er munur á gili og hvilft?), fyrst kemur Óshvilft og svo kemur Marðarhvilft

Salvör Sól 10 vikna

salvorsol-bleikumkjol2

Núna er ég á Hanhóli við Bolungarvík.

Litla frænka dafnar vel.

Hér er vídeómynd sem ég tók af henni í vöggunni í gær.

 

 


Landgræðslulóð við Langöldu

Ásta er búin að velja sér landgræðslulóð við Langöldu, hún gat valið úr mörgum lóðum því það var dregið um það hverjir sem sóttu um lóð fengu og svo í hvaða röð og hún lenti þriðja í röðinni. Það voru margar lóðirnar mjög spennandi, sums staðar var töluverður gróður en sums staðar var næstum bara sandur. Hún var lengi að ákveða hvort hún veldi lóð sem var tiltölulega vel gróin með sandöldum sem mynduðu skemmtilega hvamma og lautir og flatri sléttu eða lóð þar sem mesta útsýnið var til allra átta en sú lóð var lítið gróin og auðvitað meira áveðurs. Það er nú erfitt að hafa bæði mikið útsýni og mikið skjól. Útsýni er mjög fallegt á báðum lóðum, það er  fjallasýn til Heklu, Tindfjallajökuls, Þríhyrnings og Vatnsdalsfjalls í norður og austur.

Ásta valdi lóðina sem var meira gróin. Hér er mynd þaðan sem sýnir hvernig gróður er sums staðar. Lóðin er 7 hektarar. Það er mjög fáir blettir í þeirri lóð sem eru gróðurlausir þannig að það er hægt að fara strax í skógrækt.

025

Það verður gaman að fylgjast með því hvernig landið grær þarna upp, sérstaklega á þeim svæðum sem nú eru alveg gróðurvana sandur. Svona er landið sums staðar:

017


Á vergangi

Welcome to Vancouver

 Á hverju horni í Vancouver eru flækingar. Vingjarnlegt ungt fólk tötrum klætt með syndandi augu og rúnum rist í andliti og oftast útbúið með einkennisfarartæki hinna heimilislausu - innkaupakerru. Þessar kerrur koma upprunalega úr stórmörkuðum, einhver hefur stolið þeim þar. Innkaupakerran er oft mikilvægasta verkfæri umrenninga í borgum og verðmætasta eign þeirra. Í flóðunum í New Orleans þá var erfitt að bjarga sumum hinna heimilislausu því þeir fengust ekki til að skilja eftir innkaupakerrurnar sínar með öllum plastpokunum.

Hvers vegna er svona mikið af heimilislausum sem ráfa um í miðbæ stórborga? Hvað einkennir þennan hóp?  Í Vancouver þá er áberandi að flestir hinna heimilislausu eru ungir karlmenn af vestrænum uppruna. Ég sá sárafáar konur og ég sá enga umrenninga af asískum uppruna þó að fólk af asískum uppruna væri í meiri hluta meðal þeirra sem voru í miðbænum. Þær fáu konur sem ég sá virtust líka alltaf vera í slagtogi með mönnum, ekki einar. Mér sýndist líka margir vera í einhvers konar eiturlyfjum en margir virtust alls ekki vera það - vera fyrst og fremst uppflosnað og vegalaust fólk, ekki líkamlega fatlað á neinn hátt en hugsanlega með geðslag sem ekki passar inn í nútímasamfélagið.

Ásta sagði að hún hefði séð viðtal í Kastljósinu við mann sem hún kom að fyrir mörgum árum í miðbænum, þá var hann djúpt sokkinn óreglumaður í vímu, hann hafði slasast og hann var alblóðugur með stóran skurð á höfði og vegfarendur gengu allir fram hjá og sinntu honum ekkert þó hann væri mikið slasaður og ósjálfbjarga. Hún lánaði honum síma og hann reyndi að hringja eitthvað en það gekk ekki og hún hringdi á lögregluna sem kom honum til hjálpar. Það er gaman að sjá að  þessi maður hefur náð sér upp úr óreglunni og núna er hann málsvari þeirra sem eru í sömu sporum og hann var einu sinni.

Ég held að allir komi okkur við og við eigum að gæta mannréttinda allra, líka þeirra sem eru í verstu stöðu í lífinu, líka þeirra sem eru fyrirlitnir og hæddir, líka  þeirra sem eru bófar og óþokkar og ódæðismenn, líka þeirra sem  beitt hafa aðra ofbeldi og sem eru líklegir til að halda áfram að beita ofbeldi og fremja ódæðisverk. 

Ég veit hins vegar ekki hvort það er besta leiðin að gera líf útigangsfólks í Reykjavík sem auðveldast. Mér virðist sama gilda um samfélagið og fjölskyldurnar, það sem fjölskyldur læra í fjölskyldumeðferð alkóhólista er að hætta að kóa með, hætta að gera auðvelt fyrir alkann að halda áfram að vera alki. Það er líklegt að stór hluti af þeim sem ráfar heimilislaus um göturnar sé fólk sem þegar er á örorkubótum. Þeir sem eru svo djúpt sokknir að þeir eru komnir á götuna vegna óreglu eru líklegir til að eyða öllum örorkubótum sínum til að viðhalda því ástandi sem gerði þá að öryrkjum.

Það er ekki skynsamlegt að ríkið sjái fólki fyrir drykkjupeningum.


Geitasandur

Nú er  ég að skoða umhverfið við Langöldu  en það er landgræðslusvæði við veg nr. 264 andspænis Reyðarvantsréttum og er hluti af Geitasandi. Geitasandur er sandflákar milli Kirkjubæjar og Eystri Rangár við Stóra- og Minna Hof á Rangárvöllum. Sandurinn var girtur af Landgræðslu ríkisins árið 1945 og hefur verið landgræðslusvæði.

Vegur nr. 264 sem sýnir hvar Reyðarvatnsrétt er, þetta svæði er nálægt höfuðstöðvum landgræðslunnar í Gunnarsholti.

vegur264

 

Á Google Maps korti sést hversu mikið flæmi Geitarsandur er og flugvöllurinn sem er rétt hjá Langöldu lítur út eins og einhver dularfull rún eða galdrastafur, minnir helst á Nasca línurnar í Perú

google-geitasandur

 

Það verður gaman að taka þátt í uppgræðslustarfi þarna, dóttir mín fékk úthlutað landgræðslulóð á Langöldusvæðinu. Upp af svæðinu eru landgræðsluverkefnið Hekluskógar og svo er sandflæmið á  Geitasandi núna  skógræktarsvæði Kolviðar. Þetta landsvæði mun því breytast mikið á næstu áratugum.

Á Íslandi eru ein víðfeðmustu eyðimerkursvæði í Evrópu. Það eru ekki margir Íslendingar sem átta sig á því, við tengjum oft eyðimerkur við brennandi sól og tjaldbúðir hirðingja og úlfaldalestir. Hér eru gríðarleg sandflæmi sem stundum hafa sorfið allann jarðveg burtu af stórum svæðum svo jarðirnar fóru í eyði ein af annarri þangað til framrás rofaflanna var stöðvuð með sandgræðslu. En hugsanlega geta fyrrum sandflákar orðið dýrmætir þegar stundir líða fram og þeir eru græddir upp til landbúnaðar og útivistar og ýmis konar nota. Sandarnir eru rennisléttir og henta vel fyrir flugvelli. Ég las að það stóð einvern tíma til þegar bandaríski herinn var hérna að koma upp á Rangárvöllum mjög stórri, nýrri flugstöð. Það stóð þá einnig  til að koma upp herskipahöfn á Suðurlandi í sambandi við þennan flugvöll. Skyldi sá flugvöllur hafa átt að vera á Geitasandi? Skyldi sú herskipahöfn hafa átt að vera í Þorlákshöfn?

Núna er talað um landsvæði við Þorlákshöfn í sambandi við álvinnslu og álver. Það er líka talað um þetta svæði sem mögulega mikilvægt ef siglingar og flutningar um Ísland aukast vegna loftslagshlýnunar. Þá þarf umskipunarhöfn með mikið landrými. 

Hvernig verður umhorfs á þessu svæði eftir hálfa öld? Verður Selfoss svefnbær út frá Þorlákshöfn og verða flugvellir þvers og kruss á sandsvæðum?

Hér er það sem ég skrifaði á sínum tíma um Nascalínurnar í Peru sem minna mig á flugvöllinn á Geitasandi:

Í Nazca í Perú eru skemmtileg umhverfislistaverk sem eru alls konar línur sem teygja sig yfir 217 fermílna svæði. Línurnar mynda yfir 70 táknmyndir af dýrum, fólki og formum. Þessar línur og þau tákn sem þær mynda sjást ekki nema úr flugvél. Þær voru fyrst uppgötvaðar af fornleifafræðingnum Mejia Xespe árið 1927 og svo tók Paul Kosok árið 1939 að rannsaka þær, hann var að rannsaka merki um forn áveitukerfi. Það var svo árið 1946 sem Marie Reiche tók við rannsókninni og vann að þessu í fimmtíu ár, hún hreinsaði umhverfið og þá fyrst komu margar myndirnar í ljós. Hún helgaði líf sitt því að varðveita og rannsaka þessar menningarminjar og varð þjóðhetja í Perú og núna eru línurnar á skrá yfir menningarminjar heimsins. Margar tilgátur hafa komið fram um tilgang myndanna, giskað hefur verið á að línurnar séu sólaralmanak eða kort yfir gang himintungla, Erich von Daniken tengdi línurnar við geimverur og las úr þeim lendingarbrautir fyrir geimskip. Einnig hefur verið giskað á að línurnar tengist vatni og áveitukerfi á einhvern hátt eða séu gönguslóðir. Samt er þetta ennþá furðulegt að alla vega er ekki efast um að þessar myndir og línur séu til, gaman er að bera þetta saman við Runemo rúnirnar sem Íslendingurinn Finnur Magnússon rannsakaði áratugum saman af jafnmikilli alúð og María Reiche rýndi í línurnar. Hann hlaut samt enga fremd fyrir sínar tilgátur.

 

skipulag-geitarsandur

 


Rusl í Reykjavík

Mér finnst eitthvað að í Reykjavík þegar innkoman að húsunum fer að líkjast ruslahaugum fyrir afsettar þvottavélar, ísskápa, ónýt húsgögn og spýtnadrasl. Hvenær ætli átakið Grænu skrefin í Reykjavík komi í Þingholtin? 

 005

Hér eru tvær myndir af lóð bakhúss í Þingholtunum, þetta er inngangur þar íbúar úr nokkrum íbúðum fara framhjá á hverjum degi og þetta er útsýnið sem íbúar úr nokkrum nærliggjandi húsum hafi út í garðinn sinn.  Þegar fólk er að flytja þá er oft rusl fyrir utan  á meðan á flutningi stendur en ég held það sé ekki um það að ræða þarna ég fór þarna um fyrir meira en mánuði og þá var sams konar rusl þarna nema mér sýnist heldur hafa bæst við ruslið.

004

Bakgarðar í gamla bænum geta verið vinjar og sælureitir frá erli iðandi stórborgar en þeir eru það ekki ef svona er umhorfs þar. Þá eru þeir merki um að hverfið sé að breytast í slömm.  

Hér eru meiri myndir frá myndasyrpunni minni Rusl í Reykjavík.


Lundaveiðar

Í gær hlóð ég niður Scratch  en það er forrit fyrir krakka frá 8. ára aldri ætlað til að kenna þeim forritun. Það er ókeypis og auðvelt að setja það upp. Þetta forrit minnir töluvert á forritunarmálið Lógó. Ég varði nokkrum tímum í að kynna mér þetta forrit og möguleika þess í námi og skólastarfi. Fyrsta sem ég gerði var að ég bjó til leik um lundaveiðar sem ég skírði Puffin Hunt (smellið á slóðina til að komast í leikinn og smella á SPACE til að byrja). Hér er skjámynd af leiknum mínum.

Ég forritaði nú ekki mikið sjálf í þessum leik því ég byggði hann á gömlum Ninento leik Duck Hunt 

Ég breytti bara öndunum í lunda og breytti um bakgrunn og svo í staðinn fyrir veiðihund þá setti ég kerlingu í upphlut sem safnar upp lundunum, enda engir lundahundar á Íslandi. 

 
Þetta er nú ekki mjög líkt veruleikanum í lundaveiðum, mér skilst að lundi sé fyrst og fremst veiddur með háf, ekki skotinn á lofti. En kosturinn er að það þarf engin veiðikort fyrir þennan lundaveiðileik og þannig hentar hann t.d. vel fyrir sjávarútvegsráðherraGrin.  En það er ágætt að rifja upp ýmis konar fróðleik um lundaveiðar og lunda. hér eru þrír vefir með upplýsingum:

 Hér er lýsinga á lundaveiðum hjá Bergþóru:

Færeyingar fundu upp veiðar í háf, sem miðuðu að því að ná geldfuglinum, þegar hann var að sveima yfir hring eftir hring í svokölluðu uppflogi. Háfurinn er um 4 metra skaft með netpoka framan á. Vestmannaeyingar tóku upp veiðieðferðir Færeyinga um 1875 og er henni nú beitt hvarvetna til lundaveiða. Ungfuglinn er furðu heimskur og heldur áfram að hringsóla og láta háfa sig, þó hann sjái hrannirnar af dauðum fuglum á börðunum. 

 Í þessu skjali um Vestmannaeyjar fann ég þetta um lundaveiðar:

Lundaveiðar hafa verið stundaðar frá upphafi byggðar í Vestmannaeyjum. Veiðiaðferðirnar hafa verið með þrennum hætti í gegnum aldirnar; greflaveiðar, netjaveiðar og veiðar í háf. Um miðjan ágúst tóku veiðimenn pysjur úr holum og notuðu til þess grefil. Grefli má lýsa sem priki með krók á endanum og var pysjan húkkuð út úr holunni með greflinum. Á Breiðafjarðareyjunum notuðu menn veiðiaðferð sem gaf um 30 þúsund fugla á ári. Aðferðin var sú að leggja net yfir holurnar og ná þannig varpfugli er hann hljóp úr holunni. Þessi veiðiaðferð hafði það í för með sér að pysjurnar drápust úr hungri því foreldrarnir voru dauðir. Báðar þessar veiðiaðferðir eru bannaðar í dag. Það  var um árið 1875 sem fyrsti háfurinn kom til Vestmannaeyja frá Færeyjum og eru veiðar í háf stundaðar enn þann dag í dag. Háfurinn, sem er langt prik með neti á endanum, er lagður á jörðina og lundinn háfaður er hann hringsólar á flugi yfir eyjunni. Þessi veiðiaðferð gerir mönnum kleift að sniðganga fugl með síli þannig að meirihluti veiðinnar er geldfugl. Í  dag er lundaveiði stunduð meira sem tómstundagaman en af lífsnauðsyn og er sterk hefð í Eyjum. Menn hafa stofnað sérstök úteyjafélög í helstu veiðieyjunum. Mestu veiðieyjarnar eru Suðurey, Álsey, Bjarnarey og Elliðaey. Eins veiðist vel í Ystakletti sem og minni eyjum s.s. Brandinum og Hellisey. Á síðustu árum hefur lundaveiði minnkað stórlega á Íslandi eða úr um 500 þús. fuglum í um 200 þús. fugla árlega. Áætlað er að um 80.000 til 110.000 lundar séu veiddir ár hvert í Vestmannaeyjum einum saman. Veiðistjóraembættið ber ábyrgð á að fylgjast með veiðunum og innheimta veiðiskýrslur
Lundaveiði hefur lengi tíðkast í Vestmannaeyjum og virðist stofninn þola þá veiði nokkuð vel. Ljóst er þó að ekki er hægt að fylgjast nægilega vel með veiðinni ef ekki er unnið betur að innheimtu veiðiskýrslna og úrvinnslu þeirra.

Lundi og kanínur eru í samkeppni um búsvæði í Vestmannaeyjum. Magnús Þór Hafsteinsson sagði þetta á þingi í fyrra:

Lundaveiðar eru heimilaðar á tímabilinu frá 1. september til 10. maí á hverju ári. Lundaveiði hefur verið stunduð í Vestmannaeyjum frá örófi alda af manninum og er á vissan hátt auðlind fyrir eyjabúa sem skapar bæði ánægju og tekjur og á sér djúpar rætur í menningu eyjanna og mannlífi.

Síðustu árin hefur ný ógn steðjað að lundanum í Vestmannaeyjum því kanínurnar sem hafa sloppið þar út hafa náð að mynda stofn og hafa aðlagast umhverfinu á Heimaey. Það er sýnt með vísindarannsóknum að kanínurnar hafa náð að nýta lundaholurnar til híbýlis. Þær hafa sest þar að. Þær breyta holunum, grafa þær út og stækka þær og sameina. Þær fara út í miklar framkvæmdir ef svo má segja. Rannsóknir hafa sýnt að þetta fælir lundann í burtu. Hann hrekst burtu úr holunum ef kanínur setjast þar að. Holurnar eru nauðsynlegar fyrir lundann, bæði til varps en líka til að ala þar upp unga þannig að þetta er mjög alvarlegt vandamál. Þessi gröftur kanínanna, sú mikla elja og vinnusemi sem þær sýna við að koma sér upp búsvæði, hefur aftur neikvæð áhrif á gróðurþekju og jarðveg. Kanínurnar naga rætur grassins sem eru inni í lundaholunum og það dregur úr jarðvegsbindingu og getur ásamt venjulegri beit á yfirborði jarðar haft þær afleiðingar að festan í jarðveginum hverfur eða minnkar og þar með eykst hættan á jarðskriði. Þeir sem hafa komið út í Heimaey vita að mörg búsvæði lundanna eru einmitt í mjög bröttum brekkum, grasigrónum brekkum, og ekki þarf mikið að eiga sér stað þar til að jarðvegurinn hreinlega fari á skrið, til dæmis í leysingum á vorin, og steypist þar með í sjó fram og þá eru þessi búsvæði fuglanna glötuð og tekur jafnvel aldir að vinna það aftur upp.

Talið er að heildarstofnstærð lunda sé um 15 millj. fugla en íslenski stofninn er um 60% eða um 9 millj. fugla. Þar af eru um 2–3 millj. varpfugla og 1,5 millj. fugla í Vestmanneyjum. Lundinn er mikil auðlind því hann er einn stærsti fuglastofn Íslands, sjófugl sem lifir aðallega á sandsíli og loðnu. Þetta er farfugl sem kemur á vorin eftir vetrarlanga dvöl úti á hafi og á sér mjög merkilegt líf. Hann verpir einu eggi um miðjan maí sem klekst út eftir 40 daga og unginn er fleygur og fer úr holunni um miðjan ágúst.

Mér líst afar vel á scratch.mit.edu verkefnið, það er hægt að hlaða þar niður forriti sem kennir krökkum að forrita og reyndar líka að hugsa og spá í ýmsa hluti. Á Scratch vefnum er ekki bara hægt að nálgast forritið heldur er þar líka hægt að sækja alls konar tilbúin verkefni í Scratch (project) eins og ég gerði til að búa til lundaveiðileikinn. Svo getur maður sjálfur mjög auðveldlega hlaðið inn sínum verkefnum. Ég bjó mér til verkefnasíðu: http://scratch.mit.edu/users/salvor

Verkefnin getur hver sem er hlaðið niður og notað áfram til að búa til sín eigin verkefni.

Fyrir kennara og foreldra sem vilja kynna sér Scratch:

 

Nokkur vídeó eru sem kenna Scratch á Youtube, þar á meðal þetta:


Prófanir með myndir

Ég prófaði vefmyndvinnslukerfið http://www.pikifx.com/

áðan. Það eru ýmsir sniðugir möguleikar til að vinna myndir. Þetta er eitt af fjölmörgum einföldum vefmyndvinnslukerfum sem miða við þá sem vilja hafa sniðugar myndir á bloggi eða myspace svæðum en nenna ekki að læra á fullkomin kerfi eins og Photoshop. Hér eru nokkur dæmi um hvernig er hægt að vinna myndir. Ég tók mynd af Ástu Lilju þar sem hún heldur á Salvöru Sól:

 

 

pikifx-10-nature

pikifx-18-grunge pikifx-5

 

pikifx-1pikifx-3pikifx-4

 

 

 

 


Kjaransbraut - skemmtilegasti vegur Íslands

Núna ganga allir Laugaveginn, gönguleiðina milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Ég hef einu sinni fyrir um það bil aldarfjórðungi gert tilraun til að ganga þá leið. Við urðum að snúa við aftur inn Landmannalaugar því við fundum ekki skálann við Hrafntinnusker, stikurnar voru fenntar á kaf og það var snjófok. Jörðin var alhvít þarna. Þetta var samt í júní. Ég man hvað ég var hrædd á tímabili, við vorum þrjú fullorðin og Ásta dóttir mín lítil í ferðinni, þau sem voru með mér fóru á undan að leita að skálanum og ég missti sjónar á þeim í þoku og hélt um tíma að ég væri ein  villt með ungt barn einhvers staðar upp á hálendinu um nótt í snjó og kulda. Einhvern tíma langar mig til að reyna aftur við þessa leið, það er flott markmið í lífinu að láta ósigra ekki buga sig heldur reyna aftur og læra af reynslunni. Það gerir ekkert til þá að 25 ár líði milli tilrauna og kannski hefur loftslagshlýnunin unnið með mér, kannski er ólíklegra núna að þurfa að snúa við vegna snjókomu í Hrafntinnuskeri.

Það er líka önnur leið sem mig langar til að ganga. Það er fallegasti vegur á Íslandi og líka sá hrikalegasti, það er vegurinn milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Ég er hissa á því að sú leið sé ekki eins vinsæl og Laugavegurinn, sennilega hafa bara svo fáir uppgötvað þessa leið. Það er hægt að keyra þessa leið á bílum, alla vega stóran hluta hennar en ég held að það sé ekki alltaf fært og alls ekki fyrir óvana að fara um verstu kaflana.  Þetta er sérstaklega skemmtileg gönguleið, umhverfið er töfrandi og engu öðru líkt.

Vegurinn  sem tengir Lokinhamradal  er meistarastykki Elís Kjaran ýtumanns og hvergi er eins skrýtinn vegur á Íslandi. Ég held að vegurinn sé höggvinn inn í surtarbrandslag sem er mýkra efni en annað berg þarna.

 Lokinhamradalur var á sínum tíma einn afskekktasti dalur landsins, þar voru tveir bæri Lokinhamrar og Hrafnabjörg. Guðmundur Hagalín skáld fæddist og ólst upp á Lokinhömrum og hann hefur skrifað mikið um uppvaxtarár sín. Frægustu skáldrit Guðmundar gerast líka í svona umhverfi, frægasta saga hans er Kristrún í Hamravík og hún hefði nú alveg getað búið í Lokinhamradal. Guðmundur Hagalín er frábært skáld og rithöfundur en það er eins og hann hafi fallið í gleymsku undanfarin misseri, allt kastljósið er á samtíðarmann hans Halldór Laxness. En það er alveg þess virði að heimsækja Lokinhamradal sem pílagrímsför og bókmenntagöngu á bernskuslóðir og mótunarstað Guðmundar Hagalíns.

Núna 21. júli fór fram hlaup á Vestfjörðum, sjá nánar á vesturgata.net Þar er margar myndir sem sýna hið stórbrotna og ævintýralega landslag þarna.  Hér er kort af veginum.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband