Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Háskólavellir: Dumping á leigumarkaði

Ég fór í gær  í kynnisferð til Keilis í Keflavík og skoðaði gamla varnarsvæðið. Ég hef ekki komið þarna í meira en aldafjórðung eða síðan félag herstöðvarandstæðinga bauð upp á kynnisferð almennings þangað í kjölfar mikillar fjölmiðlaumræðu um hvort að á varnarsvæðinu væru geymd kjarnorkuvopn. Ég fór með Ástu dóttur mína litla í þá ferð, hafði hugsað þetta sem svona fróðlegan sunnudagsbíltúr fyrir mig og barnið, það væri nú spennandi fyrir litla krakka að skoða risastór flugskýli og Avac sprengjuflugvélar og leita að kjarnorkuvopnum, þetta var svona þessara kaldastríðstíma útgáfa af páskaeggjaleit. Það var svolítið broslegt  að þarna um árið var tekið  á móti rútunni eins og hún væri full af mögulegum hryðjuverkamönnum enda voru í henni margir frægir herstöðvaandstæðingar eins og Birna Þórðardóttir. Birna er nú um stundir  aðallega  þekkt  fyrir  menningargönguferðir sínar um miðbæ Reykjavíkur og listsköpun og kúltúr. Það er nú líka broslegt. Heimurinn breytist og herstöðin er núna kölluð háskólavellir og Birna Þórðardóttir menningarfrömuður. Þetta hefði ég nú ekki séð fyrir. 

Mér sýnist ágætt starf unnið hjá Keili og vonandi tekst að koma upp háskólastarfsemi þarna eins og fyrirætlanir eru um.  Núna mun vera þarna um 100 manna hópur fullorðinna námsmanna í námi sem er á framhaldsskólastigi. Þó að námið sé á framhaldsskólastigi þá fá nemendur námslán og þeir þurfa að greiða skólagjöld. Aðeins hluti þessarra framhaldsskólanema býr á vallarstæðinu. 

Það munu hins vegar vera yfir 1000 íbúar á vallarsvæðinu nú þegar sem leigja af fyrirtæki sem heitir Háskólavellir.  Keilir er með einhvers konar milligöngu um leigu þessara íbúða og hefur tekjur af því. Leiguverð er afar hagstætt, 30 þús. fyrir fína stúdíóíbúð með Interneti og fríum ferðum til Reykjavíkur. Margir nemendur í háskólum í Reykjavík leigja því þarna og eftir því sem ég best veit þá er Norðurál flytja alla starfsmenn sína þangað þ.e. starfsmenn sem munu vinna að framkvæmdum á suðurlandi. 

Staða mála er sem sagt þannig í augnablikinu að starfsemin sem fer fram á vallarsvæðinu er fyrst og fremst leigumiðlun fyrir íbúðir sem þetta fyrirtæki Háskólavellir á. Það er afar einkennilegt að ekki skuli hafa heyrst í neinum athugasemdir um hve óeðlileg svona samkeppni á leigumarkaði er, mér sýnist þetta vera dæmi um  dumping og  undirboð á leigumarkaði. Hugsanlega eru leigusalar og íbúðareigendur  í Reykjavík og Reykjanesbæ ekkert uggandi yfir þessu og finnst þetta allt í lagi, hugsanlega er ennþá svo mikil þensla að þetta gerir ekkert til.

Það er nú þannig að frjáls samkeppni og framboð og eftirspurn geta oft komið neytendum vel en hve eðlileg er samkeppni fólks sem byggir, selur og leigir íbúðir við fyrirtæki eins og Háskólavelli? Hvers konar fyrirtæki er Háskólavellir, hverjir eiga það  og hvernig komst það yfir eignir sínar? 

 Hvaða fyrirtæki er Háskólavellir?

Þegar skoðað er nánar hvaða fyrirtæki Háskólavellir er þá sést að það  er  í eigu fimm félaga og fyrirtækja; Glitnis, Sparisjóðs Keflavíkur, fjárfestingafélagsins Teigs, Fasteignafélagsins Þreks og svo Klasa sem er fasteignafélag tengt bróður fjármálaráðherra. Klasi á 22,5% í Háskólavöllum eins og allir hinir hluthafarnir, fyrir utan Teig sem á 10%.

Fyrirtækið  Klasi mun vera að einhverju leyti  í eigu bróðurs fjármálaráðherra og mun hann stýra því sb. þessa frétt á visir.is:

Fyrirtæki í eigu bróður fjármálaráðherra gæti hagnast um milljarða (frétt á vísir.is)

Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar seldi á sínum tíma eignarhaldsfélaginu Háskólavöllum 96 byggingar fyrir 14 miljarða. Þetta eru að mestu íbúðabyggingar á gamla varnarliðssvæðinu. Þetta munu vera þúsundir íbúða.

Fyrirtækið Háskólavellir virðist hafa komist yfir eignirnar sem það núna falbýður til leigu á Keflavíkurflugvelli á undarlegan hátt.  Það vekur  afar mikla tortryggni hver fjölskyldutengsl Árna fjármálaráðherra eru við þá aðila sem fengu að kaupa þessar eignir, Atli Gíslason  hefur fært rök fyrir því að staðið hafi verið ólöglega að sölu varnarliðseigna til Háskólavalla og það hafi verið handvaldir kaupendur sem þróunarfélagið (þ.e. sá aðili sem sá um söluna fyrir fjármálaráðuneytið) hafi velþóknun á. 

Því spyr ég hvort ég sé ein um að finnast undarleg undirboð á leigumarkaði frá fyrirtæki eins og Háskólavöllum? Sætta fasteignaeigendur og húsbyggjendur  og leigusalar á Suðurnesjum og Reykjavíkursvæðinu sig við svona samkeppni?

Sjá þessa grein sem birtist á dv.is í nóvember síðastliðinn: 

 

 Innlent | 20.11.2007 18:04:43 dv.is
Handvelja kaupendur segir þingmaður VG

Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, gagnrýnir harðlega aðferðina við sölu Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf á 1.700 íbúðum á Keflavíkurflugvelli í haust. Í umræðum um fjáraukalög á Alþingi í dag sagði hann efnislega að salan hefði verið heimildarlaus og ólögleg og hefði ekki fylgt reglum um gagnsætt og opið útboð. Svo virtist sem stjórn Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ohf. hefði handvalið mögulega kaupendur og selt þeim sem hún hafði velþóknun á.

Atli segir í samtali við dv.is að um sé að ræða nýtt Orkuveitumál um heilmildarlausa meðferð almannaeigna og almannafjár. Í Evróputilskipunun, sem um þetta gildi, segi að hlutafélög í opinberri eigu verði að fara að reglum um opið og gagnsætt útboð þegar seldar eru eignir almennings. „Það er ekki hægt að skjóta þessu máli undan opinberu eftirliti. Auk þess er um svo mikil verðmæti að tefla að auglýsa hefði átt útboðið á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta er skýrt brot á 85. grein laga um opinber inkaup númer 84 frá árinu 2007 og reglugerð sem á lögunum byggir.“ Fullyrðingum Atla Gíslasonar, VG, um að lög hafi verið brotin var ekki andmælt á Alþingi í dag.

Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, upplýsti í umræðunum að hann hefði gert samning við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ohf. sem tryggja hefði átt sölu eignanna samkvæmt opnu útboði.
DV greinir frá því í dag að Fjárfestingarfélagið Háskólavellir hafi keypt tæplega 1.700 íbúðir af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar ohf, en að félaginu koma meðal annars Glitnir, fasteignafélagið Þrek í Reykjanesbæ, fjárfestingarfélagið Teigur og fasteignaþróunarfélagið Klasi sem Þorgils Óttar Mathiesen, bróðir fjármálaráðherrans, leiðir. Kaupin voru gerð 5. október síðastliðinn og var söluverð 96 bygginga um 14 milljarðar króna. Einfaldur útreikningur bendir til þess kaupendur hafi greitt 80 til 110 þúsund krónur fyrir hvern fermetra.

Í stjórn Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf sitja Magnús Gunnarsson, stjórnarformaður, Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, og Stefán Þórarinsson, stjórnarformaður Nýsis hf.

 

Fleiri tenglar um Háskólavellir 

Víkurfréttir | Fyrirtæki ársins 2007: Keilir og Háskólavellir ehf.

Af árekstrum hins hörundsára bæjarstjóra - bjarnihardar.blog.is

Samningur um þróun og ráðstöfun eigna á Keflavíkurflugvelli


HB Grandi - konurnar og kvótinn

Núna er í fréttum að HB Grandi á Akranesi hyggst segja upp starfsmönnum landsvinnslunnar á Akranesi.

Það er ágætt að nota þetta tækifæri' þegar fyrirtæki er í fréttum til að spá í hvernig fyrirtæki HB Grandi er. 

Grandi var áður fiskvinnslufyrirtæki í Reykjavík en sameinaðist svo HB á Akranesi. HB Grandi var afskráður af lista Kauphallarinnar að ég held árið 2006. HB Grandi á mikinn fiskveiðikvóta. Þrír lögaðilar (Vogun hf., Fiskveiðahlutafélagið Venus og Hampiðjan hf.) munu eiga samtals 44,48% hlutafjárins.

Ég skoðaði vefsíðu  HB Granda áðan og sé þessar upplýsingar fyrir hluthafa:

 

HB Grandi hf. er almenningshlutafélag með um 800 hluthöfum. 

 

Stjórn HB Granda: 

Árni Vilhjálmsson, stjórnarformaður

Bragi Hannesson

Kristján Loftsson

Halldór Teitsson

Hjörleifur Jakobsson

Varamaður:

Guðmundur A. Birgisson

 

Helstu stjórnendur:

Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri,

Jóhann Sigurjónsson, fjármálastjóri,

Rúnar Þór Stefánsson, útgerðarstjóri,

Svavar Svavarsson, markaðsstjóri,

Torfi Þ. Þorsteinsson, framleiðslustjóri,

Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávardeildar

Er ekki einkennilegt að það skuli bara vera karlmenn í stjórn þessa fyrirtækis og í röð helstu stjórnenda? Er ástandið kannski þannig alls staðar þar sem sýslað er með réttinn til að nýta auðlindir hafsins við Ísland?  

Ég held að það hafi mest verið  konur sem núna misstu vinnuna á Akranesi.


mbl.is Stefnt að því að endurráða 20
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til í allt með Villa

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sendu skýr skilaboð út í samfélagið þegar þau leyfðu tveimur mönnum þ.e.  Vilhjálmi fyrrum borgarstjóra og Kjartani Magnússyni 4 manni á lista Sjálfstæðismanna að  ginna Ólaf F. Magnússon til samstarfs  og bjóða honum borgarstjórastól í Reykjavík og bjóða kúvendingar Sjálfstæðismanna í ýmsum málum og  veita af rausn nokkur hundruð milljónum af fé borgarbúa í uppkaup á gömlum húsum til að liðka til fyrir plottinu. Þau opinberuðu fyrir okkur borgarbúum ábyrgðarleysi sitt  í fjármálum borgarinnar og þau sýndu líka ábyrgðarleysi sitt og dómgreindarleysi  í stjórnsýslu borgarinnar með því að leggja blessun sína yfir að Ólafur F. Magnússon yrði borgarstjóri. Þau sýndu líka siðleysi með því að notfæra sér aðstæður Ólafs og samþykkja hann sem borgarstjóra í Reykjavík þrátt fyrir að ekkert bendi til þess að hann sé hæfur og góður kanditat í það  embætti.

Það er ekki það að Ólafur F. Magnússon sé fulltrúi lítils hluta kjósenda sem skiptir máli, svona samstarf hefur oft lukkast vel þó að fulltrúi lítils stjórnmálaafls sé í leiðtogasæti, það má minna á aðstæður í Kópavogi, þar var Sigurður Geirdal  í mörg kjörtímabil bæjarstjóri í farsælu samstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, hann var fyrsta kjörtímabilið eini Framsóknarfulltrúinn.  Það þarf hins vegar ekki annað en skoða framgöngu Ólafs F. í stjórnmálum undanfarin ár og skoða hve bakland hans meðal eigin fylgismanna og nánustu samherja er veikt til að sannfærast um að hann hefur ekki til að bera þá  stjórnvisku, elju, dómgreind, samvinnulipurð og  hæfileika til að sjá aðalatriði í málum sem borgarstjóri þarf. Ólafur F. er viðkvæmur hugsjónamaður og hugmyndir hans eru sumar góðar og framsýnar en hann hefur með verkjum sínum undanfarin ár sýnt að hann rekst ekki vel í stjórnmálasamvinnu og hann er ekki maður málamiðlana.

Hvernig getum við borgarbúar treyst því að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins  taki málefnalega afstöðu og gæti hagsmuna borgarbúa þegar þau eru tilbúin til að nota borgarstjórastólinn sem skiptimynt í hrossakaupum og hvernig getum við treyst því að þau taki málefnalega afstöðu þegar þau eru tilbúin að skipta um skoðanir eins og vindhanar sem snúast í roki. Varðandi húsin sem þau samþykktu núna í vikunni að borga um 550 milljónir fyrir þá má rifja upp að 4. september síðastliðinn lögðu borgarfulltrúar F-lista og VG lögðu fram svohljóðandi tillögu:

"Borgarstjórn samþykkir að fela borgarstjóra að leita leiða til þess að borgin festi kaup á húsunum við Laugaveg 4-6 í því skyni að varðveita þau í því sem næst upprunalegri mynd."

Hvernig fór atkvæðagreiðslan?
Hún fór svona:

Já sögðu: Árni Þór Sigurðsson, Margrét K. Sverrisdóttir, Oddný Sturludóttir og Svandís Svavarsdóttir.

Nei sögðu: Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Björn Ingi Hrafnsson, Gísli Marteinn Baldursson, Jórunn Frímannsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Hanna Birna Kristjánsdóttir.

Sátu hjá: Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson og Sigrún Elsa Smáradóttir.

Tillagan var því felld með 8 atkvæðum gegn 4.

Núna er tími jakkafata og hnífasetta í íslenskum borgarmálum. Það væri gaman að reikna út hve mörg jakkaföt er hægt að kaupa fyrir þær nokkur hundruð milljónir sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja núna spreða í hús sem þau voru alfarið á móti að kaupa fyrir fjórum mánuðum. 

Það er líka ansi skrýtið hve ósýnileg Hanna Birna og Gísli Marteinn eru í þessu nýja borgarstjórnarplotti. Getur verið að þau hafi ekki verið höfð með í ráðum? Getur verið að þetta sé eitthvað einkaplott Vilhjálms og Kjartans sem er 4. maður á lista Sjálfstæðismanna? Það verður að segjast eins og er, við borgarbúar erum að upplifa þau sem þó ættu að vera í oddvitahlutverki sem undarlega valdalaus í eigin flokki. Það skilur ekki nokkur maður hvernig í ósköpunum hægt er að semja upp á þá kosti að Vilhjálmur verði aftur borgarstjóri. Er Hanna Birna virkilega sátt við það? Eða er verið að blekka borgarana og búið að semja um eitthvað annað undir borðið?

Það er gott að hafa til hliðsjónar hver þau eru borgarfulltrúar Sjálfstæðismanna og í hvaða röð. Þau sem núna virðast vera til í allt með Villa og án þess að hafa neinn sjálfstæðan vilja: 

  1. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson 
  2. Hanna Birna Kristjánsdóttir 
  3. Gísli Marteinn Baldursson 
  4. Kjartan Magnússon 
  5. Júlíus Vífill Ingvarsson 
  6. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir 
  7. Jórunn Ósk Frímannsdóttir

Tenglar í önnur Til í allt með Villa blogg

Orðið á götunni: Til í allt með Villa 


mbl.is Segir Morgunblaðið hafa gert Ólaf að vígvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að brjóta niður fólk

Það er stundum  örmjó markalína milli þess að  vera friðsamleg mótmæli og þess að vera skrílslæti. Það sem ég sá í fréttum frá mótmælum á áhorfendapöllum Ráðhússins og heyrði í beinni útvarpsútsendingu þaðan var hins vegar bara eitt, þetta var langt frá markalínunni - þetta voru skrílslæti. Þetta voru ekki friðsamleg mótmæli. Þetta segi ég þó ég sé svarinn andstæðingur þeirrar stjórnar sem tók við í dag, stjórnar undir forustu manna sem hafa ekkert traust, stjórnar sem er svo veik að borgarstjórinn nýtur ekki einu sinni trausts sinna næstu manna á lista og á í erfiðleikum með að úthluta þeim nefndarsætum sem í hluta hans stjórnmálaafls koma vegna þess að hans nánustu samherjar og næstu menn á listum vilja ekki taka þátt í þessari stjórn. En mér vitanlega höfðu þeir menn sem nú mynduðu stjórn fulla heimild til þess og við verðum að virða leikreglur lýðræðisins jafnvel þó við höfum ímugust á þeim sem veljast í stjórn.

En það var annað sem mér fannst sárt að horfa á í dag. Það var að horfa á kát og glöð ungmennin sem hrópuðu ókvæðisorð á pöllum Ráðhússins án þess að átta sig á því að verknaður þeirra var ennþá einn liður í að grafa undan lýðræði í þessu landi og liður í að  búa til meiri skrípaleik úr þessu máli. Sá grunur læddist einnig að mér að ef til vill væri þessi mótmæli skipulögð  og samstillt af eldri og reyndari fólki með aðallega einn tilgang í huga. Þann tilgang að koma Ólafi F Magnússyni aftur í veikindafrí.  


mbl.is Hávær mótmæli í Ráðhúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samvinna um stuttmyndagerð - Kaltura

Oft er stafræn stuttmyndagerð kölluð margmiðlun og þá er vísað til þess að maður er að blanda saman vídeó, hljóði og myndum. Ef til vill er sniðugra að fara að nota orðið margmiðlun um miðlun þar sem margir semja saman efnið og það kemur úr ýmsum áttum fremur en að það séu margar miðlunarleiðir notaðar. Ég hef tekið saman og sett á nokkrar vefsíður leiðbeininigar um stuttmyndir fyrir vefinn þær leiðbeiningar miða eins og er fyrst og fremst við að stuttmyndir séu settar saman í Moviemaker og svo settar á vefinn inn á Youtube. Moviemaker er fínt og einfalt verkfæri og fylgir Windows svo ekki þarf að borga fyrir það. Nú er það hins vegar þróunin að ýmsar vefþjónustur bjóða upp á möguleika til að setja saman stuttmyndir m.a. er það hægt í youtube og photobucket.

En þróunin heldur endalaust áfram og tæknimöguleikarnir opna nýjar og spennandi leiðir til að vinna saman. Einkenni á vefumhverfi nútímans er að auðvelt er fyrir marga að vinna að sama viðfangsefninu. Gott dæmi um slíkt eru skrif á Wikipedia þar sem margir geta verið að vinna í sömu greininni og smán saman er bætt við meiri og meiri upplýsingum. 

En wikisamvinnan er löngu hætt að snúast bara um texta. Það hafa verið þróuð og eru í þróun margs konar verkfæri sem eru samvinna um annars konar efni. Eitt skemmtilegt samvinnuverkfæri er samvinna um að setja saman stuttmyndir fyrir vefinn. 

Sennilega eigum við eftir að sjá svona verkfæri í notkun á Wikipedia fljótlega. En núna er hægt að gera tilraunir með þetta á Wikieducator, sjá þessa síðu Collaborative Video - Help and Sandbox 

Það er notað vefverkfæri til stuttmyndagerðar sem heitir  Kaltura og það getur líka hver sem er prófað það og stofnað notendasvæði á kaltura.com. Ég gerði það og setti þar inn  örlitla prufu, nokkrar myndir og vídeóklipp og hver sem er getur hrært í þessu og breytt vídeóinu, sjá þessa slóð hérna

 Ég á nú reyndar að geta límt vídeókóðann inn í blogg. Best að athuga hvort moggabloggið leyfir það. Þetta virkar fínt og nú er þetta sem sagt dæmi um stuttmynd sem hver sem er getur bætt við eða breytt að vild alveg eins og síða á wikipedia. Þetta er snilldartækni. Svona gæti fólk sem er statt hér og þar í heiminum búið til saman vídeó t.d. um samtímaatburði. Endilega prófið að breyta vídeóinu mínu! Þetta er bara prufa og allt í lagi þá allt fari í skrall. Það þarf að vera innskráður á Kaltura til að breyta en það er einfalt að innskrá sig og kostar ekkert.


Erfðaréttur barnsins Jinky Ong

Ættingar Fischer kanna nú rétt sinn til erfða. Bobby Fischer virðist hafa verið kvæntur. Á visir.is er því haldið fram á ekkja Bobby Fischer erfi 140 milljónir þ.e. að hún erfi allar eigur Bobby Fischer. Samkvæmt íslenskum lögum myndi hún gera það ef  engin börn eru.

Það er hins vegar víða talað um að Bobby Fischer hafi eignast dóttur sem fædd var árið 2000. M.a. segir í grein Nytimes "He never married, but had a daughter, Jinky Ong, in 2000 with a companion, Justine Ong, in Manila. The child is his only immediate survivor."

 

Í  íslenskum erfðalögum stendur  að óskilgetið barn erfir föður  ef það er feðrað með þeim hætti, sem segir í löggjöf um óskilgetin börn. Maki erfir 1/3 hluta eigna en börn annað. Ef skylduerfingjar eru til staðar þ.e. börn þá er einungis heimilt að ráðstafa 1/3 hluta eigna með erfðaskrá.

 

Spurningin er því hvort að barnið Jinky Ong sé til og hvort hún sé dóttir Bobby Fischer og hvort  íslensk erfðalög gildi ekki um Fischer þar sem hann er íslenskur ríkisborgari búsettur á Íslandi og ef svo er hvort að aðstandendur barnsins átti sig ekki á því að þeir verða að gera kröfu í búið og uppfylla skilyrði um feðrun. Ég veit reyndar ekki hver þó skilyrði eru en ég geri ráð fyrir að líffræðileg sýni séu nægjanleg, ég bendi á feðrunarmál sonar Hermanns fyrrum forsætisráðherra Íslands. 

 

Það eru sögusagnir um að Bobby Fischer hafi verið rangfeðraður. Hann hafi raunverulega verið sonur eðlisfræðingsins  Nemenyi sem reyndar kom síðar til USA og kenndi við háskólann þar sem ég lærði þ.e. University of Iowa.

 

Það er líka birt á netinu á skáksíðu mjög undarleg saga um barn mannsins Robert Nemenyi.

Hún er svona: 

 

"Tim Krabbe writes:

206. 9 March 2003: How Jinky Ong came into the world

In May 2000 Robert Nemenyi, a 57-year old Hungarian-American Jew, arrived in the Philippines, fresh from a Japanese jail, where he had spent some time after being caught at Narita Airport with some hemp he had tried to import from Germany.
He was looking for a woman who would cooperate in fulfilling his long-felt wish to perpetuate his genes. Eight years earlier, Nemenyi's genes had almost returned to their roots when he impregnated a young Hungarian woman (heavens no, not one of them), but on second thought, she had gotten rid of these genes.
This time however, a Filipino friend of Nemenyi's, whom we will call Gene for the occasion, set him up in a cottage in Baguio City, and presented him with a series of willing gene-carriers, from whom Nemenyi chose 22-year old Justine Ong. A contract was signed, Justine received the genes, and nine months later she gave birth to a girl, who now grows up in Davao City, under the name of Jinky Ong."

http://www.xs4all.nl/~timkr/chess2/diary_11.htm

 Ég vona að ef Fischer á barn þá verði ekki gengið framhjá henni varðandi erfðamál og hún og aðstandendur hennar verði upplýst um þau réttindi sem þau hafa samkvæmt íslenskum lögum.  


mbl.is Kannar lagalegan rétt ættingja Fischers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jarðarfararsvipur 2

Ég er ekki að skynja neina gleði  úr svipnum á borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins yfir hinum nýja borgarstjórnarmeirihluta. Nema auðvitað hjá Vilhjálmi, hann hefur allt að vinna en engu að tapa því að hann er rúinn æru og trausti og ekki er líklegt að framtíð hans verði löng í stjórnmálum úr þessu. Það var mikilvægt fyrir hann að ná fram einhverri betri stöðu en hann er í núna og þetta var leið til þess. Mér finnst vera svipaður jarðarfararsvipur og var fyrir rúmum hundrað dögum en þá skrifaði ég bloggið Jarðarfararsvipur

villan3Ég held að hinir borgarfulltrúarnir átti sig á hve hálum ís þeir eru á og hvað þetta nýja kúpp getur komið í bakið á þeim. Þeim mun verða kennt um það að eilífu ef Ólafi farnast illa af því að vera leiksoppur í höndum þeirra. Það trúir því reyndar ekki nokkur maður að Vilhjálmur verði borgarstjóri aftur, það hefði Hanna Birna og hinni borgarfulltrúarnir tæplega sætt sig við. Það er hins vegar allt í lagi að halda því á lofti núna svo Vilhjálmur haldi andlitinu. Ég hugsa að það hafi verið samið um að hún taki við eftir Ólafsdaganna, það hefur alltaf verið gott púst inn í kosningabaráttu í Reykjavík að hafa verið borgarstjóri.

Sú var tíðin að Sjálfstæðismenn hlógu að Ólafi og tillögum hans. Sú var líka tíðin að þeir hikuðu ekki við að svíkja hann. Nú þurfa þeir á honum að halda.

Ólafur var í Sjálfstæðisflokknum en sagði sig úr honum í desember 2001.

Ólafur sagðist þá knúinn til þess að hætta í flokknum og sagði hann í viðtali við Morgunblaðið að teningunum hafi verið kastað á landsfundi Sjálfstæðisflokksins það ár en þá bar hann upp sáttatillögu í virkjanamálum sem var tekið fálega og raunar var beinlínis hlegið að tillögum hans.............................

Í síðustu kosningum fékk flokkur Ólafs um tíu prósent atkvæða og rekja margir þá góðu útkomu til eindregnar afstöðu Ólafs í flugvallarmálinu en hann var eini stjórnmálamaðurinn sem lýsti því yfir að flugvöllur ætti að vera í Vatnsmýri um aldur og eilífð.Eftir þá góðu útkomu héldu sumir, þar á meðal Ólafur sjálfur, að meirihluti yrði myndaður með þáttöku sjálfstæðismanna og Ólafs. Annað kom á daginn og sjálfstæðismenn náðu samkomulagi við Björn Inga Hrafnsson, framsóknarflokki.

Á þeim tíma var Ólafur afar ósáttur við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og taldi hann hafa svikið sig þegar hann náði samkomulagi við Björn Inga á sama tíma og hann hélt Ólafi heitum.

Haustið 2006 tók Ólafur sér frí frá borgarmálunum vegna veikinda sem hann hefur aldrei tjáð sig um á opinberum vettvangi. (sjá Hver er þessi Ólafur F. Magnússon?

Þetta er ekki gæfuleg stjórn í Reykjavík. Fram hefur komið að Ólafur sem þó er eini fulltrúi sinnar stjórnmálahreyfingar nýtur ekki einu sinni stuðnings síns varafulltrúar. Fram hefur líka komið að innan raða borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er gífurleg óánægja með stjórnarhætti Vilhjálms. Það er alveg óhætt að fullyrða að Vilhjálmur nýtir ekki stuðnings Reykvíkinga. Dagur Eggertsson gerði það hins vegar og allt benti til þess að stjórnin sem núna fer frá hafi verið að vinna í sátt að uppbyggingarstarfi í Reykjavík og stefnumótun í orkumálum.

 


mbl.is Ingibjörg Sólrún: telur nýjan meirihluta óstarfhæfan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég sendi út beint frá Villa vitleysunni

Ég sendi út beint frá skrifstofu minni

 
*** Útsendingunni er lokið ***

þetta er reyndar ekki  neitt sérlega myndrænt, bara ég alltaf í mynd en ég var að æfa mig að svissa á milli hljóðupptöku, stundum er ég að tala og lýsa því sem ég heyri í útvarpinu og stundum tengi ég beint yfir á útsendinguna  á Rás 2.

*** tók þetta út því þetta byrjaði að spila um leið ég fór á bloggið, það var allt of mikið. **

ég notaði kerfið ustream.tv en hver sem er getur búið sér til rás í því kerfi og sent út á netið (streymimiðlun).




mbl.is Nýr meirihluti kynntur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartur mánudagur

 Vísir  heldur að Ólafur sprengi til að komast í kompaní með Vilhjálmi. Ég vona að ekkert sé satt í þessu, þetta er vísir á óstjórn í Reykjavík. Það er margt ágætis fólk í borgarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn en Vilhjálmur nýtur ekki trausts lengur og vandséð að það komi nokkurn tíma aftur.  Það er hroðalegt að hafa stjórn í Reykjavík sem bara lafir og sem nýtur ekki trausts. Ólafur er ágætur en það er ekki gott að hafa borgarstjóra sem er fulltrúi svona fárra Reykvíkinga. Ólafur er  margra hluta vegna ekki heppilegt borgarstjóraefni.

Það er ferlegt að hafa bara eins manns meirihluta. Ég held að svona sviptingar geri ekki annað en veikja stjórn borgarinnar. Ég er ágætlega sátt við það stjórnarmynstur sem núna er í ríkisstjórn þó ég styðji hvorugar flokkinn. Úrslit kosninganna voru hins vegar þannig að þetta eru stærstu flokkarnir, þeir hafa góðan meirihluta og liðstyrkur þeirra og áhrif þeirra í stjórnsýslunni endurspegla vilja landsmanna. Það er lýðræðislegt.

En það var nú reyndar ljóst að Sjálfstæðismenn myndu róa að því öllum árum að komast aftur til valda. Mér hefði fundist samt fundist skynsamlegra hjá þeim að skipta út oddvita sínum fyrst.

Nýr meirihluti boðar blaðamannafund klukkan 19:00

Fundað stíft um nýjan borgarstjórnarmeirihluta

En ég hef meiri áhyggjur af öðru... Allt er á fallanda fæti í peningaheiminum 

Eignamenn sem og launþegar sem fá borgað í íslenskum krónum eru að tapa stórt þessa daganna. Við munum öll finna fyrir því.  Kaupið okkar dugar skemur þegar gengið hefur á smátíma fallið um meira en 10% og núna er biksvart á hlutabréfamarkaðnum hérlendis sem og erlendis. Þetta er versti dagurinn  frá 11. september 2001 fyrir FTSE100 vísitöluna. 

Hér er yfirlit yfir stærstu dýfur þeirrar vísitölu

20/10/87 down 12.2%
19/10/87 down 10.8%
26/10/87 down 6.2%
11/09/01 down 5.7%
22/10/87 down 5.7%
 
Alls staðar í heiminum fellur gengi hlutabréfa. Hlutabréf endurspegla væntingar og trú á framtíðina. Hlutabréfamarkaðir eru lokaðir í Bandaríkjunum í dag vegna fría og það verður spennandi að sjá hvað gerist þegar þeir opna á morgun. Það er bölsýni í lofti og fjárfestar hafa ekki trú á að áætlanir Bandarískra stjórnvalda bæti ástandið.
 
Sennilega er góðærið liðið hérna á Íslandi. Kannski stoppar allt í byggingu, svipað og gerðist með Rimahverfið á sínum tíma. Það var skrýtið að sjá þar heilu blokkirnar sem voru í byggingu og enginn vann lengur í því að engir keyptu. Smán saman fóru nýbyggingarnar sem aldrei neinn hafði flutt inn í að líkjast rústum. 
 
 

BBC - Global shares tumble on US fears

CNNMoney: Stocks fall sharply worldwide

 


mbl.is Mikil lækkun hlutabréfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útlitsblæti, litgreiningar, fataúthlutanir og hnífasett

Hér eru 4 mínútur af þessu furðulega viðtali  við Guðjón Ólaf Jónsson í Silfri Egils í dag. Það er ekki hægt annað en kíma af furðulegheitunum og dómgreindarskortinum  í Guðjóni Ólafi sem segist vera með mörg hnífasett í bakinu eftir Björn Inga fyrrum vin sinn. Það er eitthvað svo myndrænt að sjá Guðjón Ólaf fyrir sér eins og steinaldareðlu sem virkar í fyrstu með brodda upp úr bakinu en þegar grannt er skoðað þá eru broddarnir samsettir úr rýtingum sem gengið hafa manna á milli í hjaðningavígum Framsóknarmanna.

 

Þetta er næstum eins fyndin myndræn líking og myndin af Halldóri og Guðna eftir hann Halldór Baldursson þar sem þeir eru á húsþaki og Halldór hoppar niður og heldur að Guðni ætli að fylgja sér til Heljar en Guðni er nú ekkert á því og lætur Halldór hoppa einan af stallinum. Það er ein skemmtilegasta skopmynd  íslenskra stjórnmála síðustu ára. En Halldór Baldurrson er ekki með þá mynd á moggablogginu sínu og ég finn hana því miður hvergi á Netinu. En ég fann þessa mynd hjá Halldóri sem hann gerði 2006 og hver skyldi vera þessi ljóshærði sem hefur saxað allt kvikt niður í spað? Geir Harde veit það alla vega ekki.

 

Ein af stóru ávirðingunum sem Guðjón Ólafur hefur á Björn Inga er að Björn Ingi hafi sagt að hann (þ.e. Guðjón Ólafur) hafi engan kjörþokka og hafi frekar viljað að hann sjálfur (þ.e. Björn Ingi) væri í framboði heldur en Guðjón Ólafur.  Ég skil vel að Guðjón Ólafur sé spældur út af því, það er sárt að heyra svona um sjálfan sig. En þetta sýnir nú bara að Björn Ingi hefur þúsundfalt betra pólitísk nef en Guðjón Ólafur og jafnmikinn metnað og er mörgum sinnum klárari. Það þarf reyndar ekkert sérstakt næmi í stjórnmálum til að skynja að kjörþokki Guðjóns Ólafs er langt undir frostmarki og það þarf ekki annað en líta yfir ferill hans innan Framsóknarflokksins í Reykjavík undanfarin ár til að skynja að það er verulega hættulegt lýðræði í landinu að menn sem viðhafa sömu vinnubrögð  og hafa sömu sýn og Guðjón Ólafur séu í valdastöðum í stjórnmálum. 

En meira um meint útlitsblæti og fataúthlutanir Framsóknarflokksins.

Þetta er orðið spennandi  að leita að ummerkjum um þær pjötlur sem Framsóknarflokkurinn er að spreða í austur og vestur og ég hef eins og  Haukur Logi lagst í rannsóknarbloggmennsku um fötin og fundið merki um gengdarlaust fatabruðl Framsóknar í kosningabaráttunni 2006  í Reykjavík , hér er mynd sem ég tók af því þegar stelpur sem máluðu krakka á fjölskylduskemmtun í þeirri kosningabaráttu voru leystar út með gjöfum. Eins og sést á myndinni þá fengu þær boli með framsóknarmerkjum að gjöf. Ég sá sjálf mörg dæmi um það í kosningabaráttunni að fólk fékk boli. 

xIMG_0025

Ég átta mig á því að ég kemst ekki með tærnar þar sem Haukur Logi hefur hælana, ég er bara með sönnun um vesæla boli en Haukur Logi hann sá jakkafötin hanga einhvers staðar.  

En mikið er ég fegin að mesti óhróðurinn sem Guðjón Ólafur getur sagt um Björn Inga er að Björn Ingi hafi skynjað að Guðjón Ólafur hafði ekki kjörþokka og ætti ekki að vera ofarlega á listum og að mesta fjárhagshneisan og spillingardæmið sé að einhver kosningasjóður í Reykjavík hafi hugsanlega tekið þátt í einhverjum jakkafatakaupum frambjóðenda í eldlínunni.  Það hneykslar mig ekkert sérstaklega mikið.

En núna á þessum tímum þegar Blóðið fossar í Framsókn er ágætt að lesa spjaldið sem stelpan heldur á hér á myndinni fyrir ofan þegar hún tekur við bol frá Framsókn.

Þar stendur "Allir þurfa á kærleika að halda".
Líka Framsóknarflokkurinn.

 

Til minnis  (bloggumræða um framsókn o.fl.)

Minnisleysi stjórnmálamanna...REYmálið - Byrgismálið....eða vita ekki.......?

Pólitísk spilling.......?

Vinur er sá sem til vamms segir

 

 

 


mbl.is Með mörg hnífasett í bakinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband