Þann 7 febrúar 2006 # skrifaði ég á bloggið mitt eftirfarandi hugleiðingu:
Við skulum þekkja úlfinn þegar við sjáum hann en ekki endilega smíða með orðum okkar og hugsunum utan um hann sauðagæru vegna þess að við viljum að hann sé meinlaus. Annar kaflinn af bóksalanum í Kabúl endar á þessum orðum, sviðið er eftir 11. september, eftir að ríki talibana féll:
"Morgun einn stóð hann í búð sinni með glas af sjóðheitu tei og sá að Kabúl hafði vaknað til lífsins. á meðan hann lagði á ráðin um það hvernig hann gæti látið draum sinn rætast hugaði hann um setningu eftir uppáhaldskáld sitt, Ferdusi: "Til þess að lánið leiki við þig þarftu stundum að vera úlfur, stundum lamb."
Nú er mál til komið að vera úlfur, hugsaði Sultan."
Núna er skopmyndirnar dönsku og myndbirting af Múhammed spámanni aftur í sviðsljósinu út af því að reynt er að myrða einn teiknarann. Dönsk blöð birta myndirnar og danski fáninn er brenndur í Pakistan út af skopmyndinni af Múhammeð með sprengjuhött (Dannebrog brændt i Pakistan). Það eru núna um tvö ár síðan ég ákvað að gerast Dani. Það var 7. febrúar 2006. Þjóðernið er samt ekkert tengt búsetu eða vegabréf, þjóðerni og samsömum við hóp er hugarástand.
Við Danir erum mjög frjálslyndir og víðsýnir og þess vegna er sjálfsagt að rýna í framandi menningu og reyna að skilja hana. Ekki ætlum við að láta saka okkur um fordóma gegn Íslam.
Ég reyni því að kynna mér málið eins vel og ég get og skilja andstæðinginn en það merkir ekki að ég ætli að verða eins og andstæðingurinn og taki undir það sem mér finnst óverjandi kúgun og mannréttindabrot.
Ein bók kom nýlega út á Íslandi sem ég ætla að lesa við tækifæri. Það er bókin Íslam með afslætti en þeirri bók ritstýra þau Óttar M. Norðfjörð og Auður Jónsdóttir
Nú verður það að viðurkennast að ég hef fyrirfram botnlausa fordóma gagnvart þeirri bók. Reyndar held ég að hún sé svo léleg að hún verðskuldi sérstakan sess í íslenskri bókmenntasögu fyrir að vera skerandi og hjáróma falsetta. Að hluta til af því sem ég hef lesið í umsögnum fólks sem ég tek mark á, Egill silfraði skrifar bloggið Beiðni um ritskoðun þar sem hann segir:
" Í bókinni eru tveir þræðir sem mega kallast rauðir. Annars vegar er því mestanpart hafnað að heiminum stafi ógn af öfgafullu íslam, hugmyndin er frekar að við ættum að uppræta fordóma gagnvart íslam úr eigin brjósti. Það erum við sem eigum að hafa samviskubit; uppgangur íslamismans er okkur að kenna en ekki þeim.
Hins vegar mikið fjallað um dönsku skopmyndirnar (reyndar furðu seint finnst manni) og er nokkuð eindregin niðurstaða að það hafi verið rangt að teikna þær og birta þær og að sökin á látunum liggi hjá Dönum."
Að hluta til er fordómar mínir gagnvart þessari bók persónulegir.
Þannig er að hún vakti mig til umhugsunar um hvað væri mér svo heilagt að ég myndi ekki vilja láta hafa það að háði og spotti. Það fyrsta sem kom upp í huga minn var minning móður minnar. Þá mundi ég eftir því að Óttar M. Norðfjörð annar ritstjóri bókarinnar hlaut mikla fremd fyrir skopverk sitt Ævisaga Hannesar sem hann nefndi Nóttin er blá - Mamma þar sem hann færir sér í nyt umfjöllun um bróður minn sem þá lá fremur vel við höggi. Svo hefur fjölskylda Auðar hins ritstjórans tekið upp á einhvers konar listiðju sem Þórarinn maður Auðar hefur gefið nafn, hann kallað það "Listina að hata Hannes" og er þeirri list einmitt beint að bróður mínum sem hefur dirfst að fjalla um verk afa Auðar og nota bréfasafn það sem amma Auðar gaf sumum í þjóðinni aðgang að. Það var einhver smámiskilningur á sínum tíma, fólk hélt að orðalagið að gefa þjóðinni bréfasafn Halldórs Laxness merkti að allir ættu að hafa að geta skoðað það, það gleymdist að taka fram að aðeins mættu þeir fjalla um skáldið sem fjölskylda Halldórs hefði velþóknun á. Þessi hannesarhaturslistsköpun Þórarins sem er afburða skopteiknari er reyndar fólgin í orðum en ekki skopteikningum og þeim fremur rustalegum. Bloggsíður Þórarins voru lagðar fram fyrir héraðsdóm Reykjavíkur á sínum tíma. Þessi hatursskrif Þórarins vöktu athygli margra á honum sem hannesarhaturslistamanni eða eigum við kannski að segja hommahaturslistamanni því hann beraði fordóma sína gagnvart samkynhneigðum og reyndar tók út skrifin eftir að DV birti þau og skrifaði svo:
"Daginn eftir að þessi færsla var skrifuð birtist ömurleg grein í DV. Einhver góðviljaður lesandi sendi mér skann. Uppistaðan af greininni var rugl sem ég var búinn að taka út af blogginnu mínu, bæði vegna beiðni frá samtökum 78 og vegna þess að ég sá eftir að hafa skrifað eitthvað sem gat sært samkynhneigða. Margir af mínum kunningjum eru hommar eða lesbíur og einn svalasti vinur minn er transsexual."
Þessi texti Þórarins er tær snilld. Nú veit ég ekki hvort Þórarinn er einn af teiknurum í bókinni Íslam með afslætti en það myndi nú gera þá bók ennþá flottari, hún yrði þá ennþá meiri falsetta. Nú vil ég taka fram að Auður er kannski ekki þátttakandi í þessari listgrein að hata Hannes en hatur Þórarins á bróður mínum virðist vera í tengslum við ætterni Auðar.
Sem sagt, fordómar mínir fyrir bókinni Íslam með afslætti eru óhemjumiklir en ég ætla nú samt að skanna yfir bókina við tækifæri og vita hvort hún getur ekki orðið mér innblástur í einhvers konar hugleiðingar um heiminn sem við lifum í. Mér finnst þetta flott hugmynd að láta mér detta í hug hvað það væri sem ég barasta þyldi ekki að fólk skopaðist að og hvort ég myndi sprengja það í loft upp.
Það var vissulega nístandi að koma í bókabúð Máls og Menningar rétt fyrir jólin 2005 og sjá þar Óttar M. Norðfjörð á stalli að árita skoprit sitt "Nóttin er blá Mamma" og vita að í því riti var vísað til mömmu minnar og minning hennar vanvirt og þessi gjörningur var af hálfu bókaútgáfunnar partur í að sparka í liggjandi mann þ.e. bróðir minn og hæða hann. Það var hins vegar ekkert nístandi að lesa hommahaturskrif Þórarins Leifssonar, ég varð bara undrandi yfir flónskunni og vorkenndi honum og fólkinu í fjölskyldu hans. En bæði Óttar og Þórarinn eru listamenn og þó það svekki mig að þeir skuli hafa sem viðfang listsköpunar sinnar að hæðast að og svívirða fólk í fjölskyldu minni og þjóðfélagshópa sem eru ofsóttir þá er það einn partur af tjáningarfrelsi þeirra.
Ég styð af alefli listsköpun Þórarins og Auðar og Óttars og megi þau og aðrir teikna heiminn upp í máli og myndum og berjast með orðum og teikningum. Þessi mynd hérna til hliðar er mynd sem var með síðasta pistli Þórarins og Auðar í Morgunblaðinu.
Ég vil búa í samfélagi þar sem umburðarlyndi ríkir gagnvart tjáningu og listsköpun en ég vil líka búa í samfélagi þar sem ekki er umburðarlyndi gagnvart tilburðum til að sprengja fólk og myrða. Ég vil líka búa í samfélagi þar sem þegnarnir hafa sem mest frelsi og þar sem gæðum er sem jafnast dreift.
Það er reyndar magnað að á sumum tímum í veraldarsögunni hefur verið barist um trúfrelsi, nú er tekist á um frelsi til að gera grín að trú.
Skopmyndin efst er frá www.nicholsoncartoons.com.au