Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Hvað ef Annþór bloggaði?

Baggalútur flytur okkur þessa skemmtilega frétt um aftöku Blogg-Böðvars:

baggalutur-bloggbodvar100ara

Blogg-Böðvar var náttúrulega einn af þjóðsagnahetjum okkar, furðulega gleymdur þangað til Baggalútur minnti okkur á tilveru hans. Sagnfræðingar hafa meira velt fyrir sér bloggi Jóns Sigurðssonar og svoleiðis opinberra hetja.

 

Annþór

 Handrukkarinn Annþór  Karlsson var í fréttum nýlega vegna þess að hann strauk úr varðhaldi og fór huldu höfði um tíma og bauð vinum sínum í 32 ára afmælisveisluna sína. Hann fann band og  hoppaði niður af annarri hæð og strauk. Hann er þrekvaxinn og með ljóst hár. Annþór er talinn hættulegur.

Þessi flótti er nú það manneskjulegasta sem ég hef séð um Annþór fyrir utan náttúrulega sunnudagsskólabrosið á myndum af honum, það er erfitt að trúa því að hann sé eins vondur eins og af er látið þegar maður horfið á þetta bros og pælir hvað honum er umfram um að gleðja vini sína með afmælisveislu. En hann var handtekinn á afmælinu sínu. Dáldið öðruvísi en á mínu afmæli þegar Kastljóskrúið mætti og tók viðtal við mig út af minni bloggtjáningu.

Svarthöfði líkti nýlega Annþóri við Grettir Ásbjörnsson fornkappa okkar og það var nokkuð góð lýsing. Sennilega hefði Grettir lítið getað fótað sig í nútímanum og helst haft ofan af sér við að hræða fólk og lemja og ræna og rupla.  Samfélag okkar er ekki sérlega hliðhollt berserkjum sem vilja feta beinu brautina en hafa litla færni í öðru en að beita valdi og lúskra á samborgurum.  Hann  hefur langan afbrotaferil sem hófst fyrir alvöru þegar hann var fimmtán ára. Hann lemur fólk og limlestir, flytur inn dóp og gerir mestanpartinn eitthvað sem ekki er löglegt. Ég held ekki að áframhaldandi dvöl á Litla Hrauni geri Annþór neitt betri. Dagblaðið í dag er með ágæta úttekt um fangelsismál og bendir á hve margir fangar hreinlega deyja í betrunarvistinni, það eru 47 fangar látnir  og þeir koma svo sannarlega ekkert betri út aftur.  Það er fróðlegt að bera saman Litla Hraun og Breiðavík varðandi árangur af dvölinni.

Ég velti fyrir mér hvort ein leið til að bæta fangelsin, sérstaklega bæta möguleika fanga til að koma út betri menn sé ekki að þeir fái að tjá sig. Ég held að blogg sé ein leið til þess. Við reyndar sjáum að akkúrat núna þá eru margir af mest lesnu bloggurum landsins einmitt að skrifa lífsögu mikilla hörmunga, glímu við sjúkdóma og nokkur blogg sem ég les eru frásagnir mæðra sakamanna og fíkla eins og Annþórs.  Ég held að þessi blogg hjálpi fólki að takast á við erfiðar aðstæður. 

Ég held að það myndi hjálpa Annþóri og öðrum sakamönnum í haldi að blogga. Það myndi líka segja okkur hinum frá hvernig líðan og aðbúnaður er á þessum stöðum þar sem svo margir deyja. Ég hugsa að Annþór myndi blogga á litríkari hátt en Össur Skarphéðinsson en ég held að stórkarlalegar lýsingar á bloggi séu minna meiðandi en ef handrukkari mætti heim til þín. 

 


mbl.is Holskefla lögsókna vegna bloggmmæla?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Riddari tjáningarfrelsisins

Ég átti afmæli í gær og hef verið að halda upp á það með hléum undanfarna daga. Ég var mjög ánægð með að Kastljósið mætti heim til mín á afmælisdaginn með her manns svo ég gæti tjáð mig líka fyrir framan alþjóð í sérstökum bloggþætti.

IMG_3327

Hér er mynd af Kastljóshernum fyrir utan húsið hjá mér. 

Mér fannst þetta mikill heiður, ég er að verða einn af elstu bloggurum landsins mælt í bloggúthaldi, ég hef bloggað í  átta ár og ef blogg mitt er skoðað þá hefur það tvö meginstef, annars vegar baráttu fyrir kúguðum hópum og þá sérstaklega konum og hins vegar baráttu fyrir tjáningarfrelsi og athafnafrelsi þeirra valdalausu. xIMG_3396

 Hér er mynd af mér á afmælisdeginum í gær. Svona var uppstillingin í viðtalinu.

Það er búið að vera viðtal í Kastljósi við einn bloggara, hann Jens Guð og næst verður sem sagt viðtal við mig. Vonandi birtist það í kvöld. Viðmælandi minn var Helgi Seljan og fór vel á með okkur enda hef ég helgað honum eitt sérstakt blogg forðum daga Sjö mínútur af Kastljósi Helgi Seljan versus Jónína Helgi var greinilega ekkert að erfa þessi skrif eða hann hefur aldrei séð þau.  Ég sá ekki betur en að sá sem stjórnaði kvikmyndakrúinu væri hann Gaukur  Úlfarson sem einmitt þennan sama dag var dæmdur til greiðslu miskabóta til Ómars R. Valdimarssonar fyrir að kalla hann aðalrasista bloggheima. Það er alls ekkert fallegt að kalla fólk slíkum ónefnum.

Ég las yfir þennan dóm og hann er nú alveg brandari. Nema náttúrulega fyrir þann sem er gert að greiða  sektina. Ég vona að þessum dómi verði áfrýjað, þetta er gríðarlega mikilvægt varðandi tjáningarfrelsi á Íslandi. Ég er þó ekki að mæla því bót að fólk skrifi svona, frekar að benda á að í samfélagi þar sem öllum er leyft að tjá sig og tjáningin er margradda þá fylgir líka að það verður að sýna sem mest umburðarlyndi þeim sem ekki kunna eða geta tjáð sig öðru vísi en með öskrum og ragni.

Hér eru nokkrar bloggfærslur sem gefa innsýn í hugarheim hins seka:

 Er Ég Sá Fyrsti Til Að Vera Kærður Fyrir Blog?

Mér sýnist á öllu að hér fari ákaflega ungæðislegur bloggari í skrifum sínum. Hann áttar sig ekkert á hvaða afleiðingar orð hans geta haft og virðist meira segja vera ánægður með að skrifin veki viðbrögð. Hann segir: "Ég er aðeins búinn að vera hér í blogglandi rúmar 2 vikur og er strax kominn með kæruhótun vegna skrifa minna! Ég lít á þetta sem glæsilegan árangur."

Afstaða mín til þessa máls er sú að þessi dómur sé út í Hróa hött. Þetta eru vissulega rustaleg skrif en ekki hvorki neitt sérlega móðgandi eða ærumeiðandi fyrir viðtakandann Ómar. Það er er  upphrópun og dónaskapur að kalla einhvern aðalrasista bloggheima en ef það er orðið refsivert þá þýðir það að listrænt frelsi og tjáningarfrelsi fólks til að tjá sig á litríkan hátt er ógnað. Þetta er þar að auki réttlætismál.  Tjáningarmáti fólks í sumum stjórnmálaflokkum t.d. hjá Samfylkingunni og Vinstri grænum er þannig að það dregur mjög mikið úr möguleikum fjölda  fólks í þessum fylkingum til að tjá sig ef sumir úr þessum fylkingum fá ekki að tjá sig með skítkasti um andstæðinga. Sumir kunna ekki öðru vísi orðræðu. Tökum t.d. nýleg skrif Össurar og tökum stóran part af skrifum Guðmundar Steingrímssonar, skrif eins og þessi Brúnn Björn Ingi þar sem Guðmundur kallar Björn Inga skítadreifara.  Við verðum að hafa í huga að tjáningarfrelsið er ekki bara fyrir okkur góða Framsóknarfólkið sem tjáir sig svo fagurlega að það er eins og næturgalasöngur. Tjáningarfrelsið er líka fyrir hina, líka fyrir þá sem kunna ekki annað en krúnka með rámum rómi.

 


mbl.is Sekur um meiðyrði á bloggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Póker, spilafíkn, fjárhættuspil og framsóknarmennska

Ég tjái mig um fjárhættuspil og spilafíkn í vídeóbloggi:

 

  Bjarni Harðarsson segir á bloggi sínu:

"Ég tel mig líka vita að fæstir þeirra sem sitja við póker- eða briddsborðin á við nokkra fíkn að stríða og örugglega ekki Birkir Jón. Spilafíknin sem er mjög raunaleg kemur helst fram í ástríðunotkun spilakassa og annarri frekar einmanalegri iðju þess sem tapað hefur áttum. Í spilamennsku þingmannsins felst engin óvirðing við þetta vandamál,- ekki frekar en að hófleg víndrykkja með mat á Bessastöðum geti skoðast sem óvirðing við starf SÁÁ."

Ég held að Bjarni og fleiri alþingismenn þurfi frekari fræðslu um spilafíkn ef þeir halda að  spilafíkn sé eitthvað sem tengist helst og næstum eingöngu spilakassaiðju.  Ólögleg pókermót þar sem spilað er upp á háar fjárhæðir eru ekki mjög heppileg samlíking við víndrykkju með mat á Bessastöðum. 

Nokkrar slóðir um málið

Að sitja við sama borð

Vammlausa alþingismenn - nei takk!

 Ég er ekki spilafíkill

Björn vill að lög taki mið af auknum pókeráhuga 

 


Illi Össur

Hæstvirtan iðnaðarráðherra okkar Össur Skarphéðinsson sá ég seinast á málþingi SAFT um netsiðferði.  Hann flutti þar ávarp en yfirskrift málþingsins var Þú ert það sem þú gerir á Netinu

Össur er mildur og góðgjarn maður í tali svona dags daglega. En þegar hann bloggar á næturna þá breytist hann stundum í emjandi varúlf. Bloggið Sjálfseyðing ungstirnis er  emj svoleiðis úlfs.

Það er erfitt að sjá hvað Össuri gekk  til. Sennilega missti hann sig bara í orðaflaumnum og komst í einhvers konar trans í öllum þessum myndrænu persónulýsingum. Hugsanlega var hann andvaka og gleymdi stað og stund og hélt að hann væri ennþá hetjan í stúdentapólitíkinni í HÍ og gleymdi að hann er ráðherra á Íslandi og ber sem slíkum að sýna gott fordæmi.

Siðferði í íslenskum stjórnmálum batnar ekki við málflutning eins og þetta blogg Össurar. Persónulýsingar Össurar á pólitískum andstæðingum eru heldur ekki neinn sannleikur, hann teiknar upp þá mynd af Sjálfstæðismönnum sem honum (Össuri) kemur best og það er svo sannarlega ekki sannleikurinn eini og hreini.  Það hefur margoft komið fram að Össur er mjög umfram þessa orkuútrás og sennilega er andúð hans á Gísla Marteini afar tengd því að Gísli Marteinn er líklegri en aðrir til að standa í veginum fyrir þeirri framtíð orkuútrásar sem Össur telur í sjónmáli.

Össur var í Mannamáli hjá Sigmundi Erni í síðustu viku og þar mætti ekki kveldúlfurinn heldur hinn blíði Össur sem getur ekki fengið að sér að atast í fólki sem á bágt eins og Vilhjálmur á blogginu sínu. Allir sjá nú samt að engir eiga eins bágt þessa daganna og hinir fulltrúar Sjálfstæðismanna í borginni, þau áttu einu sinni framtíðina fyrir sér í stjórnmálum. Nú eiga þau bara fortíð með Vilhjálmi.

En hlustið á hinn blíða Össur. Þar talar góður maður:


mbl.is Pistill Össurar ræddur á þingflokksfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umburðarlyndi og Íslam með afslætti

2006-02-11 Muhammed Cartoons The West (inc) 550

Þann 7 febrúar 2006 # skrifaði ég á bloggið mitt eftirfarandi hugleiðingu:

 Við skulum þekkja úlfinn þegar við sjáum hann en ekki endilega smíða með orðum okkar og hugsunum utan um hann sauðagæru vegna þess að við viljum að hann sé meinlaus. Annar kaflinn af bóksalanum í Kabúl endar á þessum orðum, sviðið er eftir 11. september, eftir að ríki talibana féll:

"Morgun einn stóð hann í búð sinni með glas af sjóðheitu tei og sá að Kabúl hafði vaknað til lífsins. á meðan hann lagði á ráðin um það hvernig hann gæti látið draum sinn rætast hugaði hann um setningu eftir uppáhaldskáld sitt, Ferdusi: "Til þess að lánið leiki við þig þarftu stundum að vera úlfur, stundum lamb."
Nú er mál til komið að vera úlfur, hugsaði Sultan."

Núna er skopmyndirnar dönsku og myndbirting af Múhammed spámanni aftur í sviðsljósinu út af því að reynt er að myrða einn teiknarann. Dönsk blöð birta myndirnar og danski fáninn er brenndur í Pakistan  út af skopmyndinni af Múhammeð með sprengjuhött (Dannebrog brændt i Pakistan). Það eru núna um tvö ár síðan ég ákvað að gerast Dani.  Það var 7. febrúar 2006. Þjóðernið er samt ekkert tengt búsetu eða vegabréf, þjóðerni og samsömum við hóp er hugarástand.

 Við Danir erum mjög frjálslyndir og víðsýnir og þess vegna er sjálfsagt að rýna í framandi menningu og reyna að skilja hana. Ekki ætlum við að láta saka okkur um fordóma gegn Íslam.

Ég reyni því að kynna mér málið eins vel og ég get og skilja andstæðinginn en það merkir ekki að ég ætli að verða eins og andstæðingurinn og taki undir það sem mér finnst óverjandi kúgun og mannréttindabrot.

Ein bók kom nýlega út á Íslandi sem ég ætla að lesa við tækifæri. Það er bókin Íslam með afslætti en þeirri bók ritstýra þau Óttar M. Norðfjörð og Auður Jónsdóttir

Nú verður það að viðurkennast að ég hef fyrirfram botnlausa fordóma gagnvart þeirri bók. Reyndar held ég að hún sé svo léleg að hún verðskuldi sérstakan sess í íslenskri bókmenntasögu fyrir að vera skerandi og hjáróma falsetta.  Að hluta til af því sem ég hef lesið í umsögnum fólks sem ég tek mark á, Egill silfraði skrifar bloggið Beiðni um ritskoðun þar sem hann segir:

" Í bókinni eru tveir þræðir sem mega kallast rauðir. Annars vegar er því mestanpart hafnað að heiminum stafi ógn af öfgafullu íslam, hugmyndin er frekar að við ættum að uppræta fordóma gagnvart íslam úr eigin brjósti. Það erum við sem eigum að hafa samviskubit; uppgangur íslamismans er okkur að kenna en ekki þeim.

Hins vegar mikið fjallað um dönsku skopmyndirnar (reyndar furðu seint finnst manni) og er nokkuð eindregin niðurstaða að það hafi verið rangt að teikna þær og birta þær og að sökin á látunum liggi hjá Dönum."

Að hluta til er fordómar mínir gagnvart þessari bók persónulegir.

Þannig er að hún vakti mig til umhugsunar um hvað væri mér svo heilagt að ég myndi ekki vilja láta hafa það að háði og spotti. Það fyrsta sem kom upp í huga minn var minning móður minnar. Þá mundi ég eftir því að  Óttar M. Norðfjörð annar ritstjóri bókarinnar hlaut mikla fremd  fyrir skopverk sitt Ævisaga Hannesar sem hann nefndi Nóttin er blá - Mamma þar sem hann færir sér í nyt umfjöllun um bróður minn sem þá lá fremur vel við höggi. Svo hefur fjölskylda Auðar hins ritstjórans tekið upp á einhvers konar listiðju sem Þórarinn maður Auðar hefur gefið nafn, hann kallað það "Listina að hata Hannes" og er þeirri list einmitt beint að bróður mínum sem hefur dirfst að fjalla um verk afa Auðar og nota bréfasafn það sem amma Auðar gaf sumum í þjóðinni aðgang að. Það var einhver smámiskilningur á sínum tíma, fólk hélt að orðalagið að gefa þjóðinni bréfasafn Halldórs Laxness  merkti að allir ættu að hafa að geta skoðað það, það gleymdist að taka fram að aðeins mættu þeir fjalla um skáldið sem fjölskylda Halldórs hefði velþóknun á. Þessi hannesarhaturslistsköpun Þórarins sem er afburða skopteiknari  er reyndar fólgin í orðum en ekki skopteikningum og þeim fremur rustalegum. Bloggsíður Þórarins voru lagðar fram fyrir héraðsdóm Reykjavíkur á sínum tíma. Þessi hatursskrif Þórarins vöktu athygli margra á honum sem hannesarhaturslistamanni eða eigum við kannski að segja hommahaturslistamanni því hann beraði  fordóma sína gagnvart samkynhneigðum og reyndar tók út skrifin eftir að DV birti þau og skrifaði svo:

"Daginn eftir að þessi færsla var skrifuð birtist ömurleg grein í DV. Einhver góðviljaður lesandi sendi mér skann. Uppistaðan af greininni var rugl sem ég var búinn að taka út af blogginnu mínu, bæði vegna beiðni frá samtökum 78 og vegna þess að ég sá eftir að hafa skrifað eitthvað sem gat sært samkynhneigða. Margir af mínum kunningjum eru hommar eða lesbíur og einn svalasti vinur minn er transsexual."

Þessi texti  Þórarins er tær snilld. Nú veit ég ekki hvort Þórarinn er einn af teiknurum í bókinni Íslam með afslætti en það myndi nú gera þá bók ennþá flottari, hún yrði þá ennþá meiri falsetta.  Nú vil ég taka fram að Auður er kannski ekki þátttakandi í þessari listgrein að hata Hannes en hatur Þórarins á bróður mínum virðist vera í tengslum við ætterni Auðar. 

 

Sem sagt, fordómar mínir fyrir bókinni Íslam með afslætti eru óhemjumiklir en ég ætla nú samt að skanna yfir bókina við tækifæri og vita hvort hún getur ekki orðið mér innblástur í einhvers konar hugleiðingar um heiminn sem við lifum í. Mér finnst þetta flott hugmynd að láta mér detta í hug hvað það væri sem ég barasta þyldi ekki að fólk skopaðist að og hvort ég myndi sprengja það í loft upp.

 

sprengjur

Það var vissulega nístandi að koma í bókabúð Máls og Menningar rétt fyrir jólin 2005  og sjá þar Óttar M. Norðfjörð á stalli   að árita skoprit sitt "Nóttin er blá Mamma" og vita að í því riti var vísað til mömmu minnar og minning hennar vanvirt  og þessi gjörningur var af hálfu bókaútgáfunnar partur í að sparka í liggjandi mann þ.e. bróðir minn og hæða hann. Það  var hins vegar ekkert nístandi að lesa hommahaturskrif Þórarins Leifssonar, ég varð bara undrandi yfir flónskunni og vorkenndi honum og fólkinu í fjölskyldu hans. En bæði Óttar og Þórarinn eru listamenn og þó það svekki mig að þeir skuli hafa sem viðfang listsköpunar sinnar að hæðast að og svívirða fólk í fjölskyldu minni og þjóðfélagshópa sem eru ofsóttir þá er það einn partur af tjáningarfrelsi þeirra.

 

 Ég styð af alefli listsköpun  Þórarins og Auðar og Óttars og megi þau og aðrir teikna heiminn upp í máli og myndum og berjast með orðum og teikningum. Þessi mynd hérna til hliðar er mynd sem var með síðasta pistli Þórarins og Auðar í Morgunblaðinu. 

 

Ég vil búa í samfélagi þar sem umburðarlyndi ríkir gagnvart tjáningu og listsköpun en ég vil líka búa í samfélagi þar sem ekki er umburðarlyndi  gagnvart tilburðum til að sprengja fólk og myrða. Ég vil líka búa í samfélagi þar sem þegnarnir hafa sem mest frelsi og þar sem gæðum er sem jafnast dreift. 

Það er reyndar magnað að á sumum tímum í veraldarsögunni hefur verið barist um trúfrelsi, nú er tekist á um frelsi til að gera grín að trú. 

 Skopmyndin efst er frá www.nicholsoncartoons.com.au


mbl.is Deilt um dönsk hryðjuverkalög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höndin á Ástu

Þessi farsi sem nú er í borgarstjórnarmálum í Reykjavík  hefur líka skoplegar hliðar.  Það eð fyndið að halda allri íslenskru pressunni í spennitreyju í margar klukkustundir og halda blaðamannafund um akkúrat ekki neinar fréttir. Móðga meira segja í leiðinni helling af fjölmiðlafólki vegna þess að það fékk ekki að vera nógu nærri miðju ekki-fréttanna í Valhöll. Svo finnst mér alltaf jafnfyndið að heyra Svandísi nota orðalagið "ekki stjórntækur" á Sjálfstæðisflokkinn, þetta var nefnilega einmitt það sem allir notuðu um Vinstrigræna fyrir kosningar. Svona geta orð verið eins og ástralskur búmerang og flott að varpa þeim til baka, til föðurhúsanna. Hver er stjórntækur og hver ekki? 
 
Alla vega hefur stjórnviska Sjálfstæðismanna síðustu misserin ekki heillað mig svo mikið að ég klappi neitt fyrir þeim eða hylli þá eitthvað með handauppréttingum. Það gera víst fáir.  
 
Þeim eru æði mislagðar hendur í borgarstjórninni þessa daganna. Skemmtilegasta frétt dagsins var í Fréttablaðinu í dag og fjallar um hve höndin á Ástu Þorleifsdóttur hreyfðist löturhægt þegar hún var kúskuð undir spýtukallahandauppréttingarkerfi Sjálfstæðismanna: 
 
Meirihlutinn féll á fyrstu kosningunni
Óvænt tillaga um varaformann umhverfis- og samgönguráðs var ekki samþykkt í fyrstu í gær. Ásta Þorleifsdóttir féllst svo á að greiða atkvæði með meirihluta. Sjálfstæðismenn töldu ekki með sinn eigin fulltrúa. "Krúttað," segir Ásta.
Reykjavík Segja má að nýr meirihluti sjálfstæðismanna og F-lista í umhverfis- og samgönguráði hafi fallið á sinni fyrstu atkvæðagreiðslu á fundi ráðsins í gær.

Reykjavík Segja má að nýr meirihluti sjálfstæðismanna og F-lista í umhverfis- og samgönguráði hafi fallið á sinni fyrstu atkvæðagreiðslu á fundi ráðsins í gær.

Þegar Gísli Marteinn Baldursson, formaður ráðsins, bar upp þá tillögu að Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir yrði varaformaður, stakk Þorleifur Gunnlaugsson úr VG upp á Ástu Þorleifsdóttur af F-lista á móti, enda kom tillaga Gísla minnihlutanum á óvart; gert hafði verið ráð fyrir Ástu í varaformennskuna.

Því þurfti að ganga til kosninga um varaformanninn og kom í ljós að Ásta sjálf hafði einnig reiknað með embættinu. Studdi hún því ekki Þorbjörgu, heldur sat hjá.

Féllu atkvæðin jafnt. Þrjú gegn þremur, en sjö eru í ráðinu. Tillaga formanns var því ekki samþykkt.

Þá munu Gísli og Ásta hafa rætt málin sín á milli og var kosið í annað sinn. Þá lyftist höndin á Ástu afar hægt og alls ekki hátt, að sögn eins fundargests.

"Já, þetta var nú bara krúttað!" segir Ásta. "Í upphafi höfðum við gert samkomulag um að ef F-listi hefði tvo menn í ráði, þá fengi D-listi varaformanninn.

Þau í Sjálfstæðisflokknum höfðu talið hana Helgu Jóhannesdóttur til F-listans af því að eiginmaður hennar, Ómar, er formaður Íslandshreyfingarinnar! En Helga hefur alltaf verið í Sjálfstæðisflokknum. Þannig að þetta var krúttlegur misskilningur og verður leiðréttur á næsta fundi. En það var ljúft að finna að maður hefur svona mikinn stuðning meðal minnihlutans," segir Ásta og skellir upp úr.

Ekki náðist í Gísla Martein Baldursson borgarfulltrúa vegna málsins.

klemens

@frettabladid.is

Svona eiga stjórnmál að vera. Svona krúttaraleg og sýna okkur í hvernig stjórnmálamennirnir vinna - alveg eins og spýtukallar þar sem einhver togar í spottana og allir sem eru samtengdir rétta upp hendi alveg eftir pöntun.  


mbl.is Undir Vilhjálmi komið hver verður næsti borgarstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Birkiland og ég


Ég sendi náttúrulega út mína eigin sjónvarpsrás með fjölmiðlasirkus dagsins. Ég reyni að tjá pólitískan veruleika dagsins í Reykjavíkurlögum  Megasar á Loftmynd við undirleik Vilhjálms fyrrverandi og framtíðarborgarstjóra. Svo nota ég ljóð og lagið Birkiland og ég til að fjalla um REI málið.  Jóhannes Birkiland sem varð Megasi að yrkisefni var ekki sérlega lítillátur né raunsær maður. Hann sagði um örlög sín og hvers vegna líf sitt væri harmsaga:

„Á síðustu árum hafa ýmsir menn látið í ljós við mig furðu sína varðandi þá staðreynd að ég hefi orðið draumórum og auðnuleysi að bráð. Því verður leitast við að svara í þessu riti.
En mér hefur nú loksins tekist að brjótast út úr öllum mínum ævilöngum draumórum og kaldur veruleikinn blasir við mér eins og hann er. Í því sambandi ætla ég að fullyrða af fullkominni sjálfs-gagnrýni, að ef einhver sem les þessar línur, hefði boðið mér að veita stóru verzlunar- eða iðnfyrirtæki, forstöðu, myndi það hafa valdið straumhvörfum í lífi mínu. Ég hefi að mínum dómi ástæðu til að ætla að ég hafi haft hæfni til slíks. En vantraust Íslendinga á hæfileikum mínum varð þessa valdandi að mín dýrlega þrá að verða forstjóri gat ekki rætzt. Það var ógurleg yfirsjón af Íslendingum að gefa mér ekki kost á því að veita stóru verzlunar- eða iðnfyrirtæki forstöðu. Íslendingar hafa misst af því tækifæri að vita með hvílíkum ágætum ég hefði getað framkvæmt ábyrgðarmikil störf. Í stað forstjóra er ég mesta olnbogabarn hinnar íslenzku þjóðar."

En hér er semsagt þessi tilraun mín á sviði vefútsendingar. Þetta er 20 mínútur. Ég vil taka fram að það má ekki taka hugverk annarra listamanna eða aðrar upptökur sem eru höfundarréttarvarin og birta. Ég tek hins vegar brot úr lögum Megasar hérna í því augnamiði að kynna hann sem tónlistarmann. Það háir mér hins vegar verulega sem remix listamanni þetta hrikalega umhverfi höfundarréttar sem við lifum við. Ég bendi á að fá má þennan frábæra geisladisk Loftmynd t.d. hjá tónlist.is

 

Þetta er 20 mínútur og er dáldið viðvaningslegt enda mín fyrsta tilraun með svona tónlistarþátt.
mbl.is Vilhjálmur: Hef axlað ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykjavik - rás á ustream.tv

Nú eftir smástund þá ætla ég að hefja netsjónvarpsútsendingu á rásinni http://ustream.tv/channel/reykjavik

þar ætla ég að ræða um Reykjavíkurmálin og fjalla um þrjú lög á geisladiskinum Loftmynd með Megasi og reyna að bræða saman borgarpólitíkina og Reykjavíkurlög Megasar.


Wikipedia viðtal

Ég var í viðtali hjá Steinunni í þættinum Út um græna grundu á Rúv í morgun 9. febrúar. Hér er upptaka af vitalinu (10 mín, mp3 skrá). Ég talaði um wikipedia alfræðiritið og hvernig vinna við það fer fram.

Í morgun var ég með tíma á Netinu eins og alltaf á laugardagsmorgnum. Við notum núna ustream.tv og operator11.com fyrir útsendingar. Síðan fór ég með Valentínu frá Lithauen í útsýnisferð um Reykjavík. Seinnipartinn fór ég á fund áhugafólks um netfrelsi. Það stendur til að stofna félag og verður stofnfundurinn á næsta laugardag. Þá á líka að vera svokallað þýðingarteiti þar sem hópur manna kemur saman og þýðir ubuntu. Sjá nánar umræðuna á Rgugl póstlistanum. Von mun vera á Eben Moglen til landsins í sumar og er verið að undirbúa það.

Það er gaman að fylgjast með hvernig hreyfingar verða til, það getur tekið langan tíma að vaxa upp úr grasrótinni. Fyrri blogg mín tengd rgugl eru m.a.  Hvar er andspyrnuhreyfingin á Íslandi?

 


Björt ljós, borgarljós

Ég sit hérna í lok föstudagsins og horfi út um gluggann á óveðrið og finnst núna á vetrarhátíðinni þessi heimur Reykjavíkurborgar með Esjuna í bakgrunni vera heimur sem ég gæti alveg ferðast burt frá. Ég hlusta á geisladisk Megasar Loftmynd um borgarsamfélagið og hugsa um hvað það eru margar borgir og hvernig borgirnar eru núna byggjast upp í innviðum Netheima. Ég held áfram vídeóbloggtilraunum mínum og núna í dag bloggaði ég um SecondLife undir áhrifum frá laginu Björt ljós, borgarljós eftir Megas.

 

Vídeóbloggið mitt er 8 mín. og endar á því að ég stend í ljósum logum og fuðra upp. Ég er að tapa mér í vídeóeffektunum, þarf að prófa þá alla.

 

Ég er sammála Wesseling þessum sem talaði á ráðstefnu í REykjavík í dag og sagði:

"Wesseling, sem lýsir sér sem netfíkli, bloggara og ráðgjafa, sagði að netið væri að þróast í átt að risastóru tengslaneti einstaklinga, sem skiptust á upplýsingum og hugmyndum. Þeir sem vildu selja vöru og þjónustu á netinu yrðu að hafa þetta ofarlega í huga og nýta sér þá mörgu samskiptavefi, sem nú er að finna."

 

Ég er sammála að Netið verður að risastóru tengslaneti en ég held ekki endilega að aðaltilgangur þess sé að selja vörur og þjónustu. Hmmm... ætli það hafi verið í dag sem Moggabloggið fór að verða svona skreytt auglýsingum? 

Sennilega verður maður að fara að huga að flutningi. 


mbl.is Vangaveltur um netmarkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband