Umburðarlyndi og Íslam með afslætti

2006-02-11 Muhammed Cartoons The West (inc) 550

Þann 7 febrúar 2006 # skrifaði ég á bloggið mitt eftirfarandi hugleiðingu:

 Við skulum þekkja úlfinn þegar við sjáum hann en ekki endilega smíða með orðum okkar og hugsunum utan um hann sauðagæru vegna þess að við viljum að hann sé meinlaus. Annar kaflinn af bóksalanum í Kabúl endar á þessum orðum, sviðið er eftir 11. september, eftir að ríki talibana féll:

"Morgun einn stóð hann í búð sinni með glas af sjóðheitu tei og sá að Kabúl hafði vaknað til lífsins. á meðan hann lagði á ráðin um það hvernig hann gæti látið draum sinn rætast hugaði hann um setningu eftir uppáhaldskáld sitt, Ferdusi: "Til þess að lánið leiki við þig þarftu stundum að vera úlfur, stundum lamb."
Nú er mál til komið að vera úlfur, hugsaði Sultan."

Núna er skopmyndirnar dönsku og myndbirting af Múhammed spámanni aftur í sviðsljósinu út af því að reynt er að myrða einn teiknarann. Dönsk blöð birta myndirnar og danski fáninn er brenndur í Pakistan  út af skopmyndinni af Múhammeð með sprengjuhött (Dannebrog brændt i Pakistan). Það eru núna um tvö ár síðan ég ákvað að gerast Dani.  Það var 7. febrúar 2006. Þjóðernið er samt ekkert tengt búsetu eða vegabréf, þjóðerni og samsömum við hóp er hugarástand.

 Við Danir erum mjög frjálslyndir og víðsýnir og þess vegna er sjálfsagt að rýna í framandi menningu og reyna að skilja hana. Ekki ætlum við að láta saka okkur um fordóma gegn Íslam.

Ég reyni því að kynna mér málið eins vel og ég get og skilja andstæðinginn en það merkir ekki að ég ætli að verða eins og andstæðingurinn og taki undir það sem mér finnst óverjandi kúgun og mannréttindabrot.

Ein bók kom nýlega út á Íslandi sem ég ætla að lesa við tækifæri. Það er bókin Íslam með afslætti en þeirri bók ritstýra þau Óttar M. Norðfjörð og Auður Jónsdóttir

Nú verður það að viðurkennast að ég hef fyrirfram botnlausa fordóma gagnvart þeirri bók. Reyndar held ég að hún sé svo léleg að hún verðskuldi sérstakan sess í íslenskri bókmenntasögu fyrir að vera skerandi og hjáróma falsetta.  Að hluta til af því sem ég hef lesið í umsögnum fólks sem ég tek mark á, Egill silfraði skrifar bloggið Beiðni um ritskoðun þar sem hann segir:

" Í bókinni eru tveir þræðir sem mega kallast rauðir. Annars vegar er því mestanpart hafnað að heiminum stafi ógn af öfgafullu íslam, hugmyndin er frekar að við ættum að uppræta fordóma gagnvart íslam úr eigin brjósti. Það erum við sem eigum að hafa samviskubit; uppgangur íslamismans er okkur að kenna en ekki þeim.

Hins vegar mikið fjallað um dönsku skopmyndirnar (reyndar furðu seint finnst manni) og er nokkuð eindregin niðurstaða að það hafi verið rangt að teikna þær og birta þær og að sökin á látunum liggi hjá Dönum."

Að hluta til er fordómar mínir gagnvart þessari bók persónulegir.

Þannig er að hún vakti mig til umhugsunar um hvað væri mér svo heilagt að ég myndi ekki vilja láta hafa það að háði og spotti. Það fyrsta sem kom upp í huga minn var minning móður minnar. Þá mundi ég eftir því að  Óttar M. Norðfjörð annar ritstjóri bókarinnar hlaut mikla fremd  fyrir skopverk sitt Ævisaga Hannesar sem hann nefndi Nóttin er blá - Mamma þar sem hann færir sér í nyt umfjöllun um bróður minn sem þá lá fremur vel við höggi. Svo hefur fjölskylda Auðar hins ritstjórans tekið upp á einhvers konar listiðju sem Þórarinn maður Auðar hefur gefið nafn, hann kallað það "Listina að hata Hannes" og er þeirri list einmitt beint að bróður mínum sem hefur dirfst að fjalla um verk afa Auðar og nota bréfasafn það sem amma Auðar gaf sumum í þjóðinni aðgang að. Það var einhver smámiskilningur á sínum tíma, fólk hélt að orðalagið að gefa þjóðinni bréfasafn Halldórs Laxness  merkti að allir ættu að hafa að geta skoðað það, það gleymdist að taka fram að aðeins mættu þeir fjalla um skáldið sem fjölskylda Halldórs hefði velþóknun á. Þessi hannesarhaturslistsköpun Þórarins sem er afburða skopteiknari  er reyndar fólgin í orðum en ekki skopteikningum og þeim fremur rustalegum. Bloggsíður Þórarins voru lagðar fram fyrir héraðsdóm Reykjavíkur á sínum tíma. Þessi hatursskrif Þórarins vöktu athygli margra á honum sem hannesarhaturslistamanni eða eigum við kannski að segja hommahaturslistamanni því hann beraði  fordóma sína gagnvart samkynhneigðum og reyndar tók út skrifin eftir að DV birti þau og skrifaði svo:

"Daginn eftir að þessi færsla var skrifuð birtist ömurleg grein í DV. Einhver góðviljaður lesandi sendi mér skann. Uppistaðan af greininni var rugl sem ég var búinn að taka út af blogginnu mínu, bæði vegna beiðni frá samtökum 78 og vegna þess að ég sá eftir að hafa skrifað eitthvað sem gat sært samkynhneigða. Margir af mínum kunningjum eru hommar eða lesbíur og einn svalasti vinur minn er transsexual."

Þessi texti  Þórarins er tær snilld. Nú veit ég ekki hvort Þórarinn er einn af teiknurum í bókinni Íslam með afslætti en það myndi nú gera þá bók ennþá flottari, hún yrði þá ennþá meiri falsetta.  Nú vil ég taka fram að Auður er kannski ekki þátttakandi í þessari listgrein að hata Hannes en hatur Þórarins á bróður mínum virðist vera í tengslum við ætterni Auðar. 

 

Sem sagt, fordómar mínir fyrir bókinni Íslam með afslætti eru óhemjumiklir en ég ætla nú samt að skanna yfir bókina við tækifæri og vita hvort hún getur ekki orðið mér innblástur í einhvers konar hugleiðingar um heiminn sem við lifum í. Mér finnst þetta flott hugmynd að láta mér detta í hug hvað það væri sem ég barasta þyldi ekki að fólk skopaðist að og hvort ég myndi sprengja það í loft upp.

 

sprengjur

Það var vissulega nístandi að koma í bókabúð Máls og Menningar rétt fyrir jólin 2005  og sjá þar Óttar M. Norðfjörð á stalli   að árita skoprit sitt "Nóttin er blá Mamma" og vita að í því riti var vísað til mömmu minnar og minning hennar vanvirt  og þessi gjörningur var af hálfu bókaútgáfunnar partur í að sparka í liggjandi mann þ.e. bróðir minn og hæða hann. Það  var hins vegar ekkert nístandi að lesa hommahaturskrif Þórarins Leifssonar, ég varð bara undrandi yfir flónskunni og vorkenndi honum og fólkinu í fjölskyldu hans. En bæði Óttar og Þórarinn eru listamenn og þó það svekki mig að þeir skuli hafa sem viðfang listsköpunar sinnar að hæðast að og svívirða fólk í fjölskyldu minni og þjóðfélagshópa sem eru ofsóttir þá er það einn partur af tjáningarfrelsi þeirra.

 

 Ég styð af alefli listsköpun  Þórarins og Auðar og Óttars og megi þau og aðrir teikna heiminn upp í máli og myndum og berjast með orðum og teikningum. Þessi mynd hérna til hliðar er mynd sem var með síðasta pistli Þórarins og Auðar í Morgunblaðinu. 

 

Ég vil búa í samfélagi þar sem umburðarlyndi ríkir gagnvart tjáningu og listsköpun en ég vil líka búa í samfélagi þar sem ekki er umburðarlyndi  gagnvart tilburðum til að sprengja fólk og myrða. Ég vil líka búa í samfélagi þar sem þegnarnir hafa sem mest frelsi og þar sem gæðum er sem jafnast dreift. 

Það er reyndar magnað að á sumum tímum í veraldarsögunni hefur verið barist um trúfrelsi, nú er tekist á um frelsi til að gera grín að trú. 

 Skopmyndin efst er frá www.nicholsoncartoons.com.au


mbl.is Deilt um dönsk hryðjuverkalög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Tryggvason

Sæl Salvör,

vildi bara láta þig vita að þú átt skoðanabróður í mér hvað baráttu fyrir frelsi og öðrum þeim gildum sem eru hornsteinar vestræns samfélags. Æði margir naívistar (eins og Karen Jespersen og Ralf Pittelkow kalla þa í bók sinni) virðast ekki átta sig á því að frelsið tapast ekki á eini nóttu heldur smám saman. Því sé mikilsvert að berjast gegn þeim tilburðum sem öfgasinnar sýndu í skopmyndamálinnu í JyllandsPosten þar sem bæði var farið fram á bann við myndbirtingu og krafist formlegrar afsökunar frá forsætisráðherra Dana. Í þessu sambandi er við hæfi að benda á ágæta heimildarmynd, De forbandede tegninger,  sem sýnd var á DR1 í vikunni um þetta magnaða mál sem enn sér ekki fyrir endann á. Í þeirri mynd kemur m.a. fram að lengi hefur verið hægt að kaupa trúarlegar myndir (stór plaköt) af Múhameð spámanni í löndum Shi'a múslíma (t.d Íran) enda leggi þeir ekki bann við myndbirtingu með sama hætti og sunni múslimar gera. Danski sjónvarpsmaðurinn gat þannig farið út í búð og sem seldi ýmsan trúarlegan varning og keypt sér plakat af Múhameð. Þetta þótti mér fróðlegt innlegg.

Sveinn Tryggvason, 14.2.2008 kl. 21:50

2 identicon

Sæl Salvör
Það var vissulega rangt af mér að ráðast að bróður þinum á þessum á þeim furðulegu forsendum að hann væri samkynhneigður. Eins og fram hefur komið annarstaðar var ég heltekin af verkum Ralf König á þessum tíma og það olli þessu dómgreindarleysi.
Það er jafn rangt af þér að reyna að að klína á mig að ég sé "hommahatari" og sennilega neyðist ég til að kærar þig ef þú heldur því áfram. Ég á ófáa samkynhneigða vini sem munu vitna um fordómaleysi mitt ef þess þarf:)
Á mörgum tungumálum.

Síðan gef ég þér 24 klukkustundir til þess að taka þessa mynd eftir mig af síðunni. Að því loknu mun ég send þér reikning. Þetta áttu nú að vita menntuð manneskjan.
Lifðu heil að öðru leiti. Vonandi líður þér sem best í framtíðinni.
Þórarinn Leifsson

Thorarinn Leifsson (IP-tala skráð) 14.2.2008 kl. 22:43

3 Smámynd: Þórarinn Böðvar Leifsson

Æ annars. Þú mátt eiga þessa mynd. 

Þórarinn Böðvar Leifsson, 14.2.2008 kl. 22:52

4 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Ég skil vel að þér sé annt um bróður þinn Salvör, en þú getur varla krafist þess af þeim sem orðið hafa fyrir hatursherferðum hans - elski hann beinlínis!

María Kristjánsdóttir, 14.2.2008 kl. 23:06

5 identicon

Sæl Salvör.

Af gefnu tilefni vil ég taka það fram að á sínum tíma vissi ég ekki af þessari færslu eiginmanns míns um bróður þinn fyrr en hún var komin á netið. Reyndar bað ég hann fyrst um að taka hana út en hætti svo við þar sem mér þykir fáránlegt að ritskoða makann. Ég skrifa ekki upp á allar skoðanir hans frekar en hann upp á mínar. Á þessum tíma bjuggum við í Kaupmannahöfn og ég reyndi eftir fremsta megni að halda mig frá þessu Hannesar/Laxness-máli, ég forðaðist jafnvel að tala um það við fólk því ég vildi halda mínu starfi aðskildu frá fjölskyldu minni, þ.e. ömmu minni og afa mínum heitnum, enda fer líka fjarri því að ég skrifi vélrænt upp á allra skoðanir ættingja minna (fordómar að ætla mér það). Svo fór sem fór. Í ljósi þess var fáránlegt í mínum augum að bróðir þinn skyldi mæta með þetta blogg Þórarins í réttinn sem vott um andúð fjölskyldu Laxness á sér. Reyndar var Þórarinn mjög lítið inni í þessu máli á þessum tíma, enda hefur hann hvorki sérstakan áhuga á Laxness eða ævisagnaritun. Á hinn bóginn mátti ég sitja undir því að fá mynd af mér í DV undir fyrirsögn um meinta fordóma gagnvart samkynhneigðum sem var hræðilega sárt í ljósi þess að ég á marga góða vini sem eru samkynhneigðir. Þess má líka geta að bróðir þinn hefur farið gagnrýnisverðum höndum um æru og ævistarf afa míns bæði í orðum og riti - og bækur hans um hann eru umdeildar. Það er er þó fjarri mér að ætla að dæma þig út frá umræðu um hann. Og margt úr munni hans hefur vissulega sært bæði ömmu mína og mömmu mína. Hvað varðar samstarf okkar Óttars þá skrifaði hann þetta verk sem vísaði (að mér skilst) til mömmu þinnar löngu áður en við kynntumst svo ég á ekki hlut að því. Ég kynntist Óttari nú fyrst síðla hausts því við búum bæði í Barcelona. Við gerðum þessa bók um Íslam á skottíma því okkur þótti umræðan um múslima og skopmyndirnar hættulega einhæf á Íslandi og álitum brýnt að gefa út greinar sem sýndu fleiri hliðar á þessum málum en yfirleitt koma fram í íslenskum fjölmiðlum, greinar sem sýndu t.d. skopmyndamálið í samhengi sem hefur lítið verið fjallað um á Íslandi. Þessi bók á einmitt að vera rödd sem sjaldan heyrist í kórnum. Hún er fyrst og fremst beiðni um dýpri umræðu, gjörningur rétt eins og bók, beiðni um fleiri bækur. Og margt sem Egill hefur látið út úr sér um hana er skrumskælt, jafnvel rangt þegar verst lætur. Því stóð ég nú í þessu orðaskaki á netsíðu hans um daginn. Það þýðir hins vegar ekki að ég sé á móti honum (þvert á móti) eða þér ... eða bara hverjum sem er. Ætlunin var aðeins að gefa út greinar sem eru margar þess virði að vera lesnar, þó nokkrar eftir sérfræðinga. Bókin var algjörlega unnin í sjálfboðavinnu, hún er í anda tímarits og kostar álíka mikið. En ég bið þig um að blanda ekki svona saman eplum og appelsínum. Og mér þykir leitt ef ég hef á einhvern hátt sært þig. Auður Jónsdóttir

Auður Jónsdóttir (IP-tala skráð) 14.2.2008 kl. 23:30

6 Smámynd: María Kristjánsdóttir

afsakaðu en aukasetningin átti auðvitað að vera: þú getur varla krafist þess að þeir sem orðið hafa fyrir hatursherferðum hans- elski hann beinlínis!

María Kristjánsdóttir, 14.2.2008 kl. 23:32

7 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Það er vert að velta fyrir sér, í framhaldi af því hve Danir hrópa hátt um málfrelsi sitt og rétt á tjá skoðanir sínar, til dæmis með því að gera grín að trúarbrögðum, að nýleg könnun sýndi að hvergi í Evrópu eru fordómar gegn múslimum meiri en eimitt þeirra á meðal.

Það kveður sem dæmi svo rammt að þráhyggju sumra Dana gagnvart innflytjendum af suðlægum slóðum, að þegar ég hugðist hefja nám í danskri tungu við H.Í. í hitteðfyrra gafst ég upp á því námi, meðal annars eftir að hafa verið lækkuð í einkunn í "dansk i daglig tale" vegna þess að ég þótti ekki nógu rökföst í 3ja manna umræðu (minni, kennarans og prófdómarans) í efninu sem ég dró á prófi, - sem ég hafði þó vonast innilega til að draga ekki, því ég var komin með ofnæmi fyrir því eftir önnina - það er að segja umfjöllun (á dönsku) um vandkvæði varðandi innflytjendur í Danmörku. Ég þótti hafa góðan orðaforða og ágæta kunnáttu í dönsku, en þessi vanhæfni mín til að rökræða innflytjendamál, og þar var vitanlega yfirleitt átt við múslima, gerði það að verkum að ég kom út með lægri einkunn en ella!

Greta Björg Úlfsdóttir, 15.2.2008 kl. 07:25

8 identicon

Umrædd bók, Íslam með afslætti, á að mínum dómi Íslandsmetið í barnaskap: þar eru teikningar sem eiga að sýna að við séum vís með að bregðast við "helgispjallamyndum" á svipaðan hátt og múslimar.

Nú nú, ég man varla einu sinni eftir myndum bókarinnar stundinni lengur, eftir að hafa barið þær augum, gat ekki sagt vini mínum af hverju þær voru.

Bók sem mér finnst hins vegar eiga Íslandsmet í skrílmennsku er bók/bækur Óttars "um" Hannes.

Því eins glöggur og vandvirkur í útreikningum sem Hannes er í skrifum sínum um efnahagsmál, þá telst þessi bók Óttars samt sem áður það "að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur".

Óttar gat jú sannarlega gengið að klappi skrílsins vísu.

Það að skrifa slíka bók hefur, frá því hún kom út, minnt mig afar sterklega á miðaldamúginn sem streymir argandi fram til að brenna td gyðinga, eða aðra sem liggja vel við höggi.

Síðan hefur Óttar í mínum augum verið miðaldabúri; og þegar hans líkar koma saman, þá er þar í mínum augum um að ræða nútímaversjón af miðaldaskríl.

olof magnusson (IP-tala skráð) 15.2.2008 kl. 12:31

9 identicon

Eða getur einhver bent á öruggari leið til að verða hafinn á loft í gullstól af skrílnum en þá að skrifa níðrit um Hannes?

Nei.

Og af því það er ekki til nein öruggari leið, enginn lægri garður til til að ráðast á, þá einfaldlega skrifar Óttar bindi tvö. Og skríllinn hrópar enn: aftur Óttar, aftur! Brenndu hann aftur!

Er hægt að benda á nokkra bók íslenska sem, í öryggi sínu um undirtektir skrílsins, er eins ódjörf og bók/bækur Óttars um Hannes?

olof magnusson (IP-tala skráð) 15.2.2008 kl. 12:59

10 identicon

Tek fram, án þess það skipti neinu um það sem ég hef skrifað hér að ofan (en maður veit ekki með gáfnafar þeirra sem þetta kunna að lesa): álit mitt á Hannesi er algerlega neutralt.

Ég hef jú menntun til að leggja mat á  fræðilegar útlistanir hans á efnahagsmálum, og þar stendur hann sig mjög vel að mínum dómi, styður enda mál sitt útreikningum, sem hver sem er getur farið yfir).

Hins vegar draga skrif hans um umhverfismál mjög úr virðingu minni fyrir honum.

olof magnusson (IP-tala skráð) 15.2.2008 kl. 13:16

11 Smámynd: halkatla

Þórarinn Leifsson þú ert semsagt sá aumingi að hóta fólki kærum fyrir allt og ekkert? ég myndi skammast mín í þínum sporum (ég veit ekkert um þig annað en þessi komment hér og því miður gerirðu þig að algjöru fífli)

p.s ég þoli ekki Hannes Hólmstein en mamma mín elskar hann.

halkatla, 15.2.2008 kl. 13:34

12 identicon

Og hversvegna í ósköpunum ætli sé ámælisverðara að skopast að múhameðstrú í Danmörku en til dæmis að skopast, þar í landi, að Bandaríkjamönnum?

Bæði múslimar og Bandaríkjamenn eru minnihlutahópur í Danmörku.

Og hver er munurinn á því að berjast gegn kristni fyrir hundrað árum og því að berjast gegn múhameðstrú hundrað árum síðar? Séu rökin þau - sem reyndar eru ótæk rök, en duga kannski krakkabjálfum eins og þeim sem standa að bókinni Íslam með afslætti -  að múhameðstrú sé trú "annarra", þá eru þau rök sambærileg við það ef Dani mætti ekki atast útí dauðarefsingar eða annað athæfi Bandaríkjamanna, eða einræði í Suður Ameríku (fyrrum).

Og séu grautarhaus-rök krakkanna (auk þess) þau að það séu svo fáir múslimar í Danmörku miðað við kristna, þá eru þau rök jú sambærileg við það ef í Danmörku mætti ekki atast í Bandaríkjamönnum, af því að í Danmörku séu Bandaríkjamenn svo fáir miðað við Dani. Einnig sambærileg við það ef ekki mætti agnúast útí ný-nasista af því þeir séu jú minnihlutahópur í samfélaginu.

En reyndar finnst mér það óeðlileg bjartsýni að búast við viturlegum og hræsnislausum málflutningi af hálfu krakkanna sem standa að bókinni Íslam með afslætti.

Og því miður eru þau orðin þó það fullorðin að þau geta ekki einu sinni borið fyrir sig æsku, það finnst mér verst.  

olof magnusson (IP-tala skráð) 15.2.2008 kl. 14:23

13 Smámynd: Þórarinn Böðvar Leifsson

Sæl Anna Karen.
Ég er hér ekki að ráðast á Salvöru, heldur þvert á móti að reyna að stuðla að einhverskonar sáttum okkar á milli. Auðvitað  langar mig ekki alls ekki til að kæra einn eða neinn. Ég er einungis að verja mig fyrir óréttmætum ásökunum. Ég hef fyrir löngu beðist velvirðingar á þeim skrifum sem áttu sér stað fyrir bráðum fjórum árum síðan.

En þú mættir kannski gæta aðeins betur að því hvernig þú skrifar sjálf.

bestu kveðjur

Þórarinn Böðvar Leifsson, 15.2.2008 kl. 14:38

14 identicon

Nú jæja, það er reynt að verja sig með tilvísun til æsku sinnar. En ofan á þá æsku hafa bæst 4 ár og samt er viðkomandi einn af þeim sem leggja til efni í bók sem á Íslandsmetið í barnaskap.

Verður maður þá ekki bara að segja: þessir "krakkar" - þessir fullorðnu krakkar - eru bara svona.

Allavega: að sá sem skrifað hefur þá bók sem á Íslandsmet í (miðalda)skrílskap, Óttar (sjá athugasemdir mínar að ofan) sé jafnframt forvígismaður að bók sem snýst til varnar þeim þætti mannlífsins sem Upplýsingin barðist, öðru fremur, gegn, sem og seinni tíma fríþenkjendur, kemur algerlega heim og saman og vekur ekki undrun mína. 

olof magnusson (IP-tala skráð) 15.2.2008 kl. 15:05

15 Smámynd: halkatla

er þetta með að ég ætti að passa mig nokkuð hótun Þórarinn??? ég spurði þig bara hvort þú værir sá aumingi að hóta öðrum kærum fyrir orð sem þeir láta flakka því mér finnst það aumingjaskapur og einstaklega pirrandi eiginleiki (að hóta fólki kærum í tíma og ótíma fyrir ekki neitt). Ég er heiðarleg í að segja mína skoðun á ýmsu og það fer í taugarnar á mörgum, lof sé Drottni fyrir mál- og skoðanafrelsið sem við lifum við hér. Ég biðst afsökunar ef þetta særði þig. Lifðu heill.

halkatla, 15.2.2008 kl. 15:48

16 Smámynd: Þórarinn Böðvar Leifsson

@ Anna Karen.
Nei guð minn góður!  Þetta var ekki hótun.
Það er svo auðvelt að miskilja hluti á netinu. Ég brá reyndar á það ráð um daginn
að rífa upp símann og hringja í mann  til að afstýra misskilning sem hafði komið upp
í svona umræðu, okkur báðum til heilla.

Þú særðir mig ekkert en takk samt. Lifðu heil líka og bestu kveðjur
Þórarinn

Þórarinn Böðvar Leifsson, 15.2.2008 kl. 16:08

17 identicon

Þórarinn,

mér (og mörgum öðrum veit ég) þætti fróðlegt að heyra hvaða hugsanaferli fékk þig til að álíta að mynd þín af Villa og Óla kynni að vekja með okkur svipaða hneykslun og múðhamsteikningarnar ollu múslimum.

Nú er ég að vísu ekkert að ætla þér meiri vitsmuni en öðrum sem efni eiga í bókinni Íslam með afslætti, og býst því ekki við neitt sérstaklega vitsmunalegu svari, en - af því ert nú grínlistamaður - þá værirðu kannski tilleiðanlegur að leyfa okkur að hlæja að þeirri hugljómun sem sagði þér að slík mynd kynni að vekja með okkur hneykslun svipaða og múhameðsteikningarnar ollu múslimum.

Ég tek fram að ég er hægrisinnuð og ætti því, ef einhverjum, að finnast það þyngra en tárum taki að verið sé að grínast með þessa hægri menn. 

Ég skal alveg játa að mér finnst þetta einstaklega vel heppnuð grínmynd, því mér finnst náttúrulega, eins og flestum, aldeilis sprenghlægilegt að maður sem ekki er lengur krakki (eins og fyrir 4 árum) haldi að viðbrögðin við þessari mynd gætu vakið með okkur svipaðar tilfinningar og múhameðsteikningarnar ollu múslimum.

Finnst konunni þinni, Auði, allt í lagi að þú dragir þannig dár að sjálfum þér opinberlega? Af hverju stoppaði hún þig ekki? Hún sem er þó baráttukona gegn dári. Þykir henni þá bara ekkert vænt um þig eða hvað?

Þú ættir kannski að endurskoða leyfi þitt til Salvarar að skarta þessari frábæru grínmynd að þér.

olof magnusson (IP-tala skráð) 15.2.2008 kl. 17:04

18 identicon

Hélt reyndar að þessi mynd væri úr bókinni góðu; því eins og ég sagði, þá festust myndirnar þar ekki í minni mér; en hvað sem því líður virðist mér að hér sé um að ræða sömu tilraun og í bókinni til að vekja með okkur viðbrögð svipuð og viðbrögð múslima við múhameðsteikningunum; hér er höggvið í sama knérunn. Og útkoman sú að höfundur myndarinnar birtist manni í mjög spaugilegu ljósi: sem kjáni. 

olof magnusson (IP-tala skráð) 15.2.2008 kl. 17:42

19 identicon

Auður,

mér þætti reyndar vænt um að þú kæmir spurningunni hér að ofan (í athugasemd þar sem Þórarinn er feitletraður) til allra teiknaranna í Íslam með afslætti. 

Því það er jú svo óborganlega fyndið að þeir, og væntanlega ritstjórarnir líka, hafi álitið að myndir þessar (sem ég man ekki hvernig eru) kynnu að vekja hneykslun eitthvað í líkingu við þá sem múhameðsteikningar ollu múslimum.

Please Auður, leyfðu okkur að hlæja meira að ykkur.

Já þó ekki væri nema til að við grínumst á meðan minna að múslimum. Viltu gera þetta fyrir mig Auður mín, ég hef nú aldrei áður beðið þig um neitt.

olof magnusson (IP-tala skráð) 15.2.2008 kl. 19:02

20 identicon

 Salvör:

þegar ég kalla það að níða með "list" sinni Hannes að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur, þá er það jú einfaldlega vegna þess að á engan annan Íslending hefur verið gefið út annað eins skotleyfi.

Þess vegna kjörin bráð fyrir pínulitla kalla eins og Óttar og Þórarinn (fyrir 4 árum þegar hann var barn).  

olof magnusson (IP-tala skráð) 15.2.2008 kl. 19:40

21 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ég var veik svo ég hef ekki getað svarað athugasemdum á þessu bloggi fyrr.  Vil ítreka að bloggið mitt er vörn fyrir tjáningarfrelsi, líka tjáningarfrelsi fólks sem fer illa með það (níðir trúartákn o.fl.).  Varðandi bókina Íslam með afslætti þá finnst mér hugmyndin góð að velta fyrir sér hver eru manns eigin helgu vé. Það ættu allir að gera. 

Þó ég mæli fyrir tjáningarfrelsi þá þýðir það ekki að ég sé sammála rustalegri tjáningu. Þessi vefjarhattarmynd af Múhammeð er vanvirðing við Íslam og gróf einföldun og tilraun til að teikna heiminn þannig upp að tengja alla múhammeðstrúarmenn við terrorista.

Þetta snýst um hver má lýsa heiminum, hver má teikna upp heimskortið. Ruddalega fólkið sem misbýður mér með sinni rustalegu tjáningu hvort sem það er í sprengjuhötti Múhammeðs eða smáriti "Nóttin er blá - mamma" hefur líka rétt til að lýsa sinni heimsmynd. Tjáningarfrelsið á ekki að vera bara fyrir þá sem tjá sig á einhvern siðfágaðan hátt.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 21.2.2008 kl. 19:18

22 identicon

Sæl Salvör

Mér finnst ekki maklegt að líkja "Nóttin er blá-mamma" við mynd af Múhameð með sprengjuhött. Þetta eru etv bæði listaverk og tjáning á einhverri skoðun, en lengra nær samanburðurinn ekki. Smáritið mitt er engan veginn jafn gróf árás og teikningin, í því er ekkert slæmt sagt um Hannes, heldur byggir það á efni sem er að finna á heimasíðu hans, auk þess sem allt aukaefni byggir á góðlátlegum nótum, annað en teikningin af Múhameð. Eða það er amk mín skoðun

Með kveðju, Óttar Norðfjörð

Óttar M. Norðfjörð (IP-tala skráð) 26.2.2008 kl. 19:02

23 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

ÉG fjallaði fyrir stuttu um bækurnar Íslam með afslætti og Íslamistar og Naívistar á Vantrú.  Að mínu mati er Íslam með afslætti frekar slök bók sem inniheldur þó tvær eða þrjár nokkuð góðar greinar.

Matthías Ásgeirsson, 27.2.2008 kl. 18:50

24 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Óttar: Smárit þitt er að sjálfsögðu listaverk og tjáning og ég vil enn og aftur taka fram að ég styð eindregið tjáningu þína og annarra listamanna og það alveg eins þó hún á einhvern hátt sé særandi fyrir mig eða aðra.

En þú fullyrðir að Múhameð með sprengjuhött sé ekki sambærilegt við að stærsta og virtasta bókabúð landsins stilli upp einhvers konar skopsýningu þar sem minning móður minnar er dregin inn í að hæðast að bróður mínum. Minning móður minnar er mér áreiðanlega jafnhelg og sumum múhameðstrúarmönnum er myndleysi og virðing við spámanninn. Það breytir því ekki að þú segir að þar sé ekki neitt virðingarleysi og þetta hafi verið á góðlátlegum nótum, þannig er ekki minn sannleikur og mín sýn.  Þannig er að það ert ekki þú sem ákveður fyrir mig hvað mér er heilagt og hvað mér finnst nístandi vanvirðing - ekki frekar en ég ákveð fyrir múhameðstrúarmenn hvað þeim finnst heilagt.

Hér er mynd af þér sem ég tók þar sem þú sast á stalli og  áritaðir rit þitt í bókabúð Máls og menningar 16. febrúar 2006:

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 28.2.2008 kl. 00:31

25 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Auður: það er langt liðið frá því ég skrifaði þessa færslu og ég komst ekki til að svara þér vegna veikinda. En ég vil biðja þig afsökunar að hafa dregið þig inn í þetta blogg og gert lítið úr höfundarverki þínu með að bendla þig við fordóma, mér er alveg ljóst að þú ert ekki á neinn hátt ábyrgð fyrir skrifum eiginmanns þíns né fyrri verkum meðhöfundar. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 28.2.2008 kl. 00:37

26 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Þórarinn: Takk fyrir að fá að birta þessa mynd. Ég tengdi í hana af þínu vefsvæði og hefði að sjálfsögðu tekið þá tengingu út hefðir þú farið fram á það.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 28.2.2008 kl. 00:48

27 identicon

Ég biðst þá afsökunar á því, það var ekki með ráðum gert að hæðast að móður þinni eða minningu hennar með því láta orðið "mamma" birtast í titlinum. Þetta var tilraun til að gera lesandanum ljóst að þetta fyrsta bindi ævisögu Hannesar fjallaði um æsku hans, þegar móðir manns leikur jú lykilhlutverk.

kv. óttar 

Óttar M. Norðfjörð (IP-tala skráð) 28.2.2008 kl. 13:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband