Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Fann ég á fjalli fallega steina

Það er brosleg sagan af konunni sem skilaði íslenskum hraunmolum aftur  því hún óttast reiði guðanna. Ég tíndi eini sinni marga steina í árvatni í  Landmannalaugum og bar með mér til byggða. Bláir litatónar steinanna hrifu mig þar sem þeir glitruðu í vatninu en svo varð ég fyrir vonbrigðum þegar heim var komið. Steinarnir voru bara fallegir í vatninu, þeir breyttu um lit, urðu móskulegir og óhrjálegir þegar þeir urðu þurrir. Ég setti steinanna  í krukku og gleymdi þeim. Svo var það eina sumarnótt fyrir fimm árum, ég var að búa mig undir að fara  snemma morguns af stað í ferðalag að ég fann þessa steina aftur og langaði til að sjá aftur bláa litinn sem heillaði mig svo ég setti steinana á botninn í skál, fyllti skálina af vatni og setti nokkur flotkerti ofan á. Setti svo skálina á eldhúsborðið. Þetta var mjög fallegt, eins og helgitákn. Atburðarásina eftir það skráði ég á bloggið mitt í  eftirfarandi bloggfærslu Blautur morgunn 3.08.01:

Eldsnemma í morgun byrjaði vatn að leka í eldhúsinu hjá mér. Fossa reyndar frekar en leka. Ég var inn í stofu og heyrði skrýtin hvæshljóð úr eldhúsinu, fór fram til að athuga og þá var hrikalega mikill kraftur á vatni og það fossaði um allt. Það hefur pípulagningamaður verið að vinna í húsinu en ég hafði ekki númerið hjá honum og var ein heima og vissi ekki hvar kaldavatnsinntakið í húsið var. Datt ekkert í hug nema hringja í 112 og þeir sendu björgunarsveit á staðinn. Held að það hafi verið nokkrir lögregluþjónar og svo fólk með öfluga vatnssugu inn í eldhúsinu hjá mér í morgun. það var nokkurra sentimetra pollur í eldhúsinu og byrjað að leka í önnur herbergi. Lexía: Kynna mér eftirleiðis alltaf hvar vatnsinntakið er í húsum sem ég bý í og hvernig á að skrúfa fyrir vatnið ef eitthvað gerist. En ég er þakklát fyrir aðstoð frá neyðarlínunni, þetta er virkileg björgunarsveit.

Þetta blogg er nú reyndar gott dæmi um sögu í sögu og hvernig lesa verður blogg á milli línanna. Bloggið  fyrir fimm árum endar á mjög skynsamlegri lexíu um hve mikilvægt sé að kynna sér hvar vatnsinntakið er í húsum. Það var samt reyndar aldrei aðalatriðið sem ég lærði af þessari lífsreynslu. Ég lærði að alveg eins og brennt barn forðast eldinn þá forðast sá sem hefur vaðið vatnselginn í eigin eldhúsi allar særingar með vatn, kerti og steina sem kalla á vatn.

Gaman að svo skrýtnum og fyndnum sögum um túrista og hindurvitni. Það er alltaf hægt að brosa að þessu Smile


mbl.is Óttaðist reiði guðanna og skilaði hraunmolunum aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vetrarsólhvörf og Afturelding

Ég fagnaði vetrarsólhvörfum í dag, ég er veik heima og má ekki sitja við tölvu. Sé reyndar heldur ekki mikið á tölvuskjáinn svo það er ekki erfitt að óhlýðnast því.  Ef til vill get ég lesið eitthvað. Það er samt ólíklegt, ég sé allt í móðu. Heimurinn sem ég lifi í er heimur sjónrænnar skynjunar og bók sem þó er upprunalega saga úr hljóðum endurrituð með táknum krefst þess að sjónin sé sé góð.  En ef ég gæti lesið, hvað ætti ég að lesa?  Ég fór að hugsa um bókina "Hvað er bak við myrkur lokaðra augna? sjálfsævisögu Yogaranda. Það væri viðeigandi lestur á svona degi. Nema bara það gengur ekki vegna þess að ég á ekki þessa bók og svo get ég sennilega ekki lesið.

Ég ætti kannski að ráðast á pakkann af sakamálasögunum sem ég keypti í Mál og menningu fyrir mörgum mánuðum á einhverju tveir fyrir einn tilboði. Þær eru ennþá í plastinu. Ég keypti bókina Paradís eftir Lisu Marklund og ég keypti bókina Afturelding eftir Viktor Arnar Ingólfsson sem reit Flateygjargátuna. Aftureldingu keypti ég  bara út af nafninu og höfundinum, mér finnst ekkert spennandi gæsaveiðimenn og raðmorðingi. 

Afturelding minnir mig út af nafninu á Aftureldingu Halldórs Laxness og Eldingu Torfhildar Hólms en ég skrifaði  um það í bloggfærslunni Albúm, Elding og Merkilegir draumar árið 2002.

Ég skrifaði bloggið Vetrarsólhvörf - stefnuljós - slepptu mér aldrei á vetrarsólhvörfum í fyrra. Það er sniðugt regla að skrifa svona íhugunarblogg á sama tíma á hverju ári. Annálar fyrri tíma voru oft veðurlýsingar og ég ætla líka að skrá hvernig veðrið er núna. Það er eilífur stormbeljandi, snjór og rok og flóð í ám og hamfaraveður sums staðar um landið. Í nótt feyktist upp glugginn hjá mér í einni stormhvinunni og í gærkvöldi, eða var það í nótt... ég veit varla skil dags og nætur núna í svartasta skammdeginu... þá skall ofsalegt haglél  hérna á stofugluggann hjá mér snögglega eins og árás þar sem skotfærin eru frosið vatn.  

Ef ég ætti bókina You are the Weather eftir Roni Horn þá myndi ég blaða í henni núna. En ég reyndi við Aftureldingu.

Sjálfsævisaga
Yogananda

Byrgið, Konukot, Vogur, brauðfætur og kvalalosti

Félagar mínir í Femínistafélaginu stóðu á sínum tíma mörg að söfnun vegna Konukots sem er afdrep fyrir heimilislausar konur sem nánast alltaf eru líka í bullandi óreglu eða alvarlega veikar á geði. Þegar undirbúningur að því afdrepi stóð yfir þá spurði ég "Hvers vegna í ósköpunum þarf sérstakan samastað fyrir konur, er ekki sams konar ógæfa að vera maður og kona við þannig aðstæður?"  Þau sögðu mér þá að þannig væri það ekki, konur í óreglu væru útsettar fyrir alls konar kynbundið ofbeldi á stöðum fyrir heimilislausa af karlmönnum sem þá staði sækja sem annað hvort nýttu sér ástand og úrræðaleysi kvenna til að svala kynfýsnum sínum eða sem hefðu hagmuni af því að konan héldist  áfram á götunni í neyðarvændi sem framfleytti þeim. 

í gærkvöldi var sýndur í sjónvarpi þáttur um stjórnanda trúfélags sem rekur meðferðarheimili fyrir mjög langt leidda fíkla og þar var eftir því sem ég best veit (ég hef ekki séð þáttinn, eingöngu umfjöllun í fréttum og á bloggi) haldið fram að viðkomandi hefði verið í kynferðissambandi við nokkrar konur sem á þeim tíma hefðu verið í meðferð á þessum stað. Þetta var tengt við umræðu um kvalalosta.

Ég veit lítið um þetta einstaka mál nema það sem ég sé á skrifum annarra og vona að fólk dæmi ekki aðra nema fyrir liggi sekt þeirra af þeim aðilum sem eiga að segja til um sekt eða sýknu. Það að vera ásakaður í fjölmiðli um eitthvað er ekki sama og að vera fundinn sekur fyrir dómstólum. 

En það getur verið að það séu engin lagaákvæði og engar vinnureglur meðferðarstofnana sem taka á  eða leggja bann við því að meðferðaraðili  sem ekki tilheyrir þeim starfstéttum sem hafa siðareglur sé í kynferðissambandi við þann sem er í meðferð. Það eru siðareglur meðal lækna og sálfræðinga og fleiri fagstétta sem taka á svona málum og ég hef fylgst með að einn liður  í menntun umönnunarstétta er að kenna þeim að vera vakandi fyrir ýmis konar mögulegri misneytingu þeirra sem njóta umönnunar og vita hvað á að gera ef grunur vaknar um slíkt.  Það ætti að vera skilyrði til að fá fé frá opinberum aðilum að þar sé eftirlit og völd fengin fagfólki sem fylgir siðareglum og sem hefur sérstaka skólun í að taka á málum sem þessum  og reyna að fyrirbyggja mögulega misnotkun starfsmanna á skjólstæðingum.

Það er hins vegar þannig að þeir sem sjálfir hafa verið djúpt sokknir og hafa frelsast á einhvern hátt ná stundum betur til þeirra sem eru á kafi í   óreglu, skilja betur aðstæður fíkla því þeir hafa verið þar sjálfir og trúarsannfæring getur oft smitað út frá sér og kærleiksríkt  trúfélagið veitt skjól þeim sem hefur verið útskúfað af öllum. Það skjól og það samfélag er ekki síður mikilvægt eftir að meðferð lýkur og ég reyndar held að það sé ein ástæðan fyrir því að slík meðferð er oft árangurríkari en að fara bara inn á Vog og eiga svo að standa á eigin fótum eftir að út er komið. Þeir eigin fætur eru því miður oftast brauðfætur.

Kona sem ég þekki sagði mér frá föður sínum sem var gífurlegur alkóhólisti og allir hans bræður að hún hefði einu sinni keyrt föður sinn á Vog í einni af ótal ferðum hans þangað og þau fóru yfir Hellisheiðina og henni tókst ekki að halda honum þurrum á leiðinni, hann sagðist ekki geta farið inn á Vog nema drekka í sig kjark og hún hafði ekkert val, hún varð að horfa upp á hann þamba bjór í bílnum á leiðinni yfir heiðina eða hann hefði hlaupið út í óbyggðirnar. Hún keyrði hann beint á Vog og við tók  nokkurra vikna meðferð á Vogi þar sem allt gekk vel og vonir kviknuðu eins og þær gera alltaf hjá aðstandendum og honum sjálfum um að nú myndi hann hafa það. Þegar meðferðinni var lokið þá hringdi hann til dóttur sinnar og ætlaði að koma beint til hennar. Hann féll á leiðinni. Einhverra hluta vegna gat hún ekki náð í hann og  og hann fékk ekki annað far svo hann tók leigubíl. Hún er sannfærð um að hann ætlaði að standa sig og þegar hann hringdi í hana og þegar hann lagði af stað út frá Vogi en eitthvað gerðist, bíltúrinn sem átti bara að vera beint frá Vogi og nokkkurra mínútu leið heim til hennar í leigubíl varð ennþá ein hrösunin. Hann lét leigubílinn koma við í Ríkinu og hann sást ekki í einhverja sólarhringa. 

Það hafa margir sem allir hafa afskrifað náð að fóta sig aftur í lífinu með aðstoð af samblandi af trú og meðferð og það þarf að skoða líka hvað er gott gert og virkar í meðferðinni hjá Byrginu sem og öðrum trúfélögum sem taka við þeim fíklum sem verst eru settir.  

En það er þörf þjóðfélagsumræða að beina kastljósinu að því hve útbreitt og algengt kynbundið ofbeldi er - líka á stöðum þar sem megintilgangurinn er að veita einhvers konar skjól og umönnun og betrunarvist.  Það er svo sannarlega gróft kynbundið ofbeldi ef stjórnandi meðferðarstofnunar stundar kynlíf sem einkennist af kvalalosta með konum sem eru í meðferð á stofnun sem viðkomandi stýrir. Ég hef fylgst með bloggumræðunni um þetta mál og bloggpistill Ómars Valdimarssonar vakti mig til umhugsunar um hvernig sama orðræða er notuð til að réttlæta vændi og réttlæta kynbundið ofbeldi eins og hugsanlegt er að átt hafi sér stað. Ómar segir m.a.:

"Engum kemur við, hvað  X gerir í svefnherberginu sínu, svo framarlega sem hann gerir það með lögráða einstaklingum, sem eru fúsir til verka."

Það kemur okkur bara víst við hvernig framkoma er í meðferðarúrræðum við fótum troðið fólk og langt leidda fíkla og það er óhugnanlegt og hryllilegt ef fólk í slíkri aðstöðu er notað sem kynlífsleikföng. Ennþá hryllilegri mynd er ef kynbundið ofbeldi inn á slíkum stofnunum einkennist af sams konar kvalalosta og samband viðskiptavinar og vændiskonu í neyðarvændi.


Trú, víma og umburðarlyndi

Ég fann eftirfarandi pistil sem ég skrifaði fyrir tveimur árum inn á malefnin.com en þar var þá mikil umræða um Byrgið.  Í kjölfar Kompásþáttarins sem sýndur var í kvöld þá geri ég ráð fyrir að fari í gang mikil umræða í samfélaginu um  meðferðarheimili sem trúfélög reka

 Einn málverji beindi til mín þessari spurningu:

Kannski er betra að vera í trú en vímu.  En er það lífsins ómöulega hægt að þurrka upp fólk án þess að dæla í það öfgatrú?

Finnst þér það bara allt í lagi ef mamma þín yrði hare krishna liði, vottur eða mormóni svo lengi sem það gerir hana þurra?  Þætti þér ekki betra að hún yrði bara þurr og héldi síðan áfram sínu lífi?

Öfgasamtök reka meðferðarstofnanir til að afla sér meðlima... finnst þér það hið besta mál?

Ég svaraði svona:

Mér hefði fundist allt í fína þó mamma mín hefði verði í hare krishna liðinu - hefði reyndar verið  ótrúlega stolt af því - og ein mágkona mín er vottur og önnur sennilega ennþá innskráð ásamt sínum börnum í Klettinn. En því miður var mamma mín ekki í neinum sérstrúarsöfnuði nema Framsóknarflokknum og faðir minn trúði meira á sæluríki kommúnista en Guð.

Þú segir: "Öfgasamtök reka meðferðarstofnanir til að afla sér meðlima..". Þessi orð þín bera vott um mikinn hroka og lítinn skilning á lífinu. Trúfélög sem trúa á eitthvað sem þú trúir ekki á og þar sem safnaðarmeðlimir kjósa að hegða lífi sínu öðru vísi en þú eru ekki öfgasamtök. Bara öðruvísi.

Og það er ekki til að afla fleiri meðlima sem trúarstofnanir reka meðferðarheimili. Það er frekar vegna þess að margt trúað fólk hefur samlíðan með öðru fólki og vill bjarga því frá glötun - ekki bara líkamanum heldur líka sálinni.

Ég held að fólk sem hefur ekki þörf fyrir trú og sem hefur ekki skilning á trúarþörf annarra sé eins farið og litlum börnum sem hafa ekki náð þroska - á vissu stigi (nokkurra mánaða) eru öll börn þannig að það sem er ekki fyrir framan augun á þeim er ekki til - jafnvel þó þau horfi á þegar maður tekur einhvern hlut og hylur hann - þá dettur þeim ekki í hug að leita að hlutinum þar sem hann er hulinn sjónum - hann er ekki til af því þau sjá hann ekki.

Ég held líka að fólk sem er ófært um að hafa samlíðan með öðru fólki eða skilning á að aðrir láti sig örlög samferðafólks varða hafi ekki náð þroska og dýpt sem manneskjur. Ef maður horfir á ógæfu annarra bara til að spegla sjálfan sig í henni og sér ekkert annað en að þar séu aumingjar sem hafi staðið sig illa, breytt rangt og eigi skilið að hafa ratað í raunir - þá er maður að horfa á aðstæður bara út frá sjálfum sér og eins og að hlakka yfir óförum annarra og dáðst að sjálfum sér fyrir að hafa ratað beina og breiða veginn.

Ég er ekki viss um að allir nái þeim þroska í lífinu að hafa samlíðan með öðrum eða skilning á því að það er eitthvað til æðra en þeirra eigin vitund. En ég held að umburðarlyndi og trú - alls konar trú - hjálpi fólki til þess þroska.


Grýla á Bolafjalli

bolafjallsgrylaEins og allir vita þá heldur Grýla til um þessar mundir á Bolafjalli. Þar fer vel um Grýlu og fjölskyldu hennar og þau hafa komið sér vel fyrir í gömlu ratsjárstöðinni. Nú á tímum þykir ekki gott að hírast í helli og vera á vergangi og Grýla vill ekki vera annars staðar en þar sem hún kemst í rafmagn og getur notað alls konar tól og tæki til óhæfuverka og hefur sendibúnað og netsamband.  Hún sendir núna út á burðarbylgju  en hún er að gera tilraunir með útvarpssendingar til að geta hrætt marga í einu á sama tíma.  Sendingar hennar hafa náðst víða um lönd m.a. í Noregi enda hyggur hún á útrás til annarra landa eins og kemur fram í þessari frétt í dag á RÚV:

Landhelgisgæslan fékk í nótt fyrirspurn frá jarðstöð í Bodö í Noregi um hvort eitthvað óvanalegt væri á seyði, eftir að ratsjárstöðin á Bolafjalli við Bolungarvík fór að senda út merki á svokallaðri burðarbylgju. Gervihnöttur nam merkin frá Bolafjalli og sendi upplýsingarnar til Bodö.

Að beiðni Landhelgisgæslunnar voru menn sendir upp á Bolafjall til að kanna, hvort ekki væri allt með felldu. Stöðin hafði þá sent sjálfkrafa út á tveimur tækjum, sem þeir slökktu á. Þá var ljóst, að ekki var um neyðarkall að ræða. Ratsjárstöðin á Bolafjalli er ekki lengur mönnuð og þangað er ekki mokað lengur. Því urðu starfsmenn stöðvarinnar að fara á vélsleða upp á fjallið til að kanna málið. 
 

 


Grýla Ómars Ragnarssonar

Grýla Ómars Ragnarssonar á heima við Kárahnjúka og ef hún greiðir á sér hárið þá er það reitt og rifið eins og ryðgað víradrasl. Ég náði að festa á mynd Kárahnjúkagrýluna þar sem hún er á ferð í einum af trukkum sínum fullum af grjóthnullungum sem hún er núna að bryðja niður í sinni stóru og miklu steypuhrærivél.

karahnjukagrjotbill
Salvör teiknaði Grýlu á mynd Friðriks Dýrfjörð af grjótflutningsbíl við Kárahnjúka

 

Hér er það sem ég skrifaði um Grýlu Ómars árið 1996:

Grýlukvæði Ómars Ragnarssonar

Í næstelsta kvæðinu, Grýlukvæði Ómars Ragnarssonar býr Grýla stórbúskap í helli, hefur mikið umleikis og notar sleggju, járnkarl og steypuhrærivél við matargerð og étur með skóflu. Hár hennar er eins og ryðgað víradrasl. Þessi Grýla sveltur ekki, hún hefur tekið tæknina í sína þjónustu, hún eldar og umbreytir einu efni í annað og framleiðir vörur ofan í hyski sitt. Endurspeglar þessi Grýla óttablandna lotningu á framkvæmdum, stóriðju, virkjun fallvatna og beislun manna á náttúrunni? Má þekkja óvættinn á ryðguðu víradrasli? 

Brot úr Grýlukvæði eftir Ómar Ragnarsson:

Já matseldin hjá Grýlu greyi
er geysimikið streð.
Hún hrærir deig, og stórri sleggju
slær hún buffið með.
Með járnkarli hún bryður bein
og brýtur þau í mél
og hrærir skyr í stórri og sterkri
steypuhrærivél.
Ó Grýla, ó Grýla, ó Grýla
í gamla hellinum.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband