Bloggfærslur mánaðarins, maí 2016
1.5.2016 | 23:12
Riddarinn hugumprúði
um mann sem las yfir sig
Sagan er af miðalda manni riddaranum Don Kíkóta frá La Mancha sem hefur misst vitið af því hann las yfir sig af sögum um hina hugprúðu riddara. Hann fer nú í leiðangra á hesti sínum Rósant (Rocinante) og með skjaldsveini sínum Sancho Panza. Don Quixote er barinn og vegfarandi fer með hann heim. Vinir hans rakari og prestur ákveða að brenna allar bækurnar sem sviptu hann vitinu. Don Quixote fer á stjá að leita að sökudólgnum er aftur barinn. Sancho fer með hann á krá nokkra til að hann jafni sig. En Quioxe sér ekki krána heldur kastala og telur dóttur kráareigandans prinsessu. Hann barðist við vindmyllur og breytti eigin umhverfi í sagnaheim riddarasagna.
Rakskálin. Eða hjálmurinn
"Það er nefnilega ekkert víst í heimi hér: ekki hverjar persónurnar eru, ekki einu sinni hverjir hlutirnir eru, sem ætti þó að liggja í augum uppi. Don Kíkóti hirti rakskál af rakara vegna þess að hann hélt að hún væri hjálmur. Síðar rekst rakarinn fyrir hreina tilviljun inn á krá þar sem Don Kíkóti er staddur ásamt fleira fólki, hann kemur auga á skálina og vill fá hana til baka. En Don Kíkóti verður stórhneykslaður og þvertekur fyrir að hjálmurinn hans sé rakskál. Þannig snýst vera einfalds hlutar skyndilega upp í spurningu. Hvernig er annars hægt að sanna að rakskál sem sett er á höfuðið á manni sé ekki hjálmur? Glaðhlakkalegir kráargestirnir hafa stórgaman af þessu og finna einu raunhæfu leiðina til að fá botn í þetta mál: efna til leynilegrar atkvæðagreiðslu. Allir viðstaddir taka þátt í henni og niðurstaðan er afdráttarlaus: hluturinn er hjálmur."
Úr grein eftir Milan Kundera Töfrar hins óvænta Tímarit Máls og menningar, 3. tölublað (01.09.1999)
Hvernig sagan varð til
Hér er grein sem birtist í Timanum árið 1955 um höfund Don Kíkóta og tilurð sögunnar.
"Á miðjum Spáni, þeim hluta landsins, sem kallaður er La Mancha, liggur hásléttan eins og skrifað blað undir opnum himni. Víðáttan virðist auð og tóm, þegar frá eru skildir nokkrir fjárhirðar með hjarðir sínar og nokkur lágeist sveitaþorp. En ef þú hefir lesið langþekktasta skáldverk veraldarsögunnar, þá hlýtur þetta land að breyta um svip í augum þínum, og þá er ekki lengur tómlegt um að litast á þessum slóðum, því að á þessum slóðum lifðu þær rúmlega 600 persónur, sem um er getið í Don Kíkóta (Don Quixote).
Þarna gefur að líta vindmyllurnar, sem hinn aldni riddari skoðaði sem féndur sína og taldi að væru risar. Fullur af heilagri vandlætingu hvatti hann dróg sína sporum til þess að berjast við þá, til þess eins að detta ,af baki. Enn í dag köllum við það að berjast við vindmyllur, þegar einhver tekur að hamast á ósýnilegum, ímynduðum óvini. Einnig hefir nafn þessarar miðaldahetju fengið virðulegan sess í flestum tungumálum heimsins.
Sagan um vindmyllurnar er aðeins ein af hundruðum sagna, sumum
sorglega sönnum og sumum sannarlega sorglegum, er fylla þessa biblíu manngæzkunnar. Og gegnum öll þessi ævintýri liggur eins og rauður þráður sú heimspeki, er varð einu laun heimsins til höfundarins, Miguel de Cervantes.
Þú getur heyrt hláturinn í rödd hans, þegar hann var að skrifar þessa sjálfslýsingu: Svipurinn minnti á örn. Hárið var brúnt, ennið vel lagað og óhrukkótt og augun glaðleg. Nefið bjúgt og stórt. Skeggið orðið silfurgrátt, en var rauðgullið fyrir meira en tuttugu árum síðan. Yfirskeggið stórt og mikið, en munnurinn lítill. Tennurnar voru ekki nema sex og allar ljótar, en þó vel hirtar. Litarhátturinn var bjartur. Maðurinn var mikill vexti, en frekar seinn á fæti.
Höfundurinn var borinn í þennan heim 1547 í snotrum, gömlum háskólabæ, Alcalá de Henares, ekki langt frá Madrid. Fjölskyldan lagði þó fljótlega land undir fót til Valladolid, Seville og Madrid. Faðir hans átti nafnspjald, en lítið annað. Hann var læknir, en fékk
fáa sjúklinga, sem borguðu. Ein af fyrstu minningum Cervantes var, að hann sá föður sinn bera húsmuni fjölskyldunnar til veðlánara. Því næst minnist hann þess, þegar sýslumaðurinn kom til að hneppa föðurinn í skuldafangelsi.
Með einhverjum hætti tókst drengnum samt að afla sér menntunar. Það lítur út fyrir, að hann hafi stundað nám við háskólann í Salamanca, og hlýtur hann þá að hafa unnið fyrir sér sem herbergisþjónn hjá auðugum stúdentum. Skáldsagnahöfundur lærir ekki list sína af neinu nema lífinu sjálfu. Og á borgargötunum kynntist Miguel lífinu eins og það er í raun og veru, harðneskjulegt og óráðið, en ríkt af reynslu. Í leikhúsinu, þar sem hann eyddi hverjum skildingi, sem honum áskotnaðist, komst hann aftur á móti að þvi, hvernig lífið lítur út, þegar búið er að skapa úr því list. Hann uppgötvaði mátt lífslyginnar, og hann kom auga á hvernig hún getur skapað sannindi, sem enga stoð eiga í veruleikanum.
Það eina, sem hann átti rúmlega tvítugur voru hans eigin draumar, og allir voru þeir um frægð. Hann lagði leið sína til Ítalíu, þar sem Spánn í þá tíð átti mikil virki. Þarna gekk hann í herinn. Loks kom að því, að hann væri vel til fara. Þarna var hann í litríkum einkennisbúningi, og í fyrsta skipti á ævinni snæddi hann raunverulega máltíð. Þessi Ítalíuár varpa ljóma á margar blaðsíðurí verkum hans síðar, er hinn aldni stríðsmaður minnist með söknuði hinna glæstu öldurhúsa, Ijúffengu ítölsku vína og allra hinna fögru kvenna.
Einnig kynntist hann stríðinu af eigin raun. Það voru Tyrkir, sem upptökin áttu, og gjörvallt kristið mannkyn stóð á öndinni. Árið 1571 sigldi voldugur tyrkneskur floti vestur Miðjarðarhaf. Tyrkneski soldáninn Selmi II. hugðist rífa krossinn af Péturskirkjunni í Róm og reisa þar tákn Múhameðstrúarmanna. Spánn ákvað að veita Páfaríkinu og Feneyjum og sendi af stað mikinn flota undir stjórn Don Juans hálfbróður konungsins, Filippusar II. Á einu skipinu sigldi hinn ungi Miruel de Cervantes. Við Lepanto undan ströndum Grikklands mættu flotar bandamannanna flota Tyrkja í blóðugustu sjóorustu, sem enn hefir verið háð.
Átta þúsund kristnir fórust og tuttugu og fimm þúsund Tyrkir, og hvert skipið eftir annað hné í bárur hafsins, meðan hermenninir slógust með söxum á þiljum uppi.
Er orrustan hófst, lá Cerantes í hitasótt undir þiljum. En er gnýrinn óx, þaut hann upp til að berast. Hann fékk fljótlega tvö skot í brjóstið cg það þriðja hitti hann í handlegginn. Engu að síðir var hann fyrsti maður, sem réðst til uppgöngu á næstu tyrknesku freigátu. Er sólin sé í blóðstokkinn sæinn hörðu Spánverjar lifað einn stoltasta dag sögu sinnar, og sjaldan gat Cervantes verið hreyknari.
Er Miguel fór frá Ítalíu 1575, hélt hann af stað til Spánar fullur af björtum vonum. í vasa sínum hafði hann meðmælabréf mikið frá Don Juan til Filippusar kóngs, þar sem hann mæltist til, að hans hátign veitti þessum unga fullhuga og stríðshetju sæmilega launaða stöðu hjá stjórninni. Þessari sjóferð lauk þó þannig, að skipið var tekið af márískum sjóræningjum og Cervantes var fluttur i ánauð til Alsír.
Vegna þess, að sá handleggurinn, sem skotsárið hlaut í sjóorrustunni, var honum ónýtur, losnaði Cervantes við að sitja við árahlunnana á galeiðum sjóræningjanna. Hann var seldur Dali Mami sem var trúníðingur og ræningj. Þegar höfðingi sá las meðmælabréfið þótti honum einsýnt, að Cervantes væri hreint ekki ómerkileg persóna og skipaði svo fyrir, að maður skyldi sendur til Spánar, þar sem heimta skyldi fyrir hann mikið lausnargjald.
Mánuðir liðu og Miguel horfði á félaga sína tærast upp í fangelsunum. Hann var vitni að húðstrýkingum cg holdflettingum og horfði daglega á lík þeirra, sem hengdir voru fyrir tilraunir til undankomu. Engu að síður var hann leiðtogi og hjálparhella samfanga sinna. Hann reyndi að vinna bug á örvæntingu þeirra, og hvað eftir annað skipulagði hann uppþot í því skyni að afla þeim frelsis. Hann beið jafnan lægri hlut, en þegar að því kom, að hann var dæmdur til dauða, barg hugrekki hans honum. Þó að þessir sjóræningjar væru grimmir, dáðu þeir engu að síður karlmannlegt hugrekki andstæðinga sinna, og þegar Cervantes gekk fyrir húsbónda sinn og tók á sig einan alla ábyrgð af fangauppreisninni, þótti þeim svo til slíks eðallyndis koma, að honum var gefið líf.
Það var þó ekki fyrr en eftir fimm ára fangelsisvist, að ættingjum hans hafði tekizt að aura saman fyrir lausnargjaldinu. Þegar hann loks var látinn laus, var það viðurkennt, jafnt af Márum sem kristnum lýð, að aldrei hefði nokkur maður óbugaðri þolað fangelsun.
Árið 1580 sté Cervantes aftur á spánska mold og komst nú brátt að því, hve fljótt menn gleyma hetjuskap gamalla hermanna. Meðan hann beið árangurslaust eftir frama hjá stjórnarvöldunum, tók hann að dunda við skriftir. Bókin varð þó hvorki fugl né fiskur, Galatea hét hún og fjallaði um hraustbyggða hjarðmenn og léttúðugar hjarðstelpur.
Þessi bók færði þó höfundi sínum nægileg fjórráð til að kaupa brúðkaupsklæði og leggja brúði sinni 100 dúkata í búið. Stúlkan Catalina de Palacios Salazar y Vozmediano var bæði ung og falleg og hún hlaut í heimanmund nokkur ólífutré, víngarð, nokkrar býkúpur og dálítinn skika af landi fjölskyldu sinnar. Þetta hefði ekki verið svo afleit byrjun fyrir ungan bónda. En eiginmaðurinn var nærri helmingi eldri en hún var sjálf, og hann hafði meiri áhuga á skriftum en búskap. Hann flutti hana með sér til Madrid, þar sem hún lifði í óhamingjusömu hjónabandi meðal heimsglaðra leikara, rithöfunda og skálda.
Er hjónaband þeirra rann þannig út í sandinn, tók Cervantes aftur að halla sér að leikhúsunum, en honum tókst aldrei að skrifa neitt það leikrit, sem gæfi honum nokkra frægð. Þá kom allt í einu fram á sjónarsviðið ungur rithöfundur, Lope de Vega, sem á 24 klukkustundum samdi leikrit, sem gerði hann frægan á augabragði. Þá hvarf Cervantes frá leikritagerð og lagði ritstörf á hilluna. Nú sneri hann sér að skattheimtu, og ennfremur átti hann að sjá um að afla flotanum ósigrandi vista, en Filippus kóngur hugðist senda hann til að berja á Englendingum, sem nú voru teknir að gerast allbaldnir við spánska heimsveldið.
Gjörvallur Spánn kveður þegar við af sigursöngvum, skrifaði Cervantes um þessar mundir, er hann hamaðist við að safna kjötlærum og vínámum í þorpunum umhverfis Seville. En ekki leið á löngu unz Cervantes var á bak við lás og loku í fangelsi. Stærðfræði hafði aldrei verið hans sterka hlið, og bókhaldið yfir vistasöfnunina þótti í meira lagi tortryggilegt. Honum var að vísu fljótlega sleppt úr haldi, en var dæmdur í þyngstu sektir. Hann sneri sér nú aftur að skattheimtunni, og lagði þá skatta inn í banka í Seville.
Bankinn fór fljótlega á hausinn, og aftur var Cervantes kastað í fangelsi. Þarna gafst honum færi á að hlusta á hetjusögur alræmdra þjófa, og hann hlýddi á játningar gamalla morðingja. Meðan hann lá þarna geymdur á bak við slagbranda fangelsisins, lét hann hugann reika út yfir hvítar hæðir Andalúsíu. Fyrstu blaðsíðurnar í Don Kikóta voru að skapast í huga hans.
Þegar Cervantes var sleppt úr haldi, var hann loks fullfær að flytja boðskap sinn, og nú loks voru Spánverjar í standi til að hlusta á hann. Flotinn ósigrandi lá nú á hafsbotni, og ósigurinn hafði kennt Spánverjum þá lexíu, að sennilega myndu þeir aldrei verða til að bjarga heiminum einir sér. Nú var einmitt tíminn fyrir riddarann gamla að birtast úti við sjóndeildarhringinn í La Mancha, með sinn gamla þjón, Sancho Panza ríðandi á múlasna á eftir sér.
Don Kíkóti er gömul hetja. Reyndar ekki orðinn annað en skinnið og beinin og orðinn gjörsamlega ruglaður af lestri riddarasagna. Hann tekur að lokum að trúa þvi, að hann sé sjálfur hinn síðasti riddari kristinna þjóða og sé til þess kallaður að ríða fákl sínum til að rétta hlut lítilmagnans, frelsa fagrar meyjar og berja á tröllum.
Bókin um Don Kíkóta var fyrst gefin út 1605, þegar Cervantes var
58 ára, og frægð höfundarins varð brátt kunn um allt föðurland hans.
Lítið batnaði þó fjárhagur Cervantes, og þegar franskir stjórnarerindrekar komu til Madrid og spurðu eftir höfundi þessarar
frægu bókar, rak þá í rogastanz, er þeim var sagt, að hann væri
fátækur gamall hermaður og væri þekktur af fáum persónulega. Þeir fundu hann loksins í gömlu húsi í Calla del Leon þar sem hann kom til dyranna til að taka á móti hinum tignu gestum sínum í gamaldags bændakufli frá Kastilíu.
Hinn 23. apríl var það dauðinn sem barði að dyrum hans, og Cervanters var lagður í gröf sen enginn veit lengur hvar er. En allir þekkja riddarann gamla, sem enn mundar lensu sína gegn öllu því, sem óraunhæft er og skugga hans ber við loft, ekki aðeins á spánskri grund, heldur um gjörvallan heim."
Tenglar
Bækur og myndir um Don Quijote