Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Útflutningsverðlaun Forseta Íslands

Baugur að flytja úr landi? Tja..ég er hef eitthvað misskilið þetta. Var forsetinn að verðlauna Baug fyrir að flytja úr landi? Núna  er  Baugur Group  nýbúið að fá Útflutningsverðlaun Forseta Íslands árið 2008 fyrir forystuhlutverk sitt í íslensku útrásinni og þann einstaka árangur sem fyrirtækið hefur náð í sölu- og markaðsmálum í verslunarrekstri á heimsvísu.

Kannski er íslenska útrásin fólgin í að stunda strandhögg við strendur Íslands og annarra óvarinna svæða auðtrúa manna og flytja góssið út í hinn stóra heim. Kannski standa hinir íslensku víkingar núna fyrir stafni og stýra dýrum knerri sem siglir undir hentifána skattaparadísa auðmanna.

Ég veit ekki hvort það er hótun eða brandari að flytja  365 miðla úr landi. Alla vega er það mjög athyglisvert ef fjölmiðlar sem ætlað er að hafa áhrif á íslenskt samfélag eru staðsettir stjórnarlega einhvers staðar í útlöndum.

Sennilega verður ekki neitt af fyrirtækjum Baugs  flutt úr landi nema það borgi sig fyrir eigendur  fyrirtækisins. Það mun reyndar borga sig nema hér séu einhverjar skattareglur eða aðstæður sem gera eftirsóknarvert að hafa stjórnarsetur fyrirtækja hérna. Það getur vel verið að Jón Ásgeir flytji skattalegt aðsetur einhverra Baugsfyrirtækja til útlanda en ástæðan verður ekki dómsmálið. Það verður hins vegar notað sem tylliástæða.  Talandi um Baugsmálið þá er það ótrúlega litlar sakir sem Jón Ásgeir er dæmdur fyrir og ef þetta er eina sem hægt er að  finna á athafnamann í glæfralegum rekstri með margra ára  nákvæmri rannsókn stjórnvalda þá er Jón Ásgeir heiðarlegri en ég hélt.

Vefur Jons Gerald Sullenberger baugsmalid.is er að  miklu leyti níðskrif frá beiskum manni sem svífst einskis til að hefna sín og greinir stundum ekki aðalatriði frá aukaatriðum.  Kaflinn "Árshátíð  aðstoðarforstjóra" er dæmi um óáhugaverð aukaatriði sem engu máli skipta.  En  sumt efni á  vef Sullenbergers veitir innsýn  í heim íslenskra fjárglæfra þar sem fyrirtækin virðast vera  búin til til að versla hvert við annað  eftir krókaleiðum  til að flytja peninga að endingu beint í vasa einstakra manna.  Mér finnst Sullenberger sums staðar spyrja  skynsamlegra spurninga, t.d. í þessum kafla um skytturnar þrjár:

"Rúv.is birti nýlega frétt þess efnis að FL group og Pálmi Haraldsson í Fons, hafi keypt og selt flugfélagið Sterling á milli sín í nokkrum viðskiptum fyrir um 40.000 milljónir.

Pálmi Haraldsson keypti flugfélagið Sterling sem danskir miðlar sögðu á þeim tíma algerlega verðlaust vegna tapreksturs/skuldabagga á 4.000 milljonir krónur en hann seldi það svo nokkrum mánuðum seinna til FL group á 15.000 Milljónir.

Ég spyr:
Hvað gerðist í rekstri Sterling á nokkrum mánuðum sem jók verðmæti félagsins úr 4.000 milljónum í 15.000 milljónir króna sem hluthafar almenningshlutafélagsins FL group greiddu fyrir félagið ?

Hagnaður Pálma Haraldssonar í Fons, eins nánasta samstarfsaðila Jóns Ásgeirs, var á einungis örfáum mánuðum 11.000 milljón krónur á kostnað hins almenna hluthafa almenningshlutafélagins FL Group.

Saman stofna svo FL group og Pálmi Haraldsson félagið Northern Travel Holding og selja Sterling á 20.000 milljónir króna til þessa nýja félags en eignarhlutur Pálma og FL Group samanlagt nemur um 80% en hið öfluga fjárfestingarfélag Sund ehf. er sagt eiga 20%.

Ég spyr:
Hvað gerðist í rekstri Sterling flugfélagsins sem skýrir 500% hækkun á verðmæti félagsins þar sem Pálmi Haraldsson keypti félagið upphaflega á 4.000 milljón krónur?

Ég spyr:
Af hverju er Pálmi Haraldsson sem græddi 11.000 milljónir á verðlausu flugfélagi, að kaupa sama verðlausa flugfélagið á 20.000 milljónir tilbaka í gegnum nýtt félag þar sem hann er jafnframt Stjórnarformaður sem og stærsti hluthafinn ásamt FL Group ?  "  

Indriði H. Þorláksson skrifar athyglisverðar greinar

Eignarhald á íslenskum fyrirtækjum

Útrás og innrás, efnahagsleg og skattaleg áhrif

Indriði mælir spaklega um íslensku útrásina:

Lítill hluti af hagnaði af starfsemi íslenskra útrásarfélaga erlendis skilar sér í hendur innlendra aðila og er ráðstafað hér á landi. Skatttekjur íslenska ríkisins af þessari starfsemi eru tengdar þeim hagnaði sem tekin er til landsins og gildandi skattareglum svo og leiða til að koma hagnaði óskattlögðum úr landi. Áhrif útrásar íslenskra aðila á íslenskt efnahagslíf eru því að líkindum ekki ekki mjög mikil og skatttekjur íslenska ríkisins af atvinnurekstri íslenskra aðila erlendis eru ekki miklar. Ástæðan fyrir hvoru tveggja er að hluta til sú að eignarhald á íslenskum eigendum útrásarfyrirtækjanna er að nokkuð miklu leyti í höndum aðila sem skráðir eru erlendis en einnig af því að skattareglur í þessum efnum hér á landi eru ófullnægjandi.

Hver ætli fái útflutningsverðlaun forseta Íslands á næsta ári? Fons? Geysir Green Energy? 

 

 


mbl.is Mun flytja einhver félög Baugs til annarra landa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn ís á Norðurpólnum í ár

polar_35097aÞað eru meira en helmingslíkur á því að  það verði íslaust á Norðurpólnum í sumar, sjá þessa grein í Independent:  There is No Ice at the North Pole this Summer

Þetta verður þá í fyrsta skipti í sögu mannkyns sem það gerist. Vísindamenn segja að þetta sé vegna þess að núna sé ekki yfir pólsvæðinu þykk íshella heldur bara þunnur ís sem hafi myndast  á einu ári og þessi þunni ís geti auðveldlega bráðnað í sumar.

Aðstæður eru þannig núna að 70% af ísnum sem þekur svæðið er ís sem hefur myndast á einu ári. Hér er kort sem sýnir svæðið sem er á þunnum ís.

 Inúítar hjá Baffinsflóa milli Kanada og Grænlands segja líka að það sé miklu fyrr í ár sem ísinn brotnar upp í rekís.

Hugsanlega er samhengi milli þessa ástands á Norðurpólsvæðinu og þess að hingað hafa komið tveir eða fleiri ísbirnir í ár. Ef ísinn hverfur þá eru ísbirnir í bráðri útrýmingarhættu, búsvæði þeirra er horfið.

Hér er önnur grein um ástandið 

 Scientists warn Arctic sea ice is melting at its fastest rate since records began

 Ég minnist þess ekki að hafa séð spá um fiskistofna og lífríki sjávar við Ísland út af þessari ísbráðnun en þetta hlýtur að hafa áhrif, sjórinn er hlýrri og margar lífverur þrífast aðeins við eitthvað kjörhitastig. Fiskur á Íslandsmiðum er mjög háður því hvernig ljósáta dafnar í sjónum, svifþörungarnir sem ljósáta lifir á eru undirstaða lífsins í hafinu. Reyndar líka alls lífs á jörðinni ef út í það er farið.

Það eru kannski ekki allir svo óánægðir með að ísinn bráðnar, þegar heimskautaísinn bráðnar verður miklu auðveldara að komast að olíunni sem liggur á sjávarbotni.

"Paradoxically, the loss of sea ice will give Arctic countries such as Russia, Denmark, Canada, Norway and the US easier access to the parts of the seabed that are thought to be rich in oil and gas - the same fossil fuels that have exacerbated the global warming that has caused the sea ice to melt in the first place. "It's really rather disappointing when we talk about 25 per cent of the world's oil and gas reserves being under the Arctic when the loss of sea ice is the reason why we can get to it," Dr Serreze said."

Ég veit ekki hvort það gildir líka um Ísland að það verði auðveldara að dæla þeirri olíu sem finnst í íslenskri lögsögu en það er þó þannig að bráðnun Íshafsins þýðir opnun á siglingaleið sem hingað til hefur ekki verið raunhæfur kostur. Það er líklegt að áhugi Kínverja á Íslandi stafi að einhverju leyti vegna þessarar siglingarleiðar.

Það er mikilvægt fyrir alla íbúa jarðarinnar að hlusta á vísindamenn og aðra sem mæla hvað er að gerast og spá fyrir um hvað muni gerast. 

Uppfært:Sá að Mogginn er kominn með grein um ísbráðnunina:
Norðurpóllinn íslaus í haust?

 


mbl.is Plöntur flýja til fjalla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spegill,spegill, herm þú mér, hver fegurst er í borginni hér

Snow_White_Mirror_4

 Það eru þreyttir tímar hjá Samfylkingunni í Reykjavík núna, engin völd og engin áhrif. Á svoleiðis stundum  er gott rýna í spegil og dáleiða sjálfan sig til að trúa því að þetta sé allt að koma  og helst dáleiða alla í kringum sig í leiðinni því ef blekkingin er nógu sterk þá getur hún orðið að sannleika. Samfylkingin rýnir í sjálfsmynd sína í töfraspegli nútímans, spegli sem hún hefur sjálf hannað og stillt birtuna þannig að ekkert sjáist nema hún sjálf.

Svona nútímaspeglar eru gerðir úr því efni sem best hentar til blekkinga og það eru náttúrulega prósentutölur og súlur. Hver treystir ekki tölum? Hver spyr svosem smásmyglilegra spurninga eins og hvernig spurningarnar hafi verið orðaðar, hvað er langt í kosningar,  hver greiddi skoðanakönnunina og pantaði  og hagræddi spurningunum. 

Við Framsóknarmenn tökum alla vega ekki mikið mark á skoðanakönnunum Samfylkingar í Reykjavík ef þær eru þannig að foringjar Samfylkingar þola ekki að neitt skyggi á fegurð þeirra í speglinum og reyna að afmá úr myndinni allt sem er að gerast sem gæti dregið athyglina frá þeim. Við höfum reynslu af frekar hallærislegum vinnubrögðum Samfylkingar við svona skoðanakannanir, sjá þessa grein eftir Hall Magnússon: Óttast Samfylkingin Óskar Bergsson? 

Það er af og frá að Samfylkingin hafi styrk kjósenda til að stjórna þessari borg ein og næstu kosningar munu líka leiða það í ljós. Stór hluti af mældum vinsældum Samfylkingar núna er gífurleg óánægja borgarbúa með þá stjórn sem nú situr og þá sérstaklega óánægja með Sjálfstæðismenn í borginni ásamt því að enginn borgarbúa vill ennþá einn skrípaleikinn í stjórnartaumum þessa stærsta fyrirtækis landsins sem Reykjavíkurborg er. Við svoleiðis aðstæður er eðlilegt að óánægjan mælist í því að fólk styður í skoðanakönnun þann næststærsta, þann sem er líklegastur til að leiða andstöðu við þá sem nú stjórna. Það er af og frá að þessi skoðanakönnun endurspegli þannig styrkleika Samfylkingarinnar að hún þurfi ekki á öðrum félagshyggjuflokkum að halda til að ná völdum í borginni.

Það eru hagsmunir allra Reykvíkinga að hér sé festa í stjórnmálum og allt stjórnarstarf einkennist ekki af glundroða og vitleysisgangi. Það sem af er þessa kjörtímabils hefur það ekki tekist, það er öruggt að hér verða alla vega fjórir borgarstjórar á þessu tímabili og hér er stjórnarkreppa sem ekki sér fyrir endann á.  Sagan hefur sýnt að félagshyggjuöfl komast ekki til valda í Reykjavík með því að berjast hvert við annað. Þau komast til valda með því að vinna saman.

 

 

 


mbl.is Samfylkingin fengi meirihluta í borgarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinnubrögð Svans Kristjánssonar og heiður háskólans

Svanur Kristjánsson hefur aðra sýn á skyldur sínar sem háskólakennara en ég. Svanur er prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og hefur kennt við háskólann í 35 ár. Svanur skrifaði nýlega þessar tvær greinar:

Hannesarmálið 2008 og HÍ

Hannesarmálið 1988 og sjálfstæði Háskóla Íslands

þessi skrif Svans eru langt í frá eðlileg skrif prófessors sem hefur kennt við háskólann í 35 ár og bera hvorki vott um faglega og hlutlausa orðræðu né þá yfirsýn og næmi  og færni sem ætla mætti að svo reyndur háskólamaður hefði.  Mér virðist Svanur einnig ekki hafa orðspor háskólans eða sinnar háskóladeildar að leiðarljósi þegar hann kýs ráðast  á tvo samstarfsmenn sína við Félagsvísindadeild.

Í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna þá er svohljóðandi grein (14 grein):

Starfsmanni er skylt að rækja starf sitt með alúð og samviskusemi í hvívetna. Hann skal gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni í starfi sínu. Hann skal forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein er hann vinnur við.

Ég get ekki séð annað en Svanur hafi brotið gegn þessari grein um skyldur sínar í starfi. Hann varpar vísvitandi rýrð á það starf og starfsgrein sem hann vinnur við og ræðst á tvo samstarfsmenn á opinberum vettvangi. Það er undarleg hegðun. Í engu einkafyrirtæki og engum einkareknum háskóla myndi starfsmanni líðast að vega svona heiftarlega á opinberum vettvangi að hagsmunum þeirrar stofnunar sem borgar honum kaup.  

Svanur Kristjánsson reynir að kasta fræðimannskufli yfir skrif sín en honum tekst það afar illa. Hann er of tengdur þeim  málum sem greinar hans fjalla um og honum tekst ekki að leyna óbeit og óvild í garð Hannesar. Raunar er það ekki nýtt að Svanur Kristjánsson sé ekki vel hæfur til að tjá sig um mál sem tengjast Hannesi bróður mínum og til mun vera álit lögmanna einmitt um það  mál. Andrés Magnússon skrifar eftirfarandi í pistlinum Heiður háskólans

"Á sínum tíma lét dr. Hannes þau orð falla á deildarfundum að vegna persónulegrar óvildar væri Svanur vanhæfur til að fjalla um sín mál, sem aftur varð til þess að dr. Svanur leitaði til Háskólarektors og krafðist úrskurðar um málefnið. Rektor leitaði því til lögmannanna Háskóla Íslands, þeirra Gests Jónssonar og Harðar F. Harðarsonar, en þeir gáfu út það skriflegt álit „að Svanur Kristjánsson [væri] vanhæfur til að fjalla um mál innan stjórnmálafræðinnar sem varða hagsmuni Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar.“"

Í annarri greininni þá veitist Svanur að tveim starfsfélögum sínum í stjórnmálafræði þeim Ólafi Harðarsyni og bróður mínum Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni. Í hinni greininni rifjar Svanur upp tuttugu ára gamalt mál sem varðar skipan bróður míns í embætti 1988  og setur fram sína sýn á hvað gerðist þá og sína röksemdafærslu og segir m.a. um ráðningu bróður míns fyrir tuttugu árum: "Af þessum orðum er ljóst að Hannes Hólmsteinn hlaut lektorsstöðu við Háskóla Íslands eingöngu vegna skoðana sinna og hugmynda en ekki fræðilegra eiginleika."

Það er undarleg og barnsleg greining prófessors með 35 ára reynslu við kennslu í háskóla á atburðarás við stöðuveitingu fyrir tuttugu árum. Málsatvik  voru þá þessi: Auglýst  var lektorsstaða árið 1988 og meðal umsækjenda voru Hannes og Ólafur Harðarson. Á þessum tíma  hafði Hannes lokið doktorsprófi í stjórnmálaheimspeki frá  Oxfordháskóla  þremur árum fyrr eða árið 1985 og lokið cand.mag. próf í sagnfræði. Ólafur Harðarsson hafði þá eingöngu lokið meistaraprófi en hann  lauk síðar doktorsprófi eða sex árum eftir að lektorsstaðan var auglýst eða árið 1994. Ólafur er hinn mætasti fræðimaður og fékk seinna stöðu við Félagsvísindadeild eins og Hannes og er nú prófessor og deildarforseti þar.  

Svanur Kristjánsson prófessor sem hefur kennt við háskólann í 35 ár  ætti að vita það manna best að samanburður á námsferli Hannesar og Ólafs á þeim tíma sem lektorsstaðan var auglýst var Hannesi mjög í vil. Það er  einn helsti mælikvarðinn á gæði náms í háskólum að kennarar þar hafi doktorspróf.  Svanur ætti manna best að vita að ef Ólafur Harðarson hefði verið búinn að ljúka doktorsprófi á þessum tíma þá hefði samanburður milli hans og Hannesar verið allur annar og mjög erfitt hefði verið að rökstyðja að Hannes hefði verið tekið fram yfir Ólaf. Þetta mál var hápólitískt árið 1988 og ég efa ekki að það hafi verið vilji menntamálaráðherra að koma málum svo fyrir að inn í stjórnmálafræði í háskólanum væru menn hliðhollir markaðshyggjuöflum. Það var hins vegar fráleitt eina atriðið sem varð til þess að Hannes fékk lektorsstarfið og Svanur Kristjánsson veit það fullvel eins og ég þó hann kjósi núna að grafa upp tuttugu ára mál og bera á borð einstök undarlega valin atriði úr því máli  í því augnamiði að sparka í samstarfsmann sinn liggjandi þegar hann liggur vel við höggi eftir nýuppkveðinn hæstaréttardóm.

Í seinni grein Svans þá setur Svanur fram vægast sagt undarlega túlkun á orðum Ólafs Þ. Harðarssonar en Ólafur mun ekki hafa viljað tjá sig um mál Hannesar við dagblað á Íslandi þegar háskólarektor hafði skrifað bréf. Eiginlega er orðræða Svans svo skrýtin að það er ekki eins og þar tali prófessor sem kennt hefur við háskólann í 35 ár heldur frekar eins og  maður sem hefur blindast af einhvers konar þráhyggju og grautað í stjórnsýslulögum og pikkað upp orð á stangli án þess þó að skilja um hvað hann er að tala. Þessi grein lýsir miklum dómgreindarskorti. Hvernig í ósköpunum á það að gera deildarforseta vanhæfan til að gegna starfi deildarforseta að hann vilji ekki tjá sig um mál í fjölmiðlum, mál sem augljóslega er ekki deild hans og fagsviði til neins álitsauka. Burtséð frá því hvaða skoðun Ólafur kann að hafa á dómi hæstaréttar og afbrotaferli Hannesar í heimi gæsalappanna þá þjónar það augljóslega ekki hagsmunum Félagsvísindadeildar að blása það mál meira upp í fjölmiðlum. 

Hér er smábrot af þessum undarlegu skrifum Svans um deildarforseta:

"Morgunblaðið leitaði eftir viðbrögðum forsvarsmanna deildar Hannesar Hólmsteins, félagsvísindadeildar, við dómi Hæstaréttar yfir prófessor við deildina. Í frétt blaðsins 5. apríl sl. sagði m.a.: „Ólafur Þ. Harðarson, forseti félagsvísindadeildar, hefur lýst sig vanhæfan til að fjalla um mál Hannesar og vildi ekki tjá sig um bréf rektors í samtali við Morgunblaðið í gær."

Jafngildir afsögn

Ólafur Þ. Harðarson prófessor hefur verið deildarforseti félagsvísindadeildar undanfarin sjö ár en aldrei upplýst deildarmenn um vanhæfi sitt gagnvart Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni. Hannes Hólmsteinn hefur hins vegar gegnt ýmsum trúnaðarstörfum í deildinni, kennt skyldunámskeið í stjórnmálafræði, setið í dómnefndum, verið varaformaður í námsnefnd í stjórnmálafræði og ekki síst (í ljósi dóma um fræðistörf hans): hann var um tíma ritstjóri Íslenskra félagsrita sem er fræðilegt tímarit félagsvísindadeildar.
Yfirlýsing Ólafs Þ. Harðarsonar jafngildir að mínu mati afsögn hans úr starfi deildarforseta og setu í háskólaráði því eðli málsins samkvæmt getur yfirmaður í opinberri stofnun ekki verið vanhæfur gagnvart einstökum undirmönnum sínum en jafnframt viðhaldið stöðu trúverðugs yfirvalds. Einnig ætti að vera ljóst að Ólafur Þ. Harðarson getur ekki með trúverðugu móti gegnt neinni stöðu yfirmanns við Háskóla Íslands á meðan Hannes Hólmsteinn er þar kennari. En hér munu limirnir sjálfsagt dansa eftir höfði skólans."

Getur verið að prófessor í stjórnmálafræði sem kennt hefur við háskólann í 35 ár haldi að það hafi einhverja réttarlega þýðingu og valdi vanhæfi að deildarforseti í einhverri deild í háskólanum vilji ekki tjá sig um mál í fjölmiðlum?

Það gerir ekki annað en rýra orðspor Háskóla Íslands og orðspor Félagsvísindadeildar að fjalla um málefni í deildinni á þann hátt sem Svanur Kristjánsson gerir. Það er erfitt að gera sér í hugarlund hvað vakir fyrir Svani með þessum skrifum. Það er alla vega ekki að kveikja umræðu um hvernig Háskóli Ísland og sú deild sem Svanur starfar við geti tamið sér betri vinnubrögð eða hvað séu góð fræðileg vinnubrögð og hvernig þekkingarsköpun verður til í háskólum og hvert sé hlutverk háskóla í nútíma samfélagi. Ég ætla hér ekki að varpa fram þeirri skýringu sem mér finnst líklegust að stýri skrifum Svans Kristjánssonar -  ég hef sem betur fer sett sjálfri mér siðareglur fyrir þetta blogg og meginkjarninn í þeim er að reyna að láta ekki rætna og fyrirlitlega orðræðu breyta minni eigin orðræðu þannig að ég tjái mig á sama hátt. 

Ég efa það ekki að Svanur Kristjánsson á að baki glæstan rannsóknarferil eftir að hafa kennt við háskólann í 35 ár.  Ég vona að ég geti lært af  hinum vönduðu fræðimannsvinnubrögðum hans. En það hefur ekki farið fram hjá neinum að Svanur hefur ákveðnar skoðanir í stjórnmálum og hefur verið virkur þátttakandi á sviði stjórnmála. Það kann að hafa haft áhrif á vísindaleg vinnubrögð hans. Það hafa ekki allir verið sáttir við vinnubrögð Svans í opinberri orðræðu á Íslandi

Ég var að lesa áðan grein á bloggi eins Framsóknarmanns Jóns Einarssonar um orðræðu Svans Kristjánssonar árið 2004 en þá var Svanur að tjá sig um framsóknartengd málefni í RÚV. Það er gaman að bera þessi skrif saman við skrif Svans núna, þetta eru hvort tveggja vandlætingargreinar um fræðileg skrif og heimildanotkun. Ég hef mikinn áhuga á að skoða þetta viðtal við Svan frá árinu 2004 og skoða hvort sá grunur minn sé réttur að viðtalið sé tekið við hann sem fræðimann í stjórnmálafræði.

Þessi grein Jóns heitir Rógburður í Ríkisútvarpinu og er frá 12. nóvember 2004. Hún er svona:

"Í gær var í kvöldfréttatíma Ríkisútvarpsins birt brot af viðtali við Svan nokkurn Kristjánsson, titlaðan prófessor í stjórnmálafræði.  Viðtalið birtist í heild í þættinum Spegillinn eftir fréttirnar.  Af efni viðtalsins mætti halda að líklegra sé að sérgrein Svans séu bókmenntir, þá sérstaklega skrök- og ýkjusögur.  En Svanur setti fram alls kyns fullyrðingar um Framsóknarflokkinn og fjármál hans og var að reyna að tengja flokkinn og Olíusamráðsmálið.  Ekki vísaði hann þó í neinar heimildir eða lagði fram neitt til stuðnings fullyrðingum sínum. Þess í stað vísaði hann í ónefnda heimildarmenn, sem hann sagði að væru “traustir”.  Á sama hátt og Gróa á Leiti notaði farsann “Ólyginn sagði mér” til að reyna að fá fólk til að trúa hviksögum sínum.

Þegar ég byrjaði í Háskóla Íslands voru nýnemar settir í svo kölluð Forspjallsvísindi til að kynna fyrir þeim og kenna þeim vísindalegar aðferðir.  Eitt af því sem einkennir vísindalega aðferð er tilvitnun í heimildir.  Það er gert til þess að aðrir, sem vilja kynna sér réttmæti fullyrðinga og framlagðra kenninga, geti farið ofan í heimildirnar.  Kannað réttmæti þeirra.  Það er meira að segja þannig í Háskólanum að fræðiritgerðir verða að innihalda nokkuð nákvæma tilgreiningu heimilda.  Það þýðir ekkert að setja í heimildatilvísun í fræðiritgerð orð eins og “ólyginn sagði mér” eða “lítill fugl hvíslaði að mér”.  Sá sem það gerir fær falleinkunn.  Á sama hátt er tilvísun til “traustra” heimildamanna án nánari tilgreiningar ekkert annað rógur.

En hvað gengur virðulegum stjórnmálafræðiprófessornum til?  Hvaða hag hefur hann af því að setja fram róg af þessum toga?  Er það gert til að öðlast virðingu fræðasamfélags stjórnmálafræðinga?  Varla, enda sjá þeir strax að engar heimildir fylgja fullyrðingunni.  Er það þá gert í flokkspólitískum tilgangi, til að koma höggi á Framsóknarflokkinn?  Því verður að svara játandi, enda augljóst.  Svanur Kristjánsson hefur ekki svo komið í spjallþátt að hann taki ekki upp hanskann fyrir Samfylkinguna.  Ég veit svo sem ekki hvort hann er flokksbundinn í þeim flokki, hef ekki heimildir um það.  En hann hagar sér eins og hann sé þar innvígður.

Það verður ekki annað séð en að framganga Svans Kristjánssonar hafi sett blett á nafn Háskóla Íslands.  Menn hljóta að spyrja sig hvort það teljist ásættanleg vinnubrögð hjá fræðimönnum í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands að þeir, blindaðir af hatri á Framsóknarflokknum, setji fram rógburð án þess að leggja fram snefil af gögnum eða heimildum því til stuðnings?  Eru forystumenn Háskólans sáttir við svona vinnubrögð?  Ef svo er, þá hlýtur maður að spyrja sig hvort þetta sé framtíðin?  Að stúdentar geti héðan í frá bara sleppt heimildavinnu og spunnið eitthvað upp?  Ég held ekki.  Svanur Kristjánsson er fallinn á prófi í stjórnmálafræði og vísindalegum vinnubrögðum.  Einkunn 0,0.  Hans hæfileikar liggja greinlega annars staðar, nánar til tekið í skáldsagnagerð.

Þessa vikuna hefur einn  þjóðþekktur maður sagt af sér vegna yfirsjóna sinna.  Á Svanur Kristjánsson að sitja áfram í embætti prófessors eftir svona vinnubrögð?  Almenningur borgar fyrir Háskóla Íslands.  Almenningur á kröfu á að fræðimenn við Háskóla Íslands, sem fá laun greidd af fé skattborgaranna, ástundi vísindaleg vinnubrögð.  Það er því eðlileg krafa almennings að Svanur Kristjánsson setji fram sannanir fyrir máli sínu, en segji ella af sér.

Jón Einarsson

 Hér eru tenglar í umræðu sem sprottið hefur um greinar Svans

Heiður háskólans 

Framlag Svans til 100 háskólalistans

Svanur um Hannes og háskólann.

 Óþægilegt að hafa dæmdan prófessor, segir Ólafur, en sér ekki hvað væri að …

Segir Svan ófrægja Hannes Hólmstein 

 Hannesi til hálfvarna

 


Steingrímur - smiður sem byggir brýr

IMG_4620Hér eru nokkrar myndir sem ég tók á málþingi til heiðurs Steingrími Hermannssyni 80 ára. Málþingið var haldið í Salnum í Kópavogi. Mörg góð erindi voru flutt, sérstaklega fannst mér góð ræðan hjá Guðna og svo erindi Birgis Guðmundssonar um brúarsmíði Steingríms. Birgir líkti þar Steingrím við brúarsmið sem byggir brýr milli fólks og flokka og fór yfir hvernig Steingrími hefði tekist að mynda samstöðu meðal félagshyggjuflokka og samstöðu innan eigin flokks.

Það var í lok málþingsins afhjúpað málverk af Steingrími.

Ég þekki Steingrím ekki persónulega en ég ber virðingu fyrir honum sem miklum stjórnmálamanni og  ég hef lesið ævisögu hans sem Dagur Eggertsson skráði. Móðir mín var mikill aðdáandi Steingríms enda var hún sanntrúuð Framsóknarkona og allir leiðtogar Framsóknar hófust sjálfkrafa í guðatölu hjá henni. Man ég að mér þótti nóg um hvað hún var ógagnrýnin á allar gjörðir sinna flokksmanna.

Það var gaman að heyra persónulýsingar á Steingrími í gegnum erindin sem voru flutt í dag, hann var maður sem sameinaði,  alþýðlegur maður sem lagði sig eftir að hlusta á alla og vann verk sín skipulega. Það var líka gaman að heyra í lokaávarpi Steingríms sjálfs hvernig hann rakti þroska sinn frá því að hann kom ungur maður heim frá námi fullur af áhuga á því að virkja allt  sem hægt væri að virkja á Íslandi til þess að hann verður með árunum meðvitaðri um umhverfismál og umhverfisvernd og skoðun hans og áherslur breytast. Ég held að þessi þroskasaga sem Steingrímur rakti fyrir okkur eigi við um íslensku þjóðina alla.

Hér eru nokkrar myndir sem ég tók á málþinginu 

IMG_4616 
Hjónin Edda og Steingrímur fyrrum forsætisráðherra í lok málþingsins

IMG_4601
Sigurbjörg fyrrum formaður Freyju í Kópavogi, Jónína fyrrum umhverfisráðherra og Vigdís fyrrum forseti Íslands

xIMG_4597
Geir Haarde  forsætisráðherra mætti á málþingið til að heiðra forvera sinn í starfi.

 IMG_4595
Áhrifamenn í orkumálum og umhverfismálum á Íslandi í dag, Friðrik forstjóri Landsvirkunar, Ólafur Ragnar forseti Íslands og Össur iðnaðar og orkumálaráðherra.

 IMG_4614

Sigrún Magnúsdóttir fyrrum borgarfulltrúi segir að Steingrímur Hermannsson hafi búið sig til sem stjórnmálamann. 

xIMG_4610
Unnur Stefánsdóttir  á íslenskum búning, Drífa Sigurðardóttir og ég

IMG_4611

Guðni formaður Framsóknarflokksins í góðum félagsskap

xIMG_4607

Ungir Framsóknarmenn mættu til að hylla Steingrím áttræðan.
Hér eru Fanný, Eggert og Bryndís 

 

IMG_4613

Guðmundur sonur Steingríms stýrði málþinginu af röggsemi og spilaði á  nikkuna sína að því loknu. Guðmundur ljóstraði upp hvernig hann hefði falið sig á milli hæða á bernskuheimili sínu í Mávanesinu og fylgst með öllum viðræðum og plottum. Núna er Guðmundur ekki lengur á milli hæða, hann er meira svona inn og út um gluggann sem varaþingmaður. Guðmundur er ekki eins og góður Framsóknarmaður og faðir hans  og talar stundum um Framsóknarmenn af drambi æskumannsins.

xIMG_4609

Unnur, Drífa og Ólöf formaður Landssambands Framsóknarkvenna

IMG_4615

Það skiptast á skin og skuggar í sögu Framsóknarflokksins, það vita þeir Steingrímur fyrrum formaður og Bjarni Harðarsson þingmaður Framsóknarflokksins á Suðurlandi sem hér eru að sumu leyti uppljómaðir af sólinni og að sumu leyti í skugga. Í dag var haglél á Hellu í kjördæmi Bjarna þó um hásumar væri. 

En öll él styttir upp um síðir. 


mbl.is Steingrímur Hermannsson 80
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

19. júní - Málum heiminn bleikan

 19jun_banner_500px

Málum líka nóttina bleika. Málum líka heiminn bleikan. Til hamingju Ísland með nýja jafnréttissetrið! það er mikið gæfuspor. Sums staðar í heiminum verða allar konur fyrir grófu kynbundnu ofbeldi. Það er kominn tími til að við íslenskir femínistar færum okkur út fyrir landsteinana og reynum að breyta heiminum, það hefur gengið býsna vel að breyta Íslandi...... já, veit... einnþá töluvert eftir þar samt. 

Baráttudagur íslenskra kvenna er í dag. Hér er vefsíða sem ég tók saman 2004  þegar ég stýrði vefsvæði Femínistafélagsins. Hér eru myndir sem ég tók  frá 19. júní 2003

xausturvollur-gyda

xausturvollur-kristin-olof-gras


mbl.is Nær öllum konum nauðgað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn sanni Íslendingur

bokakapa-hinn-sanni-islendingurÉg hélt upp á 17. júní hérna á Laugarvatni, fór í hátíðardagskrána í íþróttamiðstöðinniog svo borðaði ég pönnukökur og kleinur í kaffisölunni í grunnskólanum. Ég hef áður verið hér á 17. júní, það var þegar listsýningin Gullkistan stóð yfir og þá var hátíðardagskrá í smíðahúsinu en nú er það hús núna horfið.

Í tilefni þjóðhátíðardagsins hóf ég lestur bókarinnar  "Hinn sanni Íslendingur" eftir Sigríði Matthíasdóttur.  Bók Sigríðar fjallar þjóðerni,kyngervi og vald á Íslandi árin 1900 til 1930 - um hvernig sjálfsmynd þjóðar verður til og hvernig hún er búin til með hliðsjón af miðstéttarkarlmanni og hvernig það tengist réttindum, eðli og hlutverki kvenna.  Það var gaman að lesa í bókinni í minningareitnum um Hriflu-Jónas í hlíðinni fyrir ofan Héraðsskólann, bókin fjallar um tímabil þar sem Jónas er að komast til valda á Íslandi en hann kom heim úr námi 1909.

Svo horfði ég líka í tilefni dagsins á heimildarmyndina The Architecture of Doom (hér er hægt að horfa á myndina).  Þetta er mynd um fagurfræði nasismans.

Jónas frá Hriflu og Adolf Hitler eru af sömu kynslóð, fæddir 1885 og 1889.  Sennilega hafa þeir mótast að einhverju leyti af sömu hugmyndum um þjóðerni og sömu hugmyndum um list. Reyndar var Þýskaland hugmyndabrunnur heimsins og frá þýskum hugsuðum bárust hugmyndir til Danmerkur og inn í lýðháskóla þá sem íslenskir sveitapiltar sóttu.

Eitt af því sem Jónas gerði var að setja upp háðungarsýningu á úrkynjaðri list 1942. Það er nú ekki talið í dag sem hans mesta afreksverk. Í myndinni Architecture of Doom kemur fram að þetta var gert víða í Þýskalandi árið 1937. Sjá nánar hérna Wikipedia greinina Degenerate art. Ef til vill hefur Jónas fengið hugmyndina þaðan og hugmyndin verið fimm ár að flæða frá Þýskalandi til Íslands.

Gamli héraðsskólinn á Laugarvatni 17. júní á Laugarvatni 17. júní á Laugarvatni

Fiðrildi á Heklu

Nú þegar ég veit hvað Vatnajökulsþjóðgarður er stór þá er annað sem heldur fyrir mér vöku. Það eru fiðrildin á toppnum á eldfjallinu Heklu. Af hverju eru fiðrildi langt fyrir ofan öll gróðurmörk efst við Heklutinda? Á hverju lifa fiðrildi? Vakna þau bara til lífsins og flögra upp á við burtséð frá því hvort þetta upp á við er í áttina fyrrum fordyri Helvítis og virku eldfjall sem miklar líkur eru að gjósi innan tveggja ára?

Ásta og Kristín fóru um helgina í miðnæturgöngu á Heklu til að sjá sólarupprásina af Heklutindi og hlíðum Heklu. Það var víst ekki sól á tindinum en þar nálægt voru fiðrildi segir Ásta sem fór á efsta tind Heklu. Ég var á Laugarvatni og tók á móti þeim þar. Hér koma þær í hlað eftir svefnlausa göngunótt.

 Við vorum á Laugarvatni um helgina og skoðuðum sveitirnar í kring. Hér er mynd af dætrum mínum við gamla gufubaðið á Laugarvatni, ég held að það sé að hverfa og nýtt komi í staðinn.

Ingólfsfjall Þrastarskógur

Þrastarskógur SogiðÉg gekk um í Þrastarskógi á laugardaginn á meðan þær sváfu. Það liggur afar falleg gönguleið í gegnum skóginn frá Þrastarlundi meðfram Soginu. Hér er mynd af Ingólfsfjalli (sem er móbergsstapi skv. skilti sem ég stoppaði við, varð til úr gosi undir jökli), ég sá greinileg ummerki um nýfallnar skriður í fjallinu, þær hafa væntanlega komið þegar fjallið hristist til í Suðurlandsskjálftanum. 

Hér fyrir ofan er akvegur úr rauðamöl og sést yfir tjaldstæðið í Þrastaskógi.  Ég las hérna hvað rauðamöl er: "Nýtt gjall er oft svart og gljáandi af glerjungi, en ef gufur leika um það litast það rautt af hematíti vegna oxunar járns og er gjallið þá kallað rauðamöl"

 Lúpínan er í blóma núna á Laugarvatni og litar fjallið í ævintýraliti, lúpínubreiður verða fallegri eftir því hve miklu meiri fjarlægð maður horfir á þær, langt í burtu séð verða fjólubláu og sterkbyggðu jurtirnar  eins og ævintýramistur.

Við gengum um hjólhýsahverfið á Laugarvatni, fólk hefur þar búið sér til unaðsreiti í sveitinni eftir sínum smekk. Á mörgum stöðum hefur fólk skermað af sína reiti með skjólgirðingum úr trjáviði svo þeir líkjast litlum virkjum. Svo eru sums staðar skreytingar á þessum virkjum, gjarnan líkön af blómum, fuglum eða öðrum dýrum. Þetta minnir mig á svona víkingabúðir, svona eins og Hrafn Gunnlaugsson hefur sett upp í Laugarnesi þar sem hann ræktar njóla og fordæmir lúpínu. IMG 4460[2] Hjólhýsi 1

Við spjölluðum við fólk sem var í góðviðrinu á Laugarvatni með hundana sína, tvo litla hunda og svo þrjá stærri sem þau sögðu samt að væru hvolpar.

hundaræktendur


Illkynja mein hjá RÚV - fjölmiðill breytist í fámiðill

ruv-bullur1Það er ævintýralega illa staðið að sjónvarpsrekstri RÚV þessa daganna. Tryggustu og bestu áhorfendur  RÚV eru eldra fólk.  Eldra fólk vill hafa allt í föstum skorðum og ekki neinar miklar breytingar.

Ég hef  hingað til talið  að það sé út af virðingu við aldraða áhorfendur  að RÚV heldur ennþá í forneskjulegt fyrirkomulag varðandi þulur og finnst réttlætanlegt að spreða peningum skattgreiðenda í þulur sem virðast vera fyrst og fremst puntaðar fríðar stúlkur sem ætlað er að brosa framan í áhorfendur og lesa upp dagskrána. 

En það er svo sannarlega EKKI af virðingu við áhorfendur að RÚV sjónvarpið breytist í fótboltarás núna í júní og lætur eins og ekkert sé til nema fólk sem hefur áhuga á fótbolta. Mín vegna má vera til fólk sem hefur áhuga á fótbolta og mín vegna má fólk sem hefur áhuga á fótbolta horfa á leiki í sjónvarpinu, horfa á einhverja kalla útskýra og spjalla um leiki. Ég bara hristi hausinn yfir því og hugsa að það sé fínt að ekki séu allir eins og fjölbreytileiki sé af hinu góða.

Ég hins vegar hef ekki áhuga á að horfa á fótboltaleiki. Rúv þarf svo sem ekkert að taka tillit til mín og ég geri ekki kröfu á að ríkissjónvarpið íslenska sé sett upp að mínum smekk sei,sei nei.  En ég er ekki ein í hópnum sem gremst sjónvarpsefnið í ríkissjónvarpinu þessa dagana. Ég held að við séum mikill meirihluti mögulegra áhorfenda. RÚV er að senda stórt fokkmerki framan í alla þá sem eru tryggir hlustendur og nota RÚV sem sína helstu lind að upplýsingum um fréttir, menningu og þjóðlíf. Það er nú mest eldra fólk og þó einhver örlítill hluti eldra fólks hafi gaman af þessu fótboltatuði lon og don þá er óþarfi að pína alla á kostnað skattborgara.

RÚV er illkynja sjónvarpsstöð.
Með illkynja á ég við að það er kerfisbundið gert  lítið úr og reynt að trampa á einu kyni þ.e. konum. Efnið sem okkur er boðið upp á þar núna er drasl, drasl sem á mjög berlegan hátt viðheldur og hamrar á stöðluðum kynjaímyndum.  Smekkleysið og virðingarleysið fyrir konum er taumlaust, þegar ekki  er verið að sýna strákana í boltanum og þætti með köllum sem eru að tala um strákana í boltanum þá er birtur hver ruslþátturinn á fætur öðrum þar sem bara nafnið segir allt sem segja þarf um áherslurnar  og lífsýnina s.s. "Desperate housewives", "Ugly Betty" og "Herstöðvalíf" (þáttur um eiginkonur hermanna í herstöð).

ruv-bullur2Rúv vefurinn hefur nýlega verið settur í yfirhalningu. Nýja útlitið er fremur ófrumlegt  og steinrunnið og lítur út eins og vefur hjá einhverjum djammklúbbi stráka í framhaldsskóla. Útlitið á ruv.is í dag er í svipuðum stíl og útlitið á pose.is og miðlar sömu lífssýn.  Eina sem vantar er að það eru sem betur fer ekki ennþá áfengisauglýsingar á RÚV vefnum.

Þetta með frumleikaleysið á RÚV vefnum er nú bara aukaatriði en útlitið á vefnum og hvað þar er sett í forsæti bæði vef og í dagskrá er að miðla til mín þeim upplýsingum að forustumenn hjá RÚV telji sig ekki þjóna fólksins, telji ekki að þeir eigi að búa til dagskrá sem er mannbætandi, menningarleg og fræðandi og telji sig ekki þurfa að búa til dagskrá sem höfði til þess áhorfendahóps sem vitað er að ennþá reiðir sig á RÚV sem sína helstu fréttauppsprettu. Dagskrá sem tekur mið af því að á Íslandi búa ungir og aldnir, karlar og konur, fólk af erlendum uppruna, fólk sem býr utan höfuðborgarsvæðis og fólk sem á ekki heimangengt og fólk sem ekki getur  nýtt sér erlendar fréttaveitur til að tengja framhjá RÚV.

Þessi pirringur minn út í sjónvarpsdagskrána á nú ekki við um útvarpsrásirnar tvær. Ég hlusta nú aðallega á Rás 1 á vefnum, þar eru margir úrvalsþættir. Það er hægt að fara beint inn á það á http://dagskra.ruv.is/ras1 En sjónvarpsútsendingar þessa daganna á RÚV sýna að þetta er ekki fjölmiðill, þetta er útsendingarapparat sem hefur einsett sér að þjóna bara hagmunum og áhuga fárra, vera eins konar fámiðill.

 

 

 


Frosin upphituð hnetuvínarbrauð og innfluttir danskir tertubotnar

baker1Í bernsku minni var að að losna um haftastefnu á innflutningi. Ég man eftir heiftúðugum ritdeilum í blöðum og rifrildum á heimilum yfir dönskum tertubotnum. Ég man ennþá eftir hvað mamma mín var hneyksluð yfir að það væri leyft að flytja inn svoddan óþarfa. Ég sá aldrei þessa innfluttu dönsku tertubotna en þetta greyptist í hugann sem táknmynd fyrir gegndarlaust bruðl - að geta ekki bakað sína tertubotna sjálf heldur að eyða hinum dýrmæta gjaldeyri í að flytja inn frá Danmörk tertur. Ég skildi nú ekki alveg hneyklunina yfir þessu í den og ég skil hana ekki heldur í dag.

Mér finnst barasta allt í lagi að bakkelsi sé flutt inn frá Kína eða Danmörku eða hvaðan sem það nú kemur. En neytandinn má ekki vera blekktur. Hann má ekki vera látinn halda að þetta sé bakað á staðnum af einhverjum íslenskum fagmönnum og að blandan innihaldi íslensk hráefni eða heilsusamleg náttúrulega ræktuð efni þegar hún gerir það ekki. 

Bakarí nútímans á Íslandi virðast ekki þurfa annað en frystigeymslur og ofna. Ég veit ekki hvort þetta er eðlileg þróun en brauð er alla vega svo mikilvæg neysluvara að það er fínt að fylgjast með þessu og gott að fá fram umræðu um þetta

Í grein í Vísir stendur:

„Bakkelsið kom næstum allt inn frosið og svo vorum við látin hita það upp," segir Heiðrún Backmann, fyrrverandi starfsmaður Bakarameistarans. Svo virðist sem bakaríin baki ekki bakkelsi á staðnum heldur láti afgreiðslustúlkur hita upp forbakaðar og frostnar vörur.

Sjá hérna: 

Bakarísstelpa stígur fram: Hnetuvínarbrauð afþídd í bakaríum

Myllan líkir snöggfrystingu við framfarir í sjónvarpsmyndgæðum

Svo er hérna fínn vefur um sögu á bak við brauðhleifinn

The story behind a loaf of bread 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband