Spegill,spegill, herm þú mér, hver fegurst er í borginni hér

Snow_White_Mirror_4

 Það eru þreyttir tímar hjá Samfylkingunni í Reykjavík núna, engin völd og engin áhrif. Á svoleiðis stundum  er gott rýna í spegil og dáleiða sjálfan sig til að trúa því að þetta sé allt að koma  og helst dáleiða alla í kringum sig í leiðinni því ef blekkingin er nógu sterk þá getur hún orðið að sannleika. Samfylkingin rýnir í sjálfsmynd sína í töfraspegli nútímans, spegli sem hún hefur sjálf hannað og stillt birtuna þannig að ekkert sjáist nema hún sjálf.

Svona nútímaspeglar eru gerðir úr því efni sem best hentar til blekkinga og það eru náttúrulega prósentutölur og súlur. Hver treystir ekki tölum? Hver spyr svosem smásmyglilegra spurninga eins og hvernig spurningarnar hafi verið orðaðar, hvað er langt í kosningar,  hver greiddi skoðanakönnunina og pantaði  og hagræddi spurningunum. 

Við Framsóknarmenn tökum alla vega ekki mikið mark á skoðanakönnunum Samfylkingar í Reykjavík ef þær eru þannig að foringjar Samfylkingar þola ekki að neitt skyggi á fegurð þeirra í speglinum og reyna að afmá úr myndinni allt sem er að gerast sem gæti dregið athyglina frá þeim. Við höfum reynslu af frekar hallærislegum vinnubrögðum Samfylkingar við svona skoðanakannanir, sjá þessa grein eftir Hall Magnússon: Óttast Samfylkingin Óskar Bergsson? 

Það er af og frá að Samfylkingin hafi styrk kjósenda til að stjórna þessari borg ein og næstu kosningar munu líka leiða það í ljós. Stór hluti af mældum vinsældum Samfylkingar núna er gífurleg óánægja borgarbúa með þá stjórn sem nú situr og þá sérstaklega óánægja með Sjálfstæðismenn í borginni ásamt því að enginn borgarbúa vill ennþá einn skrípaleikinn í stjórnartaumum þessa stærsta fyrirtækis landsins sem Reykjavíkurborg er. Við svoleiðis aðstæður er eðlilegt að óánægjan mælist í því að fólk styður í skoðanakönnun þann næststærsta, þann sem er líklegastur til að leiða andstöðu við þá sem nú stjórna. Það er af og frá að þessi skoðanakönnun endurspegli þannig styrkleika Samfylkingarinnar að hún þurfi ekki á öðrum félagshyggjuflokkum að halda til að ná völdum í borginni.

Það eru hagsmunir allra Reykvíkinga að hér sé festa í stjórnmálum og allt stjórnarstarf einkennist ekki af glundroða og vitleysisgangi. Það sem af er þessa kjörtímabils hefur það ekki tekist, það er öruggt að hér verða alla vega fjórir borgarstjórar á þessu tímabili og hér er stjórnarkreppa sem ekki sér fyrir endann á.  Sagan hefur sýnt að félagshyggjuöfl komast ekki til valda í Reykjavík með því að berjast hvert við annað. Þau komast til valda með því að vinna saman.

 

 

 


mbl.is Samfylkingin fengi meirihluta í borgarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Sigrún Harðardóttir

Blessuð Salvör.

Ég hef grun um að málið sé enn alvarlegra en það að Samfylkingin reyni að kaupa sér ímynd. 

Ég hef heimildir fyrir því að Óskar Bergsson hafi alls ekki verið inni í myndinni framan af eins og Hallur lýsir í grein sinni, en svo hafi hans nafni verið bætt inn í könnuna síðar og þeir sem lentu í úrtaki seinna á tímabilinu hafi verið spurðir um hann líka. Sem fær mann til að hugsa um það hvernig skoðanakannanir eru framkvæmdar hjá Félagsvísindastofnun. Er í lagi að setja nýjar breytur inn í miðja könnun í miðri framkvæmd? Hvernig reikna menn það út á endanum? Og leyfir aðferðafræði skoðanakannana, hjá stofnun sem vill láta taka sig alvarlega, svona hringl? Ég er ekki viss um að stúdentar í Háskólanum fengju háa einkunn fyrir svona vinnubrögð? En það má orðið svo margt þar!

Ég skal svo vera fyrsta manneskja til að draga þetta allt til baka og biðjast afsökunar ef þessar heimildir mínar reynast ekki réttar og ég fæ staðfestingu á því. Og vona auðvitað að ég þurfi að gera það.  

Helga Sigrún Harðardóttir, 27.6.2008 kl. 15:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband