Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Aldrei nóg af nördum!

Það er vinalegt að vita af þessum 700 nördum hérna í Laugarnesinu um helgina. Það er aldrei nóg af nördum og fólki sem finnst ekkert skemmtilegra en hanga á Netinu. Hvað getur svo sem verið skemmtilegra en spila tölvuleik með öðrum eða taka þátt í sameiginlegum skrifum á greinum um kúfskel (öðru nafni kúskel).  Ég er einn af þessum nördum og ég hugsa að heimurinn væri miklu betri ef nördar allra landa sameinuðust um einhvern málstað eða alla vega beina kröftum sínum í sömu hátt til að búa til skynsamlegt og mannbætandi samfélag en ekki svona skrímsli eins og í lýsingu I. O. Angell  í greininni Hinn hugrakki nýi heimur samrunans

Það samstarf og sú hugsun sem svífur yfir vötnum meðal þeirra sem útbreiða og nota opinn hugbúnað og vilja að þekking og stafræn gæði séu frjáls og ókeypis og aðgengileg er hluti af slíkum málstað. 

Ég prýddi eina af síðum dagblaðsins 24 stundir í dag. Það var smart mynd af mér sitjandi við fartölvu og álfkonumynd eftir Gunnellu í bakgrunni. Á fartölvunni glyttir í greinina um kúfskelina sem ég var þá að enda við að skrifa.  Ég var í viðtalinu vegna þess að núna á föstudaginn þá ætlum við að halda ráðstefnu  í Verslunarskóla Íslands um  upplýsingatækni og  menntun.  Vefsíða félagsins okkar er 3F.is og  dagskrá ráðstefnunnar er hérna.

 


mbl.is 700 nördar á leið til landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kúfskel í öðru lífi

Í þann mund sem ég var að klára greinina um kúfskel á íslensku wikipedia þá kom Guðmundur ljósmyndari frá 24 stundum til að taka af mér ljósmynd sem birtast á með umfjöllun um ráðstefnu 3F félags um upplýsingatækni og menntun  sem verður næsta föstudag. Ég mun þar halda erindi um annað líf, nánar tiltekið sýndarveruleikaheiminn SecondLife. Það virðist í fljótu bragði ekkert fjarlægara  og ótengdara en  sýndarveruleiki Internetsins og 400 ára gamlar kúfskeljar sem mara í sandi og leir á sjávarbotni við Ísland. 

Það er skemmtilegt að þau dýr jarðar sem nú eru talin elst skuli finnast við Íslandsstrendur. Það er líka áhugavert að þau dýr lifa við óblíð skilyrði og vaxa afar hægt og geta lagað sig að mjög erfiðum aðstæðum og geti haldið sér á lífi með að falla í einhvers konar dá.


Ég fann á Youtube þetta skemmtilega myndband  frá íslenskum kafara af viðureign kúfskeljar og krossfisks. 
mbl.is Íslensk kúskel líklega elsta dýr heims
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brot á friðhelgi - RÚV birti trúnaðargögn

Þegar fólk sækir um sérstakar undanþágur til stjórnvalda vegna aðstæðna sinna og rökstyður mál sitt með gögnum um einkalíf sitt þá er viðbúið að sum af þeim gögnum  sem fólk leggur fram séu viðkvæmar persónulegar upplýsingar. Þess vegna eru beinlínis ákvæði í lögum og reglum sem opinberir aðilar  fara eftir um meðferð trúnaðarupplýsinga, persónuvernd og friðhelgi einkalífs. 

Það er því gríðarlega einkennilegt að fólk sem hefur leitað til íslenskra stjórnvalda með umsókn um undanþágu eða einhvers konar afgreiðslu og sent með þeirri umsókn gögn skuli þurfa að búa við það að þessi sömu gögn séu lesin upp og gerð opinber í fjölmiðlum  og fólkið sé í kjölfarið hundelt vikum saman af fjölmiðlum og þurfi að þola meiðandi og ruddalega umræðu og dóma og dylgjur um sig og aðstæður sína í ýmis konar opinberri umræðu - dóma og dylgjur sem byggjast á persónulegum gögnum sem gerð voru opinber án vitundar og samþykkis fólks sem í góðri trú fór að íslenskum lögum og sendi inn beiðni til einnar nefndar Alþingis.

Það er líka afar, afar einkennilegt og þarfnast rannsóknar hvers vegna opinber gögn og þar á meðal trúnaðarupplýsingar einstaklinga leka út frá Alþingi eins og það sé einhvers konar gatasigti. 

Þau afgreiddu málið: Bjarni Ben., Guðjón Ólafur og Guðrún Ögmunds

Ég er alveg sammála þeim sem segja að þessi afgreiðsla Allsherjarnefndar var stórfurðuleg og það er stórfurðulegt að  fólk fái ríkisborgararétt út af veigalitlum ástæðum s.s. veseni við að ferðast milli landa vegna náms síns.  Ríkisútvarpið hefði rækt eftirlitshlutverk með prýði ef það hefði bent á þessa skrýtnu afgreiðslu og látið kastljósið snúast um það sem var skrýtið og þá sem tóku ákvörðunina, þá sem voru í nefndinni. Það hefði hugsanlega verið nauðsynlegt í rannsóknarblaðamennsku að  segja frá því að  einhver sköl hefðu borist til Rúv og birta þau án þess að nafn einstaklinga kæmu fram. Það að uppljóstra um nafn og fjölskyldutengsl einhvers umsækjanda um undanþágu hjá opinberri nefnd án samþykki og vitundar viðkomandi og gera það að þungamiðju umfjöllunarinnar er hins vegar ámælisvert og það er gott að það kemur til dómstóla að taka á því.

Í þessu máli þá sýndi Ríkisútvarpið af öllum fjölmiðlum þá rustalegustu pólitísku aðför sem ég man eftir á seinni árum í fjölmiðlum. Í stað þess að beina athyglinni að því stjórnvaldi sem er ábyrgt fyrir skrýtnum embættisfærslum og undarlegum vinnubrögðum þá varð ekki annað séð en þetta væri aðför að Jónínu Bjartmarz alþingiskonu. Til þess að koma höggi á hana skömmu fyrir kosningar þá var ekkert til sparað af ríkisfjölmiðlinum RÚV og valtað í því augnamiði á sérlega siðlausan hátt yfir tengdadóttur hennar, stúlku sem ekkert hafði gert í þessu máli nema sótt um undanþágu til  einnar nefndar Alþingis og fylgt öllum reglum sem venja er við slíkar beiðnir.

Ef fólk er búið að gleyma þessu máli þá er ágætt að rifja upp viðtal Helga Seljan við Jónínu Bjartmarz  í Kastljósi sjónvarpsins þann 27. apríl 2007.

Hér er hljóðupptaka af því:



Ég rifja hérna líka upp það sem ég skrifaði um þetta mál á sínum tíma:

Skert ferðafrelsi

Sjö mínútur af Kastljósi Helgi Seljan versus Jónína

Rustalegt Kastljós hjá Helga Seljan

Kvenna(k)völd hjá Framsókn

Í blogginu Skert ferðafrelsi þá beini ég athyglinni þar sem hún á heima, það er einkennilegt hvernig Alsherjarnefnd Alþingis tók á þessu máli.  Þetta afgreiddu þrír þingmenn sem þá voru á þingi en enginn þeirra er núna á þingi nema Bjarni Benediktsson en hann ber náttúrulega mesta ábyrgð á afgreiðslunni, hann var formaður nefndarinnar. Hér er partur úr því bloggi:

Kastljósið upplýsti að stúlkan frá Guatemala hefði fengið ríkisborgararétt vegna umsóknar sem sagði frá veseni hennar við að fara í nám erlendis. Þetta vekur afar áleitnar spurningar um hvernig alsherjarnefnd þ.e. þingmennirnir Bjarni Benediktsson, Guðjón Ólafur Jónsson  og Guðrún Ögmundsdóttir störfuðu þegar þau fóru yfir þessar umsóknir. Það hlýtur að vera krafa okkar að vinnureglur Alsherjarnefndar séu gegnsæjar og réttlátar. Ég vildi svo sannarlega búa í landi það sem svo auðvelt er fyrir útlendinga að setjast hér að og verða fullgildir ríkisborgarar en ég er nokkuð viss um að svona auðvelt er ekki að verða Íslendingur fyrir flesta útlendinga.

Ég vona svo sannarlega að enginn úr alsherjarnefnd hafi talið sig vera að gera Jónínu Bjartmarz pólitískan greiða með þessari afgreiðslu og trúi ekki svoleiðis flónsku upp á neinn sem þar situr. Það hefði nú heldur betur verið bjarnargreiði. En mér finnst upplagt að nota þetta tækifæri til að benda á að við Framsóknarmenn viljum heiðarleg og fagleg vinnubrögð í stjórnsýslunni. Ég hef sjálf reynt að starfa af alefli með það að leiðarljósi  í Framsóknarfélaginu í Reykjavík Norður en reyndar ekki orðið eins vel ágengt og ég vildi. Það er önnur saga. 


mbl.is Ríkisútvarpinu stefnt fyrir ærumeiðingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Föndur dagsins - Skrappblogg

Salvor_Page_4Nú þegar vetur er kominn í bæ þá passar að fara að föndra aftur og ég byrja því aftur með föndurþátt á blogginu mínu. Eftir að ég uppgötvaði hið stafræna skrapp þá er ég alltaf að skima um eftir skemmtilegum verkfærum og efniviði fyrir okkur þessa stafrænu skrappara. Nú er ég búin að finna eitt gasalega skemmtilegt, það er scrapblog.com og þar geta allir gert sér á einfaldan hátt stafræn skrappblogg, ég bjó til mitt á scrapblog.com/salvor

Það er einfalt að hlaða inn myndum og skipta út bakgrunnum og setja alls konar djásn og prjál á myndirnar. Það er hægt að velja þemu eins og jólaþema með piparkökur og hrekkjavökuþema eða hanna síðurnar frá grunni. Ég er núna búin að setja inn nokkrar síður. Ég gat tengt þetta við flickr myndasafnið mitt svo það var leikur einn að hlaða inn og finna myndir til að skrappa með.

Það er svo búin til fyrir mann sjálfkeyrandi myndasýning, það er líka hægt að setja inn tónlist og vídeó en ég er ekki búin að prófa það. Svo er líka hægt að taka út einstakar skrappmyndir og vista þær. Þetta er upplagt verkfæri til að hanna sín eigin jólakort. Það virkuðu ekki íslensku stafirnir með öllum leturgerðum svo maður verður að prófa sig áfram með það. Scrapblog.com er einfalt og skemmtilegt verkfæri sem ég ráðlegg öllum sem hafa gaman að skrappi og stafrænu föndri að prófa

 


Bloggvíglínan danska og bloggdvali íslenskra netdýra

Það er  lenska hjá bandarískum bloggurum að vera á móti forseta sínum honum Bush.  Ég man í svipinn ekki eftir neinum bandarískum bloggara sem ég les sem er ekki bullandi á móti Bush nema kannski  Michelle Malkin

Danskir bloggarar reisa  sín götuvígi á Netinu og herja á Fogh, sjá þessa grein Blog-front mod Fogh

Stjórnmálamennirnir dönsku blogga nú sem óðir væru og minna á íslensku frambjóðendurna í síðustu kosningum. Síðan lögðust margir hinna íslensku í dvala. Svoleiðis bloggdvalastjórnmálamenn er einhver ný tegund af lífi, netdýr sem vakna upp á fjögurra ára fresti í banastuði en leggjast svo í dvala - ekki þegar vetrar eins og birnir - heldur um leið og kosningin er yfirstaðin. Bara til að spretta upp, sprækari og háværari fyrir næstu kosningar. Sennilega verða þessi íslensku bloggdvalanetdýr að hamast inn á facebook og myspace í næstu kosningum, eins gott að þau sofi vært og safni þrótti fyrir það sprikl.

En þessir dönsku eru voða moderne og halda sumir út vídeódagbók.

Sjá greinina: 

Valgkampen er i gang, også på bloggen

Ég held að stjórnmálamenn viti innst inni að einhvern tíma kemur að því að það verður þessi netheimabarátta sem ræður úrslitum. Sá tími er ekki ennþá kominn. En vonandi drepa stjórnmálamenn á blogginu mann ekki úr leiðindum með einhvers konar jákór og skjallbandalagi þeirra sem eru í sama liði og svo röð af fúkkyrðum til að nota um allt sem andstæðingar í pólitík gera.  Þegar ég hugsa nú um kosningabaráttuna í netheimum þá man ég ekki svipinn eftir neinu eins leiðinlegu eins og bloggátakinu Raddir Röskvu hér um árið. Það var eitthvað gengi sem allt var að blogga um það sama, allir litu eins út, notuðu sömu orð og  voru alveg víðáttuleiðinlegir og svona kópíur hver af öðrum. Ekki samt neitt meinlegir ef ég man rétt. Það er mesta lán fyrir fylgi sumra stjórnmálaflokka hvað fáir fylgjenda þeirra blogga, sérstaklega fyrir flokka þar sem hjarðhegðun er mikil og forustusauðum fylgt í blindni, blogg slíkra fylgenda eru dæmd til að vera afar svæfandi og leiðinleg.

 


Svanir fljúga hratt til heiða

svanur-commonsþað er gaman að því hvernig almenningur getur núna fylgst með ferðalögum dýra í lofti og sjó. Sumir fuglar sem fljúga um Ísland á ferðalagi sínu milli varpstöðva og vetrarstöðva takast á við ótrúlegar þrautir. Þannig er margæsin

Ég er að gera tilraun með að skrifa inn greinar á íslensku wikipedia sem tengjast einhverri moggagrein sem ég blogga um. Það var komin grein um  Álft svo ég bætti við greinum um tvær aðrar svanategundir: 

Hnúðsvanur

Svartsvanur

Ég held að hnúðsvanir komi stöku sinnum til Íslands en ég þekki ekki til að svartsvanir séu hérna eða hafi verið fluttir til landsins.

Sennilega mun nú ekki vera gert mikið að því í framtíðinni að flytja svani til landsins, það er hættulegt út af fuglaflensu. Það er spurning hvenær hún berst til landsins.  

Kannski er hún komin. 

 


mbl.is Hægt að fylgjast með ferð svana á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össur í Indónesíu

Ég fékk svo mikinn áhuga á Indónesíu í dag út af þessu ferðalagi hans Össurar aðg ég skrifaði nokkrar greinar inn íslensku wikipedia. Fyrst bætti ég við byrjun á kafla um sögu Indónesíu við aðalgreinina og svo skrifaði ég grein um Borobudur og þá náttúrulega varð ég að skrifa greín um stúpur

Um daginn byrjaði ég á grein um kryddið Múskat en það var einmitt sú vara sem Vesturlandabúa þyrsti mest í frá Indónesíu.

 Seinustu greinarnar sem ég hef skrifað á  is.wikipedia.org  eru

Mér sýnist ég skrifa núna að jafnaði eina grein á dag. Það virðist nú samt ekki vera neitt kerfi í hvað ég skrifa um.


mbl.is Indónesar lýsa áhuga á samstarfi varðandi álframleiðslu og fiskveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefáni svelgist á

Vonandi færir Stefán Pálsson sig fljótlega yfir á Moggabloggið og byrjar að blogga um fréttir Moggans eins og við hin. En á meðan hann heldur sig á útskerum og annesjum íslenskra bloggheima þá veit  almenningur ekki hvenær honum svelgist á. En Stefáni svelgdist á í gær og hann skrifaði bloggið Svelgst á um það og sagði:

"Svelgst á

Haag??? Nú nenni ég ekki að reikna út tímabelti - en í ljósi þess að Össur Skarphéðinsson var að blogga, reikna ég með að akkúratt núna sé klukkan hálf þrjú að nóttu í Indónesíu.

Þar skrifar ráðherrann: Það kemur í ljós á morgun, hvort REI, sem er með í för, hefur samningatækni til að standa í ístaðinu og halda sínu gagnvart keppinautum sextán þjóða – eða hvort iðaðaráðuneytið þarf að taka málin í sínar hendur.

Muuu!!! Nákvæmlega hvernig á að skilja þessi orð? Í besta falli er þetta bara gorgeir í ráðherra á erlendu hóteli með aðgang að nettengdri tölvu og míní-bar. Í versta falli meinar maðurinn þetta og hefur einhverjar hugmyndir um að íslenska iðnaðarráðuneytið geti “tekið málin í sínar hendur” ef hópur íslenskra fjárfesta reynist ekki samkeppnisfær við erlenda kollega. Og nákvæmlega hvernig ætlar Össur Skarphéðinsson að “taka málin í sínar hendur”? Gaman væri að fá svar við því."

Ég tek undir með Stefáni.
Það væri gaman að fá svar við því. 


mbl.is Össur: Gríðarlegur áhugi á samstarfi Indónesa og Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svart á hvítu, Oz, Softís, REI

Það er freistandi að bera saman REI málið núna við þau útrásarfyrirtæki og þekkingarfyrirtæki sem menn trúðu mest á fyrir meira en áratug. Eitt þeirra fyrirtækja var fyrirtækið Softís. Annað slíkt fyrirtæki var fyrirtækið Oz. Ennþá eldra dæmi um þekkingarfyrirtæki var svo fyrirtækið Svart á hvítu sem var reyndar bókaútgáfa en fór út í að búa til  þekkingarbrunn, gagnabrunn sem forseti vor Ólafur Ragnar Grímsson hafði svo mikla trú á að hann tók veð í gagnagrunninum þegar hann stýrði fjármálum þjóðarinnar og varð grunnurinn innlyksa hjá fjármálaráðuneytinu. Það er nú ekki talið mesta afrek Ólafs Ragnars á sviði fjármála þegar hann tók veð í þessum gagnagrunni, það var  haft mikið í flimtingum á sinni tíð.  Svart á Hvítu var nú bara með rekstur hérna innanlands, til allrar guðs mildi var það fyrirtæki ekki komið með neinn rekstur í Kína og Ólafur Ragnar forseti ekki orðinn eins upptendraður af útrásardraumum eins og hann er núna og farinn að stússa mikið með fjármálamönnum í útrásinni.  En sem sagt þá mun gagnagrunnurinn vera til í fjármálaráðuneytinu... nú eða það sem er finnanlegt er af honum. 

Það var mikill völlur á sínum tíma á fyrirtækinu Oz en það hneig eins og önnur netfyrirtæki þegar tiltrú á netfyrirtæki þvarr í kringum árþúsundamótin.

 það var mikið hype á sínum tíma í kringum fyrirtækin Softís og ég sé að Aflvaki Reykjavíkur (sambærilegt fyrirtæki og núna er kallað útrásararmur Orkuveitunnar) hefur lagt töluvert hlutafé í Softís á sínum tíma, sjá þessa grein.

Spurning hvort það fé sem Alfvaki lagði á sínum  tíma í Softís hafi rentað sig vel, hvað skyldi Aflvaki hafa grætt á þessu?

 

 


Tölvuleikir og vinnuumhverfi

Leikir búa ungviði undir fullorðinsárin. Þannig hafa leikir barna búið börnin undir lífið, bæði fjölskyldulífið þar sem þau leika fjölskyldumynstur í mömmuleikjum og svo bílaleiki og búskaparleiki með leggjum og skel. Það verður sennilega hlutskiptri fárra barna núna að standa fyrir búi og kunna að auka búsmala sinn með hyggindum og heyöflun. En mörg börn sem vaxa upp í dag munu þurfa starfa og sækja félagslíf sitt til hins starfræna samfélags á Internetinu. Þau munu vinna í fyrirtækjum þar sem starfsfólkið er dreift um allar heimsins álfur og þau verða að kunna að vinna saman í hinu stafræna umhverfi í einhvers konar hópum. 

Tölvuleikirnir sem krakkarnir spila í dag rækta að sumu leyti slíka samskiptatækni. Hér er grein á BBC um það: http://news.bbc.co.uk/2/hi/technology/7030234.stm

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband