Sjö mínútur af Kastljósi Helgi Seljan versus Jónína

Setti  inn  á Youtube 7. mín. af viðtalinu í Kastljósinu seinasta þegar Helgi Seljan ræddi við Jónínu Bjartmarz.  Reyndar bara talið en það má hlusta á Kastljósið inn á vef RÚV.  Ég er búin að hlusta nokkrum sinnum á þetta viðtal  til að reyna að greina það  og  spá í hvers konar orðræða eigi sér stað. Það sem ég heyri  er  yfirmáta hrokafullur og  ruddalegur og óupplýstur fjölmiðlamaður sem  ekki hefur unnið heimavinnuna sína að ræða við reyndan, kurteisan og orðvaran lögfræðing og alþingismann um málefni sem tengjast fjölskyldu hennar og biðja hana að opinbera í sjónvarpi  persónulegar upplýsingar um fjölskyldumeðlim, upplýsingar sem hún á ekki að hafa aðgang að nema bara vegna fjölskyldutengsla. 

Þetta er fádæma ruddalegt tilræði við stjórnmálakonu og ég held að sumt af þeim tilburðum sem Helgi Seljan leyfir sér í viðtalinu sé af því að hann talar við konu. Ég hugsa að hann hefði aldrei leyft sér að tala svona til t.d. Davíðs Oddssonar eða Geirs Haarde. Helgi talar margoft til Jónínu í skipandi og niðrandi tón. 

Ég vil taka fram að mér finnst ekkert að því að fjölmiðlar velti upp máli sem þessu og gagnrýni eða leiti svara við hvers vegna eða hvort afgreiðsla erinda sem tengjast fjölskyldu ráðamanna hljóti einhverja sérmeðferð í kerfinu. Það að gera það á þennan hátt er hins vegar skrípaleikur og RÚV til háborinnar skammar. Það er alveg ljóst að Jónína tók ekki þátt í að velja á lista þá sem fengu undanþágu, það gerði sérstök undirnefnd alsherjarnefndar (Bjarni Ben., Guðjón Ólafur og Guðrún Ö.) og það er sú nefnd ein sem fékk að sjá gögnin sem umsækjendur lögðu fram.  Eina sem eðlilegt er að spyrja Jónínu um í þessu máli er 1) hvers vegna hún tók þátt í atkvæðagreiðslu á Alþingi og hvort og hvers vegna henni hafi þótt það viðeigandi og 2) hvort hún hafi reynt að hafa áhrif á nefndarmenn sem völdu á listann.

Helgi Seljan tönglast margoft á því að í viðtalinu að Jónína verði að svara hvaða sérstöku ástæður það eru sem valda því að þessi stúlka fékk ríkisborgararétt. Það er ekki Jónínu að lýsa því og ég hugsa reyndar að það sé brot á lögum um persónuvernd að upplýsa opinberlega um viðkvæm einkamálefni og það muni alsherjarnefnd (Bjarni, Guðjón Ólafur og Guðrún Ö.) ekki gera, ég hugsa að margar þær aðstæður sem fólk sem sækir um undanþágur séu einmitt viðkvæm persónuleg atriði.  Reyndar vissi ég ekki að það væri einhver hraðbraut fyrir afreksfólk í íþróttum að fá ríkisborgararétt, það þarf svo sannarlega að skoða þessi mál og verklagsreglur, það er óumdeilanlegt. Það er áhugavert að Helga Seljan virðist ekki setja neitt spurningamerki við þessa afreksíþróttadýrkun heldur öskar á Jónínu spurningum eins og "Er hún afrekskona í íþróttum?" alveg eins og það hefði verið eitthvað úrslitaatriði.

En það verður að vera krafa okkar til fjölmiðlamanna að þeir spyrji þá sem taka ákvarðanirnar og sem fjölluðu um málið en yfirheyri ekki  ráðamenn út af persónulegum málefnum fjölskyldna þeirra nema að því leyti að það sé grunur um að eitthvað óheiðarlegt eigi sér stað. Það að þessi umræða kemur núna rétt fyrir kosningar er þar að auki afar gróft tilræði við þingmann og það er ekki nema eðlileg og sjálfsögð krafa okkar hlustenda að RÚV upplýsi þetta mál á hlutlausan og vandaðan hátt og leyfi Jónínu og öðrum sem tengjast málinu að koma sjónarmiðum sínum á framfæri án þess að vera púaðar niður af fjölmiðlamanni eins og Helga Seljan.

 En ég hripaði niður hjá mér svolítið úr orðræðu Helga Seljan. Það verður samt að hlusta á Kastljósið til að átta sig á hversu gífurlega lítilsvirðandi og ruddaleg orðræða hans er:

leyfðu mér nú að spyrja Jónína
þetta er ekki rétt sem þú ert að segja

svaraðu spurningunn
svaraðu spurningunni
hvaða sérstöku ástæður
veistu ekki á hvaða ástæðum hún sótti um
er það rétt, er þetta eins og mál Bobby Fishers?
hlustaðu nú Jónína
er ekki þa
Mergurinn málsins er að þið eruð

Af hverju getur þú ekki útskýrt fyrir mér hvaða sérstöku ástæður ..

svaraðu spurningum
það er ég sem er að spyrja Jónína
svaraðu spurningum
finnst þér óeðlilegt að þú sért spurð um það

finnst þér óeðlilegt að þú sért spurð að þessu
finnst þér óeðlilegt að þú sérð spurð að þessu
leiðbeindir þú stúlkunni?
hverjar eru þessar aðstæður Jónína?
þú vilt ekki svara
þú segist hafa leiðbeint henni með að fara með þetta inn í nefndina
hverjar voru þessar aðstæður
þú hefur ekki sagt mér hvernar þessar aðstæður eru
þú verður að svara


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bergrún Íris Sævarsdóttir

allt gott og blessað svosem sem þú hefur um þetta að segja og vissulega er hann dónalegur í viðtalinu - en ég set spurningamerki við það að þú kallir hann "fjölmiðlastrák" - Hvort hann er dónalegur eða ekki hefur ekkert með aldur að gera og algjör óþarfi að benda á það að hann sé ungur, enda erum við jú öll einstaklingar, burtséð frá aldri, kyni, kynþætti og öllum öðrum mögulegum flokkunum. 

Bergrún Íris Sævarsdóttir, 28.4.2007 kl. 19:12

2 Smámynd: Sigurjón Sveinsson

Sæl Salvör.
Það að  Helgi tali svona við Jónínu hefur ekkert með kyn að gera. Hann talaði svona við Birgir Gunnarsson út af Heiðmarkarmálinu sem og Geir Waage um daginn.

Hann er bara ömurlegur. Simple as that. Þessi ungi maður þarf illilega að fara að taka sig á. Ekki bara að læra heima heldur að temja sér almenna kurteysi.

Sigurjón Sveinsson, 28.4.2007 kl. 19:23

3 identicon

Þvílíkt yfirklór hjá þér Salvör, þú tekur hér allt úr samhengi og setur einungis fram orðsetningar Helga. Til að geta skilið hans framsetningu rétt þarftu líka að birta málflutning Jónínu sem talaði út í eitt með tómum skömmum og vildi greinilega ekki svara spurningum Helga. Helgi hefur í sínum viðtölum gengið jafn skilmerkilega fram án tillits til þess hver viðmælandinn er. Jónína afhjúpaði sig frammi fyrir alþjóð í þessu viðtali sem hrokagikkur og fyrirgreiðslupólitíkus.

Jón Sigurðsson (IP-tala skráð) 28.4.2007 kl. 19:50

4 identicon

Góð greining hjá þér Salvör.

Við Bergrúnu vil ég segja. að við sem eldri erum vorum einu sinni ung og þekkjum vel "ungæðisháttinn", sem hverfur með þroska og skilningi á samfélaginu!

Mér finnst ungt fólk yndislegt, oftast hressandi og frumlegt! en dónaskapur, hjá hverjum sem er, er óþolandi.

Helgi Seljan sýndi "ungæðislegan" dónaskap að mínu mati.  En hann lærir örugglega af þessu, eins og öllu öðru, sem hann tekur sér fyrir hendur í lífinu!

Pólitík á ekki að snúast um "að klekkja á" pólitískum andstæðingum -  Fréttamenn eiga að sýna hlutleysi og reyna á vandaðan máta að fá svör frá viðmælendum sínum!

Jónína flengdi "drenginn" !

amman (IP-tala skráð) 28.4.2007 kl. 21:57

5 Smámynd: Bergrún Íris Sævarsdóttir

Ég þekki fullt af rólyndu og tempruðu ungu fólki og eins þekki ég fullt af bráðlyndu ungu fólki sem á erfitt með að hemja skap sitt. Ég get sagt nákvæmlega það sama um eldra fólk. Einstaklingar eru mismunandi og það er ekki hægt að klína persónueinkennum á aldur.

Gamla fólkið á elliheimilinu þar sem ég vann var alveg jafn misjafnt og unglingarnir í félagsmiðstöðinni þar sem ég vinn núna. 

Helgi verður örugglega jafn ákveðinn þegar hann verður 77 ára. :)

Bergrún Íris Sævarsdóttir, 28.4.2007 kl. 22:42

6 Smámynd: Bergrún Íris Sævarsdóttir

Ingvi Hrafn hlýtur þá að vera mjög "ungur í anda" því ekki er hann sá kurteisasti í fjölmiðlum í dag.

Bergrún Íris Sævarsdóttir, 28.4.2007 kl. 22:45

7 Smámynd: Kristján Pétursson

Þú virðist Salvör vera að gera þig seka um það sama,sem þú ert álasa Helga Seljan fyrir og rúmlega það. Lýsing þín  á Helga:" Yfirmáta hrokafullur, ruddalegur, óupplýstur fjölmiðlastrákur."Þá vænir þú hann einnig um ,að hann hefði ekki talað svona við menn eins og Davíðs Oddson og Geir Haarde,heldur af því hún er kona.Þetta er nú farið að narta ansi nálægt  meiðyrðalöggjöfinni.

Síðan leyfir þú þér að birta spurningar Helga til Jónínu,án þess að  skýra frá hennar svörum.Salvör þetta er ekki heiðarleg umfjöllun,reyndar hélt ég að þú myndir ekki gera þig seka um svona vinnubrögð.Ég held að Helgi eigi inni hjá þér afsökunabeiðni.

Kristján Pétursson, 28.4.2007 kl. 23:21

8 Smámynd: E.Ólafsson

Salvör þetta mál væri ekkert mál ef Jónína myndi segja hvaða sérstöku aðstæður gerðu það að verkum að þessi tengdadóttir hennar fékk ríkisborgarrétt.  Sem stjónrmálamaður þá verður maður að hafa hreina samvisku, en þetta mál vekur of miklar spurningar.  Er það þannig núna að allar konur sem koma frá Gvatemala fá ríkisborgarrétt því aðstæður þar eru svona erfiðar?  Eða er Gvatemale svona mikið verra land en Palestína samanborið við grein í Fréttablaðinu í dag?  Spyr sá sem alls ekki veit.  EN það hjálpar engum að segja að allt sé vitlaust hjá Helga og ekkert sé að þessu.  Það er nokkuð sem heitir jafnræðisregla!

E.Ólafsson, 29.4.2007 kl. 00:11

9 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Leyfði mér að nefna þetta mál í örfáum orðum í niðurlaginu á nýjustu bloggfærslunni minni.

Hlynur Þór Magnússon, 29.4.2007 kl. 01:28

10 Smámynd: Svala Jónsdóttir

"kurteisan og orðvaran lögfræðing og alþingismann..."

Vá, horfðir þú á sama sjónvarpsþátt og við hin, eða hvað?

Svala Jónsdóttir, 29.4.2007 kl. 01:28

11 identicon

Ég tek undir að það er til nokkuð sem heitir jafnræðisregla og því engin ástæða til að krefjast útskýringar frá einum en ekki öðrum.  Ef alsherjarnefnd hefur heimild ( sem ég efa ) til að rökstyðja opinberlega undanþágur þá hefur hún heimild til að rökstyðja þessa tilteknu undanþágu.  Mér fannst Jónína vera í miklu uppnámi í þessu viðtali og alls ekki eins og hún hafi búist við þessari umfjöllun sem hún hefði líklegast hugsað út í áður, hafi hún gerst sek um eitthvað.  Í mínum huga er hún saklaus á meðan annað er ekki sannað, hvaða sanngirni er að fyrirfram ætla henni alvarlega hluti byggt á líkunum einum, sama hve sterkar fólki þykir þær vera.  Góða nótt

Aðalheiður Þórisdóttir (IP-tala skráð) 29.4.2007 kl. 01:33

12 identicon

Það má alltaf drepa sendiboðan, en það breytir engu.  Ef þetta telst ekki pólitísk spilling þá veit ég ekki hvað flokkast sem slíkt.  Nú er búið að tefla fram ásökun á ráðherrann með góðum rökum, og ef Jónína Bjartmars getur ekki borið af sér sakirnar með betri rökum en hingað til, þá ætti hún að sjá sóma sinn í að segja af sér.

grímnir (IP-tala skráð) 29.4.2007 kl. 01:42

13 identicon

Eftir að hafa hlustað á og fylgst með umræðunni um Kastljósþáttinn tek ég undir með þeim sem segja að Helgi Seljan á að taka sér frí frá fréttaflutningi fram yfir kosningar.

Guðrún Jónsdóttir (IP-tala skráð) 29.4.2007 kl. 02:05

14 Smámynd: LM

Það er alveg ljóst af því sem komið er fram að afgreiðsla þessa máls er mjög óeðlileg.  Hvort þú ákveður að líta fram hjá því eða ekki er þitt mál.

Það er hins vegar ágætt að fá á hreint þínar pólitísku stefnu svo hægt sé að skoða önnur skrif þín í því ljósi.

LM, 29.4.2007 kl. 03:48

15 identicon

Ég skil nú ekki hvers vegna fólk stillir Jónínu og Árna Johnsen upp í dans..  Árni Johnsen þekkir kannski einhvern sem fékk ríkisborgararétt á einkennilega stuttum tíma ?  Ég hef ekki orðið vör við að fólk hafi ásakað hann um eitthvað vafasamt í þeim efnum eða fólk hafi gagnrýnt allsherjarnefnd, en fólk hugsar ekki svo djúpt að það hefði þurft fleiri en Árna Johnsen frekar en það sem er að gerast í dag.   Það eina sem ég veit um Árna Johnsen er að hann var dæmdur sekur um að misnota stöðu sína og tók út sína refsingu.  En fólk vill auðvitað ekki muna eftir því.  Margt fólk hefur greinilega enga færni til að setja sig í spor annarra.  Þekktir einstaklingar eru líka manneskjur.  Jónína hefur ekki verið ákærð um eitt né neitt.  Framkoma margra í umræðum með þetta mál segir mun meira um þann sem talar en Jónínu sjálfa. 

Aðalheiður Þórisdóttir (IP-tala skráð) 29.4.2007 kl. 11:26

16 Smámynd: E.Ólafsson

Skrifaði smá færslu um þetta á blogginu mínu.  Þar útskýri ég aðeins skoðunum mínum betur

E.Ólafsson, 29.4.2007 kl. 12:03

17 Smámynd: Bjarki Jóhanneson

Sæl Salvör.
Þetta var hressilegt samtal og dæmi um þroskaða stjórnmálaumræðu, eða hvað? Jónína er mætt í viðtalið til að reyna að hreinsa mannorð sitt og Helgi vill fá að vita ástæðuna fyrir ríkisborgarréttinum. Hvorugt fékk sínu framgengt, eðlilega.
Helgi er stjórnandi þáttarins og á að fá að stjórna en Jónína setur tóninnn með því að saka Helga og co. um lygar og annað í þeim dúr. Hún ætlaði sem sagt að taka stjórnina á þættinum. Ef Helgi hefði leyft henni það þá hefði hann verið sakaður um linkind í garð stjórnmálamanna í einhverju öðru bloggi. Vandlifað?
Salvör, að sjálfsögðu er skítalykt af málinu.  Ég skil ekki alveg af hverju þú ert svona hneyksluð, þetta var bara enn eitt rifrildisbullið sem hafði engan endi .
Að lokum, Ég á mér þann draum að Framsókn hverfi úr íslenskum stjórnmálum. Flokkurin  þjónar engum nema flokksmönnuum og hefur orðið vís að mjög mörgum spillingarmálum.
Það er kominn tími til að allir íslenskir stjórnmálamenn takist á og komi sér upp sameiginlegum framtíðarmarkmiðum og það verður aldrei á meðan Framsóknarmaddaman er á lífi og stekkur upp í rúm hjá hverjum þeim sem býður best.
Með kveðju,
Bjarki

Bjarki Jóhanneson, 29.4.2007 kl. 12:47

18 identicon

Eiríkur ég las greinina þína á blogginu þínu, ég tel mig skilja hvað þú meinar með máli Árna Johnsen á sínum tíma.  Ég er alveg sammála þér að það þarf að vera aðhald, þegar eitthvað fréttist sem veldur tortryggni hjá sumum þá þarf að leita svara.  Ég hins vegar get ekki séð annað en að Jónína hafi svarað því sem hún gat svarað, ég skil vel hún útskýri ekki mál tengdadóttur sinnar enda er það mál stúlkunnar.  Hún svaraði því neitandi að hafa haft áhrif á málið en fólk getur líklegast mótmælt því og sagt að með því að leiðbeina tengdadóttur sinni hafi hún haft áhrif.  Er það málið ?  Mátti hún ekki vegna fyrra starfs síns og fyrri starfa leiðbeina fjölskyldumeðlim ?  Má þá ekki nokkur manneskja sem situr eða hefur á einhverjum tíma verið í þessari nefnd ráðleggja nokkrum manni sem er að óska eftir ríkisborgararétti ?  Ef hún sagði ósatt og beitti einhverjum brögðum til að tengdadóttirin fengi rétt er eðlilegt að fólk fyllist gremju og láti óánægju sína í ljós.  Á þessum tímapunkti finnst mér það ósanngjarnt þar sem ekki hefur verið sýnt fram á annað en það sem hún segir. 

Aðalheiður Þórisdóttir (IP-tala skráð) 29.4.2007 kl. 14:19

19 Smámynd: Júlíus Valsson

Gott dæmi um "Hina nýju blaðamennsku".
Valta yfir allt og alla, jafnt reynda stjórnmálamenn, sem gamla fólkið á Grund. Helgi Seljan ætti að starfa á tímaritinu Ísafold. Hann væri þar í góðum félagsskap. Gæti gert út spennandi njósnleiðangra, t.d. á geðdeildir hátæknisjúkrahússins. 

Júlíus Valsson, 29.4.2007 kl. 17:30

20 Smámynd: Bergrún Íris Sævarsdóttir

og þó hann væri strákur þá væri hann ekkert verri fyrir vikið. Það er óþolandi að stelpa og strákur eru orðin einhverskonar blótsyrði.    

Bergrún Íris Sævarsdóttir, 29.4.2007 kl. 20:50

21 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

takk fyrir þessar athugasemdir, það er margt gott sem þar kemur fram. Mér var bent á að það væri óviðeigandi að nota orðalag eins og "fjölmiðlastrákur" og ég hef breytt því í "fjölmiðlamaður". Þó það stuðaði engan að ég kallaði Helga Seljan "ótíndan rusta" þá hef ég breytt því líka í "fjölmiðlamaður". Það er náttúrulega ekki samheiti með því að vera rusti.  En það gerir röksemdafærslu ekkert sterkari að nota skammaryrði um þá sem maður gagnrýnir.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 30.4.2007 kl. 19:27

22 identicon

Mér þykir þú nú snúa þessu eitthvað á haus Salvör ."Það sem ég heyri  er  yfirmáta hrokafullur og  ruddalegur og óupplýstur fjölmiðlamaður sem  ekki hefur unnið heimavinnuna sína að ræða við reyndan, kurteisan og orðvaran lögfræðing og alþingismann "

Við hin sem styðjum ekki framsóknarflokkinn , heyrðum bara frekan, hrokafullan ráðherra, sem ætlaði sér aldrei að svara neinni spurningu þegar hún kom þáttinn hjá Helga. Hún vissi það að hún var að fara í debat sem hún gæti ekki unnið og reyndi þá gömlu aðferðina að vera með skitkast og gera andstæðingin tortryggilegan með dylgjum og útúrsnúningum. Það sem gerir framsóknarmenn öðruvísi en aðra er að þeir geta ekki greint spillingu frá öðru.  Umfjöllun Kastljósins í gær ætti að klára málið , þar sem kemur í ljós að eina röksemd fyrir umsókninni voru að umsækjandinn var að leita eftir þægindum. Engin raunveruleg flýtiástæða  

Þorsteinn Ingimarsson (IP-tala skráð) 1.5.2007 kl. 12:27

23 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Tek undir með þér Erla, seinni Kastljósþátturinn var góður og upplýsandi og fagmannlegur. Það má hins vegar velta fyrir sér hvaðan þeir fengu umsókn stúlkunnar sem eftir því sem ég best veit er einkagögn sem hún lagði fram til opinberrar nefndar  (Guðjón Ólafur, Bjarni Ben. og Guðrún Ögmunds) og mér skilst að það sé eina fólkið sem fékk að lesa gögnin frá umsækjendum. Ef Kastljós hefur komist yfir þessa umsókn öðru vísi en beinlínis frá stúlkunni sjálfri og með samþykki hennar þá er mjög sennilega ólöglegt hjá þeim að birta þessi gögn þ.e. lesa upp umsókninni. Þeir átta sig væntanlega á því en taka áhættuna eins og fjölmiðlar gera jafnan í skúbbinu að enginn ákæri þá og/eða afleiðingar dóms/ákæru verði minni en ávinningur af að koma með góða frétt.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 1.5.2007 kl. 12:59

24 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

þorsteinn, þú talar um Jónínu og "andstæðing". Þannig á samspil stjórnmálamanna og fjölmiðlamanna ekki að vera. Það er nefnilega það sem Helgi Seljan gerði vitlaust, hann hegðar sér eins og pólitískur andstæðingur sem vill koma höggi á veikan blett á andstæðingi og knésetja hann. Helgi Seljan er á launum hjá mér og þér, hann starfar á opinberum fréttamiðli sem vissulega á að vera fimmta valdið og veita stjórnsýslunni aðhald og fletta ofan af misfellum og skrýtnum vinnubrögðum þar. 

Þessi afgreiðsla sem um ræðir er hins vegar afgreiðsla alsherjarnefndar (Guðjón Ólafur, Bjarni Ben. og Guðrún Ögmunds) og það er sú afgreiðsla sem er afar einkennileg. Jónína ber ábyrgð á því sem hún ber ábyrgð á og það er sem þingmaður og sem umhverfisráðherra og á þeim nefndum sem hún tekur þátt í að afgreiða en hún ber ekki ábyrgð á því þó fólk henni tengt hljóti einkennilega greiða fyrirgreiðslu hjá einhverri nefnd sem hún hefur ekki haft einhver afskipti að.

Auðvitað hefur Jónína hjálpað stúlkunni að fóta sig í kerfinu og bent henni á leiðir. Skárra væri það nú.  En það er ekkert óeðlilegt við að fólk leiðbeini fjölskyldum sínum hvort sem það eru þingmenn eða ekki.

Helgi Seljan var að ráðast á rangan aðila og á röngum forsendum. Það er mjög hættulegt ef fjölmiðlar verða þannig og segja einhvern hálfsannleika og gangast upp í loddaraskap. 

það er hins vegar fremur einkennilegt og tortryggilegt  hvernig alsherjarnefnd afgreiddi þetta mál.  Mér finnst að þessi nefnd (Bjarni Ben. Guðjón Ólafur og Guðrún Ögmunds) verði að svara betur fyrir það. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 1.5.2007 kl. 13:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband