Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Reykkofi í Götusmiðjunni

ekki-reykjaÉg hélt að það væri 1. apríl eða einhver gabbfrétt  á síðu 4 í Mogganum í dag. Þar segir frá pólskum arkitekt sem vildi láta gott af sér leiða eftir dvöl hér á landi og þetta góða var að byggja fíkniefnaafdrep fyrir krakka sem eru vistuð í Götusmiðjunni. Þetta framtak var svo styrkt af Bykó og segist arkitektinn hafa haft samband við Barnaverndaryfirvöld til að komast að því hvar neyðin er stærst.

Er neyðin virkilega stærst varðandi það að koma upp aðstöðu til reykinga á meðferðarheimilum sem rekin eru af ríkisstyrk? Tóbak er hættulegt eitur og það er alveg forkastanlegt að því sé tekið vel og veitt aðstaða til að koma upp eiturefnaúðunarklefa á meðferðarheimilum sem rekin eru með ríkisstyrk.

Ég hvet fólk til að skrifa til Barnaverndarstofu og Götusmiðjunnar og lýsa andúð á þessu háttalagi.

Reykingar drepa.

Hmmm.... ég fór í smávegis rannsóknarbloggmennsku á Netinu og fann þá þetta á Netinu um rekstur Götusmiðjunnar á Akurhóli:

Þau 16 meðferðarrými sem til staðar eru á Akurhóli skiptast á eftirfarandi hátt:
- 12 rými fyrir ósjálfráða nemendur
- 2 rými fyrir 18 til 20 ára nemendur
- 2 rými fyrir neyðarinntöku og -endurkomu og vikudvalir

 Það er sem sagt þannig að langflest meðferðarrýmin eru fyrir ósjálfráða unglinga og það er forkastanlegt að það skuli vera unnið hörðum höndum að því að stuðla að því að þau séu í harðri neyslu stórhættulegra efna á meðan þau eru ósjálfráða vistuð á stofnun sem rekin er af ríkisstyrk. Þetta er skömm og svívirða.

 


Óðal fyrr og nú

ÓðalÞað er hægt að taka púlsinn á samtímanum með að skoða einn lítinn blett í Reykjavík og hvernig hann breytist. Einn af þeim blettum sem ég skoða er Óðal, skemmtistaðurinn sem ég hékk á þau ár sem ég taldi helgum best varið í að sitja að sumbli  á öldurhúsum. Núna er Óðal staður þar sem karlmenn koma til að "have some quality time with balanced music , soft lighting and fabulous ladies." eins og stendur á vefsíðu þessa staðar. Þessi mynd hérna er af vefsíðu þeirra og ég held hún segi til um hvernig þjónusta er veitt á staðnum.  Þar stendur líka:

Club Odal is proud to have hosted some of the hottest feature acts in the world. Our feature Entertainers have appeared in major men's magazines, films, videos, TV shows, and been the winners of many contests around the world, such as Miss Nude USA and Miss Nude World.


Saga Óðals er þyrnum stráð. Sú starfsemi sem þar fer fram núna er lítilsvirðing við konur. Fyrir aldarfjórðung tröðkuðu eigendur Óðals líka á mannréttindum en þá með því að meina samkynhneigðum aðgang að staðnum og vísa á dyr öllum sem sýndu af sér einhverja hegðun sem gæti túlkast sem samkynhneigð. Ég man vel eftir þessum tíma á Óðali og varð oftar en einu sinni vitni að því að fólki var vísað á dyr fyrir að faðmast og kyssast og halda hvort utan um annað. 

Guðrún Rögnvaldardóttir skrifar greinina "Ég er í Samtökunum '78" í Morgunblaðið í gær.  Hún byrjar greinina svona:

Kvöld eitt fyrir 25 árum stóð ég í biðröð til að komast inn í Óðal, sem þá var einn af helstu skemmtistöðum borgarinnar. Með mér í för var kærastinn minn, síðar eiginmaður. næstir á eftir okkur í röðinni voru þáverandi formaður Samtakanna '78 og sambýlismaður hans. Eftir um hálftíma tíðindalausa bið var röðin komin að okkur að vera hleypt inn. Ég og kærastinn gengum inn, en síðan hrintu dyraverðirnir sambýlismanni formannsins frá, kipptu formanninum inn fyrir, fleygðu honum á grúfu í góllfið, settust ofan á hann og lömdu hann og létu svívirðingarnar dynja á honum - sögðust ekki vilja sjá hans líka inni á staðnum, og honum væri fyrir bestu að hætta að reyna að sækja staðinn.


Áhrif á Íslandi út af hlutabréfum í Sjanghai

 Það er líklegt að hinar  miklu sviptingar á fjármálamörkuðum í Asíu hafi áhrif hérna á Íslandi. Hér er frétt á RÚV um áframhaldandi fall á Asíumörkuðum Hér er vídeóið frá CNBC frá gærdeginum

Núna er stór hluti af veltu banka tengdur starfsemi erlendis. Kína verður alltaf stærri og stærri aðili á alþjóðamarkaði. Þar er skrýtið ástand - miðstýrt ríkishagkerfi í kommúnistaríki og svo líka markaðshagkerfi í alþjóðaviðskiptum. Ein af ástæðum fyrir lágu gengi dollara er fastgengisstefna kínverskra valdhafa, það er eina tækið til að tempra kínverskan innflutning í USA. 

Það virðist nú ekki ljóst hversu djúp og kröpp þessi peningalægð er en það er ekki séð fyrir botninn á henni. Hér er síðasta fréttin á BBC: Word Slump hit Second Day 


mbl.is Dow Jones hríðfellur: Lækkaði um 500 stig en rétti lítillega úr kútnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndin af pabba

Samið um sögu ThelmuMorgunblaðið segir á forsíðu í dag frá því að samið hafi verið um kvikmyndunarréttindi á sögu Thelmu "Myndin af pabba" sem Gerður Kristný skráði. Thelma Ásdísardóttir segir að það sé mikilvægt að það sem máli skiptir í bókinni sé ekki kæft í aukaatriðum. Aðalatriðið sé að sannleikurinn komi fram og ábyrgðin sé á réttum stað og t.d. að móðir hennar verði ekki sett upp sem einhver sem átti sök á þessu eða samfélagið gert að ófreskjum og svikurum.

Ég las bókina nótt eina fyrir ári síðan. Ég lá inn á spítala, ég var í morfínvímu og allt í kringum mig var fársjúkt fólk og hjúkrunarfólk á þönum. Bókin var nístandi sár - þrátt fyrir vímuna og þrátt fyrir að ég teldi mig vita allt um efni hennar af mikilli blaða- og fjölmiðlaumfjöllun.

Ég hef séð margar konur sem eru eins beygðar og kúgaðar og móðir Thelmu og ég hef séð mörg börn vaxa upp í fjölskyldum þar sem vitstola óreglumenn drottna yfir lífi þeirra. 

Ég held ennþá að skynsamlegasta leiðin til að fyrirbyggja svona fjölskyldumynstur þar sem geðsjúkur óþokki gerir líf fjölskyldu að martröð sé að styrkja sjálfsmynd og baráttuþrek konunnar. Ég segi ennþá vegna þess að ég hef reynt og reynt að gera slíkt í fjölskyldu sem ég þekki til og það fór ekki á þann veg sem ég vildi. Ég reyndi eins og ég gat að fá konu sem var mjög kúguð af margra ára sambúð við óþokka til að tjá sig og berjast fyrir sig og börn sín, hún er stórvel gefin og mjög vel máli farin og mjög ritfær. Það heppnaðist svo sem ágætlega, hún fór að skrifa í blöðin alveg ágætis greinar. Um hvað skrifaði hún? Þá kúgun og harðneskju og skilningsleysi sem hún hefur upplifað í lífinu og þær kröfur sem hún gerði til samfélagsins fyrir hönd sína og dætra sinna? Nei. Hún skrifaði varnargrein fyrir nauðgara sem sat í gæsluvarðhaldi og þann órétt sem hún taldi hann vera beittan. Núna mörgum árum seinna þá kóar hún áfram með siðblindum óþokka í fjölskyldu sinni og kýs eða kann ekki annað en sjá hið bjagaða  sjónarhorn hins sturlaða kúgara.

 


Youtube njósnadæmi

Orð eins og "anti-piracy technologies" er bara falleg umorðun á einhvers konar sjálfvirkri njósnun á stafrænu efni. Youtube verður að fara að lögum og margt efni þar er ólöglegt m.a. mikið af hljómböndum.  En líklega finna hakkarar strax glufur til að komast fram hjá svona njósnum  og sennilega bitnar þetta mest á þeim sem ekki hafa nein lögbrot í hyggju : "Protecting copyrighted material is likely to involve an endless cat-and-mouse game to keep pace with hackers bent on breaking such security tools."

YouTube to 'Lose Popularity' After Google Filters Content

 YouTube anti-piracy software policy draws fire

 


mbl.is YouTube ætlar að loka á höfundarréttarvarið efni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju með afmælið ég

Salvör febrúar 2007Óska sjálfri mér til hamingju með að í dag er ég einu ári eldri. Í tilefni hækkandi aldurs og breytts útlits þá skipti ég hér með út myndinni sem ég hef haft sem auðkenni hér á moggablogginu og set inn nýja mynd. Þessa mynd er ég búin að föndra þannig að ég hef tekið út allar hrukkur og undirhökur og sett í bakgrunn fjöruna í Staðahverfi. 

Það tók nú reyndar lítinn tíma  þessi stafræna hrukkuspörslun því þessi mynd var tekin eftir að Didda mágkona mín sem er snyrtifræðingur hafði málað mig mjög vandlega.

didda-malun Það er ótrúlegt hvað  fótósjoppun og föðrun getur breytt fólki, hér eru nokkur sýnidæmi 

 Það er reyndar gaman að spá í hvernig fólk lýsir sér sjálft í stafrænum rýmum og hvernig sjónarhorn og umhverfi það vill birtast í. Sumir ungir karlmenn hér á moggablogginu birta mynd af sér með barninu sínu, ég geri ráð fyrir að það sé vegna þess að þeir vilja gefa þá ímynd að föðurhlutverkin sé það mikilvægasta í lífi þeirra. 

Sumir hafa glamúrmyndir af sér þar sem þeir eru sem sætastir en sumir velja einhverja hryllingsmynd sem augsýnilega er ekki af þeim. Í vefrýmum eins og bloggi og Myspace skapar fólk sína eigin ímynd og það hefur meira að segja þróast upp ákveðin tegund af ljósmyndun, það er talað um "Myspace angles" en það eru sjálfsmyndir ungmenna. Það eru raunverulegar sjálfsmyndir, unglingar taka mynd af sjálfum sér - eða einhverjum líkamsparti sínum  með því að halda stafrænni myndavél á lofti og pósa. Hér er vídeóið Myspace The movie sem gerir grín að þessu.

Myspace sjálfsmyndir

Sjá nánar Identity Production in a Networked Culture Why Youth Heart MySpace og síðuna mína um Myspace.  

 


Nornir og nútímagaldrar á safnanótt

Síldarþró við SjómannaskólannÉg reikaði um Reykjavíkurborg á safnanótt. Byrjaði  vestur á melum á  Fulbright afmælishátíð  í hátíðarsal háskólans, fór svo niður að höfn í  Hafnarhúsið á sýningu  Pierre Huyghe, horfði á  mynd hans um Streamside hátíðina, tilbúna hátíð listamannsins í nýju úthverfi í USA sem er " ætlað að fagna tilurð þessa nýja samfélags og verða árlegur viðburður í lífi íbúanna. Huyghe skapar viðburð fullan gleði og siðum sem verða munu raunverulegur þáttur í árlegum hátíðarhöldum bæjarbúa.  Í BEINNI - VIÐBURÐUR VERÐUR SÝNING er vettvangur þar sem leitast er við að skapa andrúm frelsis, fögnuðar og þátttöku." Skrýtið að vera á hátíð borgarsamfélagsins  eins og safnanótt að horfa á mynd um hátíð í öðru hverfissamfélagi. Leit líka inn á  Errósýninguna og þessi hluti úr stórri Errómynd minnti mig á klámþingsumræðuna nýhjöðnuðu.

Bókhaldsvélar hjá SÍSKirkjusandur 1952

Skoðaði óspennandi ljósmyndir af húsum séð með frönskum augum í ljósmyndasafni Reykjavíkur og var of fullorðin til að búa til pappírsbáta til að finna til fransk-íslenskra tengsla við sjómenn fyrri alda.

Fór í þjóðminjasafnið, hlýddi á  hljóðfæraslátt  og miðaldasöng og raulaði með viðlagið um Ólaf liljurós um blíðan byrinn sem lagði undan björgunum.

Skoðaði ljósmyndasýningu þar og hreifst af myndinni af síldarþrónni við Sjómannaskólann þar sem núna eru stúdentagarðar.  Það var líka ljósmynd úr frystihúsinu á Kirkjusandi 1952 og  af konum sem starfa við  bókhaldsvélar SÍS. Það er hægt að lesa atvinnu- og tæknisögu Íslands úr þessum myndum.

Svo reikaði ég í Norræna húsið og þar var sungið af gleði en söngurinn var engu lagi líkur.  Ég kunni vel við það , fólk á að syngja hvert með sínu lagi og  fagna fjölbreytninni.

Svo lá leiðin aftur í Grófarhúsið og nú á Borgarbókasafn og það rann ég á hljóðið, það var fjöldasöngur og ég söng með nokkur lög. Orti svo ljóð með því að setja saman orð, það var náttúrumynd eins og hæka um sólarlag þar sem sjórinn og landið mætist og kæfandi garg máva í forgrunni.  Svo hlýddi ég á erindi um nútímanornir og nútímagaldra hjá galdranorn sem rekur galdrabúð á Vesturgötu. Þetta var skemmtilegt og hvetjandi erindi og alveg í þeim anda sem mér finnst gefast vel í lífinu - að gæða lífið töfrum.

Það er nú líka miklu skemmtilegra að lífa í kynjaveröld þar sem margt getur gerst og fólk getur beitt verkfærum sem það skilur ekki vel - miklu skemmtilegra en heimta að horfa bara á heiminn frá sjónarhóli takmarkaðrar lífveru sem aðeins sér hluta af litrófinu og afneitar því að það geti verið til sem þessi lífvera getur ekki séð eða hugsað um með sínum takmörkuðu skynfærum og hugsanatækjum. 

Galdranornin var ekki í  öskudagsbúningi norna með svartan barðahatt með uppmjóan rana heldur hafði brugðið yfir sig ljóskugervi sem er sennilega felubúningur hjá nútímanornum svo engan gruni þær um græsku og gáfur.  Hún sagði að við hefðum öll framið galdur. Ég er nú alveg á því, fólk er alltaf að fremja einhvers konar seið  og hermigaldra og reyna að smætta andstæðing með því að koma einhverri mynd á hann. Ég hef í samantekt minni um Grýlu reynt að benda á það hvernig Grýlan í íslensku samfélagi er síbreytileg, hún er ógnin sem steðjar að hverju sinni og með því að líkamna hana í Grýlu þá er auðveldara að búa til hetjusögur þar sem Grýlan er kveðin niður með mögnuðum galdri. 

Annars rifjar þetta upp fyrir mér að ég orti einu sinni ljóð um galdur. Galdur sem ég sá framinn. Af mörgum í einu, af hundruðum. Og enginn horfði á annan en samt talaði fólk saman.  Það var magnað. Það var um hábjartan dag í brennandi sól á torgi í Jerúsalem. 

Ljóðið heitir Galdur hinna sigruðu og það byrjar svona:

Þegar hermennirnir
ganga fyrir hornið
deyr kliður götunnar út
og ekkert heyrist
nema snarkið í eldi götusalans.


Ljósagraffiti og götulist ljósanna

Það er ljósahátíð allt árið í Reykjavík, ekki bara á vetrarhátíð. Ég tók niður síðustu ljósaseríurnar um seinustu helgi en þar er samt  ljómi af ljósum allan sólarhringinn hjá mér. Það er aldrei dimmt því miðbærinn hefur teygt sig hingað og hótelið  stóra lýsir upp hverfið. Stóru gatnamótin í Reykjavík eru eins og  amerískur highway, flennistórar auglýsingar og ljósaskilti þar sem vörur eru falboðnar ökumenn í bílum. En það er enginn ástæða til að láta neyslumenningunni eftir sviðið og ljósasjóvið og núna geta götulistamenn glaðst yfir að það er að komin ný tækni frá graffitiresearchlab til að teikna ljósagraffiti á stór hús  með lasertækni eins og sérst í þessu myndbroti.  Hér er myndasyrpa á Flickr um svona ljósagraffiti. 

Það er líka miklu betra að kasta svona throwies heldur en sprengjum að fólki og byggingum. 

 


Takk allir

Takk allir sem lögðust á eitt við verja landið fyrir klámhundunum. Sérstaklega hinum ötulu femínistum sem tóku málið upp og höfðu hátt.  Enn og aftur sýnir þetta okkur að umræðan hefur áhrif. Þetta var bara besta lausnin. Að gera fólki í svona bransa lífið leitt. 

Ég var nú ekki búin að sjá neins staðar að SAS hótelið ætlaði ekki að hýsa fólkið. Ég er samt dáldið hugsi yfir hvort ekki eigi að vera reglur um hvort fyrirtæki sem bjóða þjónustu sé ekki skylt að veita hana öllum.  Þegar ég bjó í Iowa City í USA þá voru þar húsaleigulög sem bönnuðu þeim sem voru að leigja að gera upp á milli leigenda og handpikka fólk sem það vildi inn í íbúðir, það var vegna þess að blökkumenn í Bandaríkjunum hafa mætt miklu misrétti og mismunun og verið sniðgengnir í húsnæði í ákveðnum hverfum.  Sama gildir um útlendinga og nýbúa hér á Íslandi. Þeir sæta mismunum þegar kemur að því að finna sér húsaskjól. Við erum svo vön svona mismunun að við tökum ekki eftir því að hún er mannréttindabrot.

Það er ágætt að prófa á eigin skinni hvernig er að vera í þessum sporum. Ég var einu sinni í Osló og var húsnæðislaus og hringdi og hringdi vikum saman í allar auglýsingar. Það var alltaf búið að leigja bara þegar ég gat stunið upp einni setningu, þrátt fyrir að ég sæti um að hringja um leið og dagblöðin komu út.  Það var ótrúlega margar sögur sem fólk sagði til að losna við mann úr símanum. Það náttúrulega heyrðist eins og skot í símanum að ég var útlendingur. Svo gaf frænka mín mér ráð, hún sagði mér að byrja samtalið strax með því að segja að ég sé Íslendingur í námi þarna. Ég fór eftir því og það brá svo við að eftir það voru allar íbúðir lausar sem ég spurðist fyrir um  og allir vildu fá mig til að leigja hjá sér, þurftu ekkert að vita meira um mig og ekkert að sjá mig, það nægði bara að vita þjóðernisuppruna. Það var sárt að uppgötva hvað fólk var að blekkja mig mikið þegar það hélt að ég væri nýbúi frá fjarlægri menningu og kannski öðruvísi en Norðmenn á litinn.

Oft þarf maður í lífinu að gera upp á milli tveggja viðhorfa og lífsýnar - stundum stangast á það sem ég vil sem femínisti og þar sem ég vil sem talsmaður þess að mannréttindi allra séu virt, líka þeirra sem stunda iðju sem ég fyrirlít og vil ekki sjá nálægt mér.  Það er kúnst í lífinu að kunna að samræma og forgangsraða hvaða sjónarmið eru ofar. Femínismabarátta er mannréttindabarátta og það er líka mannréttindabarátta að fólki sé ekki úthýst neins staðar úr gistingu. Þetta er nú ekki alveg glænýtt vandamál, þetta er yfir tvö þúsund ára vandamál sem er lesið fyrir okkur í jólaguðspjallinu á hverju ári. Ætli það hafi verið raunverulega þannig að öll gistihúsin í Betlehem hafi verið full á aðfangadagskvöld.... eða var þetta mismunun vegna uppruna þeirra og kannski vegna starfa þeirra, þjóðernisuppruna og stöðu  Jóseps og Maríu í lífinu? 


mbl.is Hætt við klámráðstefnu hér á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nettruflanir

Ég velti fyrir mér hvað unglingarnir sem ganga berserksgang þegar tölvusambandið er tekið af þeim  svo kalla verður til lögreglu til að skakka leikinn hafi verið að gera. Hvað er það sem var svo spennandi að þeir sinntu engu öðru? Hvers vegna líka þeir á það sem svona óhemjulega mikla árás á sig að  tengill þeirra við umheiminn sé tekinn úr sambandi? Og eru þetta unglingar sem hefðu lent í einhverju ámóta ryskingum niðri í bæ og komið tættir og rifnir heim eftir áflog þar en fá núna útrás á Internetinu og tryllast þegar tengið við þann heim er rofið.  

Ég reyni að setja mig í spor unglinganna. Ég myndi taka því afar illa ef allt í einu væri klippt á Internetstrengi mína og umheimsins, ég hugsa að ég yrði ekki mönnum sinnandi. Ég myndi bölsótast mikið út í þann sem klippti en þrauka það af ef faraice strengur hefði verið nagaður sundur af nagdýrum eða klipptur sundur af togurum. En vei þeim sem skrúfaði fyrir aðganginn  minn og stæði svo ógnandi fyrir framan mig og hótaði mér, segðist ráða yfir mér og mínu sambandi við heiminn. Ég hugsa að unglingarnir hafi verið í þeim sporum.

Ég held að lífstíll og félagsmunstur sumra unglinga sé orðið þannig að þeim finnst þau vera fangar í einangrunarvist ef tenging þeirra við Internetheiminn er rofin. Ef til vill var klippt úr sambandi einmitt helgina þegar stórt leikjamót var og ef til vill var unglingurinn að spila í liði með einhverjum sem búa annars staðar á hnettinum og sem honum fannst hann hafa skuldbindingar við.


mbl.is Stympingar vegna tölvunotkunar unglingspilts á höfuðborgarsvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband