Myndin af pabba

Samið um sögu ThelmuMorgunblaðið segir á forsíðu í dag frá því að samið hafi verið um kvikmyndunarréttindi á sögu Thelmu "Myndin af pabba" sem Gerður Kristný skráði. Thelma Ásdísardóttir segir að það sé mikilvægt að það sem máli skiptir í bókinni sé ekki kæft í aukaatriðum. Aðalatriðið sé að sannleikurinn komi fram og ábyrgðin sé á réttum stað og t.d. að móðir hennar verði ekki sett upp sem einhver sem átti sök á þessu eða samfélagið gert að ófreskjum og svikurum.

Ég las bókina nótt eina fyrir ári síðan. Ég lá inn á spítala, ég var í morfínvímu og allt í kringum mig var fársjúkt fólk og hjúkrunarfólk á þönum. Bókin var nístandi sár - þrátt fyrir vímuna og þrátt fyrir að ég teldi mig vita allt um efni hennar af mikilli blaða- og fjölmiðlaumfjöllun.

Ég hef séð margar konur sem eru eins beygðar og kúgaðar og móðir Thelmu og ég hef séð mörg börn vaxa upp í fjölskyldum þar sem vitstola óreglumenn drottna yfir lífi þeirra. 

Ég held ennþá að skynsamlegasta leiðin til að fyrirbyggja svona fjölskyldumynstur þar sem geðsjúkur óþokki gerir líf fjölskyldu að martröð sé að styrkja sjálfsmynd og baráttuþrek konunnar. Ég segi ennþá vegna þess að ég hef reynt og reynt að gera slíkt í fjölskyldu sem ég þekki til og það fór ekki á þann veg sem ég vildi. Ég reyndi eins og ég gat að fá konu sem var mjög kúguð af margra ára sambúð við óþokka til að tjá sig og berjast fyrir sig og börn sín, hún er stórvel gefin og mjög vel máli farin og mjög ritfær. Það heppnaðist svo sem ágætlega, hún fór að skrifa í blöðin alveg ágætis greinar. Um hvað skrifaði hún? Þá kúgun og harðneskju og skilningsleysi sem hún hefur upplifað í lífinu og þær kröfur sem hún gerði til samfélagsins fyrir hönd sína og dætra sinna? Nei. Hún skrifaði varnargrein fyrir nauðgara sem sat í gæsluvarðhaldi og þann órétt sem hún taldi hann vera beittan. Núna mörgum árum seinna þá kóar hún áfram með siðblindum óþokka í fjölskyldu sinni og kýs eða kann ekki annað en sjá hið bjagaða  sjónarhorn hins sturlaða kúgara.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég hef séð svona dæmi líka.  Maður er oft að spá í hvernig konur geti horft framhjá þessu.   Hvað það er sem gerir þær svona varnarlausara gagnvart börnunum sínum.  Maður getur ekki dæmt þær, en ég get ekki samþykkt samt sem áður að þetta sé eðlilegt.  En hvað er til ráða ?  Hvað er hægt að gera þegar móðirin kóar með ofbeldismanninum gegn sínum eigin afkvæmum ?  Ég segi eins og fleiri hér þegar stórt er spurt verður fátt um svör.

En þarf ef til vill lög sem kveða á um tafarlaust brottnám barna af heimili þar sem upp kemst um svona ofbeldi. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.2.2007 kl. 11:46

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Annað, er á einhvern hátt hægt að gera fólk ábyrgt fyrir því að láta vita af því ef grunur leikur á misnotkun eða ofbeldi.  Ég til dæmis gerði ekki neitt sjálf til að tilkynna tilfelli sem ég vissi af.  Það er hræðilegt að segja þetta.  En ég má skammast mín.  Hversu margir þarna úti lyfta símanum og láta vita af slíku? Það þarf allavega áróður og hvatningu til fólks um að láta vita.  'Eg myndi gera það í dag eftir alla þessa umræðu. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.2.2007 kl. 11:52

3 Smámynd: halkatla

heilinn verndar okkur ósjálfrátt frá ýmsu og reynir allt til þess að fá okkur til að hugsa um annað - það tekst alltof oft. Samfélagið þarf þessvegna sí og æ að fá uppvakningu um hvað getur átt sér stað.

ótrúlega sorglegt að heyra um konuna - en þetta er útúm allan heim og svona kúgun hefur mjög misjafnar birtingarmyndir, þeim er bara kennt og þær þjálfaðar upp og svo segjast þær samþykkar, það er ákveðin leið til þess að vernda sig og halda í sjálfsvirðinguna býst ég við. 

halkatla, 27.2.2007 kl. 12:08

4 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Aðgengi fólks að sálgæslu er ekki góð, ég vil sjá starfandi sálfræðinga og geðlækna á heilsugæslustöðum, þar sem sjúklingar borga sama verð fari þeir til þeirra eins og að fara til hefðbundins heilsugæslulæknis.  Vandamálið er að fólk veigrar sér við að leita lækninga, kanski alveg nóg hindrun að þurfa að fara á annan stað en þeir eru vanir þegar farið er til læknis.  Geðlægir sjúkdómar hindra oft sjúklinginn í að hugsa rökrétt og berjast fyrir sínu og það eru ekki allir sem fá hvatningu í sínu félagslega umhverfi.

Ester Sveinbjarnardóttir, 27.2.2007 kl. 12:20

5 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ég hef nokkrum sinnum haft samband við barnaverndaryfirvöld ef ég hef haldið að mál væru mjög alvarleg og aðstæður sem foreldrar/forráðamenn réðu ekki við.

Í einu tilviki man ég að ég var ekki viss  um að ég gerði rétt - fjölskyldan sem um ræðir var í miklum erfiðleikum og að mér virtist á barmi örvæntingar og búin að tapa áttum en  leit á inngrip barnaverndaryfirvalda sem ennþá einn erfiðleikann í viðbót, nú þyrftu þau að þola að vera hrædd um að missa yfirráð yfir börnum sínum og vera undir einhvers konar eftirliti. Ég varð ekki vör við neina aðstoð eða inngrip fyrir þessa fjölskyldu við að ráða úr málum sínum, það var fyrst og fremst einhvers konar eftirlit. Til hvers það eftirlit var veit ég ekki. En þetta held ég bara jók á erfiðleika fjölskyldunnar. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 27.2.2007 kl. 12:25

6 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Ég er alveg innilega sammála Ester - það vantar aðgengi að sálfræðiþjónustu og geðlæknum inni á heilsugæslustöðvum. Ekki að það sé nein allsherjarlausn, en það er eitthvað í áttina. Svo mætti vera meiri fræðsla um heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi, sem væri ekki síst beint til þeirra fagaðila sem koma að málefnum fjölskyldunnar, eins og t.d. kennarar og heilbrigðisstarfsfólk.

Í bók Thelmu kom fram að margir vissu af því hvað var að gerast heima hjá henni, en lítið var að gert. Vonandi er það ekki þannig í dag.

Svala Jónsdóttir, 27.2.2007 kl. 15:22

7 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Það er hugtakið meðvirkni sem kemur upp í hugann þegar ég les þetta blogg. Meðvirkni er eins og þeir sem þekkja til sterkt afl og ef það nær tökum á manneskjunni þá byggjast upp múrar sem erfitt getur verið að brjóta niður. Þetta fyrirbæri verður hálfu verra að eiga við sé það í bland við ótta og ógn sem steðjar að. Sálin vill þá afneita, reynir að aðlagast og einfaldlega survive.  Á heimili þar sem svo sjúkur einstaklingur býr eins og faðir Thelmu verða allir sjúkir.

Kolbrún Baldursdóttir, 27.2.2007 kl. 20:08

8 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

"En þarf ef til vill lög sem kveða á um tafarlaust brottnám barna af heimili þar sem upp kemst um svona ofbeldi. "

Ég held að því miður hafi þetta verið eitt af þeim atriðum sem gerði að verkum að móðir Thelmu opnaði sig ekki um ástandið á heimilinu, að hún hafi verið hrædd um að þá yrðu börnin tekin af henni.

Greta Björg Úlfsdóttir, 28.2.2007 kl. 15:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband