Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Norskir hagsmunir

nordurslodir-economist-mai09.gif Núna hangir ríkisstjórn Íslands á bláþræði og við bíðum eftir hvað kemur út úr fundi ríkisstjórnarinnar sem boðaður er seinna í dag. Við höfum spurnir af því að núna standi yfir þingflokksfundur VG og ef ég tók rétt eftir þá munu Ögmundur og Jón Bjarnason hafa farið af þeim fundi.

Núna eru hins vegar kosningar um garð gengnar í Noregi og vonandi átta Norðmenn sig á því hve mikið er í húfi að Ísland og Noregur verði  eins samstíga og hægt er  varðandi Evrópusambandið. Þetta er ekki eingöngu spurning um hvort ein þjóð gangi í efnahagsbandalag, þetta er spurning um Norðurslóðir sem verða á næstu árum eða áratugum mikið átakasvæði.

Það er eins og oft áður, Framsóknarmenn eru milligöngumenn um lausnir, í þessu tilfelli aðrar lausnir en að vera ofurseldir AGS lánum.


mbl.is Vilja lána 2000 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kostar 2 milljónir að kaupa formannsstól í SUS?

Um síðustu helgi kusu ungir Sjálfstæðismenn nýjan formann á SUS þingi á Ísafirði.  Það var Ólafur Örn Nielsen kosinn formaður með 52 % atkvæða. Hann hlaut 106 atkvæði og munaði 8 atkvæðum á honum og Fanney Birnu Jónsdóttur sem einnig var í framboði.

Það væri nú ekki í frásögur færandi að kosinn sé formaður á þingi ungliða stjórnmálaflokka ef allt hefði verið með felldu. Dagskrá þings SUS  virðist hafa verið spennandi og gaman í bland við alvarlega stjórnmálaumræðu og mun dagskráin hafa staðið frá föstudegi til sunnudags og síðasti liðurinn á sunnudegi var kosning formanns kl. 13.

Það sem er í frásögur færandi er Fokker flugvélin sem kom til Ísafjarðar á sunnudagsmorgni og sá farmur sem í henni var.  Í flugvélinni komu 50 stuðningsmenn Ólafs og þeir komu bara til að kjósa hann en ekki til að sitja þingið. Í þessari frétt á visir.is er talað um að kostnaður við flugið hafi verið 2 milljónir og það er alls óljóst hverjir greiddu þann kostnað.

Úrslit í formannskosningu  SUS  réðust af þessum flugfarmi. Svona smölun á  fólki sem engan áhuga hefur á stjórnmálastarfi upp í flugvélar og ferja það landshorna á milli bara til að kjósa ákveðinn mann er mikil vanvirða við lýðræði og heiðarlegt og málefnalegt stjórnmálastarf. Sá sem iðkar svona vinnubrögð sem ungliði í stjórnmálastarfi hefur engan skilning á  siðferði og heiðarleika í stjórnmálum. Sá sem iðkar svona vinnubrögð breytir stjórnmálum ungliða í afkáralegan skrípaleik.

Nýkjörinn  fokker formaður ungra Sjálfstæðismanna lætur hafa á eftir sér á vefnum sus.is:

„Sjaldan hefur verið mikilvægara að merkjum sjálfstæðisstefnunnar, frelsi einstaklingsins, og einstaklingsframtaksins verði haldið á lofti," sagði Ólafur Örn og hét því að leggja sig allan fram, ásamt öllu því góða fólki sem í gær tók sæti í stjórn SUS, við að afla flokknum þess stuðnings sem hann á skilið að hafa meðal ungs fólks.

Ég spyr: Er það svona sem formaðurinn ætlar að afla flokknum stuðnings meðal ungs fólks? Ætlar hann að borga undir það flug út um allar trissur? Ég spyr líka: Er það svona sem frelsi einstaklingsins og einstaklingsframtakið ljómar skærast - með því að dömpa niður flugförmum af keyptum atkvæðum í firði og annes á Íslandi?  

Næstsíðasti liður á dagskránni á þingi SUS var að formaður, varaformaður og formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins sátu fyrir svörum.  Hugsanlega hefur flugfarmurinn nennt að hlusta á þríeykið Bjarna Ben, Þorgerði Katrínu og Illuga en það er þó ekki víst, fólkið kom bara til að kjósa. En alla vega getur ekki verið annað en  Bjarni Ben. Þorgerður Katrín og Illugi hafi tekið eftir þessum flugumönnum og það kemur mér mjög á óvart að þau hafi ekki eitthvað gengið inn í þessi mál og reynt að hindra þennan hroðalega skandal.  Ef þau hafa ekki gert það, þá spyr ég hvort þeim finnist virkilega í lagi svona vinnubrögð? Er það svona sem Nýja Ísland Sjálfstæðisflokksins lýtur út. Er þetta fyrirboði þeirra vinnubragða sem munu verða ofan á í Sjálfstæðisflokknum, hvers konar frelsi er það sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir? Er það frelsi til að selja allt og frelsi til að kaupa allt, jafnvel atkvæði?

hér eru blogg sem ég hef áður skrifað um unga Sjálfstæðismenn

Heimdallur og jafnréttismálin (2003)

 

Hér fylgir með dagskrá SUS þingsins sem flugfólkið nennti ekki að mæta á. Það kom bara til að kjósa.

Föstudagur 25.september

16.00 - 18.30 Afhending fundargagna og skráning á þingið.

16.00 - Ýmiskonar spennandi afþreying svo sem sjóstöng eða kajakferðir.

17.00 - Fundur Sjávarútvegsnefndar SUS í Edinborgarhúsinu. Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður og Teitur Björn Einarsson, útvegsmaður, verða með framsögur og sitja í pallborði.

18.30 - Setning sambandsþings í Edinborgarhúsinu. Kosning þingforseta, fundarritara, kjörbréfa-nefndar og kjörnefndar. Skýrsla stjórnar fyrir liðið kjörtímabil. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar.

20.00 - Æsispennandi óvissuferð um vestustu firði Íslands þar sem hægt veður að væta kverkarnar, snæða og skemmta sér konunglega. 500 krónur í rútuna.

Laugardagurinn 26. september

09.30 - Málefnanefndir hittast í menntaskólanum og gera lokabreytingar á ályktunum fyrir salinn. Skráning heldur áfram.

11.30 - Örnámskeið 1. Fara fram í menntaskólanum.

12.30 - Hádegisverður í Edinborgarhúsinu. Hádegistónleikar með Helgu Margréti Marzellíusardóttur, formanni Fylkis.

13.00 - Stjórnmálaályktun kynnt, umræður og afgreiðsla ályktana.

16.30 - Lagabreytingar.

17.00 - Örnámskeið 2 í menntaskólanum.

17.00 - Golfmótið Hægri sveiflan á Tungudalsvelli. Spilað eftir Texas Scramble-fyrirkomulagi. Nóg að mæta með golfsett til að vera með.

20.30 - Hátíðarkvöldverður og ball með Appolo í Edinborgarhúsinu. Hátíðargestur kvöldsins er Ásbjörn Óttarsson, alþingismaður.

Sunnudagurinn 27. september

10.00 - Umræður og afgreiðsla ályktana heldur áfram í Edinborgarhúsinu.

11.30 - Bröns. Framboðsfresti til aðalstjórnar lýkur.

12.00 - Forystan flamberuð - formaður, varaformaður og formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins sitja fyrir svörum.

13.00 - Kosning formanns. Kosning stjórnar og varastjórnar. Umræður og afgreiðsla ályktana heldur áfram ef þörf krefur. Kosning endurskoðenda og önnur mál.

Þingi slitið.

 


Vormenn Íslands á ferð og flugi - Sjálfstæðisæskan og Framsóknaræskan

Það er átakanlegt að fylgjast með hvernig  Sjálfstæðisflokkurinn mætir breyttum aðstæðum eftir algjört hrun á Íslandi, hrun sem að miklu  leyti má rekja til  stefnu flokksins og stjórnarhátta og þess að Sjálfstæðismenn trúðu á skefjalausa markaðshyggju og  einkavæðingu og voru slegnir þeirri blindu  að halda að drifkraftur atvinnulífs og samfélags komi úr  samkeppni þar sem hver berst við annan og sá sé bestur sem græðir mest.

Það er átakanlegt að horfa á Morgunblaðið tekið traustataki með peningum sem skotið var í skjól korteri fyrir hrun og breytt í  þröngt flokksblað til að segja sannleikann eins og eigendur blaðsins upplifa að hann ætti að vera  til að koma hagsmunum þeirra og hins deyjandi ættarveldis sem best. 

Það  er átakanlegt að horfa á ekkert breytast hjá Sjálfstæðismönnum, sama fólkið í forustu og var fyrir hrun jafnvel þó það hafi meira minna allt komið að mjög vafasömum málum.  

Það er kannski átakanlegast að sjá hvernig vinnubrögðin eru hjá ungum Sjálfstæðismönnum núna, þeim sem kannski væru líklegastir til að breyta einhverju í Sjálfstæðisflokknum. En fréttirnar af Fokker flugvélinni sem  flaug til Ísafjarðar bara til að láta ungliða kjósa vekur engar vonir um að nokkuð hafi breyst í Sjálfstæðisflokknum og vekur engar vonir um að þeir sem sigruðu í þessari kosningu muni breyta einhverju.  Það er engin virðing borin fyrir lýðræði að senda fimmtíu manna flugvél landshorna á milli með fólk eingöngu  til að kjósa. Það er áhugavert að vita hver borgaði fyrir þessar flugferðir.

Í fréttinni stendur:

 Fokker vél lenti í hádeginu á Ísafjarðarflugvelli með um fimmtíu manns sem mættu á þingið, einungis til að kjósa.

Í framboði til formanns SUS, eru Ólafur Örn Nielsen og Fanney Birna Jónsdóttir, en þau eru sögð koma úr sitthvorum armi flokksins.Fráfarandi formaður er Þórlindur Kjartansson sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs.

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður og Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður eru meðal gesta á þinginu.

Meðal gesta á þinginu voru fulltrúi ættarveldisins  Bjarni  Benediksson og fulltrúi kúlulánanna Þorgerður Katrín og fulltrúi sjóðasukksins Illugi (Sjóður 9 ). Þau eru öll ennþá í forustusveit Sjálfstæðisflokksins þrátt fyrir að hafa verið það líka fyrir hrun og tengjast ýmsum vafasömum fjármálagerningum þá og fyrirtækjum/fyrirtækjasamsteypum sem komu við sögu.

Ólíkt hafast þau að Sjálfstæðisæskan sem smalar upp í flugvél og flýgur fólki milli landshorna bara til að kjósa á landsþingi ungra Sjálfstæðismanna og Framsóknaræskan sem nýlega hélt sinn landsfund í Mosfellsbæ og þar  var eitt af þemum þingsins hvernig hægt væri að auka siðferði og minnka spillingu í stjórnmálum. 

Það er líklegt að ungliðar stjórnmálanna í dag verði fólkið sem leiðir sína stjórnmálaflokka í framtíðinni. Og hverjum er betur treystandi, ungliðum Sjálfstæðisflokksins sem smala fólki upp í flugvélar til að kjósa eða ungliðum Framsóknarflokksins sem hafa stigið fram og heimtað breytingar og áttu stóran þátt í þeim breytingum sem urðu á forustu flokksins og þinguðu núna í ár um siðferði í stjórmálum  og hvernig auka mætti lýðræði og uppræta spillingu.

Hér er stefna SUF

Hér eru nýjustu ályktanir frá Framsóknaræskunni:

Ályktanir 35. sambandsþings SUF - Mannréttindi og lýðræði

Ályktanir 35. sambandsþings SUF - Velferð, jöfnuður og lífsgæði

Ályktanir 35. sambandsþings SUF - Menntun, menning og íþróttir

 


mbl.is Smölun í tengslum við SUS kosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýja Ísland

"Óskar sagði, að menn vissu vel að fjölmiðlar Árvakurs nytu óskoraðs trausts þjóðarinnar og því trausti ætluðu þeir ekki að bregðast. „Við munum áfram flytja óhlutdrægar, heiðarlegar og sanngjarnar fréttir af öllu sem máli skiptir, eigendum Árvakurs jafnt sem öðrum"

Ehemm...


mbl.is Davíð og Haraldur ritstjórar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarkall frá Íslandi - Að selja kreppulandið

Forseti okkar nýtur sáralítillar hylli meðal íslensku þjóðarinnar og þá ekki síst vegna þess að hann var handbendi ófyrirleitinna fjárglæframanna sem fóru um lönd og létust vera fulltrúar Íslendinga, létu sem þeirra fjármálaspilavítisbankar væru bankar sem íslenska ríkið og Íslendingar ættu og stæðu á bak við, væru þjóðbankar þegar þeir voru ekki annað en fjármálaspilavíti nokkurra manna og útrás þeirra byggðist á gengismunaviðskiptum (carry trade).

Ef þeir fjárglæframenn sem fóru um lönd Evrópu og fengu fávísan almenning  í Bretlandi og Hollandi -  já og Scotland Yard og sveitasjóði í Bretlandi - til að leggja fé inn á netbanka sem lofuðu himinháum vöxtum hefðu verið fjármálamenn með bakhjarla í Nígeríu og skráð netbanka sína þar og stært sig af því að þeir væru í svo góðum tengslum við nígerísk stjórnvöld og kallað sína banka "The National Bank of Nigeria" þá hugsa ég að meira eftirlit og tortryggni hefði verið á þessu íslenska Ponzi scheme sem íslenska bankaævintýrið og endalok þess  Icesave reikningarnir virðast hafa verið.  

En fjárglæframenn útrásarinnar puntuðu sig með forsetanum og ferjuðu hann meira segja milli staða svo hann væri til taks að selja trúverðugleika þeirra. Þeir puntuðu sig líka með stjórnmálamönnum og yfirhilming helstu ráðamanna þjóðarinnar í ríkisstjórn Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar með því sem var að gerast í heimi íslenskra fjármála er sorglegri en tárum taki.

Ólafur Ragnar er gáfaður og víðlesinn maður sem alla vega virðist hafa haft þann bakgrunn að hann hefði átt að sjá hvað var að gerast,  hann hefur sérfræði í stjórnmálafræði og hann var lengi stjórnmálamaður í eldlínunni og var m.a. fjármálaráðherra eins og raunar Geir Haarde. Ólafur Ragnar var á tímum útrásarinnar boðberi hennar og sölumaður.   Ég vænti mikils af Ólafi Ragnari þegar hann var kjörinn forseti, ég hélt að hann yrði góður talsmaður Íslands á alþjóðavettvangi. Það hefur ekki gengið eftir hingað til. Ég hef aldrei getað litið á Ólaf Ragnar sem talsmann minn, mér finnst hann hafa verið talsmaður og í þjónustu örfárra útrásarvíkinga og sagan mun ekki hæla honum neitt sérstaklega fyrir að hafa í fjölmiðlafrumvarpsmálinu gengið þar erinda þeirra sem áttu alla fjölmiðla á Íslandi og keyptu upp  og kváðu í kút allar gagnrýnisraddir á sama tíma og þeir sugu merginn úr íslensku þjóðinni.  

Neyðarblys frá ÍslandiJóhanna forsætisráðherra er góð kona og traustur stjórnmálamaður, það efast enginn um heilindi hennar. En hún er mjög lítið sýnileg íslensku þjóðinni og rödd hennar hljómar ekki í alþjóðasamfélaginu. Hún hefði átt að berja í borðið á afmælisfundi Nató og hrópa hátt um hvernig Bretland og raunar núna alþjóðasamfélagið eins og það birtist í AGS er að leika okkur í leik sem er mjög ójafn og sýnir vel  rangsleitni og yfirgang  stjórþjóða sem ennþá hanga af því að þar ráða menn ennþá yfir prentsmiðjum sem prenta peninga. 

 

Forseti okkar Ólafur Ragnar virðist núna koma fram eins og pólitískur leiðtogi í því tómarúmi sem fjarvera Jóhönnu í alþjóðasamfélaginu hefur skapað. Það væri vel ef hann gæti komið  til skila því  neyðarkalli sem íslenska þjóðin þarf núna að senda til almennings og stjórnvalda  í öðrum löndum, neyðarkalli um að hér er lamað hagkerfi, hér er skelfingu lostið fólk sem fast er í einhvers konar kóngulóarvef nútíma fjárglæfra, kóngulóarvef myntkörfulána og gengisfalla, hér er lamað atvinnulíf - hér eru vissulega auðlindir, hér eru hús og hér eru skip og hér eru tæki og hér er mesti auður hverrar þjóðar, mannauðurinn í vel menntuðu og víðsýnu og friðsömu og vinnusömu fólki - en hér er þannig ástand að margar eigur er í óljósu eignarhaldi og margs konar framleiðslutæki eru að grotna niður og fólkið er líka að grotna niður, það situr auðum höndum á atvinnuleysisbótum og án framtíðarvona í landi þar sem er þörf af mörgum vinnufúsum höndum við öðruvísi störf en það vann áður.

Ofan á þetta bætist að það er nánast algjört vantraust á stjórnvöldum og fjármálaheimi, ekki síst þegar við sjáum sömu aðilana og sama fólkið vera núna að díla við það sama og það var að gera fyrir hrunið og okkur grunar að það sé verið að díla um eignir sem að nafninu til eru undir forræði ríkisstjórnarinnar og opinberra aðila.

Svo er sama fólkið og lék með og lofsöng fjárglæfraspilaborgina núna að spila með í nýju spili og endurrita söguna um sjálfa sig. Þannig er Ólafur Ragnar alls ekki sannfærandi málsvari Íslendinga núna og allra síst varðandi bankaheiminn, hann ver útrásina og vísar til að íslensku bankarnir hafi farið að evrópskum reglum. Samkvæmt því sem ég les í fréttum er málið miklu alvarlegra, það er sterkur grunur um refsivert athæfi og sýndarviðskipti m.a. varðandi Kaupþing. Þar kom Ólafur Ragnar við sögu amk minnist ég þess að í fréttum hafi komið fram að hlutverk forsetans og forsetafrúarinnar væri mikið að koma á  viðskiptum milli sjeiksins (sem er grunaður um að hafa leppað kaup í Kaupþingi)eða sjeiksfjölskyldunnar.

Það er hlutverk forsetans að stuðla að framgangi íslenskra fyrirtækja erlendis en það verður að segjast eins og er að það er ekki hlutverk forsetans að hilma yfir og vera blekkingartæki fjárglæframanna. Allra síst er það í þágu Íslendinga að Ólafur Ragnar fari nú um lönd og selji Ísland undir merkjum grænnar orku og gerist núna einhvers konar almenningstengslafulltrúi þeirra sem vilja selja alþjóðlegum fjárfestingarfyrirtækjum íslenskar orkulindir.

Ég vona að Ólafur Ragnar  standi sig vel í því að tala máli Íslendinga í klúbbum fínna og háttsettra manna í útlöndum en ég hef efasemdir um að hann skynji aðstæður Íslands og sé rétti maðurinn til að finna úrræði fyrir framtíðina hér á Íslandi.  Þá ályktun dreg ég af fortíðinni, forsetaembættið hefur að því er mér virðist ekki skilað miklu fyrir íslenska þjóð þau ár sem hann hefur verið þar í embætti, hann hefur svo sannarlega ekki náð að verða sameiningartákn Íslendinga.

En Ólafur Ragnar er ekki sá eini sem var talsmaður fjárglæframanna  sem  núna baðar sig í íslensku kreppuljósi erlendis. Það hafa margir sem áður höfðu atvinnu sína af því að kóa með og lofsyngja fjármálasnilld  stóru spilaranna í gróðærinu núna stigið fram og segja sína sögu og raunar endursemja hlutverk sitt í sögunni.  Það má t.d. spyrja eins og Reuters fréttastofan Hvar var Ásgeir og hvar var Ólafur Ragnar?  Ásgeir Jónsson var forstöðumaður einnar af greiningardeildum bankanna fyrir Hrunið og kannski er fólk búið að gleyma því að þá voru einu fréttirnar sem við höfðum af því hvað væru að gerast í fjármálalífinu úr þessum greiningardeildum og svo frá viðskiptablaðamönnum sem voru með beinum eða óbeinum hætti venslaðir þeim sem áttu fjölmiðla og voru stærstu spilarar í fjárglæfraspilinu.

En eins og forsetinn þá er fyrrum greiningardeildarforstjórinn að segja sína útgáfu af sögu á því hvað gerðist á Íslandi. Sannleikurinn er búinn til í gegnum svona frásagnir og þó ég efist ekki um að bók Ásgeirs (Ný bók Ásgeirs Jónssonar: Bankarnir voru dauðadæmdir í lok 2007 - Glitnir var gangandi lík )og ræður Ólafs Ragnars geti gefið innsýn í heim bankamanna og fjármálamanna og hver var verðlaunaður í hvaða veislu og hvers vegna þá held ég að þeir hagræði og afskræmi sannleikann og  hafi ekki til að bera  það sem þarf til að segja sögu hrunsins á Íslandi og hvernig ástandið er hérna. Til þess eru þeir of venslaðir og bendlaðir inn í þessi mál. 

Það er ný iðja Íslendinga að greina kreppuna og selja kreppulandið í ræðu og riti.  Aðrar þjóðir geta vissulega lært af reynslu héðan, geta lært hvað gerist ef einsleitur lítill hópur ófyrirleitinna spilasjúkra karlmanna fær  á silfurfati réttar allar peningagerðarvélar samfélagsins og þar með fjármálalíf og fær auk þess sérstakt íslenskt tækifæri til að búa til aukapeningabólu gegnum gengismunaviðskipti (carry trade). Hvað gerist þegar þeir hinir sömu kaupa upp alla sem geta hugsanlega haft eftirlit eða gagnrýnt gerðir þeirra m.a. kaupa upp allar raddir í fjölmiðlum og ekki síst kaupa sér áhrif inn í stjórnmálin á ýmsa lund. 

En því miður eru stjórnvöld í mörgum öðrum vestrænum löndum í sömu stöðu yfirhilmingar og hin íslenska var þangað til hún féll með brauki og bramli  og það er líklegt að boð um hvað gerðist á Íslandi verði rugluð þannig að íslenska neyðarkallið nái ekki til óruglað til almennings annars staðar og nái ekki að vera aðvörunaróp fyrir  valdalaust fólk í öðrum löndum.  


mbl.is Segist verða var við mikla vinsemd í garð Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Attac og Tobin skattur og heimur sem ekki er til sölu

800px-_attac.jpg

Ég hef verið  með í að stofna íslenskan Attac hóp og er einn af talsmönnum íslenska hópsins en við eigum eftir að halda formlegan stofnfund.  Við höfum þegar haldið eitt málþing með norskum gestum frá Attac í Noregi og sett upp vefsetrið Attac.is  og svo stefnum við að formlegum stofnfundi/aðalfundi núna á haustmánuðum. Einmitt núna um helgina hittast fulltrúar frá Attac hópum víðs vegar í Evrópu á málþingi í  París. Bjarni fór fyrir hönd okkar í íslenska Attac hópnum til Parísar og ég hlakka til að heyra  ferðasöguna frá honum.

Margir halda að Attac séu einhvers konar öfgasamtök og nafn þeirra sé dregin af árás eða attack. Svo er ekki heldur er það skammstöfun en þessi samtök eru einmitt nátengd Tobin skattinum og voru raunar upprunalega stofnuð eingöngu til að berjast fyrir þeim skatti. Starfssvið samtakanna hefur orðin víðfeðmara síðan þá en segja má að þetta sé aktívistahreyfing sem lætur sig fjármálagerninga sérstaklega varða.  Attac samtökin voru upphaflega stofnuð í Frakklandi en þau eru virk í mörgum löndum en þó að ég held hvorki í Bretlandi né USA.  

Í pistlinum Hvað er Attac  er útskýrt hlutverk og starfsemi Attac en þar stendur m.a.:

Attac er skammstöfun og stendur fyrir „Association pour la taxation des transactions financières pour l'aide aux citoyens“ (á ensku Association for the Taxation of Financial Transactions for the Aid of Citizens, ATTAC).

Upphaflegt stefnumið Attac var aðeins eitt. Það var að krefjast þess að skattur yrði lagður á gjaldeyrisbrask, svokallaður Tobin-skattur. Attac vinnur nú að fjölda málefna sem tengjast hnattvæðingu og neikvæðum afleiðingum fjárhagslegrar hnattvæðingar og einkavæðingar. Samtökin hafa eftirlit með starfi WTO, heimsviðskiptastofnunarinnar, með starfi Efnahags- og þróunarsamvinnustofnunarinnar OECD, og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins IMF.

Attac lítur ekki á sig sem andstæðing hnattvæðingar, en gagnrýnir þá hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem samtökin líta svo á að stýri efnahagslegri hnattvæðingu. Þau styðja hnattvæðingu sem þau álíta að sé sjálfbær og félagslega réttlát. Eitt af slagorðum Attac er „Veröldin er ekki til sölu“, og þau fordæma markaðsvæðingu samfélagsins.

Hérna er efni um Attac


mbl.is Tobin skatt á fjármálagerninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Software Freedom Day 2009 1

RauðlaukurÍ dag er  Software Freedom Day 2009 og í tilefni dagsins ætla ég það sem eftir er dagsins eingöngu að blogga um opið efni og opinn hugbúnað.

Þegar talað er um Frjálsan og/eða opinn hugbúnað (Free/open source software oft skammstafað með FOSS) er átt við hugbúnað sem er öllum aðgengilegur. Hver sem er hefur aðgang að grunnkóða hugbúnaðarins og getur skoðað hann og breytt að vild. Sem dæmi um frjálsan hugbúnað má nefna Linux stýrikerfið og sem dæmi um opinn hugbúnað má nefna Mozilla.

Höfundar opins og frjáls hugbúnaðar leyfa öllum að nota hugbúnaðinn án endurgjalds. Yfirleitt er þó farið fram á að fólk samþykki ákveðna skilmála áður en notkun á hugbúnaði hefst. Til að hægt sé að tala um frjálsan hugbúnað þarf (auk aðgengilegs grunnkóða) höfundur hugbúnaðarins að vera búinn að afsala sér höfundarrétti hugbúnaðarins jafnframt því sem höfundarréttur þarf að vera til samræmist við þessi skilyrði (hin fjögur frelsi):

  • það verður að vera hægt að nýta hugbúnaðinn á allan þann hátt sem hentar.
  • Það verður að vera hægt að breyta hugbúnaðinum og aðlaga hann að eigin þörfum.
  • Það þarf að vera heimilt að dreifa hugbúnaðinum.
  • Það þarf að vera heimilt að dreifa breyttum útgáfum af hugbúnaðinum.

Opinn hugbúnaður og frjáls hugbúnaður eru að sumu leyti tvö nöfn á sama hlut. Opinn hugbúnaður þarf að innihalda eftirfarandi

  • Dreifing hugbúnaðarins skal vera ókeypis.
  • Hugbúnaður verður að hafa aðgengilegan grunnkóða. Forritinu skal dreifa á formi grunnkóða og sem þýddu forriti.
  • Leyfi hugbúnaðar verður að leyfa breytingar. Breyttum útgáfum skal dreift á sömu forsendum og upphaflegi hugbúnaðurinn.
  • Einungis má takmarka leyfi til breytinga ef leyfi er gefið fyrir gerð svokallaðra plástra.
  • Ekki má mismuna fólki eða hópum þegar kemur að aðgangi fólks að hugbúnaðinum.
  • Ekki má mismuna atvinnugeirum þegar kemur að aðgengi að hugbúnaðinum.
  • Leyfi hugbúnaðarins verður að fylgja honum í allri dreifingu.
  • Leyfi hugbúnaðarins má ekki taka eingöngu til ákveðinnar vöru. Ef hluta kerfis er dreift áfram skal leyfið fylgja með.
  • Leyfi hugbúnaðarins má ekki setja öðrum hugbúnaði sem dreift er með hinum leyfða hugbúnaði takmarkanir.
  • Leyfi hugbúnaðar skal vera tæknilega-hlutlaust.
Hér eru tvær greinar eftir Sigurð Fjalar

 Netla - Opnar lausnir: Frjáls og opinn hugbúnaður í skólastarfi

Netla - Opnar lausnir - Frumherjarnir

Myndin af rauðlauknum er fengin af flickr, hún er auðvitað með opnu höfundarleyfi.


Landið og miðin og ættarveldi Jóns Bjarnasonar í stað ættarveldis Einar Guðfinnssonar

Hvað er Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að gera í því að tryggja öllum Íslendingum aðgang að landi sínu og fiskimiðum?

Hver á kvótann og í hverra eigu eru bújarðir á Íslandi?  Er ástandið  þannig á Íslandi í dag að hér búa 300 þúsund manns og eingöngu örfáir þeirra ráða yfir bróðurpartinum af landbúnaðarframleiðslu  Íslands og megninu af kvótanum?  

Einu sinni flutti Jón Bjarnason ræður um hættuna á að bændur verði réttlitlir leiguliðar  en hvað gerir Jón núna til að sporna gegn því að  rétturinn til að framleiða landbúnaðarvörur á Íslandi þ.e.  fiskveiðikvóti og mjólkurkvóti verði  séreign nokkurra stórra aðila? Hvað gerir hann til að tryggja aðgang  Íslendinga að landi sínu né miðum? Er Jón að gæta hagsmuna örfárra stóreignarbænda og útgerðarmanna og tryggja áhrif ættmenna sinna eða er hann að gæta hagsmuna allra Íslendinga? Líka okkar sem búum hérna á mölinni og eigum hvorki bújarðir né fiskiskip og þaðan af síður þorskvóta eða mjólkurkvóta?

Eigum við hinir kvótalausu og jarðnæðislausu þurrabúðarmenn engan rétt? Er landbúnaðarráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti bara að vinna fyrir þá sem eiga framleiðslutæki núna og hjálpa þeim að halda stöðu sinni og stækka?

Undanfarin ár hefur átt sér stað mikil uppkaup á jörðum á Íslandi. Hugsanlega eru sumar  jarðir keyptar upp með framtíðarhagsmuni í huga og spákaupmennsku  m.a. varðandi fiskeldi eða aðstöðu við sjó. Hugsanlega er núna eftir bankahrunið eignarhald á sumu yfirveðsettu jarðnæði í höndum fjárfestingaraðila. Hugsanlega er núna aukin ásókn erlendra aðila í jarðir t.d. til að fjárfesta fé sem innilukt er í landinu vegna gjaldeyrirhamla. Hvernig er höndlað og möndlað með jarðir og fiskiskip núna? Ég skrifaði hugleiðingu um jarðakaupin á sínum tíma og hér er líka vísun í frétt í mbl.is

Lífsval ehf og síðasta galdrabrenna á Íslandi - salvor.blog.is

Uppkaup á jörðum - Morgunblaðið á Netinu - mbl.is

Ísland er sérstakt land á mörkum heimskautasvæðins, land með fengsæl fiskimið og sérstaka náttúru og jarðfræði.  Hvernig landið er nýtt og hvernig hafa yfirráð yfir landinu ætti ekki að vera í höndum örfárra stórra og fjarlægra framleiðenda orku, landbúnaðarvara og sjávarfangs.  Það hlýtur að vera krafa okkar að landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra gæti hagsmuna allra Íslendinga til langs tíma en ekki einstakra hópa.

Ísland er lítið land og allir eru skyldir öllum hérna en það er bara þannig að það er erfitt að sjá hvort eitthvað hafi breyst frá þeim tímum þegar Einar Guðfinnsson var sjávarútvegsráðherra og gætti hagsmuna ættmenna sinna.  Jónas Kristjánsson segir á bloggi sínu  jonas.is þetta:

04.09.2009
Ættarvæðing Kaupþings
Þegar græðgisvæðingin var á fullu, kom Ásgeir Jónsson í Kaupþingi mér fyrir sjónir sem spunakarl hennar. Hann var annan hvern dag í sjónvarpsfréttum að tala um, hvað allt væri frábært, sérstaklega bankarnir. Eftir hrunið hefði mátt búast við, að hann færi í felur. En hann er enn í bankanum og er enn að tala í sjónvarpi um vandamálin. Það stafar auðvitað af, að hann er sonur Jóns Bjarnasonar, landbúnaðarráðherra Vinstri grænna. Og nú er systurdótti Jóns orðin stjórnarformaður Kaupþings, fulltrúi Vinstri grænna í stjórninni. Sérstaka gát þarf að hafa á Jóni. Hann er í gamla ættvæðingar-stílnum. 

Mikið vildi ég að ég hefði  einhverjar vísbendingar um að  Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra sé að gæta hagsmuna allra Íslendinga. Ég satt að segja efast mjög um það.

Þó ég sé ekki samflokksmaður Steingríms og Jóhönnu þá efast ég ekki um heildarsýn þeirra og að þau eru að vinna að heill allra Íslendinga  þó ég efist nú reyndar stundum um framsýni Steingríms og víðsýni Jóhönnu.


mbl.is Margir kúabændur stefna í gjaldþrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

What is the Capital of Iceland?

Í liðinni viku beindist kastljósið að borgarstjórn Reykjavíkur og sölu á hlut OR í orkuveitu á Suðurnesjum til sænsk-kanadísks orkufyrirtækis. Frá sjónarhóli OR var þetta skynsamleg ráðstöfun og raunar neyðarbrauð því OR hafði tapað málaferlum og orkulög sem miða við að orkuframleiðsla eigi að vera samkeppnisrekstur eru í gildi á Íslandi, lög sem heimila ekki OR að kaupa upp aðrar almenningsveitur. Það var óþægilegt fyrir OR  að verða að selja þennan hlut á þessum tímapunkti, á tíma í heiminum þar sem verðmæti arðskapandi fyrirtækja hefur fallið gríðarlega og hluturinn var seldur með tapi og á kúluláni.  Á einum tímapunkti þá virtist ríkisstjórnin ásamt fleirum t.d. lífeyrissjóðum ætla að koma inn og kaupa hlutinn. Svo varð ekki og það er spurning sem við ættum að leita skýrari svara við.  Hvers vegna í ósköpunum gátu íslenskir lífeyrissjóðir ekki komið að þessari sölu, þar er bundið gríðarmikið fé og nú er talað um að það eigi að fjárfesta lífeyrisgreiðslur í vegaframkvæmdum og spítölum og samfélagslegum framkvæmdum sem ríkissjóður ræður einhverju um. En af hverju stukku lífeyrissjóðir ekki til og fjárfestu í orkuveitum á Íslandi þegar hlutur í þeim var falboðinn á góðum kjörum og greiðslur á afar hagstæðu kúluláni?  Sætta þeir sem nú greiða í lífeyrissjóði sig við að iðgjöld þeirra séu notuð í lítt arðbærar framkvæmdir þegar í boði var fyrir lífeyrissjóðina að kaupa hluta í orkufyrirtækjum á tombóluverði?  

Eða var ástandið öðruvísi? Var ríkisstjórn Íslands stillt upp við vegg og fékk ekki að tryggja að eignarhald á íslenskum orkuveitum væri í eigu almenningsfyrirtækja og íslenskra lífeyrissjóða vegna þess sem við vitum, ríkisstjórnin er undir hæl AGS núna og hér er ástand eins og lýst er í bókinni The Shock Doctrine og hér er umgjörð (t.d. orkulög) og reglur alþjóðasamfélags sem er sniðið til að viðhalda óréttlátu og fáránlegu kasínókapítalísku markaðshagkerfi,  kerfi sem hefur sýnt að það virkar ekki og hvorki borgaryfirvöld né ríkisstjórn höfðu  neitt val þegar öflugir erlendir aðilar lofuðu gulli og grænum skógi ef þeir gætu komist yfir meirihluta í íslensku orkufyrirtæki. Það segir sína sögu að Ross Beaty kom hingað í sérstaka ferð til að sannfæra Steingrím og kó á þeim tímapunkti þegar leit út fyrir að ríkið ætlaði að hafa milligöngu um að innlendir aðilar keyptu hlut HS Orku.

Reykjavík er höfuðborg Íslands og  ákvarðanir sem eru teknar  hérna í borginni um auðlindir skipta máli um líf og búsetu á Íslandi næstu áratugi.  Við sem ætlum að búa og starfa á Íslandi og byggja hér upp gott þjóðfélag erum betri vörslumenn og eftirlitsaðilar með íslenskum auðlindum en fjarlægir fjárfestingaraðilar og bankamenn. En alþjóðastofnanir eins og AGS og World Bank kemur í mörgu fram eins og hagsmunagæsluaðilar fyrir einmitt fjarlæga erlenda fjárfesta sem eiga skjól á tortolaeyjum heimsins.  

Við skulum beina reiði okkar og gagnrýni þangað sem hún á heima. Við skulum ekki vera viðhlæjendur AGS og World Bank og allra síst skulum við hlæja með þeim að okkur sjálfum og ógæfu smáþjóðar sem á í dag enga talsmenn og enga bandamenn á alþjóðavettvangi.  Við skulum einnig beina reiði okkar og gagnrýni að Nató sem brást Íslendingum þegar önnur Bretland gerði hryðjuverkalagaárás á Ísland.

Ég enda þennan pistil á að birta brandara um Ísland sem ég sá á sínum tíma á vefsíðu World bank, það var á sérstökum þráð hagfræðinga World Bank þar sem fjallað var um efnahagshrun heimsins.

brandari-word-bank

Sjá hérna:

Samstarfsþjóðir lána og World bank hæðist að neyð Íslendinga

 


mbl.is Farið verði fram á skýringar AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtin tilkynning ríkisskattstjóra

Ef íslenskir borgarar tjá sig í ræðu og riti og reyna að skilja hvað gerðist á Íslandi geta þeir þá átt von á því að ríkisskattstjóri komi með opinberar yfirlýsingar sem varða þeirra einkahagi eða þess atvinnureksturs sem þeir stunda? Yfirlýsingar sem eru settar fram að því er virðist til að klekkja á viðkomandi og draga úr trúverðugleika. 

Það er þessi setning sem ég get ekki séð að sé samboðin ábyrgu stjórnvaldi:

„Þá hefur forráðamaður IT Ráðgjafar og hugbúnaðarþjónustunnar ehf. lýst nauðsyn á auknu gagnsæi með kortlagningu eigenda félaga og rekstrar þeirra. Í ljósi þess vekur það athygli að það félag hefur á hinn bóginn ekki virt skýr fyrirmæli laga um afhendingu ársreikninga undanfarin þrjú ár,“ segir í tilkynningu ríkisskattstjóra.

 Ég er ekki lögfræðingur og ég veit ekki hvort það er opinber gögn eða ekki hvort eitthvað einkafyrirtæki hafi "virt skýr fyrirmæli laga um afhendinga ársreikninga undanfarin þrú ár" en það er vægast sagt ekki gott stjórnarfar í landi þar  sem þegnar sem tjá sig og gagnrýna stjórnvöld eiga von á því að  þeirra persónulegir hagir séu dregnir fram í opinberum yfirlýsingum frá stjórnvöldum. 


mbl.is Grunaður um upplýsingastuld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband