Lífsval ehf og síðasta galdrabrenna á Íslandi

Arngerðareyri Ísafjarðardjúp

Skrýtni kastalinn sem blasir við í Ísafjarðardjúpi langt frá allri annarri byggð heitir Arngerðareyri. þar voru einu sinni mikil umsvif. Þar var ferjustaður og þar var hótel. Sennilega var þar líka verslun, alla vega las ég að kastalinn  var bústaður útibússtjóra Ásgeirsverslunar. Síðasta galdrabrennan á Íslandi fór fram árið 1683 á Arngerðareyri.

Núna mun Arngerðareyri vera í eign fyrirtækisins Lífsvals ehf en það er fyrirtæki sem kaupir upp jarðir. Lífsval mun eiga á annað hundrað jarða og reka stórbú m.a. í Skriðufelli í Jökulsárhlíð og á Ytrafelli í Eyjafirði og stefna að því að reka kúabú með 500 kúm Flatey á Mýrum. Lífsval rekur að ég held líka fjárbú. 

Það er umhugsunarefni  núna þegar  búskapur á Íslandi er að verða verksmiðjuframleiðsla  í stórbúum sem eru í eigu aðila sem ekki vinna sjálfir við búskapinn  hvort beingreiðslur á mjólkurlítra og lambakjöt eigi nokkurn rétt á sér. Fyrir hvern og hvers vegna er verið að niðurgreiða  mjólk og kjöt? Það eru alla vega ekki skynsamlegt út frá byggðasjónarmiðum að hafa núverandi hátt á. 

Hins vegar er sennilegt að langtímahagsmunir sem ekki eru tengdir núverandi notkun jarða í landbúnaði ráði ferðinni í hvaða jarðir fjárfestar hafa áhuga á. Þannig er sennilegt að verið sé að kaupa upp jarðir núna vegna ýmissa réttinda m.a. vegna legu að sjó eða vegna mögulegra virkjanakosta.   

Anna skrifaði nýlega hugleiðingu um þetta : Uppkaup á landi og miðum 

Hvers vegna ætli Lífsval ehf hafi keypt Arngerðareyri?  Hvenær ætli húsið verði gert upp? Eða er það bara flottara eins og það er, eyðilegt og minnir á galdra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Arngerðareyri er uppáhalds stoppistaðurinn minn. Ég elska að borða þar nestið mitt eða bara rétta úr mér og kíkja inn. Börnin hafa líka gaman af því. Alltaf eitthvað nýtt að sjá. En eins og þú er ég hugsi yfir þessum uppkaupum jarða. Og spái í tilganginn.....

Ylfa Mist Helgadóttir, 7.8.2007 kl. 10:28

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Hús með þessu sniði risu nokkur í Reykjavík.

Við Laufásveg reisti Bíldudals-jarlinn se´r hús í þessum dúr Galtafell.  Þar fyrir ofan götu eru tvö húss með svipuðum ,,dekor" í öðru þeirra er Laufásborg Leikskóli.

Ásgeirsverslun og blómatímabil Bíldudals-Jarlsins voru á sviðuðum tíma, því er ekki skrítið, að húsasniðið hafi eitthvað smitast á milli.

Fyrirtæki koma og fara.  Eina sem þarf að passa vel, er , að þjóðin eigi öruggan FULLVELDISRÉTT.

Bjarni Kjartansson, 7.8.2007 kl. 10:34

3 Smámynd: Sigurður Hrellir

Þetta er slæm þróun sem hefði átt að reyna að koma í veg fyrir. Mér skilst að í Noregi sé eigendum jarða skylt að búa þar sjálfir eða sjá fyrir búsetu. Vissulega er ekki hægt að pína fólk til að búa annars staðar en það sjálft kýs, en þróunin er að verða sú að það sé lúxus að búa í sveit sem einungis efnafólk getur leyft sér.

Svo er umræðan um verksmiðjubúskap annað mál sem þyrfti að taka til rækilegrar endurskoðunar. Viljum við virkilega stefna áfram út á þá braut þvert á heilsu og mannræktarsjónarmið? Og hvað með meðferð á dýrum? Er ekki einmitt rétti tíminn núna til að huga að framleiðslu á vistvænum og lífrænum landbúnaðarafurðum, heilsusamlegum vörum sem fólk er tilbúið að borga meira fyrir?

Sigurður Hrellir, 7.8.2007 kl. 13:46

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Tek undir aths. Sig. Hr. Sig. Hvernig á að stöðva þessa þróun er mér aftur á móti ekki ljóst. En það blasir við að enginn venjulegur einstaklingur getur keppt við þessa auðmenn. Svo er hin hliðin. Á að meina bændum sem hyggjast bregða búi og selja jörðina hæstbjóðanda?

Ég tel að þessi þróun sé komin á það stig að Alþingi verði taka alla þætti málsins til rækilegrar og fordómalausrar umræðu strax á næsta haustþingi. 

Árni Gunnarsson, 7.8.2007 kl. 18:28

5 identicon

Heil og sæl, Salvör og aðrir skrifarar !

Þakka þér góðann og skilvísan þátt.

Hygg, að ein síðasta Galdrabrenna hafi farið fram, í Borgarfirði; 4. VII., árið 1685; þá Halldór Finnbogason (stundum nefndur Grágunnuson) var brenndur, fyrir það ryckti; að að snúa Pater Noster upp á Andskotann.

Skammtímaminni mitt er ekki sem skyldi Salvör; jah..... þá munu lærðir menn leiðrétta mig, að nokkru; fari ég rangt með. 

Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi / Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 7.8.2007 kl. 20:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband