Neyðarkall frá Íslandi - Að selja kreppulandið

Forseti okkar nýtur sáralítillar hylli meðal íslensku þjóðarinnar og þá ekki síst vegna þess að hann var handbendi ófyrirleitinna fjárglæframanna sem fóru um lönd og létust vera fulltrúar Íslendinga, létu sem þeirra fjármálaspilavítisbankar væru bankar sem íslenska ríkið og Íslendingar ættu og stæðu á bak við, væru þjóðbankar þegar þeir voru ekki annað en fjármálaspilavíti nokkurra manna og útrás þeirra byggðist á gengismunaviðskiptum (carry trade).

Ef þeir fjárglæframenn sem fóru um lönd Evrópu og fengu fávísan almenning  í Bretlandi og Hollandi -  já og Scotland Yard og sveitasjóði í Bretlandi - til að leggja fé inn á netbanka sem lofuðu himinháum vöxtum hefðu verið fjármálamenn með bakhjarla í Nígeríu og skráð netbanka sína þar og stært sig af því að þeir væru í svo góðum tengslum við nígerísk stjórnvöld og kallað sína banka "The National Bank of Nigeria" þá hugsa ég að meira eftirlit og tortryggni hefði verið á þessu íslenska Ponzi scheme sem íslenska bankaævintýrið og endalok þess  Icesave reikningarnir virðast hafa verið.  

En fjárglæframenn útrásarinnar puntuðu sig með forsetanum og ferjuðu hann meira segja milli staða svo hann væri til taks að selja trúverðugleika þeirra. Þeir puntuðu sig líka með stjórnmálamönnum og yfirhilming helstu ráðamanna þjóðarinnar í ríkisstjórn Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar með því sem var að gerast í heimi íslenskra fjármála er sorglegri en tárum taki.

Ólafur Ragnar er gáfaður og víðlesinn maður sem alla vega virðist hafa haft þann bakgrunn að hann hefði átt að sjá hvað var að gerast,  hann hefur sérfræði í stjórnmálafræði og hann var lengi stjórnmálamaður í eldlínunni og var m.a. fjármálaráðherra eins og raunar Geir Haarde. Ólafur Ragnar var á tímum útrásarinnar boðberi hennar og sölumaður.   Ég vænti mikils af Ólafi Ragnari þegar hann var kjörinn forseti, ég hélt að hann yrði góður talsmaður Íslands á alþjóðavettvangi. Það hefur ekki gengið eftir hingað til. Ég hef aldrei getað litið á Ólaf Ragnar sem talsmann minn, mér finnst hann hafa verið talsmaður og í þjónustu örfárra útrásarvíkinga og sagan mun ekki hæla honum neitt sérstaklega fyrir að hafa í fjölmiðlafrumvarpsmálinu gengið þar erinda þeirra sem áttu alla fjölmiðla á Íslandi og keyptu upp  og kváðu í kút allar gagnrýnisraddir á sama tíma og þeir sugu merginn úr íslensku þjóðinni.  

Neyðarblys frá ÍslandiJóhanna forsætisráðherra er góð kona og traustur stjórnmálamaður, það efast enginn um heilindi hennar. En hún er mjög lítið sýnileg íslensku þjóðinni og rödd hennar hljómar ekki í alþjóðasamfélaginu. Hún hefði átt að berja í borðið á afmælisfundi Nató og hrópa hátt um hvernig Bretland og raunar núna alþjóðasamfélagið eins og það birtist í AGS er að leika okkur í leik sem er mjög ójafn og sýnir vel  rangsleitni og yfirgang  stjórþjóða sem ennþá hanga af því að þar ráða menn ennþá yfir prentsmiðjum sem prenta peninga. 

 

Forseti okkar Ólafur Ragnar virðist núna koma fram eins og pólitískur leiðtogi í því tómarúmi sem fjarvera Jóhönnu í alþjóðasamfélaginu hefur skapað. Það væri vel ef hann gæti komið  til skila því  neyðarkalli sem íslenska þjóðin þarf núna að senda til almennings og stjórnvalda  í öðrum löndum, neyðarkalli um að hér er lamað hagkerfi, hér er skelfingu lostið fólk sem fast er í einhvers konar kóngulóarvef nútíma fjárglæfra, kóngulóarvef myntkörfulána og gengisfalla, hér er lamað atvinnulíf - hér eru vissulega auðlindir, hér eru hús og hér eru skip og hér eru tæki og hér er mesti auður hverrar þjóðar, mannauðurinn í vel menntuðu og víðsýnu og friðsömu og vinnusömu fólki - en hér er þannig ástand að margar eigur er í óljósu eignarhaldi og margs konar framleiðslutæki eru að grotna niður og fólkið er líka að grotna niður, það situr auðum höndum á atvinnuleysisbótum og án framtíðarvona í landi þar sem er þörf af mörgum vinnufúsum höndum við öðruvísi störf en það vann áður.

Ofan á þetta bætist að það er nánast algjört vantraust á stjórnvöldum og fjármálaheimi, ekki síst þegar við sjáum sömu aðilana og sama fólkið vera núna að díla við það sama og það var að gera fyrir hrunið og okkur grunar að það sé verið að díla um eignir sem að nafninu til eru undir forræði ríkisstjórnarinnar og opinberra aðila.

Svo er sama fólkið og lék með og lofsöng fjárglæfraspilaborgina núna að spila með í nýju spili og endurrita söguna um sjálfa sig. Þannig er Ólafur Ragnar alls ekki sannfærandi málsvari Íslendinga núna og allra síst varðandi bankaheiminn, hann ver útrásina og vísar til að íslensku bankarnir hafi farið að evrópskum reglum. Samkvæmt því sem ég les í fréttum er málið miklu alvarlegra, það er sterkur grunur um refsivert athæfi og sýndarviðskipti m.a. varðandi Kaupþing. Þar kom Ólafur Ragnar við sögu amk minnist ég þess að í fréttum hafi komið fram að hlutverk forsetans og forsetafrúarinnar væri mikið að koma á  viðskiptum milli sjeiksins (sem er grunaður um að hafa leppað kaup í Kaupþingi)eða sjeiksfjölskyldunnar.

Það er hlutverk forsetans að stuðla að framgangi íslenskra fyrirtækja erlendis en það verður að segjast eins og er að það er ekki hlutverk forsetans að hilma yfir og vera blekkingartæki fjárglæframanna. Allra síst er það í þágu Íslendinga að Ólafur Ragnar fari nú um lönd og selji Ísland undir merkjum grænnar orku og gerist núna einhvers konar almenningstengslafulltrúi þeirra sem vilja selja alþjóðlegum fjárfestingarfyrirtækjum íslenskar orkulindir.

Ég vona að Ólafur Ragnar  standi sig vel í því að tala máli Íslendinga í klúbbum fínna og háttsettra manna í útlöndum en ég hef efasemdir um að hann skynji aðstæður Íslands og sé rétti maðurinn til að finna úrræði fyrir framtíðina hér á Íslandi.  Þá ályktun dreg ég af fortíðinni, forsetaembættið hefur að því er mér virðist ekki skilað miklu fyrir íslenska þjóð þau ár sem hann hefur verið þar í embætti, hann hefur svo sannarlega ekki náð að verða sameiningartákn Íslendinga.

En Ólafur Ragnar er ekki sá eini sem var talsmaður fjárglæframanna  sem  núna baðar sig í íslensku kreppuljósi erlendis. Það hafa margir sem áður höfðu atvinnu sína af því að kóa með og lofsyngja fjármálasnilld  stóru spilaranna í gróðærinu núna stigið fram og segja sína sögu og raunar endursemja hlutverk sitt í sögunni.  Það má t.d. spyrja eins og Reuters fréttastofan Hvar var Ásgeir og hvar var Ólafur Ragnar?  Ásgeir Jónsson var forstöðumaður einnar af greiningardeildum bankanna fyrir Hrunið og kannski er fólk búið að gleyma því að þá voru einu fréttirnar sem við höfðum af því hvað væru að gerast í fjármálalífinu úr þessum greiningardeildum og svo frá viðskiptablaðamönnum sem voru með beinum eða óbeinum hætti venslaðir þeim sem áttu fjölmiðla og voru stærstu spilarar í fjárglæfraspilinu.

En eins og forsetinn þá er fyrrum greiningardeildarforstjórinn að segja sína útgáfu af sögu á því hvað gerðist á Íslandi. Sannleikurinn er búinn til í gegnum svona frásagnir og þó ég efist ekki um að bók Ásgeirs (Ný bók Ásgeirs Jónssonar: Bankarnir voru dauðadæmdir í lok 2007 - Glitnir var gangandi lík )og ræður Ólafs Ragnars geti gefið innsýn í heim bankamanna og fjármálamanna og hver var verðlaunaður í hvaða veislu og hvers vegna þá held ég að þeir hagræði og afskræmi sannleikann og  hafi ekki til að bera  það sem þarf til að segja sögu hrunsins á Íslandi og hvernig ástandið er hérna. Til þess eru þeir of venslaðir og bendlaðir inn í þessi mál. 

Það er ný iðja Íslendinga að greina kreppuna og selja kreppulandið í ræðu og riti.  Aðrar þjóðir geta vissulega lært af reynslu héðan, geta lært hvað gerist ef einsleitur lítill hópur ófyrirleitinna spilasjúkra karlmanna fær  á silfurfati réttar allar peningagerðarvélar samfélagsins og þar með fjármálalíf og fær auk þess sérstakt íslenskt tækifæri til að búa til aukapeningabólu gegnum gengismunaviðskipti (carry trade). Hvað gerist þegar þeir hinir sömu kaupa upp alla sem geta hugsanlega haft eftirlit eða gagnrýnt gerðir þeirra m.a. kaupa upp allar raddir í fjölmiðlum og ekki síst kaupa sér áhrif inn í stjórnmálin á ýmsa lund. 

En því miður eru stjórnvöld í mörgum öðrum vestrænum löndum í sömu stöðu yfirhilmingar og hin íslenska var þangað til hún féll með brauki og bramli  og það er líklegt að boð um hvað gerðist á Íslandi verði rugluð þannig að íslenska neyðarkallið nái ekki til óruglað til almennings annars staðar og nái ekki að vera aðvörunaróp fyrir  valdalaust fólk í öðrum löndum.  


mbl.is Segist verða var við mikla vinsemd í garð Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Ég segi nú bara fyrir hönd forseta vors (í enskri þýðingu): OUCH!

Flosi Kristjánsson, 24.9.2009 kl. 16:55

2 Smámynd: Sævar Helgason

Getur verið að hún Dorrit hafi haft meiri áhrif á Ólaf Ragnar í þessu útrásarævintýri en nokkru hófi gegndi...?  Allavega eru fjármál hennar ær og kýr- á heimsvísu...

Sævar Helgason, 24.9.2009 kl. 16:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband