Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2018
23.4.2018 | 10:15
Uppeldi eða fangahald
Stelpan sem var ein í heiminum er bók eftir franska konu að nafni Maude Julien. Það er ekki bók eins og vinsæla barnabókin Palli var einn í heiminum, bók um strák sem vaknar upp einn og hefur allt fyrir sig og ræður sér sjálfur og enginn skammast í honum og Palli uppgötvar hvað hann þarf mikið á félagsskap annarra að halda.
Stelpan sem var ein í heiminum er uppvaxtasaga höfundarins og segir frá fjölskyldu hennar. Faðir hennar Louis Didier var fæddur 1902, hann hafði efnast ágætlega á því að kaupa hlutabréf, hann var frímúrari og upptekinn af launhelgum því tengdu, hann var líka haldinn paranoju á háu stigi og taldi heiminn vera á leið til glötunar og bara tímaspursmál hvenær djöfullinn risi upp og hann Lous bjó sig undir það, hann bjó til barn sérstaklega til að vernda hann og leiða. Ef hann hefði verið uppi núna í kringum 2018 hefði hann örugglega verið kallaður "prepper" eða "survivalisti", hann var mjög upptekinn af því að móta barnið og búa það undir harðræði heimsins og lét það gangast undir margar þrautir sem áttu að herða það. Eitt var að sitja grafkjurr heila nótt í kjallara í myrkri með rottum og móðir saumaði sérstakar bjöllur inn í fötin svo það heyrðist ef barnið hreyfði sig.
Faðirin hafði þann hátt á til að búa til barnið að hann fékk sér fyrst barn sem skyldi ala barn. Hann tók í fóstur sex ára stelpu Jeannine árið 1936 og sendi hana til mennta í heimavistarskóla. Henni var ætlað að giftast honum í fyllingu tímans og ala honum barn. Árið 1957 fæðist barnið og þá byrja tilraunir föður hennar, tilraunir til að búa til og herða ofurmenni og búa barnið undir og herða til að verða ofurmenni.
Fjölskyldan faðirinn, móðirin og dótturin bjuggu einangrun á afskekktu sveitasetri. Eins og lítið einangrað ofsatrúarfélag með þremur meðlimum. Dýrin voru einu vinir barnsins. Flóttaleið dótturinnar kom á unglingsárunum í gegnum tónlistarkennara sem kom til að kenna henni á harmóníku og píanó. Faðirinn sem annars hélt henni í einangrun hafði trú á tónlistarkunnáttu sem bjargræði í heimi á heljarþröm. Hann taldi að sá sem kynni á hljóðfæri gæti bjargast ef hann yrði tekinn í einangrunarbúðir og það væri heppilegt að kunna á sem flest hljóðfæri eins og þessi texti ber með sér:
My father, who joined the Resistance during the Second World War and dug tunnels to help Jews flee to Belgium, believes music is the most important subject. One day he rings the bell to summon me to the verandah. Youll be seven soon, so you can understand what I am about to explain. When you arrive at a concentration camp everything is taken from you. Whether youre rich and beautiful or poor and ugly, they put you in the same pyjamas and shave your head. The only people who make it out alive are musicians, so you need to know every type of music, but you will have a better chance of escaping with a musette waltz than a concerto. As for instruments, its hard to predict what will be most in demand so you will study several. Were going to change your schooling schedule so you have extra time to practise. Off you go. .................
When studying Bachs Two and Three Part Inventions on the piano, I make an even more exciting discovery: music has conversations of its own. The right hand starts with a phrase, the left responds, the right picks it up again, the left follows. And the two hands end up playing together. Im thrilled by these dialogues. I play them over and over, never tiring of them.
Þetta textabrot um tónlistina minnir mig á skáldsöguna Þögnin eftir Vigdísi Grímsdóttur. Það er líka saga um andlegt ofbeldi og kúgun. Tónskáldið Tchaikovsky er í miðju bókarinnar eins og sögupersónurnar Linda og amma hennar og nafna Linda. Þar er amman líka manneskja sem lokar sig frá umheiminum og Tchaikovsky og hann er fyrirmyndin sem hún vill endurskapa í Lindu yngri. Linda yngri vekur upp í hugarfylgsnum sínum elskhugann Tchaikovsky.
Það eru margar hryllilegar frásagnir sem hafa komið fram í fréttum um fólk sem finnst í haldi, fólk sem er í einhvers konar ánauð eða þrælahaldi, fólk sem er ofurselt ofsatrúarleiðtogum og hefur ef til vill fæðst í þannig aðstæður. Líklega eru flestar slíkar aðstæður þannig að kúgararnir eru aðilar sem eru nákomnir þeim sem eru kúgaðir og tengjast honum fjölskylduböndum.
Hér eru nokkrir tenglar með umfjöllun um þessa sögu
Maude Julien: 'How I escaped from my father's cult'
How Two Animals Helped Me Survive an Abusive Childhood
Girls father tortured her for a decade to make her superhuman
I was my father's prisoner for 17 years
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2018 | 09:55
Þyri Danabúð
Saga af konu sem er meitluð í stein
Nýlega var tilkynnt um fjársjóð Haraldar blátannar, spennandi frétt eins og þessi Þrettán ára fann fjársjóð frá 10. öld. Það er nú ekki margt vitað með vissu um Harald þennan en hann var uppi á mörkum kristni og heiðni og þegar hann gekk af trúnni og tók upp hinn nýja sið þá lét hann grafa upp lík föður síns sem var að heygður að höfðingjasið í stórum haug.
Jalangursteinarnir - skírnarvottorð Danmerkur
Haraldur reisti bautastein eftir foreldra sína og á þann stein er grafið með rúnaletri að hann Haraldur sem sameinaði Danmörku hafi reist steininn eftir foreldra sína þau Gorm hinn gamla og Þyri Danabúð. Þessi steinn er sem nefndur er Jalangursteinninn eða stóri Jalangursteinninn er annar tveggja rúnasteina sem eru djásn fortíðar og á Heimsminjaskrá og líka eins konar skírnarvottorð Danmerkur.
Á litla Jalangursteininum er texti á þessa leið: Gormur kóngur gerði kumbl þessi eftir Þyri konu sína Danmarkar bót."
Þetta er í fyrsta skipti sem nafnið Danmörk kemur fyrir innan Danmarkar en nafnið hafði þó verið notað alla vega í 75 ár. Það kemur fyrir í landafræðibók Alfreðs mikla sem var kóngur í Wessex 871-899 en Alfreð þessi lét gera lýsingu á Norður-Evrópu og þar kemur fyrir "dene mearc". Reginos annállinn sem var skrifaður um 900 í klaustrinu Prum við Köln nefnir árið 884 Danimarca.
Gormur gamli dó veturinn 958-59. Þyri drottning hans mun hafa dáið fyrr. Gormur var fyrst heygður í Nordhøjen i Jelling (Jalangri á íslensku) en þegar sonur hans Haraldur blátönn hafði gerst kristinn um 960 þá lét hann byggja trékirkju í Jelling og flutti þangað lík Gorms föður síns og lét grafa undir kirkjunni. Lík Gorms fannst undir kirkjunni árið 1978 og var flutt í danska þjóðminjasafnið til skoðunar. Þar kom í ljós að Gormur var um 50 ára þegar hann lést og var 172 sm hár og þjáðist að slitgigt í neðsta lið hryggjar. Árið 2000 voru bein Gorms aftur jarðsett í kirkjunni í Jelling.
Það hafa myndast margar sagnir um Gorm og Þyri og þar hefur Þyri Danabót þótt bera af öðrum fyrir manngæsku og visku og útsjónarsemi. Hér er ein barnasaga sem endurómar það.
Gormur gamli og Þyri Danabót
Barnasaga í Vikunni nr. 14. 1949
Gormur gamli var konungur í Danmörku. Drottning hans hét Þyri, og var nefnd Danabót. Þetta auknefni fékk hún vegna þess að hún kom því í framkvæmd, að Danaríki var byggt til varnar gegn Þjóðverjum. Þeir vildu ráðast á Danmörku og láta greipar sópa. Danskir hermenn stóðu vörð, í eða við virkið, svo óvinirnir kæmu ekki að Dönum óviðbúnum.
Menn vita ekki margt um Gorm konung. Þó er það kunnugt, að hann gerði Danmörku að einu ríki. Hefur það verið þrekvirki. Konungur og drottning áttu tvo syni. Hétu þeir Knútur og Haraldur. Þá var það siður að gefa mönnum viðurnefni svo að þeir yrðu minnisstæðari. -
Knútur var nefndur Danaást, vegna þess að hann var svo vinsæll, að öllum Dönum þótti vænt um hann.
Viðurnefni Haralds var ekki fagurt. Hann var kallaður blátönn.
Það var vegna þess að ein tönn hans var svört. Tönn þessi hafði skemmst fengið þennan lit. Þá var ekki siður að bursta tennur eða gera við.
Það kunnu menn ekki á þeim dögum. Gormur kóngur unni Knúti syni sínum mjög. Hann var hraustur og hugrakkur. Fór hann til Englands i víking. Fjöldi Dana gerði hið sama um þær mundir. En þetta var hættusamt. Englendingar vörðust hinum villtu Dönum hraustlega. Gormur konungur sagði einhverju sinni, að hver sá, er segði sér andlát Knúts sonar síns, skyldi drepinn. Haraldur fór einnig í víking. Hann var gætnari en Knútur, og óttaðist faðir hans því minna um hann.
Svo gerðust þau hörmulegu tíðindi, að Knútur Danaást var drepinn. Fréttin barst heim í konungsgarð, er nefndist Jellinge. Þar bjuggu þau
Gormur og Þyri. Enginn þorði að segi konungi lát Knúts. Allir voru fullvissir um það, að Gormur gamli myndi ekki ganga á bak orða sinna, heldur drepa sögumanninn.
En þyri drottning var mjög vitur kona. Og"hún fann ráð. Hún lét tjalda sal þann, í höllinni, er hermennirnir sátu í, með svörtum slæðum eða teppum. Hún skipaði öllum að klæðast sorgarklæðum. Var nú sorgarblær á öllu og öllum í höllinni.
Þegar Gormur konungur kom inn í salinn, sá hann hryggð á hverju andliti og hin svörtu tjöld. Hann skildi, hverju þetta gegndi.
Drottningin kom þá og mælti:
Herra konungur! Þér áttuð tvo fálka, annar var grár, hinn hvítur. Yður þótti mjög vænt um hinn hvíta fálkann. Hann flaug um og veiddi marga fugla handa yður. En einhverju sinni kom hópur af hröfnum, krákum og öSrum fuglum. Ré3ust fuglar þessir á hvíta fálkann og drápu hann. En grái fálkinn komst heim, og getur veitt marga fugla hér eftir.
,,Svo! Er þú. Knútur sonur minn dáinn, þar sem öll Danmörk er í sorg," mælti konungur.
Hann skildi, að drottningin hafði haft bræðurna i huga er hún talaði um fálkana.
Þyri drottning svaraði: Það eru yðar orð, herra, en eigi mín." »
Þannig skildi Gormur kóngur að Knútur var dáinn, án þess nokkur segði honum það. Hann gat því ekki líflátið boðbera helfregnarinnar.
Þannig fór drottningin Þyri að því að firra menn þeim vandræðum.
Sagt er að Gormur kóngur hafi syrgt son sinn svo mjög að leitt hafi hann til dauða. Var hann heygður í
Jellinge. Haugur sá, er hlaðinn var um kónginn, er afar mikill.
Í Jellinge eru tveir miklir haugar,og á þeim standa steinar með rúnum.
Annars fer tvennum sögum um endalok Gorms konungs.
Á öðrum rúnasteininum stendur:
Gormur kóngur, reisti minnismerki þetta yfir Þyri konu sína, Danabót."
Þeir sem fróðir eru í sögu Danmerkur segja að Gormur gamli hafi lifað fimmtán ár eftir andlát Þyri drottningar, og var Haraldur sonur hans aðstoðarkóngur þann tíma.
Það er trúlegra, að Gormur konungur hafi ekki dáið af harmi vegna dauða sonar síns.
Ef þú kemur til Jellinge, skaltu fara og skoða þessa tvo stóru hauga. Í engu landi getur að líta svo risavaxna hauga.
Haugarnir minna á elzta, danska kónginn, og hina vitru drottningu hans. Þau voru fyrstu konungshjónin sem ríktu yfir allri Danmörku.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvaða hlutverk gegna íslenskir lífeyrissjóðir varðandi þær kísilverksmiðjur sem núna er verið að byggja á Íslandi? Ég get ekki svarað því núna en fljótt á litið sé ég ekki annað en að þetta kísilverksmiðjuæði sé leið til að blóðmjólka lífeyrissjóði og það sé viss áhætta á því að lífeyrissjóðir tapi miklu fé með því að leggja það í áhættusama og mengandi stóriðju sem fjárglæframenn ráðast í með því að blekkja og svindla.
Áhættufjárfestar verða auðvitað að búa sig undir að geta tapað fé en það er ömurlegt ef niðurstaðan verður mengandi og óstarfshæft fyrirtæki og rekstur sem eyðileggur lífsgæði íbúa á stóru svæði og svikahrappar sem hafa horfið á braut þegar það uppgötvast eða verið fangelsaðir þegar upp kemst um svik þeirra og pretti og blekkingar.
Fjárfestingar lífeyrissjóða munu vera í skoðun hjá Fjármálaeftirlitinu.
Ástandið í Helguvík á Suðurnesjum er núna ákaflega dapurt. Þar hafa verið í smíðum og bígerð tvær stórar kísilverksmiðjur sem eru nánast hlið við hlið og nærri íbúabyggð, önnur á vegum Silicor United og hin á vegum Thorsil.
Verksmiðja Silicon hefur verið gangsett en allur rekstur þar er mikil sorgarsaga og er reksturinn kominn þrot (sjá þessa frétt) og svo mikil mengun frá verksmiðjunni að það er ekki stætt á öðru en að loka þar. Fyrrum forstjóri var handtekinn og er grunaður um auðgunarbrot og skjalafals og virðist að því er kemur fram í fjölmiðlum verar svikahrappur og fjárglæframaður af þeirri sort sem hér fór hæst á tímanum fyrir Hrunið mikla (sjá þessa frétt)
Núna er staðan þannig að banki sem hefur lánað í þessa verksmiðju þ.e. s Arionbanki hefur tekið yfir reksturinn og hefur afskrifað gríðarlegar upphæðir vegna þess (sjá þessa frétt). Það er ekki eingöngu gríðarlegt áfall fyrir bankann sem þegar hefur afskrifað mikið fé vegna þessa heldur hafa líka lífeyrissjóðir lagt mikið fé í þetta endasleppa ævintýri.
Þegar skoðaðar eru upplýsingar sem almenningur fékk um þessar fyrirhuguðu verksmiðjur fyrir nokkrum árum þá má sjá að þar er margt villandi og eiginlega hrein lygi.(sjá þessa frétt)Ég hef einnig séð að oft virðast magntölur út í loftið eða hugsanlega settar fram til að láta sem hér sé miklu minni framkvæmd en reyndin verður.
Það er hræðilegt að lesa það sem hefur komið fram í fréttum um ástandið varðandi verksmiðju Silicon bæði mengunina og grun sem þar hefur vaknað um svik og skjalafals. Íslenskir bankar og lífeyrissjóðir munu án efa tapa þar miklu fé og skrýtið hvernig hve fúsir þessir aðilar voru til að fjármagna þessa verksmiðju.
Silicon United verksmiðjan er eitt en hvaða staða er á hinni fyrirhuguðu verksmiðjunni sem á að vera miklu stærri, verksmiðju Thorsil? Er ekki rík ástæða til að skoða allt í kringum þá framkvæmd og þá ekki síst fjármögnun og fjárhagsmál núna þegar í ljós hefur komið að hvernig málum er háttað hjá kísilverksmiðjunni sem fyrr var reist?
Það eru margar ástæður fyrir að almenningur á heimtingu á að vita hvernig mál Thorsil standa.
- Í fyrsta lagi er verið að taka áhættu með fé almennings sem bundið er í lífeyrissjóðum og bönkum.
- Í öðru lagi er hér um að ræða rekstur sem sýnt hefur að sé mengandi og eyðileggi lífsgæði íbúa á svæðinu.
- Í þriðja lagi þá er bæði fjölskylda fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar og Eyþór Arnalds efsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík meðal eigenda fyrirtækins Thorsil.
Það er glamúrfrétt sem birtist á árinu 2016 um fjárfestingu í Thorsil.(sjá þessa frétt) Þar kemur fram að lífeyrissjóðir ætli að fjárfesta í Thorsil. Hvernig er staðan núna?
Í greininni frá 2016 kemur þetta fram:
"Núverandi eigendur Thorsil eru Northsil ehf. með 61% eignarhlut og Strokkur Silicon ehf. með 39%. Northsil er aftur í eigu John Fenger, stjórnarformanns Thorsil, Hákonar Björnssonar, forstjóra fyrirtækisins, Einars Sveinssonar, fjárfestis og föðurbróður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, og Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja. Strokkur er í eigu fjárfestisins Harðar Jónssonar en Eyþór Arnalds, fjárfestir og fyrrverandi oddviti Sjálfstæðismanna í Árborg, er framkvæmdastjóri félagsins og stjórnarmaður í Thorsil."
Ég sé í fyrri fréttum um hlutafélagið Strokk að Eyþór er þar titlaður eigandi en ekki Hörður Jónsson. Er Hörður Jónsson sem hér er nefndur sem eigandi í Stokk sá sami og er fósturpabbi eiginkonu Eyþórs Arnalds og líka framkvæmdamaður í byggingariðnaði (sjá þessa frétt Eyþór Arnalds tengdur einum stærsta hagsmunaðilanum í byggingarframkvæmdum í Reykjavík)
Ég get ekki dregið aðrar ályktanir af þessu en að Eyþór sé með þessu í einhvers konar samkrulli að reyna að fela aðkomu sína og eignartengsl varðandi fyrirhugaða kísilverksmiðju. Einnig er ákaflega einkennilegt ef menn eru hluthafar fyrir stórum hlut í félögum án þess að svo virðist að þeir hafi lagt neitt eigið fé í rekstur og engin merki séu um að þeir standi í rekstri sem skilar hagnaði.
Hver eru fjárhagsleg og stjórnunarleg tengsl Eyþórs Arnalds og fjölskyldu hans við þetta fyrirtæki Thorsil ?
Hér eru tenglar sem varða Thorsil og Stokk
* Raforkusamningur Thorsil í uppnámi út af skorti á fjármögnun
* Kísilverksmiðja Thorsil í Helguvík úrskurðarnefn umhverfis og auðlindamála 33/2017
* Kísilmálmverksmiðja Stokks í Þorlákshöfn (grein frá 2010)
* Undirrituðu fjárfestingarsamning um kísilver Thorsil
* Fjárfestingarsamningur við Thorsil ehf um kísilmálmverksmiðju (lög)
* Vandræðin í Helguvík. Síendurtekinn greiðslufrestur
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.4.2018 | 23:14
Óli skans
Hver var þessi Óli skans og hvers vegna var Vala kona hans svona mikill vargur?
Óli skans mun fæðst á bæ við Bessastaðaskans sem var strandvirki sem Danakonungur kom upp þar. Óli skans fæddist um 1842 og foreldrar hans þau Eyjólfur og Málfríður bjuggu í litlum bæ í Skansinum á Bessastöðum. Skansinn var upphlaðinn garður fyrir fallbyssur fógetanna á Bessastöðum og Óli skans þar alinn upp í torfbaðstofu sem foreldrar Óla höfðu. Þau höfðu líka túnblett fyrir eina kú.
Óla skans er lýst svo:
"Hann var meðalmaður að vexti, heldur grannur, dökkur í andliti, langleitur, ennið lágt, nefið frekar stutt, en allhátt. Gekk hann alltaf alrakaður. Hann var með frekar ljósleitt, slétt og sítt hár, sem var skipt fyrir miðju. Eyrun voru stór og áberandi. Hakan var óvenjulega breið. Hann var lotinn í herðum. Var hann þrifnaðarmaður hinn mesti, kátur, fjörugur og lífsglaður, en enginn söngmaður. Hann var kenndur við fæðingarstað sinn og kallaður Óli Skans, og er við hann kennt hið alkunna danslag, sem allir þekkja, en vísan er svona:
Óli Skans, Óli Skans,
er nú hér á róli
Fía hans, Fía hans
fær hjá honum skjólið.
Óla er kalt á kinnunum,
Fía vill ein orna honum
Fram í eldhús til hennar
tíðum leggur göngurnar.
Ólafur þessi var vinnumaður nokkur ár hjá móður minni, og var hann einn fyrsti háseti hjá mér, er ég byrjaði formennsku. Hann var liðlegur sjómaður, og féll mér ágætlega við hann. Ólafur varð síðar holdsveikur og dó á spítalanum í Laugarnesi."
Átti Óli skans sem sagt enga konu sem hét Vala og var hann ekkert tengdur skansi nema að því leyti að hann ólst upp á litlum bæ í lendingunni á Bessastöðum?
Óli skans virðist hafa vakið upp sköpunarkraft skálda og Stefán Jónsson yrkir um Óla og í kvæðum Stefáns hefur Fífa breytst í Völu. Svo hefur Loftur Guðmundsson líka vísun í Óla skans oftar en einu sinni í kvæðinu Réttarsamba. Ég giska á að fyrsta vísan um Óla skans þar sem hann vildi láta Fíu orna sér hafi verið sungin við ákveðið danslag og svo hafi það fylgt Óla eftir, dansarnir breytast með tímanum og ég man ekki hvað dansinn hét sem maður lærði í danstímum bernskunnar og undir var spilað og sungið lagið um Óla skans, hét dansinn skottís eða eitthvað annað? En þessi danstaktur tíðarfarsins sem fylgir Óla skans með nafn sem minnir á dans kveikir líka upp fylgikonur, Fía og Vala og Gunna. Fía hlýjar Óla, Vala ráðskast með hann en Gunna svíkur Jónka bónda þegar Jónki hoppar taktfastur í Óla skans þá hleypur hún á brott með vegavinnustráki en samt á Jónki hana eiginlega, er hún ekki hans kaupakona? Í Réttarsamba er bóndinn sem dansar Óla skans ekki í takt við kaupakonuna, það eru komnir nýir tímar og nýr danstaktur.
ÓLI SKANS
Óli skans, Óli skans,
ógnar vesalingur,
Vala hans, Vala hans
veit nú hvað hún syngur.
Óli, Óli, Óli skans.
Vissulega vildu fáir
vera í sporum hans.
Óli er mjór, Óli er mjór.
Óli er líkur fisi.
Vala er stór, Vala er stór.
Vala er eins og risi.
Óli, Óli, Óli skans.
Sjá hve þú ert sauðarlegur,
segir konan hans.
Þú ert naut, þú ert naut.
Þannig hóf hún tölu.
Óli gaut, Óli gaut
augunum til Völu.
Óli, Óli, Óli skans.
Ákaflega önuglynd
er eiginkonan hans.
Óli hlaut, Óli hlaut
auman reynsluskóla.
Vala braut, Vala braut
viðbeinið í Óla.
Óli, Óli, Óli skans.
Voðalegur vargur er hún
Vala, konan hans.
Réttasamba
Ljóð eftir Loft Guðmundsson
við lag Gunnars Guðjónssonar.
Á grundinni við réttarvegginn ganga þau í dans,
og Gunna stígur jitterbugg en Jónki Óla-skans;
Jónki bóndi í hjáleigunni og kaupakonan hans.
Brosljúf ástfús borgarmær, sem bregður ei við neitt,
ilmvatnsþvegin, uppmáluð og augnabrúnareitt,
og Jónki hefur rakað sig og rauðan lubbann greitt.
Hæ-hæ og hó-hó, tóna töfra og kalla.
Hæ-hæ og hó-hó, hljóma klettar fjalla.
Og fullur máninn gægðist yfir grettið tindaskarð;
geislasindri fölvu stráir laut og döggvott barð.
Er það bara blær, sem pískrar bak við réttargarð?
Heitt að Jóni hallast Gunna, hvíslar: Ég er þreytt ....
Hvaða fjas og vitleysa, og Jónki brosir gleitt.
Ó, hann Jónki, það erkiflón, sem aldrei skilur neitt.
Hæ-hæ og hó-hó, grund við dansinn dynur.
Hæ-hæ og hó-hó, harmonikan stynur.
Á grundinni við réttarvegginn gengið var í dans,
og þegar Jónki þreyttist á að þramma Óla-skans,
vegavinnustrákur stökk af stað með Gunnu hans
og fullur máninn gægðist yfir Grettistindaskarð
glottir þegar Jónki skimar út um laut og barð
hamingjan má vita hvað af henni Gunnu varð.
Hæ hó hæ hó, harmóníkkan stynur
Hæ hó hæ hó, dimmt í fjöllum dynur.
Ólafur Ragnar Grímsson var áhugasamur um sögu Óla skans nafna síns sem ólst upp í Bessastaðalendingunni. Hann fræddi oft gesti um Bessastaðaskansinn og tvinnaði þar Óla skans inn í söguna en tók eftir að krakkarnir þekktu þá ekki til þessa vinsæla danslags. Ólafur var hvatamaður að Óla skans hátíð Heiðaskóla og hér er viðtal og krakkarnir að dansa Óla skans.
Heimildir:
Kvæði Stefáns Jónssonar Harpan, 9-12. tölublað (01.12.1937), bls 186
Skansinn og Bessastaðastofa (ferlir.is)
Innfelld Youtube myndbönd eru með flutningi Megasar á Óli Skans og flutningi hljómsveitarinnar Lummurnar á Réttarsömbu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.4.2018 kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.4.2018 | 16:32
Lögleysa að miða fasteignaskatta við 5 og 6 staf í kennitölunni
Það er alveg andstætt anda laga um skatta og jafnræðisreglur að sveitastjórnarmenn ákveði upp á sitt eindæmi að sumir íbúar eða fyrirtæki greiði skatta af eignum og sumir greiði enga skatta af eignum.
Sjálfstæðismenn í Reykjavík kynna það sem helsta kosningaloforð sitt að fólk sjötugt þurfi ekki að borga fasteignaskatta.
Það er með ólíkindum að stjórnmálaflokkur lofi að einn hópur sleppi við að borga skatta af því að er fimmta og sjötta tala í kennitölunni eru 48 eða lægri.
Það er enginn stoð í lögum fyrir svona hróplegri mismunun. í lögum um tekjustofna sveitarfélaga er heimild til að leggja lægri tekjuskatta eða fella niður á efnalítið aldrað fólk. En það er enginn lagastoð fyrir svona hræðilegri ósvinnu. það er bent á í umfjöllun Stundarinnar að þetta kosningaloforð Sjálstæðislokksins nýtist fyrst og fremst ríku fólki. Það er að mínu mati ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að þetta er hræðileg stjórnsýsla og ólögleg og óréttmæt og sýnir hvaða straumar leika um framboð Sjálstæðisfokksins núna.
Eldri borgi ekki fasteignaskatta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.4.2018 | 16:39
Umskurðarbann á Íslandi er bæði heimóttarlegt og heimskulegt
Það gerist varla heimóttarlegra en að vilja halda til streitu á Íslandi að setja hér á landi lög sem hafa litla sem enga þýðingu fyrir íslenskar aðstæður, hafa ekkert að segja varðandi mannréttindi og ofbeldi en munu móðga 1.8 milljarða múslima og 17 milljónir gyðinga og skaða viðskiptahagsmuni íslenskra aðila um aldur og ævi. Ég efa það ekki að flytjandi umskurðarfrumvarpsins og þau sem eru sammála frumvarpinu telji að hér sé brýnt mannréttindamál.
Ég sé það ekki, eina sem ég sé er ónauðsynlegt inngrip varðandi líkama sveinbarna, inngrip sem á þó ekki að vera hættulegt heilbrigðum börnum ef það er gert við réttar heilbrigðisástæður en líka inngrip sem hefur trúarlega merkingu hjá stórum hópi (næstum tveir milljarðar) en þó ákaflega litlum hópi fólks sem búsett er á Íslandi. Almennt finnst mér löggjafi ætti að stíga varlega niður að banna atferli sem eru hluti af menningu (ekki síst menningu jaðarsettra hópa) og það verða að vera afar góð rök fyrir því.
Það getur verið að rökin séu fyrir hendi í þessu máli þó ég hafi ekki komið auga á það. Það getur verið að þetta skipti máli fyrir líf margra sveinbarna á Íslandi þó ég sjái það ekki. En ég sé ákaflega skýrt að slík lög myndu verða til að framandgera og jaðarsetja ákveðna menningu og þeir sem tilheyra þeim hópum sem slík lög beinast að munu telja lögin vera fokkmerki framan í sig, lög sem stjórnast af óbeit á ákveðnum hópi. Ég sé líka ákaflega skýrt að þær næstum 2 milljarðar manns sem tilheyra þessari menningu á heimsvísu munu telja slík lög stjórnast af hatri á þessum hópum vegna trúar og uppruna. Það hefur líka sýnt sig með þeim umsögnum sem hafa komið erlendis frá við umskurðarfrumvarpinu.
Ég dáist af hugsjónafólki sem lætur sig engu varða þó það hafi afleiðingar að standa með hugsjón sinni. En ég dáist ekki að fólki sem hefur ekki burði til að horfa fram fyrir sjálfa sig og það litla umhverfi sem við lifum við hérna á Íslandi þar sem við erum svo lík hvert öðru að við næstum hugsum eins og finnst það sama ætti að eiga við um heiminn utan Íslands. Það gerir það nefnilega ekki.
Það er ákveðið mál sem þeir sem ekki vilja horfast í augu við viðbrögð ytri aðila á því sem hér er samþykkt ættu að kynna sér. Björk Vilhelmsdóttir fyrrum borgarfulltrúi lagði fram tillögu á sínum síðasta fundi í borgarstjórn árið 2015, tillögu sem var samþykkt en það er gömul venja að samþykkja alltaf síðustu tillögu fráfarandi borgarfulltrúa.
Tillagan var svona:
"Borgarstjóri samþykkir að fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varir"
Það er skemmst frá að segja að þessi tillaga olli miklum úlfaþyt og varð til þess að aðilar af gyðingauppruna sem voru í viðskiptum við Ísland og ætluðu að fjárfesta hér brugðust afar illa við og ætluðu að hætta við viðskipti og fjárfestingar og komin var á stað herferð að sniðganga íslenskar vörur. Þetta var gríðarlega alvarlegt mál og borgarstjóri sá sér ekki fært annað en afturkalla áður samþykkta tillögu borgarstjórnar. Það er engin ástæða til að ætla annað en viðbrögð þess stóra alþjóðlega hóps sem telur þessu lagafrumvarpi beint gegn sér og endurspegli fordóma muni reyna að skaða hagsmuni Íslendinga sem mest.
Það hefur verið umræða um þetta umskurðarmál á ýmsum spjallþráðum. Ég reyndi einu sinni að blanda mér í umræðuna með að bera þetta mál saman við siði sem er við lýði í sumum löndum, sið sem fellst í því að gata eyru ungbarna, einkum meybarna. Ég læt fylgja hér með hluta af umræðunum, ekki undir nafni nema mínu nafni.
Salvör: Mér finnst algjörlega vanta að vekja athygli á pyntingum og líkamsmeiðingum á stúlkubörnum víða um heim sem tengjast því að það eru stungin göt á eyrnasnepla þeirra. Þetta virðist bara eiga við um stúlkubörn, ég held að það tíðkist ekki að pynta sveinbörn svona.
S: "Ég held að það ætti að ræða götun á eyrum barna bara á sér vettvangi. Þetta á ekki heima í umræðunni um umskurð drengja . Umskurður drengja á skilið sér umræðu og er nógu alvarlegt mál til að eiga að fá fullan fókus í þeirri umræðu. Við náum aldrei neinu fram ef við erum alltaf að fara út um víðan völl. Þú ættir að stofna til sér umræðu ef þú vilt ræða götun á eyrum ungra barna."
Salvör: "Af hverju er umskurður drengja eitthvað sem á "skilið sérumræðu" og má ekki blanda í annars konar líkamlegar pyntingar á börnum? Ég tel að það sé einmitt mjög gagnlegt að ræða og afhjúpa viðhorf okkar til ýmis konar pyntinga og líkamsbreytinga. Hvað með tatto, fegrunaraðgerðir, líkamlegar kynbreytiaðgerðir? Mér finnst þetta allt af sama meiði og hollt fyrir hvern mann að horfast í augu við eigin fordóma."
S: "Umskurður drengja er mun flóknara pólitískt fyrirbæri en eyrnagötun. Sjálf myndi ég aldrei gata eyrun á litlu barni, en eyrnasneplar eiga þó séns á að gróa en forhúðin ekki. Hvert og eitt þessara atriða sem þú nefnir á skilið sér umræðu vegna þess að þetta eru ólík atriði, mis umdeild, mis alvarleg, mis afturkræf og annað eftir því. Ef þú ætlar að ræða þetta allt saman á einum vettvangi nærðu engu fram. Það er ekki séns að ná í gegn frumvarpi gegn umskurði drengja ef þú ætlar að hafa eyrnagötun í sama frumvarpi. Stundum þarf maður að taka eitt skref í einu og ræða einn hlut í einu.
Þetta þýðir ekki að umræðan um eyrnagötun megi ekki fá að taka pláss og sé ekki nauðsynleg, þetta þýðir bara að þú græðir ekkert á að troða því inn í aðra umræðu um aðra hluti."
J: "Já Salvör það er hollt að horfast í augun við eigin fordóma. Til að ég skilji þig í samhengi þessarar umræðu, finnst mér það vera fordómar að vilja lögfesta bann við umskurði drengja?"
Salvör: "J nei, mér finnst það ekki fordómar að vilja setja lög sem banna pyntingar og meiðingar á ungbörnum. Það er hins vegar glerljóst í mínum huga að 1) múslímar og gyðingar líta á slíkt bann sem fordóma í garð sinnar menningar 2) umskurður er áhættulítil aðgerð ef hún er gerð á sjúkrahúsi og hefur hugsanlega einhverja heilsufarskosti (sb hér https://www.mayoclinic.org/.../circumc.../about/pac-20393550 ) 3) umskurður sveinbarna er ekki mikið vandamál hér einfaldlega vegna smæðar samfélagsins og ef slík lög væru sett hér í gildi þá væri þetta beint gegn örfáum fjölskyldum sem þegar eiga í vök að verjast vegna fordóma, þetta verður í augum þeirra (og í augum umheimsins þ.e. þeirra hundruða milljóna sem eru af þeirri menningu þar sem umskurður er hluti af hefð) merki um fjandsamlegt og púrítaniskt viðhorf íslensks samfélags gagnvart ákveðinni framandi menningu.
Almennt finnst mér löggjafi ætti að stíga varlega niður að banna atferli sem eru hluti af menningu (ekki síst menningu jaðarsettra hópa) og það verða að vera afar góð rök fyrir því og reyndar ætti Ísland þar að vera samstíga Norðurlöndum. Það er sumt sem hefur komið inn í íslensk lög t.d. bann við líkamlegum refsingum barna sem ennþá er stór hluti af menningu margra þjóða. Ég held að fáir Íslendingar vilja fara aftur til þess tíma að börn væru barin sundur og saman eins og harðfiskar. Er umskurður ofbeldi á sama hátt og að berja börn? Ég myndi vilja umræðu um það. Fyrir mér og miðað við það sem ég hef lesið um umskurð þá er um að ræða ónauðsynlega breytingu á líkama. Alveg á sama hátt og að gata eyrnasnepla eða setja húðflúr á börn. Eða fegrunaraðgerðir á börnum. Það er fyrir mér fínt ef það er í lögum að slíkt inngrip verði að gerast undir handleiðslu og samþykki og ráðleggingum heilbrigðistarfsfólks.
En að taka umskurð einn og sér getur verið tilraun til að framandgera og jaðarsetja ákveðna menningu og stjórnast af óbeit á ákveðnum hópum."
Hótanir og þrýstingur afþakkaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)