Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Samt reykir fólk

ekki-reykjaFólk á meira á hættu að fá krabbamein vegna erfða en það eru líka fjölmargir umhverfisþættir sem valda því að við erum líklegri til að fá krabbamein.  Í mlb.is var sagt frá málaferlum í Bretlandi þar sem kona vann mál en hún taldi sig hafa orðið fyrir asbestmengun í tengslum við vinnu föður síns.

Það má í þessu tilviki benda á að talið er að 79. þúsund manns deyi í Evrópu á hverju ári af völdum óbeinna reykinga.  Þá er ekki verið að tala um alla þá sem deyja vegna eigin reykinga. Samband reykinga og krabbameina hefur verið lengi þekkt. Það er auglýst stórum stöfum á öllum reykingapökkum. Það er bannað að auglýsa sígaréttur. Samt reykir fólk. Samt reykja mjög mörg ungmenni. 

Sígarettur eru sterkt og hættulegt eiturefni.  Reykingar eru fíkn sem fólk ræður illa við að hemja og fólk virðist eiga erfitt með að hætta sjálft. Ég tala af eigin reynslu, ég var einu sinni stórreykingamaður. 

Ég held að ein árangursríkasta leiðin til að gera reykingar útlægar sé að skapa umhverfi þar sem er alfarið bannað að reykja og þar sem það er gert eins erfitt og hægt er að vera reykingamaður.  Ég hlakka til þegar bannað verður að reykja á veitingastöðum.


mbl.is Veiktist af krabbameini eftir að hafa faðmað föður sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Massaklúður

Ég tek undir með Jónasi. Þetta er massaklúður. Þetta er ekki smávægileg tæknileg mistök.
mbl.is Lykilorð sýnileg á blog.is fyrir mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lyklar á glámbekk

Ég átti nú aldrei von á því að lykilorðið mitt inn á Moggabloggið yrði neitt öruggt. Það er það ekki í íslensku samfélagi, netsiðferðið hérlendis er ekkert til að hrópa húrra út af, það er ekki langt Fréttablaðið birti einkatölvupósta sem framhaldsefni hjá sér og það var víst fáum sem fannst neitt athugavert við það. En ég átti nú ekki von á því að það yrðu svona lúmskar aðferðir notaðar til að nappa lykilorðunum af þjóðinni... að birta lykilorðin neðst á bloggsíðum. Nú hef ég fengið í tölvupósti þessa orðsendingu:

Fyrir mistök í uppfærslu hugbúnaðar nú í morgun birtust neðst á bloggsíðum upplýsingar um eiganda viðkomandi síðu, þar á meðal lykilorð þeirra. Þessar upplýsingar voru faldar í forritskóða mjög neðarlega á síðunni og ólíklegt að gestir á síðuna hafi kynnt sér þær. Til að koma í veg fyrir misnotkun var lykilorðum allra notenda blog.is breytt í kjölfarið og þau send þeim í tölvupósti. 

Ég vona svo sannarlega að þetta sé sannleikur sem stendur í þessari orðsendingu en það er engin ástæða til annars en vera á varðbergi við að þetta geti verið vísvitandi gjörð einhverra sem vilja komast yfir lykilorð. Ekki lykilorð inn á moggabloggið heldur lykilorð inn á önnur netrými því fólk hefur tilhneigingu til að nota sama lykilorðið á mörgum stöðum. 

Það er ástæða til að aðvara fólk um að hafa einhverja reglu í lykilorðum og notendanöfnum þegar það skráir sig inn í ókeypis netþjónustur. Að nota einhver sérstök lykilorð inn á staði þar sem mjög miklu ríður á að aðrir komist ekki í gögnin og nota alls ekki þau sömu lykilorð inn á staði eins og moggabloggið eða aðrar ókeypis netþjónustur.  

Ég vann einu sinni í stórri byggingu þar sem mörg fyrirtæki voru. Ég fékk lykil að húsinu en fékk að vita að ef ég týndi lyklinum þá yrði ég að borga tugi þúsunda því það þýddi að það þyrfti að skipta um lykla hjá öllu starfsfólkinu í húsinu.  Því miður held ég að það sé sams konar aðstæður núna,   þegar Moggabloggið týndi lyklunum hjá bloggurum. Þeir sem hafa notað sama lykilorð á einhver önnur netrými og á moggabloggið ættu strax skipta um lykilorð alls staðar.


Leirmótun - steypt í mót

Ég er á leirmótunarnámskeiði hjá Ásrúnu og held sérstakt blogg um það leirmotun.blogspot.com

þar sem ég skrái hjá mér hugmyndir og pælingar og alls konar fróðleik um leir og leirvinnslu. Það er alveg hægt að nota svona nám til að læra margt annað en að móta leir í höndunum, ég reyni að læra það sem ég get um efnafræði, bæði mismun milli leirtegunda og hvernig ferlið er frá því leirinn er mótaður og þangað til maður tekur glerjaðan grip út úr ofni eftir hábrennslu. Ég velti fyrir mér hvort þessi möguleiki til að tvinna saman verklega kennslu og listsköpun við efnafræði og vísindi sé nógu mikið notaður í skólanámi. 

Í hverjum tíma þá geri ég lítil dýr úr leirklumpum sem verða afgangs. Það er markmiðið hjá mér að gera hundruð af svona dýrum með tíð og tíma og nota þau til að skrásetja framfarir mínar í leirmótun.

Akkúrat núna er ég að spá í hvort ég geti búið til mót til að steypa í - að prófa einhvers konar fjöldaframleiðslu. Það þarf að gerast í nokkrum þrepum, fyrst að búa til frummynd, síðan að búa til mót utan um frummyndina. Þá vonandi get ég notað það mót.  Fyrir jól þá prófuðum við að gera mót sem við helltum postulínsleir í og bjó ég til örþunna kertastjaka.  Ljósið sérst í gegnum þá.

Hér er vídeó af þegar við gerðum mótin:

Og hér er vídeó af því þegar hellt er í mótin:


Í gærkvöldi var ég að vinna með postulínsleir sem er eins og tyggjó og frekar erfitt efni að vinna í.  Í seinasta tíma var ég að vinna með grófan skúlptúrleir.


Rannsóknarmoggabloggmennskan

Allt kviktFyrst skoppuðu kartöflur eftir gólfinu en svo hafa þær tekið á sig gervi hinna ýmsu kvikinda. Ég sá þetta út úr myndbrotinu... ég er líka með frekar frjótt ímyndunarafl og sé meira en séstGrin

Margir hafa bætt í söguna og reiknað og pælt, velt fyrir sér veltuhraða kartaflna, félagsmynstri músa og fjarlægðar- og tímamælt atburðarásina í bakgrunni. Rannsóknarbloggmennskan í algleymingi. Eða ekkert að gerast eftir að klámþingsumræðan dó.

Enginn bloggar um matarkörfuna og matarverðið.  

 

 

 


mbl.is Kartöflumús í Bónus?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fanney í Kastljósinu

Í Kastljósinu í gær var viðtal við aðstandendur Alsheimersjúklinga.  Það var viðtal við Fanney Proppé.  Ég hef þekkt Fanney allt mitt líf, mæður okkar voru vinkonur, feður okkar voru stjúpbræður, yngri systir hennar var vinkona og leikfélagi minn í bernsku og fjölskyldur okkar bjuggu á sama stað alla bernsku mína, fyrst á Óðinsgötu en síðan byggðu foreldrar okkar íbúðir í blokk í sama stigagangi á Laugarnesveg og þar ólumst við upp.

Fanney var hetja okkar stelpnanna í bernsku, þegar við yrðum stórar ætluðum við að verða eins og Fanney, fallegar og alltaf í flottum fötum og eiga flott herbergi og svo eignast kærasta og  barn og fara að búa eins og hún og byrja löngu áður að safna í búið og geyma búdótið  í fataskápnum okkar. Við fylgdumst lotningarfullar með þegar Fanney var að fara á böll, hún kom með tískublað og efni og hannaði fötin sín sjálf og  Maja mamma hennar saumaði á nokkrum klukkustundum á  hana kjól á handknúnu saumavélina sína, ég held að Fanney hafi farið í nýjum kjól á hvert ball.  Við litlu stelpurnar stálumst til að máta kjólana hennar, prófa málningardótið hennar og dást að búsafninu. 

Fanney var líka ævintýramanneskja sem sigldi á ókunnar strendur og nam þar land og ég fylgdist sem unglingur með frásögnum hennar og þráði að komast til þessa ævintýrastaða. Fanney og Erling fluttu til Ástralíu í kringum 1969  með litlu dóttur sína. Þá var hart í ári á Íslandi en Ástralar reyndu að fá til sín innflytjendur, ég  man að um tíma hugleiddu bæði foreldrar Fanneyjar og foreldrar mínir að taka sig upp og flytja með fjölskyldur sínar. Ég var spennt og sá Ástralíu sem framtíðarlandið og lagði hart að foreldrum mínum að flytja og ég óska þess ennþá að þau hefðu flutt, ég held að við hefðum spjarað okkur ágætlega í Ástralíu. En þau fluttu bara í Kópavog.

Fanney var með barni þegar hún flutti til Ástralíu og komin svo langt á leið að þau gátu ekki flogið heldur fengu far með stóru farþegaskipi og ferðin tók að mig minnir einhverjar vikur. Það voru hátíðarstundir á Laugarnesveg þegar bréfin frá Fanney í Ástralíu voru lesin, þau voru lesin aftur og aftur og rætt um allt þetta skrýtna og nýstárlega sem bar fyrir augu innflytjendanna, ferðina yfir hafið, aðkomuna í innflytjendabúðirnar  og hvernig þau komu undir sig fótunum, keyptu sér hús, innréttuðu það fallega  og komu sér fyrir í samfélaginu, lærðu tungumálið, unnu og ólu upp börnin. Fanney sendi skyggnur og ljósmyndir og það var hápunkturinn í fjölskylduboðum hjá foreldrum hennar að sýndar voru skyggnur og sagðar nýjustu fréttir af fjölskyldunni í Ástralíu - á staðnum hinu megin á hnettinum þar sem var brennandi hiti þegar skammdegið og veturinn var þrúgandi hér heima. Ég held að Fanney hafi hringt í móður sína einu sinni á ári og bréfin voru margar vikur að berast milli Ástralíu og Íslands. 

Svo fór Haraldur bróðir Fanneyjar út til Ástralíu kornungur maður í ævintýraleit. Hann flutti til þeirra og hann var töffari sem ók um á mótorhljóli eins og hann hafði gert hér á Íslandi. Svo varð slysið. Haraldur var á mótórhjólinu á vegum Ástralíu og lenti í árekstri. Hann slasaðist svo illa að hann komst aldrei til sömu meðvitundar og áður og gat ekki tjáð sig. Haraldur var fyrst lengi á sjúkrastofnun í Ástralíu en var síðan fluttur til Íslands á sjúkrabörum. Hann dvaldi hér á Grensásdeildinni þar til hann dó og móðir hans heimsótti hann á hverjum degi. Fanney og Erling undu ekki í Ástralíu eftir þetta áfall. Þau  fluttu aftur til Íslands með börnum sínum til að vera nálægt ættingjum og vinum.  Um svipað leyti og Haraldur slasast  kom í ljós að  Addi, barnið sem fæddist í Ástralíu og fór í móðurkviði yfir hafið mikla  myndi þurfa mikla aðstoð í lífinu.  

Það er erfitt að ala upp fatlað barn í samfélagi eins og íslenska samfélagið var og það er jafnvel ennþá erfiðara að vera nánasti aðstandandi fullorðinna fatlaðra. Fanney hefur verið virk í  samtökum sem vinna að hagsmunum fatlaðra og hún hefur eins og svo margir foreldrar í sömu aðstæðum lagt mikið á sig og barist hart til að tryggja barni sínu sem bestu lífsgæði.  Addi var á Sólheimum en býr núna í stuðningsíbúð. Núna hugsar Fanney um Erling manninn sem hún hefur verið gift í meira en 40 ár og hann þekkir hana ekki lengur. 

IMG_6203 Ég hitti Fanney og Erling fyrir tveimur árum í afmælishátíð Sólheima í Grímsnesi. Þau eru bæði stórglæsileg og hress og ég hefði ekki getað merkt að neitt væri að Erling ef ég hefði ekki vitað það fyrir. Hann var ræðinn og glaður og tók þá fullan þátt í gleðskapnum. Hann var hjálpsamur og fór að sækja handa okkur meira kaffi þegar kláraðist úr kaffikönnunni. En Fanney fór fljótlega á stað að leita að honum, sagði að hann gleymdi stundum hvað hann ætlaði að gera. Bara þetta litla viðvik sýndi mér hvernig Fanney hefur unnið.  Hún hefur lagt mikið á sig til að líf Erlings verði sem bærilegast, hamingjuríkast og eðlilegast og hann fyndi sem minnst fyrir sjúkdómi sínum. Ég veit hún reyndi að ferðast með honum og hætti að vinna til að þau gætu átt sem bestan og lengstan tíma saman á meðan sjúkdómurinn væri ekki svo langt genginn fram.

Fanney var hetja mín í bernsku en  hún er  líka hetja sem ég lít upp til í dag. Ekki lengur fyrir fallegu fötin og fallega dótin sem var alltaf  og er alltaf í kringum hana heldur núna fyrir að hafa tekist á við margs konar erfiðleika í lífinu  og vaxið af þeim sem manneskja og fyrir að hafa verið stoð og stytta þeirra sem þurftu og þurfa á henni að halda og fyrir að hafa verið talsmaður þeirra sem ekki geta talað fyrir sig sjálfa og barist fyrir réttindum þeirra.


Símasexið fyrir 22 árum

Það eru 22 ár síðan hljómsveitin Village People söng lagið "Sex over the Phone" um keypt skyndikynni  með aðstoð samskiptatækninnar. Gaman að  spila þetta svona mörgum árum seinna.

Village People er skemmtileg  camp hljómsveit og flestir textarnir tengdir hommamenningu. Þetta lag um símasexið er nú bara meira camp í dag en fyrir 22 árum.

Hér er ágætur listi yfir lög nokkurra flytjenda á Youtube. 

Meira um camp HERMENAUT: Camp: An Introduction

 

 

  


Hverskonar ást

Hverskonar ástKlámunnendur og femínistar skiptast á skeytum á umræðuþræðinum um viðskipti klámhópsins hjá Katrínu Önnu. Í tilefni af nýliðnum degi elskenda Valentínusardeginum og þessari klámumræðu þá hef ég tekið bút úr umræðuþræðinum upp í þetta vefskrípó. Það eru Ásdís, Aðalheiður og Beta sem hafa orðið.

Ég teiknaði þetta skrípó í Inkscape.

 


Gústi og Gvendur í Kompási

Kompásumfjöllunin um Byrgið var besti og áhrifaríkasti þátturinn í íslensku sjónvarpi á síðasta ári, ekki bara vegna þeirra uppljóstrana sem þar komu fram heldur líka vegna þess hve miklum jarðskjálfta í íslensku samfélagi umfjöllunin olli. Þetta mál afhjúpaði vond vinnubrögð og vanvirðingu við skjólstæðinga og almenning hjá Byrginu en ekki síður hjá öllum opinberum eftirlitsaðilum sem og þeim sem skrúfuðu frá peningakrönum.  Það sér ekki ennþá fyrir endann á því hvaða áhrif eftirskjálftarnir munu hafa.

Myndirnar af Gústa og Gvendi sem dregnar hafa verið upp í nýlegum Kompásþáttum eru stórfenglegar  - annars vegar af trúarleiðtoga sértrúarsafnaðar  sem segir sig hafa mátt til að líkna og leiða djúpt sokkna fíkla til betri vegar en stundar kynlíf sem einkennist af pyntingarlosta með skjólstæðingum sínum og hins vegar af fanga í Vernd sem gengur líka á Guðs vegum að eigin sögn, dæmdur kynferðisafbrotamaður sem reynir að níðast á börnum akkúrat þegar samfélagið á að vera óhultast fyrir honum - á meðan hann situr inni. 

Þessar tvær myndir af Gvendi og Gústa   eru í huga mér orðnar táknmyndir um ástandið á Íslandi í ársbyrjun 2007 - um skinhelgina og hræsnina sem vafin er inn í guðsótta  og önnur valdakerfi  svo sem valdakerfi þess sem líknar og þess sem er skjólstæðingur/fíkill/vistmaður og brotalamirnar í öllum þeim kerfum sem samfélagið hefur til að passa þegnana. Báðir þessir menn hafa fallegar og seiðandi raddir sem hafa náð til fólks - á vakningarsamkomum og í útvarpi, þeir  tala sannfærandi en það er flett ofan af þeim og þeir skrælaðir þannig að við sjáum hvað er bak við  forhúðina á  trúarleiðtoganum og trúaða KFUK stráknum.

það var gaman að sjá að moggabloggarinn og moggablaðamaðurinn Davíð Logi fékk verðlaun. Ég fletti upp í gagnasafni Morgunblaðsins greinum hans um Íslensku friðargæsluna því ég hef bæði áhuga og innsýn í hvað þar hefur gerst. Lengsta umfjöllunin sem ég fann var greinin  Vopnaskak í Paradís  8. des  (innskráning þarf) og svo fann ég nokkrar viðhorfsgreinar. Grein Davíðs Loga um Vopnaskakin í paradís er ágætis grein og fræðandi en þetta er ekki beitt ádeilugrein. Frekar svona varfærnisleg skrif mjög í samhljómi við það sem stjórnvöld eru að gera og breytingar í áherslum hjá stjórnvöldum og það er sjónarhorn valdhafans sem skín í gegnum þessa grein.


mbl.is Davíð Logi fær tvær viðurkenningar fyrir umfjöllun um Guantanamo
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Föndur dagsins - Sjálfræðisafmæliskort

Föndrað 18 ára afmæliskort og gjafapakkningÞegar unglingarnir verða átján þá ráða þeir sér sjálfir og líkar þeim það allvel. Hér er föndurhugmynd að einkar smekklegu  18 ára afmæliskorti og gjafapakkningu sem rímar vel við lífsstíl þessarar kynslóðar. Efnið sem þarf er við hendina á öllum venjulegum heimilum, það er þarf bara að pitsuumbúðir frá Dominos (ættu að vera nóg af heima hjá þér núna á megavikunni) og svo eru klipptir út stafir úr einhverjum fríblöðum og auglýsingapésum og það þarf líka lím og límband. Úr þessu er hægt að gera fallegt lítið gjafahús og ef vill þá má nota bónus plastpoka sem undirlag og garð og tússa á hann garðskipulagið, blóm og gangstíga, tré og heita potta. Þessa föndurhugmynd má að sjálfsögðu nota fyrir önnur afmæli en 18 ára og er skemmtilegt að tengja efniviðinn við tilefnið, t.d. ef búið er til kort fyrir 17 ára afmælið þá er sniðugt að nota eitthvað sem minnir á rúntinn og bílprófið svo sem bílalúguauglýsingar, umbúðir frá Aktu  Taktu og frídót frá bensínstöðvum. 

Hönnun þessa korts/gjafapakkningar er frá Kristínu Helgu 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband