Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Klámleikjalandið Ísland og klámtán Reykjavík

snowgathering - auglýsing fyrir klámþing í ReykjavíkVörumerki fyrir Ísland er að hér sé partípleis, griðastaður þeirra karlmanna  sem vilja drekka frá sér ráð og rænu umvafðir af kvenfólki og áfengi.  Hér eru stelpur aldar frá unga aldri upp í að vera sýningargripir og kynlífsleikföng fyrir karla. Netheimur barna og unglinga á Íslandi hefur í mörg ár verið umlyktur þykkni af klámi, auglýsingum fyrir áfengi og efni sem er niðurlægjandi fyrir konur. Það er því ekki nema von að erlendir aðilar sem búa til   klám fyrir netmiðla streymi hingað til lands og vilji halda hérna  klámþing.

Hér á Íslandi eru börnin alin upp frá blautu barnsbeini við að sjá ekkert athugavert við klám og kvenfyrirlitningu og fíkniefnaauglýsingar. Þannig er til dæmis leikjavefurinn www.leikjaland.is sem virðist í fjótu bragði vera vefur fyrir krakkaleiki  bara einn hluti af stærri vefsamsteypu því vefirnir www.69.is og www.pose.is eru reknir af sömu aðilum og vísa þessir vefir hvern á annan.  Leikjaland er sakleysislegt andyri í það hyldýpi kláms og fíkniefna sem íslensk börn eru ginnt inn í á netrölti sínu.

leikjaland-pose-69-feb07 Hér er skjámynd tekin 16.feb sem lýsir innhaldi þessara vefja og efnisframsetningu.

Það eru ekki áfengisauglýsingar eða kynlífsefni á leikjaland en það eru mjög áberandi tenglar og hreyfimyndir sem ginna börn inn í hina vefina og þar er helst agnið svona myndir eins og þessi af léttklæddum stelpum að pósa og það er umflotið áfengisauglýsingum (þessi mynd er með auglýsingum fyrir fjórar áfengistegundir og svo eru fimmta og sjötta tegundin auglýst á síðunni) - Hver segir að það sé óleyfilegt að auglýsa áfengi á Íslandi?  

Sannleikurinn er sá að það eru sömu aðilar sem reka leikjavefi fyrir krakka á Íslandi og sem reka ógeðslega vefi fulla  af áfengisauglýsingum og klámfengdum myndum löðrandi í kvenfyrirlitningu.  Þessir vefir  eru miðaðir við börn og ungmenni í grunnskólum og framhaldsskólum á Íslandi.

Svona hefur ástandið verið í mörg ár á Íslandi.  Fyrir nokkrum árum  voru vefirnir batman.is og tilveran.is vinsælustu  unglingavefirnir á Íslandi, þeir voru lítið annað en daglegir  tenglar  í óhugnanlegt klám og samsafn af kvenfyrirlitningu.  Á sínum tíma þá auglýstu íslensk fjármálafyrirtæki, bankar og stjórnmálaflokkar starfsemi sína á slíku vefjum og viðhéldu því þessari skaðræðisiðju. Núna eru að klárlega aðilar bæði innlendir og erlendir sem selja áfengi til unglinga sem viðhalda sams konar vefjum.

En það er þannig að jafnvel í sorpinu þá finnast gullmolar. Ég datt áðan á 69.9s niður á þetta stutta hljómverk sem helgað er Guðmundi í Byrginu og mér finnst það bara ansi gott. 


mbl.is Klámþing verður haldið hér á landi í næsta mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóri bróðir fylgist með þér

Mogginn greinir okkur frá því að nú geti Hvít-Rússar ekki spilað tölvuleiki og komist í ofbeldi og klám á netkaffihúsum. Allir verða líka að sýna skilríki þegar þeir heimsækja netkaffihús. Þarlend stjórnvöld vaka svo vel yfir velferð þegnanna að þau hafa skikkað netkaffihúsaeigendur til að halda skrá yfir þær vefsíður sem eru heimsóttar og skila  til öryggisþjónustu ríkisins.

Er það svona netheimur sem við viljum? 

Það getur verið að okkur finnist tölvuleikir hið mesta rusl og það  eigi að hindra aðgang að ofbeldi- og klámefni. En í Hvíta-Rússlandi er líka bannað aðgangur að öllu ólöglegu efni og  þar í landi telst það ólöglegt að gagnrýna stjórnvöld. Þetta er því leið stjórnvalda til að kúga þegnanna og bæla niður allar andófsraddir, það er ekki bara ólöglegt að gagnrýna stjórnvöld, það er líka orðið ólöglegt að lesa gagnrýni um stjórnvöld. 

Á Vesturlöndum er  umburðarlyndi fyrir klámi og ofbeldi og margir fjölmiðlar dæla  skömmtum af klám- og ofbeldisblöndu  í okkur á hverjum degi. Það vekur því hneykslan okkar að stjórnvöld annars staðar skuli ekki leyfa svoleiðis. Við erum líka vön hér á Íslandi að hafa skotleyfi á ráðamenn og geta dregið dár að og gagnrýnt gjörðir þeirra. Við erum vön því að fjölmiðlar hjá okkur stilli sér í dómarasæti yfir dómurum og ráðuneytum og það vekur því hneykslan okkar að það sé hvorki leyft að gagnrýna stjórnvöld né að lesa gagnrýni um stjórnvöld.

En er allt í lagi í okkar heimshluta? Er frelsi fólks í netheimum virt eins  vel og frelsi fólks í daglega lífinu? Eða er ástandið eins og í símhleranatíma kalda stríðsins nema bara núna hafa stjórnvöld og fjölþjóðlegir auðhringir miklu betri græjur til að vakta fólk á Netinu og leita að mynstrum í athöfnum þess? 

Við erum síðustu ár alin upp  í ótta - ótta um hryðjuverkaárás, sérstaklega átök innan frá. Eina sýnilega leiðin sem stjórnvöld virðast fara til að stemma stigu við því er að herða eftirlit og þá sérstaklega eftirlit með umræðu og ferðum einstaklinga á Internetinu. Sennilega nota spellvirkjar Netið bæði til að skipuleggja samfélög sín og til að afla sér upplýsinga. Það geta líka allir aðrir.  Sennilega nota spellvirkjar tungumálið og röddina til að tala saman og bækur og blöð til að lesa sér til. Það gera líka allir aðrir. Viljum við að allar samræður okkar séu teknar upp og vaktaðar og einhvers staðar séu skráðar allar bækur og rit sem við lesum og ef við erum áhugafólk um efnafræði og ég tala nú ekki um menn af erlendum uppruna þá séum við tafarlaust orðin grunsamleg og með okkur sé sérstaklega fylgst. 

Við ættum ekki að samþykkja að fylgst sé með samræðum og ferðum einstaklinga á Netinu undir því yfirskini að það sé unnið að því að uppræta hryðjuverkasellur eða koma upp um barnaklámhringi ef við viljum ekki samfélag þar sem stjórnvöld geta njósnað um hvert fótmál (ætti kannski frekar að segja netmál) þegnanna.

Á Vesturlöndum er ekki líklegt að tilburðir til að hindra netfrelsi okkar verði krossfarir undir merkjum þeirra sem vilja sporna við ofbeldi og klámi. Á Vesturlöndum er líklegra að það sé undir því yfirskini að það sé verið að passa okkur fyrir væntanlegum hryðjuverkamönnum og barnaklámhundum og að það sé verið að verja hin helgu vé einkaeignaréttarins og verja hagsmuni markaðshagkerfisins. Það mun líka verða smám saman kreppt að frelsi okkar og það er mikilvægt að við spornum við af alefli og beinum netnotkun okkar í farvegi sem líklegra er að standi betur af sér áhlaup. Þannig er besta leiðin núna að forðast sem mest höfundaréttarhugbúnað og lokuð kerfi og taka sem virkastan þátt í þeirri nýju samvinnuhreyfingu sem upp vex á Netinu og er kennd við opnar lausnir, opinn aðgang og almenningssvæði sem allir hafa aðgang að og allir geta tekið  þátt í að byggja upp.

Það má rifja það hérna upp að það eru ekki mörg ár síðan hér á Íslandi var víða plantað inn njósnaforriti í netkerfi skóla til að fylgjast með hvaða hugbúnaður var notaður og það voru alþjóðleg samtök höfundarrétthafa sem útveguðu það forrit og það var hluti af opinberum samningum við Microsoft að gera úttekt og eftirlit á meintri ólöglegri notkun forrita með þessum hætti. Það er til opinber skýrsla sem Ríkisendurskoðun vann um þetta mál. 

Það er víða en í Hvíta-Rússlandi sem við þurfum að vera á varðbergi fyrir tilburðum stjórnvalda og annarra stórra aðila sem vilja ráða netumhverfi okkar.  Ef netþjónustur, samskiptafyrirtæki og Internetþjónustuaðilar eru allir í eigu sama aðila og hagsmunir þess aðila fara ekki saman við það efni og þá umræðu sem flæðir fram og til baka í netrásum - býður það ekki hættunni heim?   


mbl.is Eftirlit með netnotkun í Hvíta-Rússlandi hert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleiri fundnir hellar

Ég fór í gær á  bókakvöld Hagþenkis á Súfistanum þar sem nokkrir  fræðiritahöfundar töluðu um bækur sínar. Það var skemmtilegt, þarna voru merkar bækur sem í liggja mörg ársverk. Einn höfundurinn sagði frá bók sinni  um hella á Íslandi en hann hefur unnið marga áratugi að bókinni og það liggur mikið rannsóknarstarf á bak við að kortleggja hella. Ég hafði gaman af því að hlusta á umræðuna um hvernig hellarninr fundust þegar farið var að leita kerfisbundið og hvernig líklegt að fleiri finnist á næstunni.

Þannig er nú lífið, maður finnur frekar það sem maður leitar að þó það sé grafið djúpt niðri í jörðu heldur en hluti sem maður er ekkert að leita að.  Ég hef núna fyrst og fremst áhuga á fræðibókagerð  vegna þess að mig langar til að skoða wikiverkfæri sem tæki fyrir öðruvísi bókagerð,  bókagerð þar sem viðtakendur hafa möguleika til að hafa áhrif á bókina og þar sem höfundarverkið skapast smám saman af mörgum. 

En akkúrat núna þá eru ekki margir sem skilja hvað ég á við þegar ég ræði um wikibækur og möguleika þeirra sem námseininga. 

Mér finnst þessi skrýtla um wiki  fyndin.

Veni Vidi Wiki


Þúsund þorskar og allir menn eru konur

Kolbrá syngur

Kolbrá söng brot úr ljóði sínu "All men are women"  í Kastljósi í gær þar sem sagt var  frá trúbadorakeppninni Þúsund þorskar. Kolbrá er hæfileikaríkur og fjölhæfur listamaður, í  tónlist og myndlist og ljóðlist. Ég held að hún hafi frumflutt þetta lag sem  hluta af opnunargjörning á listsýningu. Hún hefur sungið þetta lag núna í seinustu tveimur afmælum Ástu, ég vona að það verði árlegur viðburður.

Það var ágæt tilbreyting frá sorgarsögum af barnaheimilum og vistheimilum að horfa á fréttina um leitina að hinum nýja Bubba. Minnir  mig reyndar á að ég var í félagskapnum Vísnavinir sem hélt svona trúbadorakvöld á Borginni og það var einmitt á þeim kvöldum sem Bubbi kom sá og sigraði. Árni Johnsen söng líka alltaf og trallaði á þessum kvöldum og gerði ýmsar glóríur eins og að sleppa lausum hrúti í salnum eftir að vísnakvöldin höfðu flust í þjóðleikhúskjallarann. En það var nú samt ekki mikið klappað fyrir Árna. Talandi um vistheimili þá held ég að Kolbrá hafi verið á unglingaheimili ríkisins sem unglingur og einhvers staðar sagði hún í viðtali ef ég man rétt að hún væri sú eina úr þeim hópi sem dvaldi þar með henni sem ekki hefði farið í ruglið. 

Á hinum ýmsu bloggum hefur verið lagt fram ýmislegt sögulegt efni margra áratuga gamalt um vistheimilin á Bjargi og Breiðavík.  Hér er greinin Unglinga á að ala upp í þrælsótta sem er viðtal við stúlkur sem dvöldu á Bjargi  (frá nimbus.blog.is) og hér er myndasyrpa af Breiðavíkurdrengjunum (frá Hlyn).  Myndirnar og viðtölin sýna ekki neitt skelfilegar aðstæður. Stúlkurnar á Bjargi eru ekkert beygðar í viðtalinu, þvert á móti þá lýsa þær því hróðugar hvernig þær hafi virt að vettugi ýmsar reglur og virðast stundum hafa komist upp með það. Reyndar finnst mér þetta viðtal við þær vera tímalaust, þetta er sýn uppreisnargjarna unglinga sem lýsa frati á það kerfi sem er að reyna að aga þær til.  


Blogggrín

Enn eitt blogg um blogg Grin.  Til  er sérstakur brandaravefur blaugh.com  sem inniheldur skrípó sem öll ganga út að gera grín að bloggurum. Auðvelt er að líma bloggskrípóin inn í blogg.
If a Blog Falls

Hér er listi yfir gömlu bloggskrípóin.


Byrgið , Breiðavík og bloggið

Hér í eina tíð þá blaðaði ég gegnum dagblöðin og taldi hversu margar myndir af konum  prýddu greinarnar og hversu margar af körlum. Núna er talning dagsins að fylgjast með hvað margar konur  hafa kært Guðmund í Byrginu og hve margir karlar hafa bæst í hóp þeirra sem vitna um hörmulegan aðbúnað og harðræði í Breiðuvík og svo tel ég líka hversu oft gamli prentaði Mogginn (þið vitið, þessi sem maður flettir) vitnar í blogg.

Hér er mín  tölulega greining  á því fréttnæma í dag:

Byrgið

Fréttablaðið hefur eftir landlækni: "Nú viljum við helst að umfjöllun í fjölmiðlum fari að lægja og að við getum farið að aðstoða þetta fólk". Hmmm.... er þetta nú eðlilegt? Er ekki landlæknir aðili að málinu og hugsanlegt að í væntanlegum málaferlum þá verði landlæknisembættið sótt til saka? Landlæknir hefur klárlega dregist inn í málið m.a. hefur komið fram að geðlæknir sendi fyrir mörgum árum erindi til embættisins og benti á einkennileg kynferðissamband starfsfólks og vistmanna. Er ekki í hæsta máta óeðlilegt að landlæknisembættið komið að því að skipuleggja eða veita einhvers konar aðstoð eða úrræði fyrir þá sem hafa núna kært og/eða koma til með að kæra? Landlæknisembættið er hagsmunaaðili, það er klárlega hagsmunir þess að þær konur sem munu sækja dómsmál sæki það ekki til saka og afskipti embættisins eða afskiptaleysi sé ekki í hámæli. 

Á bls. 16 í Fréttablaðinu er góð grein "Var Byrgið meðferðarheimili?" og þar kemur fram að í mörgum opinberum plöggum er það  talið meðferðarstofnun þó nú sé rætt um það sem búsetuúrræði. Það kemur meira segja fram í plöggum frá heilbrigðisráðuneyti  þrátt fyrir að landlæknisembættið hafi synjað Byrginu á mjög skýran hátt um að reka afeitrunardeild. 

Breiðavík og Reykjahlíð

Umfjöllunin um aðila sem tengjast Breiðavík og öðrum heimilum sem börn voru vistuð á er orðið mjög óhugnanleg. Ég sá á málefnin.com að grafnar hafa verið upp minningargreinar um þá aðila sem bornir eru þyngstum sökum og setningar úr þeim hafðar að háði og spotti. Það er allt sem bendir til að Breiðavíkurdvöl margra drengja hafi verið hörmungarvist og böndin berast sérstaklega að einum manni sem stýrði heimilinu. En það hefa margir aðrir verið bornir þungum sökum.

Það sem er einkennilegt við þetta mál er að það er eins og glæpurinn hafi orðið til þegar um hann var fjallað í Kastljósi í sjónvarpinu. Þá náði málið svo miklu skriði að það var rætt á ríkisstjórnarfundi og inn á Alþingi. Það er samt nokkuð svipuð saga sem sögð er í ævisögu Sævars "Stattu þig drengur" sem vakti að ég held ekkert sérstaklega mikla athygli á sínum tíma og margir hafa árum saman þekkt sögu drengja sem voru á Breiðuvík.  Ég spái í hvernig bókmenntafræðingar myndu túlka þessa fjölmiðlaumfjöllun, myndu þeir tala um hryllingsleikhús, myndu þeir tala um grótesku og vitna í Foucault?  

Ég hlustaði á viðtal í Kastljósi við Rósu systur Lalla Johns. Það var átakanlegt og það sem mér fannst átakanlegast var að heyra minningar hennar um hvernig hún lítil stúlka á barnaheimili reyndi að vera góð og hjálpa til og strauja og hugsaði um það eitt að komast heim - og samt kom fram í upphafi viðtalsins að það var einmitt á heimili hennar sem hún var beitt ömurlegu kynferðislegu ofbeldi. Ég fann líka til með móður hennar og valdaleysi hennar og úrræðaleysi. 

Rósa ræðir um barnaheimilið Reykjahlíð og Anna vélstýra skrifaði ágætan bloggpistil um sín uppvaxtarár þar. Það er áhugavert að það er allt önnur saga. Anna segir frá góðu atlæti en Rósu leið ekki vel. Þessar sögur geta báðar verið  sannar, það eru mörg dæmi um það á heimilum, í systkinahópum að það er eins og allt annað umhverfi og allt annar aðbúnaður sem snýr að einu barni heldur en öðru.

Þannig er það líka um sveitadvöl, það tíðkaðist að senda börn í sveit á sumrin og það væri áhugavert að heyra sögur þeirra sem sendir voru í sveit, ég hef sjálf heyrt og lesið margar frásagnir drengja sem dásama sveitardvölina og frjálsræðið þar og  finna náttúrubarnið í sjálfum sér. En ég hef heyrt margar sögur stelpna og stúlkna sem aldar voru upp eða sendar í sveit og þeirra saga er ekki þannig. Það er oft saga um fjötra og innilokun og vinnu og athafnarými sem var bara eldhúsið á bænum. Sennilega er ekkert eitt atriði eins mótandi á hvaða aðbúnað þú færð í bernsku og hversu mikið frelsi þú færð  hvers kyns þú ert.

Í systkinahópum er margt sem ræður hvaða viðmót mætir syskinum, ég hef heyrt margar sögur af yngri systkinum sem voru pínd alla bernsku sína af eldri systkinum og foreldrum og ég hef heyrt og séð sjálf hvernig foreldrar mismuna börnum sínum og snúa alltaf ranghverfunni að einu barni þó að önnur börn búi við gott atlæti á sama heimili.  Ég held að þeir sem það gera séu nú reyndar oftast ekki meðvitaðir um breytni sína

Bæði í Breiðuvíkurminningum og Reykjahlíðarminningum þá hefur verið talað um hafragraut. Það er myndræn líking á því hvernig aðbúnaður var á staðnum, hvað börnin fengu að borða og voru pínd til að éta. Þetta minnir mig á að ég vann einu sinni með manni sem hafði alist upp barnaheimili þar sem ekki var farið vel með börn,  hann var kokkur. Á barnaheimilinu sem hann ólst upp á þá voru börnin látin borða lýsi út á fisk. Sennilega er hægt að ráða í aðbúnaðinn á heimilum eftir því hvaða matur fólki er skammtaður. Talandi um það... það væri kannski öllum hollt að prófa í margar vikur að lifa bara við þann kost sem vistmenn á elliheimilum og hjúkrunarheimilum hafa, borða ekkert nema matinn sem kemur úr stóreldhúsunum og hefur verið í hitakössum í margar klukkustundir. 

Bloggið

Ég taldi alla vega þrisvar í dag umfjöllun um blogg í Mogganum. Mikið hlýtur þetta að vera skrýtið fyrir fólk sem aldrei hefur lesið blogg og veit varla hvað það er. Fyrst er hálfsíða  þar sem birt eru alls konar pistlar úr bloggum á moggablogginuog mynd af bloggurum. Svo var annars staðar yfirskriftin þingmenn blogga og þar var úr bloggi þingmanns. Svo var nú mesta ekki frétt dagsins og það var fréttin um að bloggari hefði lýst því yfir að hann væri hættur að blogga. Út af ást... btw sendi Heartkveðjur til allra á þessum fallega Valentínusardegi InLove


Myndletur MSN kynslóðarinnar

HeartÉg horfi stundumW00t á skrif dóttur minnar á MSN Crying (það heitir POS sem er skammstöfun á Parent Over Shoulder BanditHalo) og skil bara ekkert FootinMouth, allt útbúað í alls konar styttingum, slangri og litlum köllumSickDevil . Ég sé líka að blogg yngstu kynslóðarinnar er að breytast í myndmál. 

Ég sé líka að merkingar í daglega lífinu eru sífellt meira orðin eins og lítil íkon og þetta nýja myndmál er alþjóðlegt og ekki bundið tungumálum. Núna er netfyrirtækið Zlango búið að setja upp SMS þjónustu sem alfarið byggir á myndmáli. 

Hér er lítið dæmi um hvernig maður skrifar í þessu SMS máli

 zlango1

 

 

 

 

 

Fréttatilkynningin var skrifuð svona.

Ég skrifaði  á sínum tíma greinina Ritmál á íslensku wikipedíu og las þá ritverk  Þorbjörns Broddason. Ritlist, prentlist, nýmiðlar og margar greinar á Wikipedíu um þróun leturs. Við lifum núna í samfélagi sem er í óða önn að taka upp flókið myndletur. Það er gaman að  bera þetta nýja tæknimiðlamyndletur saman við myndletur Asteka og Kínverja. 

Ég velti fyrir mér hvernig eða hvort þessi þróun hjálpar þeim sem einhverra hluta vegna geta ekki tjáð sig með orðum. Það eru mörg fötluð börn sem nota svokallað tákn með tali og táknmál heyrnarlausra en nú líka þannig að í þeirri menningu talað maður með líkamanum. 

 

 


Fröken Kjær

Þann 19. nóvember 2006 var viðtal í Morgunblaðinu við Sólveigu dóttur Jóns Árnasonar handritafræðings og skálds. Hún sagði frá uppvaxtarárum sínum í Kaupmannahöfn og hún sagði frá því hvernig er vera í fjölskyldu af erlendum uppruna, hvernig er að finna talað niður til sín og hvernig það fer í hreppstjóradætur úr Mosfellssveitinni þar sem vinnukonurnar passa hin dýru brauð að fá sömu þjónustu eins og hinir verst settu í samfélaginu, stúlkurnar sem fæddu lausaleiksbörnin á Ríkisspítalanum.
Hér er brot úr greininni:

Hún var gift föður mínum sem var námsmaður en var send með einhverjum stúlkum sem voru að eignast lausaleiksbörn og farið eins illa með hana og þær. Hún fyrirgaf aldrei Dönum hvernig farið var með hana þá. Mikil stéttaskipting var á dönskum sjúkrahúsum í þá daga. Þetta átti illa við mömmu, hún var hreppstjóradóttir úr Mosfellssveitinni, dóttir Björns bónda í Grafarholti og vildi ekki láta tala niður til sín.
........ 

Oft litu Danir niður á okkur og aðra Íslendinga. Við ólumst upp við nokkurn dónaskap frá hendi Dana. Ég man t.d. að maðurinn sem bjó á móti okkur fann einu sinni tösku með skítugum þvotti, hann hljóp með hana og setti hana á mottuna hjá okkur, hringdi svo og sagði að hann hefði fundið þessa tösku og sett hana hjá okkur því honum hefði fundist hún svo "íslenskuleg".
Sami maður hékk eitt sinn upp við hliðið sitt og sagði við mig: "Din far er ein snylter på den danske Stat." Pabbi þinn er sníkjudýr á danska þjóðfélaginu.

 Sólveig talar líka um sunnudagsmatarboðin hjá foreldrum sínum og þar dró hún upp svipmynd af fröken Kjær. 

Þeir sem komu til okkar voru allir Íslendingar nema eina danska kunningjakonu áttu foreldrar mínir sem hét fröken Kjær. Hún bjó rétt hjá okkur og kom mikið til okkar þegar útgöngubann var á stríðsárunum, þá gat hún skotist milli húsa. Hún hafði unnið á holdsveikraspítalanum í Laugarnesi í 21 ár en ég varð aldrei vör við að hún skildi eitt einasta orð í íslensku. Fröken Kjær sat aldrei lengi, við vorum hinsvegar vön að fólk væri lengi, eyddi sunnudeginum með okkur úti í garði, það kom líka flest hjólandi langt að. 

Þetta stutta minningarbrot segir ekkert um fröken Kjær og þau áhrif sem hún hafði á Íslandi. Ég held að fröken Kjær hafi reynst vistmönnum á holdsveikraspítalanum í Laugarnesi ákaflega vel og borið með sér nýja strauma og hafi verið merkileg kona. Mér finnst sárt að hugsa til þess einmitt á sama tíma og  fjölmiðlar reisa sig í dómarasæti yfir starfsfólki á vistheimilum og stofnunum og hrópa þungar ákærur á nafngreinda menn þá er framlag allra þeirra sem hafa komið skjólstæðingum sínum til þroska og auðgað líf þeirra ekki fréttaefni.  Reyndar gleymt af öllum.

Óskar Aðalsteinn ritar eftirfarandi um fröken Kjær  í greininni  Um  vetrarsólhvörf  en það eru minningarbrot um hinn holdsveika Sigurð Kristófer, strákinn sem fór sextán ára á Holdsveikraspítalann í Laugarnesi og dvaldi þar til æviloka:

Ný yfirhjúkrunarkona réðst að spítalanum; fröken Harriet Kjær. Þau Kristófer voru aldrei ókunnug hvort fyrir öðru. Við fyrstu sýn fóru hughrif á milli þeirra, sem knýttu með þeim ævilöng vináttubönd. Hiklaust, átakalaus, opnaði Kristófer hug sinn fyrir fröken Kjær. Hún varð hluttakandi í dýpstu gleði hans og sárustu kvöl. Hin þrotlausa andlega barátta hans varð lifandi þáttur í sál þessarar konu. Frá því fröken Kjær kom í hælið, leið ekki sú stund í vökulífi Kristófers, að hún væri honum ekki nálæg í gleði hans og baráttu. Að vísu stóð hann við lokaðar dyr. Hann skildi ekki örlög sín, hafði ekki fundið nein skynsamleg rök fyrir þeim dómi, sem skapanornirnar höfðu kveðið upp yfir honum. En kannski hafði hann einmitt nú náð að skynja lífið í þeirri fegurð, sem mannlegur hugur megnar. Sú fegurð birtist honum í hugarferli Harriet Kjær. Og hann sá þessa fegurð í brosi hennar – og þegar hún horfði í augu hans.

Fröken Kjær varð áhrifavaldur í lífi Kristófers, hún kynnti hann fyrir kenningum guðspekinga og ræddi við hann um andleg málefni. Sigurður Kristófer varð örkumlamaður vegna sjúkdóms síns, hann dvaldist á Holdsveikraspítalanum í Laugarnesi frá 16 ára aldri og þar til hann  dó 19. ágúst 1925, þá 43 ára gamall.  En hann var afreksmaður. Um hann segir í Morgunblaðsgrein 1996:

Spítalavistin var Sigurði Kristófer erfið í fyrstu en fljótlega breyttist viðhorf hans enda hafði hann nú tíma og næði til að sinna bóklestri og öðrum andlegum störfum sem hann hefði annars ekki getað, spítalinn varð honum eins konar klaustur eða menntasetur, eins og Gunnar Stefánsson bendir á í áðurnefndri grein sinni. Á spítalanum komst hann í fyrsta skipti í kynni við fræði guðspekinga sem áttu eftir að verða hans helsta hugðarefni fyrir utan málvísindin. Einnig lagði hann fyrir sig tungumála-, söngog hljómlistarnám en allt þetta lærði hann af sjálfum sér enda ekki neinir kennarar á spítalanum. Varð hann svo vel að sér um dönsku, ensku og þýsku að hann gat lesið sig til um ýmislegt á þeim tungum. Esperanto lærði hann svo vel að hann orti á því máli. Sjálfur gat hann ekki leikið á hljóðfæri vegna sjúkdóms síns en hann kenndi öðrum sjúklingum að leika fjórraddað á orgel.

 Þetta eru töfrar, hvernig getur spítali fyrir þá sem þjást af sjúkdómi sem útskúfar þá úr samfélaginu orðið klaustur og menntasetur? Hvers vegna varð þessi fallegi staður Breiðavík að grimmu fangelsi sem ól upp glæpamenn? Hvað hefði gerst ef til Breiðuvíkur hefði ráðist starfsfólk eins og fröken Kjær? Væri Sævar Ciesielski þá núna alþýðlegur fræðimaður sem skrifaði langa doðranta um einhver undarleg nýaldarfræði og rannsakaði bragarhætti í vestfirskum ferskeytlum?

Í minningu þeirra Sigurðar Kristófers og fröken Kjær hef ég skrifað nokkra pistla um holdsveiki  og holdsveikraspítala á íslensku wikipedíu. Ég hef nú reyndar sjálf unnið í holdsveikraspítala, ég vann einn vetur þegar ég var í menntaskóla í eldhúsinu á Kópavogshælinu en eldhúsið var staðsett í kjallara húss þar sem var þá síðasti holdsveikraspítalinn á Íslandi. Það var þá eftir ein kona þar og hún lifði í algjörri einangrun og einmanalegu lífi að ég held. 

Nokkra reglu er að finna í fögru máli Sigurður Kristófer Pétursson  (Gagnasafn Mbl. 7. desember 1996) 

Við förum heim þegar handritin fara heim  (Gagnasafn Mbl. - innskráning þarf)


Vi danskere og vores historie

Brimarhólmur PXN8.COM - Sun Feb 11 15:55:35 2007

Brimarhólmur, koparstunga frá 1517. 

Vi danskere må igen have vores historie ind på rygmarven. Vide hvad flinteøkserne, vikingetogterne, Københavns forsvar i 1660, slaget ved Lund i 1676, Københavns bombardement i 1807, Dybbøl skanser, modstandsbevægelsen under Anden Verdenskrig har betydet for det liv, vi lever i dag. (Jyllandsposten)

Her er min brugerside pa den danske Wikipedia. Jeg har ændret litt pa nogle artikler pa danske wikipedia som den artikel om Finn Magnussen.

Københavns historie er min historie. København var jo vores hovedstad i 500 år. Jeg har fundet mit danske identitet, jeg blev dansker for et ar siden.
mbl.is Saga Kaupmannahafnar sem höfuðborgar Íslands rituð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einhverfa, ofvirkni og athyglisbrestur

Sífellt fleiri börn greinast með einhverfu og sífellt fleiri börn eru greind með ofvirkni með athyglisbrest.  Það eru eflaust margar skýringar. Ein skýring er sú að greiningaraðferðirnar séu orðnar betri og fíngerðari þannig að hátterni sem var greint af alþýðu sem eitthvað annað sé núna greint rétt. Önnur skýring er sú að eitthvað sé í lífsmynstri nútímasamfélaga sem valdi aukningu. Enn önnur skýring gæti verið sú að samfélög okkar séu þannig núna að það sem einu sinni var ekki alvarlegt sjúkdómseinkenni heldur færni sem nýttist í lífsbaráttu eða alla vega kom ekki að sök sé núna skaplyndi sem passar illa inn í það samfélag sem nú er að verða til.

Það hafa aðrir bent á að þessi frétt í mbl.is um algengni einhverfu í USA er byggð á skrýtnum tölum. Það var í gagnrýnisgrein um þessar tölur sagt: "All these studies have limitations, and many produce a range of estimates. The new one — done among 8-year-olds in 14 states — found as few as 1 in 303 cases in Alabama and as many as 1 in 94 in New Jersey." Það er áhugavert að skoða hvers vegna tíðni einhverfu er greind svona miklu hærri í New Jersey. Það er miklu tæknivæddara samfélag heldur en djúpa suðrið og biblíubeltið í Alabama og lífstíll öðruvísi.

Störf í nútímasamfélagi krefjast allt annars konar færni, margt af einhæfum störfum er farið, mörg slík störf eru núna unnin með vélum og tölvum og flest störf krefjast margvíslegra samskipta við aðra. Það er gerólíkt bændasamfélagi þar sem einyrkjar gátu unnið á sama hátt ár eftir ár og kynslóð eftir kynslóð og þekkingin sem þurfti til að vinna störfin var óbreytanleg og einföld að hún barst í munnlegri geymd frá kynslóð til kynslóðar, svona þekking eins og það væri passlegt að hefja slátt þegar hringlaði í peningagrasinu. 


mbl.is Einhverfa algengari meðal bandarískra barna en talið hefur verið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband