Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Hvar er konan í stjórn Samorku? Hvar er konan á fundi útvegsmanna?

Ég tel og tel og reyni að finna hvort það sé einhver kona í stjórn Samorku en ég fæ út að það séu bara karlar í aðalstjórn og bara karlar í varastjórn. Finnst fólki þetta í lagi? 

Hvað er Samorka?

Samorka eru samtök veitufyrirtækja á Íslandi. Samtökin voru stofnuð árið 1995 við samruna Sambands íslenskra hitaveitna (stofnuð 1980) og Sambands íslenskra rafveitna (stofnuð 1942). Aðilar að samtökunum eru allar hitaveitur og rafveitur landsins ásamt flestum vatnsveitum. Aukaaðilar eru fyrirtæki og stofnanir sem tengjast orku- eða veitufyrirtækjum með einhverjum hætti.

Ég held að veitufyrirtæki á Íslandi séu ekki einkafyrirtæki.  Þó fyrirtækin séu skreytt með hf þá eru þau að ég held flest í  eigu íslensku þjóðarinnar. Það getur ekki verið eðlilegt að helmingur íslensku þjóðarinnar komi hvergi nærri því að ráðskast með auðlindir Íslands. En svona er sem sé stjórnin í dag. Út af hverju ætli allir í aðalstjórn og allir í varastjórn séu karlmenn? Ætli það sé út af þessu mystiska lögmáli um að það sé alltaf verið að fá til hæfasta einstaklinginn og þar hittist svo undarlega á trekk í trekk að það séu engar konur í hópi hinna hæfustu og útvöldu til forustu?

Svona er Moggafréttin: 

Á aðalfundi Samorku var Franz Árnason, Norðurorku, kjörinn formaður stjórnar og tekur hann við formennsku af Friðrik Sophussyni, Landsvirkjun. Þórður Guðmundsson, Landsneti, kemur nýr í stjórn í stað Kristjáns Haraldssonar, Orkubúi Vestfjarða. Kristján er varamaður í nýrri stjórn og kemur þar inn í stað Páls Pálssonar, Skagafjarðarveitum.

Ný stjórn á að öðru leyti eftir að skipta með sér verkum en hana skipa nú:

Ásgeir Blöndal, Selfossveitum, Franz Árnason, Norðurorku, formaður, Friðrik Sophusson, Landsvirkjun, Guðmundur Þóroddsson, Orkuveitu Reykjavíkur, Júlíus Jónsson, Hitaveitu Suðurnesja, Tryggvi Þór Haraldsson, Rarik og Þórður Guðmundsson, Landsneti.

Varamenn:

Dagur Jónsson, Vatnsveitu Hafnarfjarðar, Hreinn Hjartarson, Orkuveitu Húsavíkur og Kristján Haraldsson, Orkubúi Vestfjarða.

Ég fór óvart inn á landsfund félags íslenskra útvegsmanna fyrir nokkrum árum og tók þetta vídeóbrot. Þetta er skemmtiefni sem ég býð upp á núna á föstudagskvöldi þ.e. að finna konurnar í stjórn samtaka veitufyrirtækja á Íslandi og finna konurnar sem sjá má á þessu vídeóklippi af landssambandi útgerðarmanna.

Eru stjórnmálamenn sem bjóða okkur upp á þessa stöðu í íslensku samfélagi á árinu 2007 trúverðugir þegar þeir tala um jafnrétti kynjanna?


mbl.is Franz Árnason nýr formaður Samorku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Godhavnsdrengene

Umræða um barnaheimili eins og Breiðavíkurheimilið virðist vera algengt á hinum Norðurlöndunum. Þetta tengist breyttri sýn á uppfóstur  og hlutverki barnaverndaraðila og endurmati á hversu heppilegar uppeldisaðstæður slík barnaheimili voru. Godhavnsdrengene eru samtök manna sem hafa verið á svona barnaheimilum.

Hér eru nokkur dæmi úr grannlöndum 

Drengehjemmet Godhavn í Danmörku 

Stulen barndom Barnhemmet Skärsbo i Alingsås

 Overgreb i Sverige

Stulen barndom - Dokument inifrån - Svensk TV

Tyrkisk Børnehjem Misþyrmingar  á tyrknesku barnaheimili


Radio Dokumentar udsendelser

Svo er hérna vefurinn http://radiogodhavn.dk/forum/index.php

 

 

 


Landlæknir, skottulækningar og Byrgismálið

Núna er komin frétt á Rúv um að landlæknir hafi beðist geðlæknir afsökunar en geðlæknirinn  skrifaði embættinu fyrir fjórum árum og benti á kynferðismisnotkun í Byrginu. 

Í skýrslum og bréfum ríkisstjórnarinnar tala stjórnvöld ítrekað um Byrgið sem meðferðarstofnun. Í einni skýrslunni segir að þar fari fram afeitrun, endurhæfing og bráðaþjónusta. Landlæknisembættið hefur beðið Pétur Hauksson geðlækni afsökunar á því að bréf um kynferðismisnotkun í Byrginu hlaut engin viðbrögð embættisins fyrir fjórum árum.

Það er mjög erfitt fyrir landlæknisembættið að sýna fram á að það hafi rækt þær eftirlits- og ráðunautsskyldur sem það hefur  skv. lögum sjá nánar í þessu bloggi  Þekkir landlæknir ekki lög um skyldur landlæknis?

Það er ekki eins og sú ábending sem embættið fékk hafi verið frá einhverjum nafnlausum kverúlant út úr bæ, þetta var bréf frá fagaðila, sérfræðingi á því sviði sem landlæknisembættis starfar á.

 Ég er ekki löglærð og ég veit ekki alveg hver verkaskipting heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis er en mér sýnist að í þessu máli hafi faglegt eftirlit átt að koma frá Landlæknisembættinu. Í lögum um landlæknisembættið segir: " Landlæknir skal vera ráðunautur ráðherra og ríkisstjórnar um allt, er varðar heilbrigðismál." og þar stendur líka: " Landllæknir heldur uppi eftirliti með lækningastarfsemi allri, m. a. í því skyni að sporna við skottulækningum og annarri ólögmætri lækningastarfsemi."

Alvarlegasti þáttur Byrgismálsins er ekki fjármálaóreiðan heldur sú meinta kynferðismisnotkun sem þar átti sér stað.  Þar verður að kalla landlæknisembættið til ábyrgðar.  Miðað við forsögu stjórnanda Byrgisins og fyrri fjármálaóreiðu þá var það afar mikið dómgreindarleysi og klúður með almannafé hjá félagsmálaráðuneyti að moka peningum eftirlitslaust í þennan rekstur. 

En mistök eru til að læra af þeim. Ég held að þetta módel um svona  einkarekstur sem lifir á peningakrana sem skrúfað er frá hjá hinu opinbera sé víða og fari vaxandi. Má þar nefna öldrunarstofnanir og skólastofnanir sem reknar eru af ýmis konar samtökum og félögum. Hvernig er eftirliti háttað með öldunarstofnanir og umönnunarstofnanir? Ég á þá ekki við fjármálaeftirlit sem auðvitað verður að vera til staðar heldur líka eftirlit með því að það fólk sem opinberir aðilar greiða þjónustu fyrir á þessum stöðum fái þá þjónustu sem til er ætlast og lifi með þeirri reisn sem við viljum að allir búi við. Talandi um öldrunarstofnanir þá er ég ekki að skilja hvers vegna það gildir ekki sama um slíkar stofnanir og t.d. um Kópavogshælið og Sólheima í Grímsnesi, fagaðilar hafa bent á að það eigi ekki að vera stórir staðir þar sem eingöngu er fatlað fólk og viljað blöndun í samfélaginu. Af hverju gildir annað um aldraða?

 


Vélar og bölvunarfræði, sigfræði, reikistofnun og menntagat

Ég var að skrifa punkta frá fundum og skrifaði óvart sigfræði í staðinn fyrir siðfræði og bölvunarfræði í staðinn fyrir tölvunarfræði. Þetta minnti mig á skemmtilegar ásláttarvillur eins og í einu plaggi frá Reiknistofnun háskólans var talað um reikistofnun og svo man ég eftir plaggi frá menntamálaráðuneyti fyrir þar sem talað var um menntagat.is en auðvitað var átt við Menntagáttina á menntagatt.is

Svona stafsetningarvillur geta verið skemmtilegar og dregið upp í huga okkar allt aðrar myndir en venjulega af  fyrirbærum. Gaman að spá í íslenskunni og sjá hana stundum gegnum spéspegil, Guðfríður Lilja er búin að  finna gömul og gleymd orð byrgisskapur og byrgismaður sem eru bara nokkuð fín í dag.  

Það er kannski viðeigandi að kalla tækninýjungafræði bölvunarfræði, það er í stíl vil orðið sem við notum fyrir maskínur en á íslensku heita þær vélar.   

 


Allt á sömu bókina lært

Fyndið myndband um hinn  norræna Ansgar sem þarf að taka nýja tækni í notkun og fara yfir í bók úr upprúlluðum ströngum. 


 Um norræna postulann Ansgar:

Þegar Karla-Magnús færði endimörk ríkis síns til norðurs, komust Danir í nána snertingu við löndin í suðri. Þeim tókst að stöðva framrás Frankanna og árið 811 var gert samkomulag um það, að áin Eider (Egedorae fluminis) skyldi marka landamæri Danaveldis til suðurs og hélzt sú skipan til 1864. Loðvík I. keisari hinn frómi, sonur Karla-Magnúsar, reyndi að kristna Dani og sendi í því skyni Ansgar munk til Heiðarbæjar árið 826. Ekki hafði hann erindi sem erfiði, en árið 831 stofnaði Loðvík erkibiskupsstól í Hamborg og skipaði Ansgar í embætti. Skyldi hann ráða fyrir kristnum á Norðurlöndum. (heimild: Læknablaðið)

Heilagur  Ansgar (801-865) stjórnaði trúboðsferðum til Norðurlanda sem erkibiskup í Brimum og Hamborg. Hann var franskur, hafði menntast og starfað í Corbie nærri Amiens, einum aðalpílagrímastaðnum Marteinsdýrkenda og hafði heilagan Martein sem fyrirmynd í lifnaðarháttum og embættisfærslu. (heimild: Ólafur Torfason)


Blogglestur á Alþingi

Í gærkvöldi las ég á bloggi eins nemenda míns að hann hefði verið að hlusta á hádegisfréttir og þar hafi verið sagt frá umræðum í Alþingi og alþingismaður vitnað í moggabloggið mitt salvor.blog.is. Ég  fann svo þessa tilvitnun í ræðu Magnúsar Þórs  í dag á Alþingisvefnum. Þetta er ágætt dæmi um víxlverkun opinberrar umræðu á Íslandi, umræðu sem fer fram í ljósvakamiðlum, dagblöðum og tímaritum, vefsetrum fjölmiðla eins og mbl.is og visir.is, spjallvefjum eins og malefnin.com og barnaland.is og á mörg þúsund bloggum. 

Magnús þór segir í niðurlagi ræðu sinnar:

Ég held að þetta veki okkur líka öll til umhugsunar um að hugsanlega geti eitthvað slíkt viðgangist enn þann dag í dag, virðulegi forseti. Þegar ég var að vafra á netinu í morgun til að kynna mér málið betur rakst ég á bloggfærslu hjá Salvöru Gissurardóttur og mig langar að lesa hana upp að lokum, með leyfi forseta:

„Ég vona samt að sú stund komi ekki í framtíðinni að ég og aðrir sem stöndum nærri börnum sem eiga erfitt með að fóta sig þurfum að horfast í augu við fortíðina og finna sök okkar.“ (Forseti hringir.)

Við skulum hafa þetta í huga.

 Þetta minnir mig á að eitt af börnunum sem ég þekki og talaði um í síðustu bloggfærslu var úthýst á aðseturstað sínum í nótt og veit ég ekki til annars en það sé heimilislaust núna. Það er barn sem flosnaði upp úr skóla löngu áður en lögbundinni skólagöngu á að ljúka. 


Tal um ólöglegt niðurhal

Ég fór á ráðstefnuna Er veraldarvefurinn völundarhús? í gær og varð  ekki mjög ánægð. Þetta var ráðstefna um siðferði á Netinu  sem  SAFT, vakningarverkefni Heimilis og skóla um jákvæða og örugga netnotkun barna og unglinga á Netinu og tengdum miðlum boðaði til.

Ráðstefnan virtist  fyrst og fremst vera til að kynna sjónarmið höfundarrétthafa og sumir fyrirlesararnir töluðu  á skjön við þann veruleika sem ég sé í netheimum núna. Heimili og skóli er á miklum villigötum ef það  félag gerist sérstakur krossfari fyrir höfundarrétthafasamtök. Mestu  ógnanirnar og stærstu siðferðismálin sem mæta börnum og unglingum í dag á Netinu eru ekki að passa sig á því að virða ekki höfundarrétt. 

Erindi Eiríks Tómassonar lagaprófessors fjallaði um  "Ólögmæt not höfundarréttar á Netinu - Hvað er til ráða?  en Eiríkur er lögmaður Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar, STEF.  Eiríkur sagði að nútíma hagkerfi byggðust á því að eignarétturinn væri virtur  Hann sagði að ef eignaréttur af hugverkum væri skertur myndi umsvifalaust draga úr hagvexti. Þarna er ég ósammála Eiríki. Ég held að ýmsir manngerðir þröskuldar þ.a.m. höfundarréttarlög sem eru ekki í takt við Internetþróun séu mikill dragbítur á framþróun. Sérstaklega virka slíkir þröskuldar í að halda þeim fátæku og umkomulausustu utangátta og án möguleika á að bæta stöðu sína og auka þekkingu sína og færni. Þetta er svona eins og fyrir tíma almenningsbókasafna þar sem bækur voru aðeins í eigu auðmanna og engir aðrir höfðu aðgang að bókakosti. Það ætti öllum fræðimönnum að vera ljóst hvað sem frjálsast flæði þekkingar um heiminn hefur á þekkingu sem háskólasamfélög miðla. Það markaðskerfi sem við búum við núna er ekki að virka við þau vinnubrögð sem eru að ryðja sér til rúms. Það hefur líka sýnt sig að það eru að vaxa upp á Netinu ýmis konar samfélög og þekkingar- og efnisbrunnar sem byggja á annars konar höfundarrétti en hinum hefðbundna og þó hefðbundin hagfræði kenni "The Tragedy of the Commons" þá er engin tragedía í gangi varðandi  almenninga á Netinu eins og  "open source" og wikipeda samfélög. Það virðist virka bara nokkuð vel að hafa svona samvinnuhreyfingu á Netinu. 

Brynjólfur Bjarnason forstjóri Símans fjallaði um ábyrgð samskiptafyrirtæki og hann tók Youtube og Myspace sem dæmi um jákvæðar hliðar netsins.  Hann sagði að sennilega væri rétt undir 90% heimila á Íslandi tengd við Internetið sem væri það hæsta í heiminum.

John Kennedy flutti erindið "Fighting music Piracy" sem ég vissi nú fyrir að mér myndi ekki getast að. Þetta erindi var virkilega stuðandi og næstum ógnandi, fyrirlesarinn notaði orðalag eins og "if necessary we will take actions" og "... when they see we are serious they are likely to think twice" eða sem sagt boðskapurinn var að ef þið gegnið ekki með góðu þá förum við í hart.  Svona orðræða passar ábyggilega einhvers staðar í hagsmunagæslu höfundarrétthafa en hún passar ekki á ráðstefnu Heimilis og skóla um siðferði á Netinu.

Anna Kirah líkti fjölskyldum í dag við innflytjendafjölskyldur, það er góð samlíking. Börnin eru "digital natives" en foreldrarnir eru oft ekki með á nótunum með hvað er að gerast. 

Saft verkefnið og auglýsingaiðnaður á Íslandi standa núna að auglýsingaherferð um siðferði á Netinu. Það eru góðar auglýsingar og vekjandi því margir foreldrar eru andvaralaus um hvað er að gerast á Internetinu og hvers konar efni börn þeirra eru að nota. 


Breiðavík - Horfst í augu við fortíðina

Lalli JónsKastljósþátturinn í kvöld var áhrifamikill  og raunalegur. En það verður að horfast í augu við fortíðina til að geta skilið betur framtíðina. Myndin hér til hliðar þar sem við horfumst í augu við Lalla Johns er ein af andlitsmyndum zeranico 

Lalli Johns var einn af þeim drengjum sem vistaður var í Breiðuvík. Það var viðtal við hann í fangelsinu á Litla Hrauni. 

Breiðavík var ekki gott heimili og bjó börn og unglinga ekki vel undir lífið. Ég hugsa að Breiðavík hafi tekið við drengjum sem ekki voru önnur úrræði til fyrir, drengjum sem hefðu þurft á einhvers konar meðferð og sálgæslu að halda. Ætli engum hafi liðið vel þarna? Ætli enginn hafi komið bættari út úr dvölinni?

Það hafa komið fram alvarlegar ásakanir á hendur manni sem var þarna forstöðumaður lengi og nú er látinn.

Breiðavíkurdvölin virðist hafa gert líf margra drengja að martröð.

Ég fór áðan yfir hversu mörg börn ég þekki  til sem eru í sömu sporum  núna og búa við  sams konar aðstæður og  drengirnir sem sendir voru á sínum tíma í Breiðavík. Ég taldi átta börn sem núna á aldrinum tólf ára til tvítugs, sum í fjölskyldu minni og sum í fjölskyldum fólks sem ég þekki vel.  Nokkur þeirra hafa dvalið á heimilum í sveit eins og Torfastöðum og veit ég ekki til annars en sú dvöl hafi verið þeim til góðs. Nokkur þeirra hafa verið vistuð á einkaheimilum og nokkur  verið á meðferðarstofnunum og í vímuefnameðferð. Sum hafa gleymst í kerfinu.

Ég reyndi fyrir jól að hafa samband við barnaverndaryfirvöld í Reykjavík varðaði eitt barnið sem varð fyrir árás í strætisvagni. Sá sem ég talaði við var að flýta sér á fund. Ég spurði hvort viðkomandi vissi ekki af árásinnni og við hvernig aðstæður barnið byggi og taldi til öryggis upp nokkur atriði. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég hef bent barnaverndaryfirvöldum á aðstæður þess barns og bent á ábyrgð þeirra, ábyrgð sem verður að koma til ef foreldrar eru ekki nógu sterkir eða geta ekki tekið á aðstæðum.  Barnið sem um ræðir lítur hins vegar svo á að það sé á flótta undan afskiptum barnaverndaryfirvalda og það hefur tekið þann kost að reyna að bjarga sér sjálft. 

Ég vona samt að sú stund komi ekki í framtíðinni að ég og aðrir sem standa nærri börnum sem eiga erfitt með að fóta sig þurfum að horfast í augu við fortíðina og finna sök okkar. 


Google Earth, óþokkar og þjóðaröryggi

Ég hef furðað mig á að heyra ekki fyrr umræðu um hvað gerist ef fólk ætlar að nota sér upplýsingarnar á Google Earth til að fremja spellvirki. Það sama á reyndar líka við um mjög viðkvæman og mikilvægan infrastrúktúr í samfélagi okkar t.d. upplýsingar um legu sæstrengja.

Til skamms tíma þá var nokkuð nákvæmt kort af hvað sæstrengurinn lá til Íslands á opnum vefsvæðum, hugsanlega er það kort einhvers staðar ennþá á vefnum. Tilgangurinn var að ég held að gefa fiskiskipum upplýsingar um hvar sæstrengurinn lægi svo þau væru ekki að slíta hann í sundur með botnvörpum og öðrum veiðarfærum. Það var fyrir 11. september og fáir pældu  í að það yrðu ef til vill unnin skemmdarverk af einhverjum aðilum sem vildu lama samskiptakerfi okkar.

 Ýmis tengivirki rafmagns og hitaveitu og vatnsgeyma og vatnsverndarsvæði sem og náttúrulega jarðgöng og brýr eru líkleg mörk og það myndi valda miklum usla ef þau væru í sundur. Það skelfir mann tilhugsunin hversu berskjölduð við erum fyrir ýmis konar voðaverkum frá óvinveittum aðilum. Það getur verið tilgangur slíkra aðila eingöngu að skapa glundroða og hræðsluástand. 

Í þáttum sem voru í sjónvarpinu um ríki Máranna í Andalúsíu og fall þess þá var umfjöllun sem hafði mikið áhrif á mig. Þar var því haldið fram að því fullkomnari sem þjóðfélagið er þeim mun viðkvæmara er það og  auðveldara  að skemma það og brjóta það niður. Það er nokkuð til í því, fullkomið þjóðfélag byggir á ýmis konar sérhæfingu og ýmis konar tengslum og flæði af vörum, þjónustu og menningu og einstökum  einingum sem háðar eru öðrum einingum. Einfalt þjóðfélag þar sem nánast allir eru með eins konar sjálfþurftarbúskap og ekki háðir öðrum um aðdrætti  getur alveg þolað að einhverjar einingar lamist, aðrar einingar geta samt starfað áfram. En það þarf ekki nema að klippa sundur eina líftaug í fullkomnari samfélagi til að allt fari í glundroða, vagga menningar var þegar menn sameinust um áveitukerfi en eyðilegging menningar er svo þegar ýmis konar veitustraumar eru stöðvaðir. 

Hér má nefna að Amish trúarhópurinn sprettur upp úr andstöðu við hernað og margir skrýtnir siðir í þeirri trú eru tengdir hermennsku og því að vera engum háður. Amish menn mega ekki vera með yfirskegg og þeir mega ekki bera tölur á fötum því það það var tengd einkennisbúningi  hermanna. Amish fjölskyldur mega heldur ekki vera tengdar umheiminum með leiðslum, það má ekki nota rafmagn (það má nota batterí) eða síma  eða gasleiðslur og auðvitað ekki Internet.

Mér sýnist allt stefna í að við  verðum háðari og háðari öðrum og sérhæfing aukist. Jafnframt verður samfélagið brothættara ef einhverjir skemmdarverkamenn vilja eyðileggja infrastrúktúr.

Þessi frétt var núna á mbl.is:

Google hefur samþykkt að gera sumar gervihnattamyndir af Indlandi, sem hægt er að sjá í Google Earth-forritinu, óskýrar. Ríkisstjórn Indlands óskaði eftir því að Google myndi draga úr nákvæmni mynda af sumum svæðum landsins í öryggisskyni.

Er hægt að byggja upp samfélag þar sem upplýsingar eru opnar og öllum aðgengilegar en þar sem fólk (ríkisstjórnir og aðrir sem eiga að gæta almannaheilla) er búið undir að einhverjir kunni að hagnýta sér þessar upplýsingar til skemmdarverka? 

Sennilega er hagræðið og mögulegur ávinningur af því að hafa kort og aðrar upplýsingar aðgengileg fyrir alla mun meiri en möguleg ógnun. Alvarlegustu ógnir á Íslandi eru ógnir af völdum náttúruhamfara og veðurofsa og ef til vill slysa sem stafa af því að eitthvað fer úrskeiðis.

Við slíkar aðstæður gæti farið svo að það sé betra að sem flestir séu á vaktinni. Tvær nýlegar náttúruhamfarir, flóðin í New Orleans og flóðbylgjan í Asíu sýndu hversu illa miðstýrt viðvörunarkerfi og viðbragðsáætlun  stjórnvalda virkaði.

Stundum er alls ekki gott fyrir almannaheill að stjórnvöld geti pukrast með upplýsingar, ég er nokkuð viss um það að ef hér á Íslandi myndi koma upp afar hættuleg og smitandi drepsótt þá myndu fyrstu fjölmiðlafréttir af því vera villandi og reynt væri að bæla niður fréttir  þ.e. ef stjórnvöld teldu sig geta ráðið við að hefta útbreiðslu, fréttir myndu verða hetjusögur af hvað stjórnvöld væru mikið að vinna í málinu og hvað það gengi vel og hvað það væri ekkert að óttast... 

Það er vel hægt að ljúga að einum milljarði af fólki í Kína eins og við sáum í þáttunum um Maó formann sem voru í sjónvarpinu nýlega og það ætti að veitast auðvelt að ljúga að þrjú hundruð þúsund Íslendingum. Við þurfum að vera á verði yfir að það sé ekki gert og taka eftir öllum merkjum um að það sé ekki allt með felldu.

Psss... Ég var að skoða að það hefur einhver merkt inn á wikimapia.com  hvað fjársjóður Egils Skallagrímssonar er grafinn. Sniðugt að fara á stúfana og hafa skóflu með sér.Grin Annars er mjög áhugavert að í stórborgum eru alls konar merkingar og kort sem bara innvígðir geta lesið.  Áður en ókeypis heitir reitir urðu algengir þá var oft merkt hvar hægt væri að komast í netsamband (með því að stela af bandvídd einhvers annars) og hversu öflug tengingin væri. Ég hugsa að ef stjórnvöld gera mikið af því að leyna upplýsingum s.s. kortum fyrir almenningi þá muni almenningur bara koma sér upp kortum sjálfur og þá hugsanlega nota ýmis konar nettækni til þess.


mbl.is Myndir af „viðkvæmum stöðum“ á Indlandi gerðar óskýrar í Google Earth
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opinn hugbúnaður fyrir framhaldsskólanema í París

 Í fréttinni French students to get open-source software on USB key kemur fram að yfirvöld í Frakklandi ætla að dreifa USB minnislyklum með opnum hugbúnaði í byrjun næsta skólaárs til allra framhaldsskólanema í París. Vonandi vekur þetta áhuga íslenskra menntamála- og fræðsluyfirvalda. Þetta væri sniðugt að gera einnig hérlendis. 

Það er líka líklegt að Internetsamband í París verði ókeypis í framtíðinni, ég held nú að það sé víða unnið að því í stórborgum, sums staðar eru heilu göturnar orðnir heitir reitir þar sem allir komast ókeypis í netsamband. Reyndar held ég að það yrði líka lyftistöng fyrir þorp á Íslandi að öllum bjóðist ókeypis netsamband, það er að renna upp sá tími að ferðamenn eða þeir sem hafa valið að hafa annað heimili í þorpum til að dvelja þar stuttan tíma í einu telja ómissandi að hafa alls staðar netsamband. Þorp sem eru vel tengd og bjóða aðkomufólki (ferðamönnum, útlendu farandverkafólki og fólki sem hefur þar aðsetur hluta af ári) auðveldan aðgang að Internetinu hafa forskot.

Það er mjög erfitt að sannfæra þá sem eru krossfarar fyrir markaðshyggju og frjálshyggju um gildi þess að gefa verkfæri og veita ókeypis þjónustu. En sannleikurinn er bara sá að það eru að molna niður mörg þau viðskiptalíkön sem við höfum fylgt varðandi samskiptabúnað og miðlun á upplýsingum. Í því undarlega millibilsástandi sem núna ríkir þar sem höfundarréttarlög eru alveg á skjön við veruleikann sem er í vinnu og miðlun á Netinu þá er eina  vitræna leiðin fyrir skóla og þá sem vilja og verða að fylgja lögum að nota opinn hugbúnað og nota efni sem er opinn aðgangur að og leyfi til að afrita og vinna áfram með. Sem betur fer þá vex slíkt efni dag frá degi. Við stofnuðum í haust íslenskt félag áhugafólks um opinn hugbúnað í skólastarfi og við höfum reynt að vekja athygli á gildi opins hugbúnaðar. Sigurður Fjalar skrifaði bréf til Reykjavíkurborgar.

En hér er hluti af þessari frétt: 

San Francisco (IDGNS) - French authorities will give out 175,000 USB memory sticks loaded with open-source software to Parisian high-school students at the start of the next school year. The sticks will give the students, aged 15 and 16, the freedom to access their e-mail, browser bookmarks and other documents on computers at school, home, a friend's house or in an Internet café -- but at a much lower cost than providing notebook computers for all, a spokesman for the Greater Paris Regional Council said Friday.

It's a way to reduce the digital divide, said spokesman Jean-Baptiste Roger.

The sticks will probably contain the Firefox 2 Web browser, Thunderbird e-mail client, an office productivity suite such as OpenOffice.org 2, an audio and video player, and software for instant messaging, he said.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband