Google Earth, óþokkar og þjóðaröryggi

Ég hef furðað mig á að heyra ekki fyrr umræðu um hvað gerist ef fólk ætlar að nota sér upplýsingarnar á Google Earth til að fremja spellvirki. Það sama á reyndar líka við um mjög viðkvæman og mikilvægan infrastrúktúr í samfélagi okkar t.d. upplýsingar um legu sæstrengja.

Til skamms tíma þá var nokkuð nákvæmt kort af hvað sæstrengurinn lá til Íslands á opnum vefsvæðum, hugsanlega er það kort einhvers staðar ennþá á vefnum. Tilgangurinn var að ég held að gefa fiskiskipum upplýsingar um hvar sæstrengurinn lægi svo þau væru ekki að slíta hann í sundur með botnvörpum og öðrum veiðarfærum. Það var fyrir 11. september og fáir pældu  í að það yrðu ef til vill unnin skemmdarverk af einhverjum aðilum sem vildu lama samskiptakerfi okkar.

 Ýmis tengivirki rafmagns og hitaveitu og vatnsgeyma og vatnsverndarsvæði sem og náttúrulega jarðgöng og brýr eru líkleg mörk og það myndi valda miklum usla ef þau væru í sundur. Það skelfir mann tilhugsunin hversu berskjölduð við erum fyrir ýmis konar voðaverkum frá óvinveittum aðilum. Það getur verið tilgangur slíkra aðila eingöngu að skapa glundroða og hræðsluástand. 

Í þáttum sem voru í sjónvarpinu um ríki Máranna í Andalúsíu og fall þess þá var umfjöllun sem hafði mikið áhrif á mig. Þar var því haldið fram að því fullkomnari sem þjóðfélagið er þeim mun viðkvæmara er það og  auðveldara  að skemma það og brjóta það niður. Það er nokkuð til í því, fullkomið þjóðfélag byggir á ýmis konar sérhæfingu og ýmis konar tengslum og flæði af vörum, þjónustu og menningu og einstökum  einingum sem háðar eru öðrum einingum. Einfalt þjóðfélag þar sem nánast allir eru með eins konar sjálfþurftarbúskap og ekki háðir öðrum um aðdrætti  getur alveg þolað að einhverjar einingar lamist, aðrar einingar geta samt starfað áfram. En það þarf ekki nema að klippa sundur eina líftaug í fullkomnari samfélagi til að allt fari í glundroða, vagga menningar var þegar menn sameinust um áveitukerfi en eyðilegging menningar er svo þegar ýmis konar veitustraumar eru stöðvaðir. 

Hér má nefna að Amish trúarhópurinn sprettur upp úr andstöðu við hernað og margir skrýtnir siðir í þeirri trú eru tengdir hermennsku og því að vera engum háður. Amish menn mega ekki vera með yfirskegg og þeir mega ekki bera tölur á fötum því það það var tengd einkennisbúningi  hermanna. Amish fjölskyldur mega heldur ekki vera tengdar umheiminum með leiðslum, það má ekki nota rafmagn (það má nota batterí) eða síma  eða gasleiðslur og auðvitað ekki Internet.

Mér sýnist allt stefna í að við  verðum háðari og háðari öðrum og sérhæfing aukist. Jafnframt verður samfélagið brothættara ef einhverjir skemmdarverkamenn vilja eyðileggja infrastrúktúr.

Þessi frétt var núna á mbl.is:

Google hefur samþykkt að gera sumar gervihnattamyndir af Indlandi, sem hægt er að sjá í Google Earth-forritinu, óskýrar. Ríkisstjórn Indlands óskaði eftir því að Google myndi draga úr nákvæmni mynda af sumum svæðum landsins í öryggisskyni.

Er hægt að byggja upp samfélag þar sem upplýsingar eru opnar og öllum aðgengilegar en þar sem fólk (ríkisstjórnir og aðrir sem eiga að gæta almannaheilla) er búið undir að einhverjir kunni að hagnýta sér þessar upplýsingar til skemmdarverka? 

Sennilega er hagræðið og mögulegur ávinningur af því að hafa kort og aðrar upplýsingar aðgengileg fyrir alla mun meiri en möguleg ógnun. Alvarlegustu ógnir á Íslandi eru ógnir af völdum náttúruhamfara og veðurofsa og ef til vill slysa sem stafa af því að eitthvað fer úrskeiðis.

Við slíkar aðstæður gæti farið svo að það sé betra að sem flestir séu á vaktinni. Tvær nýlegar náttúruhamfarir, flóðin í New Orleans og flóðbylgjan í Asíu sýndu hversu illa miðstýrt viðvörunarkerfi og viðbragðsáætlun  stjórnvalda virkaði.

Stundum er alls ekki gott fyrir almannaheill að stjórnvöld geti pukrast með upplýsingar, ég er nokkuð viss um það að ef hér á Íslandi myndi koma upp afar hættuleg og smitandi drepsótt þá myndu fyrstu fjölmiðlafréttir af því vera villandi og reynt væri að bæla niður fréttir  þ.e. ef stjórnvöld teldu sig geta ráðið við að hefta útbreiðslu, fréttir myndu verða hetjusögur af hvað stjórnvöld væru mikið að vinna í málinu og hvað það gengi vel og hvað það væri ekkert að óttast... 

Það er vel hægt að ljúga að einum milljarði af fólki í Kína eins og við sáum í þáttunum um Maó formann sem voru í sjónvarpinu nýlega og það ætti að veitast auðvelt að ljúga að þrjú hundruð þúsund Íslendingum. Við þurfum að vera á verði yfir að það sé ekki gert og taka eftir öllum merkjum um að það sé ekki allt með felldu.

Psss... Ég var að skoða að það hefur einhver merkt inn á wikimapia.com  hvað fjársjóður Egils Skallagrímssonar er grafinn. Sniðugt að fara á stúfana og hafa skóflu með sér.Grin Annars er mjög áhugavert að í stórborgum eru alls konar merkingar og kort sem bara innvígðir geta lesið.  Áður en ókeypis heitir reitir urðu algengir þá var oft merkt hvar hægt væri að komast í netsamband (með því að stela af bandvídd einhvers annars) og hversu öflug tengingin væri. Ég hugsa að ef stjórnvöld gera mikið af því að leyna upplýsingum s.s. kortum fyrir almenningi þá muni almenningur bara koma sér upp kortum sjálfur og þá hugsanlega nota ýmis konar nettækni til þess.


mbl.is Myndir af „viðkvæmum stöðum“ á Indlandi gerðar óskýrar í Google Earth
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband