Þúsund þorskar og allir menn eru konur

Kolbrá syngur

Kolbrá söng brot úr ljóði sínu "All men are women"  í Kastljósi í gær þar sem sagt var  frá trúbadorakeppninni Þúsund þorskar. Kolbrá er hæfileikaríkur og fjölhæfur listamaður, í  tónlist og myndlist og ljóðlist. Ég held að hún hafi frumflutt þetta lag sem  hluta af opnunargjörning á listsýningu. Hún hefur sungið þetta lag núna í seinustu tveimur afmælum Ástu, ég vona að það verði árlegur viðburður.

Það var ágæt tilbreyting frá sorgarsögum af barnaheimilum og vistheimilum að horfa á fréttina um leitina að hinum nýja Bubba. Minnir  mig reyndar á að ég var í félagskapnum Vísnavinir sem hélt svona trúbadorakvöld á Borginni og það var einmitt á þeim kvöldum sem Bubbi kom sá og sigraði. Árni Johnsen söng líka alltaf og trallaði á þessum kvöldum og gerði ýmsar glóríur eins og að sleppa lausum hrúti í salnum eftir að vísnakvöldin höfðu flust í þjóðleikhúskjallarann. En það var nú samt ekki mikið klappað fyrir Árna. Talandi um vistheimili þá held ég að Kolbrá hafi verið á unglingaheimili ríkisins sem unglingur og einhvers staðar sagði hún í viðtali ef ég man rétt að hún væri sú eina úr þeim hópi sem dvaldi þar með henni sem ekki hefði farið í ruglið. 

Á hinum ýmsu bloggum hefur verið lagt fram ýmislegt sögulegt efni margra áratuga gamalt um vistheimilin á Bjargi og Breiðavík.  Hér er greinin Unglinga á að ala upp í þrælsótta sem er viðtal við stúlkur sem dvöldu á Bjargi  (frá nimbus.blog.is) og hér er myndasyrpa af Breiðavíkurdrengjunum (frá Hlyn).  Myndirnar og viðtölin sýna ekki neitt skelfilegar aðstæður. Stúlkurnar á Bjargi eru ekkert beygðar í viðtalinu, þvert á móti þá lýsa þær því hróðugar hvernig þær hafi virt að vettugi ýmsar reglur og virðast stundum hafa komist upp með það. Reyndar finnst mér þetta viðtal við þær vera tímalaust, þetta er sýn uppreisnargjarna unglinga sem lýsa frati á það kerfi sem er að reyna að aga þær til.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband