Byrgið , Breiðavík og bloggið

Hér í eina tíð þá blaðaði ég gegnum dagblöðin og taldi hversu margar myndir af konum  prýddu greinarnar og hversu margar af körlum. Núna er talning dagsins að fylgjast með hvað margar konur  hafa kært Guðmund í Byrginu og hve margir karlar hafa bæst í hóp þeirra sem vitna um hörmulegan aðbúnað og harðræði í Breiðuvík og svo tel ég líka hversu oft gamli prentaði Mogginn (þið vitið, þessi sem maður flettir) vitnar í blogg.

Hér er mín  tölulega greining  á því fréttnæma í dag:

Byrgið

Fréttablaðið hefur eftir landlækni: "Nú viljum við helst að umfjöllun í fjölmiðlum fari að lægja og að við getum farið að aðstoða þetta fólk". Hmmm.... er þetta nú eðlilegt? Er ekki landlæknir aðili að málinu og hugsanlegt að í væntanlegum málaferlum þá verði landlæknisembættið sótt til saka? Landlæknir hefur klárlega dregist inn í málið m.a. hefur komið fram að geðlæknir sendi fyrir mörgum árum erindi til embættisins og benti á einkennileg kynferðissamband starfsfólks og vistmanna. Er ekki í hæsta máta óeðlilegt að landlæknisembættið komið að því að skipuleggja eða veita einhvers konar aðstoð eða úrræði fyrir þá sem hafa núna kært og/eða koma til með að kæra? Landlæknisembættið er hagsmunaaðili, það er klárlega hagsmunir þess að þær konur sem munu sækja dómsmál sæki það ekki til saka og afskipti embættisins eða afskiptaleysi sé ekki í hámæli. 

Á bls. 16 í Fréttablaðinu er góð grein "Var Byrgið meðferðarheimili?" og þar kemur fram að í mörgum opinberum plöggum er það  talið meðferðarstofnun þó nú sé rætt um það sem búsetuúrræði. Það kemur meira segja fram í plöggum frá heilbrigðisráðuneyti  þrátt fyrir að landlæknisembættið hafi synjað Byrginu á mjög skýran hátt um að reka afeitrunardeild. 

Breiðavík og Reykjahlíð

Umfjöllunin um aðila sem tengjast Breiðavík og öðrum heimilum sem börn voru vistuð á er orðið mjög óhugnanleg. Ég sá á málefnin.com að grafnar hafa verið upp minningargreinar um þá aðila sem bornir eru þyngstum sökum og setningar úr þeim hafðar að háði og spotti. Það er allt sem bendir til að Breiðavíkurdvöl margra drengja hafi verið hörmungarvist og böndin berast sérstaklega að einum manni sem stýrði heimilinu. En það hefa margir aðrir verið bornir þungum sökum.

Það sem er einkennilegt við þetta mál er að það er eins og glæpurinn hafi orðið til þegar um hann var fjallað í Kastljósi í sjónvarpinu. Þá náði málið svo miklu skriði að það var rætt á ríkisstjórnarfundi og inn á Alþingi. Það er samt nokkuð svipuð saga sem sögð er í ævisögu Sævars "Stattu þig drengur" sem vakti að ég held ekkert sérstaklega mikla athygli á sínum tíma og margir hafa árum saman þekkt sögu drengja sem voru á Breiðuvík.  Ég spái í hvernig bókmenntafræðingar myndu túlka þessa fjölmiðlaumfjöllun, myndu þeir tala um hryllingsleikhús, myndu þeir tala um grótesku og vitna í Foucault?  

Ég hlustaði á viðtal í Kastljósi við Rósu systur Lalla Johns. Það var átakanlegt og það sem mér fannst átakanlegast var að heyra minningar hennar um hvernig hún lítil stúlka á barnaheimili reyndi að vera góð og hjálpa til og strauja og hugsaði um það eitt að komast heim - og samt kom fram í upphafi viðtalsins að það var einmitt á heimili hennar sem hún var beitt ömurlegu kynferðislegu ofbeldi. Ég fann líka til með móður hennar og valdaleysi hennar og úrræðaleysi. 

Rósa ræðir um barnaheimilið Reykjahlíð og Anna vélstýra skrifaði ágætan bloggpistil um sín uppvaxtarár þar. Það er áhugavert að það er allt önnur saga. Anna segir frá góðu atlæti en Rósu leið ekki vel. Þessar sögur geta báðar verið  sannar, það eru mörg dæmi um það á heimilum, í systkinahópum að það er eins og allt annað umhverfi og allt annar aðbúnaður sem snýr að einu barni heldur en öðru.

Þannig er það líka um sveitadvöl, það tíðkaðist að senda börn í sveit á sumrin og það væri áhugavert að heyra sögur þeirra sem sendir voru í sveit, ég hef sjálf heyrt og lesið margar frásagnir drengja sem dásama sveitardvölina og frjálsræðið þar og  finna náttúrubarnið í sjálfum sér. En ég hef heyrt margar sögur stelpna og stúlkna sem aldar voru upp eða sendar í sveit og þeirra saga er ekki þannig. Það er oft saga um fjötra og innilokun og vinnu og athafnarými sem var bara eldhúsið á bænum. Sennilega er ekkert eitt atriði eins mótandi á hvaða aðbúnað þú færð í bernsku og hversu mikið frelsi þú færð  hvers kyns þú ert.

Í systkinahópum er margt sem ræður hvaða viðmót mætir syskinum, ég hef heyrt margar sögur af yngri systkinum sem voru pínd alla bernsku sína af eldri systkinum og foreldrum og ég hef heyrt og séð sjálf hvernig foreldrar mismuna börnum sínum og snúa alltaf ranghverfunni að einu barni þó að önnur börn búi við gott atlæti á sama heimili.  Ég held að þeir sem það gera séu nú reyndar oftast ekki meðvitaðir um breytni sína

Bæði í Breiðuvíkurminningum og Reykjahlíðarminningum þá hefur verið talað um hafragraut. Það er myndræn líking á því hvernig aðbúnaður var á staðnum, hvað börnin fengu að borða og voru pínd til að éta. Þetta minnir mig á að ég vann einu sinni með manni sem hafði alist upp barnaheimili þar sem ekki var farið vel með börn,  hann var kokkur. Á barnaheimilinu sem hann ólst upp á þá voru börnin látin borða lýsi út á fisk. Sennilega er hægt að ráða í aðbúnaðinn á heimilum eftir því hvaða matur fólki er skammtaður. Talandi um það... það væri kannski öllum hollt að prófa í margar vikur að lifa bara við þann kost sem vistmenn á elliheimilum og hjúkrunarheimilum hafa, borða ekkert nema matinn sem kemur úr stóreldhúsunum og hefur verið í hitakössum í margar klukkustundir. 

Bloggið

Ég taldi alla vega þrisvar í dag umfjöllun um blogg í Mogganum. Mikið hlýtur þetta að vera skrýtið fyrir fólk sem aldrei hefur lesið blogg og veit varla hvað það er. Fyrst er hálfsíða  þar sem birt eru alls konar pistlar úr bloggum á moggablogginuog mynd af bloggurum. Svo var annars staðar yfirskriftin þingmenn blogga og þar var úr bloggi þingmanns. Svo var nú mesta ekki frétt dagsins og það var fréttin um að bloggari hefði lýst því yfir að hann væri hættur að blogga. Út af ást... btw sendi Heartkveðjur til allra á þessum fallega Valentínusardegi InLove


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er ljóst að það þarf að fara fram rannsókn á öllum vistunarheimilum.  Maður sagði við mig í dag ég er hissa að enginn hafi ennþá komið fram og rætt um aðbúnað og meðferð í heimavistarskólum.  Honum vafðist tunga um tönn og sagði maður sá margt sem væri talið kynferðislegt ofbeldi í dag, en var á þeim tíma bara eðlilegur hlutur.  M.a.  talaði hann um einn ákveðin skólastjóra í Reykjanesi sem beitti nemendur miklu harðræði og miskunnarleysi. 

Það þarf ef til vill að skoða fleira en Byrgið, Breiðuvík og Heyrnleysingja.  Það liggja ef til vill víða dökkir skuggar og sorg. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.2.2007 kl. 18:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband