Bloggvíglínan danska og bloggdvali íslenskra netdýra

Það er  lenska hjá bandarískum bloggurum að vera á móti forseta sínum honum Bush.  Ég man í svipinn ekki eftir neinum bandarískum bloggara sem ég les sem er ekki bullandi á móti Bush nema kannski  Michelle Malkin

Danskir bloggarar reisa  sín götuvígi á Netinu og herja á Fogh, sjá þessa grein Blog-front mod Fogh

Stjórnmálamennirnir dönsku blogga nú sem óðir væru og minna á íslensku frambjóðendurna í síðustu kosningum. Síðan lögðust margir hinna íslensku í dvala. Svoleiðis bloggdvalastjórnmálamenn er einhver ný tegund af lífi, netdýr sem vakna upp á fjögurra ára fresti í banastuði en leggjast svo í dvala - ekki þegar vetrar eins og birnir - heldur um leið og kosningin er yfirstaðin. Bara til að spretta upp, sprækari og háværari fyrir næstu kosningar. Sennilega verða þessi íslensku bloggdvalanetdýr að hamast inn á facebook og myspace í næstu kosningum, eins gott að þau sofi vært og safni þrótti fyrir það sprikl.

En þessir dönsku eru voða moderne og halda sumir út vídeódagbók.

Sjá greinina: 

Valgkampen er i gang, også på bloggen

Ég held að stjórnmálamenn viti innst inni að einhvern tíma kemur að því að það verður þessi netheimabarátta sem ræður úrslitum. Sá tími er ekki ennþá kominn. En vonandi drepa stjórnmálamenn á blogginu mann ekki úr leiðindum með einhvers konar jákór og skjallbandalagi þeirra sem eru í sama liði og svo röð af fúkkyrðum til að nota um allt sem andstæðingar í pólitík gera.  Þegar ég hugsa nú um kosningabaráttuna í netheimum þá man ég ekki svipinn eftir neinu eins leiðinlegu eins og bloggátakinu Raddir Röskvu hér um árið. Það var eitthvað gengi sem allt var að blogga um það sama, allir litu eins út, notuðu sömu orð og  voru alveg víðáttuleiðinlegir og svona kópíur hver af öðrum. Ekki samt neitt meinlegir ef ég man rétt. Það er mesta lán fyrir fylgi sumra stjórnmálaflokka hvað fáir fylgjenda þeirra blogga, sérstaklega fyrir flokka þar sem hjarðhegðun er mikil og forustusauðum fylgt í blindni, blogg slíkra fylgenda eru dæmd til að vera afar svæfandi og leiðinleg.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Auðun Gíslason

Getur verið að fylgjendur Bush séu bara ekki skrifandi?  Nei, smá grín, en er ekki eitthvað farið að fækka stuðningsmönnum forsetans.  Þeir eru kannski bara í afskekktum stöðum einsog Klettafjöllum...

Auðun Gíslason, 25.10.2007 kl. 20:44

2 Smámynd: Elías Halldór Ágústsson

Fylgjendur Bush blogga ekki, því þeir geta ekki höfðað til þess hóps þjóðarinnar sem kann að lesa. Þess í stað hafa þeir gerst næstum einráðir í ljósvakamiðlum; þeir eru með þætti á AM útvarpsstöðvum og Fox sjónvarpsstöðinni þar sem þeir gaspra stöðugt endalausa þvælu, vitleysu og lygar um afreksverk forsetans og hvernig þeir sem eru vinstra megin við hann (flestir íslenskir stjórnmálamenn myndu þykja það) séu nasistar sem vilja alræðisstjórn Írans og Osama bin Laden yfir Bandaríkjunum. Þetta þykir pólitísk umræða í Bandaríkjunum; fólk eins og Malkin, Bill O'Reilly, Rush Limbaugh og Ann Coulter vaða uppi með bull og vitleysu þar sem hver lygin á fætur annari er svo geðsýkisleg að það er ekki hægt að ræða við þennan sorglega söfnuð á rökrænum grundvelli, því þau hafa ekki einu sinni þann grundvallarskilning á raunveruleikanum og grundvallaratriðum rökfræðinnar (eða kjósa að leiða það hjá sér, kannski til að villa um fyrir hlustendum) að það sé hægt að tala við þau.

Enda eru þau ekki í samtali, þau eru með einræður. Blogg býður upp á svar. Blogg er hinn lýðræðislegi tjáningarmáti; útvarp og sjónvarp eru fjölmiðlar einræðissinna sem bjóða ekki upp á andsvar.

Elías Halldór Ágústsson, 27.10.2007 kl. 11:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband