"Við á brún hengiflugsins"

Í gær var dómsdagur. Það var dæmt í máli níumenninganna sem ásökuð voru um að ráðast á Alþingi og innan Alþingis voru greidd atkvæði um síðustu útgáfu af Icesave "samningi". Atkvæðagreiðslan var viðhafnarsýning, útvarpað og sjónvarpað frá Alþingi og fjölmiðlar á vakt.  Þetta var svona skrautathöfn þessi atkvæðagreiðsla, svona eins og til að sýna að hér væri gott stjórnarfar, hér væri hlustað á alla og lýðræðisleg umræða og þingmenn, fulltrúar almennings  tækju ábyrgar og yfirvegaðar ákvarðanir. En umræðan skipti engu máli, það var löngu búin að ákveða hvernig þessi atkvæðagreiðsla átti að fara. Svona svipað og með allar  eða flestallar atkvæðagreiðslur á Alþingi. Þær eru svona rútína, mestanpartinn stimplun á stöffi sem kemur frá Evrópusambandinu og svo restin það sem ríkisstjórnarmeirihluti hvers tíma keyrir í gegn, annað hvort með afli meirihluta sem kúgar minnihluta eða með hrossakaupum og möndli að tjaldabaki.

Atkvæðin fóru eftir flokkslínum. Sjálfstæðismenn, Vinstri grænir og Samfylking með, Framsóknarmenn og Hreyfingin á móti.  Sumir gerðu grein fyrir atkvæði sínu. Einn Sjálfstæðisþingmaður að norðan, fyrrum aðstoðarmaður  Geirs Haarde og sjálfur gerandi í bankakerfinu eins og margir aðrir Sjálfstæðismenn sagði  að þetta væri samningur milli fullvalda þjóða. Svo voru nokkrir sem spáðu fyrir um hvernig dómsmál  myndi fara og hættu á að tapa því. Forsætisráðherra talaði um "skelfilegar afleiðingar", sama orðalag og hún hafði notað um aðra Icesave samninga og Sjálfstæðisþingmaður úr Vestmannaeyjum taldi sig geta spáð fyrir um niðurstöðu dómsmáls, hún yrði ekki Íslendingum í hag . "Auðvitað mun Evrópubandalagið ekki leyfa það" sagði hann. Framsóknarþingmaður sagðist sitja hjá því hann mæti að ólíklegt væri að dómsmál myndi vinnast vegna þess að "allt fjármálakerfi í Evrópu sé undir". Einn Sjálfstæðisþingmaður notaði samlíkingu um að þó hann mæti áhættuna litla á að allt færi á versta veg þá væri þetta eins og að ganga með barnabarnið sitt á gljúfurbarmi, hann gæti ekki tekið þá áhættu.

Þessi myndræna málnotkun  "Við á brún hengiflugsins" er liður af kreppumálfari valdhafa. En ég held að það hengiflug sé ekki til nema í huga þeirra sem hafa einhverju að tapa á því að núverandi valdakerfi leggist af. Með valdakerfi á ég ekki eingöngu við lögformlegt vald eins og stjórnvöld og dómstóla heldur kannski frekar  reglur  um hvernig verðmæti eigi að dreifast um samfélög  og hvernig þær reglur og verkfæri til að framfylgja þeim eru farnar að lifa sjálfstæðu lífi, slitnar úr tengslum við raunveruleika. Þessar reglur og verkfæri sem oftast nær eru einhvers konar forskriftir um hvernig verðmæti mæld í peningum eigi að dreifast voru  kannski skynsamlegar og hagnýtar á einum tíma en passa illa við þá heimsmynd og það framleiðslu- og athafnalíf sem við stefnum inn í. Sumar af þessum reglum eru helg vé, reglur um eignarrétt, heilög lögmál um framboð og eftirspurn og lífsgæði sem felast í neyslu, dýrkun á excelskjalahagvexti og reglur um punkta og umbunarkerfi í peningum sem þegnar þjóðfélagsins og framlag þeirra er metið eftir. Það er ef til vill skynsamlegt að horfast í augu við að þetta kerfi er komið að hruni og þar þjónar ekki hagsmunum neinna til langs tíma að endurbæta það.

Það er nú þannig í heiminum í dag að almenningur sem binst samtökum og tekur til sinna ráða og tekur yfir stjórn á sjálfum sér og sínu umhverfi er ekki á brún hengiflugsins. Öðru máli gegnir um stjórnvöld sem skynja ekki sína samtíð.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Salvör fyrir frábæran pistil.

Órökin sanna rangindi þessa samnings. 

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.2.2011 kl. 08:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband