Færsluflokkur: Dægurmál

Drottningarviðtal við sjálfa mig sem mann ársins

bloggrjupanMér er mikill heiður að taka við þessari viðurkenningu sem maður ársins frá tímaritinu Times: "Til hamingju. Þú hefur verið valin(n) „maður ársins“ af tímaritinu Time. Það eru reyndar allir „borgarar hins stafræna lýðveldis“, sem orðið hafa fyrir valinu að þessu sinni, það er að segja, allir sem nota Veraldarvefinn eða búa til efni á hann. ".

Þetta kemur mjög á óvart. En ég er samt tilbúin með mynd af mér sem ég tók á heimili mínu í Sigtúni af mér sjálfri með útsaumaðan púða sem ég bróderaði sjálf og með rjúpur eftir Guðmund frá Miðdal. Það er náttúrulega ekki nógu heimsborgaralegt að sitja í Sigtúni en ekki út í hinum víða heimi í einhverri erlendri höfuðborg.

En hérna í Sigtúni  við borðstofuborði  á  ég  löngum mitt sæti þegar ég blogga og  úti við kvikar borgin sem einu sinni var sjávarpláss með gný sinn og læti. Og hálfvegis vakandi og hálfvegis sofandi eins og í draumi  hér við fartölvuna þá heyri ég þytinn í aldanna sígandi straumi því um gluggann sé ég amerísku öldina í íslensku þjóðlífi líða hjá og alþjóðavæðinguna byrgja útsýni til himinhvolfanna. 

Ég sé Blómaval þar sem einu sinni var gróðurhús og verslun en þar sem  núna er brunaútsala á dótinu sem ameriski herinn skildi eftir þegar hann fór og ég sé tvíburaturnana nýju í Reykjavík teygja sig til himins í hótelbyggingunni við Grand hótel.

 p.s. þetta með rjúpurnar og púðann er vísun í viðtal við Dorrit í Nýju lífi, þar er allt í útsaumi og hún faðmar leirrjúpur sem sagðar eru eftir Guðmund frá Miðdal og mér sýnist þær bara svipaðar og rjúpnastyttan sem ég keypti um árið af Marsibil á Skólavörðustígnum og sem ég hef alltaf haldið að séu frá Funa. Á mínum rjúpum stendur GE 1948 ISLAND.   Það er líka farið með ljóð eftir Jón Helgason í þessu bloggi, stemminguna frá því hann var í Kaupmannahöfn að skoða handritin í bókasafninu þar.


mbl.is Tímaritið Time velur „borgara stafræna lýðveldisins“ mann ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Keyrði yfir umferðareyju

Hér er æsispennandi og glæný frétt frá visir.is. Svo virðist sem maður hafi keyrt yfir umferðareyju. Hann var sem betur fer í bílbelti.  Rannsóknarblaðamenn hafa komist að því að þetta gerðist allt vegna þess að maðurinn skóf ekki rúðurnar á bílnum áður en hann settist undir stýri.

Ég er sæl að búa í landi þar sem svona frásagnir eru fréttir.


Grýla á Bolafjalli

bolafjallsgrylaEins og allir vita þá heldur Grýla til um þessar mundir á Bolafjalli. Þar fer vel um Grýlu og fjölskyldu hennar og þau hafa komið sér vel fyrir í gömlu ratsjárstöðinni. Nú á tímum þykir ekki gott að hírast í helli og vera á vergangi og Grýla vill ekki vera annars staðar en þar sem hún kemst í rafmagn og getur notað alls konar tól og tæki til óhæfuverka og hefur sendibúnað og netsamband.  Hún sendir núna út á burðarbylgju  en hún er að gera tilraunir með útvarpssendingar til að geta hrætt marga í einu á sama tíma.  Sendingar hennar hafa náðst víða um lönd m.a. í Noregi enda hyggur hún á útrás til annarra landa eins og kemur fram í þessari frétt í dag á RÚV:

Landhelgisgæslan fékk í nótt fyrirspurn frá jarðstöð í Bodö í Noregi um hvort eitthvað óvanalegt væri á seyði, eftir að ratsjárstöðin á Bolafjalli við Bolungarvík fór að senda út merki á svokallaðri burðarbylgju. Gervihnöttur nam merkin frá Bolafjalli og sendi upplýsingarnar til Bodö.

Að beiðni Landhelgisgæslunnar voru menn sendir upp á Bolafjall til að kanna, hvort ekki væri allt með felldu. Stöðin hafði þá sent sjálfkrafa út á tveimur tækjum, sem þeir slökktu á. Þá var ljóst, að ekki var um neyðarkall að ræða. Ratsjárstöðin á Bolafjalli er ekki lengur mönnuð og þangað er ekki mokað lengur. Því urðu starfsmenn stöðvarinnar að fara á vélsleða upp á fjallið til að kanna málið. 
 

 


Jólamoggablogg og jólaglæpurinn

jólabófi Gaman að sjá hvað Mogginn er orðinn tæknivæddur, bara kominn með fréttaskot á myndböndum. Afar inntaksríkar og æsispennandi  fréttir eins og þessi um  að jólafréttablað Moggans komi út á morgun. Það er víst stærra en nokkru sinni áður og svo stútfullt af mataruppskriftum að maður verður bara mettur  af því að horfa á myndbandið. 

 Svo eru þar  nýjungar sem tilheyra nútíma jólahaldi. Hér á ég náttúrulega við jólaglæpasögu. Svona er tíðarandinn. Mamma beið alltaf um jólaleytið eftir einhverri  myndasögugetraun í Mogganum í den og þegar gestir komu þá var spjallað út í það óendanlega um lausn myndagátunnar. Ég hef ekki komist upp á lag með þessar myndagátur. Né heldur krossgátur. En nú er komin betri tíð með blóm í haga..... ég meina  blóð í haga. Núna bíð ég spennt eftir jólaglæpasögunni og nú verður það hluti af jólastemmingunni að ráða í hver framdi jólaglæpinn.

Sniðugt líka að bjóða moggabloggurum upp á að blogga þessar fréttir og taka þátt í að auglýsa upp jólablað Moggans og allan þann varning sem þar verður auglýstur. Sniðugt líka að taka fréttaskotin þannig að það þurfi ekkert að fara út úr Moggahúsinu og fréttirnar séu bara um sjálfan fjölmiðilinn. Þetta er íslensk fjölmiðlun eins og hún gerist best, þetta er svo heimilislegt og þjóðlegt. Fjölmiðlar að tala um fjölmiðla og helst um sjálfan sig. Sparar líka hellingspening að vera ekki að elta fréttir út um víðan völl.

Annars teiknaði ég þessa mynd af jólabófanum og blóði drifinni slóð hans í Inkscape. Inkscape er vektorteikniforrit sem hver sem er getur hlaðið niður ókeypis af vefnum, hér eru leiðbeiningasíða sem ég tók saman um það forrit.


mbl.is Tuttugasta Jólablað Morgunblaðsins kemur út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kanahúsin á floti

Það er alveg sárgrætilegt að sjá skemmdirnar í kanablokkunum sem sýndar voru í sjónvarpinu. Eitthvað pínlegt líka við að sjá  þessar miklu fasteignir grotna svona ofboðslega hratt niður í höndum Íslendinga. Með sama áframhaldi má víst bara rífa allt hverfið eftir veturinn. Maður getur ekki annað hugsað en hvort Íslendingar séu líka svona andvaralausir með varnir landsins - nú úr því að við höfum ekki fyrirhyggju til að verja hús fyrir frosthörkum sem þó eru algengar og fyrirsjáanlegar, hvernig í ósköpunum getum við þá planað varnir þessa lands fyrir utanaðkomandi ógnum?

Það er líka táknrænt að það var gæsla á svæðinu. Gæslan beindist hins vegar bara gagnvart mannaferðum, gagnvart því að tryggja að ekkert fólk kæmist inn á svæðið. Hvað hefði það fólk svo sem átt að gera? Sprengja upp húsin? Setjast að í mannlausum húsunum? Það sem er táknrænt við þetta er hversu lítt nösk stjórnvöld eru á að greina ógnina í umhverfinu. Helsta ógnin á Íslandi stafar ekki af fólkinu í landinu  heldur af náttúruhamförum og vetrarhörkum, í þessu tilviki voru skemmdarverkin ekki unnin af spellvirkjum sem sprengdu upp hús heldur af vatni sem fraus í pípum og sprengdi upp leiðslur.

Ég hef reynt að fylgjast með hvaða plön eða hugmyndir eru um notkun þessara eigna en ég hef ekki séð neitt ennþá. Mér finnst það furðulegt, það eru margir mánuðir síðan ljóst var að herinn færi og af hverju hafa engar hugmyndir verið ræddar? Eða hef ég misst af einhverju? Eina sem ég hef tekið eftir er að það virðist tregða við að setja þessar eignir í sölu, það er að hluta til eðlilegt vegna þess að það þarf náttúrulega að skipuleggja svæðið sem íslenskt íbúðarsvæði. En ég hef grun um að það séu hagsmunir iðnaðarmanna og íbúðareigenda sérstaklega á Suðurnesjum sem ráða því að ekki er í umræðunni að selja þessar eignir á almennum markaði. Það er hræðsla og hún er alveg skiljanleg við að ef svona margar íbúðir koma í einu inn á almennan markað á þessu svæði annað hvort í sölu eða leigu þá muni húsnæðismarkaður hrynja á svæðinu og byggingariðnaðurinn stoppa. Það segir sig sjálft að ef framboð eykst verulega á ódýru húsnæði til kaups eða leigu þá lækkar bæði húsnæðisverð og húsaleiga.

En það er ekki forsvaranlegt að gera ekki neitt við þessar eignir. Það getur ekki verið eðlilegt að taka ekki ákvörðun út frá skynsemissjónarmiði vegna þess að það stangast á við segjum byggingariðnaðinn á Suðurnesjum. Það er skrýtið að í landi þar sem heilu fiskiþorpin eru í auðn vegna þess að það má selja kvótann burt úr plássunum að ekki megi selja fáeinar kanablokkir með hraði. 

Annars er ég hrædd um að ákvarðanir um nýtingu þessarra eigna verði teknar á miðstýrðan hátt af fámennum hóp og án þess að  leitað sé eftir hugmyndum almennings. Það er of mikil hefð fyrir slíkum vinnubrögðum í jafn opinberri stjórnsýslu sem og viðskiptalífi. Það eru hins vegar ekki sniðugustu vinnubrögðin og ég vildi óska þess að við svona verkefni þá væri reynt að fara einhverjar aðrar leiðir. 

Hér er annars mínar hugmyndir um nýtingu þessarra íbúðarhúsa sem ég myndi setja inn í hugmyndabanka ef þess væri leitað

* Best að  koma sem mestu úr ríkisumsjá sem fyrst

* Selja almenningi stóran hluta þessarra eigna en gera það í áföngum og binda ákveðnum skilyrðum. Gera sem fyrst söluáætlun. 

* Hafa í huga við söluna að  selja eignirnar þannig að það komi sem minnst við húsnæðismarkað á Suðurnesjum. 

* Ein leið til að losna við þessar íbúðir eða hluta þeirra án þess að hafa verulega áhrif á íbúðarmarkaðinn er að bjóða fólki á landsbyggðinni eða sveitafélögum eða aðilum þar  þær til kaups á mjög lágu verði sem aukahúsnæði (alveg eins og fólk í þéttbýli kaupir sumarhús út á landi þar sem það er nokkrar nætur á ári þá getur fólk á landsbyggðinni viljað eiga aðsetur á höfuðborgarsvæðinu fyrir ferðir sínar til borgarinnar). Það væri reyndar snilldarlausn til lengri tíma að fá sem flesta á landbyggðinni, sérstaklega frá svæðum sem núna er flogið til í innanlandsflugi til að eiga íbúð í Reykjanesbæ svona upp á hugsanlegan flutning flugvallarins seinna meir.  Sennilega er bara sniðugast að gefa þessar íbúðir til einhverra aðila með takmörkunum um afnot t.d. að ekki megi leigja þær á almennum markaði.

* Sennilega er bara sniðugast að gefa þessar íbúðir  eða afnotarétt af þeim amk þann hluta þeirra sem hugsanlega verður rifinn til fjölskyldna sem eru í húsnæðisþröng sem gætu notað þær þangað til að því kemur. Það verður sennilega seint eftirspurn eftir þessu húsnæði til varanlegrar búsetu meðal Íslendinga og það er líklegt að það verði fyrst og fremst fólk erlendis frá sem flyst til Íslands sem hefur áhuga á búsetu þarna rétt eftir að það kemur til landsins. En það yrði nú eins konar endurtekning á braggahverfunum. Það er kannski mest ábyrgð stjórnvalda að reyna að passa að þetta hverfi verði ekki fátækrahverfi með niðurníddum húsum. En það er kannski ennþá verra að hverfið verði bara hverfi með mannlausum niðurníddum húsum.


mbl.is Baðst afsökunar á því að skemmdir hefðu orðið á byggingum á Keflavíkurflugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband