Kanahúsin á floti

Það er alveg sárgrætilegt að sjá skemmdirnar í kanablokkunum sem sýndar voru í sjónvarpinu. Eitthvað pínlegt líka við að sjá  þessar miklu fasteignir grotna svona ofboðslega hratt niður í höndum Íslendinga. Með sama áframhaldi má víst bara rífa allt hverfið eftir veturinn. Maður getur ekki annað hugsað en hvort Íslendingar séu líka svona andvaralausir með varnir landsins - nú úr því að við höfum ekki fyrirhyggju til að verja hús fyrir frosthörkum sem þó eru algengar og fyrirsjáanlegar, hvernig í ósköpunum getum við þá planað varnir þessa lands fyrir utanaðkomandi ógnum?

Það er líka táknrænt að það var gæsla á svæðinu. Gæslan beindist hins vegar bara gagnvart mannaferðum, gagnvart því að tryggja að ekkert fólk kæmist inn á svæðið. Hvað hefði það fólk svo sem átt að gera? Sprengja upp húsin? Setjast að í mannlausum húsunum? Það sem er táknrænt við þetta er hversu lítt nösk stjórnvöld eru á að greina ógnina í umhverfinu. Helsta ógnin á Íslandi stafar ekki af fólkinu í landinu  heldur af náttúruhamförum og vetrarhörkum, í þessu tilviki voru skemmdarverkin ekki unnin af spellvirkjum sem sprengdu upp hús heldur af vatni sem fraus í pípum og sprengdi upp leiðslur.

Ég hef reynt að fylgjast með hvaða plön eða hugmyndir eru um notkun þessara eigna en ég hef ekki séð neitt ennþá. Mér finnst það furðulegt, það eru margir mánuðir síðan ljóst var að herinn færi og af hverju hafa engar hugmyndir verið ræddar? Eða hef ég misst af einhverju? Eina sem ég hef tekið eftir er að það virðist tregða við að setja þessar eignir í sölu, það er að hluta til eðlilegt vegna þess að það þarf náttúrulega að skipuleggja svæðið sem íslenskt íbúðarsvæði. En ég hef grun um að það séu hagsmunir iðnaðarmanna og íbúðareigenda sérstaklega á Suðurnesjum sem ráða því að ekki er í umræðunni að selja þessar eignir á almennum markaði. Það er hræðsla og hún er alveg skiljanleg við að ef svona margar íbúðir koma í einu inn á almennan markað á þessu svæði annað hvort í sölu eða leigu þá muni húsnæðismarkaður hrynja á svæðinu og byggingariðnaðurinn stoppa. Það segir sig sjálft að ef framboð eykst verulega á ódýru húsnæði til kaups eða leigu þá lækkar bæði húsnæðisverð og húsaleiga.

En það er ekki forsvaranlegt að gera ekki neitt við þessar eignir. Það getur ekki verið eðlilegt að taka ekki ákvörðun út frá skynsemissjónarmiði vegna þess að það stangast á við segjum byggingariðnaðinn á Suðurnesjum. Það er skrýtið að í landi þar sem heilu fiskiþorpin eru í auðn vegna þess að það má selja kvótann burt úr plássunum að ekki megi selja fáeinar kanablokkir með hraði. 

Annars er ég hrædd um að ákvarðanir um nýtingu þessarra eigna verði teknar á miðstýrðan hátt af fámennum hóp og án þess að  leitað sé eftir hugmyndum almennings. Það er of mikil hefð fyrir slíkum vinnubrögðum í jafn opinberri stjórnsýslu sem og viðskiptalífi. Það eru hins vegar ekki sniðugustu vinnubrögðin og ég vildi óska þess að við svona verkefni þá væri reynt að fara einhverjar aðrar leiðir. 

Hér er annars mínar hugmyndir um nýtingu þessarra íbúðarhúsa sem ég myndi setja inn í hugmyndabanka ef þess væri leitað

* Best að  koma sem mestu úr ríkisumsjá sem fyrst

* Selja almenningi stóran hluta þessarra eigna en gera það í áföngum og binda ákveðnum skilyrðum. Gera sem fyrst söluáætlun. 

* Hafa í huga við söluna að  selja eignirnar þannig að það komi sem minnst við húsnæðismarkað á Suðurnesjum. 

* Ein leið til að losna við þessar íbúðir eða hluta þeirra án þess að hafa verulega áhrif á íbúðarmarkaðinn er að bjóða fólki á landsbyggðinni eða sveitafélögum eða aðilum þar  þær til kaups á mjög lágu verði sem aukahúsnæði (alveg eins og fólk í þéttbýli kaupir sumarhús út á landi þar sem það er nokkrar nætur á ári þá getur fólk á landsbyggðinni viljað eiga aðsetur á höfuðborgarsvæðinu fyrir ferðir sínar til borgarinnar). Það væri reyndar snilldarlausn til lengri tíma að fá sem flesta á landbyggðinni, sérstaklega frá svæðum sem núna er flogið til í innanlandsflugi til að eiga íbúð í Reykjanesbæ svona upp á hugsanlegan flutning flugvallarins seinna meir.  Sennilega er bara sniðugast að gefa þessar íbúðir til einhverra aðila með takmörkunum um afnot t.d. að ekki megi leigja þær á almennum markaði.

* Sennilega er bara sniðugast að gefa þessar íbúðir  eða afnotarétt af þeim amk þann hluta þeirra sem hugsanlega verður rifinn til fjölskyldna sem eru í húsnæðisþröng sem gætu notað þær þangað til að því kemur. Það verður sennilega seint eftirspurn eftir þessu húsnæði til varanlegrar búsetu meðal Íslendinga og það er líklegt að það verði fyrst og fremst fólk erlendis frá sem flyst til Íslands sem hefur áhuga á búsetu þarna rétt eftir að það kemur til landsins. En það yrði nú eins konar endurtekning á braggahverfunum. Það er kannski mest ábyrgð stjórnvalda að reyna að passa að þetta hverfi verði ekki fátækrahverfi með niðurníddum húsum. En það er kannski ennþá verra að hverfið verði bara hverfi með mannlausum niðurníddum húsum.


mbl.is Baðst afsökunar á því að skemmdir hefðu orðið á byggingum á Keflavíkurflugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Rugl og aftur rugl.halda Islendingar vetur i fyrsta sinn.

orn snorrason (IP-tala skráð) 22.11.2006 kl. 04:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband