Hvað hefði Jónas verið að bauka í dag?

Núna um helgina er hyllingarhátíð Jónasanna, háskólarnir hylla þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson með vandaðri dagskrá á Jónasarstefnu, ég var að skrá mig í Þingvallaferðina á morgun. Það er fínt að fara einu sinni á ári á Þingvöll og strengja sín heit og gaman að gera það undir góðri leiðsögn. 

Fyrsta erindið á Jónasarhátíðinni í dag er erindið "Var Jónas vinstri-grænn?"  Ég brosti við þegar ég sá þennan titil, hann endurspeglar þrá mannanna til að heimfæra allt upp á sinn samtíma. En ég fór að hugsa... hvað hefði lærdómsmaður eins og Jónas haft áhuga á í dag, hann sem var boðberi nýrra tíma og nýrrar hugsunar á svo mörgum sviðum, hann var ekki  eingöngu skáld heldur var hann náttúruvísindamaður og leitandi sál.  Mörg af verkum Jónasar eru byggð á hugmyndum annarra skálda og fræðimanna, sérstaklega danskra og þýskra.

Ég ætla að nota helgina til að lesa aftur ævisögu Jónasar eftir Pál Valsson og lesa vefinn um Jónas og ef ég hef tíma þá ætla ég að bæta í wikipediagreinina um Jónas eða jafnvel skrifa sérstaka wikibók um Jónas. Ég hugsa að Jónas hefði verið hrifinn af wikimedia verkefnum. Hann hefði örugglega gert það sama og ég reyni að gera, hann hefði sett inn greinar á íslensku sem lýsa íslenskri náttúru. Ég hef t.d. sett inn greinar á íslensku wikipedia  um gabbró og surtarbrand og  ofauðgun og eiturþörunga og fiska eins og ála og loðnu og lúðu.

Jónas hefði ekkert verið að setja það fyrir sig að framlag mitt og annarra er skoplítið þegar horft er til þess hve mikið verk er óunnið, hversu mörgum náttúrufyrirbærum og verum þarf að lýsa og tengja hvert við annað.  Var það ekki hann sem kvað:

Bera bý
bagga skoplítinn
hvert að húsi heim.

Ég held að Jónas hefði alveg haft smekk fyrir verkfæri eins og wikipedia til Íslandslýsingar, svona höfundarlausum samvinnuskrifum en hann hefði kannski ekki verið neitt sérstaklega þekktur í dag og ekki verið hampað og  upphafinn af samfélagi nútímans - samfélagi  höfundanna og höfundarétthafanna. En andi Jónasar og þeirra sem höfðu áhrif á hann lýsir ennþá upp sál okkar. Mér finnst skemmtilegra að lesa ljóðið hans um alheimsvíðáttuna heldur en reikna út hvort ég hafi kolefnisjafnað nógu miklu í dag.  

Alheimsvíðáttan

(Hugmyndin er eftir Schiller)

Eg er sá geisli,
er guðs hönd skapanda
fyrr úr ginnunga
gapi stökkti;
flýg eg á vinda
vængjum yfir
háar leiðir
himinljósa.

Flýta vil eg ferðum,
fara vil eg þangað,
öldur sem alheims
á eiði brotna,
akkeri varpa
fyrir auðri strönd
að hinum mikla
merkisteini
skapaðra hluta
við skaut alhimins.

Sá eg í ungum
æskublóma
stjörnur úr himin-
straumum rísa,
þúsund alda
að þreyta skeið
heiðfagran gegnum
himinbláma.

Sá eg þær blika
á baki mér,
er eg til heima
hafnar þreytti;
ókyrrt auga
sást allt um kring;
stóð eg þá í geimi
stjörnulausum.

Flýta vil eg ferðum,
fara vil eg þangað,
Ekkert sem ríkir
og Óskapnaður;
leið vil eg þreyta
ljóss vængjum á,
hraustum huga
til hafnar stýra.

Gránar í geimi,
geysa ég um himin
þokuþungaðan
þjótandi fram;
dunar mér á baki
dökknaðra sóla
flugniður allra,
sem fossa deyjandi.

Kemur þá óðfluga
um auðan veg
mér í móti
mynd farandi:
"bíddu flugmóður
ferðamaður!
heyrðu! hermdu mér,
hvurt á að leita?"

""Vegur minn liggur
til veralda þinna;
flug vil eg þreyta
á fjarlæga strönd,
að hinum mikla
merkisteini
skapaðra hluta
við skaut alhimins.""

"Hættu, Hættu!
um himingeima
ónýtisferð
þú áfram heldur;
vittu að fyrir
framan þig er
Ómælisundur
og endaleysa."

""Hættu, Hættu!
þú sem hér kemur,
ónýtisferð
þú áfram heldur;
belja mér á baki
bláir straumar,
eilífðar ógrynni
og endaleysa.""

Arnfleygur hugur!
hættu nú sveimi;
sárþreytta vængi
síga láttu niður;
skáldhraður skipstjóri,
sköpunarmagn!
fleini farmóður
flýttu hér úr stafni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband