Vodkasala Íslands

reyka-vodka8-imarkEr viðeigandi að forseti Íslands auglýsi vodka? Ég er döpur yfir því að engum virðist finnast athugavert að  framlag til ferðamála og landkynningar á Íslandi fari í að auglýsa  vodka og opinberir aðilar á sviði ferðamála skuli leggja blessun sína yfir og styðja að erlend fyrirtæki í vafasamri framleiðslu setji hér upp átöppunarverksmiðju til að geta notað Ísland í markaðssetningu sinni.  Vodka er eimað áfengi og frekar einsleit vara og er skólabókardæmi um hvernig hægt er búa til einhverja ímynd utan um ekki neitt. þetta vodka sem er tappað hér á íslandi er markaðsett sem séríslensk afurð sem hafi í sér eitthvað af hreinleika og ósnortinni náttúru Íslands, það er notað orðalag eins og  "filtered through lava rock collected from local volcano fields in Iceland".

Vodka er líka hættulegt eiturlyf sem er ásamt öðrum brenndum drykkjum stór áhrifavaldur í mannlegri eymd víða um lönd. Það má sjá dæmi um hvernig þetta vodka er markaðsett með aðstoð Íslands í þessari Glærusýningu sem er frá ráðstefnu sem Ímark hélt á markaðsdeginum 2007

Ég benti  í síðasta bloggi á hvernig markaðsátakið Iceland Naturally virðist vera á glapstigum með því að spyrða markaðssetningu á íslenskum vörum og Íslandi við áfengi og ákveðna vodkategund. Reyndar virðist mér núna vefsvæði þessa markaðsátaks vera undirlagt af vodkaauglýsingum og kynningum á áfengi. Sem dæmi má nefna að núna er á forsíðunni kynnt eitthvað martini samkvæmi eins og það sé það helsta sem er á döfinni varðandi Ísland: "From Iceland with Love” Cocktail Party - featuring Icelandic vodka, fish, cheese, skyr and products. The Martini Society July 7"

Finnst ferðamálayfirvöldum á Íslandi og ferðamannaiðnaðinum á Íslandi þetta virkilega vera góð markaðssetning á Íslandi? Er svona markaðsetning með velþóknun opinberra aðila?

reyka-vodka5 Eina sem ég fann á Netinu um Iceland Naturally átakið frá opinberum aðilum m.a. Sturlu Böðvarssyni fyrrum samgönguráðherra og frá Birni Inga Hrafnssyni fyrrum aðstoðarmanni forsætisráðherra og utanríkisráðherra um Iceland Naturally  var afar jákvætt. Björn Ingi skrifar  2005 sjá hér hérna afar lofsamlegt blogg um Iceland Naturally. Hann segir þar:

 "Á fimmtudag skildi ég við föruneyti forsætisráðherra og hélt á stjórnarfund í Iceland Naturally, landkynningarverkefni okkar Íslendinga í Norður Ameríku. ... Iceland Naturally er að mínu mati einstaklega gott dæmi um vel heppnað verkefni, þar sem tiltölulega takmarkaðir fjármunir nýtast til hins ítrasta. Lykilorðið hefur verið að nýta auglýsingafé vel, en huga ennfremur að kynningu og umfjöllun með þeim árangri að ótölulegur fjöldi greina um Ísland og íslenskar vörur hefur birst í stærstu fjölmiðlum Bandaríkjanna á undanförnum árum."

 Ég veit að forseti Íslands kynnir oft íslenskar vörur og greiðir götu íslenskra fyrirtækja í heimsóknum sínum erlendis. Munum við sjá forsetann í framtíðinni auglýsa vodka sem tappað er á flöskur á Íslandi þrátt fyrir að það sé skaðlegt eiturlyf og bannað að auglýsa samkvæmt íslenskri áfengislöggjöf? Ég er nokkuð viss um að Ólafur Ragnar Grímsson lætur ekki bendla sig við áfengisauglýsingar eða óhollan lífsstíl, hann hefur verið talsmaður virðingar fyrir náttúru og hófsemi í lífsháttum. Ég vona líka að Björn Ingi Hrafnsson oddviti okkar framsóknarmanna í borgarstjórn Reykjavíkur hafi ekki verið að hrósa vodka og martini auglýsingum hjá Iceland Naturally í bloggfærslunni sem ég vitna í. 

reyka-vodka6

 Allir sem auglýsa vörur bera ábyrgð. Í þessu tilviki er verið að nota ímynd Íslands sem hreina og ómengaða og villta náttúru til að auglýsa upp hættulegt og mengandi eiturlyf. Til langs tíma þá eyðileggur þetta ímynd Íslands. Það er einnig verið að auglýsa vöru sem er ekki íslensk og sennilega er framleiðslan á Íslandi ef hún er einhver eingöngu gerviframleiðsla - einhvers konar umskipun og átöppun og vatnsblöndun - eingöngu tilkomin til að geta selt vöruna sem íslenska vöru. það munu í framtíðinni koma mörg svona tilvik, ekki síst með auknum siglingum framhjá Íslandi. Er ekki ástæða til að spá í hvað er íslensk vara?

Af hverju er 66 gráður norður íslensk vara? Mér vitanlega fer öll framleiðslan fram núna erlendis í einhverju asíulandi þar sem fólk fær lægri laun en hérna. Er það út af því að hönnunin er ennþá íslensk? Er eitthvað annað í 66 gráðu norður fatnaðinum íslenskt?

Er þetta vodka íslenskt af því að hér var sett upp átöppun til að gera vöruna íslenska? 

(skjámynd af forseta Íslands er frá forsíðu imark.is og af vodkaauglýsingu frá glærum á markaðsdegi imark.is) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta er fyrir neðan allar hellur. Og sýnir kannski líka vel þá áfengisdýrkun sem við erum haldin. Það þykir bara sjálfsagt mál að logandi fyllirí og slagsmál séu á hvers konar útihátíðum en svo er það stórmál þegar einhver mælist með margra daga gamalt ólöglegt fíkniefni. Tvískinningurinn er óskaplegur. En ennþá er áfengis lang skaðlegasta fíkniefnið.

Sigurður Þór Guðjónsson, 28.6.2007 kl. 11:03

2 Smámynd: halkatla

takk sigurður, alltaf þarft þú að stela orðunum af manni -

halkatla, 28.6.2007 kl. 11:37

3 identicon

Sæl Salvör,

þar sem þú vitnar í glærukynningu mína í greininni og þar sem ég starfa meðal annars fyrir Reyka vodka þá langar mig að forvitnast um þínar aðfinnslur, svo ég átti mig á hvert vandamálið á að vera, auk þess sem ég geri smá athugasemdir við ákveðnar staðreyndir eins og þær eru settar fram í greininni.

1. Í fyrsta lagi þá er Reyka vodka ekki einungis tappað á flöskur hérlendis heldur einmitt eina sterka áfengið sem framleitt er á Íslandi. Reyka vodka er því íslenskara en brennivín, þar sem brennivín er aðeins blandað með vatni og tappað á flöskur hérlendis.

2. Starfsfólkinu í Borgarnesi þykja það áreiðanlega tíðindi að þau starfi við "vafasama framleiðslu". Má ekki framleiða áfengi, bara drekka það? Eru borgnesku starfsmennirnir þá orðnir vafasamt fólk fyrst framleiðslan er vafasöm? Hvað er það annars sem er vafasamt við að framleiða vöru sem er lögleg um mestallan heim?

3. William Grant & Sons er 130 ára skoskt fjölskyldufyrirtæki sem framleiðir Reyka vodka hér á landi. Mega þeir ekki framleiða islenska vöru vegna þess að þeir eru skoskir?

4. Þykja þér fyrirtæki þeirra stórlaxa í íslensku viðskiptalífi sem persónulega eru skráðir til heimilis á Cayman, Ermasundi eða alls staðar annars staðar en á Íslandi vera íslenskari fyrirtæki en Reyka vodka? Er þetta ný tegund af rasisma eða bara þessi gamli góði, endurhannaður?

5. Hið opinbera hefur milljarða króna í tekjur af sölu áfengis til Íslendinga. Ég sé ekki að þú sért að kvarta yfir því. Verður þetta fyrst vandamál þegar áfengi er selt útlendingum?

6. " Vodka er hættulegt eiturlyf" og "vodka er hættulegt og mengandi eiturlyf" segir þú. Ég get eiginlega hvorki svarað né spurt um svona fullyrðingu. Þér er frjálst að hafa þína skoðun á áfengi en mér þykir slæmt að þú látir það allt bitna á einni vodkategund sem ekki er orðinn tveggja ára gömul. Ég held að bæði vín og sterkt áfengi sé frekar gamalt menningarfyrirbæri, en er ekki þessi umræða um skaðsemi áfengis aðeins stærri en svo að hún rúmist í athugasemdum við þátttöku Reyka vodka í Iceland Naturally?

7. Er niðurstaða þín sem sagt sú að íslenska ríkið má græða millljarða á að selja Íslendingum erlent áfengi, en ef þeir taka minnsta þátt í að selja útelndingum íslenskt áfengi þá verður þú "döpur"?

kveðja,

Fjalar Sigurðarson

fjalar@mbk.is

Fjalar Sigurðarson (IP-tala skráð) 28.6.2007 kl. 15:44

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Takk fyrir svarið Fjalar. Ég reyni að bregðast við því í sömu liðum og þú hefur.

1. Það getur verið að það sé einhver framleiðsla hérna en ég efast um að sú framleiðsla væri hérna ef það fylgdi ekki að með að þá er  hægt að markaðssetja þetta sem íslenska vöru og búa til einhverja sérstöðu í tengslum við það. 

2. Ég veit ekki hve framleiðslan er mikil í Borgarnesi en það breytir ekki því viðhorfi mínu að framleiðsla á brenndum áfengjum drykkjum er eiturefnaiðja og ég myndi gjarnan vilja að þannig efni væru bönnuð og lítt aðgengileg fólki og sett í flokk með öðrum hættulegum vímu- og fíkniefnum. 

3. Erlenda fyrirtækið er gamalt en það er álitamál hversu íslensk varan er og reyndar hvenær vara verður íslensk. það á ekki bara við um þessa vöru, það er mikil umræða núna um samninga m.a. við kínverja og hvort vörur framleiddar þar verði íslenskar ef þær hafa viðkomu hérna. það er ekkert að því að velta upp umræðu um hvenær vörur eru íslenskar og hvað er eiginlega á bak við að segja að vara sé íslensk.

4. Mér þykja ekki fyrirtæki sem skráð eru undir hentifána í ríkjum sem bjóða fjármagnseigendum skálkaskjól vera íslensk.  Mér finnst miður ef þau fyrirtæki njóta einhverrar viðskiptavildar vegna einhvers óljóss íslensks uppruna.

5.  Þú segir mig ekki kvarta yfir áfengissölu innanlands og spyrð hvort þetta verði bara vandamál ef áfengi er selt úr landi. Því vil ég svara þannig að ég hef marg, margoft skrifað blogg um áfengisneyslu og áfengisauglýsingar hér innanlands og þá sérstaklega áfengisauglýsingar á netinu og sjónvarpsrásum sem beint er til ungs fólks t.d. cult shaker auglýsingar. Þessi gagnrýni mín á umrædda vodkategund sem auglýst er sem séríslensk framleiðsla og markaðssett að mér virðist með tilstyrk íslenskra ferðamálayfirvalda er bara enn ein tilraun hjá mér til að spyrna við því sem mér finnst siðlaus og óheillavænleg þróun.

6. Ég veit að sterkt áfengi hefur fylgd mönnunum í árþúsundir. Það hafa líka ýmsir sjúkdómar sem við bæði núna kunnum að lækna eða vitum hvernig við eigum að komast hjá að veikjast af. Ég er á móti sterkum drykkjum einfaldlega af skynsemisástæðum - af sömu ástæðum og ég er á móti því að eitrað sé vísvitandi fyrir fólki með ýmsum efnablöndum og upplýsingum um skaðsemi og hættu sé haldið frá fólki. Það er þannig að það er mikið lagt í að ánetja ungt fólk vímuefnum (áfengi og ýmsum ólöglegum vímuefnum) og lífstíll vímu og fíknar er gylltur en lítið (amk á netmiðlum) er lagt í að uppfræða um skaðsemi m.a. er sennilega fáum kunnugt um að ein fremur algeng orsök greindarskerðingar hjá börnum er "fetal alcohol syndrome" vegna drykkju móður á meðgöngu.

7. Við búum í frjálshyggjusamfélagi. Það er ekkert að því að stuðla að sem mestu frelsi á sem flestum sviðum og að einhverjir besserwisserar hafi ekki vald til að ákveða einir hvað er hollt og gott fyrir mig og þig.  En frelsi án ábyrgðar og frelsi þar sem bara sá sem hefur rödd sem selur vöru og ræður yfir stóru markaðskerfi og hefur aðgang að stjórnsýslu. Ég er að tjá mig sem ábyrgur skynsamur íslenskur borgari sem lítur svo á að það sé ekki gott hlutskipti fyrir Íslendinga að eitra fyrir ungu fólki í öðrum löndum og það sé ekki gott að stunda framleiðslu og sölu á sterkjum drykkjum.  Vonandi mun í framtíðinni einhvern tíma slík efni vera bönnuð á sama hátt og það er bannað að nota asbest í einangrun á húsum. Vonandi þurfa ekki allt of margir að örkumlast og deyja og missa vitið út af áfengisneyslu áður.

Ég held ekki að viðhorf mín til neyslu áfengra drykkja séu í samhljómi við viðhorf íslendinga almennt. Það er einmitt þess vegna sem ég kýs að tjá mig um þetta á blogginu og það verður bara að hafa það þó einhverjum þyki þetta öfgar.

Sennilega hefur öll barátta gegn notkun hættulegra eiturefna verið talin öfgar og gagnrýnd amk ef miklir hagsmunir eru í húfi að viðhalda óbreyttu ástandi og ekki er gegnsætt hve miklum skaða eiturefnin valda. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 28.6.2007 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband